Hæstiréttur íslands

Mál nr. 789/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Súsanna Björg Fróðadóttir fulltrúi)
gegn
X (Daníel Reynisson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. nóvember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að beitt verði vægari úrræðum, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um brot sem geta varðað fangelsisrefsingu samkvæmt 209. gr. og 210. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt því og þar sem fullnægt er skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, Adam Kamil Pilecki, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2016 klukkan 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. nóvember 2016.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að kærða, Adam Kamil Pilecki, kt. 140873-2769, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2016, kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að lögreglan á Suðurnesjum hafi nú til rannsóknar meint kynferðisbrot kærða gegn fjölda barna. Séu hin meintu brot talin hafa átt sér stað í á tímabilinu september-nóvember 2016 á nokkrum stöðum í Reykjanesbæ og einnig hafi kærði verið að áreita nokkrar stúkur á skilaboðum í gegnum Facebook. Að auki hafi kærði haldið úti síðum þar sem birtust myndir af unglingstúlkum en ef ýtt var á myndina þá hafi gróft klám komið og þannig verið að ýja að því að klámmyndin væri af stúlkunni sjálfri.

                Meðal þess sem lögregla rannsakar sé meint kynferðisleg áreitni kærða gegn fjölda allan af unglingsstúlkum á aldrinum 14-15 ára og birting á myndum af unglingsstúlkum þar sem grófar klámmyndir koma upp á skjáinn ef ýtt er á myndirnar af stúlkunum. Lögreglan hafi nú fullt í fangi með að taka á móti kærum frá foreldrum bæði í gegnum tölvupóst eða síma.

Búið sé að yfirheyra kærða einu sinni vegna málsins en stefnt sé að því að taka af honum aðra skýrslu sem allra fyrst. Hafa verði í huga umfang málsins. Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.

Rannsókn máls þessa sé enn á algeru frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé umfang meintra brota kærða en að svo stöddu liggi ekki fyrir gegn hve mörgum börnum kærði kann að hafa brotið gegn. Lögregla vinni nú að því taka á móti kærum og þarf að taka skýrslur af brotaþolum. Liggi nú fyrir að myndirnar af síðunni voru af rúmlega 80 stúlkum.  Þá liggi fyrir að yfirheyra þurfi kærða aftur vegna málsins og verður það gert við fyrsta tækifæri.

Þá telji lögregla að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á vitni og brotaþola, gangi hann laus. Meðal þess sem lögregla þurfi einnig að rannsaka sé hvort kærða skuli gert að gangast undir geðmat. Þá vinni lögregla einnig að því að undirbúa hættumat, unnið af sálfræðingi, vegna kærða. Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum a liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 sé fullnægt í þessu máli.

Auk þess telur lögreglustjóri að mikil hætta sé á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus. Sé á það bent að kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, virðist ekki eiga nein tengsl við landið. Eigi hann þannig hvorki fjölskyldu né stundi atvinnu hér. Sé skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála sé einnig fullnægt.

Þá hafi rannsókn lögreglu einnig leitt í ljós að fyrsta kæran gegn kærða hafi komið 10. október sl. Þá hafi kærði verið handtekinn og allur tölvubúnaður tekin af honum og vistaður hjá lögreglu. Kærði hafi þá verið með í fórum sínum myndir af börnum sem voru klámfengar en síðan honum var sleppt úr haldi hafi hann haldið áfram kynferðislegri áreitni gegn börnum og aukið mjög á grófleika brotanna. Lögregla telji í þessu ljósi að hætta sé fyrir hendi að kærði haldi brotum sínum gegn börnum áfram á meðan að máli hans sé ekki lokið. Af þessum sökum telji lögregla að skilyrðum c liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 sé fullnægt í þessu máli.

Lögregla telji af málavöxtum þessa máls og fyrra broti kærða að ekki sé réttlætanlegt að kærði gangi laus á meðan að vinna vegna rannsóknar málsins fari fram.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, hættu á áframhaldandi brotum kærða, a- og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála,  209. og 210 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2016  kl. 16.00.

Til vara sé þess krafist að kærða verði gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 23. desember 2016 og að á þeim tíma verði kærða gert að tilkynna sig daglega til lögreglu á lögreglustöð.

Kærði mótmælir kröfunni og krefst að henni verði hafnað. Til vara krefst hann þess að vægari úrræði verði beitt og til þrautavara að gæsluvarðhaldið verði stytt.

Með vísan til framangreinds, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Fram kom fyrir dóminum að nú þegar væru 17 mál í rannsókn og á frumstigi og enn væru að berast kærur til lögreglu vegna sambærilegra brota.

Rannsókn málsins er á frumstigi. Ætla verður lögreglu nokkuð ráðrúm til þess að rannsaka meint brot kærða en þau gögn sem þegar hefur verið aflað benda til þess að málið geti verið nokkuð umfangsmikið. Telja verður að gangi kærði laus megi ætla að hann muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Þá er kærði af erlendu bergi borinn og virðist ekki eiga nein tengsl við landið auk þess að vera ekki í vinnu. Einnig liggur fyrir að eftir að kærða var slepp lausum eftir handtöku í byrjun október sl. hélt hann brotum sínum áfram þrátt fyrir að lögreglan væri búin að hafa afskipti af honum. Telur dómarinn skilyrði a-c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 vera uppfyllt. Verður krafa lögreglustjórans því tekin til greina eins og segir í úrskurðarorði.  Í ljósi þess sem áður segir um umfang málsins þykja ekki efni til þess að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er.

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, Adam Kamil Pilecki, kt. 140873-2769, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. desember 2016, kl. 16:00.