Hæstiréttur íslands

Mál nr. 752/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður


                               

Mánudaginn 30. nóvember 2015.

Nr. 752/2015.

Bragi Jónsson

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Kærumál. Niðurfelling máls. Málskostnaður.

Mál B gegn L hf. var fellt niður fyrir Hæstarétti að ósk B. Að kröfu L hf. var B dæmdur til greiðslu kærumálskostnaðar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2015 sem barst réttinum 4. nóvember sama ár, en kærumálsgögn bárust 12. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2015 þar sem viðurkenndar voru nánar tilteknar kröfur varnaraðila við gjaldþrotaskipti þrotabús Heiðrúnar ehf. með stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með tölvubréfi  18. nóvember 2015 lýsti sóknaraðili því yfir að hann afturkallaði kæru sína og gerði því ekki lengur kröfur í málinu hér fyrir dómi.

Varnaraðili krefst kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. og 166. gr. laganna með áorðnum breytingum, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði en hann hafði skilað greinargerð af sinni hálfu til Hæstaréttar þegar málið var fellt niður af sóknaraðila.

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Sóknaraðili, Bragi Jónsson, greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2015.

I

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 9. september sl., barst Héraðsdómi Reykjavíkur 13. maí 2014 með bréfi skiptastjóra þrotabús Heiðrúnar ehf., Hlíðarsmára 6, Kópavogi.

Sóknaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík en varnaraðili er Bragi Jónsson, Logafold 80, Reykjavík.

Af hálfu sóknaraðila eru gerðar eftirfarandi kröfur:

  1. Að krafa sóknaraðila samkvæmt lánssamningi nr. 0130-36-1235 í þrotabú Heiðrúnar ehf., samtals að fjárhæð 26.456.854 krónur, verði samþykkt sem veðkrafa við slitameðferð félagsins samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
  2. Að krafa sóknaraðila samkvæmt lánssamningi nr. 0130-36-7864 í þrotabú Heiðrúnar ehf., samtals að fjárhæð 38.966.180 krónur, verði samþykkt sem veðkrafa við slitameðferð félagsins samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991.
  3. Að krafa sóknaraðila samkvæmt lánssamningi nr. 0130-36-7497 í þrotabú Heiðrúnar ehf., samtals að fjárhæð 49.454.295 krónur, verði samþykkt sem veðkrafa við slitameðferð félagsins samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991.

Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði ofangreindum kröfum sóknaraðila í þrotabú Heiðrúnar ehf. samkvæmt þremur lánssamningum og þær lækkaðar verulega og verði eigi hærri en 91.123.059 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar.

II

Málavextir

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, upp kveðnum 11. janúar 2012 var bú Heiðrúnar ehf. (áður Markið-Heiðrún ehf.) tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili lýsti kröfum skv. þremur lánasamningum sem fyrirtækið hafði gert við Landsbanka Íslands hf. Upphaflegur skuldari skv. lánasamningunum var Heiðrún sf. en 26. júní 2007 voru gerðar skuldskeytingar á lánunum og tók Markið-Heiðrún ehf. við skyldum skuldara samkvæmt þeim. Til tryggingar öllum skuldum Marksins-Heiðrúnar ehf. hjá bankanum hafði félagið, með tryggingabréfi, sett að veði fasteignina að Ármúla 40 í Reykjavík, fnr. 201-5524, 201-5525, 201-5526 og 210-5527, sem og vörulager og viðskiptakröfur félagsins, og er óumdeilt að lánasamningarnir falla undir þessi veð.

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf. sem nú ber heiti sóknaraðila. Tók sóknaraðili við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans, þar á meðal kröfum samkvæmt hinum umþrættu lánssamningum.

Í fyrsta lagi er um að ræða lánasamning nr. 1235 frá 31. mars 2004 um fjölmyntalán til 15 ára að jafnvirði 30.000.000 króna, í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 33,33%, CHF 33,33% og USD 33,33%. Lánið átti að greiða með 180 jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti, með LIBOR-vöxtum, auk 2,75% vaxtaálags. Í öðru lagi er um að ræða lánssamning nr. 7864 frá 7. maí 2007 um fjölmyntalán til fimm ára að jafnvirði 34.000.000 króna, í eftirtöldum myntum og hlutföllum: CHF 50% og JPY 50%. Lánið átti að greiða með 60 jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti, með LIBOR-vöxtum, auk 1,95% vaxtaálags. Í þriðja lagi er um að ræða lánasamning nr. 7497 frá 28. mars 2007 um fjölmyntalán til fimm ára að jafnvirði 56.200.000 krónur, í eftirtöldum myntum og hlutföllum: CHF 50% og JPY 50%. Lánið átti að greiða með 60 jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti, með LIBOR-vöxtum, auk 1,55% vaxtaálags.

