Hæstiréttur íslands

Mál nr. 295/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging


                                     

Þriðjudaginn 28. apríl 2015.

Nr. 295/2015.

Byr sparisjóður

(Árni Ármann Árnason hrl.)

gegn

Ámunni ehf.

(Ólafur Rúnar Ólafsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Lánssamningur. Gengistrygging.

Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var viðurkennd krafa Á ehf. við slit B að fjárhæð 15.422.898 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Talið var að umþrættur lánssamningur málsaðila frá 2007 hefði verið í íslenskum krónum, sem með ólögmætum hætti hefði verið bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá var ekki fallist á með Á ehf. að krafan yrði viðurkennd í réttindaröð sem krafa utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. sömu laga þar sem ekki hefði verið til staðar við upphaf slitameðferðar B sérgreind eða afmörkuð peningafjárhæð í vörslum hans, sem hugsanlegt eignarréttartilkall Á ehf. gæti beinst að.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2015 þar sem viðurkennd var krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 15.422.898 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að viðurkenna framangreinda kröfu varnaraðila. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður í héraði verði felldur niður eða lækkaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Byr sparisjóður, greiði varnaraðila, Ámunni ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2015.

I

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, barst Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi slitastjórnar Byrs sparisjóðs, mótteknu 27. desember 2013.

                Sóknaraðili er Áman ehf., Háteigsvegi 1, Reykjavík.

                Varnaraðili er Byr sparisjóður í slitameðferð, Borgartúni 18, Reykjavík.

                Sóknaraðili gerir aðallega þá kröfu að krafa að fjárhæð 15.422.898 krónur verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila sem krafa skv. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til vara er þess krafist að krafa að fjárhæð 6.159.043 krónur verði viðurkennd sem krafa skv. sama lagaákvæði. Til þrautavara er þess krafist að krafa að fjárhæð 15.422.898 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

II

Málavextir

Sóknaraðili gerði lánasamning við BYR sparisjóð þann 31. mars 2007. Í samningnum kemur fram að um sé að ræða „lán í erlendum myntum að jafnvirði ISK 19.000.000***nítjánmilljónir íslenskar krónur 00/1000*** í eftirtöldum myntum og hlutföllum: USD20%, CHF20%, JPY20, EUR40%“. 

Í 1. gr. samningsins, sem ber yfirskriftina „lánsfjárhæð og útborgun“, segir að lántaki lofi að taka að láni og lánveitandi að lána „umsamda lánsfjárhæð“. Lánið sé bundið kaupgengi lánveitanda á ofangreindum myntum tveimur virkum dögum fyrir útborgunardag. Lánið sé laust til útborgunar frá undirritun samningsins en lántaki skuli senda lánveitanda beiðni um útborgun fyrir kl. 12, tveimur virkum dögum fyrir áformaða útborgun lánsins, þar sem tiltekinn sé sá reikningur sem leggja skuli lánshlutann inn á, sbr. viðauka 1 með samningnum.

Í 2. gr. samningsins, sem ber yfirskriftina „endurgreiðsla“ er m.a. kveðið á um að lánið skuli endurgreiða að fullu á 10 árum þannig að 1/120 hluti af upphaflegum höfuðstól sé greiddur á hverjum gjalddaga, í fyrsta sinn 15. maí 2007 og síðan með jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti út lánstímann. Þá er kveðið á um að við greiðslu lánshluta í erlendri mynt, þegar greitt sé með viðkomandi mynt, skuli lántaki greiða á gjalddaga afborgana og/eða vaxta, inn á gjaldeyrisreikning sem lánveitandi tilgreini hverju sinni. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslu af lánshluta í íslenskum krónum skuli hann greiða samkvæmt sölugengi lánveitanda á gjalddaga.

Í 3. gr. samningsins, sem ber yfirskriftina „vextir, vaxtabreytingar greiðsla vaxta“ kemur m.a. fram að skuldin beri vexti sem séu eins mánaðar LIBOR/EURIBOR-vextir eins og þeir ákvarðast fyrir viðkomandi gjaldmiðil hverju sinni, að viðbættu vaxtaálagi. 

Í 16. gr. samningsins, sem ber yfirskriftina „önnur ákvæði“ kemur m.a. fram að lántaki veiti lánveitanda heimild til að skuldafæra reikning sinn nr. 1101-26-121 fyrir afborgunum, gengismun, verðbótum, dráttavöxtum og hvers konar kostnaði af láninu. Dragist greiðsla fram yfir gjalddaga sé lánveitanda heimilt að láta gengistryggingu á gjaldfallinni fjárhæð haldast.

