Hæstiréttur íslands
Mál nr. 86/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
- Börn
- Kynferðisbrot
|
|
Föstudaginn 27. febrúar 2004. |
|
Nr. 86/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Vitni. Skýrslugjöf. Börn. Kynferðisbrot.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu tilnefnds réttargæslumanns um að héraðsdómara yrði gert að kveðja sér til aðstoðar við skýrslutöku af brotaþola, sem grunur léki á að hafi orðið fyrir kynferðisbroti, annan kunnáttumann með sérþekkingu og þjálfun í að yfirheyra börn en þann sem dómari hafði þegar kallað til, og að dómþing til skýrslutökunnar yrði háð í Barnahúsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Tilnefndur réttargæslumaður A skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. febrúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2004, þar sem hafnað var kröfu kæranda um að dómþing til að taka skýrslu, sem sóknaraðili hefur krafist að kærandi gefi sem brotaþoli við rannsókn máls, verði háð í Barnahúsi og að dómari kveðji sér til aðstoðar annan kunnáttumann en kallaður hefur verið til. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Réttargæslumaðurinn krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að kveðja sér til aðstoðar við skýrslutöku af brotaþola kunnáttumann með sérþekkingu og þjálfun í að yfirheyra börn, sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðisbroti, og að dómþing til skýrslutökunnar verði háð í Barnahúsi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2004.
Með beiðni lögreglustjórans í Reykjavík 10. febrúar sl., sem barst dóminum 11. sama mánaðar, var óskað eftir því að tekin verði skýrsla af A, fæddum [ ] 1998, vegna rannsóknar á ætluðu broti gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómari tilkynnti lögreglustjóra, verjanda kærða og réttargæslumanni brotaþola um skýrslutökuna með rafpósti 13. febrúar sl. í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 74. gr. a laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999.
Með bréfi Sifjar Konráðsdóttur hrl., réttargæslumanns brotaþola, 15. febrúar sl. var dóminum tilkynnt að vegna hagsmuna drengsins gæti hann ekki komið í Dómhúsið til skýrslutökunnar. Það sé mat tilnefnds réttargæslumanns að ekki standi rök til þess að leggja á svo ungt barn við aðstæður í málinu að fara í Dómhúsið til skýrslutöku, hvort sem slík skýrslutaka færi fram í sérútbúnu herbergi eða ekki og hvort sem dómari annaðist skýrslutökuna sjálfur eða kunnáttumaður sem kallaður væri til aðstoðar. Því sé hins vegar lýst yfir að drengurinn myndi að óbreyttu geta komið til skýrslutöku sem boðuð yrði í Barnahúsi þar sem sérþjálfaður kunnáttumaður yrði kallaður til að annast hana. Mikilvægt sé þó að samráð verði haft við réttargæslumann um tímasetningar en brýnir hagsmunir svo ungs barns séu þeir að skýrslan verði tekin snemma dags. Vísað er til þess að sú framkvæmd að boða drenginn til skýrslutöku í Dómhúsinu brjóti meðal annars í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem framkvæmdin sé með öðrum hætti en við aðra héraðsdómstóla í sambærilegum málum, en langflestar skýrslur, sem þar séu teknar af börnum sem brotaþolum í kynferðisbrotamálum, hafi verið teknar í Barnahúsi.
Með hliðsjón af þessu og vegna forfalla fulltrúa lögreglustjóra á boðuðum tíma og breytinga á öðru þinghaldi dómara tilkynnti dómari 17. febrúar sl. sömu aðilum um breyttan tíma skýrslutökunnar og ákvað að hún færi fram kl. 10.30 sama dag og upphaflega hafði verið boðað til hennar. Áður hafði dómarinn tilkynnt sömu aðilum að tímasetningunni mætti breyta, en að öðru leyti færi skýrslutakan fram eins og áður hafði verið ákveðið, enda hefði ekki verið sýnt fram á að staðsetning skýrslutökunnar bryti í bága við stjórnarskrá eða aðrar reglur sem réttargæslumaður hefði vísað til í bréfinu frá 15. febrúar sl. Lögreglan boðaði drenginn til skýrslutökunnar eins og fram kemur í bókun í þingbók 18. febrúar sl.