Gerðar voru skilmálabreytingar á lánasamningunum 1. desember 2008, 23. júní  og 19. nóvember 2009. Í skilmálabreytingunum var kveðið á um frestun afborgana en greiða átt vexti. Með síðustu skilmálabreytingunni var þannig afborgunum frestað til fyrirfram ákveðinna gjalddaga í janúar 2010. Lánstíminn var lengdur um þann tíma sem frestun afborgana varði. Vexti bar að greiða á eins mánaðar fresti, næst á fyrirfram ákveðnum gjalddögum í desember 2009.

Sóknaraðili endurútreiknaði lán nr. 7497 hinn 24. október 2011 og lán nr. 7864 og 1235 hinn 3. nóvember sama ár. Í bréfum bankans til Marksins-Heiðrúnar ehf. kemur fram að Alþingi hafi samþykkt í desember 2010 breytingar á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem kveða á um endurútreikning lána með „ólögmætri gengistryggingu“. Það sé mat Landsbankans hf. að umrædd lán hafi falið í sér slíka gengistryggingu og í samræmi við það hafi eftirstöðvar þeirra verið endurútreiknaðar miðað við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. sömu laga.

Eins og áður greinir lýsti sóknaraðili kröfum, samkvæmt framangreindum lánssamningum í þrotabú Heiðrúnar ehf. Krafðist hann þess að þeim yrði skipað í skuldaröð sem veðkröfum sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili, sem var eigandi hins gjaldþrota félags og hefur fengið samþykkta almenna kröfu í búið, samtals að fjárhæð 86.883.226 krónur, vegna fjármuna sem hann lagði félaginu til og ábyrgða sem hann gekkst í fyrir það, gerði athugasemdir við kröfulýsingu sóknaraðila. Lutu þær m.a. að því hvernig staðið skyldi að leiðréttingu á fyrri endurútreikningi lánanna miðað við efni fullnaðarkvittana fyrir greiddum vöxtum. Sóknaraðili leiðrétti fyrri endurútreikning á hinum umdeildu lánum, að eigin sögn með hliðsjón af dómum Hæstaréttar sem féllu á árinu 2012 um gildi fullnaðarkvittana, og sendi leiðrétta kröfulýsingu til skiptastjóra 13. nóvember 2012. Við þá útreikninga var miðað við að Markið-Heiðrún ehf. hefði fullnaðarkvittanir til 2. desember 2009 vegna lánasamnings nr. 1235, 5. desember 2009 vegna lánasamnings nr. 7497 og 1. desember vegna lánasamnings nr. 7864. Þá voru gerðar kröfur um dráttarvexti frá 12. janúar 2012 til þess dags að send var leiðrétt kröfulýsing. Kröfugerð sóknaraðila fyrir dóminum tekur mið af þessum útreikningum. Varnaraðili taldi leiðréttinguna ófullnægjandi og féll ekki frá mótmælum sínum. Þar sem ekki tókst að jafna ágreininginn beindi skiptastjóri honum til dómsins með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991. Ákveðið var að þrotabúið yrði ekki aðili að því máli heldur yrði það rekið milli sóknaraðila og varnaraðila.

III

Málsástæður sóknaraðila

                Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að endurútreikningur hans á hinum umdeildum lánasamningum sé í samræmi við lög nr. 38/2001 og dómafordæmi Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Ef fallist yrði á kröfur varnaraðila myndi hann fullnægja greiðsluskyldu sinni samkvæmt samningunum með greiðslu höfuðstóls lánanna í íslenskum krónum með LIBOR-vöxtum. Slík niðurstaða sé ekki í samræmi við framangreind dómafordæmi Hæstaréttar né dóm réttarins í máli nr. 471/2010.