Í viðauka 1 við lánssamninginn kemur fram að lánið skuli lagt inn á reikning sóknaraðila hjá BYR sparisjóði nr. 1101-26-121. Samkvæmt gögnum málsins ráðstafaði sóknaraðili láninu til uppgreiðslu á verðtryggðum lánum í íslenskum krónum sem hann hafði tekið hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar í nóvember 2007. 

Skilmálabreytingar voru gerðar á lánasamningum 24. nóvember 2008 og 1. júní 2009 en með þeim var lánstíminn lengdur. Í báðum tilvikum var tekið fram að lánið væri „að jafnvirði  kr. 19.000.000***nítjánmilljónir íslenskar krónur 00/1000***  í erlendum myntum“. Sóknaraðili greiddi aukalega 29.000.000 króna af láninu í nóvember 2009. Sóknaraðili greiddi upp samninginn þann 15. apríl 2010 með greiðslu að fjárhæð 6.159.043 krónum. Var greiðslan innt af hendi með fyrirvara „um lögmæti erlendra lána á Íslandi og aðgerðir stjórnvalda“. Kom fram að fyrirvarinn tengdist þeirri óvissu sem skapast hefði um erlend lán í bankakerfinu og dómi héraðsdóms um ólögmæti erlendra lána sem taka ætti fyrir í Hæstarétti.

Hinn 2. júlí 2010 kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp úrskurð um að varnaraðili yrði tekinn til slitameðferðar. Við slitin lýsti sóknaraðili fjárkröfu á hendur varnaraðila. Var þess krafist aðallega að krafa hans yrði viðurkennd í réttindaröð, skv. 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almenn krafa, skv. 113. gr. l. 21/1991. Fram kom í kröfulýsingunni að kröfuhafi hefði greitt upp lánssamning fyrir gjalddaga eða þann 20. apríl 2010, umfram skyldu og í góðri trú og að kröfuhafi teldi að hann hefði ofgreitt kröfu sína vegna ólögmætrar gengistryggingar, sem þrotamanni hafi mátt vera ljóst að hann átti ekki réttmæta kröfu til. Með bréfi slitastjórnar 4. apríl 2011 var kröfunni hafnað. Nokkrar bréfaskriftir áttu sér stað milli aðila og þá var reynt að leysa úr ágreiningnum á fundi. Ekki náðust sættir og var því ákveðið að ágreiningum til héraðsdóms eftir ákvæðum 171. gr. sömu laga.

                                                                                              III

Málsástæður sóknaraðila

                Af hálfu sóknaraðila er til stuðnings aðalkröfu vísað til þess að hún falli undir ákvæði 109. gr. laga nr. 21/1991. Hann hafi greitt upp kröfuna þann 15. apríl 2010 með þeim fyrirvara að lánið væri ólögmætt. Varnaraðila hafi borið skylda til þess að taka kröfuna til útreiknings um leið og hann hafi fengið greiðsluna í hendur og þá miðað við að gengistrygging lánsins væri ólögmæt. Þeirri fjárhæð hafi varnaraðila borið að halda aðskilinni frá öðrum inneignum vegna vafans á eignarrétti á þessum fjármunum.

                Til stuðnings varakröfu sinni vísar sóknaraðili til þess að varnaraðila hafi í það minnsta borið skylda til að taka kröfuna til útreiknings um leið og hann hafi fengið greiðsluna í maí 2010 í hendur og miða þá við að gengistrygging lánsins væri ólögmæt. Þeirri fjárhæð hafi varnaraðila borið að halda aðskilinni frá öðrum inneignum vegna vafans um eignarrétt á þessum fjármunum.

                Til stuðnings þrautavarakröfu vísar sóknaraðili til þess að krafa hans hafi fullt gildi lögum samkvæmt. Varnaraðili hafi aldrei rökstutt mótmæli sín gegn kröfunni og virðist þá helst byggja á því að gengistrygging lánsins hafi verið lögmæt. Þessu sé mótmælt sem röngu enda liggi fyrir dómar þar sem staðfest sé að gengistrygging með sambærilegum hætti og fram komi í lánsskjali sóknaraðila hafi verið dæmd ólögmæt.

