Hæstiréttur íslands
Mál nr. 358/2002
Lykilorð
- Víxill
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2003. |
|
Nr. 358/2002. |
Eignarhaldsfélagið Jöfur hf. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) gegn Búnaðarbanka Íslands hf. (Brynjólfur Kjartansson hrl.) |
Víxilmál.
B hf. höfðaði mál á hendur E hf. til greiðslu á víxilskuld. Hafði E hf., sem hét þá J hf., afhent B hf. undirritað víxileyðublað á árinu 1994 vegna greiðslutrygginga bifreiða frá erlendum bifreiðaframleiðanda. E hf. krafðist sýknu meðal annars með vísan til þess að félagið væri ekki skuldari víxilsins heldur J hf., sem hafi keypt hvort tveggja nafn og rekstur fyrirtækisins á árinu 1997. Þá hafi B hf. skort heimild að fylla út víxileyðublaðið auk þess sem réttur B hf. hafi fallið niður fyrir vangeymslu. Í dómi héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hans, var E hf. gert að greiða B hf. stefnufjárhæðina með vísan til þess að E hf. væri skuldari víxilsins samkvæmt víxilrétti og B hf. hefði haft heimild til að fylla út víxileyðublaðið að öðru leyti. Komust varnir E hf., sem lutu að lögskiptum að baki víxlinum, ekki að í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. ágúst 2002. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Eignarhaldsfélagið Jöfur hf., greiði stefnda, Búnaðarbanka Íslands hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2002
Mál þetta, sem dómtekið var 4. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 21. mars 2001 af Búnaðarbanka Íslands hf., Austurstræti 5, Reykjavík, á hendur Eignarhaldsfélaginu Jöfri hf., Nýbýlavegi 2, Kópavogi, en málið var þingfest 29. mars 2001.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda 15.360.293 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 28. apríl 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Krafa stefnanda í málinu er byggð á eiginvíxli, útgefnum 20. ágúst 1999 að fjárhæð 15.360.293 krónur, með gjalddaga 28. apríl 2000, en málið er rekið samkvæmt XVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Óumdeilt er að stefnandi fékk umræddan víxil frá Jöfri hf. í ágúst 1994 til tryggingar á ábyrgð er stefnandi hafði veitt félaginu vegna greiðslutrygginga bifreiða frá Chrysler International Corp. Víxillinn var útgefinn af Jöfri hf. en fjárhæð, útgáfudag og gjalddaga vantaði á hann. Á árinu 1997 var nafnið Jöfur hf. og rekstur fyrirtækisins seldur. Stefndi fékk þá nafnið Eignarhaldsfélagið Jöfur hf. og hafði áfram sömu kennitölu og áður, 681276-0259, en Jöfur hf. fékk nýja kennitölu, 640797-2319.
Varnir stefnda eru byggðar á því að hann sé ekki réttur aðili að málinu. Víxillinn sem um ræði hafi verið settur til tryggingar ábyrgð sem fallið hafi úr gildi á árinu 1995. Stefnandi hafi fyllt víxileyðublaðið út án heimildar og einnig misfarið með það á ýmsan annan hátt. Stefnandi hafi af þessum ástæðum glatað víxilrétti á hendur stefnda svo og fyrir vangeymslu. Framangreindu er mótmælt af hálfu stefnanda svo og að þessar varnir stefnda komist að í málinu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir kröfunni þannig að hún sé byggð á eiginvíxli að fjárhæð 15.360.293 krónur, útgefnum 20. ágúst 1999 af stefnda, með gjalddaga 28. apríl 2000, en greiðslustaður víxilsins hafi verið hjá stefnda. Víxillinn hafi verið afhentur stefnanda til tryggingar erlendri ábyrgð sem stefnandi hafi veitt stefnda og hafi ábyrgðinni verið framlengt margsinnis. Víxilformið hafi verið óútfyllt hvað varðar útgáfudag, fjárhæð og gjalddaga og hafi stefnanda því verið heimilt að fylla víxilformið út fyrir hönd stefnda eins og gert hafi verið. Þegar víxill sé afhentur án þess að hann sé að öllu leyti útfylltur felist í því umboð til víxilhafa til að fylla í eyðurnar. Með afhendingu víxilsins án útgáfudags, gjalddaga og fjárhæðar hafi stefnanda því verið veitt umboð til að fylla víxilinn út. Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og hafi stefnandi því höfðað málið til greiðslu hennar. Stefnandi reki málið sem víxilmál samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi lagt fram víxil, óaðfinnanlegan að formi, og geri kröfur á grundvelli hans. Stefnandi sé löglegur handhafi að víxlinum og sé kröfum stefnanda réttilega beint að stefnda, þ.e. Eignarhaldsfélaginu Jöfri hf., með kennitöluna 681276-0259, en stefndi hafi áður borið nafnið Jöfur hf. Engu breyti um víxilskuldbindingu stefnda þó hann hafi breytt um nafn árið 1997.
