Hæstiréttur íslands

Mál nr. 342/2003


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Uppsögn


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. mars 2004.

Nr. 342/2003.

Alfreð Hafsteinsson

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

gegn

Skagstrendingi hf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

 

Sjómenn. Uppsögn.

S sagði A skriflega upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings og 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. A vann út uppsagnarfrestinn og fékk að fullu greitt fyrir þá vinnu sína. Talin var ósönnuð sú fullyrðing A að uppsögnin hafi brotið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar eða öðrum lagaákvæðum. Uppsögnin var samkvæmt þessu talin heimil og var S sýknaður af öllum kröfum A.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. ágúst 2003. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.577.897 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. júlí 2002 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

 Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 5. júní 2003.

I.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 20. maí sl., er höfðað af Alfreð Hafsteinssyni, Dalhúsum 65, Reykjavík á hendur Skagstrendingi hf., Túnbraut 1-3, Skagaströnd, með stefnu áritaðri um birtingu 5. nóvember 2002.

                Dómkröfur stefnanda.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.577.897 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. júlí 2002 til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti.

                Dómkröfur stefnda.

                Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, þá gerir hann kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda.

 

II.

Málavextir.

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig: Hann hafi í september árið 1992 ráðist til stefnda sem vélstjóri á Örvar HU-21 og þá hafi framkvæmdastjóri stefnda gert það að skilyrði fyrir ráðningunni að stefnandi flytti búferlum til Skagastrandar og það hafi hann gert í janúarmánuði 1993. Hann hafi á þessum tíma búið í íbúðarhúsnæði í eigu stefnda. Vorið 1994 hafi stefndi selt íbúðarhúsnæðið og gert stefnanda að rýma það í byrjun ágústmánaðar það ár.  Á þeim tíma hafi ekkert húsnæði verið að fá á leigu á staðnum en stefndi hafi boðið stefnanda húsnæði sem hann var að byggja til kaups.  Það boð hafi hann ekki þegið og flutt ásamt eiginkonu sinni aftur til Reykjavíkur í ágúst 1994.  Nokkrum dögum síðar hafi honum verið sagt upp störfum og ráðningu hans lokið í október það ár. 

Snemma árs 1995 hafi stefnandi aftur verið ráðinn sem vélstjóri á Örvar HU en á þeim tíma hafi nýr framkvæmdastjóri tekið við störfum hjá stefnda.  Í þetta sinn hafi stefndi sett það sem skilyrði fyrir ráðingunni að stefnandi flytti lögheimili sitt til Skagastrandar en ekki krafist þess að hann flyttist þangað búferlum. Þann 30. nóvember 1995 hafi stefnandi flutt lögheimili sitt til Skagastrandar.  Skömmu síðar eða þann 4. desember 1995 hafi hann flutt lögheimili sitt aftur til Reykjavíkur og segir stefnandi að þá hafi verið tryggt að útsvar rynni til Skagastrandar.  Sami háttur hafi verið hafður á árið 1996.  Hann hafi flutt lögheimili sitt til Skagastrandar í lok nóvember og aftur til Reykjavíkur í desember.  Í lok árs 1996 tók stefnandi við starfi 1. vélstjóra á Arnari HU sem einnig er í eigu stefnda.

Á árinu 1997 flutti stefnandi ekki lögheimili sitt til Skagastrandar enda taldi hann að slíkur lögheimilisflutningur gæti brotið gegn nýjum lögum sem sett höfðu verið í tengslum við flutning grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga en á þessum tíma hafi hann átt þrjú börn á grunnskólaaldri.  Stefnandi segir að framkvæmdastjóri stefnda hafi á árinu 1999 hótað honum uppsögn ef hann flytti ekki lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar til Skagastrandar.  Þeir hafi hins vegar náð sátt um að lögheimili hans yrði flutt en ekki annarra fjölskyldumeðlima og það hafi verið gert um miðjan nóvember 1999.

