Hæstiréttur íslands
Mál nr. 199/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Frestur
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
- Evrópska efnahagssvæðið
|
|
Föstudaginn 27. apríl 2012. |
|
Nr. 199/2012.
|
Iccrea Banca S.p.A. (Heiðar Ásberg Atlason hrl.) gegn CIG og Co. Conseq Invest plc. Conseq Investment Management AS CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l. Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R.) GLG European Distressed Fund GLG Market Neutral Fund ING Life Insurance and Annuity ING USA Annuity and Life Insurance Co. LMN Finance Ltd. Lyxor / Third Point Fund Limited Monumental Life Insurance Company National Bank of Egypt (UK) Limited Ohio National Life Assurance Company Reliastar Life Insurance Company Security Life of Denver Insurance Sun Life Assurance Company of Canada Third Point Partners LP (US) Third Point Offshore Master Fund LP Third Point Partners Qualified LP Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman) Värde Fund LP Värde Fund V-B LP Värde Fund VI-A LP Värde Fund VII-B LP The Värde Fund VIII LP The Värde Fund IX LP / The Värde Fund IX-A LP Värde Investment Partners LP Värde Investment Partners (Offshore) Master LP (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) Bayerische Landesbank Bremer Landesbank Commerzbank AG Commerzbank International S.A. Erste Europäische Pfandbrief- und Kommunalkreditbank AG, Eurohypo Aktiegesellschaft DekaBank Deutsche Girozentrale DekaBank Deutsche Girozentrale Luxembourg S.A. Deutsche Postbank International S.A Düsseldorfer Hypothekenbank AG DZ BANK AG Deutsche Zentral-Genossenschaftsbank Landesbank Baden-Württemberg LBBW Luxembourg SA Landesbank Berlin AG Deutsche Postbank AG Deutsche Hypothekenbank (Actien-Gesellschaft) KfW Bankengruppe Raiffeisen Zentralbank Österreich AG Österreichische Volksbanken-Aktiengesellschaft Sparkasse Oberhessen Taunus-Sparkasse Sparkasse Pforzheim Calw Sparkasse-Jena-Saale-Holzland Sparkasse Hannover Nassauische Sparkasse Anstalt des öffentlichen Rechts Sparkasse zu Lübeck AG Kreissparkasse Peine Die Sparkasse Bremen AG Sparkasse Oder-Spree Vereinigte Sparkassen im Landkreis Weilheim Caixa Geral de Depositos The Royal Bank of Scotland plc. ABN AMRO Bank NV, London Branch Volksbank Tettnang eG Volksbank eG Villingen-Schwenningen Volksbank Offenburg eG Volksbank Wiesloch eG Raiffeisenbank Elbmarsch eG VR Bank Forst eG Fellbacher Bank eG vr bank Untertaunus eG Volksbank Glan-Münchweiler eG Volksbank Raiffeisenbank Niederschlesien eG Heidenheimer Volksbank eG Spar- und Kreditbank Dauchingen eG Volksbank eG Eppertshausen VR-Bank Lech-Zusam eG Raiffeisen- Volksbank Neuburg/Donau VR Bank Hof eG VR Bank Lausitz Raiffeisenbank Eberhardzell-Ummendorf eG Volksbank Eichsfeld-Northeim eG Darmsheimer Bank eG Leutkircher Bank eG Volksbank Rathenow eG VR Bank Rhein-Neckar eG Volksbank Metzingen-Bad Urach eG Hallertauer Volksbank eG Volksbank Lauterecken eG Volksbank Emstek eG Volksbank Flein-Talheim eG Kerner Volksbank eG Raiffeisenbank eG Hagenow Zevener Volksbank eG Volksbank Lindenberg eG VBS GmbH Rostocker Volks- und Raiffeisenbank eG Volksbank Untere Saar eG Raiffeisenbank Bad Doberan Volksbank Hankensbüttel-Wahrenholz eG Raiba Baisweil-Eggenthal-Friesenried eG Raiffeisenbank Haag-Gars-Maitenbeth eG Raiffeisenbank Neustadt-Vohenstrauß eG Volksbank Hohenzollern eG VR-Bank Aalen eG Volksbank Wolfenbüttel-Salzgitter eG Volksbank Bruchsal-Bretten eG Raiffeisenbank Bachgau eG Volksbank Oldenburg eG Volksbank Wilhelmshaven eG Volksbank Bad Mergentheim eG Raiffeisenbank München-Süd eG Raiffeisenbank Auerbach-Freihung eG Raiffeisenbank Höchberg eG Raiffeisenbank Weilheim