Hæstiréttur íslands

Mál nr. 448/2003


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. júní 2004.

Nr. 448/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.

 

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur. Framburður stúlknanna var talinn trúverðugur og var X fundinn sekur um refsiverða háttsemi. Sakfelling X var þó takmarkaðri en í héraði vegna ónákvæms orðalags tiltekinna ákæruliða og eindreginnar neitunar hans. Brotin voru alvarleg. Með þeim rauf X fjölskyldutengsl og braut gegn trúnaðartrausti stúlknanna og átti hann sér ekki málsbætur. Refsing X þótti hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi. Jafnframt var X dæmdur til greiðslu miskabóta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 14. nóvember 2003 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða samkvæmt héraðsdómi en þyngingar refsingar og að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta eins og krafist er í ákæru.

Ákærði krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af öllum ákæruefnum og skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að refsing verði milduð og höfð skilorðsbundin svo og að skaðabætur verði lækkaðar.

I.

Af hálfu ákæruvalds er unað við niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða. Samkvæmt því er ákærði hér fyrir dómi borinn sökum um kynferðisbrot á heimili sínu á [...] á tímabilinu 1997 til 2001 gegn stjúpdóttur sinni, Y, sem þá var á aldrinum tíu til fjórtán ára. Í I. kafla ákæru, ákærulið 1, er ákærða gefið að sök að hafa á árunum 1997 til 1999 margoft káfað á kynfærum stúlkunnar innan klæða. Samkvæmt ákærulið 2 er ákærði sakaður um að hafa 23. desember 1998 afklætt stúlkuna að neðan, káfað á kynfærum hennar og lagst ofan á hana. Í ákærulið 3 eru sakargiftir þær, að ákærði hafi á árunum 2000 og 2001 margoft káfað á brjóstum stúlkunnar og kynfærum innan klæða. Þá er ákærði í II. kafla ákæru borinn sökum um kynferðisbrot á heimili sínu á tímabilinu frá desember 2000 til maíloka 2001 gegn dóttur sinni, Z, sem þá var tólf og þrettán ára gömul, með því að hafa í að minnsta kosti sex skipti farið höndum um kynfæri hennar innanklæða. Öll ætluð brot ákærða eru talin varða við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992.

II.

Af hálfu ákærða er því haldið fram, að ekki sé unnt að leggja til grundvallar framburð ofangreindra stúlkna til sönnunar um sekt ákærða vegna þess hvernig skýrslutöku af þeim var háttað.

Starfsmenn Barnahúss tóku skýrslur af stúlkunum kvaddir til af héraðsdómurum samkvæmt 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 18. gr. laga nr. 36/1999. Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur tók skýrslu af Z, en Ragna Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi tók skýrslu af Y. Þessir sérfræðingar fengu síðan stúlkurnar til meðferðar þannig að Vigdís hafði Y til meðferðar en Ragna hafði Z. Vigdís og Ragna komu síðan báðar fyrir héraðsdóm að beiðni ákæruvalds og er vísað til skýrslna þeirra og framburðar í forsendum héraðsdóms við mat á trúverðugleika og sönnunargildi framburðar stúlknanna. Af hálfu ákærða er því haldið fram, að þessi málsmeðferð brjóti gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Skýrslutaka samkvæmt 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 fer fram undir yfirstjórn dómara. Dómarinn stýrir skýrslutökunni, þótt kunnáttumaður sé til kallaður, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára. Það er dómskýrslan sem skiptir máli um sönnunarfærslu varðandi sekt ákærða. Barnaverndaryfirvöld vísuðu stúlkunum til meðferðar framangreindra sérfræðinga og eins og að framan greinir var það ekki sami sérfræðingur, sem spurt hafði viðkomandi stúlku við skýrslutökuna, sem fékk hana til meðferðar. Skýrslur sérfræðinga vegna greiningar og meðferðar stúlknanna fjalla um líðan þeirra og eru eitt þeirra gagna, sem litið er til, sérlega að því er varðar kröfur þeirra um skaðabætur. Gögnin eru metin heildstætt með tilliti til stöðu vitnanna.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið, að skýrslutakan yfir stúlkunum hafi brotið í bága við stjórnarskrána eða mannréttindasáttmála Evrópu.

III.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Héraðsdómur hefur metið framburð stúlknanna Y og Z trúverðugan. Dómarar Hæstaréttar hafa skoðað myndbönd þau af skýrslum stúlknanna, sem fyrir liggja í málinu, og eru ekki efni til að hnekkja því mati.

Eins og að framan greinir er ákærði í I. kafla ákæru, ákærulið 1, sakaður um að hafa margoft káfað á kynfærum Y á tímabilinu 1997 til 1999. Í skýrslutöku yfir Y í Barnahúsi getur hún sérstaklega tveggja tilvika þar sem ákærði hafi káfað á kynfærum hennar. Það hafi gerst einu sinni, er rafmagnslaust var og kalt inni og öll fjölskyldan hafi legið saman uppi í rúmi, en móðir hennar og systir farið fram og hún orðið ein eftir með ákærða. Í annað sinn hafi það verið á Þorláksmessu 1998, er þau hafi verið að „fíflast“ inni í stofu. Gegn eindreginni neitun ákærða verður ekki talið sannað að þetta hafi gerst oftar en tvisvar. Orðalag þessa ákæruliðar „margoft“  er of víðtækt og óskilgreint og ekki í samræmi við c-lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991.  Sama er að segja um ákærulið 3 þar sem ákærði er sakaður um að hafa margoft káfað á brjóstum hennar og kynfærum á árunum 2000 og 2001. Hér er um ótilgreind tilvik að ræða, sem erfitt er að finna stoð. Verður ekki talið, að ákæruvaldinu hafi tekist að færa fram nægar sannanir um þann ákærulið og verður ákærði sýknaður af honum. Að því er ákærulið 2 varðar nýtur framburður stúlkunnar stuðnings af framburði vinkonu hennar, sem hún sagði frá háttsemi ákærða tveimur árum áður en mál þetta kom upp.  Er fallist á niðurstöðu héraðsdóms um þennan ákærulið.

Í II. kafla ákæru er ákærði sakaður um að hafa í að minnsta kosti sex skipti farið höndum um kynfæri Z. Í skýrslutöku af henni í Barnahúsi nefnir hún tvö tilvik þar sem þetta hafi gerst. Annað skiptið hafi verið, þegar ákærði kom heim drukkinn af balli, að því er hún taldi. Hélt hún, að það hefði verið í desember 2000 en var þó ekki viss um það. Hitt skiptið hafi verið þegar hann kom í herbergið hennar þar sem hún var að semja dans. Z var ítrekað spurð hvað þetta hefði gerst oft en hún mundi það ekki. Að lokum giskaði hún á, að þetta gæti ef til vill hafa verið 7 sinnum, en hún væri alls ekki viss. Lýsing kennara á því, þegar Z sagði henni frá atferli ákærða, er framburði hennar til styrktar. Gegn eindreginni neitun ákærða er þó varhugavert að telja sannað, að þetta hafi gerst oftar en tvisvar.

IV.

