Hæstiréttur íslands

Mál nr. 483/1998


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Uppsögn


                                                                                                                 

Miðvikudaginn 12. maí 1999.

Nr. 483/1998.

Bakkavör hf.

(Baldvin Hafsteinsson hdl.)

gegn

Pétri Sævarssyni

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

Vinnusamningur. Uppsögn.

P hóf störf hjá B í apríl 1997, en hætti störfum fyrirvaralaust að boði B í október sama ár. Við starfslokin voru honum greidd laun í einn mánuð. P hélt því fram að hann hefði verið ráðinn tímabundið til starfa án gagnkvæms uppsagnarfrests og krafðist launa til 1. febrúar 1998. Í ráðningarsamningi var merkt „já” við fastráðningu og ráðningartími tilgreindur til 1. febrúar 1998. Talið var að þar sem B hefði ritað ráðningarsamninginn yrði hann að bera hallann af óskýrri framsetningu í samningnum og var fallist á að P hefði verið ráðinn til 1. febrúar 1998. B hélt því fram að P hefði brotið svo gegn starfsskyldum sínum að heimilt hefði verið að slíta samningnum með eins mánaðar fyrirvara. Ekki var fallist á það að B hefði verið heimilt án sérstaks uppsagnarákvæðis að segja ráðningarsamningnum upp miðað við fyrri tíma en 1. febrúar 1998. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að B bæri að greiða P stefnufjárhæðina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 1998. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og greinir í héraðsdómi liggja fyrir tveir ráðningarsamningar, sem málsaðilar gerðu á árinu 1997. Deila þeir um samning þann, sem síðar var gerður, en hann var í gildi þegar stefnda var sagt upp störfum 29. október 1997. Ekki er ágreiningur um að fyrri samningurinn hafi verið gerður í apríl 1997 og hinn síðari í ágúst sama árs, þrátt fyrir að þeir séu báðir dagsettir 28. apríl 1997.

Eftir eldri samningnum voru byrjunarlaun stefnda 140.000 krónur á mánuði, en í yngri samningnum sagði að mánaðarlaun væru 170.000 krónur. Þar var einnig svofellt ákvæði, sem ekki var í eldri samningnum: „Ekki er greitt fyrir yfirvinnu nema hún fari yfir 780 klst á ári, þ.e. að meðaltali 15 stundir á viku. ... Miðað er við að laun séu endurskoðuð einu sinni á ári.“ Í báðum samningum er ritað „Já“ í reit, sem merktur er „Fastráðning“. Hins vegar er dagsetningin 1. febrúar 1998 rituð í reit auðkenndan „Ráðningartími“ í yngri samningnum, en sams konar reitur er auður í hinum eldri.

Heldur stefndi fram, að samningstíma hafi átt að ljúka síðastnefndan dag. Hafi hann krafist þess að samningurinn yrði gerður tímabundinn til þess að ekki yrði unnt að segja sér bótalaust upp starfi á þeim tíma árs, sem almennt væri erfiðast að fá vinnu. Áfrýjandi ber á hinn bóginn fyrir sig, að dagsetningin 1. febrúar merki að þann dag hafi verið ætlun aðila að laun stefnda yrðu fyrst endurskoðuð samkvæmt ráðagerð í áður tilvitnuðu samningsákvæði.

Þessi viðbára áfrýjanda samræmist illa þeirri staðreynd, að umrædd dagsetning var sett í dálkinn um ráðningartíma, en ekki í framhaldi af eða í tengslum við ákvæðin um endurskoðun einu sinni á ári. Ákvæði um fastráðningu í báðum samningunum styðja að vísu ekki staðhæfingu stefnda um að hann hafi einungis verið ráðinn í starf í nokkra mánuði. Þegar hins vegar er litið til þess, að yngri ráðningarsamningurinn var færður í letur af áfrýjanda, þykir hann verða að bera halla af óskýrri framsetningu í samningnum. Verður því fallist á með stefnda, að skýra beri hinn umdeilda samning svo, að hann hafi verið ráðinn til þess dags, sem skráður er í reitinn „ráðningartími“ á samningsforminu.

II.