Mótmælt er að stefnandi hafi gerst sekur um fölsun, enda hafi hann ekki á nokkurn hátt breytt efni eða texta lögformlegs víxils, heldur hafi hann eingöngu nýtt umboð sem hann hafi haft til að fylla víxilformið út. Stefnandi hafi hvorki farið út fyrir umboð sitt né fyllt víxilinn út andstætt heimild eins og stefndi haldi fram. Jafnframt mótmælir stefnandi að þessar málsástæður stefnda komist að í málinu en þær varði lögskiptin sem liggi að baki víxlinum. Þær komist því ekki að sem vörn í víxilmáli, sbr. 118. gr. laga um meðferð einkamála. Ekkert sé athugavert við meðferð víxilsins af hálfu stefnanda, handhöfn hans eða aðrar aðferðir stefnanda við að halda víxilkröfunni í gildi. Varnir stefnda geti því ekki leitt til sýknu. Því er og mótmælt að stefnandi hafi glatað víxilrétti á hendur stefnda fyrir vangeymslu. Útgefandi eigin víxils sé skuldbundinn með sama hætti og samþykkjandi víxils á hendur öðrum manni samkvæmt 78. gr. víxillaga og því geti stefnandi ekki glatað víxilrétti á hendur stefnda fyrir vangeymslu. Jafnframt bendi ekkert til þess að víxillinn hafi ekki verið sýndur til greiðslu á réttum stað og á réttum tíma, en stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því samkvæmt 2. mgr. 46. gr. víxillaga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Sýknukrafa stefnda er byggð á aðildar- og umboðsskorti. Hann styður kröfuna þeim rökum að víxileyðublaðið hafi verið afhent stefnanda hinn 26. ágúst 1994 til tryggingar ábyrgð hjá stefnanda, dagsettri sama dag, með eins árs gildistíma. Útgáfudagur hafi ekki verið færður inn á víxileyðublaðið af stefnanda fyrr en 20. ágúst 1999, með gjalddaga hinn 28. apríl 2000. Stefnandi hafi því farið út fyrir umboð sitt með því að fylla víxilinn út á annan veg en um hafi verið samið og er í því sambandi vísað til 10. gr. víxillaga.
