Hæstiréttur íslands
Mál nr. 705/2015
Lykilorð
- Ærumeiðingar
- Opinberir starfsmenn
- Ákæra
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. september 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að 6. lið ákæru 15. september 2014 og framhaldsákæru 16. október sama ár verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af sakargiftum samkvæmt fyrrgreindum ákærulið og einkaréttarkröfu vísað frá dómi, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. maí 2013 til 4. desember 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
I
Með ákæru ríkissaksóknara 15. september 2014 voru ákærða gefnar að sök ærumeiðandi aðdróttanir gegn opinberum starfsmanni, sem vörðuðu við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa 15. maí 2013 viðhaft og birt nánar tilgreind ummæli í sjö liðum á Facebook samskiptasíðu sinni um brotaþola, en ummælin hafi varðað starf hans. Framhaldsákæra var síðan gefin út 16. október 2014 með vísan til 1. mgr. 153. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem einkaréttarkröfu framangreinds brotaþola var aukið við ákæruna.
Með úrskurði héraðsdóms 17. mars 2015 var sakargiftum samkvæmt tveimur ákæruliðum vísað frá dómi, en að öðru leyti hafnað kröfu ákærða um frávísun málsins. Þá var ákærði með hinum áfrýjaða dómi sýknaður af sakargiftum samkvæmt fjórum ákæruliðum. Tekur mál þetta því eingöngu til ummæla samkvæmt 6. lið ákæru.
II
Með vísan til forsendna úrskurðar héraðsdóms 17. mars 2015 verður staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfu ákærða um frávísun 6. liðar ákæru.
Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 skal kröfu eftir 1. eða 2. mgr. 172. gr. komið á framfæri við lögreglu meðan á rannsókn máls stendur eða við ákæranda áður en ákæra er gefin út. Heimilt er þó eftir síðari málslið málsgreinarinnar að koma kröfu á framfæri við ákæranda eftir útgáfu ákæru ef fullnægt er skilyrðum 1. mgr. 153. gr. til útgáfu framhaldsákæru í máli eða ákærði samþykki, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þess að hafa megi slíka kröfu uppi í málinu. Þá er kveðið á um það í 5. mgr. 173. gr. að þegar ákvörðun hefur verið tekin um saksókn skuli ákærandi gæta að því hvort krafan sé réttilega úr garði gerð og henni fylgi nauðsynleg gögn, en hann geti veitt kröfuhafa skamman frest til að bæta úr slíkum annmörkum á henni.
Í fyrri málslið 1. mgr. 153. gr. áðurnefndra laga er mælt svo fyrir að ákærandi geti breytt eða aukið við ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til. Skal gefa framhaldsákæru út svo fljótt sem verða má eftir að þörfin á henni var kunn, en þó í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalmeðferð máls, nema ákærði samþykki að það sé gert síðar, sbr. síðari málslið málsgreinarinnar. Fyrir liggur að ákærði veitti ekki samþykki sitt til að einkaréttarkrafa brotaþola kæmist að í málinu eftir útgáfu ákæru. Kæra brotaþola, sem var grundvöllur þess að mál þetta sætti rannsókn og útgáfu ákæru 15. september 2014, var sett fram 22. maí 2013 af hálfu lögmanns, sem annaðist hagsmuni brotaþola. Í því ljósi getur sú leiðbeiningarskylda lögreglu, sem kveðið er á um í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 88/2008, ekki átt hér við. Þá eiga ákvæði 5. mgr. 173. gr. sömu laga hér heldur ekki við. Framangreindum skilyrðum fyrri málsliðar 1. mgr. 153. gr. laganna til útgáfu framhaldsákæru 16. október 2014 með einkaréttarkröfu brotaþola var því ekki fullnægt þegar lögmaður setti hana fram fyrir hans hönd 8. sama mánaðar. Af þessum sökum ber að fallast á kröfu ákærða um frávísun framhaldsákæru frá héraðsdómi.
III
Þau ummæli, sem mál þetta snýst um, eru svohljóðandi:
„Hefur að sögn, sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???“
Af samhengi ummælanna verður ekki annað ráðið en að með þeim hafi ákærði borið brotaþola á brýn að hafa haft í hyggju að misnota aðstöðu sína sem lögreglumaður gagnvart ungmennum. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu brots hans til refsiákvæðis.
Að teknu tilliti til alvarleika áðurnefndra ummæla ákærða er refsing hans ákveðin sekt að fjárhæð 100.000 krónur, sem greiðist innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en afplánist ella með fangelsi í átta daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, og útlagðan kostnað hans.
Dómsorð:
Framhaldsákæru ríkissaksóknara 16. október 2014 er vísað frá héraðsdómi.