Eins og segir í héraðsdómi eru brot þau, sem ákærði er sakfelldur fyrir alvarleg. Með þeim rauf hann fjölskyldutengsl og braut gegn trúnaðartrausti stúlknanna og á hann sér ekki málsbætur. Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu um takmarkaðri sakfellingu en í héraðsdómi verður ekki hjá því komist að milda refsingu hans frá því, sem þar var dæmt. Þykir refsingin hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi, en engin efni eru til að skilorðsbinda hana.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lög ný vottorð sálfræðinga um líðan stúlknanna þar sem fram kemur, að þær búi enn við ýmis einkenni áfallaröskunar vegna brota ákærða. Eru bætur hæfilega ákveðnar í héraðsdómi með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði greiði Y 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2003 til greiðsludags, og Z 400.000 krónur með sömu dráttarvöxtum frá 3. nóvember 2002 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 30. október 2003.

Mál þetta, sem var dómtekið 15. september sl., höfðaði ríkissaksóknari 8. maí 2003 með ákæru á hendur X.

„fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni og dóttur á árunum 1995 til 2001, á heimili ákærða á [...], sem hér greinir:

I

Brot gegn Y fæddri árið 1987:

1. Með því að hafa á árunum 1995-1999 á heimili þeirra að [...] margoft káfað á kynfærum stúlkunnar innan klæða.

2. Með því að hafa 23. desember 1998 á sama stað og í 1. tölulið greinir afklætt stúlkuna að neðan, káfað á brjóstum hennar og kynfærum, sett fingur inn í leggöng hennar og lagst ofan á hana.

3. Með því að hafa á árunum 2000 og 2001 á heimili þeirra að [...] margoft káfað á brjóstum hennar og kynfærum innan klæða.

Teljast brot skv. 1. og 3. tl. varða við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992 og 2. mgr. 202. gr. alm. hgl., sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, en brot skv. 2. tl. við 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. alm. hgl., sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.

II

Brot gegn Z, fæddri árið 1988.

1. Með því að hafa frá því í desembermánuði 2000 á heimili ákærða að [...], í eitt skipti stungið fingri upp í leggöng hennar.

2. Á tímabilinu desember 2000 til maíloka 2001, á sama stað og í 1. tl. greinir, í að minnsta kosti sex skipti farið höndum um kynfæri hennar innanklæða.

Telst brot skv. 1. tl. varða við 1. mgr. 200. gr. alm.hgl. með áorðnum breytingum og 1. mgr. 202. gr. alm. hgl., sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003, en brot skv. 2. tl. við 2. mgr. 200. gr. alm. hgl. með áorðnum breytingum og 2. mgr. 202. gr. alm. hgl., sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakröfur:

1. Af hálfu Y er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000 auk dráttarvaxta frá 30.10.2002 til greiðsludags og kostnað vegna lögmannsaðstoðar auk virðisaukaskatts.

2. Af hálfu Z er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. 7. 2001 til greiðsludags og lögmannskostnað auk virðisaukaskatts.“

Ákærði krefst aðallega sýknu og frávísunar bótakrafna, en til vara að verða dæmdur til vægustu refsingar sem lög heimila og að bætur verði dæmdar verulega lægri en krafist er.

I.

Z greindi kennara sínum, A, frá því 6. júní 2002 að ákærði hefði misnotað sig. 

A lýsti atvikum að þessu svo hér fyrir dómi að vorið 2002 hafi Z, sem þá var að ljúka 8. bekk grunnskóla, virst vera í nokkru reiðileysi.  Móðir hennar hafi verið óreglusöm og sjálf hafi hún verið farin að drekka.  Þannig hafi frést frá útideild að hún hefði sést ölvuð daginn fyrir skólaslit.  Aðstoðar­skóla­stjóri hafi ákveðið að ræða við hana og innt hana eftir drykkju hennar.  Hún hafi verið bæld og legið mikið á hjarta.  Aðstoðarskólastjórinn hafi beðið hana að nefna kennara sem hún treysti sér til að ræða við og hafi hún þá nefnt sig og hún verið kölluð til.  Hún hafi vart verið komin inn á skrifstofu til Z, er hún hafi brostið í grát og sagt: „Mamma mín er alkólhólisti og ég var misnotuð.“  A segir að Z hafi sagt sér að faðir sinn hefði haldið sér, reynt að kyssa sig og fært hendur niður að kynfærum sínum.   Framburður Z fyrir lögreglu 14. júní 2002 um að Z hafi sagt henni að faðir hennar hefði þuklað sig innan klæða, bæði brjóst og kynfæri, var borinn undir hana.  Kvaðst hún telja að þarna hafi hún haft rétt eftir Z.

Amma Z, B, skýrir svo frá að þennan dag hafi Z ekki komið heim úr skóla.  Hún hafi hringt í hana og hún þá verið hágrátandi eftir samtal við kennarann.  Fram hafi komið að henni hefði verið gert eitthvað og að lokum hafi hún sagt sér að það hefði verið ákærði.  Hún hafi ekki lýst háttsemi hans í smáatriðum fyrir sér.

Daginn eftir fór Z ásamt A á fund C, yfirsálfræðings hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu [...] og skýrði henni frá.  C vísaði málinu til lögreglunnar í [...] samdægurs.

Z var yfirheyrð fyrir Héraðsdómi Reykjaness 1. júlí 2002.  Skýrslan var gefin í Barnahúsi.  Myndbandsupptaka af skýrslutökunni var sýnd við aðalmeðferð málsins og endurrit skýrslunnar liggur frammi í málinu.

Z skýrði svo frá að hún hefði haustið 2000 fengið að flytja til [...] til ákærða og dvalið þar og gengið í skólann þar þann vetur.  Síðan sagði hún orðrétt: „Og hérna, svo var einu sinni... pabbi var að koma af balli eða eitthvað svoleiðis og hann var fullur, einu sinni þegar hann var heima. Við vorum heima og Þ, litla systir mín, hún er held ég 10 ára minnir mig, hún sat frammi, þú veist, það er herbergi hérna og hérna er svona frammi skrifborð og hún sat þar.  Svo var ég að labba fram hjá og hann lá uppi í rúminu sínu og hann sagði, hérna: „Z, komdu aðeins hérna og knúsaðu mig.“ Og ég fór og knúsaði hann. Og hérna, svo hélt hann mér eitthvað.. og hann ætlaði að... og hann hélt mér bara og ætlaði að fara niður inn um buxurnar mínar ... og gerði það svo. /---/ Og svo þarna sagði ég: „Ekki,“ eða eitthvað svoleiðis og þá hélt hann mér alltaf fast ... hann er svo sterk ... og ég reyndi að losa mig en hann hélt mér bara ennþá.   Og svo sleppti hann og þá fór ég fram og fór bara inn í herbergi.  Og svo kom hann alltaf aftur ef að við vorum ein heima eða eitthvað svoleiðis.  Þá var ég kannski inn í herbergi að ..., þú veist, ég var alltaf að dansa, ... ég var að búa til dans eða eitthvað.  Og þá kannski kom hann og hérna, hvað á ég að segja, fór inn á mig eða eitthvað svoleiðis.“

Z var spurð um fjölda tilvika.  Hún kvaðst ekki muna það, en fram kom að hún taldi þau hafa verið fleiri en fimm. Hún var beðin að lýsa síðasta tilvikinu og sagði þá: „Ég .. ég man það ekki .. ég man.. .. ég var alltaf að reyna að gleyma þessu því að ég vissi ekki að ég myndi segja einhvern tímann frá þessu.  Ég man bara þegar hann bara alltaf inn í herbergi eða eitthvað... þegar ég var að gera eitthvað.  Svo kom hann og sagði:  „Komdu og knúsaðu mig aftur,“ eða eitthvað svoleiðis og svo gerði hann það alltaf aftur. Og ég gat ekkert sagt [sambýliskonu ákærða] því hún myndi ekki trúa mér ... hún myndi ekki trúa því.“  Z var spurð nánar um fyrsta tilvikið, þ.á m. hvort ákærði hefði sett fingur upp í leggöng hennar.  Hún sagði að hann hefði ekki gert það þá, en hann hefði gert það í eitthvert skiptið, sem hún myndi ekki hvert hefði verið.  Spurð hvort hún hefði fundið til sársauka sagði hún: „Hann gerði það bara smá.  Ég sagði:  „Ekki.“ Hann sagði: „Bara pínu lengur.“ Svo sagði hann alltaf, eitthvað gerði svona:“ (bar fingur að vörum sér).