Í gögnum málsins komi fram að víxileyðublaðið hafi verið sett til tryggingar ábyrgð, dagsettri 26. ágúst 1994, til Chrysler International Corp. vegna greiðslutryggingar bifreiða. Hér sé því um að ræða tryggingarvíxill er hafi verið bundinn við þessa ábyrgð og enga aðra og hafi ekki gilt lengur en til 26. ágúst 1995. Hinn 24. ágúst 1998 hafi stefnandi gefið út nýja ábyrgð fyrir nýja lögpersónu, þ.e. Jöfur hf., kt. 640797-2319, en fjármálastjóri og prókúruhafi þess félags hafi undirritað f.h. ábyrgðartaka og um leið hafi ábyrgðarandlagið verið rýmkað. Hinn 20. ágúst 1999 hafi enn verið gerð breyting á ábyrgð sem gilt hafi til 26. ágúst 2000. Þá hafi enn frekar verið staðfest að stefnandi hafi aftur gefið út nýja ábyrgð fyrir sömu lögpersónu, með kennitöluna 640797-2319 og gagnvart City Bank NA-Chrysler Corp. Jafnframt hafi ábyrgðarandlagið fyrir þá lögpersónu verið nánar skilgreint sem ábyrgð vegna innflutnings á bifreiðum og varahlutum frá Chrysler Corporation. Undir þessa breytingu á ábyrgð hafi þáverandi fjármálastjóri og prókúruhafi þess félags ritað. Starfsmönnum er hafi annast um ábyrgðir fyrir hönd stefnanda hafi verið fullkunnugt um að hvorugur framangreindra fjármálastjóra hafi haft prókúruumboð fyrir stefnda. Þegar stefnandi hafði gefið út nýjar ábyrgðir fyrir nýja lögpersónu hafi honum borið að afhenda stefnda tryggingarvíxileyðublaðið og fá nýja tryggingu frá þeirri lögpersónu sem stefnandi hafi þá haft ábyrgðirnar fyrir. Stefnanda hafi verið þetta fullljóst þar sem kennitala fyrirtækisins komi fram á skjali sem hafi alfarið verið gert af stefnanda og samþykkt og áritað af starfsmönnum hans.
Hinn 4. apríl 2000 hafi stefnandi gert Jöfri hf., án kennitölu, ætlaðan reikning að fjárhæð 519.757 krónur, vegna erlends kostnaðar og þóknunar fyrir tímabilið frá 1. maí til 14. september 2000. Sú reikningsgerð sé með ólíkindum, með tilliti til þess gjalddaga sem stefnandi hafi sett á víxilinn. Hinn 28. apríl sama ár hafi stefnandi gert stefnda, án kennitölu, ætlaðan reikning að fjárhæð 14.840.536 krónur, þar sem engin lögskipti stefnda séu að baki, vegna greiðslna fyrir varahluti frá Chrysler International Corp., og greitt erlendis fyrir lögpersónuna Jöfur hf., kt. 640797-2319, en ekki fyrir stefnda eða vegna hans. Þeir tveir reikningar, sem stefnandi hafi útbúið séu samtals að fjárhæð 15.360.293 krónur, sem sé stefnufjárhæð máls þessa og hafi stefnandi í heimildarleysi útfyllt víxileyðublaðið sem hér um ræði og honum hafi verið treyst fyrir. Stefnandi hafi hvorki greitt eitt né neitt fyrir stefnda eða vegna hans. Reikningunum fylgi engin skjöl sem sanni það sem á bak við búi eða hvort það hafi yfirhöfuð verið greitt, en sé það greitt sé það ekki vegna stefnda.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að misnotkun stefnanda á víxilblaðinu sé augljós. Falli dómur á þann veg að stefnda verði gert að greiða stefnanda hina umstefndu fjárhæð, áskilji stefndi sér rétt til að krefjast greiðslu skaðabóta úr hendi stefnanda vegna fölsunar eða misneytingar með því að nýta viðskiptabréfið í þágu þriðja aðila.
Þá er því haldið fram að samkvæmt framanrituðu hafi stefnandi glatað víxilrétti á hendur stefnda fyrir vangeymslu og fyrir að hafa farið út fyrir umboð sitt, sbr. 10. gr. víxillaga. Víxillinn hafi ekki verið stimplaður fyrr en 21. september 2000, eða sama dag og lögmaður stefnanda hafi ritað bréf sitt til stefnda. Stimpilvélin, PB-110, sé í vörslu Búnaðarbanka Íslands hf., Austurstræti 5 í Reykjavík. Ekki hafi borist innheimtubréf frá lögmönnum stefnanda til stefnda heldur hafi honum verið stefnt án annarra innheimtutilrauna. Það hafi fyrst verið með bréfi dagsettu 21. september 2000 sem stefnda hafi verið gefið til kynna að settur hafi verið á víxilinn gjalddagi 28. apríl 2000. Því sé upphafstíma dráttarvaxta sérstaklega mótmælt.