Ákærði, Emil K. Thorarensen, greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í átta daga.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 571.027 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og útlagðan kostnað hans, 31.197 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 16. júlí 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. maí 2015, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 15. september 2014, á hendur Emil K. Thorarensen, kennitala [...], Fífubarði 7, Eskifirði, „fyrir ærumeiðandi aðdróttanir gegn opinberum starfsmanni, með því að hafa þann 15. maí 2013 viðhaft og birt eftirfarandi ummæli á Facebook samskiptasíðu sinni um lögreglumanninn A, en ummælin vörðuðu opinbert starf hans:
1)„Hann (A, sem þú réðst hingað til starfa og haldið hefur verndarvæng yfir) er þekktur fyrir sitt einelti í garð almennra borgara eftir að hann gekk í lögregluna.“
2)„A mun halda áfram sínu einelti, í garð samborgara sinna, þegar hann hefur stöðu til þess. Hann hefur ekki vit á öðru meðan hann kemst upp með það og yfirmenn hans halda hlífðarskyldi yfir honum.“
3)„A mun halda áfram eineltinu gagnvart aðilum meðan hann kemst upp með það. Hann hefur ítrekað sýnt það í verkum, sem gjörðum.“
4)„Fór að halda við gifta eiginkonu, vestur á fjörðum, þar sem hjónabandið var í molum og rústaði því.“
5)„Þáði heimsreisu í boði gjaldklera sveitarfélagisns Vesturbyggðar uppá 11 mkróna f ca 10 árum, stolið fé úr bæjarsjóði.“
6)„Hefur að sögn, sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???“
7)„Hann mun halda áfram eineltinu, sem lögreglumaður og hefur ekki vit á að hætta því misnota sína stöðu meðan yfirmenn hans grípa ekki í taumana, og hann kemst upp með a það, […]“.“
Í ákæru er þetta talið varða við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Með framhaldsákæru, dags. 16. október 2014, sem lögð var fram í þinghaldi 4. nóvember 2014, var svohljóðandi einkaréttarkröfu aukið við fyrri ákæru:
„Fyrir hönd A, kennitala [...], er hér með lögð fram krafa um að ákærði verði dæmdur til að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 300.000 auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. maí 2013 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem verður lagður fram við aðalflutning málsins ef til hans kemur. Auk þess er krafist fjárhæðar samsvarandi virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.“
Með úrskurði, uppkveðnum 17. mars 2015, var 4. og 5. tölul. ákærunnar vísað frá dómi að kröfu ákærða, en að öðru leyti var kröfu hans um frávísun ákæru og framhaldsákæru hafnað. Frávísunarákvæði úrskurðarins var ekki kært til Hæstaréttar.
Við aðalmeðferð krafðist ákærði þess aðallega að málinu verði í heild vísað frá dómi, en til vara er krafist frávísunar 6. töluliðs ákæru og framhaldsákæru. Að því leyti sem ekki verði fallist á frávísunarkröfur krefst ákærði sýknu af refsikröfu ákæruvalds og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og lækkunar bótakröfu. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun til handa verjanda ákærða.
I
Með bréfi til lögreglustjórans á [...], dags. 22. maí 2013, bar lögmaður, fyrir hönd A lögreglumanns, fram kæru á hendur ákærða vegna ærumeiðandi móðgana og aðdróttana sem birst hefðu á Facebook-samskiptasíðu ákærða 15. s.m.
Í kærunni kemur fram að samskiptasíða ákærða sé opin öllum notendum Facebook. Ummælin hafi verið sett fram sem eins konar opið bréf til B, lögreglustjóra [...], en hafi verið fjarlægð nokkrum dögum síðar, eftir að mikill fjöldi fólks hefði lesið þau og frétt af þeim. Kært sé vegna tiltekinna ummæla sem varði kæranda og störf hans sem lögreglumanns og talin séu upp í kærunni, eða „eftir atvikum ummælanna í heild (sbr. fylgiskjal)“. Í kærunni kemur fram að kærandi telji ummælin refsiverð og varða við 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það verði síðan að vera „ákvörðun viðeigandi fulltrúa ákæruvalds fyrir hver ummælanna [verði] ákært, ef ekki öll“.
Með kærunni fylgdi útprentun af umræddri færslu á samskiptasíðu ákærða í heild sinni. Ekki þykja efni til að taka færsluna hér upp í heild sinni, en hún hefst með orðunum: „Þar sem þú ert alltaf upptekin, af hinu og þessu, tekur ekki síma og hringir ekki til baka þrátt fyrir beiðni dögum saman, sendi ég þér eftirfarandi: B sýslumaður og æðsti yfirmaður lögreglunnar í [...].“ Á eftir fylgja athugasemdir ákærða sem beint er að lögreglumönnum embættisins almennt, en síðan víkur ákærði orðum sínum að einum tilteknum lögreglumanni, sem hann nefnir „A“. Er „aðili“ sagður „tilbúinn að staðfesta“ í samtali við lögreglustjórann eftirtalin „atriði/umsagnir um A“ og fara þar á eftir ummæli í 7 tölusettum liðum um téðan A. Því næst er vikið að „umsögn annars aðila“ sem sagður er reiðubúinn að staðfesta hana við lögreglustjórann, og fara þar á eftir ummæli í 11 tölusettum liðum sem öll, utan ummæla í 11. lið, lúta að téðum A. Neðst í færslunni eru síðan birt nöfn tveggja „skýrslugjafa“, að því er virðist sem heimildarmanna færsluritara, þeirra C á [...] og D á [...], en færsluritari tekur fram að „aðrir þor[i] ekki að tjá sig opinberlega“.
Kæran var framsend ríkissaksóknara með bréfi 28. s.m. þar sem embætti lögreglustjórans á [...] teldi sig vanhæft til rannsóknarinnar. Fól ríkissaksóknari lögreglustjóranum á [...] málið til frekari meðferðar. Tekin var skýrsla af ákærða sem sakborningi hjá lögreglu 6. ágúst 2013, að gættum viðeigandi réttarfarsákvæðum og að viðstöddum lögmanni þeim sem síðar var skipaður verjandi hans. Þá voru við rannsókn málsins teknar skýrslur af tveimur framangreindum vitnum sem í færslunni eru nefndir „skýrslugjafar“. Fóru þær skýrslutökur fram í október 2013.
II
Fyrir dómi kvaðst ákærði viðurkenna að hafa sjálfur ritað og birt þau ummæli sem í ákæru greinir á samskiptasíðu sinni og að þau lytu að brotaþola, A lögreglumanni. Honum hafi misboðið er starfsmaður embættis lögreglustjórans á [...] neitaði að taka við skilaboðum frá honum til lögreglustjórans. Hann hafi því brugðið á það ráð að koma erindi sínu á framfæri með „opnu bréfi“ til lögreglustjóra. Ummælin hafi falið í sér gagnrýni á störf lögreglunnar og þá sérstaklega brotaþola. Tók hann fram að honum hafi lengi ofboðið það „lögregluríki“ sem hann og samborgarar hans byggju við. Hann kvaðst ekki þekkja sérstaklega möguleika á friðhelgisstillingum samskiptasíðu sinnar og ekki hafa áttað sig á því að síðan stæði öllum notendum Facebook opin.
