Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2006


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni


Þriðjudaginn 25

 

Þriðjudaginn 25.apríl 2006.

Nr. 16/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Romanas Strabeika

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni.

R og C voru sakfelldir í héraði fyrir að hafa staðið að innflutningi á 3.986,80 g af metamfetamíni ætluðu til söludreifingar hér á landi, en málinu var aðeins áfrýjað af hálfu R. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu R og heimfærslu brots hans til refsiákvæða var staðfest. Tekið var fram að R hefði verið sakfelldur fyrir að hafa átt þátt í að flytja til landsins verulegt magn af hættulegu fíkniefni af þó nokkrum styrkleika. Þrátt fyrir það var ekki talið unnt að líta framhjá því að C, sem hefði átt að minnsta kosti eins stóran hlut í brotinu og R, hefði verið gerð sama refsing og R í héraði, en héraðsdómi ekki verið áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins varðandi C. Að því virtu voru ekki talin efni til annars en að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um að R skyldi sæta fangelsi í þrjú ár.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Með ákæru ríkissaksóknara 18. ágúst 2005 var ákærða ásamt öðrum manni gefið að sök að hafa 30. júní sama ár flutt hingað til lands 3.986,8 g af metamfetamíni, földu í undirvagni bifreiðar og ætluðu til söludreifingar. Í hinum áfrýjaða dómi voru báðir ákærðu sakfelldir og dæmdir til refsingar. Meðákærði unir dómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæða. Ákærði er með þessu sakfelldur fyrir að hafa átt þátt í að flytja til landsins verulegt magn af hættulegu fíkniefni, sem var af þó nokkrum styrkleika. Þrátt fyrir það verður ekki fram hjá því litið að meðákærða í héraði, sem átti að minnsta kosti fullt eins stóran hlut í brotinu, var þar gerð sama refsing og ákærða, en af hálfu ákæruvaldsins var héraðsdómi ekki áfrýjað varðandi meðákærða. Að því virtu eru ekki efni til annars en að láta refsingu ákærða standa óraskaða. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald hans frá 1. júlí 2005.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað eru staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Romanas Strabeika, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 293.148 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

                                                                                                                  

Dómur Héraðsdóms Austurlands 18. nóvember 2005.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. október sl. að aflokinni aðalmeðferð, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 18. ágúst 2005, á hendur C, fæddum [...] 1978 og Romanas Strabeika, fæddum 11. september 1950, litháískum ríkisborgurum, “fyrir stórfellt brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa, fimmtudaginn 30. júní 2005, í hagnaðarskyni flutt hingað til lands 3.986,80 g af metamfetamíni, ætluðu til söludreifingar. Ákærðu fluttu efnið falið í geymsluhólfi í járnbita í undirvagni bifreiðarinnar [...] af gerðinni Citroen XM, með farþegaferjunni Norrænu og fannst efnið eftir komu ferjunnar til Seyðisfjarðar.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist, að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Þess er krafist að framangreind ávana- og fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001.

Þá er þess krafist að bifreiðin [...], sem notuð var til að flytja framangreind fíkniefni til landsins og lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.”

Af hálfu ákærða, C, er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði þá ákveðin skilorðsbundin. Þá er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, greiðist úr ríkissjóði. Komi til þess að ákærði verði dæmdur til fangelsisrefsingar er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar.

Af hálfu ákærða, Romanas Strabeika, er aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar, sem lög framast heimila. Verði ekki fallist á sýknukröfu ákærða og hann dæmdur til refsingar er þess krafist að gæsluvarðhald ákærða frá 1. júlí 2005 til uppkvaðningar dóms komi til frádráttar. Þá er þess krafist að sakarkostnaður skipaðra verjenda ákærða, alls að fjárhæð 982.960 krónur, án virðisaukaskatts, verði greiddur úr ríkissjóði.

II.

Málavextir

Hinn 30. júní sl. komu ákærðu til Seyðisfjarðar með farþegaferjunni Norrænu. Samkvæmt farm- og farþegaskrám höfðu þeir meðferðis bifreið af gerðinni Citroen XM, á skráningarnúmerinu [...] frá Litháen. Ákærðu höfðu keypt farmiða með ferjunni í Vilníus þann 20. júní 2005 og voru bókaðir með ferjunni frá Danmörku til Seyðisfjarðar aðra leiðina á sama bókunarnúmerinu. Þeir voru ekki bókaðir með ferjunni til baka. Ákærðu komu um borð í Danmörku þann 25. júní 2005. Ákveðið var að taka ákærðu til sérleitar við tollskoðun við komu þeirra til Seyðisfjaðrar. Komu þeir á fyrrgreindri bifreið til afgreiðslu í gegnum grænt hlið. Við skoðun á bifreiðinni [...] merktu leitarhundar tollgæslu ákveðið við hægra afturhjól bifreiðarinnar. Var hún þá færð til ítarlegrar skoðunar og eftir nákvæma leit og skoðun á undirvagni bifreiðarinnar fannst lítið gat ofanvert á þverbita við undirvagninn aftanverðan. Með hjálp tækjabúnaðar mátti sjá að einhverju virtist hafa verið komið fyrir innan í bitanum. Bitinn reyndist holur að innan, en honum hafði verið lokað beggja vegna með hringlaga málmlokum, sem var vel fyrir komið og sátu föst. Að lokum tókst að opna þessi málmlok og út úr bitanum voru dregnar 26 pakkningar af fíkniefnum, sem sumar voru í afskornum tveggja lítra gosflöskum, sem  í höfðu verið bundnir spottar. Í skýrslu lögreglu segir að þessum 26 pakkningum hafi verið haganlega fyrirkomið innan í umræddum bita. Umbúðirnar voru úr plasti og var hver eining pökkuð inn í fjóra plastpoka. Yst voru tveir renndir plastpokar, sem vættir höfðu verið með límkenndri sítrusolíu, sem lyktar mjög sterkt, en hún er talin geta villt um fyrir fíkniefnaleitarhundum. Næst kom nokkuð hreinn renndur poki, en innst var hreinn, lofttæmdur og lokaður plastpoki með hvítu dufti. Efnið var sent til rannsóknar og samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði dags. 12. júlí 2005 var um að ræða metamfetamín.

Ákærðu voru handteknir og vistaðir í fangageymslu, en þeim var haldið aðskildum eftir að leitarhundar merktu við hægra afturhjól bifreiðarinnar.

Ákærði, C, var yfirheyrður af lögreglu síðdegis þann 30. júní 2005. Hann sagðist hafa verið ökumaður bifreiðarinnar [...]. Hann sagði að kunningi hans í Litháen, A að nafni, hefði beðið hann um að flytja bifreiðina til Íslands, en sagðist sjálfur ekkert eiga í bílnum. Einhver, sem ákærði sagðist ekki þekkja, hefði afhent honum bifreiðina á bensínstöð í Kaunas í Litháen. Þá sagðist ákærði ekki þekkja ferðafélaga sinn, meðákærða Romanas Strabeika, en hann hefði verið á umræddri bensínstöð þegar hann fékk bifreiðina afhenta. Ákærði sagði að hann hefði átt að fá greitt fyrir ferðina er hann kæmi til baka til Litháen. Umsamið hafi verið að hann fengi 100 evrur fyrir að koma bifreiðinni til Íslands, auk þess sem fargjald, uppihald og gisting yrði greitt fyrir hann á meðan á ferðinni stæði. Hann sagði að þeir hefðu fengið afhentar 1.400 evrur til að halda sér uppi á ferðalaginu. Þá hafi þeim verið sagt að mennirnir, sem tækju við bifreiðinni hér á landi, myndu láta þá fá meira fé til að komast til baka og aðra bifreið, sem þeir hafi átt að flytja til baka til Litháens auk bifreiðarinnar, sem þeir komu á. Hann og ferðafélagi hans skyldu koma sér einhvers staðar í gistingu og síðan yrði hringt í farsíma ferðafélagans og þeim sagt hvar þeir ættu að skila bílnum af sér. Hann sagðist ekki vita hvar eða hverjum þeir áttu að afhenda bifreiðina. Hann sagði að þannig hefði verið gengið frá málinu að hann hefði ekkert fengið að vita hverjir stóðu á bak við þennan innflutning.