eG Raiffeisenbank eG Leezen Raiffeisenbank Haldenwang eG Volksbank Pirna eG Raiffeisenbank Hammelburg eG vr bank Südthüringen eG Winterlinger Bank eG Nordthüringer Volksbank eG Volksbank Heuchelheim eG Volksbank Magdeburg eG Volksbank eG, Elmshorn Volksbank Achern eG Raiffeisenbank Donaumoser Land eG Volksbank Ulm-Biberach eG Volksbank Mainspitze eG Wiesbadener Volksbank eG Volksbank Raiffeisenbank Ismaning eG Georg Blinn Günther und Lieselotte Lambrecht Monika Jettkowski Henning und Petra Oberdisse Heinrich Grossmann Stephan Hopp Klaus Fischer Erika Michels Peter Michels Hermann Gapp Henning Oberdisse Hilda Reutter Herbert und Julia Kopp Armin Lambertz Dr. Joachim Kreuter Siegfried und Erika Loeppke Karin Müller Gerhard Oppermann Reinhard und Ilse Markhoff Wilhelm Krämer Maja Kremmin Elisabeth Emma Sündermann Tina Lingnau Josef Rosenberger Dr. Ingeborg Klüppel Helmut Spruck Raiffeisenbank Ehingen-Hochsträß eG Stuttgarter Volksbank eG Raiffeisenbank Wimsheim-Mönsheim eG Bankverein Bebra eG Raiffeisenbank Illertal eG Raiffeisenbank Heroldstatt eG Raiffeisenbank Augsburger Land West eG Volksbank Schaumburg eG VR Bank Steinlach-Wiesaz-Härten eG Volksbank Vorbach-Tauber eG - Raiffeisen- und Volksbank - Deutsche Apotheker- und Ärztebank eG Kemer Volksbank eG og Volksbank Achem eG (enginn) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Frestun. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit. Evrópska efnahagssvæðið.
Spænski bankinn I kærði úrskurð héraðsdóms þar sem meðferð máls C og fleiri gegn honum var frestað með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, auk þess sem hafnað var kröfu I um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði varðandi skýringu tilskipunar nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, enda þótti nægjanlega fram komið að sú líking væri með sakarefni málsins og sakarefni annars máls þar sem leitað hafði verið ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, að síðarnefnda málið kynni að geta haft þýðingu fyrir málið sem hér væri til umfjöllunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2012 sem barst héraðsdómi þann dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2012, þar sem meðferð málsins var frestað þar til fyrir liggur ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sem ákveðið var að leita eftir með úrskurði Hæstaréttar 15. desember 2011 í máli nr. 169/2011, og hafnað var kröfu sóknaraðila um að leitað yrði sérstaks ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í þessu máli. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og aðallega að meðferð málsins verði haldið áfram og aðalmeðferð þess ekki frestað þar til fyrir liggur ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem ákveðið var að leita með áðurgreindum úrskurði Hæstaréttar. Til vara krefst hann þess að fallist verði á kröfu um að leita sjálfstæðs álits EFTA-dómstólsins í málinu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn CIG og Co. og 28 aðrir í sama hópi krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í báðum tilvikum er krafist kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Bayerische Landesbank og 139 aðrir í sama hópi hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Sóknaraðili er ítalskur banki með starfsemi víða um heim. Hann átti samkvæmt gögnum málsins fjármuni hjá Landsbanka Íslands hf. þegar sá síðarnefndi var tekinn til slita 22. apríl 2009, og lýsti sóknaraðili kröfu við slitin vegna viðskipta með þá fjármuni. Slitastjórn bankans féllst á með sóknaraðila að hann hefði átt hjá bankanum innstæður í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en um það er ágreiningur með málsaðilum.