Í greinargerð áfrýjanda í héraði hélt hann meðal annars fram, að stefndi hefði brotið svo gegn starfsskyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningnum að sér hefði verið heimilt að slíta samningnum með eins mánaðar fyrirvara, eins og hann gerði í bréfi, sem hann ritaði stefnda 29. október 1997. Til stuðnings þeirri málsástæðu óskaði hann eftir við aðalmeðferð málsins í héraði að fá að leggja fram svonefnda “frábrigðaskýrslu” nafngreinds starfsmanns síns dagsetta 22. október 1997. Héraðsdómari ákvað að skjal þetta kæmist ekki að í málinu gegn andmælum stefnda.

Í fyrrgreindu uppsagnarbréfi áfrýjanda 29. október 1997 kom ekki fram að uppsögnin styddist við vanefndir af hálfu stefnda. Að vanefndum var ekki heldur vikið í bréfi lögmanns áfrýjanda til lögmanns stefnda 24. apríl 1998. Ekki verður séð, að áfrýjandi hafi borið fyrir sig vanefndir af hálfu stefnda fyrr en í greinargerð sinni í héraði. Getur því skýrslan frá 22. október 1997 ekki fengið því breytt að fallist verður á með stefnda, að áfrýjanda hafi ekki verið heimilt án sérstaks uppsagnarákvæðis að segja ráðningarsamningnum upp miðað við fyrri tíma en 1. febrúar 1998.

Af þeim sökum og þar sem aðilar deila ekki um fjárhæðir verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Bakkavör hf., greiði stefnda, Pétri Sævarssyni, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. september 1998.

Ár 1998, föstudaginn 11. september er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er að Brekkugötu 2 Hafnarfirði af Ólöfu Pétursdóttur dómstjóra kveðinn upp dómur í máinu nr. E-434/1998: Pétur Sævarsson gegn Bakkavör hf.

I.

                Mál þetta sem dómtekið var hinn 8. september 1998 hefur Pétur Sævarsson, kt. 040359-2149, Tjarnargötu 25a, Reykjanesbæ, höfðað fyrir dóminum með stefnu birtri 8. maí 1998 á hendur Bakkavör hf., kt. 410886-1629, Brekkustíg 22, Njarðvík, Reykjanesbæ.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum bætur vegna vangreiddra launa ásamt orlofi og lífeyrissjóðsframlagi samtals kr. 397.053,- ásamt dráttarvöxtum af kr. 170.000,- frá 1.1.1998 til 1.2.1998 og af kr. 397.053,- frá þeim degi til greiðsludags.

                Auk þess er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Lögmannsstofu Láru V. Júlíusdóttur hrl. auk lögmælts virðisaukaskatts skv. l. nr 50/1988, allt samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

                Af hálfu stefndu er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu lögum samkvæmt að mati réttarins.

                Dómkröfur stefnanda eru þannig sundurliðaðar:

Laun á uppsagnarfresti, 2 mánuðir á 170.000

kr. 340.000

10,17% orlof af kr. 340.000

kr. 34.578

6% framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð

kr. 22.475

Þannig samtals

kr. 397.053

II.

                Stefndi Bakkavör hf. er framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í vinnslu og sölu unninna fiskafurða á erlendan markað, einkum í Evrópu. Stefnandi Pétur Sævarsson er menntaður í Fiskvinnslukólanum og Sjómannaskóla Íslands og hefur auk þess verslunarpróf.

                Stefnandi hóf störf hjá stefnda hinn 29. apríl 1997, fékk eins mánaðar launalaust leyfi um sumarið til þess að ljúka samningsbundnu starfi hjá fyrri vinnuveitanda, kom aftur til starfa hinn 11 ágúst en lét fyrirvaralaust af starfi að boði stefnda hinn 29. október 1997. Stefndi greiddi honum laun út nóvember, þ.e. einn mánuð, en það var lengd uppsagnarfrests samkvæmt kjarasamningi.

                Í máli þessu krefur stefnandi um laun til 1. febrúar 1998. Deiluefnið í máli þessu er hvort stefnandi var ráðinn tímabundið án gagnkvæms uppsagnarfrests til 1. febrúar 1998 samkvæmt sérstöku ákvæði í skriflegum ráðningarsamningi, svo sem stefnandi heldur fram, eða ekki, svo sem stefndi heldur fram, en ef svo var hefur stefnandi fengið öll laun sín greidd og á því er sýknukrafa stefnda byggð.

