Hæstiréttur íslands

Mál nr. 55/2017

B og Tryggingarmiðstöðin hf. (Valgeir Pálsson lögmaður)
gegn
A (Bryndís Guðmundsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Bifreið
  • Ölvunarakstur
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Eigin sök
  • Gjafsókn

Reifun

A höfðaði mál á hendur B og T hf. til heimtu fullra skaðabóta vegna afleiðinga umferðarslyss sem hann lenti í sem farþegi í bifreið árla morguns í apríl 2011. Héldu B og T hf. því fram að A hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn með því að fallast á að vera farþegi í bifreiðinni vitandi það að ökumaðurinn C, sem lést í slysinu, hefði neytt áfengis og ætti A því að bera hluta tjónsins sjálfur, sbr. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að A hefði ekki sýnt af sér gáleysi umrætt sinn og þegar af þeirri ástæðu var fallist á dómkröfur hans. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefði mátt vera ljóst að C hefði neytt áfengis í nokkrum mæli í síðasta lagi sjö klukkustundum áður en hann tók við akstri bifreiðarinnar af A og hefði A þess utan ekki getað treyst því að ekki hefði komið til frekari áfengisneyslu C um nóttina. Að óreyndu hefði hann mátt ætla að sú áfengisneysla sem hann hefði orðið vitni að kynni að hafa áhrif á aksturshæfni C. Þá var jafnframt litið til þess að C hefði tekið við akstrinum um klukkan 6 að morgni að lokinni næturlangri vöku án þess að A hefði þekkt nokkuð til þess hvort að C hefði hvílst deginum áður. Var A samkvæmt því talinn meðvaldur að tjóni sínu vegna stórkostlegs gáleysis. Að virtum aðstæðum öllum umrætt sinn og aðdraganda þess að C tók við akstrinum þóttu hins vegar ekki efni til að A yrði gert að bera sjálfur hluta af tjóni sínu. Var niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson og Skarphéðinn Þórisson fyrrverandi ríkislögmaður.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2017. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

I

Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi varð stefndi fyrir slysi að morgni 10. apríl 2011. Kvöldið áður hélt hann, ásamt C, akandi á bifreiðinni […] frá […] til […] þar sem þeir fóru á dansleik. Á leiðinni til […] mun C hafa drukkið nokkuð af áfengum bjór. Klukkan 5 um nóttina héldu þeir akandi til baka til […], en stefndi ók þá bifreiðinni. Á sjöunda tímanum um morguninn, skömmu eftir að C hafði tekið við stjórn bifreiðarinnar, valt hún í […] á […] með þeim afleiðingum að C lést og stefndi varð fyrir líkamstjóni. Áfengismagn í blóði ökumanns eftir slysið reyndist vera 0,66‰.

II

Í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er mælt fyrir um að heimilt sé að lækka eða fella niður bætur fyrir líkamstjón á grundvelli 1. mgr. 88. gr. ef sá sem fyrir tjóni varð var meðvaldur að því af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Áfrýjendur byggja á því að svo hátti til í málinu að stefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að fallast á að vera farþegi í bifreið vitandi það að ökumaðurinn hefði neytt áfengis, að minnsta kosti kvöldið áður, og ekki sofið þá um nóttina en slysið varð á sjöunda tímanum að morgni 10. apríl 2011. Af stefnda hálfu er aðallega á því byggt að hann hafi ekki með þessu sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga en að því frágengnu er á því byggt af hans hálfu að þó svo komist verði að þeirri niðurstöðu að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi séu samt sem áður ekki forsendur til þess að lækka til hans bætur á grundvelli tilvitnaðrar lagagreinar. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn og þegar af þeirri ástæðu var fallist á dómkröfur hans.

III

Við gáleysismat samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga er til þess að líta að stefndi varð vitni að því að C heitinn drakk fjóra til fimm hálfs lítra bjóra á leið þeirra til […] að kvöldi 9. apríl 2011, þangað sem þeir komu á tólfta tímanum um kvöldið, en fallist er á það með héraðsdómi að um áfengismagnið verði að leggja til grundvallar upphaflegan framburð stefnda hjá lögreglu en ekki framburð annars efnis í aðilaskýrslu fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þeir héldu síðan til baka til […] um klukkan 5 að morgni 10. apríl og þegar komið var austur fyrir […] um klukkan 6 tók C við akstrinum af stefnda sem ekki treysti sér til að aka lengur vegna þreytu. Slysið var síðan tilkynnt Neyðarlínunni um klukkan 6.45. Hvað sem ungum aldri stefnda leið þá mátti honum vera ljóst að C hafði neytt áfengis í nokkrum mæli í síðasta lagi sjö tímum áður en hann tók við akstrinum og hann gat þess utan ekki treyst því, að teknu tilliti til aðstæðna og tilefnis, að ekki hefði komið til frekari áfengisneyslu C um nóttina. Að óreyndu mátti hann ætla að sú áfengisneysla sem hann varð vitni að kynni að hafa áhrif á aksturshæfni C, enda var sú raunin sé mið tekið af áfengismagni því sem mældist í C að honum látnum, en samkvæmt því var hann að lögum óhæfur til að stjórna ökutæki. Þá er jafnframt til þess að líta að C tók við akstrinum um klukkan 6 að morgni að lokinni næturlangri vöku án þess að stefndi þekkti nokkuð til þess hvort að C hefði hvílst deginum áður. Lýsir stefndi raunar efasemdum í lögregluskýrslu, sem tekinn var af honum 2. júlí 2011, um þá ákvörðun sína að „láta“ C taka við akstri bifreiðarinnar á þessu tímamarki. Þegar þar við bætist að stefndi sjálfur, sem hafði neytt áfengis í mjög litlum mæli og lagt sig í 30 til 40 mínútur um nóttina, taldi sig ekki hæfan til frekari aksturs á þessu tímamarki vegna þreytu, mátti hann ganga út frá því að C væri þá eins og á stóð óhæfur til að stjórna bifreiðinni. Verður stefndi samkvæmt því talinn meðvaldur að tjóni sínu vegna stórkostlegs gáleysis.