Hvað varðar útreikning á láni nr. 1235 þá telur sóknaraðili að skuldari, þ.e. Markið-Heiðrún ehf., hafi fullnaðarkvittanir til og með gjalddaganum 2. desember 2009 og við leiðréttan endurútreikning sóknaraðila sé miðað við það. Eftir þann dag reikni sóknaraðili lánið á grundvelli 3. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt skilmálabreytingu á láninu, dags. 19. nóvember 2009, hafi aðilar samið þannig að greiðslu afborgana væri frestað til 2. janúar 2010 en vexti hafi borið að greiða á eins mánaðar fresti. Skuldari hafi greitt vaxtagjalddagann 2. desember 2009 í samræmi við umsamda greiðsluskilmála lánsins en hann hafi ekki greitt afborganir eða vexti á gjalddaganum 2. janúar 2010 og hafi lánið því farið í vanskil. Næst hafi verið greitt af láninu þann 1. september 2010 en þá hafi gjalddagar frá 2. janúar til 2. ágúst 2010 verið í vanskilum. Greiðslunni þann 1. september 2010 hafi verið ráðstafað sem innborgun á gjalddagann 2. janúar 2010 en ekki hafi verið um fullnaðargreiðslu hans að ræða. Skuldari hafi greitt upp gjalddagann 2. janúar 2010 með greiðslum þann 1. október og 8. nóvember 2010 og hafi næstu greiðslur að engu leyti verið í samræmi við umsamdar greiðslur af láninu. Að mati sóknaraðila hafi engin festa verið á greiðslum á láninu eftir greiðsluna 2. desember 2009. Skuldara hafi því mátt vera ljóst að þær greiðslur sem hann hafi innti af hendi eftir þann dag hafi ekki verið fullnaðargreiðslur og því ekki getað skapað honum réttmætar væntingar um að honum yrði ekki gert að standa síðar skil á greiðslum fyrir liðna tíð. Hann hafi því ekki verið í góðri trú um að greiðslur hans af láninu eftir þann dag væru fullnaðargreiðslur þegar hann innti þær af hendi, enda hafi þá mikil óregla verið á endurgreiðslum lánsins. Sóknaraðili mótmælir því að í gildi hafi verið samningur við Markið-Heiðrúnu ehf. um að fresta greiðslum af lánasamningum, enda hafi engar fleiri skilmálabreytingar verið gerðar á samningnum. Þá mótmælir hann því jafnframt að gerður hafi verið samningur um Markið-Heiðrúnu ehf. um svokallaða Beinu braut. Varnaraðili telur að samkvæmt framangreindu fari því fjarri að nokkur sú festa hafi myndast við framkvæmd lánssamninganna að líkja megi atvikum við þau sem hafi verið til úrlausnar í dómum Hæstaréttar nr. 600/2011 og 464/2012.

Hvað varðar útreikning á láni nr. 7497 þá vísar sóknaraðili til þess að skuldari lánsins hafi fullnaðarkvittanir til og með gjalddaganum 5. desember 2009 og við leiðréttan endurútreikning sóknaraðila sé miðað við það. Eftir þann dag reikni sóknaraðili lánið á grundvelli 3. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt skilmálabreytingu á láninu, dags. 19. nóvember 2009, hafi verið samið þannig að greiðslu afborgana hafi verið frestað til 5. janúar 2010 en vexti bar að greiða á eins mánaðar fresti. Skuldari hafi greitt vaxtagjalddagana 5. nóvember og 5. desember 2009 í samræmi við umsamda greiðsluskilmála lánsins en hann hafi ekki greitt afborganir eða vexti á gjalddaganum 5. janúar 2010 og lánið því farið í vanskil. Næst hafi verið greitt af láninu þann 1. september 2010 en þá hafi gjalddagar frá 5. janúar til 5. ágúst 2010 verið í vanskilum. Greiðslunni þann 1. september 2010 hafi verið ráðstafað sem innborgun á gjalddagann 5. janúar 2010 en ekki hafi verið um fullnaðargreiðslu hans að ræða. Skuldari hafi greitt upp gjalddagann 5. janúar 2010 með greiðslu þann 1. október 2010 og hafi næstu greiðslur að engu leyti verið í samræmi við umsamdar greiðslur af láninu. Að mati sóknaraðila hafi engin festa verið á greiðslum á láninu eftir greiðsluna þann 5. desember 2009 og vísar hann í því samhengi til sömu sjónarmiða og rakin eru að framan varðandi lánasamning nr. 1235.

