Hæstiréttur íslands
Mál nr. 432/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 432/2014. |
PricewaterhouseCoopers
ehf. (Garðar G. Gíslason hdl.) gegn LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
L hf. höfðaði
mál á hendur P ehf. og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem L hf. taldi sig hafa
orðið fyrir vegna ætlaðrar skaðabótaskyldrar háttsemi P ehf. við endurskoðun og
könnun á árshlutauppgjörum L hf. Undri rekstri málsins í héraði lögðu bæði L
hf. og P ehf. fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna og var beiðni beggja tekin
til greina. P ehf. óskaði síðan eftir því að matsmenn yrðu dómkvaddir til að
svara sex spurningum til viðbótar. Með hinum kærða úrskurði var beiðnin tekin
til greina að því er varðaði tvær spurningar matsbeiðni P ehf. en hafnað að því
er aðrar spurningar varðaði. Í dómi Hæstaréttar var hinn kærði úrskurður
staðfestur að öðru leyti en því að einnig var fallist á kröfu P ehf. um að fá
dómkvadda matsmenn til að svara tveimur spurningum til viðbótar í matsbeiðni
hans. Voru enda ekki taldir á spurningunum nokkrir þeir annmarkar sem girt gætu
fyrir að þær yrðu lagðar fyrir matsmenn.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2014 þar sem fallist var á beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna til að svara tveimur spurningum en henni hafnað að því er varðaði aðrar matsspurningar. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að dómkveðja menn til að framkvæma hið umbeðna mat. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur krafa hans um málskostnað í héraði þegar af þeirri ástæðu ekki til álita hér fyrir dómi.
Sóknaraðili hafði ekki uppi kröfu um málskostnað í héraði í þessum þætti málsins og kemur sú kafa hans því ekki til úrlausnar.
I
Varnaraðili hét áður Landsbanki Íslands hf. og er nú undir slitum. Varnaraðili höfðaði mál 8. mars 2012 á hendur sóknaraðila og PricewaterhouseCoopers LLP til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem varnaraðili telur sig hafa orðið fyrir við endurskoðun og könnun á árshlutauppgjörum bankans og ráðgjafar um hvernig haga skyldi tilteknum þáttum í reikningsskilum hans. Málatilbúnaði varnaraðila er nánar lýst í hinum kærða úrskurði.
Með úrskurði héraðsdóms 16. júlí 2013 var fallist á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna til að svara tilteknum spurningum. Úrskurður þessi var staðfestur með dómi Hæstaréttar 19. september 2013 í máli nr. 533/2013. Í kjölfarið óskaði sóknaraðili eftir dómkvaðningu matsmanna til að svara spurningum í 37 liðum, en mörgum þeirra var skipt upp í undirliði. Með úrskurði héraðsdóms 29. janúar 2014 var fallist á að dómkveðja matsmenn til að svara þremur af þessum spurningum. Þeim úrskurði héraðsdóms var ekki skotið til Hæstaréttar. Sóknaraðili óskaði síðan eftir að matsmenn yrðu dómkvaddir til að svara sex spurningum til viðbótar. Með hinum kærða úrskurði var fallist á að dómkveðja matsmenn til að svara 3. og 4. spurningu í beiðni hans en henni að öðru leyti hafnað. Sóknaraðili hefur skotið úrskurðinum til réttarins í því skyni að fá honum hnekkt að því marki sem beiðni hans var hafnað. Þær sex spurningar sem sóknaraðili vill að lagðar verði fyrir matsmenn eru teknar upp í hinum kærða úrskurði.
