Hæstiréttur íslands

Mál nr. 661/2007


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Bifreið
  • Slysatrygging ökumanns
  • Fyrning
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 23. október 2008.

Nr. 661/2007.

Lloyd´s of London

(Baldvin Hafsteinsson hrl.)

gegn

Guðnýju Hrefnu Sverrisdóttur

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.

 Grímur Sigurðsson hdl.)

 

Líkamstjón. Bifreiðir. Slysatrygging ökumanns. Fyrning. Gjafsókn.

G höfðaði mál á hendur tryggingafélaginu L til greiðslu bóta í tilefni af umferðarslysi sem hún lenti í árið 2000. Í málinu var deilt um það hvort ætluð skaðabótakrafa G væri fyrnd með vísan til 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en G höfðaði málið í apríl 2007. Talið var að miða bæri upphaf fyrningarfrests við það tímamark er G hefði fyrst verið ljóst að hún hefði hlotið varanleg mein af slysinu, en frá því tímamarki hefði hún fyrst átt kost á því að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 615/2007. Var það tímamark miðað við það er hún leitaði til sérfræðings í bæklunarlækningum í nóvember 2005 og var krafa G því ekki fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað. Var niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaskyldu L því staðfest.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2007 og krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi lenti stefnda, sem var þá nýlega orðin 18 ára, í umferðarslysi 28. nóvember 2000. Hún var flutt á slysadeild Landspítalans, þar sem hún var skoðuð og tekin röntgenmynd af neðri hluta brjósthryggs og lendhryggs, sem sýndi ekki beináverka. Samkvæmt vottorði læknis 14. desember sama ár var stefnda sett á verkja- og bólgueyðandi lyf og ráðlagt að leita aftur á slysadeildina ef henni versnaði. Í vottorði sama læknis 8. júní 2004 segir að hún hafi verið greind með hálstognun, tognun á brjóst- og lendhrygg og mar á nefi. Hún hafi verið útskrifuð með almennar ráðleggingar, en eftir tognunaráverka sem þessa jafni fólk sig oftast á fjórum til sex vikum. Samkvæmt gögnum málsins var stefnda í framhaldi af þessu lítið undir læknishendi vegna afleiðinga slyssins fyrr en í lok nóvember 2005, þegar hún leitaði til bæklunarlæknis vegna álagsbundinna einkenna, bæði frá hálsi og baki, en samkvæmt aðilaskýrslu stefndu gerði hún það í tilefni af því að einkennin hafi versnað þegar hún hóf fullt starf að loknu námi á árinu 2004. Samkvæmt vottorði bæklunarlæknisins 12. maí 2006 hafi hún verið „misjöfn bæði í hálsi og baki frá því að þetta gerðist og hefur hún þolað illa allt álag á bakið og á tímabili var hún mjög slæm og leitaði þá til heimilislækna og fékk bólgueyðandi og verkjalyf, þá skánaði henni yfirleitt það mikið að hún gerði ekki meira í þessu.“ Hann hafi talið ráðlegt að tekin yrði röntgenmynd af hálsliðum og tölvusneiðmynd af mjóbaki, en sú rannsókn hafi ekkert óeðlilegt sýnt. Ályktun læknisins var sú að stefnda hafi hlotið tognun í hálsi og mjóbaki við umferðarslysið, sem valdið hafi álagsbundnum einkennum, en þau leiði til þess að hún hafi minna úthald til ýmissa verka og einkenni sem hái henni í daglegu lífi. Svo langur tími hafi liðið frá því að hún hlaut áverkann að ekki væri að vænta frekari bata. Ekki væri kostur á frekari meðferð og tímabært að meta afleiðingar slyssins. Mat tveggja lækna á líkamstjóni stefndu lá fyrir 5. október 2006 og höfðaði hún mál þetta 16. apríl 2007.

Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, en þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Í málinu liggur ekki fyrir mat á því hvenær fyrst hefði getað verið tímabært fyrir stefndu að láta meta afleiðingar slyssins. Á hinn bóginn liggur fyrir að stefnda leitaði á fyrstu árunum eftir slysið lítillega til heimilislæknis og fékk verkjalyf og bólgueyðandi lyf. Þegar sýnt þótti að árangur fengist ekki af því og einkenni jukust samhliða auknum störfum stefndu leitaði hún til sérfræðings í bæklunarlækningum 29. nóvember 2005. Á því tímamarki mátti stefndu fyrst vera ljóst að hún hafi hlotið varanleg mein af slysinu og átti hún þar með kost á að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að leita fullnustu kröfu sinnar, sbr. dóm Hæstaréttar 12. júní 2008 í máli nr. 615/2007. Samkvæmt þessu var krafa stefndu ekki fallin niður fyrir fyrningu þegar mál þetta var höfðað og verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð. Um gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lloyd´s of London, greiði í ríkissjóð 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, Guðnýjar Hrefnu Sverrisdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2007

Mál þetta, sem dómtekið var 26. september síðastliðinn að aflokinni aðalmeðferð, er höfðað 16. apríl 2007 af Guðnýju Hrefnu Sverrisdóttur, Grundarási 8, Reykjavík, gegn Lloyd´s of London á Íslandi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.369.157 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 28. nóvember 2000 til 1. desember 2006 en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðslu­dags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar fram­lögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði  lækk­aðar verulega að mati dómsins. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, að mati dómsins.

Málavextir.

Stefnandi lenti í umferðarslysi 28. nóvember 2000 er hún missti stjórn á bifreið sinni, PU-843, í hálku og ók henni á ljósastaur á gatnamótun Reykjanesbrautar og Vífil­staða­vegar. Stefnandi kveðst strax hafa fundið fyrir óþægindum í nefi vegna þess að hún fékk loftpúðann í andlitið en einnig hafi hún fundið fyrir verkjum í neðsta hluta brjóst­hryggs og lendhryggs. Í kjölfar slyssins kveðst stefnandi hafa fundið fyrir verkjum í hálsinum sem leiddu upp í hnakka, út í herðar og niður í brjóstbak. Einnig hafi hún fundið fyrir verkjum í höfði og mjóbaki.

Samkvæmt læknisvottorði Theodórs Friðrikssonar, dagsettu 14. desember 2000, kom stefnandi á slysadeild Landspítalans í Fossvogi strax eftir slysið. Í vottorðinu kemur fram að stefnandi hafi verið sett á verkja- og bólgueyðandi lyf og ráðlagt að leita aftur á slysadeild ef henni versnaði. Í vottorði sama læknis 8. júní 2004 segir að stefnandi hafi verið greind með hálstognun, tognun á brjóst- og lendhrygg og mar á nefi. Í vott­orð­inu kemur einnig fram að stefnandi hafi verið útskrifuð með almennar ráðleggingar því eftir slíka tognunaráverka jafni fólk sig oftast á fjórum til sex vikum.

Í vottorði Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis frá 12. maí 2006 kemur fram að stefnandi hafi verið slæm í hálsi og baki eftir slysið. Þegar hún hafi fundið fyrir slæmum verkjum hafi hún leitað til heimilislækna þar sem hún hafi fengið bólgu­eyð­andi lyf og verkjalyf jafnframt því sem henni hafi verið sagt að verkirnir myndu lagast. Segir í vottorðinu að við þetta hafi stefnanda skánað það mikið að hún hafi ekki gert meira úr einkennum sínum. Í vottorðinu kemur einnig fram að þar sem heilsufar stefnanda hafi ekki batnað og hún fundið fyrir álagsbundnum einkennum, bæði frá hálsi og baki, hafi hún leitað til læknisins 29. nóvember 2005 og hann þá tekið röntgen­mynd af hálsliðum og tölvusneiðmynd af mjóbaki. Taldi læknirinn að afleið­ingar umferðarslyssins væru tognun í hálsi og baki og væru einkennin álagsbundin. Vegna þess hefði hún minna úthald til ýmissa verka. Taldi læknirinn því tímabært að meta afleiðingar slyssins samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993.

Stefnandi kveðst hafa staðið í þeirri trú að líkamlegar afleiðingar slyssins myndu smám saman ganga til baka eins og læknar hennar hafi sagt henni. Hafi hún hlíft sér við vinnu, reynt að halda sér í góðu líkamlegu ástandi með heitum böðum, nuddi og sjúkra­þjálfun og þannig haldið verkjum í skefjum. Eftir fyrrnefnda læknisskoðun hjá Sigurjóni Sigurðssyni bæklunarlækni 29. nóvember 2005 hafi stefnandi fyrst gert sér ljóst að afleiðingar slyssins væru varanlegar.

