Hæstiréttur íslands

Mál nr. 502/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samaðild
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 18

 

Mánudaginn 18. nóvember 2002.

Nr. 502/2002.

Valborg Eby Þorvaldsdóttir og

Erla Steingrímsdóttir

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Engilbert Hannessyni og

Einari M. Kristjánssyni

(Gunnar Sæmundsson hrl.)

 

Kærumál. Samaðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Máli um landamerki milli tveggja spildna var vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að dómur í því myndi jafnframt ráða mörkum lóðar þriðja manns, sem var ekki stefnt í málinu, gagnvart spildu stefnenda.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 4. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. október 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmdar til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Valborg Eby Þorvaldsdóttir og Erla Steingrímsdóttir, greiði í sameiningu varnaraðilum, Engilbert Hannessyni og Einari M. Kristjánssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. október 2002.

                Mál þetta var höfðað 5. mars 2002 og tekið til úrlausnar 10. október sama ár. Stefnendur eru Valborg Eby Þorvaldsdóttir, Leifsgötu 4 í Reykjavík, og Erla Steingrímsdóttir, Eskihlíð 18a í Reykjavík, en stefndi er Engilbert Hannesson, Bakka II í Ölfusi. Málið var einnig höfðað 4. mars 2002 á hendur Einari M. Kristjánssyni, Asparlundi 5 í Garðabæ, og honum stefnt til að gæta hagsmuna sinna í málinu.

                Í málinu deila aðilar um landamerki tveggja spildna úr jörðinni Bakka I, annars vegar spildu í eigu stefnenda og hins vegar spildu í eigu stefnda Engilberts. Krefjast stefnendur að mörk spildnanna verði dregin eftir gömlum sýsluvegi og að stefndu verði gert að greiða málskostnað. Stefndi Engilbert krefst sýknu af kröfum stefnenda og að þeim verði gert að greiða málskostnað. Stefndi Einar gerir einnig kröfu um málskostnað úr hendi stefnenda.

I.

                Með afsali 22. júní 1945 eignaðist Þorvaldur Sigurðsson, faðir stefnanda Valborgar og tengdafaðir stefnanda Erlu, hálfa jörðina Bakka í Ölfusi, svonefndan Bakka I. Þau systkinin Valborg, Pétur og Snorri eignuðust síðan jörðina Bakka I eftir föður sinn með afsali 31. desember 1951, en stefnandi Erla er ekkja Péturs og situr í óskiptu búi eftir hann.

                Hinn 26. júlí 1948 fóru fram landskipti milli Bakka I og II. Með skiptagerðinni kom meðal annars í hlut Bakka I „land norðan þjóðvegar, sem takmarkast að austan við landamerki Riftúns og að vestan við landamerki Gerðakots norður að gömlum sýsluvegi.“

                Árið 1974 keypti stefndi Engilbert hlut Snorra Þorvaldssonar í jörðinni Bakka I. Hinn 24. júní sama ár varð síðan að samkomulagi að systkinin Pétur og stefnandi Valborg gengju inn í kaupin að því tilskyldu að stefndi Engilbert héldi „landi því er afmarkast af Þorlákshafnarvegi að sunnan, Gerðakoti að vestan, gamla sýsluvegi eða fjallsrótum að norðan og Riftúnslandi að austan úr landareign Bakka I“. Í samkomulaginu er tekið fram að með spildunni séu stefnda Engilbert greidd ómakslaun vegna samningsins við Snorra. Í framhaldi af umræddu samkomulagi gerðu stefndi Engilbert og eigendur Bakka I með sér samning 30. september 1977 um að stefndi fengi til viðbótar íbúðarhús að Bakka I ásamt 1.200 fermetra lóð undir húsinu. Í samningnum segir að íbúðarhúsið og spildan samkvæmt samkomulaginu frá 1974 verði talin 1/6 úr jörðinni Bakka I.