II
Í 1. spurningu í matsbeiðni sóknaraðila er óskað eftir áliti dómkvaddra manna á því hvort gerð, framsetning og skýringar, aðferðafræði og reikningshaldslegt mat stjórnenda í samandregnum árshlutareikningi varnaraðila 30. júní 2008 hafi verið í samræmi við góða reikningsskilavenju að því er varðar eignarhluti aflandsfélaga í varnaraðila, eignarhluti í honum á svonefndum LI-Hedge reikningi, virði heildarskiptasamninga (svonefndra Total Return Swap samninga) og virðisrýrnun útlána. Samkvæmt VII. kafla A. og 90. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga bar varnaraðila að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu árshlutareiknings, enda var hann félag samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna. Svo sem tekið var fram í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 45/2005 um breyting á lögum nr. 144/1994 um ársreikninga fólu fyrrgreindu lögin í sér þá breytingu á þeim síðargreindu að í stað góðrar reikningsskilavenju var vísað til settra reikningsskilareglna og var þá átt við reglur Reikningsskilaráðs og samþykkta alþjóðlega reikningsskilastaðla. Eftir setningu laganna voru eldri lög um ársreikninga síðan endurútgefin sem lög nr. 3/2006. Þótt umrædd matsspurning sé að þessu leyti ónákvæm um matsgrundvöll er þess að gæta að við mat á því hvað telst góð reikningsskilavenja fyrir varnaraðila ber að miða við þær reikningsskilareglur sem áttu við þegar árshlutareikningurinn var saminn. Þá er ekki um að ræða sömu spurningu og fallist var á að leggja fyrir matsmenn með fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 533/2013 þótt spurningin lúti að nokkru marki að sömu atriðum. Enn fremur verður spurningin ekki talin svo víðtæk eða óljós að því verði slegið föstu að útilokað sé fyrir matsmenn að afmarka hana nánar og taka afstöðu til hennar, en sóknaraðili ber kostnað af matinu og áhættu af því að það komi honum að notum. Verður því fallist á að dómkvaddir verði matsmenn til að svara þessari spurningu.
Í 2. spurningu er þess farið á leit að matsmenn fjalli um hvort einhverjar staðfestingar eða yfirlýsingar stjórnenda varnaraðila, sem fram komu í staðfestingarbréfi til sóknaraðila 28. júlí 2008, hafi verið rangar og þá á hvern hátt að því er varðar sömu atriði og greinir í 1. spurningu. Þær matsspurningar sem teknar hafa verið til greina við reksturs þessa dómsmáls lúta ekki að þessu nánar afmarkaða atriði og eru ekki þeir annmarkar á þessari spurningu sem girða fyrir að hún verði lögð fyrir matsmenn. Verða þeir því einnig dómkvaddir til að svara henni.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur að því er varðar 5. og 6. spurningu í matsbeiðni sóknaraðila.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að tekin er til greina krafa sóknaraðila, PricewaterhouseCoopers ehf., um að fá dómkvadda matsmenn til að svara 1. og 2. spurningu í matsbeiðni hans.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2014.
Á
dómþingi þann 14. febrúar sl. voru dómkvaddir matsmenn til að vinna matsgerð á
grundvelli matsbeiðni frá stefnda PricewaterhouseCoopers
ehf. en úrskurður gekk um þá matsbeiðni þann 29. janúar sl. Í þinghaldi sama
dag lagði stefndi PricewaterhouseCoopers ehf., fram
nýja beiðni um dómkvaðningu matsmanna,
þá sem hér er til úrlausnar. Í næsta þinghaldi á eftir, þann 28. febrúar
mótmælti stefnandi framkominni matsbeiðni og var aðilum því gefinn kostur á að
reifa sjónarmið sín í þinghaldi sem fram fór 4. mars.
Krafa
stefnanda er sú að framkominni matsbeiðni verði hafnað. Stefndi PricewaterhouseCoopers LLP lætur ekki til sín taka í þessum
hluta málsins.
I.
Mál
þetta, sem er höfðað með stefnu birtri 8. mars 2012, er höfðað á hendur stefndu
til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem stefnandi telur að stefndu hafi bakað
sér með athöfnum og athafnaleysi við endurskoðun og könnun á árshlutauppgjörum
Landsbanka Íslands og með ráðgjöf sem þeir veittu bankanum varðandi tiltekna
þætti í reikningsskilum bankans. Fjárhæð bótakröfunnar nemur ríflega 83
milljörðum íslenskra króna auk rúmlega 11 milljóna Bandaríkjadala og tæplega 65
milljóna evra.