Með úrskurði Hæstaréttar 15. desember 2011 í máli nr. 169/2011 var ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um tiltekin atriði, sem varða skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, í tengslum við viðskipti spænsks banka við Landsbanka Íslands hf. Spænski bankinn, sem einnig átti fjármuni hjá Landsbanka Íslands hf. þegar sá síðarnefndi var tekinn til slita 22. apríl 2009, lýsti kröfum við slitin vegna viðskipta með þá fjármuni, og er einnig um það deilt með aðilum þess máls hvort þar sé um innstæður að ræða í skilningi laga nr. 98/1999.
Í 2. málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um heimild dómara til að fresta máli ef annað einkamál hefur verið höfðað út af efni sem varðar úrslit þess verulega. Með vísan til þess sem að framan greinir þykir nægilega fram komið í máli þessu, að sú líking sé með sakarefni málsins og sakarefni máls nr. 169/2011, að úrlausn þeirra lögfræðilegu álitaefna sem um er deilt í síðarnefnda málinu kunni að geta haft þýðingu fyrir úrslit þess máls sem hér er til umfjöllunar. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2012.
Í þinghaldi í máli þessu hinn 16. febrúar sl. tilkynnti dómari að hann íhugaði að fresta frekari meðferð þess að eigin frumkvæði, með vísan til heimildar í ákv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með tilliti til þess að Hæstiréttur hafi í máli sínu nr. 169/2011, Aresbank S.A. gegn Landsbankanum hf., ákveðið að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi. Þá lagði lögmaður varnaraðila, Iccrea Banca S.p.A. fram í þinghaldinu bókun í tilefni af úrskurðum héraðsdóms í málum nr. X-517/2010 og X-193/2010 þar sem sóknaraðili mótmælir því að máli þessu verði frestað þar til fyrir liggi álit EFTA-dómstólsins í greindu máli Hæstaréttar, eins og niðurstaðan hafi orðið í fyrrnefndum úrskurðum héraðsdóms. Þá er þar jafnframt sett fram sú krafa að verði það niðurstaða héraðsdóms að rétt sé að bíða eftir áliti EFTA-dómstólsins sé þess krafist að leitað verði sjálfstæðs álits EFTA-dómstólsins í þessu máli. Í þinghaldi hinn 22. febrúar sl. lýstu lögmenn sóknaraðila hins vegar yfir þeirri afstöðu að rétt væri að fresta málinu með tilliti til þessa en óþarft væri að leita sérstak álits EFTA-dómstólsins. Var ágreiningur þessi tekinn til úrskurðar í þinghaldinu eftir að lögmenn höfðu tjáð sig um ágreininginn, en varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. lét ágreininginn ekki til sín taka.
Af hálfu varnaraðilans Iccrea Banca S.p.A. var þeirri afstöðu lýst að ekki beri að fresta málinu á framangreindum forsendum, enda sé mál Hæstaréttar nr. 169/2011, mál Aresbank, um margt frábrugðið þessu máli og önnur sjónarmið séu þar í forgrunni. Þannig liggi fyrir í þessu máli staðfesting frá Landsbanka Íslands hf. vegna hinna umdeildu innlána varnaraðilans þar sem fram komi auðkennisnúmer þeirra, vaxtaprósentur og þeir dagar sem þau skyldu vera laus til útborgunar. Um slíkt virðist ekki vera að ræða í máli Aresbank. Ljóst sé hins vegar að EFTA-dómstóllinn muni í áliti sínu vegna máls Aresbank eingöngu taka miða af þeim málavöxtum sem eigi við í því máli og þeim sjónarmiðum og röksemdum sem aðilar þess komi á framfæri. Aðilar þessa máls eigi enga möguleika á að koma þar að sínum sjónarmiðum. Þeir yrðu því skikkaðir til að bíða í langan tíma eftir áliti sem þeir gætu ekki haft nein áhrif á og hafi að lokum takmarkaða þýðingu fyrir mál þetta.