Aðspurður sagði ákærði að kunningi hans, A, væri frá Litháen, en hann byggi í Rússlandi. Hann sagðist hafa kynnst A fyrir um ári. Hann sagðist ekki vita hvað hann héti fullu nafni, hvar hann byggi eða hvaða símanúmer hann hafi. Það væri alltaf A, sem hefði samband við hann.

Ákærði sagðist aðspurður ekki hafa vitað af því að í bifreiðinni væru falin fíkniefni. Hann hafi fengið að vita að hann ætti að flytja nýlegan VW Golf til baka, sem hann taldi að ætti að selja í Litháen fyrir töluvert fé og honum hafi fundist það ágætis skýring á þessu ferðalagi. Hann sagðist hafa verið atvinnulaus og eiga ungt barn í Litháen og því hafi hann vantað peninga. Þá hafi hann litið á það sem hálfgert ævintýri að koma til Íslands. Aðspurður sagðist hann ekki vita hver ætti fíkniefnin, um hvers konar fíkniefni væri að ræða eða hversu mikið magn. Hann sagðist ekki neyta fíkniefna og ekki stunda fíkniefnasölu. Hann sagðist hafa það að atvinnu að sækja notuð heimilistæki til Þýskalands til endursölu í Litháen og fyrir það fengi hann um 700 evrur á mánuði.

Ákærði, Romanas Strabeika, var einnig yfirheyrður af lögreglu síðdegis þann 30. júní 2005. Hann sagðist ekkert hafa vitað af fíkniefnunum í bifreiðinni. Kunningi hans, B, hafi beðið hann um að fara með meðákærða, C, til Íslands til að sækja þangað bifreið af tegundinni VW Golf og flytja hana til Litháen. B þessi hafi komið til hans ásamt meðákærða, C, fyrir þremur dögum og sótt vegabréfið hans, en hann hefði þurft á því að halda til að kaupa fyrir hann farmiða með Norrænu til Íslands. Þeir meðákærði hafi síðan farið á bílnum frá Litháen til Danmerkur. Hann sagði að honum hefði ekkert verið greitt fyrir þetta, enda hefði honum þótt spennandi að koma til Íslands. Allt uppihald hafi þó verið greitt fyrir þá, sem og fargjaldið með ferjunni báðar leiðir. Þeir hafi stoppað í Færeyjum og þar hafi meðákærði, C, hringt í B og fengið að vita að þeir ættu að halda áfram til Íslands. Meðákærði, C, hafi átt að hringja aftur í B er þeir kæmu til Íslands og fá fyrirmæli um það hvar þeir ættu að skila af sér Citroenbifreiðinni og fá afhenta fyrrnefnda Golfbifreið. Ákærði sagðist ekki hafa þekkt meðákærða, C, áður en hann hélt af stað með honum í ferðalagið til Íslands. Hann sagðist aðeins hafa séð honum bregða fyrir er B kom til hans til að fá hjá honum vegabréfið. Ákærði sagðist ekki vita hvar þeir áttu að skila af sér Citroen bifreiðinni. Fyrirmæli um það hafi þeir átt að fá hjá B þegar þeir kæmu til Íslands. Þeir hafi átt að gista einhvers staðar í tvo daga áður en þeir hittu mennina, sem tækju á móti Citreonbifreiðinni. Hann sagðist hafa fengið að vita að það væru Litháar, sem tækju á móti bifreiðinni. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa þótt þessi tilhögun á ferðalaginu einkennileg á nokkurn hátt. Honum hafi þótt gaman að fá tækifæri til að skoða heiminn og komast til Íslands. Hann sagði að það væri Lithái, sem ætti umrædda Golfbifreið og sagðist halda að hún væri á númerum frá Litháen. Aðspurður sagðist hann ekki vita hver ætti fíkniefnin, sem fundust í bílnum, hvers konar fíkniefni þetta væru eða hversu mikið magn væri um að ræða. Hann sagðist ekki neyta fíkniefna og kvaðst aldrei hafa stundað sölu á fíkniefnum. Hann sagðist eiga hlut í tveimur fyrirtækjum og væri annað þeirra í Rússlandi en hitt í Úsbekistan. Hann hefði að jafnaði um 1000 dollara í laun á mánuði.

Samkvæmt skýrslu lögreglu dags. 24. júlí 2005 leiddi rannsókn lögreglu í ljós að bifreiðin [...]er skráð eign D, sem er litháenskur ríkisborgari, fædd 1983. Hún ber ættarnafnið [...] eða sama ættarnafn og ákærði, C, en endingin breytist eftir því hvort um kvenkyn eða karlkyn er að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Interpol í Vilnius er D þessi eiginkona ákærða, C.

Ákærði, C, var yfirheyrður að nýju hinn 8. ágúst 2005. Hann var þá spurður frekar um samskipti hans við kunningja sinn A. Hann sagði að A vildi frekar hringja í ákærða en að ákærði hringdi í sig og hefði hann gert það þrisvar til fjórum sinnum áður en hann fór í þessa ferð. Sagðist ákærði hafa legið með A á spítala og þar hafi þeir skipst á símanúmerum. A hafi vitað að ákærði flytti fólk og vörur á milli landa og því hafi honum ekki fundist neitt athugavert við það að A bæði hann um að sækja umrædda Golfbifreið til Íslands. Ákærði sagðist oft fara til Þýskalands til að sækja biluð raftæki, sem hann flytti til Litháen, léti gera við þau þar og seldi síðan aftur. Hann sagðist ekki vita hvar A væri niðurkominn eða hvar væri hægt að ná í hann, en hann væri örugglega ekki í Litháen lengur. Hann sagði að tilgangurinn með ferðalaginu til Íslands hefði verið að skoða landið og sækja Golfbifreiðina. Ekkert hafi verið ákveðið með Citroenbifreiðina, sem þeir voru á. Fyrirmælin, sem þeir hafi fengið áður en þeir lögðu af stað, hafi verið þau að gista einhvers staðar á hóteli og síðan yrði haft samband við þá og þeim sagt hvar þeir ættu að sækja Golfbifreiðina. Hann sagði að viðkomandi hafi ætlað að hringja í farsíma, sem meðákærði, Romanas, hafi verið með.

Ákærði sagðist ekki kannast við að hafa komið til meðákærða í fylgd annars manns til að sækja vegabréf meðákærða u.þ.b. þremur dögum áður en þeir héldu af stað. Hann sagðist fyrst hafa séð meðákærða á bensínstöðinni þar sem hann fékk bifreiðina afhenta. Hann sagði að meðákærði hafi komið í fylgd annars manns, sem ákærði sagðist ekki þekkja. Hann sagðist ekki þekkja mann að nafni B og að rangt væri að hann hefði verið í sambandi við þann mann á meðan þeir dvöldu í Færeyjum. Hann sagði hins vegar að einhver hefðu alltaf verið að senda þeim SMS skilaboð og spurt hvar þeir væru og hvernig gengi. Hann sagðist ekki vita hver það hefði verið. Ekki hafi verið ljóst hvort hann átti að hringja í símanúmer, sem meðákærði hafi sagt að væri hjá B, eða hvort haft yrði samband við ákærða úr þessu númeri. Umræddir menn hafi hins vegar haft miklar áhyggjur af því að þeir kæmust ekki í gegnum tollinn. Hann sagðist ekki hafa vitað hvers vegna en fundist það mjög eðlilegt. Hann sagði að það væri rétt að tilgangur ferðarinnar til Íslands hefði verið að ná í Golfbifreið. Hann kannaðist við að kona hans væri D, f. 1983. Hann sagðist ekki hafa viljað blanda henni í málið og því sagt ósatt þegar hann sagði að hann vissi ekki hver væri skráður eigandi bifreiðarinnar.