Stefnandi segir að milli jóla og nýárs 2001 hafi skipstjórar og yfirvélstjóri Arnars HU verið boðaðir á fund framkvæmdastjóra stefnda til að ræða mönnunarmál skipsins í ljósi búsetu skipverja.  Í kjölfar fundarins þann 2. janúar 2002 hafi stefnandi verið boðaður á fund framkvæmdastjóra stefnda.  Þar hafi honum verið gert að flytja með fjölskyldu sína til Skagastrandar eða vera sagt upp störfum ella.  Hann hafi fengið frest til 1. mars 2002 til að verða við kröfum stefnda.  Stefnandi segir að sama krafa hafi verið höfð uppi við 2. vélstjóra Arnars HU sem þá var búsettur í Reykjavík en með lögheimili á Skagaströnd.  Sá maður hafi flutt til Skagastrandar og haldið starfi sínu.  Stefnandi kveðst í samráði við eiginkomu sína hafa ákveðið að láta undan þrýstingi frá stefnda og flytjast búferlum til Skagastrandar þrátt fyrir að slíkt hefði óhjákvæmilega í för með sér verulega röskun á högum eiginkonu hans og barna.  Þessa ákvörðun hafi hann tilkynnt stefnda þann 25. febrúar 2002 en jafnframt greint frá því að af flutningi gæti ekki orðið fyrr en um sumarið 2002 vegna skólagöngu barnanna. Viðbrögð framkvæmdastjóra stefnda hafi verið þau að þetta skipti ekki máli og uppsögnin stæði en hún yrði hugsanlega endurskoðuð að búferlaflutningunum afstöðnum en engin trygging hafi verið gefin fyrir endurráðningu.  Að sögn stefnanda reyndi hann að fá stjórnarmenn stefnda til að hlutast til um að uppsögnin yrði endurskoðuð en það hafi ekki gengið.  Stefnandi heldur því fram að stjórnarformaður stefnda hafi tjáð honum að ekki yrði aðhafst af hálfu stefnda vegna aðgerða framkvæmdastjórans og hann hafi sagt að það væri ekkert launungarmál að uppsögnin væri til komin vegna þrýstings frá sveitarfélaginu.

Þann 16. mars 2002 barst stefnanda síðan uppsagnarbréf.  Í bréfinu er ekki gerð grein fyrir ástæðu uppsagnarinnar en stefnanda þökkuð störf hans í þágu félagsins.  Stefnandi segir að ekki hafi verið fundið að störfum hans fyrir stefnda og meðmælabréf sem fram hafa verið lögð í málinu staðfesti það. Í framhaldi af uppsögninni ritaði lögmaður stefnanda stefnda bréf og óskaði eftir afstöðu stefnda við þeirri fullyrðingu stefnanda að honum hafi verið sagt upp vegna nefndra búsetumála hans.  Stefndi hafi neitað að greina frá því hvers vegna stefnanda var sagt upp en sagt að uppsögnin byggði ekki á þessari ástæðu. Eftir að Arnar HU kom úr veiðiferð þann 2. júlí 2002 hafi störfum stefnanda í þágu stefnda lokið en stefnandi hafi fengið greidd laun í veikindaforföllum í 14 daga til viðbótar en hann hafi slasast lítillega undir lok síðustu veiðiferðarinnar.  Eftir þetta kveðst stefnandi hafa reynt að ná sáttum við stefnda en það hafi ekki tekist. 

Stefndi lýsir málavöxtum þannig:  Stefnanda hafi verið sagt upp störfum þann 16. mars 2002 með rúmlega þriggja mánaða uppsagnarfresti með bréfi sem stefnandi tók sjálfur við og ráðningarlok hafi átt að vera 1. júlí 2002. Stefnandi hafi hins vegar verið óvinnufær vegna vinnuslyss til 15. júlí 2002 og hann því fengið greidd laun í slysaforföllum þann tíma. Tæpum mánuði eftir uppsögnina hafi stefnandi ritað stefnda bréf og haldið því fram að uppsögnin væri ólögmæt og ómarktæk þar sem ástæða hennar væri búsetumál.  Þessu bréfi hafi stefndi svarað þannig að afstaða félagsins væri sú að ræða ekki efnislega ástæðu uppsagnar einstakra starfsmanna og því ekki tjáð sig sérstaklega um ástæðu uppsagnarinnar.  Þess hafi jafnframt verið getið að uppsögnin gæti ekki stangast á við ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar. Áður hafi fyrirsvarsmaður stefnda munnlega greint formanni Vélstjórafélags Íslands frá þessu sjónarmiði stefnda.  Þann 5. júlí 2002 hafi síðan borist kröfubréf frá stefnanda þar sem krafist er bóta þar sem uppsögnin teldist brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar en stefndi hafi ekki talið ástæðu til að eiga frekari bréfaskipti við stefnanda vegna málsins enda hafi hann áður greint frá afstöðu sinni til kröfunnar og því hafi bréfinu ekki verið svarað.  Stefndi telur aðra málavexti en þessa ekki eiga erindi inn í mál þetta og kveðst hann ekki treysta sér til að taka þátt í umfjöllun um persónulega hagi stefnanda eða annarra.  Þá treysti hann sér ekki til að taka þátt í umfjöllun stefnanda um samtöl hans við einstaka menn. 