Þrátt fyrir þá niðurstöðu að stefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í umrætt sinn er til þess að líta að meðábyrgð, samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, leiðir ekki fortakslaust til þess að bætur skerðist eða falli niður, enda er um að ræða heimild til að láta tjónþola sjálfan bera tjónið að hluta til eða öllu leyti. Verður heimildinni beitt með hliðsjón af því hvort eðlilegt getur talist í ljósi allra atvika að tjónþoli fái tjónið að fullu bætt þrátt fyrir meðábyrgð. Í þeim efnum verður ekki aðeins litið til sakar tjónþola heldur einnig þáttar annarra sem bera ábyrgð á tjóninu og aðstæðna við slysið.

Stefndi ber á þá leið að þegar hann treysti sér ekki til að aka lengur vegna þreytu hafi hann lagt til að þeir C legðu sig í bifreiðinni. Það hafi C ekki viljað heldur að hann tæki við akstri og að þeir héldu áfram för sinni austur. Stefndi hafi látið hann ráða enda C umráðamaður bifreiðarinnar. Þá hafi hann ekki merkt nein áfengisáhrif á C enda hefði hann aldrei sætt sig við að hann tæki við akstri bifreiðarinnar hefði hann haft einhvern grun um að hann væri undir áhrifum áfengis. Er jafnframt til þess að líta að þegar þetta gerist eru þeir C staddir árla morguns að vetrarlagi á fjallvegi fjarri mannabyggð. Gerði það stefnda augljóslega afar erfitt fyrir varðandi möguleika um framhald á ferð sinni en ljóst má vera af gögnum að umferð var lítil sem engin.  Þá þykir verða að líta til þess að slysið og dauði C voru stefnda augljóslega mikið áfall en hann var ungur að árum og eftir því sem fram kemur af hans hálfu með mjög takmarkaða reynslu af notkun og áhrifum áfengis. Að virtum aðstæðum öllum og aðdraganda þess að C tók við akstri bifreiðarinnar þykja ekki efni til að stefnda verði gert að bera sjálfur hluta af tjóni sínu þótt hann hafi verið meðvaldur að því vegna stórkostlegs gáleysis.

Samkvæmt framansögðu og þar sem ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en ákvörðun málskostnaðar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Bryndísar Guðmundsdóttur lögmanns, 800.000 krónur.

           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2016.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. október 2016, var höfðað 31. desember 2015 af A, […], á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík og B, […], til greiðslu skaðabóta.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt 8.699.455 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.519.725 krónum frá 10. apríl 2011 til 10. október 2011, en af 8.699.455 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., þann 18. febrúar 2015 að fjárhæð 4.349.728 krónur.

Stefnandi krefst þess einnig að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda óskipt 23.742 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 7. janúar 2016 til greiðsludags.

Stefnandi krefst málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Þá krefst hann þess að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Stefndu krefjast þess að vera sýknaðir af dómkröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu eftir mati dómsins.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Mál þetta á rætur að rekja til alvarlegs umferðarslyss sem varð að morgni 10. apríl 2011 þegar bifreiðin […] lenti utan vegar og valt í […] á […] og stefnandi slasaðist. Stefnandi var farþegi í framsæti bifreiðarinnar þegar slysið varð en ökumaðurinn, C, lést í slysinu. Bifreiðin var í eigu stefnda, B, föður hins látna. Óumdeilt er að bifreiðin var vátryggð með lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. (TM hf.) á slysdegi og að líkamstjón stefnanda hafi verið bætt að hálfu leyti úr þeirri vátryggingu. Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila um afleiðingar slyssins. Aðila greinir á um það hvort hinu stefnda félagi hafi verið heimilt að lækka bætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að taka sér far með bifreiðinni umrætt sinn. 

Aðdragandi slyssins var sá að stefnandi og C, vinur hans og knattspyrnufélagi, höfðu ákveðið að aka frá […] til […], um 336 kílómetra leið, að kvöldi 9. apríl 2011. Munu þeir hafa lagt af stað frá […] um klukkan 19:00. Í skýrslu lögreglu um framburð stefnanda kemur fram að stefnandi hafi tekið við akstri bifreiðarinnar af C innst inni á […], um klukkan 21:00, en C hafi eftir það drukkið fjóra til fimm hálfs lítra bjóra á leiðinni til […]. Þangað komu þeir á tólfta tímanum og lögðu bifreiðinni við skemmtistaðinn […] þar sem haldinn var dansleikur. Stefnandi kveðst hafa fengið sér hálfan bjór fyrir utan […], en þá hafi honum orðið óglatt og ælt bjórnum og hafi eftir það ekki neytt áfengis um kvöldið eða nóttina. Á ballinu hittu þeir […] sem stefnandi kannaðist við og sat hann hjá þeim, meðan C dansaði við stúlku sem hann hafði kynnst.

Þegar skemmtistaðnum var lokað síðar um nóttina kveðst stefnandi hafa lagt sig í bifreiðinni í 30 til 40 mínútur, en um klukkan fimm um morguninn hafi stefnandi ekið bifreiðinni frá […] og austur sömu leið og þeir komu. Stefnandi kveðst hafa verið orðinn þreyttur þegar komið var austur fyrir […], um klukkan sex, og hafi C þá tekið við akstrinum. Hafi stefnandi sofnað fljótlega en vaknað eftir að bifreiðin valt og fór út af veginum í […] á […], u.þ.b. 6-8 km frá vegamótunum til […]. Stefnandi kom sér sjálfur út úr bifreiðinni og fann símann sinn eftir nokkra leit í vegkantinum. Því næst hringdi stefnandi í Neyðarlínuna og tilkynnti um slysið en þá var klukkan 6:45. Hann var beðinn um að lýsa aðstæðum og fékk leiðbeiningar um það hvernig hann ætti að skoða C, sem reyndist þá vera látinn. Stuttu síðar kom sjúkrabifreið á vettvang ásamt lögreglu og var stefnandi fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið […] til aðhlynningar.

Í aðdraganda slyssins hafði bifreiðinni samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglu verið ekið um aflíðandi hægri beygju, svo stuttan beinan kafla en síðan tók við aflíðandi vinstri beygja. Hefði bifreiðin þá farið með hægri hjól út í hægri vegöxl og út í vegkant en svo sé að sjá að reynt hafi verið að beygja bifreiðinni inn á veginn á ný. Við það hafi bifreiðin snúist og farið út af veginum vinstra megin og oltið. Aðstæður á slysstað voru þannig að þurrt var og bjart og vegur með bundnu slitlagi var hálkulaus. Um niðurstöður rannsóknar segir í skýrslunni að líkur séu á að ökumaður hafi sofnað við aksturinn. Talið er að ökumaður hafi látist samstundis eða nánast samstundis. Mæling á vínandamagni í blóði hans reyndist 0,66‰ og 0,77‰ í þvagi.