Stefnandi
byggir á því að stefndu hafi ekki endurskoðað og kannað reikningsskil bankans í
samræmi við góða endurskoðunarvenju, venjur um könnun árshlutareikningsskila,
réttarreglur og endurskoðunarstaðla. Þessi vanræksla hafi falist í því að
stefndu hafi ekki gert athugasemdir við útreikninga á eigin fé bankans í
reikningsskilum hans og ekki tilkynnt um brot á þýðingarmiklum reglum sem hafi
gilt um starfsemi hans. Þeir þættir, sem stefnandi telur að hafi leitt til þess
að eigið fé bankans hafi verið ofmetið, lúta að því að hvorki hlutabréf í
bankanum í eigu aflandsfélaga né hlutabréf sem færð voru á svonefndan LI-Hedge reikning hafi verið talin til eigin hluta bankans svo
sem stefnandi telur að hefði átt að gera. Þá hafi mat á virði svokallaðra
TRS-samninga verið breytt í reikningsskilum bankans fyrir fyrsta ársfjórðung og
fyrri helming ársins 2008 frá því sem áður var sem hafi leitt til hækkunar á
eigin fé bankans en virðisbreytingin hafi verið óheimil samkvæmt alþjóðlegum
reikningsskilastöðlum. Enn fremur hafi skort á að útlánasafn bankans hafi verið
virðisrýrt með fullnægjandi hætti í hálfsársuppgjöri hans um mitt ár 2008 svo
sem stefnandi telur að tilefni hafi verið til með hliðsjón af ástandi á
fjármálamörkuðum og almennt í íslensku efnahagslífi. Stefndu hafi verið eða
mátt vera ljóst, hefðu þeir gætt réttilega að skyldum sínum sem endurskoðendur,
að bankinn hafi brotið þýðingarmiklar reglur sem giltu um starfsemi hans.
Stefndu hafi vanrækt tilkynningarskyldu sína til bankaráðsins, hluthafafundar
og Fjármálaeftirlitsins. Í stefnu er því nánar lýst að hvaða atriðum hann telur
að brot bankans lúti.
Þá
er í stefnu staðhæft að eigið fé bankans og eiginfjárgrunnur hafi verið undir
lögbundnu lágmarki, a.m.k. frá miðju ári 2008 og ef tilkynningar þar að lútandi
hefðu borist Fjármálaeftirlitinu hefði bankinn misst starfsleyfi sitt eða að
minnsta kosti verið settar þröngar skorður varðandi ráðstöfun fjármuna.
Stefnandi byggir á því að saknæm og ólögmæt háttsemi stefndu allt frá árinu
2005 og fram að áritun um könnun á árshlutareikningi bankans um mitt ár 2008
hafi með samverkandi hætti leitt til tjóns fyrir stefnanda. Tjónið, sem
stefnandi krefst bóta fyrir í þessu máli, telur stefnandi að megi rekja til
ráðstafana sem bankinn greip til eftir að hálfsársuppgjör bankans var áritað um
endurskoðun þann 28. júlí 2008 og leiddu til þess að verulegir fjármunir runnu
úr bankanum. Þess vegna sé mun minna af eignum í búinu til ráðstöfunar til
kröfuhafa en ella hefði orðið. Stefnandi byggir á því, varðandi ætlað tjón, að
allir fjármunir sem greiddir voru út úr bankanum eftir könnunaráritun
endurskoðenda 28. júlí 2008, fram til 7. október s.á, þegar Fjármálaeftirlitið
tók yfir starfsemi bankans, og ekki sé unnt að endurheimta, teljist tjón fyrir
stefnanda.
Stefndu
mótmæla eindregið öllum málatilbúnaði stefnanda og krefjast aðallega sýknu en
til vara að kröfur hans verði lækkaðar stórlega. Stefndi PriceWaterhousCoopers
LLP byggir sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti, bæði til sóknar og varnar.
