Hæstiréttur íslands

Mál nr. 868/2016

Landsbankinn hf. (Andri Árnason hrl.)
gegn
Krananum ehf. (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Endurgreiðsla
  • Dráttarvextir
  • Fyrning

Reifun

Í málinu deildu K ehf. og L hf. um rétt þess fyrrnefnda til vaxta af inneign vegna endurútreiknings á fimm kaupleigusamningum félagsins. Óumdeilt var að umræddir samningar höfðu falið í sér lán bundin ólögmætri gengistryggingu og höfðu þeir tvívegis verið endurútreiknaðir af þeim sökum, fyrst á árinu 2011 og aftur á árinu 2015. Hafði inneign K ehf. vegna síðari endurútreikningsins verið greidd út til félagsins strax í kjölfar þess að hann fór fram, en inneign félagsins vegna fyrri útreikningsins var ekki greidd fyrr en á árinu 2015. Gerði K ehf. aðallega kröfu um dráttarvexti samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeim fjárhæðum er um ræddi, en til vara krafðist félagið vaxta samkvæmt 8. gr. sömu laga. Héraðsdómur féllst á að K ehf. ætti rétt á dráttarvöxtum af þeirri greiðslu sem fórst fyrir að greiða félaginu eftir endurútreikninginn 2011. Í dómi sínum vísaði Hæstiréttur til þess að L hf. hefði lýst því að við endurútreikning slíkra lána hefði hann viðhaft það verklag að tilkynna þegar í stað um útreikninginn og greiða á sama tíma út inneign lántaka. Samkvæmt því hefði bankinn sjálfur litið svo á að honum bæri að hafa frumkvæði að því að endurreikna lán K ehf., tilkynna félaginu um útreikninginn og greiða því fjárhæðina án sérstakrar kröfu þess þar um. Var talið að jafna mætti þeirri aðstöðu við þá sem greindi í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 og var niðurstaða héraðsdóms um rétt K ehf. til dráttarvaxta af hinni vangoldnu greiðslu því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda um að sér verði gert að greiða stefnda 2.627.934 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. janúar 2011 til 31. mars sama ár, en af 12.108.582 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 16. nóvember 2015 að fjárhæð 12.108.582 krónur. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gerði stefndi á árunum 2005 til 2007 fimm kaupleigusamninga við SP Fjármögnun hf. vegna kaupa hans á bifreiðum og tækjum við rekstur sinn. Ekki er deilt um að samningarnir hafi falið í sér lán bundin ólögmætri gengistryggingu. Var bú stefnda tekið til gjaldþrotaskipta 10. júní 2010 og á grundvelli samninganna lýsti SP Fjármögnun hf. kröfum að fjárhæð 41.156.887 krónur í búið. SP Fjármögnun hf. mun í kjölfarið hafa sameinast áfrýjanda. Skiptum lauk á búi stefnda 3. maí 2011 samkvæmt 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur.

Hinn 5. nóvember 2014 sendi lögmaður sá sem verið hafði skiptastjóri í þrotabúi stefnda bréf til áfrýjanda þar sem hann óskaði eftir að upplýsingar yrðu veittar um stöðu og uppgjör vegna framangreindra lána og 12. mars 2015 tilkynnti hann héraðsdómi að skiptin hafi verið tekin upp á ný með vísan til 164. gr. laga nr. 21/1991, sökum þess að í ljós hafi komið að búið ætti kröfu á hendur áfrýjanda þótt fjárhæð hennar lægi ekki enn fyrir. Áfrýjandi sendi skiptastjóra bréf 26. mars 2015 þar sem fram kom að í kjölfar dóms Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 hefðu lán SP Fjármögnunar hf. til stefnda verið endurreiknuð. Við útreikning á eftirstöðvum þeirra hefði verið miðað við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birti eftir 10. gr. laga nr. 38/2001. Að gengnum dómum Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 um gildi fullnaðarkvittana hafi áfrýjandi á hinn bóginn leiðrétt endurútreikninginn þannig að stefnda bæri endurgreiðsla að fjárhæð 12.540.451 króna og yrði sú fjárhæð lögð inn á tilgreindan reikning hjá bankanum.