Ákærði kvaðst standa fast við ummæli sín og byggja á því að þau væru sannleikanum samkvæm. Ummælin hafi að hluta verið byggð á umsögnum vitnanna C og D um brotaþola, sem hann hafi látið getið í færslunni sem skýrslugjafa. Annar þeirra hafi beðið ákærða að fjarlægja færsluna af samskiptasíðunni. Kvaðst ákærði hafa gert það innan fárra daga fyrir hans beiðni. Einnig vísaði ákærði til sögusagna í bæjarfélagi sínu og kvaðst viss um að fótur væri fyrir þeim, en að fólk væri hrætt við að stíga fram.
Þá kvað ákærði ummælin byggjast á reynslu sinni og sonar síns af brotaþola, en brotaþoli hafi lagt þá báða í einelti. Hafi brotaþoli ítrekað haft afskipti af þeim að tilefnislausu í umferðinni. Það hafi raunar fleiri lögreglumenn embættisins gert, en þó einkum brotaþoli. Þá hafi brotaþoli síendurtekið lagt lögreglubifreið við hlið bifreiðar ákærða við opinbera staði, t.d. fyrir utan sundlaug/líkamsræktarstöð og verslun í bæjarfélaginu. Kvaðst ákærði ekki telja þetta neina tilviljun. Loks hafi brotaþoli ítrekað ekið á lögreglubifreið fram hjá heimili ákærða og horft inn um eldhúsglugga hans. Í framburði ákærða kom fram að honum þætti brotaþoli hafa misnotað vald sitt og teldi illar hvatir búa þar að baki.
Er ákærði var nánar inntur eftir því hve oft framangreint hefði gerst taldi hann að akstur hans hefði verið stöðvaður af lögreglu í 6 eða 7 skipti og að um fjögur skipti á 3-4 vikna tímabili sé að ræða þar sem lögreglubifreið hafi verið lagt við hlið bifreiðar hans utan við opinbera staði. Um tugi skipta sé að ræða þar sem ekið hafi verið fram hjá húsi hans. Framburður hans var þó óljós um það á hvaða tímabili þessi háttsemi hefði átt sér stað og kom fram að akstur fram hjá húsi hans hefði færst í aukana eftir birtingu færslunnar á samskiptasíðu hans. Ákærði tók fram að honum virtist lögreglustjóri hljóta að hafa gripið í taumana eftir birtingu færslunnar, því að eineltinu hefði nú linnt.
Aðspurður hvort lögregla hafi aldrei haft tilefni til afskipta af honum viðurkenndi ákærði að hafa misst bílprófið tvisvar sinnum vegna ölvunaraksturs, en teldi eigi að síður afskipti og eftirlit brotaþola hafa verið umfram það sem eðlilegt geti talist. Einnig vísaði ákærði til afskipta lögreglu af syni hans í umferðinni í tiltekið skipti, sem leitt hefðu til þess að syninum var gerð sekt og svipting ökuréttar. Honum væri nóg boðið hve lögregla hefði ítrekuð afskipti af sumu fólki á meðan annað fólk „slyppi“.
Beðinn að útskýra þau ummæli sem fram koma í 6. tölul. ákærunnar, kvaðst ákærði hafa þær upplýsingar sem ummælin byggðust á eftir manni, „millilið“, sem muni hafa fengið upplýsingar sínar beint frá viðkomandi þolendum, fleiri en einum, bæði körlum og konum. Þá vísaði ákærði til þess að sterkur orðrómur hafi árum saman verið uppi í samfélaginu um að brotaþoli áreitti kvenfólk kynferðilega. Nefndi ákærði dæmi í þessu sambandi. Ekki var fyllilega ljóst af framburði ákærða hvað af þessum upplýsingum væri almennur orðrómur og hvað af þeim hann hefði fengið frá hinum ónafngreinda heimildarmanni sínum. Aðspurður um aldur þessara kvenna sagði ákærði um ungar konur að ræða, allt að 30 eða 35 ára aldri, en alls ekki börn.
Aðspurður um merkingu síðari málsliðar setningarinnar, þ.e. ummælin „og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???“, svaraði ákærði að hann teldi merkingu þeirra liggja í augum uppi. Kaus hann síðan að tjá sig ekki frekar um það efni.
Brotaþoli, A lögreglumaður, kvaðst fyrir dómi hafa frétt það utan að sér að níðskrif um hann hefðu birst á Facebook-samskiptasíðu ákærða. Hann hafi þá kynnt sér skrifin, sem hafi verið honum aðgengileg, eins og öllum notendum Facebook. Nokkur tími hafi liðið áður en færslan var fjarlægð. Hann kvaðst kannast við ákærða í gegnum starf sitt sem lögreglumaður, en ákærði hafi gjarnan leitað aðstoðar lögreglu við ýmis tækifæri. Þá búi þeir í sama bæ þar sem íbúafjöldi sé um 1000 manns og menn rekist títt hver á annan. Ákærði hafi aldrei sakað hann um einelti augliti til auglitis. Hann hafi heldur ekki beðist afsökunar á ummælunum.
