Hæstiréttur íslands

Mál nr. 436/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 31

 

Föstudaginn 31. júlí 2009.

Nr. 436/2009.

Ríkislögreglustjóri

(Elísabet Rán Andrésdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. ágúst 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 23. júlí 2009. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júlí 2009.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að X, kennitala [...], verði með úrskurði gert skylt að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi í 7 daga, eða til fimmtudagsins 6. ágúst n.k. kl. 16:00. Þá er einnig gerð krafa um að X sæti einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stendur sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að þann 15. júlí 2009 hafi efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra borist kærur Ólafs Eiríkssonar hrl. annars vegar fyrir hönd A ehf., kennitala [...] og hins vegar fyrir hönd B ehf., kennitala [...]. Kærur þessar beinast að meintum brotum Y kt. [...], Z kt. [...], X kt. [...], Þ kt. [...] og Æ kt. [...], á 155. gr., 244. gr., 247. gr., 248. gr., og 249. gr. almennra hegningarlaga og 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá kemur eftirfarandi fram í greinargerð ríkislögreglustjóra að því er varðar kærurnar:

Kæra Ólafs Eiríkssonar hrl., fyrir hönd A ehf.

Þann 3. júní sl. fór af stað atburðarás sem lögmætir forráðamenn A ehf. komu hvergi nærri. Verður atburðarásin rakin í næstu fjórum köflum.

1.             Framlagning fjögurra falsaðra tilkynninga í fyrirtækjaskrá

2.             Kaupsamningur um fasteign að M

3.             Útgáfa og undirritun ÍLS veðbréfs

4.             Stofnun reiknings í nafni A ehf. og úttektir af honum

5. Möguleg heimfærsla til refsiákvæða

Kærandi telur að framangreind háttsemi varði við lög með eftirgreindum hætti:

1)       Með því að senda fyrirtækjaskrá tilkynningar sem höfðu að geyma falsaðar undirskriftir stjórnarmanna og varamanna A ehf. og voru sendar án vitundar og samþykkis forráðamanna A ehf. hafa þeir sem að sendingunni hafa staðið gerst sekir um brot á 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í ákvæðinu segir að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum hlutafélags eða öðru er það varðar í opinberri auglýsingu eða tilkynningu, í opinberu boði í þátttöku í stofnun félags eða í útboði hluta, í skýrslum, ársreikningi eða yfirlýsingum til hluthafafundar eða forráðamanna félags eða í tilkynningum til hlutafélagaskrár.

Að því er þennan þátt varðar er einnig vert að benda á 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um skjalafals. Þar segir: Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.

2)       Með gerð kaupsamnings við Æ og afhendingu kaupsamningsins til þinglýsingar er ljóst að þeir sem að komu fram undir fölsku flaggi sem fulltrúar A ehf. hafa brotið gegn fyrrgreindu ákvæði 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt er ljóst að háttsemin getur varðað við 249. gr. sömu laga um umboðssvik. Í greininni segir: Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.

3)       Með því að stofna reikning í nafni A ehf. má leiða að því líkum að brotið hafi verið gegn ákvæði 155. gr. almennra hegningarlaga um skjalafals. Með því að taka út þá fjármuni sem lagðir höfðu verið inn á fyrrgreindan kjörbókarreikning í nafni A ehf. er ljóst að sá eða þeir sem villtu á sér heimildir hafa gerst sekir um þjófnað eða fjárdrátt, sbr. 244. gr. og 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949. Í 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga segir: Dragi maður sér fjármuni eða önnur verðmæti, sem hann hefur í vörslum sínum, en annar maður er eigandi að, án þess þó að verknaðurinn varði við 246. gr., þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.

Verður nú vikið að kæru Ólafs Eiríkssonar hrl. fyrir hönd B ehf.

Kæra Ólafs Eiríkssonar hrl., fyrir hönd B ehf.

Þann 29. júní sl. fór af stað atburðarás sem lögmætir forráðamenn B ehf. komu hvergi nærri. Verða málavextir raktir í næstu fjórum köflum.

1.             Framlagning fjögurra falsaðra tilkynninga í fyrirtækjaskrá

2. Kaupsamningur um fasteign að N

3. Útgáfa og undirritun ÍLS veðbréfs

4. Úttektir af reikningi B ehf.

5. Möguleg heimfærsla til refsiákvæða

Kærandi telur að framangreind háttsemi varði við lög með eftirgreindum hætti:

1)       Með því að senda fyrirtækjaskrá tilkynningar sem höfðu að geyma falsaðar undirskriftir stjórnarmanna og varamanna B ehf. og voru sendar án vitundar og samþykkis forráðamanna félagsins. hafa þeir sem að sendingunni hafa staðið gerst sekir um brot á 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í ákvæðinu segir að það varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að skýra vísvitandi rangt eða villandi frá högum hlutafélags eða öðru er það varðar í opinberri auglýsingu eða tilkynningu, í opinberu boði í þátttöku í stofnun félags eða í útboði hluta, í skýrslum, ársreikningi eða yfirlýsingum til hluthafafundar eða forráðamanna félags eða í tilkynningum til hlutafélagaskrár.

Að því er þennan þátt varðar er einnig vert að benda á 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um skjalafals. Þar segir: Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.

2)       Með gerð kaupsamnings við D og afhendingu kaupsamningsins til þinglýsingar er ljóst að þeir sem að sigldu undir fölsku flaggi sem fulltrúar B ehf. hafa brotið gegn fyrrgreindu ákvæði 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt er ljóst að háttsemin getur varðað við 249. gr. sömu laga um umboðssvik. Í greininni segir: Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.