Eftir frekari fyrirspurnir og bréfasamskipti sendi áfrýjandi skiptastjóra bréf 16. nóvember 2015 með eftirfarandi lýsingu á atvikum: „SP-Fjármögnun reiknaði lánasamninga félagsins með vöxtum Seðlabanka í janúar og mars 2011 í kjölfar niðurstöðu dóma Hæstaréttar 2010 og í samræmi við ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. SP-Fjármögnun sameinaðist síðan Landsbankanum 06.10.2011. Þann 26.03.2015 leiðrétti Landsbankinn fyrri útreikninga SP-Fjármögnunar á grundvelli fullnaðarkvittana. Við leiðréttan endurútreikning myndaðist inneign að fjárhæð kr. 12.540.451 sem lögð var inn á reikning skiptastjóra þrotabúsins ... að beiðni hans. Við leiðréttan endurútreikning voru dregnar frá inneignir sem myndast höfðu við útreikninga SP-Fjármögnunar 2011 og Landsbankinn taldi að greiddar hefðu verið út miðað við þær skráningar sem var að finna í kerfi SP-Fjármögnunar á umræddum lánum: Kr. 6.611.923 vegna samnings ... sem sögð var greidd út 31.03.2011. Kr. 2.238.945 vegna samnings ... sem sögð var greidd út 31.03.2011. Kr. 632.780 vegna samnings ... sem sögð var greidd út 31.03.2011. Kr. 2.624.934 vegna samnings ... sem sögð var greidd út 31.01.2011. Samtals kr. 12.108.582. Við nánari skoðun á útreikningum SP-Fjármögnunar og útborgunum í kjölfarið, hefur komið í ljós að inneign sem myndaðist við útreikninginn á lánum þrotabúsins 2011, var ekki greidd út. Kraninn ehf. var úrskurðaður gjaldþrota 10.06.2010. Félagið var því undir skiptum þegar SP-Fjármögnun leiðrétti lánin. Vegna mistaka SP-Fjármögnunar var inneignin ekki greidd út. Skiptum á þrotabúinu lauk 03.05.2011. Þann 12.03.2015 ákvað skiptastjóri þrotabúsins að taka skiptin upp með vísan til 164. gr. laga nr. 21/1991. Mistökin eru nú leiðrétt og vangreidd inneign að fjárhæð kr. 12.108.582 verður lögð inn á reikning skiptastjóra þrotabúsins hjá Landsbankanum ... Með vísan til dóms Hæstaréttar nr. 544/2013 mun Landsbankinn ekki reikna vexti á inneignina. Beðist er velvirðingar á mistökunum.“

Stefndi höfðaði mál þetta 23. febrúar 2016 og gerði þá kröfu aðallega að sér yrðu greiddir dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeim fjárhæðum sem honum bar samkvæmt endurútreikningum á fyrrgreindum lánum frá viðmiðunardagsetningum þeirra útreikninga en til vara vextir af sömu fjárhæðum samkvæmt 8. gr. sömu laga. Þá gerði stefndi jafnframt kröfu um greiðslu tiltekinna skaðabóta meðal annars vegna skila á þeim bifreiðum og tækjum sem framangreindir samningar tóku til. Héraðsdómur féllst á kröfur stefnda með þeim hætti sem þar greinir og hefur áfrýjandi unað niðurstöðu héraðsdóms um kröfu stefnda til skaðabóta. Lýtur áfrýjun því einungis að aðal- og varakröfu stefnda um vexti og málskostnað.

II

Málsaðilar deila um hvort þrotabúi stefnda hafi borist tilkynning um leiðréttingar þær sem áfrýjandi gerði 31. janúar og 31. mars 2011 og getið var um í framangreindu bréfi 16. nóvember 2015. Áfrýjandi hefur lýst því að við endurútreikning lána vegna ólögmætrar gengistryggingar hafi hann viðhaft það verklag að tilkynna þegar í stað um útreikninginn og greiða á sama tíma út inneign lántaka.  Samkvæmt þessu hefði stefndi, auk bréfsins 16. nóvember 2015, átt að fá að minnsta kosti tvisvar sinnum tilkynningu um endurútreikning umræddra lána, eða 31. janúar 2011 og 31. mars sama ár. Skiptastjóri í þrotabúi stefnda gaf skýrslu fyrir dómi og kvað búinu ekki hafa borist tilkynningar um inneign hjá áfrýjanda vegna útreikninga á árinu 2011. Lauk því skiptum á búi stefnda 3. maí það ár án þess að upplýsingar lægju fyrir um endurútreikninga á umræddum lánum. Þegar litið er til þess og þeirrar staðreyndar að greiðsla fór ekki fram á þeim tíma sem venja var til samkvæmt yfirlýsingu áfrýjanda þar um verður við það miðað að þrotabúið hafi ekki fengið tilkynningar um að því stæði til reiðu greiðsla samkvæmt endurútreikningi lánanna. 