Stefnda, TM hf., var tilkynnt um slysið með tölvupósti 5. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 2. desember 2013, upplýsti stefndi, TM hf., stefnanda um að bótaréttur hans yrði skertur um 2/3 hluta vegna þess að hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, með því að hafa látið ölvuðum ökumanni eftir stjórn bifreiðarinnar, en stefnanda hafi verið kunnugt um áfengisneyslu ökumanns bifreiðarinnar í aðdraganda slyssins. Stefnandi gat ekki fallist á þá afstöðu og skaut ákvörðun félagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Úrskurðarnefndin taldi að stefnandi ætti rétt til bóta fyrir líkamstjón úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […], en að bætur skyldu takmarkast um helming vegna stórkostlegs gáleysis hans. Undi félagið þeirri niðurstöðu um hækkun bóta.

Afleiðingar slyssins voru metnar í matsgerð þeirra D læknis og E hrl., dags. 19. desember 2014. Matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda væri 15 stig og varanleg örorka 15%. Bætur vegna líkamstjóns stefnanda voru gerðar upp á grundvelli fyrrnefndrar matsgerðar af stefnda, TM hf., þann 28. janúar 2015. Dregin var frá bótunum fjárhæð, sem nam 4.349.727 krónum, vegna meintrar eigin sakar stefnanda. Stefnandi samþykkti uppgjörið með fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum slyssins, eigin sök og frádrátt vegna sjúkrakostnaðar. Stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi þann 16. október 2015 og höfðar hann mál þetta til heimtu fullra skaðabóta úr ábyrgðartryggingu ökutækisins vegna afleiðinga umferðarslyssins.

Við aðalmeðferð málsins kom stefnandi fyrir dóminn og gaf skýrslu og vitnið F gaf vitnaskýrslu í síma. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Málsgrundvöllur

Stefnandi byggi kröfu sína á því að hann eigi rétt til fullra skaðabóta vegna þess tjóns, sem hann varð fyrir í umferðarslysinu þann 10. apríl 2011, á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, enda megi rekja slysið til notkunar bifreiðarinnar […]. Sá sem ábyrgð beri á skráningarskyldu ökutæki skuli samkvæmt XIII. kafla laganna., sbr. 88. gr., bæta það tjón sem hljótist af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Skráður eða skráningarskyldur eigandi (umráðamaður) vélknúins ökutækis skuli bera ábyrgð á því samkvæmt 90. gr. umferðarlaga og sé fébótaskyldur samkvæmt 88. gr. og 89. gr. laganna. Greiðsla á bótakröfu vegna tjóns, sem hljótist af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hafi starfsleyfi til þess að taka að sér vátryggingu vélknúinna ökutækja, sbr. 1. mgr. 91. gr. umferðarlaga. Dómkröfur stefnanda beinist að stefnda, B, sem eiganda bifreiðarinnar […] á slysdegi, og á hendur stefnda, TM hf., sem vátryggjanda bifreiðarinnar á slysdegi, og beri félagið því greiðsluskyldu vegna afleiðinga slyssins, sbr. 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga.

Stefnandi telji skilyrði ekki vera fyrir hendi til þess að skerða skaðabætur til handa honum um helming með vísan þess að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í aðdraganda slyssins, sbr. 2. mgr. 88. gr. umfl. Í ákvæðinu segi að bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda megi lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Af orðalagi ákvæðisins og dómaframkvæmd Hæstaréttar sé ljóst að stefndu beri sönnunarbyrði fyrir því í fyrsta lagi að stefnandi hafi sýnt af sér háttsemi sem jafna megi til stórkostlegs gáleysis í aðdraganda slyssins og í öðru lagi að orsakasamband sé á milli hinnar gáleysislegu hegðunar og slyssins. Gera verði ríkar kröfur til sönnunar atvika sem leiði til skerðingar bótaréttar vegna líkamstjóns í umferðarslysum.

Stefnandi byggi á því að eins og atvikum hafi verið háttað hafi hann ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þótt honum hafi verið kunnugt um áfengisneyslu C u.þ.b. sjö til átta klukkustundum áður en slysið varð. Þá liggi ekki fyrir skýrt orsakasamband á milli áfengisneyslunnar og þess að slysið hafi orðið. Því eigi stefnandi rétt til óskertra skaðabóta vegna slyssins þann 10. apríl 2011.

Ekki stórkostlegt gáleysi

Við mat á því hvort stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi verði að líta til þess að í seinni tíð hafi munurinn á einföldu gáleysi og stórkostlegu gáleysi verið talinn stigsmunur og sé ekki alltaf glöggur. Hvað mörkin varði skipti mestu máli að hlutlægt séð sé um að ræða mun alvarlegra frávik frá fyrirmæltri eða viðurkenndri háttsemi til þess að gáleysi teljist stórkostlegt. Þá skipti saknæmisstig tjónþola miklu máli, en samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi verið við það miðað að gáleysi þurfi að vera á mjög háu stigi til þess að geta talist stórkostlegt.

Fræðimenn hafi talið rök fyrir því að meta skuli réttarstöðu þeirra sem eigi bótarétt á grundvelli 88. gr. umferðarlaga, sem til álita komi að skerða eða fella niður með heimild í 2. mgr. greinarinnar, eftir sömu aðferðum og að teknu tilliti til sambærilegra atvika og þeirra sem eigi rétt til bóta úr slysatryggingum skv. 2. mg. 27. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga um vátryggingasamninga, nr. 30/2004. Því verði að líta til sakar hins vátryggða, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis og fíkniefna, sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti.

Þrátt fyrir að stefnanda hafi verið kunnugt um áfengisneyslu C frá u.þ.b. 21:00 til upp úr 23:00 umrætt kvöld, geti það ekki eitt og sér leitt sjálfkrafa til þess að skerða eigi bótarétt hans skv. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Skerðing á bótarétti stefnanda sé auk þess háð því að stefndi sýni fram á að orsakatengsl séu á milli þess að C hafi neytt áfengis fyrr um kvöldið og þess að slysið varð. Við mat á saknæmisstigi stefnanda gildi hefðbundin sjónarmið um sakarmat.