Niðurstaða
Óumdeilt er að stefnandi fékk umræddan víxil úr höndum stefnda hinn 26. ágúst 1994 til tryggingar erlendri ábyrgð sem stefndi hafði óskað eftir að stefnandi veitti. Í gögnum málsins er ábyrgðin merkt nr. 301-7601 og var gildistími hennar til 26. ágúst 1995. Þá hefur verið lagt fram í málinu ljósrit af beiðni, dagsett 24. ágúst 1998, um breytingu á ábyrgð með sama númeri. Þar er tilgreint að fjárhæð ábyrgðar lækki úr 800.000$ í 400.000$ og að hún framlengist til 26. ágúst 1999. Loks hefur verið lagt fram ljósrit af beiðni um breytingu á sömu ábyrgð, dagsett 20. ágúst 1999, er framlengist til 26. ágúst 2000. Engin gögn hafa verið lögð fram um breytingar á rekstri stefnda og nýjan lögaðila á árinu 1997, en vísað er til þess í bréfi stefnda til stefnanda, dagsettu 20. október 2000, að stefndi hafi rekið bifreiðaumboð fram á mitt ár 1997, en stefndi hafi selt reksturinn og nafn nýju hlutafélagi, Jöfri hf., kt. 640797-2319, og hafi nýja félagið tekið við rekstrinum 1. ágúst 1997. Á víxlinum eru engar upplýsingar um útgefanda hans aðrar en nafn, heimilisfang og kennitala. Fyrir liggur að nafnið hafði stefndi á þeim tíma er víxillinn var afhentur stefnanda en heimilisfang og kennitala er hin sama og stefndi hefur nú. Að þessu virtu verður að telja að stefndi sé skuldari víxilsins samkvæmt víxilrétti og hefur stefnandi því réttilega beint kröfum í málinu að stefnda sem stefnandi rekur sem víxilmál. Einnig verður að telja að stefndi hafi veitt stefnanda heimild til að setja útgáfudag, gjalddaga og fjárhæð á víxilinn með því að afhenda stefnanda hann óútfylltan að þessu leyti. Með vísan til alls þessa verður hvorki fallist á að stefndi sé ekki réttur aðili að málinu né að stefnandi hafi misfarið með víxilinn á þann hátt sem tilgreint er í 10. gr. víxillaga nr. 93/1933. Engin önnur rök, sem hér geta átt við, hafa komið fram fyrir því að réttur stefnanda samkvæmt víxilrétti hafi fallið niður fyrir vangeymslu.
Varnir stefnda varða að öðru leyti ágreining um lögskiptin að baki víxlinum. Samkvæmt 118. gr. laga um meðferð einkamála eru þær ekki meðal þeirra varna sem stefnda er heimilt að hafa uppi í víxilmáli án samþykkis stefnanda, en stefndi getur fengið úrlausn um þau í endurkröfumáli samkvæmt 2. mgr. 119. gr. laganna.
Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt af hálfu stefnda. Engin gögn hafa verið lögð fram um að stefnda hafi verið tilkynnt um gjalddaga víxilsins eða að víxillinn hafi verið sýndur til greiðslu, sbr. 2. mgr. 76. gr. víxillaga. Þykir því rétt að dráttarvextir verði reiknaðir frá þingfestingu málsins, hinn 29. mars 2001, sbr. Hrd. 1984 bls. 783, en að öðru leyti eins og krafist er. Ber með vísan til framaritaðs að taka kröfur stefnanda þannig til greina.
Rétt þykir að stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Eignarhaldsfélagið Jöfur hf., greiði stefnanda, Búnaðarbanka Íslands hf. 15.360.293 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. mars 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.