Hæstiréttur íslands

Mál nr. 59/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                                     

Miðvikudaginn 21. janúar 2015.

Nr. 59/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun L um að X skyldi sæta nálgunarbanni, var felld úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. janúar 2015, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila 8. janúar sama ár um að varnaraðili sætti nálgunarbanni samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði framangreind ákvörðun um að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], og sonar hennar B, kt. [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt verði bann við því að varnaraðili veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími og að „umfang“ þess verði ,,takmarkað“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. janúar 2015.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur með erindi, dagsettu og mótteknu 12. janúar 2015, krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 8. þessa mánaðar, sem birt var varnaraðila, X, kt. [...], degi síðar, um að varnaraðila skuli sæta nálgunarbanni skv. 4. og 12. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], og sonar hennar B, kt. [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkist við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt sé lagt bann við því að X veiti A og B eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.

                Varnaraðili mótmælir kröfu lögreglustjóra og krefst þess að ákvörðun hans frá 8. janúar 2015, sem birt var varnaraðila degi síðar, verði felld úr gildi.

I

                Í greinargerð lögreglustjóra er vísað til þess að 8. janúar sl. hafi brotaþoli A leitað til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lagt fram beiðni um nálgunarbann gagnvart varnaraðila á grundvelli a- og b-liða 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Brotaþolinn hafi farið fram á það við lögreglustjóra að varnaraðila yrði bannað að nálgast heimili hennar og sonar hennar, B, að [...] í [...], og jafnframt að honum yrði bannað að veita þeim eftirför, heimsækja eða setja sig í samband við þau með öðrum hætti.

                Tveimur dögum áður, eða hinn 6. janúar 2015, hafi lögreglu borist tilkynning um að varnaraðili hefði ruðst inn á fyrrgreint heimili mæðginanna og ráðist á brotaþola A. Samkvæmt frumskýrslu málsins hafi brotaþoli A verið í töluverði uppnámi á vettvangi. Hún hafi sagt að fyrrum vinur hennar, varnaraðili, hefði ráðist á sig. Brotaþoli hefði verið að bíða eftir því að vinur hennar sækti hana þegar barið hafi verið að dyrum. Þegar hún hafi opnað hurðina hafi varnaraðili ruðst inn. Brotaþoli A hefði tjáð varnaraðila að hún vildi hann burt. Þau hefðu í kjölfarið farið að rífast og varnaraðili síðan ráðist á brotaþolann og slegið hana nokkrum höggum í andlit og líkama. Varnaraðili hefði síðan yfirgefið íbúðina. Í frumskýrslu komi fram að brotaþolinn hafi verið með sjáanlega áverka vinstra megin á nefi, auk þess sem hún hafi kvartað undan verkjum í vinstri síðu.

Degi síðar hafi brotaþoli A komið á lögreglustöð og kært ofangreinda árás. Þá hafi hún lýst árásinni svo að varnaraðili hefði ruðst inn, tekið brotaþolann hálstaki og sett skammbyssu upp að höfði hennar. Varnaraðili hefði lýst yfir vilja til þess að drepa brotaþolann en að hann vildi hins vegar ekki fara í fangelsi. Varnaraðili hefði því næst sett byssuna í vasann og byrjað að slá brotaþolann mörg högg í síðu og upphandlegg. Brotaþolinn hefði byrjað að öskra í von um að nágranni hennar á efri hæð hússins heyrði í henni. Varnaraðili hefði þá tekið fyrir munn konunnar og síðan haldið áfram að slá hana í síðuna og einnig á vinstra gagnauga. Að því loknu hefði hann yfirgefið íbúðina en áður hefði hann hótað því að lemja og jafnvel drepa son brotaþolans. Hann myndi þó líklega bíða með það þar til hann yrði átján ára.

                Lögreglustjóri segir tvö vitni sem lögregla hafi rætt við á vettvangi hafa staðfest að þau hefðu séð ákærða fara frá heimili brotaþola umrætt sinn. Hafi annað vitnið borið að það hefði séð bifreið varnaraðila fara fram hjá húsi brotaþola fyrir um það bil einum mánuði síðan. Bifreiðinni hefði verið ekið hægt fram hjá húsinu og greinilegt hefði verið að sá sem ók hefði verið að fylgjast með húsinu.