A kvað það hafa komið fyrir að hann hafi þurft að hafa afskipti af ákærða í starfi sínu, þó ekki oft. Tilefnið hafi verið umferðarlagabrot, nánar tiltekið grunur um ölvunarakstur. Lögreglu hafi stundum borist ábendingar um að ákærði væri að aka undir áhrifum áfengis. Hafi ákærði oftar en einu sinni verið staðinn að akstri undir áhrifum áfengis og verið sviptur ökurétti af þeim sökum. Eðlilega hafi lögregla því haft meira eftirlit með akstri hans en ella. Fjarstæðukennt sé hins vegar að sérstakt eftirlit hafi verið haft með heimili ákærða. Kvaðst A ekki kannast við að hafa ekið sérstaklega að húsi ákærða, um þá götu þar sem það stendur, en lögregla aki gjarnan eftirlitshring eftir aðalbraut sem liggi fyrir neðan hús ákærða. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa viljandi lagt lögreglubifreið við hlið bifreiðar ákærða og ekki kannast við að hafa gefið ákærða neina ástæðu til að ætla að hann sætti sérstöku eftirliti.
A kvaðst leggja þann skilning í ummæli um einelti að ákærði sakaði hann um að hafa misbeitt valdi sínu sem lögreglumaður og brotið af sér í starfi með ítrekuðum tilefnislausum afskiptum af almenningi. Ummælin vegi að starfsheiðri hans. Hann kvaðst ekki hafa fengið kvartanir eða verið sakaður um slíkt fyrr, en vissulega séu einstaklingar sem ítrekað brjóti af sér oft ósáttir við afskipti lögreglu. Verði ósættið gjarnan persónulegra en í smærri samfélögum.
A kvaðst hafa brugðið verulega við ummælin í 6. tölul. ákærunnar og leggja þann skilning í þau að hann sé þar sakaður um að hafa verið að senda unglingsstúlkum kynferðisleg skilaboð og bjóða þeim einhvern afslátt gegn kynferðislegum greiða. Hafnaði brotþoli því afdráttarlaust að nokkur fótur væri fyrir þeim ummælum.
A kvað ummælin hafa haft margvíslegar afleiðingar fyrir sig og fjölskyldu sína. Í kjölfarið hafi t.d. verið fjallað ítrekað um málið í prentuðum fjölmiðlum og birtar hafi verið myndir af honum og fjölskyldu hans. Ummælin hafi einnig gjarnan borið á góma í samskiptum hans við fólk í starfi hans, en honum virtist þó þorri fólks telja ákærða hafa sett ummælin fram í ölæði og ekki leggja trúnað á þau. Þá hafi hann þurft að skýra málið fyrir yfirmönnum sínum, en ekki hafi það leitt til neins tiltals af þeirra hálfu. Hins vegar hafi honum verið ráðlagt að gæta þess að gefa ákærða ekki höggstað á sér ef hann þyrfti að hafa afskipti af honum í framtíðinni.
A kvaðst einnig í starfi sínu hafa þurft að hafa afskipti af syni ákærða og tók fram að í öllum tilvikum hafi verið tilefni til afskipta.
A staðfesti að lokum að kæra málsins hafi verið sett fram í umboði hans og að í því umboði hafi falist heimild til að krefjast refsingar yfir ákærða.
D gaf skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa þekkt til ákærða í 30 ár í gegnum sveitarstjórnarmál og útgerðarmál. Þeir séu kunningjar, en búi nú í sínum landshlutanum hvor. Hann kvað ákærða hafa hringt í sig og spurt sig um A lögreglumann, sem vitnið kvaðst hafa kannast við frá þeim tíma er A bjó í sama landshluta og þeir störfuðu saman í stjórn stangveiðifélags. Vitnið kvaðst ekki hafa haft hugmynd um að ákærði hygðist nota svör hans í þeim tilgangi sem raun varð á. Kvaðst vitnið hafa skilið ákærða svo að hann vildi vita hvaða mann A hefði að geyma en ekki minnast þess að rætt hafi verið um starfsaðferðir A sem lögreglumanns og hvort hann hefði misnotað stöðu sína eða lagt samborgara sína í einelti. Kvaðst vitnið minnast þess að hafa sagt A vera stífan á meiningu sinni og þveran, en það hafi verið „það versta“ sem hann hafi sagt. Það hafi þó ekki verið illa meint.
C gaf skýrslu fyrir dómi. Kannaðist hann við að hafa átt tveggja manna tal við ákærða, gamlan kunningja sinn, um A, sem hann kvað vera frænda sinn. Kvað hann langt um liðið og ekki muna nákvæmlega hvað þeim ákærða fór á milli í þessu samtali, t.d. ekki hvort rætt hafi verið um störf A. Hann kvaðst hafa séð færslu ákærða á samskiptasíðu hans og beðið hann að fjarlægja hana, enda hafi þar verið höfð eftir honum ummæli sem hann kannaðist hreint ekki við að hafa viðhaft um ákærða.
E lögreglumaður staðfesti fyrir dómi aðkomu sína að rannsókn málsins fyrir hönd lögreglustjórans á [...]. Ákærði hafi nefnt tvo heimildarmenn fyrir skrifum sínum og hafi verið teknar skýrslur af þeim sem vitnum, en réttarstöðu þeirra hefði verið breytt hefðu svör þeirra gefið tilefni til þess. Aðra heimildarmenn hafi ákærði ekki nefnt.
Að ósk ákærða voru eftirtaldir leiddir sem vitni við aðalmeðferð málsins:
F yfirlögregluþjónn kvaðst vera næsti yfirmaður A lögreglumanns. Embættið hafi ekki komið neitt að ákvörðun um kæru, heldur hafi það verið ákvörðun brotaþola sjálfs. Hann kvaðst ekki hafa gefið A nein fyrirmæli um að forðast afskipti af ákærða í framhaldi þess að ummælin birtust, en eftir að í ljós kom að A hefði kært málið hafi verið rætt að óæskilegt kynni að vera að hann hefði sjálfur afskipti af ákærða, ef öðru yrði viðkomið. Engar formlegar kvartanir hafi borist um störf A, skriflegar eða munnlegar, hvorki til sín né annarra yfirmanna lögreglu, varðandi einelti eða kynferðislega áreitni. A hafi ekki verið áminntur í starfi. Hins vegar sé það svo að lögreglumenn sem séu „duglegir“ og sýni frumkvæði í starfi, líkt og brotaþoli, lendi oft milli tanna á fólki. Kvaðst vitnið hafa heyrt einhverjar kjaftasögur um A eins og aðra lögreglumenn, þar á meðal sjálfan sig. Slíkar kjaftasögur fjalli iðulega um að lögregla sé að leggja einhverja í einelti.