Að því gengnu byggir hann á því að háttsemi hans hafi að öllu leyti verið í
samræmi við lög, endurskoðendastaðla og aðrar reglur en jafnvel þótt einhver
brot af hans hálfu teldust vera til staðar, þá hafi þau verið fyrnd við upphaf
málshöfðunar.
Stefndi,
PriceWaterhouseCoopers ehf., sem er matsbeiðandi,
byggir sýknukröfu sína í grófum dráttum á því að málatilbúnaður stefnanda sé
byggður á rangfærslum, órökstuddum fullyrðingum og vanþekkingu, einkum að því
er varðar ábyrgð stefndu á reikningsskilum stefnanda. Stefndu hafi í engu
brotið reglur við endurskoðunarstörf sín. Þeir hafi rækt störf sín fyrir
stefnanda svo sem þeim bar samkvæmt gildandi endurskoðunar- og könnunarstöðlum.
Árshlutareikningsskil Landsbanka Íslands um mitt ár 2008 hafi verið
fullnægjandi og sömuleiðis könnun og áritun stefnda þar um. Hafi eitthvað farið
úrskeiðis við gerð ársreikninga bankans þá sé það á ábyrgð stjórnenda hans en
ekki þriðju aðila, svo sem stefnda. Málatilbúnaður stefnanda byggi á
eftiráskoðun sem gerð er á grundvelli vitneskju sem ekki lá fyrir þegar
ársreikningar voru gerðir og endurskoðaðir og atburðum sem síðar urðu í kjölfar
allsherjar kerfishruns á Íslandi. Þá hafnar stefndi þeirri staðhæfingu að
Fjármálaeftirlitið hefði gripið til þeirra aðgerða sem stefnandi heldur fram að
það hefði gert ef því hefði borist tilkynning um ætlaða eiginfjárstöðu bankans.
Ljóst sé að Fjármálaeftirlitinu hafi verið kunnugt um þau atriði sem máli
skipta, þær upplýsingar hafi engu skipt varðandi ákvarðanir eftirlitsins, auk
þess sem stofnunin hafi ekki að lögum heimild til að svipta bankann
starfsleyfi. Jafnvel þótt fallist yrði á að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sé
orsaka þess ekki að leita í aðgerðum eða aðgerðaleysi stefnda. Jafnvel þótt
komist yrði að þeirri niðurstöðu að orsakatengsl væru fyrir hendi milli
háttsemi stefnda og tjóns stefnanda skorti á skilyrði skaðabóta um sennilega
afleiðingu. Þá er því alfarið hafnað að stefnanda hafi tekist sönnur um tjón
og/eða umfang þess og aðferðafræði hans við útreikning tjónsins sé eindregið
mótmælt. Auk framangreindra málsástæðna byggir stefndi, PriceWaterhouseCoopers
ehf., sýknukröfu sína á aðildarskorti til sóknar og varnar og því að hluti
krafna stefnanda séu fyrndar.
II.
Með
mati samkvæmt matsbeiðni þessari hyggst matsbeiðandi sanna:
a. að
árshlutareikningsskil Landsbanka Íslands hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30.
júní 2008 hafi, að því er varðar umdeild atriði, verið sett fram af stjórnendum
hans í samræmi við góða reikningsskilavenju (matsspurningar nr. 1 og 2);
b. að
eigið fé Landsbanka Íslands hf. og eiginfjárgrunnur hafi á miðju ári 2008 verið
yfir því lágmarki sem lög um fjármálafyrirtæki settu, jafnvel þótt talið yrði
að haga hefði átt reikningsskilum bankans á þann hátt sem slitastjórn LBI hf.
heldur fram í málinu og
c. að
Landsbanki Íslands hf. hafi ekki brotið reglur um tengingu stórra
áhættuskuldbindinga (matsspurningar nr. 5 og 6).
