Hæstiréttur íslands
Mál nr. 460/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Dómari
- Vanhæfi
|
|
Föstudaginn 5. desember 2003. |
|
Nr. 460/2003. |
Kristján Stefánsson (Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Þór Agnarssyni og Ásdísi Þóru Davidsen (enginn) |
Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.
K krafðist með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að héraðsdómari viki sæti sökum þess að hann hefði verið einn þriggja dómara í sakamáli þar sem fjárhæð málsvarnarlauna, sem honum voru dæmd, hefðu ekki verið í nokkru hlutfalli við málsvarnarlaun annarra verjenda og hvorki tekið mið af umfangi málsins né þeim mikla tíma sem til þess var varið. Ekki var fallist á að sýnt hefði verið fram á þær aðstæður sem valdið gætu því að héraðsdómarinn yrði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna fyrrnefnds ákvæðis laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. nóvember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari viki sæti í málinu. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómara verði gert að víkja sæti í málinu.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Krafa sóknaraðila um að héraðsdómaranum verði gert að víkja sæti er reist á því að sóknaraðili geti með réttmætum hætti haft efasemdir um óhlutdrægni dómarans, sbr. g. liður 5. gr. laga nr. 91/1991. Í tilteknu sakamáli þar sem héraðsdómarinn var dómsformaður í fjölskipuðum dómi hafi fjárhæð málsvarnarlauna, sem honum voru dæmd, ekki verið í nokkru hlutfalli við málsvarnarlaun annarra verjenda og hvorki tekið mið af umfangi málsins né þeim mikla tíma sem til þess var varið. Með dómi Hæstaréttar í umræddu máli hafi fjárhæð málsvarnarlaunanna verið hækkuð.
Ekki verður fallist á að sýnt hafi verið fram á þær aðstæður sem valdið geta því að héraðsdómarinn verði talinn vanhæfur til að fara með málið vegna fyrrnefnds ákvæðis laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2003.
Með matsbeiðni, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 4. nóvember 2003, fer matsbeiðandi þess á leit við dóminn að dómkvaddur verði einn sérfróður og óvinhallur matsmaður til þess að meta ætlaða galla á fasteigninni Lækjarsmára 9, Kópavogi, efri hæð.
Í þinghaldi í dag kom fram krafa frá matsþola, Kristjáni Stefánssyni hrl. um að dómari sem fer með málið víki sæti. Kröfu sína byggir matsþoli á g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.
Þar sem krafa matsþola er órökstudd er kröfu hans í þessum þætti málsins hrundið.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari víkur ekki sæti í þessu máli.