G kvaðst fyrir dómi engin tengsl hafa við ákærða og ekki hafa hitt hann fyrr en við aðalmeðferð málsins. Hann kvaðst heldur ekki þekkja son ákærða og sagðist engar skýringar kunna á því hvers vegna verjandi ákærða leiddi hann fyrir dóminn. Kvaðst vitnið hafa búið á [...] fyrir 4–5 árum. A lögreglumaður hafi „djöflast“ í honum þar og vitnið orðið fyrir miklu einelti af hans hálfu. Viðurkenndi vitnið fúslega að hafa ekki verið „heiðarlegasti maður í heimi“ og verið í afbrotum á þeim tíma, en telja afskiptin hafa verið langt umfram tilefni. Lýsti hann afskiptum brotaþola og fleiri lögreglumanna af sér í nokkur skipti. Aðspurður af verjanda hvort hann vissi til þess að fleiri hefðu orðið fyrir ítrekuðum tilefnislausum afskiptum af hálfu brotaþola sagðist vitnið vita um 4 eða 5 slík tilvik og hafa orðið vitni að einu slíku er félagi hans var stöðvaður við akstur. Þá kvaðst vitnið vita um tvö tilvik þar sem A ætti að hafa sent ungu kvenfólki kynferðisleg skilaboð eða átt við það einhver kynferðisleg samskipti. Nefndi vitnið fornöfn tveggja vinkvenna sinna í þessu sambandi, en nefndi þó aðra konuna tveimur mismunandi fornöfnum á víxl. Önnur kvennanna hafi tjáð honum að brotaþoli hefði boðið henni að hafa mök við sig í stað þess að greiða sekt vegna umferðarlagabrots. Tilfelli hinnar konunnar hafi verið svipað, en vitnið kvaðst ekki muna þá frásögn til að geta greint frá henni.
Sonur ákærða, H að nafni, kaus að gefa skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa orðið fyrir einelti af hálfu A lögreglumanns. Rakti hann upphaf þess til ársins 2010, er hann hafi verið frelsissviptur að ósekju. Kvaðst hann aðspurður aðeins muna óljóst tilefni afskiptanna. Þá kvaðst hann stundum hafa orðið var við að brotaþoli fylgdist með honum á almannafæri, sneri sér t.d. við og horfði á eftir honum. Þá hafi brotaþoli verið að keyra fram hjá heimili hans og horfa inn. Þá nefndi hann tilvik á golfvelli þar sem A hefði fylgst með honum spila golf. Í eitt skipti hafi A spurt hann fyrir utan pósthús hvort hann hefði verið að senda eiturlyf með pósti. Eineltið hafi verið „daglegt“, en farið minnkandi eftir að ákærði birti umrædda færslu á samskiptasíðu sinni. Þá hafi ónefnd vinkona hans tjáð honum að A hefði reynt að kyssa hana inni í fangaklefa og í framhaldinu sent henni skilaboð og verið að „reyna við“ hana.
Vitnið hafi upplifað það svo að um tilefnislaus afskipti væri að ræða, en viðurkenndi þó aðspurður að þau hefðu ekki alltaf verið óréttmæt. Vitnið kvaðst þó telja að lögregla mætti ekki sífellt vera að hafa afskipti af sama fólkinu vegna „sögu“ þess.
Aðspurður kvaðst hann sjálfur hafa orðið var við einelti A í garð ákærða og nefndi í því sambandi hvernig A horfði á þá feðga.
Vitnið kvaðst í eitt skipti hafa kvartað við lögreglustjórann á [...], B, undan verklagi og forgangsröðun lögreglu. Kvaðst hann telja sig hafa nefnt A í kvörtuninni og álykta að kvörtunin hafi leitt til þess að rætt hafi verið við lögreglumenn, þótt honum hafi ekki verið tilkynnt sérstaklega um afdrif hennar.
I gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hún aðspurð engin tengsl hafa við ákærða. Hún sagðist fyrst hafa hitt A lögreglumann vorið 2009, er hann hefði, ásamt öðrum lögreglumanni, haft afskipti af akstri hennar. Hún hafi verið færð á lögreglustöð þar sem hún hafi gefið þvagprufu sem hafi reynst jákvæð á THC. Næst hafi A stöðvað akstur hennar á árinu 2010 er hún ók fram hjá lögreglustöð á leið til vinnu sinnar. Hann hafi beðið hana að ræða við sig og gefa sér upplýsingar um fólk sem væri „í neyslu“. Hún hafi fallist á það með semingi, enda hefði hún ella orðið að gefa þvagprufu. A hafi síðan sent henni tölvubréf í mars 2011 og beðið hana um að gefa sér samskonar upplýsingar. Í bréfinu hafi hann viðhaft einhver orð um að hún ætti ekki að svíkja hann og að hann vildi vera vinur hennar.