Z var beðin að lýsa einhverju öðru tilviki, en því fyrsta.  Hún svaraði þannig: „Já, ég man einu sinni.  Ég held hann hafi verið að koma úr vinnunni og hann kom inn í herbergi og ég var að búa til dans út af því að ég var alltaf að dansa.   Og svo kom hann og sagði eitthvað og bara eitthvað og við vorum að tala saman.  Og svo tók hann svona utan um mig .. hann ... hann þykist alltaf vera að knúsa mig.  Og hérna svo gerði hann það aftur það sama.  Það var í annað skipti.  Og hann sagði eitthvað:  „Þú ert bara orðin kona,“ eða eitthvað og þá var hann að meina þarna skapahárin.  Og ég sagði eitthvað: „Nei, ekki gera þetta.“ En hann sagði: „Jú, pínu meira,“ eins og hann sagði alltaf.  Og svo sleppti hann mér aftur.  Spurð hvað ákærði hefði gert í þetta skipti sagði hún: „Það var held ég... ég man ekki hvort það var þá sem hann kom með fingurinn, ég ... eða þá einhver önnur skipti.  Hann bara gerði það sama.“  Spurð hvort það sama þýddi að hann hefði snert kynfærin kinkaði hún kolli til samþykkis.

Z var spurð um ástæðu þess að hún hefði ekki skýrt frá þessu fyrr.  Hún sagði að sér fyndist þetta ömurlegt og hún hefði haldið að hún myndi aldrei tala um það, en sér hefði verið farið að líða svo illa og ekki nennt þessu lengur og sagt A frá.

Vitnið F, hálfsystir Z, kveðst hafa hitt hana í Kringl­unni í Reykjavík.  Sér hefði virst systir sín eitthvað einkennileg, en ekki áttað sig á ástæðunni. Z hafi hringt í hana að kvöldi sama dags og þá sagt henni að hún hefði gefið skýrslu um morguninn um kynferðislega misnotkun föður þeirra.  F segir sér hafa brugðið mjög, en þetta hafi ekki komið sér á óvart, því að hún hefði lent í honum sjálf.

Samkvæmt vottorði Gests Pálssonar barnalæknis og Þóru F. Fischer kven­sjúk­dóma­læknis var Z skoðuð í Barnahúsi 24. júlí 2002.  Engin áverkamerki sáust á kynfærum og meyjarhaft var eðlilegt.  Leiddi skoðunin ekkert óeðlilegt í ljós.

Vitnið Ragna Guðbrandsdóttir, félagsráðgjafi og sálfræðingur, hefur ritað skýrslu, dagsetta 8. september sl., um greiningu og meðferð Z, sem liggur frammi í málinu.  Ragna staðfesti skýrsluna hér fyrir dómi.  Í henni kemur fram að Z hafi verið í greiningu og meðferð hjá Rögnu á tímabilinu 12. ágúst 2003 til 4. september sl. og hafi þær hist 15 sinnum.  Sé Z dugleg telpa, sem komi vel fyrir og hafi verið samviskusöm að sækja viðtölin.  Hún hafi átt gott með að tjá sig og tala um líðan sína, sem hafi tengst meintri misnotkun ákærða.  Hún hafi verið mjög slegin yfir henni og haft sterka tilhneigingu til að kenna sér um hana.  Hafi hún talið sig bera ábyrgð á henni, þar sem hún hafi ákveðið að búa á heimili hans.  Hafi falist mikið niðurbrot í því fyrir hana þegar ákærði hafi brotið gegn henni og brugðist þannig trausti hennar.  Þessi reynsla hafi orðið henni enn þá þungbærari vegna þess að móðir hennar hafi ekki getað skapað henni það öryggi sem hún hafi kosið og leitað því til ákærða með þessum afleiðingum.  Hún upplifi sig nú föðurlausa og sé það sorgleg líðan fyrir unglingsstúlku.

Líðan Z hafi ekki verið góð í kjölfar þess sem hún sagði frá meintu broti.  Hún hafi greint kennara sínum frá eftir mikla innri togstreitu og óöryggi þar sem henni hafi fundist ofbeldið vera sér að kenna.  Hún hafi verið reið og sár og fundist allt ganga illa hjá sér í lífinu.  Hún hafi átt erfitt með að einbeita sér í náminu og þar af leiðandi gengið verr en hún hafi átt að venjast.  Hún sé ósátt við þetta og tali um að hún sé heimsk og ekki eins og aðrir krakkar.  Sjálfstraust hennar sé mjög lágt og líðan hennar í samræmi við það ekki góð.  Mælikvarði Becks á geðlægð hafi verið lagður fyrir Z og hún hafi sýnt sterk einkenni þunglyndis.  Hún hafi talað um daprar tilfinningar og öryggisleysi gagnvart framtíðinni.  Hún álíti sig gera fleiri mistök en aðrir og allt verði misheppnað sem hún kemur nálægt.  Sér finnist hún vera heimsk og ekki geta skilið námsefnið eins vel og jafnaldrar sínir. Hún hafi hugsað um að svipta sig lífi en segist ekki mundu gera það ef á reyndi. Hún hafi skaðað sjálfa sig með því að rispa handleggi vegna innri van­líðunar.  Hún segist gráta meira en hún hafi verið vön og finni fyrir miklum pirr­ingi og vanlíðan í tengslum við daglegar athafnir.  Þá tali hún um svefnerfiðleika og þreytu sem trufli hana við einbeitingu í skólanum.  Einnig hafi komið fram einkenni áfallaröskunar hjá Z.  Hún þjáist af endur­upplifunum þar sem minningar tengdar meintu ofbeldi ákærða komi fram.  Hún segist muna eftir lykt af honum, sem sér hafi þótt mjög vond og að hann hafi alltaf viljað vera að faðma hana og kyssa.  Þessar hugsanir komi án þess að hún geti stöðvað þær.  Þá hafi sér fundist sárt hvernig ákærði hafi talað niður til sín eins og hún skildi ekki hvað væri um að vera og sagt við sig: „uss, ekki segja neitt.“ Þá hafi hún síendurtekið fengið martraðir og vonda drauma tengda ákærða, auk þess sem hún hafi átt erfitt með að sofna á kvöldin, þar sem minningar tengdar meintu ofbeldi sæki á hana.  Hún lýsi miklum ótta við að hitta ákærða, þar sem hún sé hrædd við reiði hans og viðbrögð við því að hún hafi skýrt frá meintum brotum hans.  Hún verði fyrir miklu tilfinningalegu uppnámi þegar hún sé minnt á það sem gerðist.  Þá gráti hún og fái hræðsluhnút í magann.  Hún hafi ekki farið til [...] eða hitt föðurfólk sitt fyrir utan hálfsystur sínar, eftir að hún greindi frá.  Taki hún það nærri sér og sé leið yfir því að hafa ekki hitt föðurömmu sína og afa.  Þá tali hún um að hún hafi átt erfiðara með að hemja skap sitt síðan hún sagði frá meintu ofbeldi.  Allt fari í taugarnar á henni og hún sé oft í uppnámi yfir hegðun móður sinnar.  Hún hafi átt erfitt með að einbeita sér í skóla og það fari mjög í skapið á henni.  Hún hafi stöðugar áhyggjur af framtíð sinni og finnist möguleikar sínir þar hafa verið teknir frá sér með meintri misnotkun.