                Lögregla hafi fylgt brotaþola A á lögreglustöð 8. janúar sl. eftir að hún hafði samband og greindi lögreglu frá því að varnaraðili hefði ekið fram hjá heimili hennar. Við skýrslutöku hefði brotaþoli A sagst vera mjög hrædd á heimili sínu og ekki þora út úr húsi af ótta við varnaraðila. Við skýrslutökuna hefði brotaþolinn jafnframt sýnt myndskeið sem hún tók af því þegar varnaraðili ók fram hjá heimili hennar stuttu áður. Á einum stað í myndskeiðinu sjáist varnaraðili skrúfa niður rúðuna og segja: „Hefur þú eitthvað að segja litla rotta“. Hafi brotaþoli A sagt varnaraðila hafa byrjað að ofsækja hana fyrir tveimur árum síðan, en deilur þeirra mætti rekja til fasteignaviðskipta. Í greinargerð sem varnaraðili hafi lagt fram hjá lögreglu komi einnig fram fullyrðingar um að varnaraðili hafi hótað brotaþolum báðum líkamsmeiðingum og margsinnis valdið spjöllum á eignum hennar.

                Lögreglustjóri vísar til þess að í málaskrárkerfi lögreglu sé, auk mála vegna framangreindra atvika, að finna eftirfarandi mál þar sem brotaþoli A hafi leitað aðstoðar lögreglu vegna varnaraðila:

Mál 007-2013-[...]: Brotaþoli A kom á lögreglustöð 7. maí 2013 og kærði varnaraðila fyrir sprengja dekk á bifreið hennar 15. apríl 2013 og setja vatn á bensíntankinn. Kvað hún varnaraðila einnig hafa farið í skóla sonar hennar og ausið yfir hann fúkyrðum um A. Þá kvað hún varnaraðila ítrekað hringja í sig og koma heim til sín. Hann hafi jafnframt nýlega hótað henni líkamsmeiðingum fyrir utan lögreglustöð í [...] í [...]. Kvaðst brotaþolinn óttast varnaraðila mjög og væri hún mjög hrædd um að hann myndi skaða hana eða son hennar.

Mál 007-2013-[...]: Varnaraðili kærður fyrir eignaspjöll 16. júlí 2013 á bifreið vinar A sem hún var með í láni.

Mál 007-2013-[...]: 9. júní 2013. Tilkynnt um innbrot og eignaspjöll á heimili A. Kvaðst brotaþolinn telja að varnaraðili hefði verið þar að verki.

Mál 007-2013-[...]: 24. júní 2013. A hringir í lögreglu og tilkynnir að varnaraðili sé að sparka og lemja í útidyrahurð og hringja dyrabjöllu og síma.

Mál 007-2013-[...]: 25. júní 2013.  A lagði fram beiðni um nálgunarbann á hendur varnaraðila. Því var hafnað.

Mál 007-2014-[...]: 1. september 2014. A kærði varnaraðila fyrir að falsa umboð í nafni A til þess að geta fengið upplýsingar um hana frá stjórnvöldum.

Mál 007-2014-55755: A kom á lögreglustöð 24. september 2014 og kærði varnaraðila fyrir eignaspjöll á bifreið sinni og hótanir. Lýsti hún jafnframt áreiti af hans hálfu.

                Lögreglustjóri vísar enn fremur til þess að meðal gagna málsins sé upptaka af samtali varnaraðila við C og D frá 11. desember 2014. Í því samtali segir lögreglustjóri koma fram hótanir í garð beggja brotaþola. Hafi nefndir aðilar staðfest við lögreglu að þeir hafi átt umrætt samtal við varnaraðila. Sjálfur hafi hann einnig staðfest að hafa rætt við mennina. Á upptökunni segi varnaraðili að ef A verði á Íslandi muni hún ekki fá frið. Það skipti engu máli hvar í heiminum hún verði, hann muni finna hana. Aðspurður segist varnaraðili ætla að ganga frá henni. Hann hafi hins vegar ekki viljað segja viðmælendum sínum hvernig hann ætli að gera það. Hjá varnaraðila komi einnig fram að hann sé búinn að reyna dómstólaleiðina en hann hafi ekki fengið íbúðina sína til baka þannig. Þetta sé prinsippmál fyrir hann og A skuli gjalda fyrir þetta, ef ekki hún þá sonur hennar þegar hann verði karlmaður.

                Í símaskýrslu sem lögregla hafi tekið af brotaþola B hafi hann greint frá því að varnaraðili hafi komið í [...], þar sem brotaþolinn sé við nám, fyrir nokkrum mánuðum. Hafi varnaraðili fengið brotaþolann út úr tíma til þess að ræða við sig. Varnaraðili hafi í samtali þeirra sagst ætla hefna sín á A vegna þess að hún hafi stolið íbúð af honum í [...]. Enn fremur hafi varnaraðili sagst ætlað að hefna sín á brotaþola B þegar hann yrði 18 ára. Varnaraðili hefði hins vegar ekki lýst því hvernig hann ætlaði að hefna sín á brotaþolum.