Ákærði, Romanas, var yfirheyrður að nýju af lögreglu 8. ágúst 2005. Hann sagði að maður að nafni B, sem væri sami maður og hann hefði nefnt B í fyrri skýrslu sinni, hefði ætlað að greiða honum 250 evrur fyrir að sækja Golfbifreiðina til Íslands. Ákærði sagðist ekki þekkja hann mikið og ekki vita eftirnafn hans. B hafi vitað að ákærði tæki stundum að sér að fara til Þýskalands til að sækja bíla fyrir hina og þessa. B hafi sagt sér að vinur hans ætti vini, sem þyrftu að koma bíl frá Íslandi til Litháen. Fyrst hafi ákærði átt að fljúga til Íslands, en síðan hafi því verið breytt og honum sagt að hann ætti að fá far með einhverjum manni til Íslands.

Hann sagði að meðákærði, C, hefði hringt tvisvar sinnum í B þegar þeir voru í Færeyjum og fengið þau skilaboð að þeir ættu að bíða tvo daga áður en þeir héldu áfram til Íslands, en þá myndu einhverjir hafa samband við þá um framhaldið. Hann sagðist hafa tekið eftir því í Færeyjum að fíkniefnaleitarhundar hefðu sýnt bíl C mikinn áhuga og að C hefði orðið mjög stressaður. Greinilegt hefði verið að það var eitthvað, sem hann vildi ekki að lögreglan fyndi. Eftir að lögreglan sleppti þeim hafi C allur róast. Ákærði sagði að honum hefði fundist þetta skrítið og gengið á meðákærða, C, um að segja sér hvað gengi á. Meðákærði, C, hafi bara hlegið að honum og eytt talinu. Ákærði sagðist hafa fengið þarna sterklega á tilfinninguna að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Aðspurður sagði ákærði að C hefði hringt í konu sína og B skömmu eftir að þeir komu sér fyrir á hóteli í Færeyjum. Hann hafi einnig hringt í B skömmu eftir að þeir fóru frá Færeyjum og þá hafi B sagt að þeir ættu að hafa samband við hann eftir að þeir væru komnir í gegnum tollinn á Íslandi. Hann sagði að B hafi látið C hafa 1.400 evrur, sem áttu að duga fyrir uppihaldi þeirra beggja og hafi C varðveitt þessa peninga á leiðinni. Ákærði sagðist ekki hafa vitað hvaða erindi C átti til Íslands, en C hafi ekkert tengst því verkefni að sækja Golfbifreiðina til Íslands. Hann sagðist þó halda að C hafi heyrt það hjá B að hann, Romanas, ætti að sækja Golfbifreið til Íslands. Hann sagðist ekki hafa vitað um hvaða bifreið var að ræða fyrr en C sagði honum á ferjunni að um væri að ræða bíl af tegundinni Golf. Hann sagðist hafa hitt C í fyrsta sinn á bensínstöðinni áður en þeir lögðu af stað í ferðina. Ákærða var bent á að hann hefði áður borið um það að meðákærði C hefði komið til hans ásamt öðrum manni þremur dögum áður en þeir lögðu af stað til að ná í vegabréf. Ákærði sagði þá að hann hlyti að hafa ruglast vegna þess að hann hefði verið stressaður í yfirheyrslunni. Það hefðu verið B og E, sem komu heim til hans til að ná í vegabréfið. Ákærði sagðist ekki þekkja E, en vita að hann byggi í sama hverfi og B. Ákærði sagðist hafa hitt þá á bar u.þ.b. fimm dögum áður en þeir lögðu af stað í ferðina og þá hafi þeir beðið hann um að fara þessa ferð. Ákærði sagðist ekki þekkja mann að nafni A. Aðspurður sagðist hann ekki hafa vitað af fíkniefnunum í bifreiðinni fyrr en í tollinum á Seyðisfirði. Ákærði sagðist hafa spurt C hver ætti Citroenbifreiðina og hafi C fyrst sagt honum að hann ætti hann og síðar að hann og vinur hans ætti bílinn. Ákærði sagðist hafa átt símann, sem þeir voru með á ferðalaginu. Hann sagðist alltaf hafa rétt C símann þegar hann sá að það var B, sem hringdi. Honum hafi fundist þeir þekkjast meira þar sem B hafi látið C hafa peningana og farmiðana og því hafi honum þótt eðlilegt að þeir töluðu saman. Ákærði sagðist hafa grunað að eitthvað ólöglegt væri við þessa ferð þeirra, en aldrei fengið staðfestingu á þessum grun. Þegar leitarhundarnir í Færeyjum hefðu ekki fundið neitt sagðist ákærði hafa haldið að allt væri í lagi. Aðspurður sagðist ákærði ekkert þekkja til á Íslandi og ekki þekkja neinn hér. Ákærði sagðist núna átta sig á því að það hafi ekki verið B, sem sendi hann í þessa ferð heldur einhver annar maður, sem meðákærði, C, hafi kynnst í fangelsi í Litháen.

Ákærði, C, var yfirheyrður enn á ný af lögreglu hinn 10. ágúst 2005. Hann sagðist hafa hitt A af tilviljun á bar um mánuði áður en hann lagði af stað og þá hafi A beðið hann um að fara þess ferð. Síðar hafi A hringt í hann og spurt hann hvort hann hefði skipt um skoðun. Þegar hann hafi sagst vera tilbúinn að fara hafi A tjáð honum að vinir hans myndu hafa samband við hann til að undirbúa ferðina. Þessir menn hafi síðan hringt nokkrum sinnum í hann og viku áður en hann fór af stað hafi þeir tekið vegabréfið hans til að kaupa farmiða. Ákærði var spurður hvers vegna hann hafi ekki tekið símann sinn með, en áður hafði komið fram hjá ákærða að hann hefði verið með sama númerið síðastliðin fimm ár og í það hafi A gjarnan hringt. Sagðist hann þá ekkert hafa þurft á síma að halda og sagðist halda að það hafi átt að hringja í síma meðákærða. Hann sagðist aldrei fara með eigin síma til útlanda. Ákærði hafði áður borið að hann hafi ekki vitað að meðákærði, Romanas, kæmi með honum fyrr en rétt áður en hann lagði af stað í ferðalagið og var hann því spurður hvernig hann hafi ætlað að hafa samband við A og menn hans til að fá upplýsingar um hvert hann ætti að snúa sér þegar hann kæmi til Íslands. Sagði ákærði þá að mennirnir, sem áttu að taka á móti þeim á Íslandi, hafi átt að hafa samband við þá og að þeir hafi átt að hringja í farsíma meðákærða, Romanas. Fyrst hafi verið ætlunin að þeir fengju nýjan síma, en síðan hafi verið ákveðið að nota síma meðákærða, Romanas.

Hann sagðist ekki vita símanúmer A, enda væri hann alltaf að skipta um símanúmer. Hann sagði hins vegar að A hringdi alltaf í hann til að láta hann vita um nýtt númer. Síðar í skýrslunni sagði ákærði að A þessi hefði ekkert hringt í hann síðastliðin fjögur ár fyrr en fyrri rúmum mánuði þegar A bað hann um að fara umrædda ferð til Íslands. Þegar hann var spurður út í þetta ósamræmi sagði ákærði að hann hefði alltaf verið að hitta þennan A fyrir tilviljun úti á götu og þá hefði hann gefið ákærða upp nýtt símanúmer hjá sér. Aðspurður sagði hann að D væri eiginkona hans og að fjármál þeirra væru sameiginleg. Fram kom hjá ákærða að rétt væri að bifreiðin væri skráð á eiginkonu hans, en hann sagðist ekki vita hver væri raunverulegur eigandi bílsins. Ákærði sagðist hafa séð hann, en tók fram að það væri þó ekki A.