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir bótarétt sinn á 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 enda hafi honum verið vikið úr skipsrúmi áður en ráðningartími hans var liðinn og án þess að til þess væri heimild í 23. eða 24. gr. sjómannalaga.  Hann eigi því samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalag rétt til skaðabóta er nemi kaupi hans í þrjá mánuði enda hafi hann sem 1. vélstjóri verið yfirmaður á Arnari HU sbr. 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga.  Stefnandi heldur því fram að uppsögn hans hafi stuðst við ómálefnaleg og ólögmæt sjónarmið og því beri að virða uppsögnina að vettugi.  Þar sem uppsögnin hafi verið ólögmæt leiði ráðningarslitin til skaðabótaskyldu stefnda samkvæmt ákvæðum 25. gr. sjómannalaga er nemi meðallaunum 1. vélstjóra á Arnari HU síðustu þrjá mánuðina áður ráðningu var slitið.

Stefnandi heldur því fram að honum hafi verið sagt upp störfum vegna þess að hann neitaði að flytjast með fjölskyldu sína fyrirvaralaust til Skagastrandar.  Öðrum skipverjum á Arnari HU sem bjuggu með fjölskyldum sínum á Skagaströnd hafi hins vegar ekki verið sagt upp störfum.  Engin málefnaleg rök leiði til þessarar ákvörðunar stefnda en Arnar HU sé frystitogari og þar af leiðandi séu veiðiferðir skipsins alla jafnan um 40 dagar.  Búseta hans í Reykjavík hafi ekki haft nein áhrif á störf hans um borð í skipinu.  Byggir stefnandi á því að uppsögnin hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum sem lúta að persónulegum högum hans og hann misrétti beittur sem stangist á við 65. gr. stjórnarskár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Stefnandi heldur því fram að við úrlausn máls þessa beri að horfa til þess að farið var á mismunandi hátt með tvö tilvik.  Þannig hafi honum verið sagt upp störfum vegna þess að hann neitaði að búa á Skagaströnd, en stefnandi telur óumdeilt að það hafi verið ástæða uppsagnarinnar, en öðrum skipverjum sem þar bjuggu hafi ekki verið sagt upp.  Stefnandi heldur því fram að hann hafi gengt starfi sínu óaðfinnanlega og honum hafi ekki verið sagt upp störfum vegna slælegrar frammistöðu.  Stefndi haldi því fram að honum beri ekki skylda til þess að greina frá ástæðum uppsagnarinnar en stefnandi er því ósammála.  Ef stefndi heldur því fram að búsetusjónarmið hafi ekki ráðið uppsögninni verði hann að upplýsa hvað leiddi til uppsagnarinnar, að öðrum kosti verði að leggja sjónarmið stefnanda til grundvallar. 

Stefnandi heldur því fram að uppsögnin hafi haft verulegar afleiðingar fyrir hann.  Laun hans hafi lækkað mikið enda sé vélstjórastaða á Arnari HU með betri skipsrúmum í íslenska fiskiskipaflotanum.  Hann hafi haft um 44.000 krónur á dag í laun hjá stefnda en daglaun hans nú séu innan við 13.000 krónur.  Fjárhagslegt tjón hans sé því mikið. 

Stefnandi telur að einnig beri að líta til þess hvort eðlilegt samræmi sé milli þess markmiðs sem mismununin stefnir að og þeirra aðferða sem beitt er til að ná markmiðinu.  Að beita uppsögn eða hóta uppsögn í þeim tilgangi að bæta við íbúaskrá Skagastrandar sé ekki málefnaleg eða lögmæt aðferð.