Liðið hafi um sjö klukkustundir frá því að stefnandi sá C neyta áfengis og þar til sá síðarnefndi tók við akstri bifreiðarinnar austan við […]. Ýmsir þættir hafi áhrif á það hversu lengi vínandi sé að hverfa úr blóðinu, svo sem magn þess áfengis sem innbyrt sé, líkamsbygging og heilsa einstaklings. Stefnandi hafi allt eins getað talið að það áfengi sem C hefði innbyrt fyrr um kvöldið væri runnið af honum þegar sá síðarnefndi tók við akstri bifreiðarinnar, enda liggi ekkert fyrir í gögnum málsins að C hafi verið sjáanlega ölvaður. Liðnar hafi verið tæpar átta klukkustundir frá því að stefnandi hafi séð C neyta áfengis og þar til slysið hafi orðið.

Lítið áfengismagn hafi mælst í blóði C, eða 0,66 . Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga sé miðað við að ef áfengismagn í blóði fari yfir 0,50  teljist viðkomandi ekki getað stjórnað ökutæki örugglega. Í töflu frá Umferðarráði sé áhrifum áfengis á atferli og aksturshæfni lýst þannig að sé áfengismagn í blóði 0,50 , þá sé miðað við að viðkomandi hafi innbyrt tvo til þrjá áfenga drykki. Almennt séð verði fólk ekki sjáanlega ölvað eftir að hafa innbyrt þrjá 33 cl bjóra þrátt fyrir að mælast með 0,50  vínandamagn í blóði. Áfengismagn í blóði C hafi mælst rétt yfir viðmiðunarmörkum 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og því erfitt að sjá á honum að hann væri með áfengismagn í blóði. 

Taka verði tillit til þess að stefnandi hafi í tvígang stungið upp á því að þeir myndu leggja sig í bifreiðinni en C hafi þvertekið fyrir það. Þar sem C hafi verið umráðamaður bifreiðarinnar hafi stefnandi ekki getað haft fullkomna stjórn á atburðarásinni. Þá hafi C staðhæft að hann væri hvorki þreyttur né fyndi fyrir áhrifum áfengis. Í fyrirliggjandi gögnum bendi ekkert til þess að C hafi verið sjáanlega ölvaður og í ofanálag hafi stefnandi ekki verið í þeirri aðstöðu að geta yfirgefið bifreiðina fjarri mannabyggðum og neitað C um að taka við akstrinum. Það verði að horfa til atvika allra við mat á sök stefnanda.

Stefnandi hafi ekki neytt áfengis eða fíkniefna, fyrir utan hálfan bjór fyrr um kvöldið, og hafi því ekki verið í þannig ástandi að dómgreind hans væri skert vegna utanaðkomandi þátta.

Umrætt tilvik sé frábrugðið þeim aðstæðum sem fyrir hendi hafi verið í dómum Hæstaréttar í málum nr. 129/2001 og 243/2004. Þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að tjónþolar hefðu sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að hafa látið aðila eftir stjórn ökutækis, sem þeim hefði ekki getað dulist að væri verulega undir áhrifum áfengis, þrátt fyrir aðvaranir annarra. Í þeim málum hafi áfengismagn ökumanna í blóði mælst annars vegar 1,65  og hins vegar 2,15 . Það sé langt yfir viðmiðunarmörkum og gögn hafi sýnt fram á að ökumenn hefðu greinilega verið ölvaðir og nærstaddir hefðu meira að segja varað tjónþola við því að þiggja far í öðru málinu. Í framangreindum málum komi þó skýrt fram til hvaða atriða Hæstiréttur hafi litið við sakarmat.

Það aðgæsluleysi sem stefnandi kunni að hafa sýnt af sér hafi ekki verið á það háu stigi að hægt sé að jafna því til stórkostlegs gáleysis. Á stefndu hvíli sönnunarbyrði um að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í aðdraganda slyssins með því að hafa leyft C að taka við akstri bifreiðarinnar og á því að stefnanda hefði ekki getað dulist að C væri undir áhrifum áfengis.

Ekki sannað að orsakasamhengi sé á milli áfengisáhrifa og tjónsatviks

Af gögnum málsins megi draga þá ályktun að uppi sé þó nokkur vafi um það hvort slysið megi rekja til þess að C hafi neytt áfengis fyrr um kvöldið eða hvort hann hafi einfaldlega sofnað undir stýri með þeim afleiðingum að bifreiðin lenti utan vegar.

Í niðurstöðu rannsóknarskýrslu lögreglu segi: Líkur eru á að ökumaður hafi sofnað við aksturinn og lent út af veginum með fyrrgreindum afleiðingum, mæling í alkóhóli í blóði ökumanns sýndi 0,66 prómill og var hann því undir áhrifum áfengis við aksturinn.

Í ljósi lítils áfengismagns í blóði ökumanns og niðurstöðu rannsóknarskýrslu lögreglu um að ökumaður hafi sofnað undir stýri telji stefnandi meiri líkur en minni á því að frumorsök slyssins megi rekja til þess að C hafi sofnað undir stýri. Fyrir utan það að áfengi mældist í blóði C sé ekkert annað í gögnum málsins sem bendi til þess að C hafi verið sjáanlega ölvaður eða að slysið megi rekja beint til áfengisneyslunnar fyrr um kvöldið. Það sé í höndum stefndu að sanna að slysið megi rekja til áfengisneyslu C og að ölvunin hafi verið aðalörsok slyssins. Þá eigi að túlka allan vafa stefnanda í hag, enda þurfi atvik sem leiði til skerðingar á bótarétti samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga að vera mjög ljós.

Vel megi vera að C sjálfur hafi sýnt af sér ákveðið gáleysi með því að hafa tekið við akstri bifreiðarinnar ósofinn, en ekki sé hægt að færa gáleysi hans yfir á farþega bifreiðarinnar þannig að það leiði til skerðingar á bótarétti samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Ekki séu fyrir hendi skilyrði til þess að skerða bótarétt stefnanda samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og krefjist hann því fullra bóta úr hendi stefndu vegna slyssins.