Í því þinghaldi tilkynnti réttargæslumaður að drengurinn væri ekki mættur og vísaði í því sambandi til sjónarmiða sem fram komi í bréfi hennar frá 15. febrúar. Fulltrúi lögreglustjóra óskaði þá að dómari boðaði á ný til skýrslutöku en réttargæslumaður krafðist úrskurðar dómara um að skýrslutakan færi fram í Barnahúsi og að kunnáttumaður með sérþekkingu og þjálfun í að yfirheyra börn, sem grunur léki á að hefðu orðið fyrir kynferðisofbeldi, annaðist hana. Réttargæslumaðurinn mótmælti því að rannsóknarlögreglumaður, sem dómarinn hafði kvatt til aðstoðar sem kunnáttumann við skýrslutökuna, væri kunnáttumaður í skilningi 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991.
Dómarinn hefur þegar tekið afstöðu til þess að skýrslutaka í sérútbúnu herbergi í Dómhúsinu brjóti hvorki gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár né öðrum reglum sem réttargæslumaður hefur vísað til, en í því sambandi nægir ekki að vísa til framkvæmdar annarra héraðsdómstóla til að fallist verði á að um mismunun geti verið að ræða, enda eru aðstæður ekki sambærilegar, þar sem þar eru ekki sérútbúin herbergi til skýrslutöku eins og hér er. Engar skýringar hafa komið fram af hálfu réttargæslumanns á því hverjir hagsmunir drengsins eru af því að gefa ekki skýrslu í Dómhúsinu. Hið sérútbúna herbergi er innréttað og útbúið þannig að barninu sem gefur þar skýrslu líði sem best og aðstæður eru þar að öðru leyti eins og mælt er fyrir um í 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára. Dómurinn telur því að það geti ekki á nokkurn hátt verið til óþæginda fyrir barnið að gefa skýrslu í hinu sérútbúna herbergi fremur en fyrir öll önnur börn sem þar hafa gefið skýrslur fyrir dómi. Með vísan til þessa er því hafnað að skýrslutakan fari fram í Barnahúsi.
Samkvæmt fyrirmælum a liðar 1. mgr. 74. gr. a laga um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, ber dómara að láta umbeðna skýrslutöku fara fram. Verður það gert eins og áður hefur verið ákveðið í sérútbúnu herbergi í Dómhúsinu við Lækjartorg þar sem aðrir en sá sem spyr barnið verða ekki viðstaddir skýrslutökuna, en geta fylgst með henni um leið og hún fer fram. Dómarinn ákveður nýjan tíma í samráði við fulltrúa lögreglustjóra, verjanda og réttargæslumann.
Dómarinn hefur ákveðið að kalla Berglindi Eyjólfsdóttur rannsóknarlögreglumann sem kunnáttumann til aðstoðar við skýrslutökuna samkvæmt heimild í 7. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. 18. gr. laga nr. 36/1999. Dómarinn telur hana hafa viðeigandi sérfræðiþjálfun til þess að aðstoða við skýrslutökuna. Dómurinn hafnar því þeirri kröfu að kalla annan kunnáttumann til aðstoðar, svo sem réttargæslumaður krefst.
Rannsóknin sem hér um ræðir varðar meintan alvarlegan glæp gegn ungu barni. Brýnt er að slíkt mál verði ekki fyrir töfum eins og hér hafa orðið. Hæstiréttur hefur þegar staðfest mat héraðsdómara um að húsnæði í Dómhúsi Héraðsdóms Reykjavíkur fullnægi að öllu leyti kröfum 5. gr. reglugerðar nr. 321/1991 og markmiðum rannsóknar með dómum 12. september 2000 í máli nr. 347/2000 og 14. mars 2003 nr. 89/2003. Héraðsdómari á einnig mat um það hvern hann kallar til aðstoðar sem kunnáttumann samkvæmt skýru ákvæði 7. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. og framangreindan Hæstaréttardóm frá 14. mars 2003. Kröfur réttargæslumanns um að dómari breyti ákvörðun um það hvar skýrslutakan fari fram og að annar kunnáttumaður verði kallaður til aðstoðar við skýrslutökuna en sá sem dómari hefur þegar kallað til verður að telja tilefnislausar í ljósi þessa og með tilliti til þess að réttargæslumaðurinn hefur í engu skýrt hverjir hagsmunir drengsins eru af því að skýrslutakan fari ekki fram í Dómhúsinu. Málið hefur því af þessum sökum orðið fyrir óþarfa töfum og komið hefur verið í veg fyrir að meðferð þess verði hraðað eins og brýnt er að gert verði. Dómari telur að hér skorti lagaheimild til að tefja málið með þessum hætti.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu Sifjar Konráðsdóttur hrl., réttargæslumanns brotaþola, um að skýrslutaka fari fram í Barnahúsi og að annar kunnáttumaður verði kallaður til aðstoðar en sá sem dómarinn hefur kallað til.