Stefnandi bendir á að ákvæði 7. gr. laga nr. 47/1993 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan evrópska efnahagssvæðisins banni uppsagnir úr starfi á grundvelli þjóðernis. Ákvæði þetta leiði til þess að stefnanda hefði verið óheimilt að segja vélstjóra frá landi innan evrópska efnahagssvæðisins búsettum í heimalandi sínu upp störfum.  Hafi stefnda verið heimilt að segja stefnanda upp starfi vegna búsetu hans þá leiði það til þess að hann sé verr settur en hinn erlendi vélstjóri.  Slíkt leiðir til meiri réttinda fyrir erlendan ríkisborgara en stefnanda og slíkt sé brot á 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar enda skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til þjóðernisuppruna.  Stefnandi heldur því fram að í máli þessu skuli beita 1. mgr. 7. gr. laga nr. 47/1993 með lögjöfnun eða eftir atvikum rýmkandi lögskýringu um aðstöðu stefnanda. 

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda hafi verið skylt að rökstyðja uppsögn stefnanda úr starfi og bendir hann í því sambandi meðal annars á 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Þá vísar stefnandi til 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er kveður á um að í lögum skuli mæla fyrir um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Á sviði vinnuréttar sé fyrir hendi löggjöf bæði almenn og sérgreind t.d. lög um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 og lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.  Þessir lagabálkar séu almenns eðlis og taki annars vegar til launþega á almennum markaði og hins vegar til launþega hjá hinu opinbera.  Dæmi um sérstakar reglur um tiltekið starfssvið sé t.d. sjómannalög nr. 35/1985 og lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en þessa lagabálka telur stefnandi skipta máli við úrlausn þessa máls.  Stefnandi bendir á að í sjómannalögum sé kveðið svo á í 2. mgr. 9. gr., að uppsagnarfrestur yfirmanns sé þrír mánuðir nema um annað hafi verið samið sérstaklega.  Í lagagreininni sé ekkert minnst á forsendur uppsagnar eða rétt sjómanna til rökstuðnings fyrir uppsögn af hálfu útgerðar.  Telur stefnandi að í sjómannalögum sé ekki að finna vernd fyrir ólögmætum og ómálefnalegum uppsögnum.  Í 1. gr. laga nr. 70/1996 er mælt fyrir um að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins taki til hvers manns sem er skipaður, settur eða ráðinn í þjónustu ríkisins til lengri tíma en eins mánaðar.  Þá segir að II. hluti laganna taki einvörðungu til embættismanna samkvæmt 22. gr. en III. hluti taki til annarra starfsmanna ríkisins.  Þriðji hluti laganna fjalli um starfsmenn ríkisins sem hafa samnings- og verkfallsrétt eins og starfsmenn á almennum vinnumarkaði.  Byggir stefnandi á því að munur á þessum hópum sé í raun enginn.  Engu að síður njóti ríkisstarfsmenn ríkari verndar þegar kemur að uppsögn sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996.  Í 1. málslið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 segi að skylt sé að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. laganna og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef ástæða uppsagnar á rætur að rekja til atriða sem nefnd eru í 21. gr. laganna.  Í lokamálslið 21. gr. sé lögfest sú regla að starfsmanni skuli gefinn kostur á að tala máli sínu áður en áminningu er beitt.  Í 3. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996 er mælt svo fyrir að uppsögn skuli rökstudd skriflega ef starfsmaður óskar þess, ef ástæða uppsagnarinnar á rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. laganna.