Með matsbeiðni 9. ágúst 2006 óskuðu lögmenn aðila sameiginlega eftir að dr. med Atli Þór Ólason og Sigurður R. Arnalds hrl. mætu afleiðingar umferðarslyssins en bifreið stefnanda var tryggð lögboðinni slysatryggingu ökumanns og farþega hjá stefnda. Lá matsgerð á afleiðingum slyssins fyrir 5. október 2006. Komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, án rúm­legu, næmu einum mánuði, varanlegur miski stefnanda samkvæmt 4. gr. skaða­bóta­laga væri 8 stig og varanleg örorka samkvæmt 5.-7. gr. laganna væri 8%.

Stefnda var sent kröfubréf 1. nóvember 2006 sem byggt var á  ofangreindri niðurstöðu mats­manna. Með bréfi 4. janúar 2007 hafnaði stefndi að greiða stefnanda skaðabætur vegna umferðarslyssins þar sem krafan væri fyrnd.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi mótmælir því að skaðabótakrafa hennar sé fyrnd. Meginregla skaða­bóta­réttar sé sú að skaðabætur fyrnist á tíu árum og sé fjögurra ára fyrningarreglan í 1. málsl. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 undantekningarregla frá þeirri meginreglu sem skýra beri þröngt. Byrji fjögurra ára fyrningarfresturinn því fyrst að líða þegar a) hið hug­læga skilyrði er uppfyllt að hinn slasaði fær fyrst vitneskju um varanlegar afleið­ingar slyssins og bótarétt sinn og b) hann á þess kost að setja fram kröfu á grundvelli þeirrar vitneskju en það sé oftast ekki fyrr en mat á varanlegri örorku liggur fyrir. Sé þar því um að ræða hlutlægt skilyrði.

Í áðurnefndri matsgerð segi svo um stöðugleikatímapunkt samkvæmt skaða­bóta­lögum: „Tjónþoli hlaut tognunaráverka á hálsi og baki, sem skilið hafa eftir sig var­an­leg einkenni. Matsmenn telja ástand hafa verið orðið stöðugt þremur mánuðum eftir slys eða þann 28. febrúar 2001.“ Stefnanda hafi verið ókunnugt um þetta á þessum tíma og því síður hafi hún haft „vitneskju um kröfu sína“. 

Í matsgerðinni segi ekki að það hafi átt að meta afleiðingar slyssins þremur mánuðum eftir slysið, enda með öllu útilokað þar sem læknismeðferð hafi ekki verið lokið og engar upplýsingar þá legið fyrir um varanlegar afleiðingar umferðarslyssins.

Stöðugleikatímapunktur samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1999 og upphaf fyrn­ing­ar­frests samkvæmt 1. málsl. 99. gr. umferðarlaga séu ekki sama tímamarkið. Sé sú túlkun stefnda í andstöðu við skýrt orðalag lagaákvæðisins, enda ljóst að enginn tjón­þoli sendi kröfubréf til vátryggingafélags þremur mánuðum eftir slys og ekkert vá­trygg­ingafélag greiði skaðabætur fyrir miska og varanlega örorku þremur mánuðum eftir slysdag. Sé því ómögulegt að þetta sé sá tímapunktur þegar stefnandi hefur vitneskju um kröfu sína og á þess kost að leita fullnustu hennar.

Stefnandi hafi verið til meðferðar hjá læknum frá á árinu 2000 til ársins 2006 eins og sannað sé með gögnum málsins og gerð hafi verið grein fyrir. Verði því að telja að stefn­anda hafi ekki verið unnt að leita fullnustu kröfu sinnar fyrr en árið 2006 eins og kröfu­bréf lögmanns hennar frá 1. nóvember 2006 beri skýrt vitni um. Hafi stefnandi því ekki haft vitneskju um kröfu sína og ekki átt þess kost að leita fullnustu hennar samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrr en í fyrsta lagi eftir að vottorð Sigurjóns Sigurðs­sonar bæklunarlæknis lá fyrir 12. maí 2006 en í síðasta lagi eftir að matsgerð lá fyrir 5. október 2006. Sé krafa stefnanda því ekki fyrnd.