Ragna segir að Z sé hæfileikarík ung stúka, sem komi vel fyrir.  Útlit hennar og klæðaburður sé í samræmi við aldur hennar og hugtakaskilningur og almenn kunnátta einnig.  Hún hafi verið dugleg að vinna með hugsanir og tilfinningar tengdar meintu broti.  Hún hafi fengið góðan stuðning frá móður, sem hafi hvatt hana til að halda viðtölum áfram, en móðirin hafi ekki stutt hana jafn vel á öðrum sviðum og hún upplifi sig því sem nokkuð eina.  Z hafi sagt frá endurteknum kynferðisbrotum sem hún hafi sætt af hálfu ákærða þegar hún dvaldi hjá honum um tíma. Þetta hafi haft þær afleiðingar að hún eigi erfitt með að treysta öðrum og sífellt verið hrædd um að ákærði reyndi að nálgast hana aftur.  Enn fremur hafi þetta skaðað sjálfstraust hennar.  Henni líði illa í skóla og hún eigi erfitt með að einbeita sér.

Þá segir að Z hafi fengið góð viðbrögð þegar hún sagði frá meintum brotum og stuðning frá móður.  Vegna tengsla hennar við meintan geranda hafi þessi reynsla orðið henni mjög erfið og hún haft mikil áhrif á hana.  Hún saki sig um það sem gerðist af því hún valdi að dvelja hjá ákærða.  Meint brot hafi verið töluvert alvarleg, þar sem um endurtekin brot hafi verið að ræða, svo og innþrengingu með fingrum í leggöng.  Enn fremur hafi ákærði beitt nokkurs konar hótunum, þegar hann hafi sussað á hana og sagt henni að tala ekki um það sem gerst hefði.  Daglegt líf Z og líðan hennar hafi orðið fyrir miklum truflunum af völdum meintra brota, hún sé ennþá mjög kvíðin fyrir framtíðinni og tengi kvíðann við meint brot.  Þessi reynsla eigi eftir að fylgja henni áfram um nokkurt skeið, þar sem hún hafi ekki ennþá náð að vinna að fullu úr þeim tilfinningum sem tengist meintum brotum.

Ákærði neitar algerlega sakargiftum Z.  Hann kveðst hafa farið á jólahlaðborð 9. desember 2000 og hafi það verið eina skemmtunin á [...] í þeim mánuði.  Sambýliskona sín hafi ekið sér í teiti til vinnuveitanda snemma um kvöldið og síðan farið í vinnu.  Þaðan hafi hann farið að snæða af jólahlaðborðinu og hafi sambýliskona hans komið þangað og skemmt sér með honum.  Um nóttina hafi hann orðið fyrir því óhappi að rífa liðþófa í hné og verið sárþjáður, en þó haldið skemmtuninni áfram.  Sambýliskona hans hafi farið heim eftir skemmtunina, en hann hafi farið í gleðskap í heimahúsi, og loks verið studdur heim, þar sem hann hafi ekki getað gengið óstuddur vegna fótarmeinsins.  Sambýliskona ákærða, E, staðfesti þessa frásögn í framburði sínum hér fyrir dómi.  Hún kveðst hafa búið með ákærða síðan árið 1987.  Hann hafi oft drukkið mikið, bæði innan og utan heimilis, en aldrei verið reiðubúinn að viðurkenna það sem vandamál.  Eftir að hún varð að kalla lögreglu inn á heimilið vegna drykkjuláta hans um áramótin ’98 hafi hann orðið meðfærilegri.  Hún kveðst ekki muna eftir að ákærði hafi drukkið í ofangreindum desembermánuði í annað sinn en í tengslum við greint jólahlaðborð og örugglega ekki eftir það, vegna slyssins. 

E segir að Z hafi komið til dvalar á [...] vegna þess að amma hennar hafi hringt og beðið þau að taka hana, með skírskotun til þess að móðir hennar ætti við áfengisvandamál að stríða og stúlkunni hefði verið farið að líða illa.

E kveðst hafa haft vitneskju um að elsta dóttir ákærða, F, hefði skýrt frá því að ákærði hefði brotið gegn henni með einhverjum hætti.  Hefði móðir F sagt henni frá þessu og tekið til sín aðra dóttur ákærða, D, sem þá hefði verið hjá þeim.  Þrátt fyrir þetta hefði D síðar dvalið hjá þeim í eitt ár.  Hún hafi orðið vör við að einhvers konar eftirlit hefði verið með heimilinu af hálfu barnaverndarnefndar og einu sinni hefði hún verið kölluð á fund nefndarinnar og látin lesa skýrslu, en verið í slíku uppnámi að hún hefði ekki munað orð af því sem hún las.  E kveðst aldrei hafa orðið vör við að ákærði leitaði á Z.

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir, nefndarmaður í barnaverndarnefnd, kannast við að einhver frumathugun hafi farið í gang hjá nefndinni, líklega í janúar 1999 í tilefni af dvöl D á heimili ákærða og aftur er Z kom þangað til dvalar.  Tilefnið hafi verið tilkynning frá Akureyri um frásögn F.  Formaður nefndarinnar hafi m.a. haft samband við E, en ekki hafi verið tilefni frekari aðgerða.

 

II.

Barnaverndarnefnd [...] fékk í júlí 2002 tilkynningu um kæru Z og vaknaði grunur um hugsanleg brot ákærða gegn stjúpdóttur sinni, Y og dóttur sinni, Þ.  Ritaði starfsmaður nefndarinnar lögreglunni á [...] bréf hinn 23. október 2002, þar sem þessar grunsemdir voru reifaðar og óskað eftir skýrslutöku af stúlkunum.  Var vísað til þess að hin fyrrnefnda hefði sagt móður sinni frá því að ákærði hefði verið að káfa á sér og að slíkt hefði gerst oftar.  Að ósk sýslumannsins á [...] var tekin skýrsla af Y fyrir Héraðsdómi Vestfjarða, á dómþingi sem var háð í Barnahúsi 30. október 2002.  Myndbandsupptaka af skýrslugjöfinni var sýnd við aðalmeðferð málsins og endurrit skýrslunnar liggur frammi í málinu.