Samkvæmt því sem að framan er rakið njóti ríkisstarfsmenn, aðrir en embættismenn, mun ríkari réttarverndar en launþegar á hinum almenna vinnumarkaði þegar kemur að uppsögn úr starfi.  Stefnandi telur engin efnisleg rök vera fyrir þessari mismunun og raunar hafi löggjafinn staðfest í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 70/1996 að þessi mismunun komi til með að vera til staðar með staðfestingu laganna og að engin sérstök rök geti réttlætt hana.  Í greinargerðinni segir m.a. svo;  ,,Frumvarpinu er ætlað að ráða bót á þessu misrétti, auk þess sem stefnt er að því að réttindi hvers og eins starfsmanns samsvari þeim skyldum, sem honum eru lagðar á herðar, á sama hátt og gert var á sínum tíma þegar lög nr. 38/1954 voru sett.  Samkvæmt því gerir frumvarpið ráð fyrir að mismunandi reglur gildi um starfsmenn ríkisins eftir því hver réttarstaða þeirra er.  Þannig er lagt til að starfsöryggi þeirra starfsmanna, er njóta hvorki samnings- né verkfallsréttar, verði tryggt nokkru betur en venja er meðan aðrir starfsmenn ríkisins njóta almennt samnings- og verkfallsréttar, búi við svipað öryggi í starfi og launþegar á hinum almenna vinnumarkaði.  Þó er rétt að leggja áherslu á að samkvæmt frumvarpinu er ríkisstarfsmönnum tryggt meira réttaröryggi í samskiptum sínum við ríkið en launþegar búa almennt við í skiptum við vinnuveitendur á almennum vinnumarkaði.”  Stefnandi heldur því fram að mismunun sú sem gerð er á milli ríkistarfsmanna og launþega á almennum vinnumarkaði brjóti í bága við ákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.  Þetta leiði til þess að ákvæði 44. gr., sbr. 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi einnig um réttarstöðu stefnanda.  Annað hvort með lögjöfnum við tilvik eða aðstöðu stefnanda eða með rýmkandi lögskýringu á ákvæði 44. gr. laga 70/1996.

Stefnandi heldur því fram að ef ástæður uppsagnar hans byggðust á atriðum sem fram koma í 21. gr. nefndra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi stefnda borið að áminna hann áður en til uppsagnar kom.  Stefnandi hefði að sjálfsögðu ekki getað borið uppsögnina undir ráðherra, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga 70/1996 en dómstólaleiðin hefði verið honum fær.  Stefnandi óskaði eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni en stefndi hafnaði þeirri ósk.  Telst það vera brot á 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 enda sé því ákvæði beitt með lögjöfnun um tilvik stefnanda þar sem hér er um ólögákveðið atriði að ræða sem er samkynja þeirri réttarreglu sem sett hefur verið ríkisstarfsmönnum til hagsbóta.  Stefndi hafi ekki verið að hagræða í rekstri sínum eða fækka starfsmönnum með því að segja stefnanda upp og þar af leiðandi getur hann ekki borið fyrir sig ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. nefndrar 44. gr.

Af hálfu stefnanda er því ennfremur haldið fram að engin efnisleg rök liggi fyrir þeirri mismunun sem er á réttarstöðu stefnanda og ríkisstarfsmanna þegar kemur að uppsögn.  Ekki verði séð að ríkisstarfsmenn þurfi á sérstakri réttarvernd að halda umfram það sem gildir á almennum vinnumarkaði.  Þvert  á móti verði að gera ráð fyrir ríkari réttarvernd á hinum almenna vinnumarkaði.  Þá verði að taka sérstakt tillit til réttarstöðu sjómanna enda er auðlind sjávar takmörkuð sem og úthlutun veiðiheimilda og störf í sjávarútvegi því takmörkuð.  Stefnandi hefur að baki langt vélfræðinám auk mikillar reynslu á fiskiskipum en atvinnutækifæri hans byggi að meirihluta til á vélstjórn á sjó. Stefndi er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með tiltölulega stóran hluta úthlutaðra veiðiheimilda.  Það geti ekki staðist að helstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins geti ákveðið að byggja ráðningu og uppsagnir sjómanna á ómálefnalegum sjónarmiðum, við slíku verði að sporna. 

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu skaðabóta, meðalbóta, samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Meðalbætur nema kaupi í 90 daga sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga en frá þeim dagafjölda dragast 14 dagar sem stefnandi fékk greidda í slysaforföllum og þá standa eftir 76 dagar. Við útreikning meðalbótanna er tekið mið af launum stefnanda tímabilið 12. júní 2001 til 15. júlí 2002 en þá voru laun hans samtals 12.428.615 krónur fyrir 280 daga.  Samkvæmt því voru laun hans 44.388 krónur á dag og sú fjárhæð margfölduð með 76 geri 3.373.488 krónur.  Við þessa fjárhæð beri að leggja glötuð lífeyrisréttindi 6% af þessari fjárhæð eða 202.409 krónur.  Heildarkrafa stefnanda nemi því 3.577.897 krónum.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi aðallega til 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Þá byggir hann kröfu sína á 5., 9., 23., 24. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. 7. gr. laga nr. 47/1993 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan evrópska efnahagssvæðisins, 1., 21., 44. og 3. mgr. 45. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með lögjöfnun um aðstöðu stefnanda. Þá vísar hann til allnokkurra dóma Hæstaréttar Íslands. Krafa um dráttarvexti er byggð á lögum nr. 38/2001.  Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

Málsástæður og lagarök stefnda. 