Ákærði bar nú að hann hefði fengið að vita það tveimur dögum áður en lagt var af stað að annar maður kæmi með honum. Hafi þeir átt að skiptast á því að keyra þar sem þetta væri svo löng leið. Hann sagðist ekki hafa orðið var við að meðákærði, Romanas, væri í sambandi við einhvern símleiðis á meðan á ferðalaginu stóð. Hann sagðist sjálfur hafa hringt úr símanum á landmærum Litháen og Póllands, en ekkert notað símann eftir það. Hann sagðist hafa keypt símakort í Færeyjum, sem hann og meðákærði, Romanas, hafi notað til að hringja í eiginkonur sínar. Aðspurður sagðist hann ekki vita hver B væri og sagði að það væri ekki rétt að hann hefði verið í stöðugu sambandi við hann á meðan á ferðalaginu stóð. Hins vegar hafi einhverjir menn, sem ákærði viti ekki hverjir eru, alltaf verið að senda skilaboð eða hringja í þá til spyrja hvernig gengi. Þeir hafi átt að láta vita reglulega af sér úr síma meðákærða eða símasjálfsölum. Hann sagði að það væri rangt, sem fram kæmi hjá meðákærða að hann hafi ekkert þekkt ákærða og aðeins fengið far með honum til að sækja Golfbifreiðina. Hið rétta sé að þeir hafi átt að sækja Golfbílinn saman, þ.e. annar hafi átt að aka Golfbílnum heim og hinn Citreonbílnum.

Ákærði, Romanas, var yfirheyrður á ný af lögreglu 11. ágúst 2005. Ákærði sagðist ekki vera á launaskrá, en hann fengi hagnað af fyrirtækjum sínum í Uzbekistan og Rússlandi. Hann sagðist ferðast á milli þessara fyrirtækja, en þegar ekki væri mikið að gera í fyrirtækjunum færi hann stundum til Þýskalands til að ná í bíla fyrir fólk. Ákærði sagðist vera kvæntur og eiga tvo drengi, 18 og 22 ára gamla. Hann sagðist hafa ráðgert að vera 10-12 daga í ferðinni til Íslands. B hafi ætlað að panta fyrir þá með ferjunni til baka. Einhver aðili, sem tæki á móti þeim á Íslandi, átti að sjá um að kaupa farmiðana og láta þá fá peninga. Aðspurður sagði hann að það væri rangt, sem meðákærði hafi borið, að hann þekkti ekki B. B hafi látið C hafa peninga og C hafi hringt í B frá Færeyjum. Hann sagði að meðákærði hafi sagt sér í ferðinni að hann og vinur hans ættu bifreiðina saman og notuðu hana eftir þörfum. Einnig hafi komið fram í samtölum þeirra að meðákærði þekkti bifreiðina mjög vel, þ.e. hann hafi vitað hversu miklu hann eyddi, hvenær þyrfti að smyrja hann o.s.frv. Þá hafi meðákærði sagt sér að hann hefði ferðast mikið, m.a. til Noregs, Svíðþjóðar og Danmerkur.

Ákærði, C, var loks yfirheyrður af lögreglu 12. ágúst 2005. Hann sagði að það væri rangt að hann og vinur hans ættu Citreonbifreiðina og að hann þekkti bifreiðina mjög vel.

Ákærði, C, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hann neitaði sök. Hann sagðist hafa komið til Íslands til sækja bíl. Maður, sem hann þekki og heiti A hafi beðið hann um þetta. Hann hafi átt að fá 400 litas greiddar fyrir ferðina, sennilega þegar hann kæmi til baka, en hafi ekkert hafa fengið greitt enn. Einhver hafi keypt farmiða fyrir þá til Íslands, en hann sagðist ekki þekkja þann, sem gerði það. Hann sagði að A hefði keypt bifreiðina og beðið hann um að skrá hana á konuna hans. Bifreiðin, sem hann átti að sækja til Íslands hafi verið af tegundinni Golf. Hann sagðist ekki vita hver ætti þá bifreið og hann hafi ekki átt að greiða fyrir bílinn. Ekki sagðist hann vita hvort ferðafélagi hans vissi um tilgang ferðarinnar. Þá sagðist hann ekki hafa vitað hvar átti að nálgast bifreiðina á Íslandi, en annað hvort yrði hringt í hann eða hann hringdi til að fá upplýsingar. Aðspurður sagðist ákærði hafa verið með síma meðferðis, þ.e. hann sagði að það hefði verið sími í bifreiðinni fyrir þá báða. Hann sagðist ekki vita hver ætti þann síma. Hann sagði að það væri rétt að bifreiðin, sem þeir komu á, væri skráð á nafn eiginkonu hans og væri búin að vera það í fimm ár og frá því áður en hann kvæntist henni. Hann sagðist ekki vita hver hefði haft umráð bifreiðarinnar í Litháen, en sagðist ekki hafa haft not af henni sjálfur. Hann sagðist hafa fengið bifreiðina afhenta sama dag og þeir lögðu af stað. Aðspurður sagðist hann hafa séð þessa bifreið áður og sagðist hafa vitað að hún væri skráð á konuna hans. Hann sagðist hafa mikla reynslu af því að fara til annarra landa og því hafi hann verið beðinn um að fara þessa ferð. Hann sagðist hafa hitt A mjög sjaldan og ekki vita frekari deili á honum. Hann sagði að A byggi ekki í Litháen og sagðist ákærði ekki vita hvar hann byggi. Hann hafi hitt hann stundum á dansleikjum. Ákærði var spurður að því af hverju hann hafi sagt lögreglu að hann hafi ekki vitað að bifreiðin væri skráð á eiginkonu hans sagði ákærði að hann hafi ekki viljað blanda eiginkonu sinni í málið. Ákærði sagðist ekki hafa útbúið leynihólfin í Citroenbifreiðinni og sagðist ekki hafa vitað af þeim. Ákærði sagðist ekki þekkja þann, sem lét hann hafa peninga til upphalds á meðan á ferðinni stæði. Hann sagðist fyrst hafa fengið að vita að meðákærði kæmi með til Íslands þegar hann fékk bifreiðina afhenta, þ.e. sama dag og þeir lögðu af stað í ferðina. Ákærða var bent á að hjá lögreglu hafi hann sagt að hann hafi vitað það tveimur dögum áður en þeir lögðu af stað að meðákærði kæmi með. Sagði ákærði þá að hann hafi fengið að vita það með tveggja daga fyrirvara að einhver kæmi með honum, en hann hafi ekki vitað hver það væri. Hann sagðist ekki þekkja meðákærða og aldrei hafa hitt hann fyrr en skömmu áður en þeir lögðu af stað í ferðina. Aðspurður um það hvaða fyrirmæli þeir hafi fengið áður en þeir lögðu af stað í ferðina sagði ákærði að þeim hafi verið sagt að fara til Íslands og sækja bifreið. Ekki hafi legið ljóst fyrir hvort þeir áttu að taka Citroen bifreiðina til baka til Litháen, en líklega hafi þeir átt að gera það. Hann sagðist ekki hafa hugsað út í það að kannski væri einfaldara að fljúga til Íslands. Hann sagðist ekki vita af hverju þeir voru sendir tveir til Íslands að sækja Golfbifreiðina, en fyrst hafi hann reiknað með að fara einn. Síðar hafi komið í ljós að annar átti að fara með honum. Aðspurður sagðist hann ekki vita hvaða fyrirmæli meðákærði hafi fengið fyrir ferðina. Hann sagðist ekki þekkja mann að nafni B. Hann sagði hins vegar að tveir menn hafi komið og náð í hann og skutlað honum á bensínstöðina þar sem bíllinn beið eftir honum. Hann sagðist hafa hringt í konuna sína á meðan á ferðinni stóð og einnig hafi hún hringt í hann. Þá hafi einhverjir menn hringt í þá og spurt þá hvernig gengi. Hann sagðist sjálfur hafa talað við þessa menn. Hann sagði að þeir meðákærði hafi dvalið tvo sólarhringa í Færeyjum. Þar sagðist hann hafa hringt í þessa menn og sagt þeim að þeir væru að leita að gistingu og að þeir myndu stoppa í tvo daga í Færeyjum, sem hafi verið breyting á fyrri áætlun, og að hann myndi hringja þegar þeir legðu af stað frá Færeyjum. Ákærða var bent á að hann hafi sagt lögreglu að hann hafi ekkert samband haft við þessa menn eftir að þeir fóru yfir landamærin við Pólland og bar ákærði fyrir þá fyrir sig að hann hafi ekki munað betur þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu. Aðspurður hvers vegna þessi breyting hafi verið gerð á ferðatilhögun sagði ákærði að þeir hafi ekki vitað af því að ferjan færi fyrst til Noregs og kæmi síðan til baka til Færeyja áður en hún færi til Íslands. Ákærði sagðist ekki hafa komið áður til Íslands. Þegar þeir kæmu til Íslands áttu þeir að finna hótel einhvers staðar, en ákærði sagðist ekki vita hvar. Aðspurður sagði ákærða að honum hafi ekki hafa fundist þetta einkennilegt fyrirkomulag á ferðalaginu. Aðspurður sagðist ákærða ekki hafa verið kunnugt um að fíkniefni væru falin í bifreiðinni og hann sagðist ekki vita hver kom þeim þar fyrir. Hann var spurður hvort hann hafi ekki grunað að ekki væri allt með feldu þegar fíknefnaleitarhundar í Færeyjum sýndu bifreiðinni áhuga. Sagði ákærði að svo hafi ekki verið enda hefði hann ekki farið í ferðina ef hann hefði verið eitthvað efins. Hann sagðist ekki hafa séð hundana eða hvernig þeir hegðuðu sér.