Komist dómurinn engu síður að því að háttsemi stefnanda megi jafna til stórkostlegs gáleysis og að skilyrðum um orsakasamhengi á milli áfengisneyslu C og slyssins sé fullnægt byggi stefnandi á því að hann eigi samt sem áður rétt á óskertum bótum frá stefndu. Heildarmat skuli fara fram á aðstæðum og atvikum öllum og sanngirnisrök mæli með því að stefnandi haldi fullum rétti til bóta. Eigi að skerða bætur til handa stefnanda á grundvelli stórkostlegs gáleysis telji stefnandi að 50% skerðing sé verulega úr hófi fram og nái krafa stefnanda því einnig til minni skerðingar.

Um líkamstjón stefnanda

Stefnandi hafi verið fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið […] í kjölfar slyssins. Hann hafi fundið fyrir verkjum í hálsi og verið lagður inn á sjúkradeild […] til eftirlits fram á næsta dag. Stefnandi hafi svo farið að finna fyrir vaxandi verkjum frá hálsi og baki. Þá hafi hann leitað til G geðlæknis vegna depurðar eftir slysið og sömuleiðis hitti hann sóknarprestinn á […] reglulega.

Stefnandi hafi auk þess verið í meðferð hjá H bæklunarlækni vegna áframhaldandi einkenna frá stoðkerfi. Í matsgerð þeirra D læknis og E sé litið til þess að í slysinu þann 10. apríl 2011 hafi stefnandi hlotið tognun á hálshrygg og eftir það viðvarandi verki, eymsli og ósamhverfa hreyfiskerðingu í hálshryggnum. Jafnframt hefði stefnandi orðið fyrir andlegu áfalli, en í slysinu hafi vinur hans látist og hafi hann eftir það kvíða- og þunglyndiseinkenni. Varanlegur miski stefnanda vegna slyssins hafi verið metinn 15 stig og varanleg örorka 15%.

Um dómkröfur stefnanda

Dómkröfur stefnanda sundurliðast á eftirfarandi hátt og eru reiknaðar á grundvelli matsgerðar D læknis og E hrl.

Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.                                           15.430 kr.

2 dagar rúmliggjandi á 3.290 kr.                                        6.580 kr.

5 dagar án rúmlegu á 1.770 kr.                                           8.850 kr.

 

Varanlegur miski skv. 4. gr. skbl.                                      1.519.725 kr.

10.131.500 * 15,00%

 

Varanleg örorka skv. 5.-8. gr. skbl.                                   7.164.300 kr.

2.750.000 * 17,368 * 15%

_______________________________________________________

Samtals                                                                                   8.699.455 kr.

Frá dómkröfu dregst greiðsla að fjárhæð 4.349.728 krónur þann 18. febrúar 2015, sem er greiðsla stefnda, TM hf., miðað við 50% bótaskyldu. Við uppgjör málsins gerði lögmaður stefnanda fyrirvara við mat á varanlegum afleiðingum slyssins, eigin sök og frádrátt vegna sjúkrakostnaðar.

Bætur fyrir þjáningar eru reiknaðar á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga, sbr. 15. gr. laganna, en í fyrirliggjandi matsgerð kemur fram að tímabil þjáninga sé ein vika frá slysdegi, þar af rúmliggjandi í tvo daga. Bætur fyrir varanlegan miska eru reiknaðar á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 15. gr. laganna. Bætur fyrir varanlega örorku eru reiknaðar á grundvelli lágmarkslauna, sbr. 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Útreikningur kröfu vegna varanlegrar örorku tekur mið af margföldunarstuðli 6. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.

Höfuðstóll dómkröfunnar vegna líkamstjónsins sé því 8.699.455 krónur. Í málinu er jafnframt gerð krafa um greiðslu 4,5% vaxta samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga vegna miska og þjáninga, að fjárhæð 1.535.155 krónur, frá tjónsdegi þann 10. apríl 2011 og að viðbættri kröfu vegna varanlegrar örorku, samtals að fjárhæð 8.699.455 krónur, frá stöðugleikapunkti þann 11. október 2011 til 5. febrúar 2015, en þá var mánuður liðinn frá því að krafa á grundvelli matsgerðar var send stefnda, TM hf.

Þá er krafist dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, vegna allra bótaliða frá 5. febrúar 2015, mánuði frá þeim degi sem krafa stefnanda var send stefnda, TM hf., og til greiðsludags, samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Auk þess er krafist greiðslu vegna útlagðs sjúkrakostnaðar skv. 1. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 23.742 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þingfestingu málsins þann 7. janúar 2016 til greiðsludags. Bætur fyrir annað fjártjón grundvallast á 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi vísi um bótaábyrgð til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. einkum 88. gr., 90. gr., 1. mgr. 91. gr. og 95. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Hann vísi til ákvæða skaðabótalaga, nr. 50/1993, og meginreglna íslensks skaðabótaréttar, til laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, og vátryggingarskilmála stefnda, TM hf., nr. 220, um ökutækjatryggingu. Krafa um vexti byggist á ákvæði 16. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, og krafa um dráttarvexti á 6. gr. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Varðandi málskostnað vísi stefnandi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt byggist á ákvæðum laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefndu

Í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga segi að bætur fyrir líkamstjón eða vegna missis framfæranda megi lækka eða fella niður ef sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Um atvik að slysinu njóti annars vegar við rannsóknargagna frá lögreglu og hins vegar frásagnar stefnanda sjálfs af atvikum í aðdraganda slyssins. Stefndu byggi á því að staðhæfingar málsaðila um atvik máls hafi almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Það verði að teljast sannað í málinu að ökumaður bifreiðarinnar, sem lést í slysinu þá tæplega 18 ára að aldri, hafi neytt áfengis áður en hann lést og staðfesti það mæling sem bæði hafi verið gerð á blóði og þvagi. Þá hafi stefnandi haft vitneskju um áfengisneyslu ökumannsins, sbr. það sem lögregla hafi eftir honum. 

Það verði og að teljast sannað að hinn látni hafði verið að skemmta sér kvöldið og nóttina fyrir slysið, m.a. á veitingarstað á […]. Hann hafi því ekkert sofið eða hvílst að ráði þegar hann að morgni dags ók bifreiðinni. Til samanburðar þá kveðist stefnandi, sem þó hafi ekki neytt áfengis í neinum mæli og hafi hvílst stuttlega áður en lagt hafi verið af stað frá […], sjálfur hafa verið það þreyttur að hann hafi viljað leggja sig þegar komið hafi verið austur fyrir […]. Hann hafi síðan sofnað fljótlega eftir það og verið sofandi þegar slysið henti.