3)       Með því að taka út þá fjármuni sem lagðir höfðu verið inn á reikning B ehf. er ljóst að sá eða þeir sem villtu á sér heimildir hafa gerst sekir um þjófnað eða fjárdrátt, sbr. 244. gr. og 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949. Í 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga segir: Dragi maður sér fjármuni eða önnur verðmæti, sem hann hefur í vörslum sínum, en annar maður er eigandi að, án þess þó að verknaðurinn varði við 246. gr., þá skal hann sæta fangelsi allt að 6 árum.

Þá kemur fram í greinagerð  að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hafi einnig orðið áskynja um það að þann 15. júlí sl. hafi X komið á skrifstofu Ríkisskattstjóra að Laugavegi 166 og tilkynnt breytingu á stjórn félagsins C ehf., kennitala [...] og greitt hann fyrir þessa tilkynningu með debetkorti útgefnu á hann. Tilkynning þessi sé undirrituð af X og þremur öðrum stjórnarmönnum félagsins. Stjórnarmeðlimir félagsins kannist ekki við umræddar undirskriftir og telji þær því vera falsaðar. Tilkynning þessi hafi aldrei verið skráð hjá Ríkisskattstjóra og höfð ómerkt. Efnahagsbrotadeild ríkislög­reglustjóra telji að umrædd háttsemi kunni að vera brot á 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um skjalafals þar sem segi: Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.

Þann 22. júlí kl. 11:00 var X handtekinn að Laugavegi 166 hjá embætti Ríkisskattstjóra. Þangað var hann kominn til að ganga á eftir fyrrgreindri breytingu á einkahlutafélaginu C, þessu til stuðning fannst við leit á honum reikningur vegna greiðslu á almennri aukatilkynningu og birtingu v/almennrar aukatilkynningar. Reikningur þessi er útgefinn af Ríkisskattstjóra Fyrirtækjaskrá og stílaður á C ehf.

Kl. 14:03 sama dag var kærði, X, yfirheyrður og honum kynnt sakarefnið. X var spurður út í þau skjöl er snýr að A ehf. og hefur hann játað að hafa komið að gerð umræddra skjala og einnig falsað umrædd nöfn. Kveðst hann hafa gert þetta til þess að greiða skuld án þess að vilja gera nánari grein fyrir henni.

Hvað nánar varðar aðkomu X að umræddum sakarefnum, þá telur efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að þrátt fyrir að X sé eingöngu kærður í máli A ehf. þá tengist X báðum málunum, enda í báðum tilvikunum um sömu aðferðafræðina að ræða. Samkvæmt framlögðum bankagögnum er þann 09.06.2009 millifærðir í útibúi Landsbanka Íslands að Álfabakka 10, umtalsverðir fjármunir að beiðni X þ.e. út af bankareikningi A ehf. í Landsbanka Íslands yfir á bankareikninga í eigu X, Y og Þ sem kærður er vegna B ehf. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra telur það ekki tilviljun eina að Þ sé sá aðili sem skrifar undir hinar meintu fölsuðu tilkynningar til Fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra vegna B ehf. Um sé að ræða sömu aðferðafræði og beitt er í máli A ehf. Þess beri einnig að geta, eins og gerð hefur verið grein fyrir að ofan, þá fær Þ greidda fjármuni frá A ehf. þann 09.06.2009, rennir þetta frekari stoðum undir tengsl málanna.

[...]

Rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi og því hætt við að ef kærði gangi laus muni hann torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á meinta samverkamenn sína og samræma framburði. [...]

Ríkislögreglustjóri telji tilefni til að ítreka að um sé að ræða umfangsmikið mál með umtalsverða fjármuni sem virðist vera þaulskipulagt þar sem fjölmargar ríkisstofnanir séu blekktar og fjármunum náð með sviksamri háttsemi. [...]

Málið sé nokkuð umfangsmikið og gagnaöflun enn í gangi og því afar mikilvægt að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra fái hina umbeðna kröfu tekna til greina, svo unnt verði að ná utan um málið í heild sinni. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra ítreki það að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 155. gr., 244. gr. 247. gr., 248. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga varði fangelsi allt að 8 árum. Rannsókn málsins sé á frumstigi og því ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stendur.

Þá beri einnig að geta þess að kærði eigi sakarferil að baki.

Í þágu rannsóknar málsins þyki, með vísan til þess sem að framan sé rakið, hjálagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. og b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, brýna nauðsyn bera til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 6. ágúst n.k. kl. 16:00 sem og einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stendur. Þar sem hætta þyki á að hann muni torvelda rannsókn málsins ef hann fái að halda frelsi sínu.

Til rannsóknar eru ætluð brot gegn 155. gr., 244. gr., 247. gr., 248. gr., 249. gr. og 264. gr. almennra hegningarlaga og 1. tl. 127. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, og er rökstuddur grunur um háttsemi kærða sem getur varðað allt að 8 ára fangelsi.  Fallist er á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta áfram gæslu­varð­haldi, enda er rannsókn málsins, sem er allumfangsmikil, enn á frumstigi og líklegt að kærði geti torveldað hana gangi hann laus. Með vísan til framangreinds, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er krafa ríkislögreglustjóra tekin til greina þannig að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 6. ágúst nk. kl. 16.00. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b- lið 1. mgr. 99. gr. laganna.

Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kennitala [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 6. ágúst n.k. kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.