Samkvæmt þessu leit áfrýjandi sjálfur svo á að honum bæri að hafa frumkvæði að því að endurreikna lán stefnda, tilkynna honum um útreikninginn og greiða stefnda fjárhæðina í samræmi við það án sérstakrar kröfu hans þar um. Má af þeim sökum jafna þessari aðstöðu við þá sem greinir í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Með vísan til 10. gr., sbr. 28. gr., laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda er krafa stefnda ófyrnd.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur á þann hátt sem greinir í dómsorði, en fyrir Hæstarétti voru aðilar sammála um að skilja bæri niðurstöðu héraðsdóms á þann hátt sem hér um ræðir.

Áfrýjandi verður dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Áfrýjandi, Landsbankinn hf., greiði stefnda, Krananum ehf., 12.108.582 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.624.934 krónum frá 31. janúar 2011 til 31. mars sama ár, en af 12.108.582 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 16. nóvember 2015 að fjárhæð 12.108.582 krónur.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Áfrýjandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2016.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 23. febrúar sl. og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 5. september sl. Stefnandi er Kraninn ehf., Fjallalind 43, Kópavogi. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík:

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur auk málskostnaðar: Aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 24.649.033 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 859.190 krónum frá 14. ágúst 2008 til 3. febrúar 2009, af 9.028.616 krónum frá þeim degi til 26. júlí 2009, af 12.410.046 krónum frá þeim degi til 7. desember 2009 og af 24.649.033 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 26. mars 2015 að fjárhæð 12.540.451 króna og innborgun þann 16. nóvember 2015 að fjárhæð 12.108.582 krónur. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 24.649.033 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. nr. 38/2001 af 859.190 krónum frá 14. ágúst 2008 til 3. febrúar 2009, af 9.028.616 krónum frá þeim degi til 26. júlí 2009, af 12.410.046 krónum frá þeim degi til 7. desember 2009 og af 24.649.033 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni sömu innborgun og greinir í aðalkröfu. Einnig gerir stefnandi kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða 6.518.853 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.

Stefndi krefst aðallega sýknu auk málskostnaðar. Áður en dómur var kveðinn upp í málinu var þó lýst yfir af hálfu stefnda að fallist væri á þann hluta skaðabótakröfu stefnanda sem lyti að viðgerðarkostnaðinum að fjárhæð 4.737.003 krónur.

Helstu ágreiningsefni og yfirlit um málsatvik

Ágreiningur aðila snýr annars vegar að því hvort stefndi eigi rétt á dráttarvöxtum eða vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, vegna endurútreiknings fimm lána sem hann tók hjá SP-fjármögnun hf. á árunum 2005 til 2007 og upphafsdegi vaxta í því sambandi. Ekki er um það deilt að öll lánin voru bundin ólögmætri gengistryggingu og jafnframt er því ekki mótmælt að stefndi, sem hefur tekið við réttindum og skyldum SP-fjármögnunar hf., hafi átt að taka tillit til fullnaðarkvittana við endurútreikning lánanna. Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi rétt á vöxtum frá síðustu afborgunum af lánunum að telja, svo sem málatilbúnaður stefnanda grundvallast á, og telur að hann hafi sinnt greiðsluskyldu sinni gagnvart stefnanda á réttum tíma. Hins vegar er um það deilt hvort stefndi eigi rétt á skaðabótum vegna gjaldfellingar og uppgjörs lánanna árið 2009, svo og vegna gjaldþrotaskiptameðferðar hans í framhaldi af því. Að því er snertir atvik málsins deila aðilar um það hvort skiptastjóri hafi móttekið fyrri endurútreikning lánanna samkvæmt bréfum stefnda 31. janúar 2011 og 31. mars þess árs, en með endurútreikningunum myndaðist inneign stefnanda hjá stefnanda að fjárhæð 12.108.582 krónur. Eins og málið liggur fyrir við endanlega úrlausn þess er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum.

Atvik málsins eru nánar tiltekið þau að stefnandi, sem stofnaður var árið 1996, rak þungavinnubifreiðar og gerði svonefnda kaupleigusamninga við SP-Fjármögnun hf. til þess að fjármagna kaup á bifreiðum. Lýtur ágreiningur aðila að fimm lánum sem svo er lýst í greinargerð stefnda:

„SBS 024091, lántökudagur var 22.12.2005, upphafleg fjárhæð kr. 3.864.585.

SKL 013241, lántökudagur var 29.12.2006, upphafleg fjárhæð kr. 25.470.863.