Með
hliðsjón af framangreindu óskar matsbeiðandi eftir því að matsmenn láti í té
skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi atriði:
1. Voru
gerð, framsetning og skýringar, aðferðafræði og reikningshaldslegt mat
stjórnenda í samandregnum árshlutareikningi Landsbanka Íslands hf. 30. júní
2008 í samræmi við góða reikningsskilavenju hvað varðar eftirfarandi þætti;
a) eignarhluti
aflandsfélaga í Landsbanka Íslands hf.;
b) eignarhluti
í Landsbanka Íslands hf. á svonefndum LI-Hedge
reikningi ;
c) virði
heildarskiptasamninga, svonefndra TRS-samninga (e. Total
return swap)
d) virðisrýrnun
útlána?
2. Voru
einhverjar staðfestingar eða yfirlýsingar stjórnenda Landsbanka Íslands hf. sem
fram komu í staðfestingarbréfi til matsbeiðanda dags. 28. júlí 2008 (sbr. dskj. nr. 497 og 501 í nefndu héraðsdómsmáli) rangar og
þá á hvern hátt að því er varðar;
a. eignarhluti
aflandsfélaga í Landsbanka Íslands hf.;
b. eignarhluti
í Landsbanka Íslands hf. á svonefndum LI-Hedge
reikningi;
c. virði
heildarskiptasamninga (svonefndra TRS -samninga, e. Total
return swap);
d. virðisrýrnun
útlána?
3. Leiddu
reglur um frádrátt vegna viðskiptavildar frá eiginfjárgrunni til þess að á
vantaði, og þá hversu mikið í krónum talið, að bókfært verð eignarhluta
Landsbanka Íslands hf. í erlendu verðbréfafyrirtækjunum Landsbanki Securities
(UK) ltd., Landsbanki Kepler
og Merrion Landsbanki ltd.,
breska bankanum Heritable Bank ltd.
og SP fjármögnun hf. kæmi fram að fullu í CAD eiginfjárhlutfalli Landsbankans
samkvæmt samandregnum árshlutareikningi bankans 30. júní 2008?
4. Leiddu
reglur um áhættugrunn til þess að á vantaði, og þá hversu mikið í krónum talið,
að skráð markaðsverð eignarhluta Landsbanka Íslands hf. í sænska fyrirtækinu Intrum Justica og í Marel hf.
kæmi fram að fullu í CAD-eiginfjárhlutfalli Landsbankans samkvæmt samandregnum
árshlutareikningi bankans 30. júní 2008?
5. Samræmdist
það reglum um stórar áhættuskuldbindingar að Landsbanki Íslands hf. skyldi ekki
tengja saman áhættuskuldbindingar Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar
í skýrsluskilum til Fjármálaeftirlitsins?
6. Samræmdist
það reglum um stórar áhættuskuldbindingar að Landsbanki Íslands hf. skyldi ekki
tengja saman áhættuskuldbindingar Baugs Group hf. og
FL Group hf. í skýrsluskilum til Fjármálaeftirlitsins?
Stefnandi
andmælir því að matsbeiðni þessi nái fram að ganga. Um sé að ræða sömu
spurningar og dómurinn hafi þegar hafnað að lagðar yrðu fyrir matsmenn auk þess
sem sumar þeirra feli í sér spurningar um lagaleg atriði sem ekki sé heimilt að
afla matsgerðar um. Þá séu sumar spurninganna bersýnilega þýðingarlausar og
beri af þeim ástæðum að hafna þeim.
III.
Til úrslausnar í úrskurði þessum er
matsbeiðni stefnda Pricewaterhouse-Coopers ehf. Áður hefur dómurinn leyst úr ágreiningi um
matsbeiðni stefnanda og sætti sá úrskurður kæru til Hæstaréttar sbr. dóm
réttarins þann 19. september 2013 í máli nr. 533/2013. Þá liggur fyrir
úrskurður dómsins um matsbeiðni frá PricewaterouseCoopers
ehf. frá 29. janúar sl. þar sem fallist var á að matsbeiðandi gæti aflað mats
um þrjár spurningar af þeim 36 sem óskað var eftir að leggja fyrir matsmenn.