Þá færir stefndi það fram sem málsástæðu, að stefnandi hafi brotið starfskyldur sínar og því hafi stefnda verið heimilt að rifta samningnum. Stefnandi bendir á að við starfslok ritaði stefndi honum uppsagnarbréf samdægurs, hinn 29. október, þar sem stefnanda er sagt upp með eins mánaðar uppsagnarfresti og stefndi greiddi stefnanda laun út þann uppsagnarfrest.

III.

                Í máli þessu eru lagðir fram tveir skriflegir ráðningarsamningar milli málsaðila, báðir dagsettir 28.4.1997. Báðir tilgreina fyrsta starfsdag 29.4.1997. Þó er óumdeilt að annað skjalið, sem lagt er fram sem dskj. nr. 3, var gert þann dag sem það er dagsett, hinn 28.4.1997, en hitt hinn 11. ágúst sama ár eða þar um bil, því þann dag kom stefnandi aftur til starfa úr hinu launalausa leyfi sem áður er nefnt. Er það skjal lagt fram sem dskj. nr. 10. Af hálfu stefnda er þetta, að því er virðist, skýrt með því, að við vélritun á síðari samningnum hafi fyrri samningurinn verið kallaður fram í tölvu og ekki hirt um að breyta dagsetningu, og jafnframt með því, að þessi aðferð hafi verið viðhöfð vegna „bókunarkerfis” stefnda. Þetta skiptir þó ekki máli, því það er einvörðungu ákvæði síðari samningsins um ráðningartíma sem á reynir í máli þessu, en það er óumdeilt að hann var gerður og tók gildi er stefnandi kom úr leyfi um sumarið. Fyrri samningurinn er eingöngu lagður fram sem skýringargagn, til upplýsingar um upphafleg ráðningarkjör stefnanda.

IV.

                Áður en stefnandi hóf störf hjá stefnda hinn 29. apríl 1997 hafði hann verið á sjó, síðast sem eftirlitsmaður með vinnslu um borð í fiskiskipi.

                Óumdeilt er að fyrst eftir að stefnandi réðist til stefnda starfaði hann sem almennur starfsmaður í vinnslusal, þar sem kavíar er settur vélrænt í glerkrukkur, þótt starfslýsing hans á báðum samningum sé „flokkstjóri í kavíarsal”. Samkvæmt fyrri samningnum voru „byrjunarlaun kr. 140.000 á mánuði, miðað við yfirvinnu upp að 10 klst á viku”, en í þeim síðari segir um launakjör: „Heildarlaun eru 170.000 kr. á mánuði. Laun eru greidd út mánaðarlega. Ekki er greitt fyrir yfirvinnu nema hún fari yfir 780 klst á ári, þ.e. að meðaltali 15 stundir á viku. Orlof er 10,17%. Miðað er við að laun séu endurskoðuð einu sinni á ári.”

Kemur nú að því ákvæði sem fyrst og fremst reynir á í máli þessu: Í síðari samningnum stendur: „Ráðningartími: 01.02.98” og „Fastráðning Já.” Í fyrri samningnum er ekkert skráð í reitinn „Ráðningartími” en „Já” í reitinn „Fastráðning”.

                Við aðilayfirheyrslu hélt stefnandi því fram að ákvæðið um ráðningartíma til 1.2.1998 hefði verið sett í síðari samninginn að sinni beiðni. Fyrirsjáanlegt hafi verið sumarið 1997 að á Suðurnesjum yrði slæmt atvinnuástand í fiskiðnaði a.m.k. fram yfir áramót. Kveðst stefnandi hafa viljað tryggja sig gegn því, er hann kom úr leyfinu og tók í raun við starfi flokkstjóra í kavíarsal, að sér yrði ekki á allra næstu mánuðum sagt upp með aðeins eins mánaðar uppsagnarfresti. Ákvæðið um fastráðningu skýrði stefnandi svo, að hann hefði verið fastráðinn til ákveðins tíma, til 1. febrúar 1998. Hann hafi þó reiknað með því að ráðningarsamningur sinn yrði framlengdur, í því ljósi beri að skýra ákvæði samningsins um endurskoðun launa einu sinni á ári. Hann hafi talið sig vera að semja um endurskoðun launa sinna í síðasta lagi ári eftir að samningurinn var gerður, þ.e. endurskoðun í ágúst 1998.