Málsástæður varnaraðila

                Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að allan rökstuðning skorti fyrir aðalkröfu sóknaraðila, þ.e. á hverju krafan byggist og af hverju lánssamningurinn eigi að vera ólögmætur. Vegna þessarar vanreifunar sé ómögulegt fyrir varnaraðila að koma með andsvör hvað þennan þátt varðar. Hvað rétthæð kröfunnar varðar þá vísar varnaraðili til þess að enginn fótur sé fyrir þeirri staðhæfingu sóknaraðila að varnaraðili hafi átt að halda umræddum fjármunum aðgreindum. Það standist engan veginn að sóknaraðili geti átt sértökukröfu, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991, að fjárhæð 15.422.898 krónur sem byggð sé á því að hann hafi greitt lánið upp með 6.159.043 krónum í apríl 2010. Telji dómurinn að sóknaraðili eigi fjárkröfu á varnaraðila sé ljóst að sú krafa geti aldrei verið rétthærri en almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Sá sem krefjist afhendingar sérgreindrar peningafjárhæðar utan skuldaraðar við gjaldþrotaskipti þurfi að sýna fram á beinan eignarrétt sinn að fjármununum. Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að þetta skilyrði sé uppfyllt. Þó svo að fallist væri á að sóknaraðili ætti beinan eignarrétt að fjármunum í vörslum varnaraðila vegna kröfu sinnar, þá sé ekki í vörslum varnaraðila sérgreind eða afmörkuð peningafjárhæð sem hugsanlegt eignarréttartilkall sóknaraðila geti beinst að. Ekkert komi heldur fram um það í reikningum varnaraðila að fjármunum vegna þessa hafi verið haldið sérgreindum, enda hafi það ekki verið gert. Það sem máli skipti sé hver staðan hafi verið þegar slitastjórn hafi komið að málum. Þá hafi legið fyrir að ekki hafi verið fyrir hendi sérgreindir fjármunir til að mæta þessum uppreiknuðu réttindum.

                Varnaraðili telur að varakrafa sóknaraðila sé sama marki brennd og aðalkrafan þar sem í hana vanti allan rökstuðning fyrir því á hverju krafan byggist og af hverju lánssamningurinn skuli teljast ólögmætur. Sökum þessa sé ómögulegt fyrir varnaraðila að koma með andsvör hvað þennan þátt varðar. Hvað varðar rétthæð kröfunnar mótmælir varnaraðili því að hún geti undir nokkrum kringumstæðum talist sértökukrafa skv. 109. gr. laga nr. 21/1991 og vísar um það nánar til umfjöllunar um aðalkröfu sóknaraðila.

                Hvað varðar þrautavarakröfu sóknaraðila þá vísar sóknaraðili til þess að hún sé enn fremur því sama marki brennd og aðalkrafan og varakrafan að í hana vantar allan rökstuðning fyrir því á hverju krafan byggist og af hverju lánssamningurinn skuli teljast ólögmætur. Krafan sé því algjörlega vanreifuð af hálfu sóknaraðila og ómögulegt fyrir varnaraðila að koma með andsvör hvað þennan þátt varðar. Þar sem allan rökstuðning vanti fyrir kröfunni af hálfu sóknaraðila sé ekki ástæða til þess á þessu stigi að fara ofan í þá útreikninga sem lagðir hafa verið fram af hálfu sóknaraðila. Hins vegar áskilur varnaraðili sér rétt til að hrekja útreikningana á síðari stigum málsins eða leggja fram eigin útreikninga, allt eftir því hvað við eigi hverju sinni.

                Um lagarök vísar varnaraðili til 4. mgr. 101. gr. og 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. XIX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varðandi kröfu um málskostnað vísar varnaraðili til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                              IV

Niðurstaða

Lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla, en lán í erlendri mynt fara ekki gegn ákvæðum laganna, sbr. og dóma Hæstaréttar Íslands frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

Sóknaraðili byggir á því að lánssamningur sem hann gerði við Byr sparisjóð hafi verið í íslenskum krónum, bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla sem hafi verið óheimilt, sbr. ofangreint. Dómurinn getur fallist á það með varnaraðila að þessi málsástæða sóknaraðila sé ekki fyllilega skýr, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Eins og málið liggur fyrir verður hins vegar ekki talið að það hamli því að varnaraðili geti tekið til varna.