                Lögreglustjóri kveður skýrslu hafa verið tekna af varnaraðila 9. janúar sl. Hann hafi þá neitað sök, eins og í fyrri málum málum. Varnaraðili hafi sagt að A sé að reyna að sverta hann vegna dómsmáls milli þeirra sem rekið sé milli þeirra fyrir dómstólum í [...]. Varnaraðili hefði komið heim til A 6. janúar sl. til þess að spyrja hana hvort hún ætlaði ekki borga honum peninga sem hún skuldi honum vegna svika í húsnæðisviðskiptum í [...]. Varnaraðili hafi neitað að hafa ruðst inn og ráðist á A umrætt sinn. Þá hafi varnaraðili vísað til þess að hann þyrfti að nær daglega framhjá heimili A vinnu sinnar vegna.

Um fyrrgreinda upptöku frá 11. desember sl. hafi varnaraðili borið að rétt væri að hann hefði hitt þá C og D umrætt sinn og rætt um a. Neitaði varnaraðili að hafa hótað A líkamsmeiðingum í samtalinu. Hann hefði aftur á móti hótað því að ganga frá brotaþolanum fjárhagslega, sem og að sonur hennar tæki við skuldinni þegar hann yrði 18 ára, ef innheimta skuldarinnar tækist ekki hjá móður hans.

                Af öllu framangreindu segir lögreglustjóri ljóst að brotaþolum stafi ógn af varnaraðila. Ljóst sé jafnframt að undanfarið hafi þau orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hans hálfu. Það sé mat lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt, enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi brotið gegn brotaþolum og að hætta sé á að hann haldi áfram að raska friði þeirra í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Telji lögreglustjóri ekki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti.

II

                Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Jafnframt er heimilt að beita nálgunarbanni samkvæmt b-lið 4. gr. ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a-lið.

Varnaraðili hefur fullyrt að hann hafi einungis hitt brotaþolann B einu sinni á síðastliðnu einu og hálfu ári. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en sú fullyrðing geti mögulega verið rétt. Að gögnunum virtum þykir engu verða slegið föstu um það að varnaraðili hafi framið refsivert brot gegn drengnum og þá verður ekki séð að varnaraðili hafi á annan hátt raskað friði brotaþolans í skilningi a-liðar 4. gr. laga nr. 85/2011. Þá liggur heldur ekki fyrir að hætta sé á að varnaraðili brjóti gegn honum samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, sbr. b-lið 4. gr. laganna.

                Gögn málsins bera með sér að töluvert ósætti hefur verið milli varnaraðila og brotaþolans A síðustu misserin. Þykir af gögnunum mega ráða að ósættið lúti nú fyrst og fremst að íbúð í [...] sem varnaraðili heldur fram að brotaþolinn hafi haft af honum.

                Ekki verður framhjá því litið að nokkuð er um liðið frá því mál þau, sem lögreglustjóri vísar til í kröfu sinni í töluliðum 1-5, komu upp og var það mat lögreglustjóra á sínum tíma að ekki væru efni til þess að leggja nálgunarbann á varnaraðila vegna þeirra. Hvað varðar þau mál lögreglu sem vísað er til í töluliðum 6 til 7 þá verður að virtum framlögðum gögnum hér engu slegið föstu um réttmæti þeirra ásakana brotaþola A í garð varnaraðila. Þá verður við mat á upptöku þeirri sem lögreglustjóri vísar til, og ekki verður annað séð en gerð hafi verið án vitundar varnaraðila, til þess að líta að fundurinn virðist ekki hafa átt sér stað að frumkvæði varnaraðila og þá virðist þess ítrekað freistað í samtalinu að leggja honum orð í munn. Að endingu er það mat dómsins að málsatvik 6. janúar sl. séu um margt á huldu, enda rannsókn þess máls ekki lokið. Verður hvað það atvik varðar sérstaklega til þess að líta að lýsing sú sem höfð er eftir brotaþola í frumskýrslu er a.m.k. á einu mjög veigamiklu atriði önnur en í framburðarskýrslu hennar fyrir lögreglu degi síðar.

Að öllu framangreindu heildstætt virtu þykir lögreglustjóri ekki hafa í ljós leit að skilyrði a- eða b-liða 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt í málinu, svo varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Verður ákvörðun lögreglustjóra frá 8. janúar sl., sem birt var varnaraðila degi síðar, því felld úr gildi.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns Egilssonar hrl., sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í úrskurðarorði greinir, greiðist úr ríkissjóði skv. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hreiðars Eiríkssonar hrl., sem einnig verður ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í úrskurðarorði greinir, greiðist sömuleiðis úr ríkissjóði skv. 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

                Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 8. janúar 2015, sem birt var degi síðar, um að varnaraðili, X, kt. [...], sæti nálgunarbanni samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

                Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns Egilssonar hrl., 156.240 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Hreiðars Eiríkssonar hdl., 86.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.