Y var spurð hvort hún vissi hvers vegna hún væri komin til skýrslugjafar og játaði hún því.  Hún var beðin að segja frá tilefninu og skýrði þá þannig frá:  „... var náttúruleg misnotuð og það stóð yfir í svona fimm ár, svona fimm, sex, ég er ekki viss alveg en það byrjaði um níu, tíu ára aldur hjá mér og þetta var bara svolítið mikið, þetta var ekkert bara svona einu sinni á ári eða eitthvað, þetta var svona, já, oft á ári, það væri hægt að segja að meðaltali einu sinni í mánuði.“

Síðan tók hún fram óspurð að móðir sín hefði aldrei tekið eftir neinu, og að ákærði hefði aldrei sagt sér að þegja um háttsemi hans, en það hefði hún þó gert.  Þá tók hún fram að ákærði hefði eitt sinn reynt að nauðga sér, á Þorláksmessu 1998, meðan móðir sín hefði verið fjarverandi við vinnu, milli klukkan ellefu til eitt á Þorláksmessukvöld.  Þá sagði hún að ákærði hefði notað öll tækifæri þegar hún var ekki heima, mjög oft og gert „bara allt mögulegt sem hægt er að gera.“  Hún var spurð á ný hve gömul hún hefði verið er þetta byrjaði og sagðist hafa verið svona tíu ára, en ekki vera alveg viss, þetta hefði staðið yfir í u.þ.b. fimm ár.  Hún var spurð hvort hún myndi eftir fyrsta skiptinu og hvernig það hefði borið að. Hún sagði að í fyrsta skiptið, eftir því sem sig minnti, hefði verið rafmagnslaust, kalt hefði verið inni og fjölskyldan, þ.e. hún sjálf, móðir sín, ákærði og hálfsystir sín, hefðu legið öll í hjónarúminu.  Móðir sín og hálfsystir hefðu farið fram og þá hefði ákærði sagt sér að bíða. Hún var spurð hvað hann hefði þá gert og svaraði að hún vissi ekki hvernig hún ætti að lýsa því, hann hefði bara farið að snerta hana að neðan, eða káfa á henni.  Hún játaði spurningu um hvort hún ætti við snertingu á kynfærum, er hún talaði um snertingu að neðan.

Hún var spurð hvort ákærði hefði þá þuklað hana innan fata eða utan og sagði að það hefði örugglega verið, en hún væri ekki viss á því, það væri svo langt síðan að hún myndi það ekki.  Síðar í yfirheyrslunni var komið að þessu aftur og þá kvaðst hún líklega hafa misskilið og fullyrti að ákærði hefði þreifað á henni innan klæða, „það var alltaf fyrir innan föt sko.“

Hún var spurð hvort hún ætti við, er hún talaði um káf ákærða, að hann hefði snert ytri kynfæri, eða hvort hann hefði sett fingur upp í leggöngin og svaraði „já, oft inn í leggöng sko og líka bara fyrir utan.“

Næst var hún beðin að lýsa því er ákærði hefði næstum nauðgað henni.  Hún sagði að systir sín hefði ætlað að fara að sofa og hefði ákærði sagt að hún gæti komið inn í rúm og horft á myndina, sem þau voru að horfa á, en „ég sagði nei, ég ætlaði að fara að sofa, ég ætlaði að horfa á barnaefnið á morgun, og hann bara ok, svo fór ég inn í rúm bara háttuð og svona, þá kom hann og girti niðrum mig og fór eitthvað að gramsa þarna niðri, og bara var eitthvað í einhvern, hvað á ég að segja, svona tvær til þrjár mínútur og svo ætlaði hann bara að hoppa upp á mig, þú veist bara leggjast ofan á mig, eins fljótur og hann gæti svoleiðis að ég færi ekki að sparka, en ég náði að sparka og ég sparkaði honum niður á gólf, eða hann datt niður á gólf sko, og sagði hann bara „fyrirgefðu, fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að gera þetta“ og eitthvað svona og bara fór fram.“

Hún bar að ákærði hefði ekki verið ölvaður í þetta sinn, en stundum verið ölvaður er hann gerði þetta, en miklu oftar ekki.  Hann hefði alveg vitað hvað hann var að gera og viðurkennt það fyrir henni að hafa gert þetta, þegar hefði legið fyrir að hún ætti að fara í Barnahús til skýrslugjafar.  Hann hefði þá verið að biðja sig að skýra ekki frá þessu, en sagt að hún yrði þó að ráða hvað hún segði, en sagt eitthvað á þá leið að hann og móðir hennar væru að gera það besta fyrir þau.  Á þeim tíma hefði móðir sín ekki vitað af þessu enn þá.

Hún var spurð hvenær ákærði hefði síðast leitað á hana og sagði að það hefði verið fyrir næstliðin áramót, eða snemma eftir þau, en fram að því hefði það verið mjög oft, bara þegar hann hafði tækifæri til.  Hún var spurð hvort hann hefði talað eitthvað við hana á meðan og sagði að ef hún hefði beðið hann að hætta hefði hann sagt henni að slappa bara af.  Stundum hefði hann þó hætt, en stundum ekki.  Hún var einnig spurð hvort hún gæti lýst tilviki þegar ákærði hefði sett fingur upp í leggöng hennar og sagði að það hefði gerst fyrrnefnt Þorláksmessukvöld, fyrr um kvöldið, þegar þau hefðu verið að fíflast eins og hún orðaði það, hún hefði þá legið ofan á ákærða og hann smeygt hönd niður í buxur hennar að framanverðu og sett fingur inn.  Hún var spurð hvort hún hefði fundið fyrir sársauka og sagði að sér hefði ekki fundist þetta gott, hún hefði verið öskrandi, en systir sín hefði ekki áttað sig á neinu, enda hefði hún verið búin að vera öskrandi áður, þar sem þau hefðu verið að slást og fíflast.

Hinn 14. janúar 2003 ritaði Y bréf, sem barst barnaverndarnefnd [...] samdægurs, svohljóðandi:

„Okey, ég þarf aðeins að opna mig.  Þegar ég fór í barnahúsið fyrir jól fannst mér eins og ég gæti ekki treyst fólkinu sem var þarna inni.  Ég hafði aldrei séð það áður ... það var camera að taka mig upp á myndband og mér leið alveg ömurlega inni í þessu litla herbergi, plús það að ég var að segja einhverju fólki hvað hefði komið fyrir mig og ég var ekki einu sinni búin að segja mömmu minni almennilega frá þessu!

Það er skrýtið að þegja yfir leyndarmáli í mörg ár og langað að segja frá því en maður þorði það ekki en svo allt í einu fór allt af stað.  Ég var mörgum sinnum búin að ákveða það að flýja að heiman og fara langt í burtu og að allir myndu bara halda að ég væri dáin og þau myndu hætta að hugsa um mig, en ég þorði það ekki því að X var svo strangur að ég bjóst við því í alvörunni að hann myndi berja mig og síðan nauðga mér, og ég er ekki að ljúga!

En það er eitt sem mig langar að losna við!  Það var einu sinni að ég var hjá mömmu og X uppi í rúmi af því að það var svo kalt.  Svo ákvað mamma að fá sér eitthvað að borða og ég ætlaði með en hann tosaði í mig þannig að ég komst ekki, þannig að ég lá þarna meðan að hann var að putta mig...  Svo sagði ég honum að hætta og hann spurði hneykslislega hvort að mér fyndist þetta ekki gott! og ég sagði nei ... og hann hætti.

Svo oft þegar ég var yngri 9-10 ára þá fór maður oft upp í rúm til þeirra þegar það var vont veður en ég hætti því snarlega.  Ég var vön að leggjast á milli og svo bara sofna en alltaf vaknaði ég við það að hendin á honum var uppí píkunni á mér þannig að ég fór alltaf.