 

Stefnandi sundurliðar kröfu sína sem hér segir:

Þjáningabætur

kr.       34.720,-

Bætur vegna varanlegs miska

kr.     512.480,-

Bætur vegna varanlegrar örorku

kr   2.821.957,-

Samtals      

kr.    3.369.157,-

 

Vaxtakrafa sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu. Vaxta sé krafist frá slysdegi en dráttarvaxta frá 1. desember 2006 samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þegar mánuður var liðinn frá því að stefndi var krafinn bréflega um greiðslu skaðabóta. Hafi þá legið fyrir þau gögn sem stefnandi byggi kröfu sína á og sem stefndi hafi þurft til að meta tjóns­atvik og fjárhæð bóta.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Kröfur sínar um sýknu byggir stefndi aðallega á því að bótaréttur stefnanda sé fallinn niður fyrir fyrningu. Bendir stefndi á að samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnist allar kröfur, hvort heldur á hendur þeim sem ábyrgð ber á ökutæki eða vátryggingarfélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.

Samkvæmt læknisvottorði Theodórs Friðrikssonar hafi meiðsl stefnanda reynst vera tognun á hálsi og lendarhrygg. Stefnandi hafi farið heim að aflokinni skoðun og ekki sé að sjá að hún hafi leitað frekari meðferðar eða komið til eftirlits vegna atburðarins aftur fyrr en 29. nóvember 2005, eða fimm árum eftir umræddan atburð. Samkvæmt mats­gerð sé stöðugleikapuntur talinn vera 28. febrúar 2001, eða þrem mánuðum eftir atburð­inn. Þá sé ekki að sjá af gögnum málsins að stefnandi hafi verið frá vinnu vegna afleið­inga slyssins eða að það hafi tafið stefnanda í námi að neinu leyti.

Við uppgjör bóta til tjónþola í umferðarslysum, þegar um væga eða minniháttar áverka sé að ræða, eins og í tilfelli stefnanda, sé það viðtekin venja hjá vátryggjendum öku­tækja að ganga ekki til uppgjörs á slysabótum fyrr en í fyrsta lagi einu ári eftir atburðinn, enda sé ekkert það við heilsufar tjónþola að athuga sem hindri slíkt uppgjör. Í tilviki stefnanda sé ekkert það komið fram í gögnum málsins sem bendi til annars en að stefnandi hafi átt þess kost að leita mats á afleiðingum slyssins þegar ár var liðið frá því eða í nóvember 2001 og í síðasta lagi við lok þess árs. Fyrn­ing­ar­frestur samkvæmt ákvæðum 99. gr. umferðarlaga hafi því byrjað að líða í  árslok 2001 og krafa stefnanda því löngu fyrnd er mál þetta var höfðað.

Mótmælt sé af hálfu stefnda að stefnandi hafi ekki haft vitneskju um að hún ætti eða kynni að eiga kröfu á hendur stefnda strax eftir slysið. Bendi stefndi á að stefnandi hafi þegar í desember 2000 afhent umboð til lögmanns síns til að annast innheimtu bóta vegna afleiðinga umrædds óhapps. Telji stefndi það ótvíræða vísbendingu um að stefn­anda hafi í síðasta lagi í desember 2000 verið kunnugt um hugsanlega kröfu sína. Þá sé því mótmælt að stefnandi hafi sjálfsvald um það með hvaða hraða kröfum er fylgt eftir. Verði að gera þá kröfu til tjónþola að málum sé fylgt eftir með eðlilegum hraða og án tafar. Ekkert í sögu stefnanda eða framlögðum gögnum bendi til annars en að það hafi mátt gera með eðlilegum hraða. Stefnandi hafi ekki verið undir læknis­hendi frá slysdegi fram til 29. nóvember 2005 og jafnvel þá sé óljóst af hvaða ástæðu leitað hafi verið til læknis. Sé því mótmælt sem röngu að læknismeðferð hafi ekki verið lokið þegar stöðugleika hafi verið náð 28. febrúar 2001. Þvert á móti séu engin gögn lögð fram sem sýni að stefnandi hafi notið læknismeðferðar eftir að henni var sleppt heim af slysadeild á slysdegi. Sé því ekkert í gögnum málsins sem bendi til annars en að stefnanda hafi verið unnt að setja fram kröfu um bætur ári eftir óhappið. Jafnvel þótt frestur til stefnanda væri út árið 2002 sé ljóst að krafan hafi verið fyrnd er stefna í máli þessu var þingfest 26. apríl 2007. Vísi stefndi í því sambandi til H. 392/2004 og H. 408/2006.

Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á framangreind rök stefnda byggi hann varakröfu um lækkun bóta á því að stefnandi hafi brugðist þeirri skyldu sinni að takmarka hugsanlegt tjón, meðal annars með því að undirgangast handleiðslu lækna og annað eftirlit, þar á meðal að sækja viðeigandi sjúkraþjálfun. Þessari skyldu hafi stefnandi ekki sinnt. Þvert á móti hafi stefnandi hvorki leitað leiðbeininga lækna né sjúkra­þjálfara um ástand sitt og kunni sú ráðstöfun stefnanda að hafa haft veruleg áhrif á það hvernig fyrir stefnanda sé nú komið. Það sé óumdeild staðreynd að rétt meðhöndlun togn­unaráverka strax í upphafi af hendi faglegra aðila geti dregið stórlega úr varan­legum afleiðingum slíkra skaða þegar fram líða stundir. Bendi stefndi á að niðurstaða mats­mannanna á varanlegri örorku stefnanda sé byggð á huglægri afstöðu þeirra til hugs­anlegrar þróunar á einkennum stefnanda. Hefði mátt afstýra þeirri þróun að veru­legu leyti og þar með takmarka enn frekar ætlaðar afleiðingar óhappsins með réttum við­brögðum af hálfu stefnanda strax í upphafi og þar með takmarka hugsanlegt tjón sem frekast væri kostur. Þar sem stefnandi hafi ekki sinnt því verði hún sjálf að bera hluta tjóns síns.

Niðurstaða.

Stefnandi var tryggð sérstakri slysatryggingu hjá stefnda sem ökumaður bifreiðarinnar PU-843 samkvæmt 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt 2. mgr. sama laga­ákvæðis skal vátryggingin tryggja bætur fyrir líkamstjón af völdum slyss sem öku­maður verður fyrir við stjórn ökutækisins, enda verði slysið rakið til notkunar öku­tækis í merkingu 88. gr. laganna. Er kröfum í máli þessu því réttilega beint að stefnda.

Stefnandi leitaði á slysdegi til Slysa- og bráðamóttöku Landspítala, Fossvogi hér í borg, og var þá greind með tognun á lendhrygg og hálstognun. Þá liggur fyrir í málinu læknis­vottorð frá Heilsugæslustöð Árbæjar, dagsett 16. október 2001, um að stefnandi hafi ekki getað sótt skóla frá 1. til 10. október 2001. Á svonefndum  „samskiptaseðli“ sama dag, sem ritaður var í tilefni af vottorðinu, kemur fram að stefnandi hafi greint sinn haft símsamband  við nafngreindan lækni og fengið vottorð frá honum um að hún hafi lent í bílslysi og skólaganga hafi verið eitthvað stopul af þeim sökum.

Í vottorði Sigurjóns Sigurðssonar læknis frá 12. maí 2006 segir að stefnandi hafi verið misjöfn bæði í hálsi og baki eftir slysið en lítið hafi verið um meðferð. Hafi hún þolað illa allt álag á bakið og á tímabili hafi hún verið mjög slæm og leitað til heimilislækna og fengið bólgueyðandi lyf og verkjalyf. Við það hafi henni yfirleitt skánað það mikið að hún hafi ekki gert neitt meira í málinu. Þar sem stefnanda hafi ekki enn batnað og hún finni enn fyrir álagsbundnum einkennum, bæði frá hálsi og baki, hafi hún leitað til lækn­isins 29. nóvember 2005. Hafi læknirinn talið að þar sem hún „væri versnandi“ væri ráðlagt að taka röntgenmynd af hálsliðum með álagi og tölvusneiðmynd af mjó­baki. Hafi stefnandi farið í þá rannsókn 1. desember 2005 og niðurstaða hennar verið sú að hálsliðir voru eðlilegir sem og lendhryggur. Um líðan stefnanda við skoðun læknisins segir meðal annars að stefnandi sé með verki í hálsinum sem aukist við allt álag og liggi þeir aðallega í hálsinum en leiði síðan upp í hnakka, út í herðar og aðeins niður efst í brjóstbakið eftir því sem álagið sé meira. Sé úthald skert til ýmissa verka, sérstaklega ef stefnandi þurfi að vinna með hendur fyrir ofan höfuð og einnig ef hún sé að bogra fram fyrir sig, eins og við tölvur, en þá stífni hún upp í hálsinum og fái aukna verki og því geti fylgt höfuðverkur. Þá hafi hún þreytuverki í mjóbaki ef hún reyni á sig sem dreifist aðeins upp í brjóstbakið og út í rasskinnar við allt álag. Í niður­lagi vottorðsins segir svo:

„Þrátt fyrir ýmiss konar meðferð hefur hún [stefnandi] enn töluverð einkenni eins og að framan greinir sem há henni í daglegu lífi. Undirritaður telur að nú sé það langur tími liðinn frá því að áverki þessi átti sér stað að ekki sé að vænta frekari bata. Frekari með­ferðarmöguleikar eru ekki fyrir hendi aðrir en þeir sem hún er að gera sjálf með líkams­rækt. Tímabært er því að meta afleiðingar slyssins.“

Með sameiginlegri matsbeiðni málsaðila, dagsettri 9. ágúst 2006, var óskað mats á hvort heilsufar stefnanda væri orðið stöðugt svo hægt væri að meta varanlegar afleið­ingar slyssins og ef svo væri hvenær heilsufar hennar var orðið stöðugt. Að því gefnu að heilsufar stefnanda væri orðið stöðugt var farið fram á álit á tímabundinni óvinnu­færni stefnanda, rétti til þjáningarbóta, varanlegum miska og varanlegri örorku. Til verksins voru fengnir 9. ágúst 2006 Atli Þór Ólason læknir og Sigurður R. Arnalds hrl.  Mats­gerð lá fyrir 5. október 2006. Í henni kemur fram að stefnandi hafi hlotið togn­un­ar­áverka á háls og bak við slysið og hafi hún haft einkenni um það síðan. Hafi ástand stefnanda orðið stöðugt 28. febrúar 2001, eða þremur mánuðum eftir slysið.

Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla lag­anna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar en þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Svo sem áður greinir leitaði stefnandi á slysadeild þegar eftir árekst­urinn og var greind með hálstognun og tognun á lendhrygg. Það ástand var orðið stöðugt að áliti matsmanna þremur mánuðum eftir slysið. Um það gat stefnanda ekki verið kunnugt á þeirri stundu. Þvert á móti verður ráðið af gögnum málsins að stefnandi, sem var rétt orðin 18 ára að aldri er slysið átti sér stað, hafi vænst þess að af­leiðingar slyssins gengju til baka en þegar henni hafi orðið ljóst að svo yrði ekki hafi hún hafist handa við að halda rétti sínum til laga með því að leita til Sigurjóns Sigurðs­sonar læknis. Samkvæmt því verður ekki talið að stefnandi hafi haft vitneskju um að hún ætti kröfu á hendur stefnda í skilningi ákvæðisins fyrr en eftir að áðurnefnt læknis­vottorð Sigurjóns Sigurðssonar lá fyrir 12. maí 2006. Örorkumats var aflað  tæpum tveimur mánuðum síðar og leit það dagsins ljós 5. október 2006 svo sem fyrr greinir. Gat stefnandi fyrst leitað fullnustu kröfu sinnar eftir að matið lá fyrir. Ber því að miða upphaf fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlaga við það tímamark. Af því leiðir að krafa stefnanda var ófyrnd er mál þetta var höfðað 16. apríl 2007.

Niðurstöðum matsgerðar hefur ekki verið hnekkt af hálfu stefnda og hefur stefnandi gert kröfur í samræmi við þær. Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir því að hálfu stefnda að lækka beri bætur til stefnanda með vísan til þess að stefnandi hafi brugðist þeirri skyldu sinni að takmarka hugsanlegt tjón sitt. Ber því að taka kröfur stefnanda til greina eins og þær eru fram settar, þar með talin vaxtakrafa, sem ekki hefur verið  mót­mælt sérstaklega af hálfu stefnda, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála verður stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem er hæfilega ákveðinn 747.000 krónur.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Dómsorð:

Stefndi, Lloyd´s of London á Íslandi, greiði stefnanda, Guðrúnu Hrefnu Sverrisdóttur, 3.369.157 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá 28. nóvember 2000 til 1. desember 2006 en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 747.000 krónur í málskostnað.