SKL 013221, lántökudagur var 29.12.2006, upphafleg fjárhæð kr. 25.470.863.

SKL 013281, lántökudagur var 16.4.2007, upphafleg fjárhæð kr. 2.380.000.

SKL 013261, lántökudagur var 18.4.2007, upphafleg fjárhæð kr. 22.950.000.“

Í stefnu er því lýst að við efnahagshrun haustið 2008 hafi greiðslur af samningunum, sem allir voru gengistryggðir, hækkað verulega á sama tíma og verkefni drógust saman. Þetta hafi orsakað erfiðleika og svo loks greiðsluþrot stefnanda. Stefndi heldur því hins vegar fram að greiðsluerfiðleikar stefnanda hafi átt sér aðrar og flóknari orsakir sem rekja megi lengra aftur í tímann.

Vegna vanskila stefnanda var lánssamningunum rift og mun tækjum hafa verið skilað til lánveitanda á grundvelli munnlegs samkomulags. Með hliðsjón af yfirlýsingu stefnda viðvíkjandi skaðabótakröfu stefnanda og úrlausn málsins er ekki ástæða til að gera nánari grein fyrir uppgjöri samninganna eða hvernig var staðið að mati að verðmæti skilaðra tækja við uppgjör þeirra.

Stefnandi var tekinn til skipta að beiðni Sýslumannsins í Kópavogi með úrskurði 10. júní 2010. Lýsti SP-Fjármögnun hf. kröfum í bú stefnanda samkvæmt fyrrgreindum kaupleigusamningum eins og þeir höfðu verið gjaldfelldir. Nam heildarkröfufjárhæðin 41.156.887 krónum. Í framhaldi af dómum Hæstaréttar í svonefndum gengistryggingarmálum og setningu laga nr. 151/2010 endurreiknaði stefndi, sem þá var orðin eigandi krafnanna, lánin. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda voru bréf með endurútreikningi send skiptastjóra þrotabús stefnanda 31. janúar 2011 og 31. mars þess árs. Af hálfu stefnanda er því mótmælt að bréfin hafi borist skiptastjóranum. Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóminn Benedikt Sigurðsson hdl. sem fór með skiptastjórn búsins. Kannaðist hann ekki við að hafa móttekið umrædd bréf stefnda á þeim tíma sem hér um ræðir.

Samkvæmt endurútreikningi stefnda lækkaði eitt lán stefnanda en inneign myndaðist vegna fjögurra. Eftir endurútreikningi taldi stefndi því að stefnandi ætti inneign að fjárhæð 12.108.582 krónur. Í greinargerð stefnda segir því næst eftirfarandi: „Stefndi taldi sig hafa sent greiðsluna til skiptastjóra en svo reyndist ekki vera.“

Skiptastjóri lauk skiptum á búi stefnanda 3. maí 2011 sem eignalausu búi þar sem ekkert hafði komið upp í lýstar kröfur. Með bréfi dags. 5. nóvember 2014 óskaði skiptastjóri hins vegar eftir því að fá tiltekin gögn frá stefnda svo hann gæti metið hvort fyrir hendi væru skilyrði til að taka skipti á búinu upp aftur. Skiptastjóri fékk send umbeðin gögn og með bréfi til Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 2015, tilkynnti hann ákvörðun sína að taka upp skiptin á búinu.

Stefndi sendi skiptastjóra bréf 26. mars 2015 þar sem tilkynnt er um leiðréttan endurútreikning lána stefnanda og er þar reiknað með fullnaðarkvittunum með vísan til tiltekinna dóma Hæstaréttar. Inneignin að fjárhæð 12.540.451 króna var greidd inn á reikning skiptastjóra sama dag. Í kjölfar fyrirspurna eiganda stefnanda og skiptastjóra greiddi stefndi þá inneign sem misfarist hafði að greiða á árinu 2011. Fór sú greiðsla fram 16. nóvember 2015. Á fundi skiptastjóra 21. desember 2015 var samþykkt nýtt frumvarp til skipta sem gerði ráð fyrir því að eignastaða búsins væri jákvæð um 17.356.979 krónur sem bæri að afhenda eigendum stefnanda. Jafnframt var eigendum stefnda afhent búið til frjálsrar ráðstöfunar.