Svo fyrsta sumarið sem við bjuggum í [...] voru tvö atvik. Eitt að ég var í sturtu og hann hékk á hurðinni þangað til að ég opnaði og var auðvitað ekki búin að klæða mig og helvítis ógeðið stóð og starði á mig sagðist vera að fara á wcið en spurði svo af hverju ég væri svona spéhrædd og ég sagðist ekki vera spéhrædd til að sýnast vera ánægð með mig.

Svo var einu sinni einhver lús eða eitthvað á [...].  Ég var að fara á fótboltaæfingu og hann ætlaði að fara að nota einhverja lúsagreiðu til að tékka hvort það væri eitthvað í skapahárunum á mér.

Svo var það alltaf þannig að ef ég átti að fá að gera eitthvað þá varð hann að fá að snerta mig að neðan eða káfa á brjóstunum á mér.

Oft var það þannig að hann kom heim um sex á virkum dögum eitthvert sumarið og mamma var alltaf að skúra þá.  Hann lét mig alltaf liggja á bakinu með hausinn á löppunum og var að kreista bólur á mér sem voru ekki einu sinni þarna.  Svo var ALLTAF að reyna að komast þangað niður að buxunum og lengra og ég gat svo sjaldan staðið á mínu að það tókst alltaf hjá honum og ég gat ekkert gert.

/---/“

Sýslumaðurinn á [...] bað um skýrslutöku á ný í tilefni af þessu bréfi.  Fór hún fram 30. janúar 2003, með sama hætti og áður.  Y lýsti fyrsta tilvikinu þá mjög á svipaðan hátt og fyrr, en sagðist nú hafa verið 7-8 ára er það gerðist.  Hún sagðist hafa hætt að fara upp í rúm til móður sinnar og ákærða þegar hún var 8 ára, því þegar hún hefði vaknað hefði hönd hans alltaf legið milli fóta henni. Nánar aðspurð um þetta sagði hún að ákærði hefði þá verið sofandi og hönd hans hreyfingarlaus.  Hún var aftur spurð um atvikið á Þorláksmessu og sagði að hún myndi ekki hvort hún hefði fundið fyrir sársauka, en sagði aðspurð að ákærði hefði farið með fingur upp í leggöng.

Y kvaðst hafa sagt vinkonu sinni, G, frá háttsemi ákærða, svo og vinum sínum, H og I.  Þessi ungmenni voru öll yfirheyrð við aðalmeðferð málsins.  Þá segir hún að hálfsystir sín, D, hafi hringt í sig til að spyrja um hvort ákærði hefði gert henni eitthvað.  Hún kveðst í fyrstu hafa sagt henni ósatt og neitað, en síðan greint henni frá hinu rétta.

G ber að Y hafi sagt sér frá reynslu sinni fyrir um tveimur árum. Tilefnið hefði verið að sjálf hefði hún verið misnotuð og sagt Y frá því.  Hún hefði þá sagt sér að hún hefði einnig orðið fyrir slíku, en ekki viljað greina frá því hver hefði gert það eða hvernig.  Síðar hefði hún sagt sér að þetta hefði verið ákærði og nefnt að hann hefði verið að káfa á sér á Þorláksmessukvöldi, en hún hefði sparkað honum burtu.

Vitnið I skýrði frá því að Y hafi sagt sér að ákærði hefði misnotað hana.  Hefði hún grátið og átt erfitt með að segja frá þessu.  Hún hefði ekki lýst háttsemi hans náið, né ákveðnum tilvikum, utan einu, að hún hefði sagst hafa verið að fara að sofa, er ákærði hefði komið og byrjað að þukla á henni.  Hún hefði þá gert hávaða og systir hennar hefði farið að gráta.  Þá hefði hún sagt við ákærða að sjá hvað hann væri búinn að gera, dóttir hans væri farin að gráta.  Hefði hann þá hætt og farið.

Vitnið J segir að það hafi líklega verið í byrjun september 2002 sem Y sagði honum að ákærði hefði misnotað hana frá því hún hefði verið lítil.  Hefði hún ekki lýst þessu nánar, heldur aðeins sagt að hann hefði misnotað hana ítrekað.

Y og J sögðu H frá í sameiningu.  Segir H að misnotkun hafi ekki verið lýst í smáatriðum, heldur einungis sagt að ákærði hefði misnotað hana.

Ákærði neitar alfarið sakargiftum Y. Hann kveðst venjulega vera heima á Þorláksmessukvöld og ekki neyta áfengis.  Aðspurður kveðst hann ekki eiga við áfengisvandamál að stríða.  Hann kveðst hafa rætt við hana um sakargiftir Z, en kannast ekki við að hafa viðurkennt fyrir henni að hafa brotið gegn henni.

Móðir Y, E, ber að hún hafi aldrei orðið vör við þá háttsemi sem ákærði er borinn sökum um, hvorki á þeim tíma sem hún á að hafa átt sér stað, né þegar hún lítur til baka.  Hún kveðst hafa gengið á dóttur sína þegar fyrir lá að hún átti að fara í Barnahús til skýrslugjafar og hún þá sagt að ákærði hefði káfað á kynfærum hennar, en ekki hefði komið fram hvort það hefði verið innan klæða eða utan.  Dóttir sín hafi ekki talað um þetta við sig síðan.  E staðfesti að venjulega hafi hún farið til vinnu klukkan 10 á Þorláksmessukvöld og ekki komið fyrr en seint heim.  Hún var spurð um áfengisneyslu ákærða um þetta leyti, þ.e. í desember 1998 og sagði að almennt hefði hann drukkið mikið á þessum tíma, en hún myndi ekki hvort hann hefði drukkið þetta kvöld.  Hún sagði aðspurð að sér væri kunnugt um niðurstöðu læknisrannsóknar, þ.e. að meyjarhaft hefði reynst rofið, en sagði að læknir hefði sagt sér að það gæti orsakast af því að Y notaði tíðatappa.  Hún sagði aðspurð að hegðun hennar hefði breyst eftir að málið kom upp og hún væri hætt að ræða við sig og væri á móti öllu sem hún segði.  Aðspurð sagðist hún trúa því að Y segði satt og rétt frá.

D ber að hún hafi hringt í Y fyrir um ári og spurt hana út í samskipti hennar og ákærða. Hún tók fram að ákærði hefði ætíð komið illa fram við Y og hún hefði verið bæld af hans völdum.  Hún kveðst ekki hafa skýrt Y frá sakargiftum Z, en spurt hana beint um hvort einhver vandamál væru, sem hún hefði neitað í fyrstu.  Er hún hefði gengið á hana hefði hún sagt sér að ákærði hefði káfað á sér, en ekki lýst neinu í smáatriðum.  D kveðst hafa hvatt hana til að skýra frá þessu og flytja af heimilinu.  Hún kveðst aldrei hafa orðið þessa áskynja sjálf, meðan hún dvaldi á heimilinu, en trúa Y, ekki síst með skírskotun til þess að eldri systir hennar hefði orðið fyrir áreitni ákærða.  Hún tók fram að hann hefði aldrei gert sér neitt.