Stefndi byggir á því að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt, enda framkvæmd í samræmi við ákvæði kjarasamnings vélstjóra og ákvæði sjómannalaga nr. 35/1985.  Í grein 1.24 gildandi kjarasamnings aðila segi svo um gagnkvæman uppsagnarrétt aðila og uppsagnarfrest:  ,,Uppsagnarfrestur vélstjóra skal vera þrír mánuðir og skal uppsögn vera skrifleg af beggja hálfu.” Um uppsögn ráðningar-samninga milli útgerðarmanna og skipverja sé fjallað í 9. til 16. gr. sjómannalaga en ákvæði 2. mgr. 9. gr. og 1. og 3. mgr. 10. gr. laganna geti skipt máli við úrlausn máls þessa.  Þessum ákvæðum hafi stefndi réttilega fylgt eftir í þessu tilfelli. Stefndi byggir á því að aðilar skiprúmssamnings, útgerðarmaður og sjómaður, hafi báðir samnings- og lögbundinn rétt til að segja honum upp án þess að tilgreina fyrir því sérstakar ástæður enda sé við uppsögnina fylgt formreglum viðkomandi kjarasamnings og áðurnefndum ákvæðum sjómannalaga. 

Stefndi heldur því fram að engin efnisleg skilyrði séu fyrir gagnkvæmum rétti til uppsagnar ráðningarsamnings á almennum vinnumarkaði.  Rétturinn sé þannig skilyrðislaus af hálfu beggja aðila og þeim báðum mikilvægur enda talinn meðal grundvallarréttinda á almennum vinnumarkaði.  Réttur til skilyrðislausrar uppsagnar sé ekki síður mikilvægur sjómönnum en útgerðarmönnum.  Stefndi heldur því fram að það sé vanhugsað af hálfu stefnanda að standa að málatilbúnaði sem byggir á því að skýra skuli ákvæði sjómannalaga þannig að réttur til uppsagnar á skiprúmssamningi skuli háður sömu skilyrðum og réttur til að víkja úr skiprúmi samkvæmt ákvæðum sjómannalaga eins og gert er í stefnu.  Í málatilbúnaði sínum horfi stefnandi algerlega framhjá því að réttur til uppsagnar er gagnkvæmur samkvæmt sjómannalögum sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Ef fallist verður á þá lögskýringu stefnanda að uppsögn útgerðarmanns skuli uppfylla ákvæði 23. og 24. gr sjómannalaga leiðir það til þess að uppsögn sjómanns skuli jafnframt uppfylla skilyrði sem fram koma í 16. til 22. gr. sjómannalaga nema stefnandi haldi því fram að ákvæði sjómannalaga um uppsögn skuli skýrð með mismunandi hætti eftir því hvor á í hlut sjómaður eða útgerðarmaður.  Slík skýring fái aftur á móti ekki staðist 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Af hálfu stefnda er á því byggt að ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar eigi ekki við í þessu máli.  Nefnd grein fjalli um jafnræði borgaranna í lagalegu tilliti.  Greinin nái ekki til einstakra ákvarðana sem einkaaðilar taka og stefndi kveðst ekki kannast við að því hafi verið haldið fram af fræðimönnum eða á því byggt í dómi að hægt séð að beita ákvæðinu með þeim hætti.  Stefndi fær ekki séð að 9. gr. sjómannalaga sem veitir sjómönnum og útgerðarmönnum gagnkvæman og skilyrðislausan rétt til uppsagnar stangist á við 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefndi heldur því einnig fram að 7. gr. reglugerðar ESB nr. 1612/68EBE, með síðari breytingum, sem veitt var lagagildi með lögum 47/1993 og lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem stefnandi vísar til í málatilbúnaði sínum nái ekki yfir réttarsamband aðila í þessu máli.  Þá sé heldur ekki að finna ákvæði í þessum lögum sem fjalla um þá ákvörðun stefnda að segja stefnanda upp störfum.  Stefnandi haldi því fram að hann skuli njóta sömu réttinda og opinberir starfsmenn og fær ekki séð hvaða rök liggi að baki mismunandi reglum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði þegar kemur að uppsögn vinnuveitanda á starfsmanni.  Stefndi byggir á því að grundvallar munur sé á reglum um meðferð opinbers valds og reglum um ákvarðanir einkaréttarlegs eðlis.  Mismunur þessi byggi á gömlum merg og varðar nauðsyn þess að vernda borgarana gegn misbeitingu valds af hálfu stjórnvalda. Reglur um vernd borgaranna gagnvart stjórnvöldum eru grundvöllur réttarríkis líkt og frelsi í samningum og viðskiptum þar með talið frelsi til að semja um leikreglur á vinnumarkaði með gerð kjara- og ráðningasamninga sbr. 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.  Reglur um meðferð opinbers valds annars vegar og reglur um vernd einkaréttarlegra hagsmuna hinsvegar séu hornsteinar vestræns lýðræðis og réttarkerfis okkar.