Í stefnu er því lýst þegar eigendur stefnanda hófu fyrirspurnir til stefnda á árinu 2015 vegna lána stefnanda og nánari upplýsinga um endurútreikninga. Fyrirspurnunum var svarað með tölvubréfi stefnda 27. október 2015 þar sem fram kom útreikningur á hverjum lánasamningi fyrir sig. Ekki er um það deilt að heildarinneign stefnanda samkvæmt þessum útreikningum hafi í heild numið 24.649.033 krónum, án þess að tekið sé tillit til innborgana stefnda, sem er sú fjárhæð sem miðað er við í kröfugerð stefnanda. Með hliðsjón af úrlausn málsins er ekki þörf á því að rekja nánar útreikninga stefnda eða viðmiðunardagssetningar.

Svo sem áður greinir kom Benedikt Sigurðsson hdl., skiptastjóri stefnanda, fyrir dóm sem vitni við aðalmeðferð málsins.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að hann eigi rétt á greiðslu dráttarvaxta af inneign sinni hjá stefnda vegna framangreindra fimm lánasamninga. Hann vísar til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2010, sem breytti 18. gr. laga nr. 38/2001, hafi stefnda borið skylda til þess að eiga frumkvæði að endurreikningi ólögmætra gengislána og tilkynna hlutaðeigandi skuldara um endurútreikning. Þetta hafi stefndi gert í marsmánuði 2011 en viðurkenni að inneign stefnanda hafi myndast töluvert fyrr. Stefndi viðurkenni hins vegar í útreikningum sínum að ofangreinda daga hafi stefnandi átt inneign vegna lánanna. Stefnandi byggir kröfu sína um dráttarvexti á 3. mgr. 5. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Stefnandi telur að stefndi hafi viðurkennt að á tilgreindum dögum hafi stefnandi átt inneign vegna hvers lánasamnings samkvæmt útreikningi. Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi haft öll ráð í hendi sér vegna samskipta við stefnanda og honum verið ómögulegt að sækja þær fjárhæðir sem hann átti hjá lánveitanda, ekki síst eftir að bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2010. Tafir sem hafi orðið á greiðslum til stefnanda eða þrotabús hans séu óútskýrðar og á ábyrgð stefnda.