Ákvæðum umdeilds samnings er lýst í málavaxtakafla dóms þessa. Eins og ítrekað hefur komið fram í dómum Hæstaréttar skal, við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum, fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í samningnum. Samningsákvæði gefa ekki skýrt til kynna hvort skuldbinding aðila sé í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum og þarf þá að meta heildstætt, m.a. eftir efndum aðila, hvort samið hafi verið um lán í erlendum gjald­miðlum eða íslenskum krónum, bundnum við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt því ber því fyrst að líta til þess að á forsíðu umdeilds samnings er hann sagður vera um lán í erlendum gjaldmiðlum. Í samningnum sjálfum er hann sagður vera í fjórum erlendum myntum í ákveðnum prósentuhlutföllum að jafnvirði til­tekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum.  Þannig kemur fjárhæð lánsins í viðkomandi myntum ekki fram í samningnum. Samkvæmt viðauka við samninginn skyldi leggja lánsfjárhæðina inn á tékkareikning lántaka nr. 1101-26-121. Lánsfjárhæðin var þannig greidd út í íslenskum krónum. Í samningnum var kveðið á um heimild lánveitanda til að skuldfæra fyrir afborgunum af láninu og vöxtum af sama tékkareikningi og liggur ekki annað fyrir en að afborganir hafi verið skuldfærðar af reikningnum. Greiðslur sem sóknaraðili innti af hendi umfram ákvæði samningsins, þ.e. 29.000.000 króna í nóvember 2009 og 6.159.043 krónur í apríl 2010, voru líka inntar af hendi í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að báðir samningsaðilar hafi efnt skyldur sínar samkvæmt samningnum með því að fjárhæðir í íslenskum krónum skiptu um hendur. Fyrir liggja tvær skilamálabreytingar á lánasamningnum, þ.e. frá 24. nóvember 2008 og 1. júní 2009. Í þeim báðum er einungis vísað til þess að Byr spari­sjóður hafi lánað varnaraðila  „að jafnvirði kr. 19.000.000***nítjánmilljónir íslenskar krónur 00/1000*** í erlendum myntum“. Þannig er í engu getið um hverjar þær erlendu myntir séu eða um fjárhæð þeirra eða hlutföll. Þegar allt framangreint er virt verður að leggja til grundvallar að samið hafi verið um lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla sem óheimilt hafi verið að gera.

Sóknaraðili hefur lagt fram útreikninga endurskoðanda á lánasamningnum sem tekur mið af því að höfuðstóll upphaflegrar skuldar sóknaraðila hafi verið í íslenskum krónum án verðtryggingar. Endurútreikningur byggir á því að skuldin beri vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Niðurstaða endurskoðandans, dagsett 22. júlí 2013, gefur til kynna að sóknaraðili hafi ofgreitt Byr sparisjóði samtals 15.422.898 krónur. Varnaraðili hefur ekki gert athugsemdir við útreikninga og ber því að leggja þá til grundvallar í málinu.

Sóknaraðili gerir í aðal- og varakröfu sinni kröfu til þess að krafa hans við slit varnaraðila verði viðurkennd í réttindaröð sem krafa utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt nefndu ákvæði skal afhenda eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim.  Fyrir liggur að hvorki ofgreiðsla sóknaraðila skv. hinum umþrætta lánasamningi né greiðsla hans sem hann innti af hendi í apríl 2010 er sérgreind frá öðrum fjármunum varnaraðila. Því grundvallarskilyrði nefndrar greinar er því ekki fullnægt í málinu, að til staðar hafi verið við upphaf slitameðferðar varnaraðila sérgreind eða afmörkuð peningafjárhæð í vörslum hans, sem hugsanlegt eignar­réttar­tilkall sóknaraðila gæti beinst að. Þau rök sóknaraðila að varnaraðila hafi borið skylda til að halda greiðslum frá sóknaraðila aðskildum frá öðrum inneignum fá ekki staðist. Því ber að fallast á þrautavarakröfu sóknaraðila um að krafa að fjárhæð 15.422.898 krónur verði viðurkennd í réttindaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila en þá fjárhæð ofgreiddi sóknaraðili Byr sparisjóði.

Með vísan til þessara málsúrslita verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila máls­kostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 kr.

Dómari lætur þess getið að eftir að málið hafði verið tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 16. febrúar sl. varð hann þess áskynja að í gögn málsins vantaði viðauka 1, beiðni um útborgun láns, við hinn umþrætta lána­samn­inginn en getið er um viðaukann á efnisyfirliti samningsins. Með heimild í 104. gr. laga n. 91/1991, sbr. lög nr. 21/1991, beindi dómari því til aðila að afla viðaukans. Var við­aukinn lagður fram í þinghaldi í dag og aðilum gefinn kostur á að gera athugsemdir við fyrri málflutning sinn. Að því loknu var málið tekið til úrskurðar að nýju en dómari og aðilar töldu ekki þörf á endurflutningi, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 21/1991.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Gunnar Sólnes hrl. og af hálfu varnaraðila Árni Ármann Árnason hrl.

                Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Krafa sóknaraðila, Ámunnar ehf., að fjárhæð 15.422.898 krónur er viðurkennd í réttindaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila, Byrs sparisjóðs.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 750.000 kr. í málskostnað.