Vitnið kvaðst oft hafa verið á lögreglustöð. Í eitt skipti hafi hún og vinkona hennar verið teknar við akstur og hafi vinkonan verið tekin til yfirheyrslu, en A hafi sleppt henni sjálfri án frekari aðgerða, „knúsað“ hana, sagt að honum þætti vænt um hana og langaði að vera vinur hennar. Kvaðst vitnið hafa „lamast“ við þetta, orðið hrædd við hann og þótt mjög óþægilegt að mæta honum á förnum vegi eftir þetta, sem þó hafi gerst oft. Aðspurð hvort samskipti A við hana hefðu verið kynferðislegs eðlis að einhverju leyti, neitaði hún því en sagðist hafa fundist háttsemi hans óviðeigandi enda væru þau engir vinir. Henni hafi fundist hann „perralegur“ og „daðrandi“ og fundist hann nýta sér vald sitt með því að láta hana ekki í friði er hann sæi hana. Aðspurð hvort afskiptin hefðu verið tilefnislaus kvað hún A eflaust hafa talið tilefni til þeirra, enda viðurkenndi hún fúslega að hafa bæði neytt kannabisefna og verið í félagsskap með fólki í slíkri neyslu. Ekki kvaðst hún hafa kvartað yfir A við stjórnendur lögreglu, en nefndi að faðir sinn hefði rætt við tiltekinn lögreglumann um að hún væri orðin hrædd og hvekkt vegna afskipta lögreglu af henni.
Þá var leidd sem vitni fyrir dóminn kona, fædd árið 1988 og búsett á [...]. Var hún strax auðsjáanlega miður sín og gaf á því þá skýringu að brotaþoli sæti á áheyrendabekk. Aðspurð af verjanda hvort hún hefði orðið fyrir einhverju áreiti af hálfu A svaraði hún því játandi en kvaðst ekki vilja tjá sig frekar um það. Aðspurð hvort áreitið hafi verið af kynferðislegum toga, svaraði vitnið því játandi. Frekari spurningum var ekki beint til þessa vitnis.
B lögreglustjóri bar fyrir dómi að þær ásakanir á hendur brotaþola sem birtust í umræddri færslu á samskiptasíðu ákærða hefðu ekki verið rannsakaðar sérstaklega, enda hafi engar formlegar kærur eða kvartanir borist á hendur honum. Ákærði hafi komið að máli við sig u.þ.b. tveimur árum áður en færslan birtist á samskiptasíðu hans og nefnt þær ávirðingar sem hér um ræðir. Hún hafi þá bent honum á að um alvarlegar ásakanir væri að ræða og að það þyrfti meira en orðróm til að hefja rannsókn, en leiðbeint honum um að ef upplýst yrði um einhver nöfn í þessu sambandi yrði málið sent ríkissaksóknara til rannsóknar. Þá kvaðst hún minnast þess að sonur ákærða hefði rætt við sig einu sinni út af tilteknu máli, en ekki að hann hafi þá kvartað undan einelti af hálfu brotaþola.
Sérstaklega aðspurð hvort kvartanir hefðu borist til lögreglu yfir einhvers konar kynferðislegu áreiti af hálfu A neitaði lögreglustjórinn því, utan þess sem hún vísaði til samtals við ákærða sem fyrr var nefnt. Þá sagðist hún ekki kannast við að lögreglu hefði borist kvörtun frá föður I.
Í netskrifum sínum hafi ákærði deilt á flesta lögreglumenn embættisins, einkum þó brotaþola. Því hafi, eftir að kæra brotaþola lá fyrir, verið rætt innan embættisins að æskilegt væri að A forðaðist afskipti af ákærða ef tök væru á að aðrir lögreglumenn sinntu því.
III
Niðurstaða
1.
Af hálfu ákærða er aðallega krafist frávísunar málsins í heild, en ella að 6. tölul. ákærunnar og framhaldsákæru verði vísað frá dómi. Úr efnislega sömu frávísunarkröfum ákærða, sem reistar voru á sömu málsástæðum, var leyst með úrskurði dómsins 17. mars sl. Var þar fallist á kröfu um frávísun 4. og 5. töluliðar ákæru en að öðru leyti var frávísunarkröfum hafnað. Það sem fram kom við skýrslugjöf ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins rennir frekari stoðum undir það að uppfyllt séu öll skilyrði b-liðar 2. tölul. 242. gr. almennrar hegningarlaga nr. 19/1940 til opinberrar málshöfðunar, þar á meðal það skilyrði að þau ummæli sem eftir standa og ákæran lýtur að varði að einhverju leyti starf brotaþola sem opinbers starfsmanns. Með vísan til framanritaðs og að öðru leyti til röksemda sem greinir í nefndum úrskurði verður frávísunarkröfum ákærða því hafnað.
2.
Ákærði viðurkennir að hafa sjálfur skrifað og birt öll umrædd ummæli á samskiptasíðu sinni. Er krafa hans um sýknu á því byggð að sannað teljist að ummæli ákærða hafi verið sannleikanum samkvæm. Vísar ákærði þar til þeirrar meginreglu íslensks réttar að sönn ummæli, þótt ærumeiðandi teljist, séu mönnum refsilaus (exceptio veritatis). Jafnframt er á því byggt að ákærði hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna, sem að hluta til hafi verið höfð eftir öðrum. Þá feli ummæli ákærða, a.m.k. að hluta til, í sér gildisdóm og innan þeirra marka eigi þau að vera honum refsilaus.
Framangreindu til viðbótar kemur fram í greinargerð að sýknukrafa sé m.a. studd við það að í ummælunum sé rætt um „[...]“ lögreglumann, en brotaþoli heiti A. Þeirri málsástæðu var þó ekki haldið sérstaklega á lofti við munnlegan málflutning og verður henni hafnað þegar af þeirri ástæðu að ákærði viðurkennir að ummæli hans hafi lotið að brotaþola.
3.