Varakrafa stefnanda um greiðslu vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 byggir stefnandi á því að með drætti á greiðslu inneignar hafi hann orðið fyrir verulegu tjóni. Tjón stefnanda felist í því að öllum eignum félagsins, sem fólust í þeim peningum sem hann átti sannanlega inni hjá stefnda vegna ólögmætra skilmála lánasamninga við stefnda, hafi verið haldið af stefnda. En með því hafi stefnandi orðið af þeim eignum sem annars hefðu getað orðið til þess að hann hefði getað haldið rekstri sínum áfram. Með útreikningum sínum hafi stefndi viðurkennt að stefnandi hafi ofgreitt stefnda 24.649.033 krónur af lánasamningum sínum. Krafa stefnanda um greiðslu vaxta byggi á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 eða með vísan til lögjöfnunar frá því ákvæði, sbr. einnig til hliðsjónar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Krafa stefnanda um skaðabætur byggir í fyrsta lagi á því að þau tæki sem stefnandi skilaði lánveitanda hafi verið rangt verðmetin. Þannig hafi verið dregin frá verðmati áætlaður viðgerðarkostnaður að fjárhæð 4.737.003 krónur. Með hliðsjón af því að stefndi hefur fallist á skaðabótakröfu stefnanda að þessu leyti er ekki ástæða til að rekja frekar málsástæður þar að lútandi. Einnig vísar stefnandi til þess að það hafi tekið langan tíma að afla útreiknings vegna hinna ólögmætu lána frá stefnda og hafi stefnandi greitt kostnað vegna þess til lögmanns að fjárhæð 313.255 krónur. Stefndi hafi ekki sinnt beiðnum um framlagningu gagna vegna útreiknings á lánasamningum stefnanda við bankann fyrr en lögmaður hafi verið fenginn í málið. Stefnandi byggir á því að þessi kostnaður hafi verið honum nauðsynlegur til að ná fram rétti sínum gagnvart stefnda. Stefnandi telur að þessi kostnaður sé hluti heildartjóns hans af framferði stefnda gagnvart honum. Að lokum vísar stefnandi til þess að kostnaður vegna gjaldþrotaskipta á búi stefnanda hafi numið 1.468.595 krónum og hafi hann verið dreginn frá inneign stefnanda þegar skipti voru endurupptekin á árinu 2015. Stefnandi byggir á því að þessi kostnaður sé beint tjón hans af því framferði stefnda. Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á almennu sakarreglunni en stefnandi telur að með öllu framferði sínu gagnvart stefnanda hafi stefndi valdið stefnanda tjóni með beinum hætti og að tjón stefnanda sé sá útlagði kostnaður sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna aðgerða eða aðgerðarleysis stefnda gagnvart stefnanda. Um vexti af skaðabótakröfu er vísað til 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi vísar til þess að óumdeilt sé að umræddir fimm lánssamningar hafi verið bundnir ólögmætri gengistryggingu og séu aðilar málsins sammála um að útreikningar stefnda á samningunum séu réttir. Stefndi telur hins vegar að ekki séu lagaskilyrði til greiðslu dráttarvaxta af inneign stefnanda hjá stefnda. Stefndi mótmælir þeim rökum stefnanda að ákvæði 18. gr. laga nr. 38/201 leggi skyldu á stefnda að endurreikna gengistryggð lán. Að mati stefnda felst í lagagreininni að hver lántaki verður að gera kröfu um endurútreikning lána sinna en slík krafa hafi aldrei komið fram af hálfu stefnanda. Stefndi hafi haft frumkvæði að því að endurreikna lánin í janúar og mars 2011 með Seðlabankavöxtum, í samræmi við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, og sent útreikninginn til skiptastjóra en hann hafi aldrei gert kröfu um að stefndi endurreiknaði lánin með hliðsjón af dómafordæmum Hæstaréttar um fullnaðarkvittanir. Eftir að dómar hafi fallið í Hæstarétti um fullnaðarkvittanir í október 2012 hafi stefndi svo leiðrétt fyrri endurútreikning á lánasafni sínu þar sem lánin höfðu verið reiknuð með Seðlabankavöxtum frá upphafi. Um hafi verið að ræða nærri 40 þúsund lán og verkið verið mjög tímafrekt. Stefndi  hafi endurreiknað lán stefnanda með tilliti til fullnaðarkvittana, tilkynnt skiptastjóra um niðurstöðu útreikningsins með bréfi 26. mars 2015 og greitt inneignina sem hafði myndast til hans. Stefndi hafi ekki getað endurreiknað lánin og greitt út inneignina fyrr en skiptastjóri hafði tekið upp skiptin á búinu og opnað það á ný. Fram að þeim tíma hafi enginn kröfuhafi verið til í lagalegum skilningi sem stefndi gat beint greiðslu að þar sem skiptastjóri hafði lokað þrotabúinu 3. maí 2011. Eins og fram komi í bréfi stefnda til skiptastjóra hafi inneign við fyrri endurútreikning lánsins ekki verið greidd til skiptastjóra vegna mistaka. Stefndi hafi greitt inneignina til skiptastjóra um leið og mistökin hafi komið í ljós. Stefndi mótmælir einnig upphafstíma dráttarvaxtakröfunnar með hliðsjón af því að hann sé ekki útskýrður í stefnu.

Stefndi telur einnig að krafa stefnanda um greiðslu inneignar og krafa um greiðslu dráttarvaxta sé fallin niður fyrir fyrningu. Þegar stefnandi tók umþrætt lán hafi verið í gildi lög nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, og samkvæmt 3. gr. laganna fyrnist krafa um endurgreiðslu ofgreidds fjár á fjórum árum, sem og krafa um dráttarvexti. Eins og fram komi í útreikningi stefnda hafi viðmiðunardagsetningar útreikningsins verið frá 14. ágúst 2008 til 7. desember 2009. Það sé því ljóst að krafa stefnanda um endurgreiðslu inneignar og krafa um dráttarvexti á þá fjárhæð sé fyrnd en krafa stefnanda um greiðslu hafi fyrst komið fram í stefnu sem hafi verið birt stefnda í febrúar 2016.

Stefndi hafnar þeim fullyrðingum stefnanda að greiðsluerfiðleika hans sé að rekja til þess að lán hans hjá stefnda hafi hækkað verulega vegna gengistryggingar þeirra. Stefndi telur að stefnandi hafi verið kominn í greiðsluerfiðleika löngu áður en efnahagshrunið varð í október 2008.

Stefndi krefst einnig sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi telur að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á það að krafa hans á hendur stefnda vegna inneignarinnar sé skaðabótakrafa, eða krafa sem jafna megi til slíkrar kröfu, þannig að heimilt sé að reikna vexti samkvæmt 8. gr. vaxtalaga eða með lögjöfnun frá þeirri grein. Stefndi mótmælir því einnig að lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda eigi við um kröfu stefnanda.