                Í kjölfar þessara viðskipta reis ágreiningur með aðilum um hvort stefndi Engilbert hefði fengið í sinn hlut samsvarandi hlutdeild í óskiptu landi og hlunnindum jarðarinnar Bakka I. Af því tilefni höfðuðu stefnandi Valborg og bróðir hennar Pétur mál á hendur stefnda Engilbert til viðurkenningar á eignarétti sínum að jörðinni með óskertum gögnum og gæðum að undanskilinni spildunni, sem stefndi fékk með samkomulaginu frá 1974 og lóðinni undir íbúðarhúsið samkvæmt samningnum frá 1977. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar 3. febrúar 1984, í máli nr. 44/1982, þar sem fallist var á kröfu stefnanda Valborgar og Péturs um að stefndi Engilbert hefði ekki öðlast hlutdeild í óskiptum gögnum og gæðum jarðarinnar. Í forsendum dóms Hæstaréttar segir að því hafi verið lýst í málflutningi fyrir réttinum af hendi stefnanda Valborgar og Péturs að ekki væri neinn ágreiningur um mörk spilda stefnda og að þau telji mörk öll ótvíræð. Í dómsorði er spilda sú sem stefndi Engilbert fékk með samkomulaginu frá 24. júní 1974 afmörkuð á sama veg og þar greinir í samræmi við dómkröfur stefnanda Valborgar og Péturs bróður hennar.

                Með skiptagerð 14. september 1989 fóru fram landskipti á sameignarlandi svonefndrar Hjallatorfu á Neðrafjalli. Til skipta kom landsvæði á Neðrafjalli innan landgræðslugirðingar og vestan hennar og svæði sunnan girðingar í brekkum. Í skiptagerðinni er tekið fram að ekki sé ágreiningur um landamerki. Við skiptin kom sitt hvor spildan í hlut Bakka I og Bakka II norðvestur af spildu þeirri sem stefndi Engilbert fékk með samkomulaginu frá 1974, annars vegar spilda til suðvesturs í hlut Bakka II og hins vegar spilda til norðausturs í hlut Bakka I. Í málinu er ágreiningur með aðilum um landamerki milli spildu stefnda Engilberts, sem hann fékk úr jörðinni Bakka I árið 1974, og spildu þeirri sem kom í hlut Bakka I við umrædd landskipti. Halda stefnendur því fram að landamerkin séu við gamla sýsluveginn, en stefndi Engilbert að merkin liggi norðvestar um girðingu, sem liggi í línu á milli vegarins og fjallsróta.

                Landskiptagerðinni var skotið til yfirmats og í tilefni af því ritaði Þorvaldur Pétursson, sonur stefnanda Erlu, bréf 2. október 1995 fyrir hönd stefnenda til Sýslumannsins á Selfossi. Í bréfinu vísar Þorvaldur til starfa yfirlandskiptanefndar og kveðst hafa skoðað gögn, sem nefndin hafi sent út og unnin séu af Landkostum. Þar sé meðal annars að finna kort sem sýni uppdrátt að spildum, sem Bakki I og Bakki II eigi að fá ofan við svonefndan Gamla sýsluveg. Þar séu mörkin dregin við einhverja gamla girðingu í miðri hlíðinni (brekkunni) í stað þess að vera sett með Gamla sýsluveginum. Þess sé getið í landskiptagerð frá 1948 að land Bakka I hafi náð upp að Gamla sýsluvegi og því séu landamerkin þar en ekki í einhverri girðingu uppi í hlíðinni. Í seinni tíð hafi svo verið gerð skipti á þessu landi milli núverandi þjóðvegar og Gamla sýsluvegar, en ljóst sé að mörkin liggi enn við gamla sýsluveginn og því sé all nokkur landræma, sem eigi að koma inn í skiptin ofan við sýsluveginn gamla. Í yfirlandskiptagerð 16. október 1996 er bréf Þorvaldar rakið efnislega en ekkert vikið frekar að því sem þar kemur fram.

                Hinn 25. ágúst 1985 gerði stefndi Engilbert lóðarleigusamning við Kristján Teitsson, föður Einars M. Kristjánssonar, sem einnig er stefnt í málinu, um 1.440 fermetra lóð undir sumarbústað í landi jarðarinnar Bakka I. Stefndi Engilbert seldi síðan umræddum Einari lóð á sama stað með kaupsamningi og afsali 31. desember 1999, en þar er lóðin sögð vera 7.557 fermetrar. Lóð þessi liggur milli gamla sýsluvegarins og girðingarinnar eða á mörkum spildna málsaðila, en stefnendur halda því fram að með sölunni hafi stefndi Engilbert ráðstafað hluta af spildu þeirra.