Hvað varðar útreikning á láni nr. 7864 þá vísar sóknaraðili til þess að skuldari lánsins hafi fullnaðarkvittanir til og með gjalddaganum 1. desember 2009 og við leiðréttan endurútreikning sóknaraðila sé miðað við það. Eftir þann dag reikni sóknaraðili lánið á grundvelli 3. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001. Samkvæmt skilmálabreytingu á láninu, dags. 19. nóvember 2009, hafi verið samið þannig að greiðslu afborgana var frestað til 1. janúar 2010 en vexti hafi borið að greiða á eins mánaðar fresti. Skuldari hafi greitt vaxtagjalddagann 1. desember 2009 í samræmi við umsamda greiðsluskilmála lánsins en hann hafi ekki greitt afborganir eða vexti á gjalddaganum 1. janúar 2010 og farið í vanskil með greiðslur af láninu. Næst hafi verið greitt af láninu þann 1. september 2010 en þá hafi gjalddagarnir frá og með 1. janúar 2010 til og með 1. ágúst 2010 verið í vanskilum. Greiðslunni þann 1. september 2010 hafi verið ráðstafað sem innborgun á gjalddagann 4. janúar 2010 en ekki hafi verið um fullnaðargreiðslu hans að ræða. Skuldari hafi greitt upp gjalddagann 4. janúar 2010 með greiðslu þann 1. október 2010. Að mati sóknaraðila hafi engin festa verið á greiðslum skuldara á láninu eftir greiðsluna þann 1. desember 2009 og vísar hann að öðru leyti til sömu sjónarmiða og rakin eru að framan um lánasamning nr. 1235.

Sóknaraðili vísar til þess að við leiðréttan endurútreikning lána nr. 1235 og 7864 reikni hann dráttarvexti á fjárhæð lánanna frá kröfulýsingardegi (svo) 11. janúar 2011 (svo) til 31. október 2013, sem sé dagsetning leiðréttrar kröfulýsingar. Um heimild til að reikna dráttarvexti á veðkröfur vísar sóknaraðili til ákvæða 111. og 114. gr. laga nr. 21/1991, en krafa um dráttarvexti njóti forgangs til andvirðis hinnar veðsettu fasteignar við Ármúla 40 í Reykjavík. Einnig vísar sóknaraðili til b-liðar 5. gr., laga nr. 75/1997, um samningsveð. Þá reikni hann dráttarvexti á kröfu sína samkvæmt láni nr. 7497 frá kröfulýsingardegi til 17. desember 2012 er greiðsla hafi komið inn á kröfuna að fjárhæð 14.984.745 kr. vegna sölu á rekstri og lausafé Marksins-Heiðrúnar ehf. til Vetrar ehf. Frá þeim degi sé nýr höfuðstóll lánsins dráttarvaxtareiknaður til 31. október 2013, sem sé dagsetning leiðréttrar kröfulýsingar.

Málsástæður varnaraðila

                Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að við yfirtöku sóknaraðila á Landsbanka Íslands hf. hafi verið vitað innan bankans að sambærileg lán og lán Marksins-Heiðrúnar ehf. gætu verið ólögleg. Bankinn hafi haldið því fram að lánsskjöl hans væru lögleg og reiknað lán fyrirtækisins samkvæmt því fram í október/nóvember árið 2011 þrátt fyrir að staðfest hafi verið í fjölda dómsmála að sambærileg lán væru með ólögmætri gengisviðmiðun. Þessi framganga sóknaraðila hafi valdið félaginu miklu tjóni.

Varnaraðili vísar til þess að hann hafi lagt fram útreikning á framangreindum lánum miðað við 31. desember 2011 þegar sóknaraðili hafi krafist þess að stjórnendur félagsins gæfu það upp til gjaldþrotaskipta. Þar sem ekki sé lengur ágreiningur um að lánin séu í íslenskum krónum hafi varnaraðili endurreiknað lánin á þeim forsendum að vextir sé þeir sömu og fram komi á fyrirliggjandi kvittunum. Byggt sé á því að hinir umdeildu lánasamningar hafi verið í skilum í lok árs 2011. Skilmálabreytingar á lánunum og staðfestingar sóknaraðila á frestun afborgana liggi fyrir og yfirdráttur á hlaupareikningi fyrirtækisins hafi verið lækkaður. Því séu lánin greidd samkvæmt samningi aðila. Um hafi verið að ræða einhliða ákvarðanir sóknaraðila, væntanlega vegna óvissu um útreikning lána og hugsanlega oftöku á greiðslum af þessum lánum. Útreikningar varnaraðila séu ekki alveg hárnákvæmir þar sem ekki hafi verið flett upp á hverjum einasta gjalddaga. Útreikningi sé hagað þannig að samningsvextir séu reiknaðir á hverjum gjalddaga, ofgreiðsla sé færð til lækkunar á höfuðstól og þannig fundinn nýr höfuðstóll. Þannig sé reiknað áfram með sama hætti allan lánstímann. Niðurstaða varnaraðila sé skýr og ofgreiðsla ásamt skilmálabreytingum hverju sinni leiði til þeirrar niðurstöðu að vanskil verða ekki. Þar sem lánin hafi verið í skilum séu reiknaðir samningsvextir. Skekkjumörk séu hugsanlega +/- 1%. Samkvæmt þessum útreikningi hafi staða lánanna í árslok 2011 verið samtals um 91.123.059 krónur -/+ 1%.