Að mati stefnda hefur stefnandi hvorki gert viðhlítandi grein fyrir bótakröfu sinni né sýnt fram á hver sú saknæma háttsemi stefnda hafi verið samkvæmt almennu sakarreglunni sem baki honum bótaábyrgð. Þá hefur stefnandi ekki heldur sýnt fram á orsakasamband milli ætlaðs tjóns síns og ætlaðs saknæms atferlis á ábyrgð stefnda. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 beri kröfur um skaðabætur vexti frá og með þeim tíma er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Þar sem stefnandi hafi ekki gert grein fyrir því hvert hið bótaskylda atvik sé né hvenær það atvik átti sér stað sé ekki hægt að taka afstöðu til upphafsdags vaxtakröfu stefnanda. Sé krafa stefnanda um skaðabótavexti og upphafsdags þeirra því vanreifuð og er upphafsdegi vaxtakröfu stefnanda mótmælt.

Stefndi telur einnig að krafa stefnanda um vexti samkvæmt 8. gr. vaxtalaga sé fyrnd og er vísað til rökstuðnings í fyrri kafla um fyrningu dráttarvaxtakröfu stefnanda. 

Að því er varðar tiltekna liði skaðabótakröfunnar vísar hann til þess að hann hafi ekki óskað eftir gjaldþrotaskiptum á búi stefnanda. Stefndi beri enga ábyrgð á skiptakostnaðinum heldur skiptabeiðandi og verði stefnandi að beina þessari kröfu að honum. Þrotabúið hafi endurgreitt skiptatrygginguna og gerir stefnandi nú meðal annars kröfu um að stefndi endurgreiði hana en það hafi verið Sýslumaðurinn í Kópavogi sem fékk þá greiðslu. Varðandi reikning lögmanns eigenda stefnanda þá hafnar stefndi að honum beri að endurgreiða þann kostnað þar sem það var einhliða ákvörðun forsvarsmanna stefnanda að leita lögfræðiráðgjafar. Þeim hafi mátt vera ljóst að sá lögmaður gat ekki komið fram fyrir hönd stefnanda gagnvart stefnda þar sem umráð búsins voru í höndum skiptastjóra. Stefnandi hafi ekki heldur verið greiðandi þessa reiknings heldur fyrrum eigendur félagsins og því geti stefnandi ekki krafið stefnda um greiðslu á þessari fjárhæð. Stefndi telur að stefnanda hafi ekki tekist með málatilbúnaði sínum að sýna fram á að saknæmisskilyrði skaðabótareglunnar séu uppfyllt, þ.e. að meint tjón stefnanda sé vegna bótaskylds atviks sem stefndi beri ábyrgð á og að tjónið megi rekja til þessa bótaskylda atviks.

Niðurstaða

Að mati dómsins hefur stefnandi ekki fært að því rök að sú krafa sem stofnaðist honum til handa með endurútreikningi hinna gengistryggðu lána hafi verið skaðabótakrafa, eða krafa sem jafna megi til slíkrar kröfu, þannig að heimilt sé að reikna honum vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 eða með lögjöfnun frá þeirri grein. Er þá meðal annars horft til þess að þau rök sem standa til þess að skaðabótakröfur beri vexti upp að ákveðnu marki, frá þeim tíma er hið bótaskylda atvik átti sér stað, eiga ekki nauðsynlega við um kröfur sem byggjast á endurgreiðslu ofgreidds fjár líkt og krafa stefnanda felur í sér. Ljóst er að lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, gátu heldur ekki átt við um kröfu stefnanda samkvæmt efni sínu. Er þá litið til þess að umrædd lög hafa að geyma sérreglur um kröfur sem stofnast hafa við það að stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, hafa ofkrafið greiðendur. Af lögunum verður því ekki dregin ályktun um almenna reglu um að kröfur, sem reistar eru á reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár, skuli bera vexti heldur verður öllu heldur gagnályktað um að engin slík regla gildi um þessar kröfur þegar lögunum sleppir. Samkvæmt þessu er því hafnað að stefnandi eigi rétt á vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001.

A

Í dómum Hæstaréttar, sbr. t.d. dóma 30. janúar 2014 í máli nr. 544/2013 og 17. desember 2015 í máli nr. 292/2015, hefur verið miðað við að réttur til dráttarvaxta vegna endurútreiknings ólögmætra gengistryggðra lána miðist við það tímamark þegar skuldari krefur kröfuhafa sannanlega um greiðslu samkvæmt nánari fyrirmælum 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Verður því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að hann eigi rétt á dráttarvöxtum frá þeim tíma sem hann innti af hendi síðustu greiðslur af lánunum eða frá þeim tíma er lánin voru gjaldfelld. Í máli þessu verður hins vegar að líta til þess að stefndi hefur í málatilbúnaði sínum viðurkennt að mistök hafi orðið þegar hann endurreiknaði lán stefnanda og útbjó áðurlýst bréf 31. janúar 2011 og 31. mars þess árs. Nánar tiltekið hefur stefndi lýst því fyrir dóminum að almennt hafi inneignir skuldara á grundvelli endurútreiknings verið greiddar skuldurum umsvifalaust og án þess að sérstök krafa þyrfti að koma fram frá þeim um greiðslu.