Varnaraðilinn kveður ljóst að um ágreining aðila í þessu máli gildi íslensk lög og að EFTA-dómstóllinn hafi engar heimildir til að túlka ákvæði þeirra. Verði það hins vegar niðurstaða dómsins að bíða eftir álitinu sé þess krafist að leitað verði sjálfstæðs álits EFTA-dómstólsins í þessu máli. Séu settar fram eftirfarandi tillögur að þeim spurningum sem varnaraðilinn teldi rétt að beina til EFTA-dómstólsins við slíkar aðstæður:
1. Er það samrýmanlegt EES-rétti, sérstaklega fyrstu undanþágu í 2. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB, að samkvæmt íslenskum lögum um innstæðutryggingar séu eingöngu innstæður í eigu lánastofnana (e. credit institution), fyrir þeirra eigin reikning, sem aðild eiga að íslenska tryggingarsjóðnum, undanskildar innstæðutryggingarvernd laganna, og svo háttar til, að eingöngu þær lánastofnanir (e. credit institutions), sem staðfestu hafa á Íslandi, eiga aðild að þeim sjóði?
2. Skiptir það máli þegar fyrstu spurningunni er svarað hvort að aðildarríki, í þessu tilfelli Ísland, hefur nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB, sbr. 1. tl. I. viðauka, til að undanskilja innstæður í eigu fjármálafyrirtækja (e. financial institutions) innstæðutryggingarvernd laganna?
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að umbeðið álit í máli Hæstaréttar nr. 169/2011 hafi fulla þýðingu í þessu máli, enda séu þær spurningar sem þar séu lagðar fyrir EFTA-dómstólinn það opnar og málsatvik það sambærileg að á þeim verði fyllilega byggt.
Eins og fyrr greinir ákvað Hæstiréttur í máli sínu nr. 169/2011 að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu innstæða í 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi með tilvísan til þess að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Enda þótt fyrir liggi að grundvöllur framangreinds máls Hæstaréttar og þess máls sem hér er rekið sé ekki sá sami er ljóst að í báðum tilvikum er deilt um hvort afhending fjármuna erlends banka til íslensks banka hafi verið þess eðlis að líta beri svo á að um innstæðuviðskipti hafi verið að ræða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Í tilviki sóknaraðila í máli þessu er á því byggt að krafan njóti þar með forgangs við slit varnaraðila Landsbanka Íslands hf. samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, svo sem henni var breytt með 6. gr. laga nr. 125/2008 og 6. gr. laga nr. 44/2009, en samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda í máli Hæstaréttar nr. 169/2011 sýnist á því byggt að krafa hans hafi þá átt að færast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankans hf. Með hliðsjón af þessu verður ekki annað séð en að svar EFTA-dómstólsins við spurningum Hæstaréttar í framangreindu máli kunni að hafa verulega þýðingu við úrlausn þess ágreinings sem mál þetta snýst um.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið getur dómari í tilteknu máli, þar sem taka þarf afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta. Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið verður að telja að leita beri ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi þegar aðstaðan er með slíkum hætti sem í máli þessu. Þegar hins vegar er til þess litið að spurningum til EFTA-dómstólsins í málinu yrði hagað á svipaðan hátt og gert er í máli Hæstaréttar nr. 169/2011 verður ekki talið að ástæða sé til að leita hér sérstaks álits EFTA-dómstólsins eða spyrja annarra spurninga en þar er gert, heldur verði hvað það varðar að bíða álits EFTA-dómstólsins í greindu máli.
Að virtu framangreindu, og með hliðsjón af niðurlagi 3. tl. 102. gr. laga nr. 91/1991, er það mat dómsins að unnt sé að fresta máli í því skyni að bíða ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, þrátt fyrir að dómari hafi ekki óskað þess álits sjálfur, enda sé um að ræða sambærileg álitaefni. Er það því niðurstaða dómsins að fresta beri máli þessu þangað til tilvitnað ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli Hæstaréttar nr. 169/2011 liggur fyrir.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Meðferð máls þessa er frestað þar til fyrir liggur ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sem ákveðið var að leita með úrskurði Hæstaréttar í máli nr. 169/2011, uppkveðnum 15. desember 2011.
Hafnað er kröfu varnaraðila, Iccrea Banca S.p.A., um að leitað verði álits EFTA-dómstólsins sérstaklega í þessu máli.