Verði talið að stefnandi eigi rétt til bóta samkvæmt ákvæðum 25. gr. sjómannalaga telur stefndi að útreikningur stefnanda á meðalbótum sé rangur og gefi ekki rétta mynd af meðallaunum stefnanda.  Um borð í Arnari HU var og er í gildi fast skiptimannakerfi þannig að hver skipverji fer tvær veiðiferðir en á frí þá þriðju.  Þannig er í raun ráðin ein og hálf áhöfn á skipið.  Þetta fyrirkomulag er í samræmi við ákvæði kjarasamnings sjómanna og vélstjóra grein 5.24.  Við útreikning meðallauna stefnanda verði að taka tillit til þessa og deila launum hans á alla daga ársins en með því er tekið tillit til skiptimannakerfisins.  Laun stefnanda frá 12. júní 2001 til 5. júní 2002 gefa einungis rétta mynd af meðallaunum hans á dag ef allir dagar tímabilsins eru taldir með en ekki eingöngu þeir dagar sem stefnandi var í veiðiferðum.  Þetta tímabil gefur nokkuð rétta mynd af árslaunum stefnanda enda fór hann á þessum tíma í sex veiðiferðir en var þrjár í fríi.  Heildartekjur hans á tímabilinu sem samtals er 358 dagar voru 10.887.846 krónur sem gerir 30.413 krónur í meðaltekjur á dag og hafa þá ekki verið dregnir frá fæðispeningar.  Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um greiðslu á 6% aukatillagi vegna lífeyrisréttinda enda hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi glatað lífeyrisréttindum eða sýnt fram á það hvernig hann hafi eignast kröfu Lífeyrissjóðs sjómanna að þessu leyti.  Auk þessa kveði 25. gr. sjómannalaga einvörðungu á rétt sjómanna til kaups en segir ekki að við kaup skuli bæta framlagi vinnuveitenda í lífeyrissjóð.

Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu um dráttarvexti og telur að ekki séu forsendur til þess að dæma dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögu verið fallist á einhverjar kröfur stefnanda.

 

IV.

Niðurstaða.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að honum hafi verið sagt upp störfum eingöngu vegna þess að hann vildi ekki flytjast búferlum með fjölskyldu sína frá Reykjavík til Skagastrandar þaðan sem stefndi gerir út skip sín.  Skipsfélagar og yfirmenn stefnanda sem unnu með honum um borð í Arnari HU voru í framburði sínum fyrir dóminum  sammála um að stefnandi sé mjög vel hæfur vélstjóri og að ekkert hafi verið undan störfum hans að kvarta og raunar hafi hann verið mjög góður starfsmaður. Vitnin gátu hins vegar ekki fullyrt að stefnanda hafi verið sagt upp vegna búsetu hans en töldu flest að svo hafi verið.  Stefndi hefur kosið að greina ekki frá því hvers vegna stefnanda var sagt upp.  Í málinu liggur því ekki fyrir svo óumdeilt sé hver ástæða uppsagnarinnar var en þó er ljóst að stefnandi gegndi starfi sínu óaðfinnanlega og því hefur honum ekki verið sagt upp vegna slælegrar frammistöðu.  Er því ekki óvarlegt að ætla að búseta stefnanda hafi skipt þar mestu.

