Hæstiréttur íslands
Mál nr. 341/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 24. júlí 2002. |
|
Nr. 341/2002. |
Lögreglustjórinn á Selfossi(Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C- liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi var staðfestur með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. júlí 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 mánudaginn 2. september nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. júlí 2002
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur krafist þess að kærða, X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, allt til klukkan 16:00, mánudaginn 2. september 2002.
Kærði hefur mótmælt kröfunni.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 14. júlí sl. var kærða, á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til klukkan 18:00 í dag vegna gruns um mörg þjófnaðarbrot. Kærði var látinn laus úr gæsluvarðhaldinu um klukkan 10 í gærmorgun. Um það leyti barst lögreglu tilkynning um grunsamlega hegðun manns sem væri að kíkja inn um glugga á kyrrstæðum bílum á Eyrarbakka og við eftirgrennslan lögreglu hitti hún fyrir kærða sem kvaðst vera að bíða eftir áætlunarbíl til Reykjavíkur. Lögreglan ók kærða á umferðarmiðstöðina á Selfossi. Klukkan 11:35 stöðvaði lögregla akstur bifreiðar á hraðanum 134 km/klst. Kærði var ökumaður bifreiðarinnar og mun bifreiðin hafa verið tekin ófrjálsri hendi. Í bifreiðinni fundust munir er hafði verið stolið frá ýmsum aðilum.
Kærði á að baki alllangan sakarferil og hefur hann m. a. bæði hlotið refsingar fyrir þjófnaði og fíkniefnabrot. Nú stendur yfir rannsókn vegna gruns um að kærði hafi framið margvísleg afbrot, aðallega þjófnaði. Með hliðsjón af því að kærði er fíkniefnaneytandi sem hefur ekki stundað atvinnu um alllangt skeið og að virtum brotaferli kærða og því sem að framan er rakið um háttsemi hans strax að loknu síðasta gæsluvarðhaldi, ber að fallast á að það með lögreglustjóra að allar líkur séu á því að hann muni halda áfram afbrotum fari hann frjáls ferða sinna. Ber því, með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að fallast á framkomna kröfu um gæsluvarðhald yfir kærða.
Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 2. september 2002, klukkan 16:00.