Í 2. mgr. 44. gr. umferðarlaga segi að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna ökutæki, sé hann, m.a. vegna svefnleysis eða neyslu áfengis, þannig á sig kominn, að hann sé ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega. Þá segi í 1. mgr. 45. gr. umferðarlaga að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki, sé hann undir áhrifum áfengis. Nemi vínandamagn í blóði ökumanns 0,50‰, en minna en 1,20‰, teljist hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega sbr. 2. mgr. 45. gr. laganna.

Mælingar á vínandamagni sýni að ökumaður hafi verið yfir þeim mörkum sem 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga setji um að bifreið sé stjórnað örugglega. Hann hafi að auki verið ungur að árum, bæði þegar tekið sé tillit til neyslu áfengis og þess að aka bifreið, en stefnandi hafi verið tveimur árum eldri. Stefnanda hafi mátt vera allt þetta ljóst. Stefnandi hafi vitað að C hafi neytt áfengis í viðurvist hans og hafi að auki ekki hvílst um nóttina, en löng leið hafi verið fyrir höndum. Hafi honum því mátt vera ljós sú mikla hætta, sem m.a. sé reynt að stemma stigu við í 44. og 45. gr. umferðarlaga, sem væri samfara því að C tæki við stjórn bifreiðarinnar. Þá háttsemi verði að meta stefnanda til stórkostlegs gáleysis.

Stefndu mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda, að jafnvel þótt hann hefði orðið vitni að áfengisneyslu ökumanns fyrr um kvöldið, þá verði að líta til þess hve langur tími hafi liðið frá því að hann sá hann neyta áfengis og þar til slysið varð. Í fyrsta lagi geti þessi tími ekki talist langur. Í öðru lagi hafi ökumaðurinn verið að skemmta sér um nóttina, m.a. á dansleik á […], og hafi stefnandi því ekki getað útilokað að hann hefði neytt áfengis þá. Enda hafi það verið stefnandi sem ók frá […] um nóttina. Í þriðja lagi sé í þessu sambandi vísað til samspils svefnleysis og áfengisneyslu en velþekkt sé að svefnleysi og þreyta dragi úr hæfni manna til aksturs. Sé staðhæfingu sem byggi á tilvísun til töflu frá Umferðarráði mótmælt sem ósannaðri og í raun haldlausri í þessu máli.

Stefndu mótmæli þeirri málsástæðu stefnanda að ,,lítið áfengismagn hafi mælst í blóði [C]“ leiði til þess að ekki eigi að skerða bætur til stefnanda á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Í fyrsta lagi hafi vínandamagn sem mælst hafi bæði í blóði og þvagi ökumanns verið meira en miðað sé við í 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga að þá geti ökumenn ekki stjórnað ökutæki örugglega. Sönnunargildi dómskjals í þessu samhengi um að fólk sé ekki sjáanlega ölvað eftir að hafa innbyrt tiltekið magn af bjór og mælist með 0,50‰ vínandamagn í blóði sé mótmælt sérstaklega. Þeirri staðhæfingu sé mótmælt sem haldlausri í máli þessu, enda aðstaðan önnur hér. Stefnandi hafi vitað um ástands ökumanns og að hann hefði m.a. neytt áfengis fyrir slysið.

Stefndu mótmæli þeirri staðhæfingu stefnanda, sem ósannaðri, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð einkamála, að C hafi sagt að hann væri hvorki þreyttur né undir áhrifum áfengis. Vísað sé til vitneskju stefnanda um atvik og ástand ökumanns og þess að hann hafi sjálfur að eigin sögn ekið bifreiðinni frá […] áleiðis austur. 

Stefndu mótmæli þeim ályktunum sem stefnandi dragi af tveimur tilvísuðum Hæstaréttardómum í stefnu málsins. Þótt atvik séu frábrugðin verði ekki gagnályktað á þann veg að sé vínandamagn í blóði ökumanns lægra en í þessum málum þá teljist það ekki stórkostlegt gáleysi eða að það eigi ekki að leiða til skerðingar á bótarétti skv. 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga ef vínandamagnið mælist annað og lægra eins og í máli þessu. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 129/2001 hafi farþeginn sem slasaðist haldið því fram að hún hefði ekki vitað að ökumaður bifreiðarinnar væri undir áhrifum áfengis er hann hafi boðist til að aka bifreiðinni þegar upphaflegur ökumaður gekk úr skaftinu. Vitni hafi borið á sama veg en dómstólar hafi hins vegar talið sannað út frá niðurstöðu mælinga og lýsingar lögreglu á ástandi ökumanns að farþega hafi mátt vera ljóst ölvunarástand ökumanns. Í hinum dóminum, í hæstaréttarmáli nr. 243/2004, hafi farþegi viðurkennt að hafa gert sér grein fyrir því að ökumaður væri ölvaður en hafi ekki veitt því sérstaka athygli hve mikið hann drakk. Var það m.a. metið viðkomandi til stórkostlegs gáleysis.

Stefnandi haldi því fram að orsakasamhengi milli áfengisáhrifa og tjónsatviksins séu ósönnuð og að meiri líkur en minni séu á að orsök slyssins hafi verið sú að ökumaður hafi sofnað undir stýri. Beri stefndu sönnunarbyrðina um annað. Stefndu telji að í fyrsta lagi beri stefnandi sem tjónþoli sönnunarbyrði um að orsakatengsl hafi ekki verið milli áfengisáhrifa og bifreiðarslyssins. Í öðru lagi vísi stefndu til aðstæðna á vettvangi en vegur hafi verið hálkulaus, þurr og færi gott. Vegurinn liggi í aflíðandi beygjum sitt á hvað með stuttum beinum kafla á milli, en í slíkri beygju hafi bifreiðin farið út í hægri vegöxl án þess að sjá mætti í byrjun nein viðbrögð við því, en síðan hafi verið reynt að beygja bifreiðinni upp á veginn á ný. Akstursskilyrði hafi því verið góð og ekkert sem bendi til að þau hafi haft áhrif. Þá liggi vegurinn þannig að ekki verði fullyrt að ökumaður hafi sofnað í aðdragandanum eða að viðbrögð eftir að bifreiðin fór út í hægri vegöxl bendi til að svo hafi verið. Telja verði líklegast að slysið sé að rekja til ástands ökumanns sem stefnanda var eða mátti vera fullkunnugt og meta verði honum til stórkostlegs gáleysis.

