Hæstiréttur íslands
Mál nr. 645/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum samdægurs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. október 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. október 2017 kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í gærkvöldi, 6. október, vegna gruns um að hafa átt þátt í ársás 3. október sl. að [...] í Reykjavík, en lögreglan rannsaki nú alvarlega líkamsárás sem átt hafi sér stað á heimili, innandyra að [...] í Reykjavík að kvöldi 3. október sl. Þegar lögregla kom á vettvang hafi A, hér eftir brotaþoli, legið í stofu íbúðarinnar með stungusár á kvið. Hann hafi í kjölfarið verið fluttur á slysadeild. Upplýsingar hafi í framhaldi borist lögreglu um að fimm menn hefðu hlaupið frá [...] og ekið á brott á bifreiðinni [...]. Öryggismyndavélar séu í sameign hússins og hafi lögregla skoðað myndefni úr þeim. Á upptökunum sjáist fimm menn koma að [...] á bifreiðinni [...] og fara inn í húsið. Stuttu seinna sjáist sömu menn koma hlaupandi út úr húsinu og aka í burtu. Á upptökunni hafi lögregla þekkt einn mannanna sem meðkærða. Haft hafi verið samband við meðkærða símleiðis og hann gefið sig fram við lögreglu. Síðan hafi meðkærði verið handtekinn við [...] á Bíldshöfða og færður á lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Sækjandi tekur fram að lögregla hafi rætt við vitni sem statt hafi verið á vettvangi þegar árásin átti sér stað. Fram hafi komið hjá vitninu að það hefði verið ásamt hópi fólks á heimili við [...] þegar þangað hefðu ruðst inn fjórir til fimm menn sem hefðu sprautað macei framan í vitnið. Segði vitnið að tveir úr hópi árásarmannanna hefðu verið með kjöthnífa á lofti. Þeir hafi í framhaldi farið að og stungið brotaþola með hnífunum. Vitnið hefði þá sagst ætla að kalla eftir aðstoð lögreglu og þá hafi mennirnir hlaupið út. Framburður annarra vitna sem stödd hafi verið á vettvangi sé til samræmis við framangreint.
Þá er þess getið að brotaþoli málsins hafi í skýrslutöku lýst því að hann hafi verið heima hjá félaga sínum þegar þangað hefðu ruðst inn um fimm menn. Í framhaldi hafi tveir mannanna ráðist að honum vopnaðir hnífum og annar þeirra stungið hann. Brotaþoli hafi getað nafngreint þrjá mannanna sem ráðist hefðu á hann en segðist ekki kannast við hina. Kærði sé meðal þeirra manna sem brotaþoli nefni að hafi ráðist á sig.
Í greinargerð sækjanda kemur einnig fram að kærði X hafi verið yfirheyrður í dag. Hann viðurkenni að hafa komið að [...] þann 3. október sl. og viðurkenni að hafa farið í þeim tilgangi að stinga brotaþola í kviðinn. Að öðru leyti neiti hann að tjá sig um málið eða þátt meðkærðu, sem taldir séu hafa verið þar með honum og um þátt þeirra. Kærði hafi ekki bent á árásarvopnið, en hann kvæðist ekki hafa átt hnífinn og hafa hent honum frá sér. Lögregla hafi ekki fundið meint árásarvopn. Samkvæmt skoðun lækna á brotaþola hafi verið um mjög alvarlega áverka að ræða og þeir taldir lífshættulegir og hafi brotaþoli strax þurft að gangast undir aðgerð í kjölfar hnífstungunnar, sbr. gögn lögreglu.
Sækjandi tekur fram að það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum rannsóknargæslu sé fullnægt í máli þessu, enda kærði undir rökstuddum grun um alvarlega líkamsárás og eftir atvikum manndrápstilraun, sem talin sé varða við 211. gr., sbr. 20. gr. og/eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og geti varðað ævilöngu fangelsi eða 16 ára fangelsi eftir atvikum. Þá sé rannsókn málsins ekki lokið en eftir sé að taka frekari skýrslur af meðkærðu og vitnum og árásarvopnið enn ófundið. Því sé því að mati lögreglu afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun þannig að hann hafi ekki tækifæri til að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á möguleg vitni, koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka og samræma framburð sinn við vitni og meðkærðu eftir atvikum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b- liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Í málinu liggur fyrir að brotaþoli bendir á kærða sem einn þeirra manna sem veist hafi að honum með þeim afleiðingum meðal annars að hann fékk stungusár með hníf á kvið. Þá kom það einnig fram hér fyrir dómi að kærði hefur viðurkennt að hafa komið inn á heimili þar sem brotaþoli var staddur í því skini að ráðast með hnífi að honum. Fyrir liggur játning kærða á því að hann hafi stungið brotaþola með hnífnum. Kærði hefur á hinn bóginn ekki viljað upplýsa um þátt annarra eða hvar hnífinn kunni að vera að finna. Þegar framangreint er virt þykir fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem varðað getur við 211, gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða eftir atvikum 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Varða slík brot fangelsi. Hnífur sá sem beitt var í árásinni hefur ekki fundist og atburðarás er ekki að fullu upplýst, m.a. vegna þess að kærði hefur ekki greint frá þætti annarra í árásinni. Eru þegar af síðastnefndum sökum enn fyrir hendi rannsóknarhagsmunir þannig að unnt sé að fallast á kröfu sóknaraðila, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 laga um meðferð sakamála. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en sóknaraðili krefst. Þá þykja rannsóknarhagsmunir standa til þess að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur, sbr. b. lið 99. gr. laga nr. 88/2008.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 11. október 2017 kl. 16.00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.