Öðrum spurningum var hafnað. Matsbeiðandi undi þeim úrskurði en lagði svo sem
fram er komið fram nýja matsbeiðni sem hér er til úrslausnar.
Við
mat á því hvort fallast beri á umbeðna beiðni um dómkvaðningu matsmanna ber að
hafa í huga að meginreglan er sú að aðilar máls fara með forræði á
sönnunarfærslu í málum sínu. Hefur þeim að jafnaði verið veitt rúmt svigrúm til
að afla matsgerða sérfróðra aðila enda afla þeir slíkra gagna á eigin kostnað
og um mat dómara á gildi matsgerða gildar almennar reglur um frjálst
sönnunarmat dómstóla. Af dómum Hæstaréttar má ráða að svigrúm aðila til öflunar
matsgerða sé nokkuð rúmt nema bersýnlegt megi telja að mat sé óþarft þar sem
það sem aðili vill sanna með matinu skipti ekki máli eða sé tilgangslaust til
sönnunar sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 eða þegar spurningar lúta að
atriðum sem dómari leggur sjálfur mat á sbr. 2. mgr. 60. gr. sömu laga. Meta
verður framkomna matsbeiðni með hliðsjón af þessum reglum.
Með
þessum spurningum 1 og 2 kveðst matsbeiðandi ætla að sanna að
árshlutareikningsskil Landsbanka Íslands hf. hafi verið sett fram af
stjórnendum bankans í samræmi við góða reikningsskilavenju. Spurt er um hvort
vinna stjórnenda Landsbankans hafi verið í samræmi við góða reikningsskilavenju
að því er varðar gerð, framsetningu, skýringar, aðferðafræði og
reikningshaldlegt mat á fjórum nánar greindum liðum árshlutareikningsins. Þeir
liðir snúast um eignarhluti bankans í aflandsfélögum og á LI-Hedge reikningum, mat á virði heildarskiptasamninga,
svokallaðra TRS-samninga (Total Return
Swap), og virðisrýrnun útlána. Þá er í spurningu 2
spurt hvort og þá hvernig staðfestingar eða yfirlýsingar sem stjórnendur
bankans gáfu í staðfestingarbréfi til matsbeiðanda, dags. 28. júní 2008, hafi
veri rangar að því er framangreinda þætt varðar.
Spurningar
þessar snúa að þeim eignum Landsbanka Íslands hf. sem stefnandi byggir á að
hafi verið ofmetnar í ársreikningum bankans. Það hafi verið gert með því að
þýðingarmiklar reglur um starfsemi bankans hafi verið brotnar og stefndu hafi
borið að gera athugasemdir við það við áritun á ársreikninga og
árshlutareikninga auk þess sem þeim hafi borið að tilkynna um brotin til
viðeigandi aðila. Viðfangsefni þessara spurninga hefur því þýðingu við úrlausn
málsins. Á hinn bóginn fær dómari ekki séð að spurningin um það hvort fylgt
hafi verið reikningsskilavenjum hafi neina þýðingu í málinu. Svo sem fram kemur
í áritun stefndu PWC ehf. á samstæðureikningsskil Landsbanka Íslands hf. fyrir
árið 2007 byggir áritun endurskoðenda á því að reikningarnir gefi glögga mynd
af afkomu fyrirtækisins í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla eins og
þeir hafi verið samþykktir af Evrópusambandinu. Svo sem fram kemur í lögum nr. 3/2006
bar Landsbanka Íslands hf. að fylgja alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við
samningu reikningsskila og árshlutareikningsskila sbr. 90. og VII. kafla
laganna frá og með fjárhagsári sem hófst 1. janúar 2005, eða ef
bráðabirgðaákvæði laganna á við, þá eftir 1. janúar 2007. Eftir þann tíma er
reikningsskilavenja ekki grunnur að reglum um reikningsskil fyrirtækja sem
falla undir ákvæði laga nr. 3/2006. Svo sem fram kemur í athugasemdum með
frumvarpi til laga nr. 45/2005, um breytingu á lögum um ársreikninga nr. 3/2006
er nú vísað til settra reikningsskilareglna en ekki reikningsskilavenja. Með
settum reikningsskilareglum er átt við reglur sem Reikningsskilaráð setur eða
samþykkta alþjóðlega reikningsskilastaðla sbr. það sem fram kemur í
athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins. Þegar af þessari ástæðu er þýðingarlaust
að óska mats á því hvort stjórnendur Landsbanka Íslands kunni að hafa fylgt
viðmiðum sem fyrir liggur að voru ekki notuð á þeim tíma sem umræddur
árshlutareikningur var saminn.