Y var skoðuð 13. nóvember 2002 af Jóni R. Kristinssyni barnalækni og Þóru F. Fischer kvensjúkdómalækni.  Staðfesti Þóra vottorð þeirra um skoðunina hér fyrir dómi.  Í því kemur fram að Y sé með áberandi ör á vinstri úlnlið og að hún hafi sagst hafa rispað sig þarna, en haft er eftir móður hennar að hún hafi veitt sér þennan áverka viljandi til að skaða sig.  Þá kemur fram að hún segist ekki vera farin að sofa hjá.  Ekki sáust áverkamerki á ytri kynfærum, en meyjarhaft var farið á þann hátt sem sést hjá konum sem hafa haft samfarir.

Í málinu liggur frammi greinargerð Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings um greiningar- og meðferðarviðtöl við Y, sem hún staðfesti fyrir dómi.  Vigdís segir að hún hafi frá 31. október 2002 og þar til nú sótt tíu greiningar- og meðferðarviðtöl.  Hafi upplýsinga um líðan hennar verið aflað í þeim og í viðtölum við móður hennar og kennara.  Hún og móðir hennar hafi svarað spurningalista um atferli barna og unglinga 12. nóvember 2002 og jafnframt hafi telpan svarað mælikvarða Becks á geðlægð 29. nóvember 2002, 30. janúar, 4. apríl og 3. júní 2003.  Niðurstöður af svörum Y við fyrri spurningalistanum hafi leitt í ljós ýmis vanlíðunareinkenni, einkum einkenni þunglyndis og kvíða.

Í greinargerðinni segir að útlit Y sé í samræmi við aldur, en viðmót sé fremur alvarlegt og svipbrigði lítil.  Í viðtölum tjái hún sig alla jafna greiðlega og hún geti lýst líðan sinni og aðstæðum.  Í fyrstu hafi hún oft grátið í viðtölunum og áherslur hennar og væntingar lýsi vonleysi og kvíða.

Viðtöl við hana hafi leitt í ljós ýmis einkenni, sem séu þekkt meðal unglinga sem hafi sætt kynferðislegu ofbeldi.  Í dagnótu eftir fyrsta viðtalið hafi hún ritað að Y óttist að ákærði sé henni reiður fyrir að hafa sagt frá og hún óttist að hitta hann á [...].  Þá vorkenni hún móður sinni vegna málsins og finnist fjölskyldan hrunin.  Hún hafi barist við grátinn allt viðtalið.  Telji hún sig að nokkru leyti bera ábyrgð á röskun fjölskyldunnar vegna málsins og hafi verið með sektarkennd vegna þess.  Í næstu viðtölum hafi hún verið ráðvillt og döpur.  Komi fram í dagnótu eftir viðtal 13. nóvember 2002 að hún hafi grátið í viðtalinu og lýst því að hún laumist um eftir krókaleiðum þegar hún sé á [...] og sé mjög hrædd um að hitta ákærða á förnum vegi.  Hún lýsi því að hún hafi nokkrum sinnum verið komin á fremsta hlunn með að segja móður sinni frá því að ákærði beitti hana kynferðislegu ofbeldi.  Hún hafi þó ekki treyst sér til þess fyrr en móðir hennar hafi spurt hana.  Ákærði hafi sagt sér áður en hún sagði móður sinni frá að hann þyrfti e.t.v. að fara í „grjótið“ vegna ásakana Z og sagt að hún réði hvort hún segði frá, en betra væri að hún léti það ógert vegna þess að hann og móðir hennar væru að gera allt sem þau gætu fyrir hana og Þ systur hennar.  Móðir hennar hafi sýnt lítil viðbrögð er hún sagði henni frá og nokkur tími hafi liðið frá því uns þær fluttu af heimilinu.  Í dagnótu eftir viðtal 29. nóvember 2002 komi fram að hún kvarti um skapsveiflur, gráti nánast daglega og ef eitthvað gangi henni í mót komi hugsanir um kynferðisofbeldið yfir hana.  Þá grípi hún stundum til þess ráðs að valda sér sársauka með rispum og klóri til að dreifa huganum.  Segist hún ekki hugleiða að stytta sér aldur, en þegar henni líði sem verst vilji hún ekki lifa.

Hún hafi uppfyllt greiningarviðmið þunglyndis og verið sett á þunglyndislyf í apríl sl., en hætt töku þeirra án samráðs við lækni vegna aukaverkana.  Hún taki því ekki þunglyndislyf eins og sakir standa.  Líðan hennar nú sé ekki sem skyldi, hún sé áhugalaus og vondauf, segist hafa lítið sjálfstraust og vera kvíðin með tilliti til framtíðarinnar.  Eins og algengt sé meðal barna sem hafi sætt kynferðisofbeldi áfellist hún móður sína nokkuð fyrir að hafa ekki áttað sig á því hvað var að gerast og þetta komi niður á sambandi þeirra.

Niðurstöður Vigdísar eru þær að greining og viðtalsmeðferð hafi leitt í ljós að Y hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna hins kynferðislega ofbeldis sem hún segist hafa sætt af hendi ákærða.  Einkenni þau sem hún glími við séu eins og vænta megi miðað við hið kynferðislega ofbeldi sem hún segist hafa sætt um margra ára skeið.  Afleiðingar atvikanna hafi valdið henni umtalsverðum tilfinningalegum erfið­leikum og hún uppfylli greiningarviðmið þunglyndis.  Hún muni því hafa þörf fyrir langtíma viðtals- og e.t.v. lyfjameðferð.  Ætla megi að ofbeldið hafi haft talsverð áhrif á persónuleika hennar og félagsmótun.  Ekki sé unnt að meta að svo stöddu að hve miklu leyti Y muni takast að vinna bug á þeim afleiðingum sem hið kynferðislega ofbeldi hafi haft á líf hennar og líðan.

 

 

III.

Sakargiftir í I. kafla ákæru eru reistar á framburði Y.  Dómarar málsins hafa skoðað vandlega myndbandsupptöku af framburði hennar.  Skýrsla hennar er skýr og eindregin um það að ákærði hafi margoft þreifað á brjóstum hennar og kynfærum innan klæða.  Þá er það til þess fallið að styrkja trúverðugleika framburðar hennar að hún greindi vitninu G frá háttsemi ákærða fyrir um tveimur árum.  Einnig er frásögn vitnisins D af því þegar Y sagði henni frá því að ákærði hefði brotið gegn sér, til þess fallin að gera framburð hennar trúverðugri.  Greinargerð Vigdísar Erlendsdóttur um efnislega frásögn Y í samtölum þeirra af háttsemi ákærða og líðan hennar og tilfinningar tengdar henni styrkja trúverðugleika hennar einnig.  Þegar þetta er allt virt er það mat dómaranna að ákærði sé þrátt fyrir eindregna neitun sína sannur að sök um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 1. og 3. tl. I. kafla ákærunnar.

Y, sem er fædd árið 1987, sagði í byrjun fyrri skýrslu sinnar fyrir dómi að háttsemi ákærða gagnvart sér hefði byrjað er hún var níu eða tíu ára og hafi staðið yfir í um fimm ár.  Í síðari skýrslu sinni fyrir dómi segir hún að hún hafi verið svona 7-8 ára þegar fyrsta atvikið varð.  Með þetta í huga verður ákærði látinn njóta vafa um upphaf tímabils og miðað við að brot hans gegn Y hafi byrjað árið 1997.