Þegar ákærði var spurður um það hvaða tveir menn hafi sótt hann og farið með hann á bensínstöðina þar sem bíllinn var afhentur honum, sagði ákærði að þeir hafi ekki sótt hann heldur hafi þeir beðið eftir honum á bensínstöðinni. Hann hafi ekki vitað hversu lengi þeir yrðu á ferðalaginu. Fyrst hafi þeim verið sagt að þeir yrðu eina viku að fara fram og til baka, en síðan hafi komið í ljós að þeir voru eina viku að koma sér til Íslands. Ekki hafi verið fyrirfram ákveðið hvenær eða hvaða ferju þeir tækju til baka. Mennirnir, sem áttu að taka á mót þeim á Íslandi, hafi átt að gefa þeim fyrirmæli um framhaldið. Hann sagðist ekki vita hvort það voru Íslendingar eða Litháar, sem áttu að taka á móti þeim á Íslandi. Aðspurður um þann framburð meðákærða hjá lögreglu að ákærði hafi sagt honum á ferðalaginu, fyrst að hann ætti Citroenbifreiðina og síðan að hann ætti hana með vini sínum. Ákærði sagðist ekki neita því að hann hafi sagt þetta við meðákærða, en sagðist ekki hafa neina skýringu á því nú. Þá vildi ákærði ekki tjá sig um þann framburð meðákærða hjá lögreglu að hann hafi talað þannig á leiðinni að hann hafi virst þekkja Citreon bifreiðina mjög vel.

Ákærði sagðist ekki vera með fasta atvinnu í Litháen, en sagðist fara í sendiferðir til Þýskalands. Hann sagðist aðeins hafa lokið grunnskólanámi. Hann sagðist geta framfleytt fjölskyldunni sinni með þeim launum, sem hann hafi af sendiferðunum til Þýskalands. Hann hafi að jafnaði um 700 evrur á mánuði. Hann ætti engar eignir í Litháen og skuldaði ríkinu. Hann sagði að það væri ekki erfitt fyrir sig að fá atvinnu í Litháen, hann gæti allt. Hann sagði að algengt væri að menn stunduðu þá iðju í heimalandi hans að sækja rafmagnstæki og annað til Þýskalands til endursölu í Litháen. Hann sagði að algengt væri að bílar væru ekki skráðir á þann, sem ætti þá í raun og veru. Hann sagðist hafa átt átta bíla og enginn þeirra hafi verið skráður á hans nafn. Bílar gangi kaupum og sölum, en ekkert sé spáð í það hver sé skráður eigandi. Hann sagði þó að ekki væri tilviljun að Citroenbifreiðin hafi verið skráð á nafn eiginkonu hans. Hann sagði að maður, sem hann þekki ekki, geti ekki af einhverjum ástæðum verið skráður fyrir bifreiðum og því hafi hann beðið um það að bifreiðin yrði skráð á eiginkonu hans.

Ákærði var spurður um sátt, sem hann gekkst undir í Svíþjóð vegna innflutnings á fíkniefnum, og sagði ákærði að hann hafi verið með tvær svefntöflur á sér í umrætt sinn. Þá sagði ákærði að rétt væri að hann hafi verið handtekinn tvisvar í Þýskalandi fyrir að flytja þýfi á milli landa. Einnig sagði ákærði að hann hafi setið í fangelsi í Litháen fyrir rán í verslun.

Ákærði staðfesti undirritun sína undir skýrslur, sem hann gaf hjá lögreglu 30. júní, og 8., 10. og 12. ágúst sl.

Ákærði, Romanas Strabeika, kom einnig fyrir dóminn og af skýrslu. Hann neitaði sök. Hann sagði að tilgangur ferðarinnar hafi verið að sækja bifreið til Íslands. Maður að nafni B hafi beðið hann um það. Hann sagðist hafa þekkt þennan mann í nokkur ár, en hann sagðist ekki vita hvert eftirnafn hans væri. Hann sagðist ekki vita hver átti bílinn, sem þeir voru að sækja til Íslands, en það hafi ekki verið B. Ákærði sagðist aðeins hafa spurt hvort ekki væri í lagi með bílinn, hvort honum hefði nokkuð verið stolið og hvort það væri í lagi með pappírana. Hann sagðist ekki vita á hvern bifreiðin væri skráð, en það hafi átt að koma í ljós á Íslandi. Þeim hafi verið sagt að einhver Lithái myndi taka á móti þeim þegar þeir kæmu í gegnum tollinn á Íslandi og þá fengju þeir frekari upplýsingar. Hann sagðist ekki hafa verið með símanúmer hjá þessum manni og hann sagðist ekki hafa vitað hvernig hann mundi setja sig í samband við þá Hann hafi reiknað með að meðákærði vissi meira um þetta. Hann sagðist hafa vitað um þessa ferð fjórum til fimm dögum áður en þeir lögðu af stað. Hann sagðist hafa átt að fá 1.000 litast fyrir ferðina, en hann hafi ekkert fengið greitt enn. Eigandi Golfbifreiðarinnar hafi átt að taka á móti þeim á Íslandi, greiða þeim fyrir ferðina og láta þá fá farmiða og farareyri fyrir ferðalagið heim. Hann sagðist ekki þekkja meðákærða og fyrst hafa séð hann á bensínstöðinni rétt áður en þeir lögðu af stað. Hann sagði að B hefði skutlað sér á bensínstöðina.

Aðspurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að hann teldi að meðákærði vissi meira um Golfbifreiðina á Íslandi, þ.e. hver ætti hana og hvar hún væri staðsett, sagðist ákærði ekki alveg geta staðfest þann framburð nú. Hann sagðist hafa verið mjög stressaður þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu og kannski ekki skilið allt rétt. Hann hafi hins vegar sagt að honum hafi fundist að meðákærði vissi meira um bílinn og hver ætti að taka á móti þeim. Ákærði sagðist hafa verið með eigin síma meðferðis og hafi B ætlað að hafa samband við sig á ferðalaginu. Hann sagði að B hafi hringt í þá þegar þeir voru í Póllandi og í Danmörku. Þá hafi B hringt í þá þegar þeir voru í tollinum á Íslandi. Hann sagði að síminn hafi ekki virkað í Færeyjum. Hann sagði að meðákærði hafi talað við B þegar hann hringdi. Í ljósi þess að meðákærði hefur borið að hann kannist ekki við mann að nafni B var ákærði spurður hvers vegna meðákærði hafi talað við B, en ekki hann sjálfur, sem þó þekkti B. Ákærði kvaðst ekki vita hversu vel meðákærði og B þekktust, en þegar hann hafi komið á fyrrnefnda bensínstöð, þaðan sem þeir lögðu af stað, hafi B talað við meðákærða og afhent honum farmiða og peninga til ferðarinnar og hafi þeir virst þekkjast. Aðspurður kvaðst ákærði ekki þekkja mann að nafni A. Ákærði var spurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að fíkniefnaleitarhundar í Færeyjum hafi sýnt Citreonbifreiðinni áhuga og sagði hann þá að kannski hafi lögreglumennirnir ekki skilið hann rétt, því hann hafi sagst hafa séð þrjá til fjóra hunda skoða bílinn og þeir hafi gengið í kringum bílinn. Hann staðfesti að honum hafi fundist meðákærði stressaður meðan á þessu stóð. Hann sagði að meðákærði hafi staðið við hliðina á bílnum og það sé ekki möguleiki að hundarnir hafi farið fram hjá honum. Hann sagðist ekki þekkja hegðun fíkniefnaleitarhunda og hann geti því ekki sagt til um hvort þeir sýndu bifreiðinni mikinn áhuga eða ekki. Hann sagðist ekki hafa rætt þetta við meðákærða eftir tollskoðunina, þ.e. að hann hafi virst stressaður á meðan á henni stóð. Ákærði sagðist hafa spurt meðákærða áður en þeir lögðu af stað og nokkrum sinnum á leiðinni hvort eitthvað ólöglegt væri í bifreiðinni eða eitthvað, sem ekki mætti fara með á milli landa og hafi meðákærði ávallt neitað því. Þegar hundarnir hafi ekki fundið neitt við tollskoðun í Færeyjum hafi meðákærða sagt við hann að þetta sýndi að ekkert ólöglegt væri í bílnum og að hann þyrfti ekki að óttast neitt. Ákærði sagðist hafa spurt meðákærða hver ætti bifreiðina og hafi meðákærði þá fyrst sagt að hann ætti bílinn, en síðan hafi hann sagt stuttu síðar að hann og vinur hans ættu bílinn saman og notuðu hann eftir þörfum. Hann sagði að meðákærði hafi setið í bílnum á bensínstöðinni þegar hann kom þangað í fylgd B. Ákærði staðfesti að hafa borið fyrir lögreglu að meðákærði hafi orðið stressaður þegar fíkniefnaleitarhundar skoðuðu bifreiðina og að hann hafði greinilega séð á honum að það var eitthvað, sem hann vildi ekki að lögregla fyndi. Enn fremur að meðákærði hafi róast mikið þegar tollskoðuninni lauk. Loks staðfesti hann að hafa borið fyrir lögreglu að hann hafi fengið mjög sterka tilfinningu fyrir því að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Hann sagðist vera sammála þessum framburði en kannski myndi hann orða þetta á annan hátt nú.

Ákærði var spurður hvort hann hafi haft ástæðu til að halda að eitthvað ólöglegt væri í bílnum fyrst hann spurði meðákærða að því á leiðinni. Ákærði sagðist í fyrsta lagi ekkert hafa þekkt meðákærða og í öðru lagi hafi þeir átt að fara yfir mörg landamæri því hafi hann viljað hafa þetta alveg á hreinu. Hann sagðist staðfesta það, sem eftir honum væri haft í lögregluskýrslu að hann hafi fengið á tilfinninguna að meðákærði þekkti vel til Citreonbifreiðarinnar.

Ákærði kvaðst ekki hafa vitað af fíkniefnunum í bílnum og ekki vita hver kom þeim þar fyrir. Ákærði kvaðst halda að hann hafi verið leiddur í gildru. Eftir á að hyggja telji hann að það hafi verið álitið hentugt að nota hann í svona ferð þar sem hann sé kominn yfir miðjan aldur. Aðspurður sagðist hann ekki vera alveg viss við hvað B fengist, en sagði halda að hann fengist við það að selja notaða bíla. Hann sagðist aðspurður ekki skulda neinum neitt. Hann sagðist taka það að sér að sækja bíla til annarra landa og sagði hann að B vissi af því í gegnum sameiginlega kunningja. Hann staðfesti að hafa sagt lögreglu að hann gæti bent á húsið, þar sem B búi í Kaunas, án nokkurs vafa, ef hann fengi götukort af bænum. Lögregla hafi hins vegar aldrei beðið hann um að benda á húsið. Hann sagðist hafa hitt B fyrir utan húsið hjá honum, en ekki farið inn til hans, og hann muni ekki hvað gatan heiti. Ágætis kunningsskapur sé á milli þeirra og þeir eigi sameiginlega vini. Hann staðfesti það, sem fram kæmi hjá lögreglu að hann hafi farið í ferðina til Íslands að beiðni B, en fyrir vin hans, sem ákærði sagðist ekki þekkja. Hann sagði að honum hafi ekki þótt neitt óeðlilegt við fyrirkomulag ferðarinnar og sagðist hafa treyst þessu fólki, sem hafi greitt fyrir hann fargjaldið og látið hann fá peninga fyrir uppihaldi, þ.e. að einhver tæki á móti þeim hér á landi og greiddi götu þeirra. Hann sagðist hafa farið í svona sendiferð áður þar sem hann hafi fengið frekari fyrirmæli á leiðinni um framhaldið, t.d. hvar hann eigi að sækja bíla, hvað hann eigi að borga fyrir þá o.s.frv.

Ákærði kvaðst ekki þekkja meðákærða og hafa fyrst hitt hann á bensínstöðinni í Kaunas áður en þeir lögðu af stað. Hann sagði að B og E hafi hitt hann á barnum og beðið hann um að fara í ferðina. Þeir hafi síðan komið heim til hans og fengið hjá honum vegabréfið svo að þeir gætu keypt farmiða. Þeir tveir hafi síðan skutlað honum á bensínstöðina þar sem hann hitti meðákærða. Hann sagðist þekkja E betur en B. Hann sagðist ekki geta staðfest að E sé sá vinur B, sem áður hafi verið nefndur og ferðin hafi verið farin fyrir. B hafi afhent þeim peninga til uppihalds á ferðalaginu, en hann sagðist hins vegar ekki vita hver hafi átt peningana. Hann sagði að upphaflega hafi hann átt að fljúga til Íslands, en þegar þeir hafi komið að ná í vegabréfið til hans hafi þeir tjáð honum að það væri maður að fara til Íslands og hann gæti fengið far með honum. Ákærði sagðist búa í sama hverfi og B og E og hann gæti bent á hvar sá síðarnefndi býr ef hann fengi kort af borginni. Hann sagðist ekki vita hvort hann og meðákærði voru sendir af sömu mönnunum í sendiferðina til Íslands. Fyrirmælin, sem hann hafi fengið fyrir ferðina, hafi verið þau að ná í bíl til Íslands, sem væri í eigu Litháa. Honum hafi þótt þetta mjög spennandi þar sem ferðir og upphald var greitt fyrir hann og hann hafi ekki átt kost á að ferðast til lands eins og Íslands að öðrum kosti. Hann hafi verið beðinn um að fara til Íslands til að sækja Golfbifreið. Hann sagðist hafa spurt meðákærða hvað hann væri að gera til Íslands og hafi hann þá sagt að hann ætti erindi til Íslands en hann vildi ekki segja honum hvað það væri. Það hafi fyrst verið við handtöku þeirra, sem hann hafi heyrt meðákærða tala um að hann ætti líka að sækja sömu bifreið.

Ákærði sagðist eiga hlut í tveimur fyrirtækjum í Rússlandi og Uzbekistan og lifa af hagnaði af þeim fyrirtækjum. Hann sagðist ekki hafa verið í fastri vinnu, en það sé heilmikil vinna að fylgjast með rekstri fyrirtækjanna. Um sé að ræða gosdrykkjarframleiðslu og fiskvinnslu í Uzbekistan, en í Rússlandi eigi hann áfengisheildsölu. Hann sagðist framfleyta sex manna fjölskyldu með þessum tekjum.