Um ráðningu stefnanda og uppsögn giltu ákvæði greinar 1.24. í kjarasamningi aðila, um kaup og kjör yfirvélstjóra, vélstjóra, vélavarða o.fl. á fiskiskipum milli Samtaka atvinnulífsins, vegna aðildarfélaga Landsambands íslenskra útvegsmanna, annars vegar og Vélstjórafélags Íslands hins vegar.  Í 2. mgr. greinarinnar segir svo um uppsagnarfrest ,,Uppsagnarfrestur vélstjóra skal vera þrír mánuðir og skal uppsögn vera skrifleg af beggja hálfu.”  Í 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 eru svohljóðandi ákvæði varðandi uppsagnarfrest  ,,Sé eigi á annan veg samið skal uppsagnarfrestur á skiprúmssamningum vera einn mánuður nema á íslenskum fiskiskipum sjö dagar. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur.”  Í 2. mgr. nefndrar 9. gr. sjómannalaga segir svo ,,Uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi yfirmanns skal vera þrír mánuðir nema um annað hafi sérstaklega verið samið og á það einnig við um skipverja sem starfað hefur sem afleysingamaður í yfirmannsstöðu í níu mánuði samfleytt hjá sama útgerðarmanni.

Í máli þessu er ekki um það deilt að stefndi sagði stefnanda skriflega upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara í samræmi við ákvæði þau sem rakin eru hér að framan. Þá er einnig óumdeilt að stefnandi vann út uppsagnarfrestinn og fékk að fullu greitt fyrir þá vinnu sína.

Ákvæði í kjarasamningi og sjómannalögum mæla fyrir um gagnkvæman og skilyrðislausan rétt beggja aðila til að segja ráðningarsamningnum upp með tilteknum fyrirvara. Stefndi kaus að nýta sér þennan rétt sinn og segja stefnanda upp störfum en hefur jafnframt kosið að tjá sig ekki um ástæðu uppsagnarinnar. Engin ákvæði í kjarasamningi eða sjómannalögum leggja þær skyldur á herðar stefnda að skýra frá því hvers vegna hann kaus að segja stefnanda upp og þar eru engar takmarkanir settar við því að ráðningarsamningi sé slitið. Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.  Stefnda hefur með uppsögninni ekki verið mismunað umfram aðra. Á honum var ekki brotinn réttur sem verndaður er af nefndri grein stjórnarskrárinnar enda naut hann sömu réttinda og aðrir starfsmenn stefnda.  Kjarasamningur sem hann var ráðinn eftir og ákvæði sjómannalaga mæltu fyrir um þriggja mánaða uppsagnarfrest en frekari réttindi átti hann ekki.  Ákvæði þau sem stefnandi vísar til er varða frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan evrópska efnahagssvæðisins eiga með sömu rökum ekki við hér.  Stefnandi naut sömu réttinda og aðrir, hvort sem þeir eru íslendingar eða útlendingar, sem samningurinn um evrópska efnahagssvæðið tekur til. Ekki verður heldur fallist á með stefnanda að ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 skuli beitt með lögjöfnun í máli þessu. Ríkisstarfsmönnum hefur um áratuga skeið verið tryggt meira réttaröryggi í samskiptum sínum við ríkið en launþegar búa almennt við í samskiptum við vinnuveitendur á almennum markaði. Löggjafinn hefur ákveðið að þegar ríkisstarfsmanni er sagt upp störfum skuli það gert með ákveðnum hætti og verður að telja betri réttarstöðu ríkisstarfsmanns hvað þetta varðar hluta af kjörum hans. Ætla verður að launþegar á almennum markaði njóti betri kjara á öðrum sviðum í staðinn.  Sá almenni mismunur sem varðar kaup og kjör á milli þeirra sem starfa hjá hinu opinbera og þeirra sem starfa á almennum vinnumarkaði er ekki brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Við munnlegan flutning málsins hélt stefnandi því fram að háttsemi stefnda færi gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Af hálfu stefnda var þessari málsástæðu mótmælt sem of seint fram kominni.  Málsástæðu þessa er ekki að finna í stefnu eða öðrum gögnum málsins og verður hún því ekki tekin til umfjöllunar hér.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið var stefnda frjálst að segja stefnanda upp störfum líkt og hann gerði enda var heimild hans til að segja stefnanda upp ekki háð því að stefnandi hefði brotið af sér í starfi eða öðrum takmörkunum en fram koma í kjarasamningi aðila og sjómannalögum.  Stefndi er því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.  Rétt þykir að stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Skagstrendingur hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Alfreðs Hafsteinssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.