Y lýsir því með skýrum og trúverðugum hætti hvernig ákærði afklæddi hana að neðan þar sem hún lá í rúmi sínu á Þorláksmessukvöld 1998, káfaði á kynfærum hennar og lagðist ofan á hana.  Sá þáttur í verknaðarlýsingu í 2. tl. I. kafla ákæru að hann hafi þá sett fingur upp í leggöng hennar og káfað á brjóstum, fær hins vegar ekki nægilega stoð í framburði hennar, en hún lýsir háttsemi hans þannig að hann hafi þá verið að „gramsa“ í kynfærum hennar.  Hún ber að fyrr þetta kvöld hafi hann sett fingur upp í leggöng hennar, eftir að hafa verið að tuskast við hana, en það er ekki nægilega skýrt tekið upp í verknaðarlýsingu í ákærunni.  Ákærði verður því sýknaður af því að hafa í það sinn sem ákæran greinir í þessum lið sett fingur upp í leggöng Y og káfað á brjóstum hennar, en sakfelldur fyrir að hafa afklætt hana að neðan, káfað á kynfærum hennar og lagst ofan á hana.  Verður þessi háttsemi ekki heimfærð til 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegn­ingar­laga, en varðar við sömu refsiákvæði og háttsemi í 1. og 3. tl. þessa kafla ákærunnar.

Háttsemi ákærða, sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir, varðar við 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 9. gr. laga nr. 40/1992 og varðar allt að fjögurra ára fangelsi, að teknu tilliti til aldurs barnsins.  Sömu refsimörk eru í 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003, sbr. áður 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.  Verður háttsemi ákærða heimfærð til nefnds ákvæðis 2. mgr. 201. gr. og það látið tæma sök gagnvart tilvitnuðu ákvæði 202. gr.

IV.

Í 1. tl. II. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa í eitt skipti frá því í desembermánuði 2000 stungið fingri upp í leggöng Z.  D ber sérstaklega aðspurð að ákærði hafi sett fingur upp í leggöng hennar, en framburður hennar er ekki alveg skýr um þetta og hún orðar það svo að hann hafi bara gert það „smá.“  Niðurstaða læknisskoðunar styður ekki að innþrenging í leggöng hafi átt sér stað.  Með því að vafi leikur á um þetta verður ákærði sýknaður af sakargiftum í þessum tölulið.

Dómararnir hafa skoðað myndbandsupptöku af skýrslugjöf D og meta framburð hennar í heild mjög trúverðugan. Framburður hennar um að ákærði hafi oftar en einu sinni farið höndum um kynfæri hennar innan klæða veturinn 2000-2001  er alveg skýr og eindreginn.  Fjöldi tilvika, sem greindur er í 2. tl. ákæru er samkvæmt ágiskun hennar, sem er ekki ástæða til að rengja sérstaklega.  Hún lýsir ákveðnum orðum ákærða og staðsetningum.  D lýsir því að ákærði hafi í fyrsta sinnið verið að koma af balli og verið ölvaður, en giskar þó á að klukkan hafi ekki verið nema 8 eða 9 um kvöldið.  Þá tengir hún þetta því að jólaundirbúningur hafi verið byrjaður á heimilinu.  Sýnt þykir að þetta hafi ekki gerst að kvöldi 9. desember 2000, þegar jólahlaðborð var á [...], þegar litið er til framburðar ákærða og sambýliskonu hans um ferðir hans það kvöld, en ekki liggur fyrir að öðrum skemmtunum hafi verið til að dreifa á [...] í desember 2000.  Sambýliskona hans man ekki eftir að hann væri ölvaður í annan tíma þann mánuð.  Á hinn bóginn verður að hafa í huga að hún ber um að almennt hafi verið algengt að hann neytti áfengis og framburður Y er á sama veg.  Er framburður Z um að hann hafi verið undir áhrifum áfengis því í sjálfu sér ekki ósennilegur, þótt hún hafi ályktað ranglega að hann hafi verið að koma af balli.  Þetta atriði verður því ekki talið til þess fallið að draga sérstaklega úr trúverðugleika framburðar hennar um þá háttsemi sem ákæran varðar.  Er sama að segja um það atriði að hún dró í rúmt ár að segja frá brotum ákærða eftir að þeim lauk, sem hún skýrir með því að hún hafi í fyrstu ekki ætlað sér að greina frá þeim. Samkvæmt greinargerð Rögnu Guðbrandsdóttur lýsir hún ótta við reiði ákærða í sinn garð fyrir það og upplifir sig föðurlausa í kjölfarið.  Greinargerð Rögnu um lýsingu Z á endur­upp­lif­unum tengdum brotum ákærða og líðan sinni er til þess fallin að styrkja framburð hennar.  Þegar þetta er allt virt er það mat dómaranna að framburður hennar um háttsemi ákærða sé sannur og verður ákærði sakfelldur á grundvelli hans fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. tl. II. kafla ákæru.  Háttsemin varðar við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 40/1992 og verður ekki jafnframt heimfærð til ákvæða 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. niðurstöðu í næsta kafla hér á undan.

V.

Ákærði hefur ekki sætt refsingum.  Brot þau sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir eru alvarleg.  Ákærði rauf með þeim fjölskyldutengsl og braut gegn trúnaðartrausti brotaþola, sem hann hafði uppeldis- og umsjárskyldur við.  Hefur ákærði engar málsbætur.  Refsing hans ákveðst fangelsi í 15 mánuði, sem ekki kemur til álita að skilorðsbinda vegna eðlis brotanna.

Réttargæslumaður stúlknanna, Steinunn Guðbjartsdóttir, hefur uppi bótakröfur þeim til handa fyrir hönd móður hvorrar þeirrar um sig.  Er kröfugerðin reifuð í ákæruskjali hér að ofan.  Kröfurnar eru byggðar á 26. gr. skaðabótalaga.  Liggur frammi ítarlegur rökstuðningur fyrir þeim í málinu og réttargæslumaðurinn flutti þær einnig við aðalmeðferð málsins.  Stúlkurnar eiga rétt til miskabóta úr hendi ákærða.  Við ákvörðun á fjárhæð þeirra verður litið til ofangreindra greinargerða um líðan þeirra og dómvenju.  Verða Y dæmdar 600.000 krónur í miskabætur, sem skulu bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. júní 2003 er mánuður var liðinn frá því að mál þetta var höfðað og Z 400.000 krónur, sem skulu bera dráttarvexti frá 3. nóvember 2002, en þá var mánuður liðinn frá því að ákærða var birt bótakrafan.  Kostnaður við gerð bótakrafna verður ekki dæmdur sérstaklega, en litið til hans við ákvörðun réttargæslulauna.

Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar, hrl., sem að því leyti sem þau hafa ekki áður verið ákveðin fyrir hluta af verjandastörfum hans á rannsóknarstigi málsins, ákveðast 500.000 krónur og réttargæslulaun Steinunnar Guðbjartsdóttur, hdl., sem ákveðast í heild á rannsóknar- og dómstigi 450.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri ásamt Halldóri Halldórssyni dómstjóra og Sigríði Ingvarsdóttur héraðsdómara sem meðdómendum.  Dómsuppsaga hefur dregist nokkuð vegna anna dómsformanns.  Sækjandi og verjandi hafa lýst því yfir að þau séu sammála dómendum um að ekki sé þörf á að flytja málið á ný af þeim sökum.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði greiði Y 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. júní 2003 til greiðsludags og Z 400.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2002 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristins Bjarnasonar hrl., 500.000 krónur og réttargæslulaun Steinunnar Guðbjartsdóttur hdl., 450.000 krónur.