Þá
verður einnig að telja að umrædd spurning sé of víðtæk og óljós þegar spurt er
hvort gerð, framsetning, skýringar, aðferðafræði og reikningshaldlegt mat
stjórnenda bankans í tengslum við gerð umdeilds árshlutareiknings hafi verið í
samræmi við reglur, jafnvel þótt spurningunni væri beint að reglum sem giltu á
umræddum tíma. Í þessu sambandi verður að líta til þess að í málatilbúnaði
stefnanda er byggt á því að þær eignir sem spurningin lýtur að, þ.e.
aflandsfélögin, HL-Hedge reikningarnir,
TRS-samningarnir og útlánasafnið, hafi verið ofmetin í ársreikningum bankans.
Hvað aflandsfélögin og HL-Hedge reikninga varðar er
byggt á því að um eign bankans hafi verið að ræða sem borið hafi að draga frá
hlutafé hans en varðandi TRS-samningana er á því byggt að aðferðum við
virðismat hafi verið breytt með óheimilum hætti í árshlutareikningsskilum á
fyrri parti ársins auk þess sem breyttra aðferða hafi ekki verið getið í
skýringum með reikningunum. Loks er á því byggt af hálfu stefnanda að
virðisrýrnun útlánasafns Landsbanka Íslands hf. hafi verið ófullnægjandi í
hálfsársuppgjöri bankans árið 2008. Í matsbeiðni stefnanda, sem dómurinn hefur
þegar heimilað, er spurt nánar út í könnun stefndu á þessum atriðum sbr.
spurningar 4, 6 og 7. Í matsgerð varðandi þá þætti verður ekki hjá því komist
að matsmenn taki afstöðu til þess álitaefnis hvort árshlutareikningsskilin hafi
verið, hvað þessa þætti varðar, í samræmi við lög og settar
reikningsskilareglur. Hvorki verður séð hvaða atriði það eru sem matbeiðandi
hyggst leiða í ljós með þessum spurningum, til viðbótar því sem þar verður
fjallað um, né heldur hvernig þau kunna að tengjast sakarefni málsins. Með
vísan til framangreinds verður því að telja þýðingarlaust að afla mats um
þessar spurningar og er þessum hluta matsbeiðninnar því hafnað með vísan til 3.
mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Með
spurningum 3 og 4 kveðst matsbeiðandi ætla að sanna að eigið fé Landsbanka
Íslands hf. og eiginfjárgrunnur hafi á miðju ári 2008 verið yfir því lágmarki
sem lög um fjármálafyrirtæki settu, jafnvel þótt talið yrði að haga hefði átt
reikningsskilum bankans á þann hátt sem stefnandi heldur fram í málinu. Spurt
er annars vegar um hvort reglur um frádrátt frá eiginfjárgrunni vegna
viðskiptavildar hafi leitt til þess að bókfært verð eignarhluta Landsbankans í
tilteknum fyrirtækjum kæmi ekki að fullu fram í CAD-eiginfjárhlutfalli bankans
og hins vegar hvort reglur um áhættugrunn hafi leitt til þess að skráð
markaðsverð á tilteknum eignum bankans kæmu að fullu fram í
CAD-eiginfjárhlutfalli bankans. Í báðum tilvikum er miðað við
eiginfjárhlutfallið í árshlutareikningi bankans um mitt ár 2008. Í greinargerð
matsbeiðanda er beiðnin um þessar spurningar rökstudd nánar með því að vísa til
þess, að ef Landsbankinn hefði staðið frammi fyrir því um mitt ár 2008, að
eiginfjárhlutfall hans hefði verið komið niður fyrir lögbundið lágmark, þá
hefði bankinn getað brugðist við með því að selja viðkomandi eignir, endurmeta
virði þeirra, gangvirðisfæra skuldir eða ráðstafa eignum með öðrum hætti,
þ.m.t. eignarhlutum í dótturfélögum sínum. Slíkar ráðstafanir myndu hafa leitt
til þess að bankinn gæti innleyst eða bókfært dulin verðmæti og þar með hækkað
eigið fé og/eða CAD-eiginfjárhlutfall samstæðu bankans. Markmið spurninganna er
því að mestu það sama og markmið spurninga 14-21 í fyrri matsbeiðni sama aðila,
sbr. úrskurð dómsins frá 29. janúar sl. Spurningarnar varða sömu fyrirtæki og
spurningar 16-18 (spurning 3) og 19-20 (spurning 4). Í framangreindum úrskurði
dómsins var matsbeiðanda heimilað að leggja spurningar 14 og 15 fyrir matsmenn
en öðrum spurningum var hafnað. Spurningar 3 og 4 í þessari matsbeiðni miða að
því að sýna fram á, með mati sérfróðra aðila, að fært hefði verið að meta
tilteknar eignir með öðrum ætti en gert var og með því móti breyta niðurstöðu
ársreikninga bankans á nefndum tíma. Stefndi staðhæfir að það hafi verið
heimilt á grundvelli þágildandi laga. Einn höfuðágreiningur aðila málsins lýtur
að því hvort eigið fé og eiginfjárhlutfall hafi verið undir lögbundnum mörkum á
tilteknu tímabili. Spurningarnar hafa því augljós tengsl við sakarefni málsins
og að mati dómsins er ekki útilokað að svör við þeim kunni að hafa þýðingu við
úrlausn málsins. Spurningarnar eru auk þess nægilega afmarkaðar og skýrar, og
að því leyti í samræmi við ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 61. gr. laga nr.
91/1991. Jafnvel þótt spurningarnar varði atriði sem byggja öðrum þræði á
túlkun laga og reglna verður, með hliðsjón af eðli þeirra ekki talið að 2. mgr.
60. gr. komi í veg fyrir að matsbeiðanda sé heimilt að afla mats sérfróðra
aðila á viðfangsefni þeirra. Verður matsbeiðanda því heimilað að leggja þær
fyrir matsmenn.
Hvað
varðar spurningar 5 og 6 verður hins vegar ekki annað séð en þær feli í sér
spurningar um hreina túlkun lagareglna. Spurt er hvort reglur um stórar
áhættuskuldbindingar feli í sér að tengja hefði átt saman, annars vegar
tiltekna einstaklinga í spurningu 5 og hins vegar tiltekin fyrirtæki í
spurningu 6. Um þetta atriði gilda viðeigandi ákvæði laga nr. 161/2002 um
fjármálafyrirtæki og reglur settar á grundvelli þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 60.
gr. laga nr. 91/1991 er hlutverk dómara að leggja mat á atriði sem krefjast
almennrar lagaþekkingar. Er matsbeiðni sem lýtur að þessum spurningum því
hafnað.
Samkvæmt
framangreindu er matsbeiðni PricewaterhouseCoopers
ehf. tekin til greina að því er spurningar 3 og 4 varðar en öðrum spurningum er
hafnað.
Ingibjörg
Þorsteinsdóttir kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist
er á beiðni stefnda, PricewaterhouseCoopers ehf., um
dómkvaðningu matsmanna til að svara spurningum 3 og 4. Matsbeiðni hvað snertir
aðra þætti er hafnað.