Vitnið, Jóhann Freyr Aðalsteinsson, deildarstjóri Tollgæslu á Seyðisfirði, kom fyrir dóminn og lýsti því þegar ákærðu komu til landsins með farþegaferjunni Norrænu. Hann sagði að fíkniefnaleitarhundarnir hafi strax merkt ákveðið við hægra afturhjól bifreiðarinnar. Hann lýsti því hvar fíkniefnin voru falin í bifreiðinni og hvernig búið var um þau. Hann sagði að mjög erfitt hefði verið að sjá að fíkniefni væru falin í bifreiðinni og að greinilega hafi verið mikið fyrir því haft að koma þeim fyrir í bifreiðinni. Hann sagði að í bílnum hafi fundist þrír eða fjórir staðir í viðbót, sem tollverðir álitu að hafi verið útbúnir til að smygla einhverju með bifreiðinni.

Vitnið, Guðni Markús Sigmundsson, sérhæfður tollvörður og hundaþjálfari hjá Tollstjóranum í Reykjavík, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hann lýsti því hvernig fíkniefnaleitarhundur hans merkti ákveðið framan við hægra afturhjól Citreonbifreiðarinnar. Fleiri hundar hafi verið kallaðir til og þeir hafi allir merkt ákveðið við á sama stað. Hann sagði að fíkniefnin hafi síðan fundist í þeim bita, sem hundarnir hafi merkt við. Hver eining hafi verið í nokkrum plastpokum, sem hafi verið vættir í sítrusolíu, sem talin sé vill um fyrir leitarhundum, en svo sé ekki í raun. Hann sagði að ytri aðstæður gætu haft áhrif á það hvort leitarhundur finnur lykt af fíkniefnum eða ekki, t.d. skipti máli hvort bifreiðin væri utandyra eða ekki þegar leit fer fram og þá hvort úti sé vindur eða logn o.s.frv., en þessi atriði og fleiri gætu komið í veg fyrir að hundurinn næmi lyktina.

Vitnið, Gunnar Sæmundsson, tollvörður, sagðist hafa tekið þátt í því að leita í bifreið ákærðu. Hann lýsti leitinni að fíkniefnunum í bifreiðinni eftir að hundarnir merktu við hægra afturhjól bifreiðarinnar. Hann sagði að langan tíma hefði tekið að komast að fíkniefnunum. Þá lýsti hann umbúnaði fíkniefnanna og hvernig farið var að því að ná þeim út úr burðarbitanum. Hann staðfesti að sérstaklega útbúnar málmplötur hefðu verið notaðar til að loka burðarbitanum.

III.

Niðurstaða.

Lögfull sönnun hefur verið færð fyrir því að fíkniefni þau, sem greinir í ákæru, fundust við leit í Citreonbifreið með skráningarnúmerinu [...], sem ákærðu fluttu með sér til landsins með farþegaferjunni Norrænu. Ákærðu komu um borð í ferjuna í Danmörku, en þangað höfðu ákærðu ekið frá föðurlandi sínu Litháen. Voru fíkniefnin falin í sérstaklega útbúnu geymsluhólfi í járnbita í undirvagni bifreiðarinnar. Ákærðu kannast hvorugir við að hafa átt umrædd fíkniefni né að hafa verið um það kunnugt að þau væru falin í bifreiðinni. Hafa þeir báðir borið að tilgangur ferðar þeirrar til Íslands hafi verið sá að sækja aðra bifreið af gerðinni Golf. Þeir hafa þó hvorugir getað gert frekari grein fyrir þeirri bifreið eða eiganda hennar eða í hvers þágu þeir áttu að sækja bifreiðina.

Gætt hefur ósamræmis í framburði ákærðu hér fyrir dómi og hjá lögreglu í mörgum atriðum.

Ákærði, C, sem var ökumaður bifreiðarinnar, bar fyrir lögreglu að einhver, sem hann sagðist ekki þekkja, hefði afhent honum umrædda Citreonbifreið á bensínstöð í Kaunas í Litháen. Hann sagðist ekki vita hver væri skráður eigandi bifreiðarinnar. Síðar viðurkenndi ákærði að bifreiðin væri skráð á nafn eiginkonu hans, þ.e. eftir að rannsókn lögreglu hafði leitt það í ljós. Gaf ákærði þá skýringu á breyttum framburði sínum um þetta atriði að hann hefði ekki viljað blanda konu sinni í málið. Þá bar ákærði fyrir lögreglu að hann vissi ekki hvað raunverulegur eigandi bifreiðarinnar héti. Hann hefði þó séð hann, en tók fram að það væri ekki kunningi hans, A. Hér fyrir dómi bar ákærði hins vegar að A hefði keypt bifreiðina og beðið hann um að skrá hana á eiginkonu ákærða. Bifreiðin hefði verið skráð á eiginkonu hans síðastliðin fimm ár. Meðákærði, Romanas, hefur borið hér fyrir dómi og hjá lögreglu að ákærði, C, hafi tjáð honum á leiðinni að hann ætti bifreiðina með vini sínum. Þegar þessi framburður Romanas var borinn undir ákærða fyrir dómi sagðist hann ekki neita því að hafa sagt þetta við meðákærða. Hann hefði hins vegar enga skýringu á því nú hver vegna hann hefði sagt þetta. Einnig hefur ákærði, Romanas, borið að honum hafi fundist meðákærði þekkja bifreiðina vel, t.d. vitað hversu miklu hún eyddi, hvenær ætti að smyrja hana o.s.frv. Um þennan framburð meðákærða vildi ákærði, C, ekki tjá sig fyrir dómi. Með vísan til alls framangreinds þykir sannað ákærði, C, hafi verið vel kunnugur umræddri bifreið og haft umráð hennar áður. Fram kemur í skýrslu lögreglu að í bifreiðinni höfðu verið útbúin nokkur leynihólf, sem álíta verði að hafi verið útbúin til að smygla varningi með bifreiðinni. Þykir þetta benda til þess að bifreiðin hafi verið notuð áður í svipuðum tilgangi.

Upphaflega tjáði ákærði, C, lögreglu að fyrrnefndur A hefði beðið hann um að flytja Citreonbifreiðina til Íslands og afhenda hana hér mönnum, sem ákærði kunni engin deili á. Þeir meðákærði hafi síðan átt að fá afhenta nýlega Golfbifreið og flytja hana ásamt Citroenbifreiðinni til baka til Litháen. Síðar bar ákærði að tilgangur ferðarinnar hefði verið sá að sækja Golfbifreiðina og skoða landið, en ekkert hefði hins vegar verið ákveðið með Citreonbifreiðina. Hér fyrir dómi sagði ákærði að ekki hefði legið ljóst fyrir hvort þeir áttu að flytja Citreonbifreiðina aftur út til Litháen eða ekki, en líklega hefðu þeir þó átt að gera það.

Verulegs ósamræmis hefur gætt í framburði ákærðu varðandi tildrög ferðarinnar og hvenær fundum þeirra bar fyrst saman. Ákærði Romanas, bar upphaflega fyrir lögreglu að meðákærði hefði komið til hans ásamt öðrum manni þremur dögum áður en þeir lögðu af stað og sótt vegabréf ákærða. Síðar sagði ákærði að hann hefði fyrst hitt meðákærða á bensínstöðinni skömmu áður en þeir lögðu af stað. Ákærði hefur engar haldbærar skýringar gefið á þessu ósamræmi. Ákærði, C, hefur hins vegar ekki kannast við að hafa komið til meðákærða, Romanas, tveimur dögum fyrir brottför til að ná í vegabréf. Í fyrstu bar ákærði, C, fyrir lögreglu að hann hefði fyrst séð ákærða skömmu áður en þeir lögðu af stað og að hann hefði ekkert þekkt hann. Síðar sagði ákærði að hann hefði fengið að vita tveimur dögum áður en hann lagði af stað að annar maður færi með honum til Íslands. Hér fyrir dómi sagðist ákærði ekki hafa fengið að vita að meðákærði kæmi með til Íslands fyrr en skömmu áður en lagt var af stað. Þegar honum var bent á ofangreint ósamræmi sagði ákærði að hann hefði fengið að vita með tveggja daga fyrirvara að annar maður færi með honum, en hann hefði ekki vitað hver það væri.