Samkvæmt þessu verður að líta svo á að stefndi, sem er fjármálafyrirtæki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002 og ber að taka tillit til hagsmuna viðskiptavina sinna samkvæmt 1. gr. þeirra laga, hafi nægilega viðurkennt að skylda hans til greiðslu hafi stofnast í beinu framhaldi af því að umrædd bréf voru útbúin og send. Ræður þá ekki úrslitum hvort bréfin voru í reynd móttekin af skiptastjóra þrotabús stefnanda eða ekki, svo sem um er deilt í málinu. Að þessu virtu verður fallist á það með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 að stefnandi eigi rétt á dráttarvöxtum af þeim 12.108.582 krónum sem fórst fyrir að greiða þrotabúi hans eftir endurútreikning 31. janúar 2011 og 31. mars þess árs. Með vísan til 10. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, sem eiga við um dráttarvaxtakröfu stefnanda samkvæmt 28. gr. laganna, telst krafa stefnanda ófyrnd. Að öðru leyti er ekki fallist á málsástæður stefnanda um dráttarvexti af téðri kröfu. Verður því einungis fallist á fyrri aðalkröfu stefnanda að því marki sem nánar greinir í dómsorði.

B

Í málinu liggur fyrir að stefndi hefur fallist á þann hluta skaðabótakröfu stefnanda sem lýtur að ofáætluðum viðgerðarkostnaði að fjárhæð 4.737.003 krónur við gjaldfellingu og uppgjör samninganna. Með vísan til yfirlýsingar stefnda og meginreglunnar um forræði aðila á sakarefninu verður því fallist á þann hluta skaðabótakröfu stefnanda sem að þessu lýtur. Að mati dómsins hefur stefnandi hins vegar engin rök fært fyrir því að stefndi, sem lagði ekki fram þá beiðni um gjaldþrotaskipti sem leiddi til skiptameðferðar stefnanda, hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi þannig að hann beri skaðabótaábyrgð á skiptakostnaði að fjárhæð 1.468.595 krónur. Þá er á það fallist með stefnda að ekki hafi verið sýnt fram á að sá lögmannskostnaður sem talinn er til tjóns stefnanda, hafi í reynd verið borinn af félaginu eða stefnandi fengið kröfu þar að lútandi framselda frá eigendum sínum. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til greina að fallast á þennan lið skaðabótakröfu stefnanda, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á skaðabótakröfu stefnanda umfram það sem stefndi hefur sjálfur viðurkennt. Það athugast að stefnandi hefur ekki byggt málatilbúnað sinn á því að fyrrgreindur endurútreikningur stefnanda á stöðu lánanna hafi verið rangur með vísan til þess að verð þeirra tækja, sem stefndi skilaði, hafi verið of lágt metið. Fer því um vexti af þessari kröfu stefnanda samkvæmt 8. og 9. gr. laga nr. 38/2001 sem fjallar um skaðabótakröfur. Með hliðsjón af yfirlýsingu stefnda verður að miða við að tjón stefnanda hafi orðið við gjaldfellingu framangreindra lána, þó þannig að stefndi ber fyrir sig reglur um fyrningu. Samkvæmt þessu verður að fallast á að vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 eldri en fjórum árum fyrir birtingu stefnu séu fyrndir en að öðru leyti er fallist á vaxtakröfu stefnanda að þessu leyti. Eins og atvikum málsins er háttað verða dráttarvextir dæmdir frá birtingu stefnu að telja með heimild í 2. málslið 9. gr. laga nr. 38/2001.

                Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað hans að stærstum hluta. Er hann hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Hulda R. Rúriksdóttir hrl.

Af hálfu stefnda flutti máli Hrannar Jónsson hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda, Krananum ehf., 2.627.934 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. janúar 2011 til 31. mars þess árs, en frá þeim degi af 12.108.582 krónum til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 16. nóvember 2015 að fjárhæð 12.108.582 krónur.

                Stefndi greiði stefnanda 4.737.003 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. febrúar 2012 til 23. febrúar 2016, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.100.000 krónur í málskostnað.