                Hilmar Ásgeirsson, kt. 290165-5989, framleiðslustjóri hjá stefnda, sem undirritar báða samningana fyrir hönd vinnuveitanda, og framkvæmdastjóri félagsins, Lýður Guðmundsson, kt. 130763-5199, sem báðir gáfu aðilaskýrslu, héldu því fram að skýra bæri ákvæði hins umdeilda samnings um ráðningartíma til 1. febrúar 1998 í ljósi ákvæðis sama samnings um endurskoðun launa einu sinni á ári. Slík endurskoðun á launum yfirmanna, en flokkstjóri í kavíarsal teljist í þeim hópi, fari að jafnaði fram um eða eftir áramót. Þar sem stefnandi var nýr í starfi yfirmanns hafi verið sérstök ástæða til að semja um að taka launakjör hans til endurskoðunar er nokkurra mánaða reynsla væri fengin af starfsárangri hans.

Álit réttarins.

                Ákvæði hins skriflega ráðningarsamnings málsaðila frá ágúst 1997 um ráðningartíma er glöggt og skýrt, skráð er að ráðningartími stefnanda sé til 01.02.1998. Ekkert ákvæði er í samningnum um gagnkvæman uppsagnarfrest fram til þess dags. Eigi verður talið að stefnda hafi tekist að sýna fram á að umrætt ákvæði beri að skýra öðruvísi en eftir orðanna hljóðan. Ef ætlun stefnda var sú að semja um endurskoðun launakjara miðað við þennan tiltekna dag, þá var honum í lófa lagið að taka af öll tvímæli og skrá dagsetninguna í þann reit samningsins sem fjallar um launakjör, t.d. bæta við á eftir orðum „Miðað er við að launakjör séu endurskoðuð einu sinni á ári” orðunum „í fyrsta sinn 01.02.1998”, eða öðru þvílíku.

                Eigi verður á það fallist að ákvæði samningsins þar sem skráð er „Já” í reitinn „Fastráðning”, styðji með afgerandi hætti þann skilning stefnda að um ótímabundna ráðningu hafi verið að tefla, hvoru tveggja er að eigi er loku fyrir það skotið að túlka ákvæðið í samræmi við skilning stefnanda, að átt sé við tímabundna fastráðningu, svo og, að ákvæðið er endurtekning á ákvæði eldri samnings, en því er áður lýst að eigi var hirt um það við ritvinnslu hins síðari samnings að breyta dagsetningu frá fyrri samningi. Ákvæðið um ráðningartíma var á hinn bóginn nýtt í síðari samningnum.

                Eigi verður á þá málsástæðu stefnda fallist, að „stefnandi hafi brotið svo gegn ráðningarsamningi aðila að stefnda hafi verið fullkomlega heimilt að rifta samningum með þeim hætti sem gert var.” Er stefnanda var sagt að láta af starfi hinn 29. október 1997 var honum afhent venjulegt uppsagnarbréf þar sem vísað er til uppsagnarfrests samkvæmt kjarasamningi og ekki vísað til neinna riftunarástæðna, því síður að riftun ráðningarsamningsins sé lýst yfir. Stefnanda voru greidd laun á uppsagnarfresti.

                Í máli þessu er ekki ágreiningur um fjárhæðir.

                Samkvæmt framansögðu verður fallist á dómkröfur stefnanda í máli þessu.

                Lögmaður stefnanda hefur lagt fram málskostnaðarreikning, samtals að fjárhæð kr. 135.285,-virðisaukaskattur innifalinn. Verður á þá málskostnaðarkröfu fallist.

                Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

                Stefndi, Bakkavör hf., greiði stefnanda, Pétri Sævarssyni, kr. 397.053,- ásamt dráttarvöxtum af kr. 170.000,- frá 1.1.1998 til 1.2.1998 en af kr. 397.053,- frá þeim degi til greiðsludags og kr. 135.285,- í málskostnað, virðisaukaskattur af málflutningsþóknun innifalinn.