Þá byggi stefnandi á því að jafnvel þó að fallist yrði á að hann hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga þá eigi hann samt sem áður rétt á óskertum bótum þar sem stórkostlegt gáleysi eigi ekki að leiða fyrirvaralaust til niðurfellingar á bótarétti, heldur verði að fara fram heildarmat á aðstæðum og atvikum öllum. Bótaréttur stefnanda hafi aðeins verið skertur á grundvelli 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga en ekki felldur niður og eigi þessi málsástæða ekki við í málinu. 

Vegna þeirrar málsástæðu stefnanda að helmings skerðing á bótarétti sé úr hófi fram vísa stefndu til þess að skerðing (helmingur eða meira) á bótarétti, þegar farþegi taki sér far með ökumanni sem sé undir áfengisáhrifum, eigi sér stoð í dómaframkvæmd. Helmings skerðing á bótarétti í málinu styðjist við niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, sem ekki hafi fallist á skerðingu að 2/3 hlutum, en talið að skerða ætti bætur um helming vegna stórkostlegs gáleysis stefnanda. Fallast megi á röksemdir og niðurstöðu úrskurðarnefndar í málinu og því verði að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda.

Málskostnaðarkrafa stefnda styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Vísað sé til umferðarlaga, nr. 50/1987, einkum 44. gr.-45. gr. og 2. mgr. 88. gr. þeirra, og til reglna um sönnun og sönnunarmat í skaðabótarétti, sbr. og 1. mgr. 50. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, skal sá, sem ábyrgð ber á skráningarskyldu, vélknúnu ökutæki, bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Er hér um að ræða skaðabótaábyrgð án sakar. Eftir 1. mgr. 90. gr. sömu laga er það eigandi eða umráðamaður ökutækis sem ábyrgðina ber á því og er fébótaskyldur samkvæmt 88. gr. laganna. Þá segir í 1. mgr. 91. gr. sömu laga að greiðsla á bótakröfu vegna tjóns sem hlýst af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Bifreið sú sem stefnandi var farþegi í var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. og var stefndi B skráður eigandi bifreiðarinnar.

Í máli þessu deila aðilar um það hvort skerða hafi mátt bætur til stefnanda vegna líkamstjóns sem hann hlaut í slysi, sem stefndu bera bótaábyrgð á samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, vegna þess að hann hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi í aðdraganda slyssins.

Í 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga segir að heimilt sé að lækka eða fella niður bætur fyrir líkamstjón ef sá sem varð fyrir tjóni var meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Stefndu byggja á því að beita beri þessari heimild og lækka bætur til stefnanda, þannig að hann beri tjón sitt sjálfur að hálfu vegna stórkostlegs gáleysis, sem hafi falist í því að vera farþegi í bifreiðinni sem félagi hans ók þegar slysið varð, þótt hann vissi að ökumaður hefði neytt áfengis nokkru áður og hefði ekki sofið um nóttina.

Meðábyrgð, sem virt er tjónþola til stórkostlegs gáleysis, veldur því ekki fortakslaust að bætur skerðist eða falli niður, heldur er í ákvæðinu að finna heimild til að láta tjónþola sjálfan bera tjónið að hluta til eða öllu leyti. Verður henni beitt með hliðsjón af því hvort eðlilegt getur talist, í ljósi allra atvika, að tjónþoli fái tjónið að fullu bætt þrátt fyrir meðábyrgð vegna stórkostlegs gáleysis. Með dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. 129/2001 var horfið frá þeirri dómvenju, sem þá hafði verið fylgt um árabil, að sá, sem tekur sér far með ölvuðum ökumanni og er eða má vera það ljóst, fyrirgeri rétti sínum til bóta, lendi hann í slysi. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að hafa verði í huga að aðdragandi þess þegar maður sest upp í bifreið með ölvuðum ökumanni geti verið með ýmsum hætti, svo og önnur atvik, þannig að eðlilegt sé að hvert tilvik sé metið fyrir sig.

Í framburðarskýrslu lögreglu kveðst stefnandi hafa látið það eftir C að taka við akstri bifreiðarinnar þar sem hann hafi lagt bifreiðina til. Stefnandi kveðst þá sjálfur hafa verið þreyttur og ekki hafa treyst sér til að aka lengra vegna þess, en öðrum ökumönnum en þeim tveimur var ekki til að dreifa eins og á stóð. Samkvæmt framburði stefnanda bæði fyrir dómi og hjá lögreglu eftir slysið hafði C staðhæft að hann væri hvorki þreyttur né undir áhrifum áfengis þegar hann tók við akstri bifreiðarinnar um klukkan sex að morgni. Þeir félagar hefðu þá áður spjallað saman og C verið kátur og átt í símasamskiptum við stúlkuna sem hann kynntist á ballinu. Ekki hefði verið á honum nein áfengisáhrif eða þreytumerki að sjá. Um þetta er stefnandi nú einn til frásagnar.

Stefnandi sá C drekka bjór á leiðinni til […] um kvöldið, fjóra til fimm hálfs lítra bjóra samkvæmt framburði hjá lögreglu. Byggt er á þeirri frásögn í lýsingu málavaxta í stefnu, en fyrir dóminum kvaðst stefnandi aðeins hafa séð C drekka tvo bjóra, annan á leiðinni til […] og hinn við komuna þangað, á tólfta tímanum. Verður að leggja til grundvallar að framburður sá sem stefnandi gaf hjá lögreglu í júní 2011 sé réttilega eftir honum hafður í skýrslu sem lögð hefur verið fyrir dóminn, þar sem frásögn hans er dregin saman af aðstoðarvarðstjóra. Fram kemur í lögregluskýrslunni að framburður stefnanda var hljóðritaður, en hljóðupptaka hefur ekki verið lögð fram í málinu eða uppskrift af henni. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendi til þess að C hafi neytt áfengis frá því áður en þeir félagar fóru inn á skemmtistaðinn um miðnætti og þar til slysið varð rétt fyrir klukkan sjö næsta morgun. Hann var aðeins tæpra átján ára og er framburður stefnanda um að C hafi eytt tímanum á skemmtistaðnum að mestu á dansgólfinu trúverðugur og fær stoð í framburði vitnisins F. Vitnið kvaðst aldrei hafa séð C drekka áfengi, enda væri hann miklu yngri en vitnið, og kvaðst hann ekki hafa merkt á honum áfengisáhrif þegar hann hitti hann stuttlega á ballinu.

