Hæstiréttur íslands
Mál nr. 176/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Stefnubirting
|
|
Föstudaginn 6. maí 2005. |
|
Nr. 176/2005. |
Hreiðar Svavarsson(sjálfur) gegn Jóhanni Eggertssyni (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Stefnubirting.
J mætti á dómþing við þingfestingu á kröfu um gjaldþrotaskipti á búi hans og krafðist þess að málið yrði fellt niður, þar sem galli væri á birtingu kvaðningar til þinghaldsins. Talið var að samkvæmt 4. mgr. 83. gr. laga um meðferð einkamála skipti ætlaður galli á birtingu stefnu engu ef stefndi sækti þing við þingfestingu máls. Ákvæðið ætti við um þingfestingu kröfu um gjaldþrotaskipti og birtingu kvaðningar til skuldara vegna hennar, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 21/1991 og haggaði 3. mgr. sömu greinar því ekki. Var því kröfu J hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að mál varnaraðila gegn honum yrði fellt niður. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.., sbr. k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að málið verði fellt niður. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Samkvæmt 4. mgr. 83. gr. laga nr 91/1991 skiptir ætlaður galli á birtingu stefnu engu ef stefndi sækir þing við þingfestingu máls. Ákvæði þetta á við um þingfestingu kröfu um gjaldþrotaskipti og birtingu kvaðningar til skuldara vegna hennar, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 21/1991 og haggar 3. mgr. sömu greinar því ekki. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Það athugist að hinn kærði úrskurður er að formi til ekki í samræmi við ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, þó að annmarkar séu ekki slíkir að varða eigi ómerkingu hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2005.
Skuldari sótti sjálfur þing. Hann er ólöglærður og er honum leiðbeint. Hann mótmælir birtingu og boðun í þetta þinghald sem rangri og ekki í samræmi við lög. Honum hafi borist upplýsingar um fyrirtöku málsins í gærkvöldi og fer fram á að málið verði fellt niður. Lögmaður skiptabeiðanda bendir á að gerðarþoli sé mættur og krefst úrskurðar dómsins.
Málið er tekið til úrskurðar og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður.
Sýnilegt er að birting hefur borið þann árangur sem að var stefnt þar sem gerðarþoli sé mættur og því er hafnað kröfu hans að málið verði fellt niður vegna rangrar boðunar.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu gerðarþola um að málið verði fellt niður vegna rangrar boðunar.