Þá sagði ákærði, Romanas, í fyrstu að maður að nafni B hefði beðið hann um að fara með meðákærða til Íslands til að sækja Golfbifreið. Þegar ákærði var yfirheyrður öðru sinni af lögreglu sagði ákærði að maður, sem hann hefði áður nefnt B héti í raun B. Ákærði staðfesti fyrir dómi að maðurinn héti B, en kvaðst ekki geta veitt frekari upplýsingar um hann. Í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu sagði ákærði að hann hefði ekki tekið neina greiðslu fyrir ferðina, enda hefði hann litið á þetta sem spennandi tækifæri til að komast til Íslands. Farmiðar og uppihald hefði þó verið greitt fyrir þá meðákærða. Síðar bar ákærði fyrir lögreglu að B hefði ætlað að greiða honum 250 evrur fyrir að sækja bifreiðina og staðfesti ákærði fyrir dómi að hann hefði átt að fá greiðslu fyrir ferðina eða 1.000 litas. Er ákærði var yfirheyrður öðru sinni af lögreglu sagði hann að meðákærði hefði ekkert tengst því verkefni að sækja Golfbifreiðina og hann hefði ekki vitað hvaða erindi meðákærði átti til Íslands. Í annan stað, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, hefur ákærði einnig borið að hann hafi reiknað með að meðákærði hefði meiri vitneskju um það en hann hvar þeir ættu að skila af sér Citreonbifreiðinni og fá Golfbifreiðina afhenta. Einnig hefur hann borið að meðákærði hafi átt að hringja í B þegar til Íslands væri komið og fá fyrirmæli um framangreint.

Ákærðu ber ekki saman um hvaða samskipti þeir áttu símleiðis við menn í Litháen á meðan á ferðinni til Íslands stóð. Ákærði, Romanas, hefur borið að meðákærði hafi hringt í B frá Færeyjum í tvígang. Einnig hafi hann átt að hafa samband við B eftir að þeir væru komnir í gegnum tollinn á Íslandi. Þá hafi þeir meðákærði og B ræðst við á bensínstöðinni í Kaunas og B afhent meðákærða farmiða og farareyri þeirra. Ákærði, C, hefur hins vegar ekki kannast við mann að nafni B og hefur neitað því að hafa átt samskipti við hann símleiðis á leiðinni. Þá hefur ákærði borið að hann hafi ekki þekkt þann, sem afhenti honum farmiða og peninga til upphalds á leiðinni.

Ákærði, C, hefur borið að menn hér á landi, sem átt hafi að taka á móti þeim hér á landi, hafi ætlað að setja sig í samband við þá þegar þeir væru komnir til Íslands, þ.e. með því að hringja í síma meðákærða. Áður hafði ákærði hins vegar borið að hann hefði ekki vitað fyrr en rétt áður en lagt var af stað að meðákærði kæmi með honum til Íslands og að hann hefði síma meðferðis. Sjálfur sagðist ákærði hins vegar ekki hafa verið með síma meðferðis, enda tæki hann aldrei símann sinn með sér til útlanda. Fyrir dómi sagði ákærði hins vegar að það hefði verið sími í bifreiðinni fyrir þá báða, en sagðist ekki vita hver ætti þann síma.

Ákærði, Romanas, hefur viðurkennt að hafa haft grunsemdir um það að eitthvað ólöglegt væri við ferðina. Einnig að hann hafi tekið eftir að meðákærði hafi verið mjög stressaður þegar fíkniefnaleitarhundar voru látnir skoða bifreiðina í Færeyjum.

Ákærðu hafa báðir borið að þeir hafi farið til Íslands að beiðni kunningja sinna. Ákærði C, að beiðni manns að nafni A og ákærði, Romans, að beiðni manns að nafni B, en hvorugur hefur getað gert viðhlítandi grein fyrir mönnum þessum eða öðrum þeim, sem þeir segja að hafi komið að skipulagningu ferðarinnar. Þá kannast hvorugur við kunningja hins.

Með vísan til alls ofangreinds þykja skýringar ákærðu á tildrögum þess að þeir tóku að sér að fara til Íslands, báðir gegn greiðslu, svo og erindi þeirra hingað til lands óljós og gætir misræmis í frásögn þeirra. Þá hefur framburður ákærðu um margt verið óstöðugur og tekið breytingum, sem ákærðu hafa ekki gefið haldbæra skýringu á. Loks eru skýringar þeirra ekki studdar tilvísun til manna, sem gætu rennt undir þær stoðum. Þá þykir sérstaklega tortryggilegt að ákærðu hafi verið sendir tveir á bifreið til Íslands til að ná í aðra bifreið, sem hér var. Einnig að þeir hafi átt að afhenda Citreon bifreiðina mönnum hér á landi, sem þeir hafa enga grein getað gert fyrir, og flytja hana að svo búnu aftur út til Litháen ásamt Golfbifreiðinni. Með vísan til framangreinds þykir framburður ákærðu hér fyrir dómi afar tortryggilegur og ótrúverðugur og þykir sýnt að hann sé yfirvarp eitt. Telur dómurinn að ákærðu hafi vitað að fíkniefni þau, sem um getur í ákæru, hafi verið falin í bifreiðinni og að þau hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi, en hér var um mikið magn að ræða.

Brot ákærðu er stórfellt og varðar við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði, Romanas Strabeika, hefur ekki áður gerst brotlegur svo kunnugt sé.

Samkvæmt upplýsingum frá Interpol gekkst ákærði, C, undir sektargreiðslu í Svíþjóð fyrir minniháttar innflutning á fíkniefnum á árinu 2003 og hefur hlotið dóm í Litháen fyrir þjófnað. Þá mun ákærði vera á skrá lögreglu í Þýskalandi vegna ráns og verslunar með þýfi.

Við ákvörðun refsingar ber að hafa í huga að með háttsemi sinni stefndu ákærðu að því að koma í dreifingu hér á landi miklu magni hættulegra vímuefna. Aðferðin við innflutninginn ber vott um þaulskipulagt brot, en fíkniefnunum hafði haganlega verið komið fyrir í sérstaklega útbúnu geymsluhólfi í járnbita í undirvagni bifreiðarinnar. Að þessu virtu og með hliðsjón af 1., 3., 6., og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingunni skal koma gæsluvarðhaldsvist, sem ákærðu hafa sætt frá 1. júlí 2005.

Að kröfu ákæruvaldsins og í samræmi við 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 ber að gera upptæk 3.986,80 g af metamfetamíni.

Einnig er fallist á þá kröfu ákæruvaldins að bifreiðin [...], sem notuð var til að flytja framangreind fíkniefni til landsins og er sérstaklega útbúin til smygls á varningi verði gerð upptæk með vísan til 6. mgr. 5. gr. sömu laga.

Ákærði, C, greiði skipuðum verjanda sínum, Bjarna Lárussyni hdl., 400.000 krónur í málsvarnarlaun og er þar með talinn virðisaukaskattur.

Ákærði, Romanas, greiði skipuðum verjendum sínum, Jóni Jónssyni hdl. 85.000 krónur og Friðbirni Garðarssyni hdl., 400.000 krónur í málsvarnarlaun og er þar með talinn virðisaukaskattur. Annað sakarkostnað að fjárhæð 10.670 krónur greiði ákærðu óskipt.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri. Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, C, sæti fangelsi í 3 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá og með 1. júlí 2005 komi til frádráttar refsingunni.

Ákærði, Romanas Strabeika, sæti fangelsi í 3 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá og með 1. júlí 2005 komi til frádráttar refsingunni.

Upptæk skulu gerð til ríkissjóðs 3.986,80 g af metamfetamíni og bifreiðin SKM 807.

Ákærði, C, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Lárussonar hdl., 400.000 krónur.

             Ákærði, Romanas, greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, Jóns Jónssonar hdl., 85.000 krónur, og Friðbjörns Garðarssonar hdl., 400.00 krónur.