Fyrir liggur að þegar slysið varð reyndist vínandamagn í blóði C hafa verið 0,66‰ og 0,77‰ í þvagi. Var vínandamagn í blóði hans því yfir þeim mörkum sem miðað er við í umferðarlögum að það megi hæst vera til að ökumaður sé talinn geta stjórnað bifreið örugglega, sem eru 0,50‰. Lagt er til grundvallar að aksturshæfni versni eftir því sem vínandamagn í blóði ökumanns er hærra og við 1,20‰ telst ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki samkvæmt lögunum.

Um áhrif áfengisneyslu og svefnleysis á ökuhæfni er m.a. fjallað í skýrslu sem unnin var af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði í mars 2009. Í skýrslunni, sem upphaflega var lögð fram í málinu af hálfu stefndu sem dómskjal, er vísað til fjölda rannsókna sem sýni að vínandamagn í blóði geti haft áhrif á ýmsa færni, allt niður í 0,2‰ af vínanda í blóði, en þar segir að þau áhrif séu lítil í samanburði við áhrif margs konar áreitis, sem menn kunni að verða fyrir í eðlilegum akstri. Í skýrslunni er einnig greint frá rannsókn sem leiddi í ljós með samanburði á frammistöðu þátttakenda í ökuhermi að það, að tala í farsíma með handfrjálsum búnaði við akstur og það að framkvæma ýmsar aðgerðir sem algengar eru í akstri, svo sem að stilla hita á miðstöð, hafði meiri áhrif á aksturslag en það að ökumaður hefði 0,80‰ vínanda í blóði. Önnur rannsókn hafði samkvæmt skýrslunni leitt í ljós að álíka varasamt gæti verið að tala í síma við akstur og að vera með 0,80‰ af vínanda í blóði. Í skýrslunni kemur enn fremur fram að svefnleysi og þreyta dragi úr hæfni manna til aksturs og komið hafi í ljós í rannsóknum að þau áhrif geti mælst meiri en áhrif 0,50‰ vínanda í blóði.

Í rannsóknarskýrslu lögreglu er sú ályktun dregin af ummerkjum á vettvangi að ökumaðurinn hafi sofnað við aksturinn. Stefndu telja vitneskju stefnanda um svefnleysi C nóttina sem slysið varð auka saknæmi hegðunar hans og vísa til samspils svefnleysis og áfengisneyslu í því sambandi. Til þess er þó að líta að ekki er upplýst um það hversu úthvíldur C var þegar lagt var upp í ferðina að kvöldi laugardagsins 9. apríl 2011. Um það nýtur engra gagna, en stefnandi kvaðst fyrir dóminum hafa reynt að ná sambandi við C þann dag, en hann hefði hvorki svarað síma né facebook-skilaboðum hans fyrr en síðdegis. Því verður hvorki ályktað, að stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir því að C hafi verið vakandi samfellt lengur en síðustu 12-14 klukkustundirnar áður en hann tók við akstrinum, né verður sú ályktun dregin af lýsingu stefnanda á eigin þreytu þá, að framburður hans sé ótrúverðugur um að ekki hafi verið á C að sjá merki um svefnleysi eða þreytu.

Þegar slysið varð var stefnandi tæplega tvítugur og hafði ökuréttindi, en var að eigin sögn óvanur áfengisneyslu. Ganga verður út frá því að honum hafi verið ljósar reglur sem byggja á því að áfengisneysla og akstur fara ekki saman. Jafnvel þótt stefnandi hefði mátt gera sér grein fyrir því að óráðlegt væri að sitja í bifreið með pilti sem neytt hefði áfengis nokkrum klukkustundum fyrr og þeim möguleika að vínandamagn í blóði hans væri enn ofan þeirra marka sem sett eru í umferðarlögum, verður að meta það sérstaklega hvort það gáleysi teljist svo stórkostlegt að leiði til skerðingar á bótarétti hans samkvæmt 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Við mat á því verður því ekki slegið föstu að stefnandi hafi átt að gera ráð fyrir því að sú áfengisneysla C sem hann varð vitni að um kvöldið hefði þau áhrif á aksturshæfni hans árla morguns að mikil hætta væri samfara því að C tæki við stjórn bifreiðarinnar. Í ljósi þess tiltölulega lága vínandamagns sem reyndist vera í blóði C er sá framburður stefnanda trúverðugur að á ökumanninum hafi ekki verið nein áfengisáhrif að sjá.

Þegar alls þessa er gætt við sakarmatið verður það gáleysi, sem stefnandi sýndi af sér með því að fallast á að C tæki við stjórn bifreiðarinnar, eins og á stóð, ekki virt sem stórkostlegt gáleysi í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga og verður stefnandi ekki talinn meðvaldur að slysinu samkvæmt ákvæðinu. Á hann því rétt á að fá tjón sitt bætt að fullu og verða dómkröfur hans teknar til greina, en ekki er ágreiningur um fjárhæð þeirra. 

Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu og gerir þá kröfu, svo sem áskilið er í gjafsóknarleyfi, að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Eftir úrslitum málsins og með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndu gert að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð, eins og í dómsorði greinir.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins sem flutti málið fyrir hans hönd, Hildar Helgu Kristinsdóttur hdl., sem ákveðin er að teknu tilliti til tímaskráningar lögmannsins og samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga um meðferð einkamála, 1.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Tryggingamiðstöðin hf. og B, greiði stefnanda, A, óskipt skaðabætur að fjárhæð 8.699.455 krónur, ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.519.725 krónum frá 10. apríl 2011 til 10. október 2011, en af 8.699.455 krónum frá þeim degi til 5. febrúar 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., þann 18. febrúar 2015 að fjárhæð 4.349.728 krónur.

Stefndu greiði stefnanda óskipt 23.742 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 7. janúar 2016 til greiðsludags.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun Hildar Helgu Kristinsdóttur hdl, 1.500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Stefndu greiði óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað í ríkissjóð.