                Með kaupsamningi 17. nóvember 1998 og afsali 5. janúar 1999 seldu stefnendur allt land jarðarinnar Bakka I sunnan Þorlákshafnarvegar. Stefnendur seldu síðan allt land Bakka I í óskiptu fjalllendi jarðarinnar með kaupsamningi 31. ágúst 2001. Eftir þá sölu eiga stefnendur aðeins litla spildu úr jörðinni í fjallshlíðinni milli landamerkja Riftúns og Gerðarkots að landgræðslugirðingu til norðvesturs og til suðausturs að spildu stefnda, en þar liggja umdeild landamerki milli spildna málsaðila.                

II.

Við landskipti 26. júlí 1948 milli jarðanna Bakka I og Bakka II kom landspilda ofan þjóðvegar í hlut Bakka I. Í landskiptagerðinni segir að merki spildunnar til norður markist af „gömlum sýsluvegi“. Með samkomulagi 24. júní 1974 fékk stefndi Engilbert umrædda spildu, en þar segir að til norðurs markist spildan af „gamla sýsluvegi eða fjallsrótum“. Með landskiptagerð 14. september 1989 og yfirlandskiptagerð 16. október 1996 kom síðan í hlut Bakka I spilda til norðvesturs að nefndri spildu, sem stefndi Engilbert fékk árið 1974. Í málinu deila aðilar um landamerki þessara spildna, en stefnendur halda því fram að þau liggi um gamlan sýsluveg. Stefndi Engilbert heldur því hins vegar fram að merkin ráðist af svonefndri Hjallahverfisgirðingu, sem liggur nokkru norðvestar milli sýsluvegarins og fjallsróta.

Hinn 25. ágúst 1985 gerði stefndi Engilbert samning við Kristján Teitsson um leigu á 1.440 fermetra lóð undir sumarhús. Að Kristjáni látnum afsalaði síðan stefndi Engilbert lóðinni til Einars sonar Kristjáns 31. desember 1999, en þá var lóðin sögð vera 7.557 fermetrar. Í málinu liggja ekki fyrir nákvæm mörk umræddrar lóðar með tilliti til umræddra spildna úr jörðinni Bakka I. Þó skýrðist nánar við vettvangsgöngu fyrir aðalmeðferð málsins 10. október sl. að sumarhúsið og lóðin liggja á milli gamla sýsluvegarins og Hjallahverfisgirðingarinnar. Er því ljóst að stefndi hefur selt verulegan hluta af umdeildu landi ef ekki alla spilduna norðvestan gamla sýsluvegarins. Af þeim sökum var nauðsynlegt samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, að málið væri einnig höfðað á hendur Einari M. Kristjánssyni og þess krafist að honum yrði gert að þola dóm um merki spildnanna, sem jafnframt ráða mörkum lóðar hans gagnvart spildu stefnenda.

Í stefnu segir að málið sé höfðað á hendur stefnda Engilbert og Einari M. Kristjánssyni, en þeim síðarnefnda sé „stefnt til að gæta hagsmuna sinna í málinu“. Í greinargerð stefndu segir síðan að réttargæslustefndi Einar neyti réttar síns samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 til að afla gagna í málinu og flytja það af sinni hendi að því leyti sem það varði hann að lögum. Við fyrirtöku málsins hefur síðan ætíð verið vísað til Einars sem réttargæslustefnda án þess að það sætti andmælum af hálfu stefnenda fyrr en við aðalmeðferð málsins, en þá var því haldið fram að Einari væri stefnt til að þola dóm í málinu. Með hliðsjón af þeim grundvelli sem málinu er markaður í stefnu og farvegi þess síðan eru þessi mótmæli stefnenda of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, og er því óhjákvæmilegt að líta svo á að Einari sé einungis stefnt í málinu til réttargæslu. Svo sem hér hefur verið rakið er sú aðild málsins til varnar ófullnægjandi og verður því að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Málskostnaður verður ekki úrskurðaður.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.