Ákærða er gefið að sök brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem lýst er refsiverð sú háttsemi að hafa uppi eða bera út ærumeiðandi aðdróttanir. Ákvæðið felur í sér skerðingu tjáningarfrelsis, sem verndar nýtur skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Vernd mannorðs manna er meðal þeirra markmiða sem réttlætt geta skerðingu tjáningarfrelsis, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans. Þá heyrir æruvernd undir friðhelgi einkalífs manna, sem verndar nýtur samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans. Við túlkun 235. gr. almennra hegningarlaga er óhjákvæmilegt að líta til þeirrar skerðingar á tjáningarfrelsi ákærða sem refsiákvæðið felur í sér, en jafnframt til þess hvernig jafnvægi verði náð milli framangreindra mannréttinda.
Við mat á því hvort ummæli þau sem hér er ákært fyrir teljist refsiverð aðdróttun eða tjáning sem verndar nýtur verður, að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu, meðal annars að skoða hvort ummælin feli í sér gildisdóm, þ.e. ályktun sem ekki er unnt að krefjast beinnar sönnunar á, eða staðhæfingu um staðreynd sem gera má kröfu til þess að verði sönnuð. Þá kunna sjónarmið um góða trú ákærða um sannleiksgildi ummæla sinna að koma til skoðunar. Einnig verður til þess að líta hvort efni tjáningar eigi sérstakt erindi við almenning og njóti þannig ríkari verndar en ella, svokallað rýmkað tjáningarfrelsi.
Gagnrýni á störf valdhafa, þar á meðal opinberra starfsmanna, s.s. lögreglu, fellur almennt í þann flokk tjáningar sem nýtur ríkrar verndar. Gagnrýni á einstaka, nafngreinda, opinbera starfsmenn sem ekki hafa tekið þátt í opinberri umræðu kann þó síður að verða álitin njóta verndar. Þá er til þess að líta að opinberar stofnanir eins og lögregla þurfa að njóta trausts borgaranna til að geta starfað með eðlilegum hætti. Ummæli ber að virða hlutlægt eins og þau koma öðrum fyrir sjónir, en jafnframt heildstætt í því samhengi sem þau eru sett fram í.
Ummæli ákærða voru sett fram sem „opið bréf“ til lögreglustjóra, eins og ákærði orðaði það sjálfur fyrir dómi, og fela í sér gagnrýni, bæði á störf lögreglumanna embættisins almennt en þó einkum í garð eins tiltekins lögreglumanns, kæranda þessa máls. Lýtur ákæran þó einvörðungu að ummælum í garð þess tiltekna lögreglumanns.
Skipta má þeim ummælum um brotaþola sem ákæran lýtur að í tvennt. Annars vegar er þar um að ræða ummæli sem lúta að ásökunum um einelti brotaþola í garð almennra borgara (1., 2. 3. og 7. tölul. ákæru), sem hér verður fyrst vikið að. Hins vegar eru það ummælin í 6. tölul. ákærunnar, sem vikið verður að síðar.
1., 2., 3. og 7. tölul. ákæru:
Hugtakið einelti á sér fjölmargar skilgreiningar, sem flestar eiga það sammerkt að vísa til síendurtekinnar háttsemi af neikvæðum toga. Af skýrslu ákærða og munnlegum málflutningi af hans hálfu varð ráðið að í ummælunum felist sú ályktun að brotaþoli hafi ítrekað og tilefnislaust haft afskipti af eða haft eftirlit með ákærða og fleira fólki.
Óháð því hvort sanna megi það hvort afskipti lögreglu í tilteknum tilvikum geti með réttu talist tilefnislaus, hlýtur það að teljast afstætt hvenær fjöldi slíkra tilvika nái því máli að teljast „einelti“. Að áliti dómsins verður að virða öll ummæli ákærða samkvæmt framangreindum töluliðum ákæru sem gildisdóm, þ.e. að í þeim hafi falist álit eða ályktun ákærða sem ekki verður krafist að hann færi beinar sönnur á. Þótt gildisdómar megi ekki vera algerlega úr lausu lofti gripnir verða ekki gerðar mjög ríkar kröfur til þess að sýnt sé fram á stoð þeirra í atvikum. Þótt að virtum framburði ákærða og vitna teljist hvorki sannað né heldur leiddar sérstakar líkur að því að brotaþoli hafi endurtekið og tilefnislaust haft af ákærða eða öðrum afskipti eða óeðlilegt eftirlit, verður að telja gildisdóm þann sem í ummælum ákærða fólst falla innan marka þeirrar tjáningar sem honum var heimil og verndar nýtur. Verður hann því sýknaður af framangreindum töluliðum ákærunnar.
6. tölul. ákæru:
Ummæli ákærða í 6. tölulið ákærunnar eru svohljóðandi: „Hefur að sögn, sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt“ gegn ???“.
Fyrri málsliðurinn felur hlutlægt séð tvímælalaust í sér ásökun um að lögreglumaðurinn hafi sent ungmennum á táningsaldri, þ.e. á aldrinum 13 til 19 ára, kynferðisleg skilaboð. Þótt ákærði hafi kosið að tjá sig ekki fyrir dómi um merkingu síðari málsliðar setningarinnar vekja þau ummæli hlutlægt séð, í ljósi tengsla við fyrri málslið setningarinnar, óhjákvæmilega hugrenningar hvers sem þau les um að átt sé við háttsemi af kynferðislegum toga. Orðin „afslátt gegn“ vekja að auki hugrenningar um misnotkun á stöðu hans sem lögreglumanns. Framsetning ummælanna í heild er ótvírætt á formi staðhæfingar um staðreynd, þótt með orðunum „að sögn“ sé til þess vísað að upplýsingarnar séu ekki frá ákærða sjálfum komnar. Þótt ekki verði fullyrt að í ummælunum felist ásökun um refsiverða háttsemi, er hér um sérlega alvarlega og meiðandi ásökun í garð lögreglumannsins að ræða.
Samkvæmt framburði ákærða sjálfs fyrir dómi lágu til grundvallar þessum ummælum orð ónafngreinds manns, „milliliðs“, sem ákærði kveður hafa haft upplýsingar sínar beint frá viðkomandi þolendum, fleiri en einum. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa rætt sjálfur við neina þolendur. Ekki hélt hann því heldur fram að hafa sjálfur séð nein kynferðisleg skilaboð sem brotaþoli ætti að hafa sent þolendum eða að heimildarmaður hans hefði sagst hafa séð slík skilaboð. Hefur ákærði engin rök fært fyrir því að hann hafi mátt treysta orðum þessa heimildarmanns síns. Ákærði mátti gera sér grein fyrir því að hann sjálfur teldist ekki hlutlaus í garð brotaþola er hann ritaði og birti ummæli sín. Bar honum því að sýna sérstaka aðgætni við mat á réttmæti upplýsinga heimildarmanns síns. Þá er alls óvíst að þessi heimildarmaður hafi verið leiddur fyrir dóminn, þótt á það megi giska að annaðhvort sé þar um að ræða son ákærða, H, eða vitnið G. Athygli vekur þó að G kvaðst fyrir dómi aldrei hafa hitt ákærða fyrr en hann kom fyrir dóminn. Þá bar framburður hans sterkan keim af óvild í garð brotaþola. Hvorug þeirra kvenna sem G nefndi með fornafni í sínum framburði var leidd fyrir dóm til vitnisburðar og var framburður hans um frásagnir þeirra afar óljós.
Enga stoð er að finna fyrir ummælum ákærða í framburði vitnisins I. Breytir engu í því efni þótt lögð yrði til grundvallar sú einhliða lýsing hennar að brotaþoli hafi í eitt skipti á lögreglustöð sýnt af sér hegðun sem almennt yrði að telja óviðeigandi af lögreglumanni í starfi. Framburður hinnar konunnar, sem óþarft er að nafngreina, var of takmarkaður til þess að nokkrar ályktanir verði með réttu dregnar af efni hans og um trúverðugleika framburðarins.
Að öllu framanrituðu virtu er ljóst að ákærði hefur hvorki fært sönnur á efni þeirra ummæla sem hann viðhafði samkvæmt 6. tölul. ákærunnar, né verða þau ummæli réttlætt með því að hann hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra. Að auki voru ummælin úr hófi fram með tilliti til þess framburðar hans að með orðunum „táningum og unglingsstelpum“ hefði hann átt við konur allt að 30 til 35 ára aldri. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot samkvæmt 6. tölul. ákærunnar og varðar brot hans við 235. gr. almennra hegningarlaga, eins og í ákæru greinir.
IV
Ákærði er ríflega sextugur að aldri. Sakaferill hans, þar sem einvörðungu er um umferðarlagabrot að ræða, hefur ekki sérstök áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Ákærði er hér sakfelldur fyrir ein ummæli af þeim sjö sem ákært var fyrir. Ummælin vógu að mannorði nafngreinds lögreglumanns. Verður að telja þau svo alvarlegs eðlis og skeytingarleysi ákærða um sannleiksgildi þeirra slíkt að rétt sé að gera honum refsingu vegna þeirra. Ekki hefur verið dregið í efa af hálfu ákærða að ummælin hafi verið aðgengileg öllum notendum samskiptamiðils þess sem hann birti ummælin á, þótt honum hafi e.t.v. ekki verið það ljóst. Að gættri meðalhófsreglu þykir hæfilegt að ákærði greiði 30.000 króna sekt í ríkissjóð, en sæti ella fjögurra daga fangelsi greiðist sektin ekki innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.
Brotaþoli krefst miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur, auk vaxta og málskostnaðar. Engin gögn hafa verið lögð fram um fjölmiðlaumfjöllun þá um málið sem brotaþoli vísaði til í framburði sínum. Ekki er þó að efa að þau ummæli sem ákærði bar ábyrgð á og er hér sakfelldur fyrir hafi valdið brotaþola óþægindum og feli í sér meingerð sem ákærða sé rétt að greiða honum bætur fyrir, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur til brotaþola hæfilega ákveðnar að fjárhæð 150.000 krónur, sem ákærði verður dæmdur til að greiða með vöxtum og dráttarvöxtum eins og krafist er, en upphafstími dráttarvaxta verður miðaður við þann dag er mánuður var liðinn frá því að ákærða varð sannanlega kunnugt um einkaréttarkröfuna við framlagningu hennar og framhaldsákæru í þinghaldi 4. nóvember 2014. Þá þykir hæfilegt að dæma ákærða til að greiða brotaþola 120.000 krónur í málskostnað.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hrl., vegna starfa hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi, eru hæfilega ákveðin að fjárhæð 950.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þá féll til við aðalmeðferð málsins kostnaður af ferðum vitna, samtals 57.800 krónur, sem telst til sakarkostnaðar, en ekki er að sjá að annar sakarkostnaður hafi hlotist af rannsókn og meðferð málsins fyrir dómi. Með hliðsjón af úrslitum málsins er rétt að sakarkostnaður skiptist milli ákærða og ríkissjóðs og þykir hæfilegt að dæma ákærða til greiðslu helmings hans, með þeirri fjárhæð sem greinir í dómsorði, en helmingur greiðist úr ríkissjóði.
Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum, fimmtudaginn 16. júlí 2015, kl. 14.00. Við dómsuppsögu var gætt ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en dráttur varð á dómsuppsögu vegna embættisanna dómara.
Dómsorð:
Ákærði, Emil K. Thorarensen, greiði 30.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna, en sæti ella fangelsi í fjóra daga.
Ákærði greiði A 150.000 krónur í miskabætur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. maí 2013 til 4. desember 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, og 120.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði 503.900 krónur í sakarkostnað, en að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði. Eru þar innifalin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hrl., að fjárhæð 950.000 krónur.