Varnaraðili vísar til þess að frá því að sóknaraðili hafi tekið yfir rekstur Landsbanka Íslands hf. í október 2008 hafi yfirdráttur Marksins-Heiðrúnar ehf. verið lækkaður um 9.750.000 krónur. Það hafi verið einhliða ákvörðun sóknaraðila að fresta greiðslum af hinum umþrættu lánum á sama tíma. Varnaraðili hafi alltaf verið látinn vita af lækkunum yfirdráttarins en með misskömmum fyrirvara. Sóknaraðili hafi ævinlega millifært af yfirdráttarreikningnum til greiðslu á lánunum þremur og sent greiðanda kvittanir jafn harðan.

Varnaraðili bendir á að hann hafi verið í viðskiptum við sóknaraðila og forvera hans vegna reksturs fyrirtækis síns um áratugaskeið og hafi gott traust myndast. Fljótlega eftir að sóknaraðili hafi tekið við rekstri bankans hafi þáverandi fyrirtækjafulltrúi haft samband við varnaraðila og staðfest að fyrirgreiðsla fyrirtækisins yrði óbreytt. Þetta hafi breyst á þann hátt að beðið hafi verið um meira eigið fé inn í fyrirtækið en loforð bankans um heildarsamninga um mál fyrirtækisins hafi dregist á langinn. Auk þessa hafi verið farið fram á meiri tryggingar. Á þessum tíma hafi eigandi þess treyst því að sóknaraðili stæði heils hugar á bak við fyrirtækið í að koma rekstri í eðlilegt horf og flest benti til þess að „erlend lán“ fyrirtækisins væru ólögleg. Í trausti þess hafi varnaraðili lagt meira fé inn í fyrirtækið og fengið lán frá aðstandendum til að setja inn í fyrirtækið. Varnaraðili hafi verið í góðri trú um að sóknaraðili stæði með félaginu í að endurreisa fyrirtækið en ný lög og dómsmál hafi staðfest að hin umþrættu lán væru miklu lægri en bankinn hefði haldið fram í byrjun. Varnaraðili hafið verið í góðri trú um að fyrirtækið væri í flokki með félögum sem féllu undir úrræði vegna greiðsluvanda fyrirtækja, þ.e. Beinu brautina svokölluðu, en það hafi verið trygging þess að úrræði sem gripið var til myndu tryggja félaginu áframhaldandi líf og rekstur. Síðar hafi komið í ljós að með því að skuldfæra félagið um 1.250.000 krónur á mánuði, sem sé hærri upphæð en samkomulagið hafið falið í sér, hafi sóknaraðili ekki ætlað sér að standa við samkomulag um Beinu brautina en varnaraðili telur að það hafi verið gert í byrjun júní 2011. Þrátt fyrir þessa ákvörðun bankans, að nota rekstrarreikning félagsins til að lækka yfirdráttinn, umfram það sem til stóð, hafi varnaraðili staðið í þeirri trú að lánin væru ekki í vanskilum á meðan. Hér væri um að ræða millifærsluatriði innan bankans og annað ekki. Bankinn hafi ekki verið búinn að endurreikna lánin og því verið biðstaða um tíma sem bankinn hafi skapað. Haldið var áfram að skuldfæra reikning fyrirtækisins án tillits til þess hver raunveruleg staða lána væri eða greiðslustaða fyrirtækisins. Þetta hafi endað með því að fyrirtækið hafi verið sett í greiðsluþrot í desember þegar ekki hafi verið til fyrir virðisaukaskatti og öðrum nauðsynlegum greiðslum. Varnaraðili telur að sóknaraðili geti ekki krafist viðbótarvaxta fyrir liðna tíð og vísar í því samhengi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 430/2013.

Af hálfu varnaraðila eru gerðar athugsemdir við dráttarvaxtakröfu sóknaraðila. Vextir af kröfum frá frestdegi verði að teljast almennar kröfur. Einnig er vísað til verulegs dráttar sóknaraðila við að endurreikna kröfur sínar og mótmælt er dráttarvaxtakröfum hans á sama tíma og hann valdi sjálfur tafir í rekstri málsins.                                              

IV

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um hverjar séu eftirstöðvar skulda vegna þriggja lánasamninga Heiðrúnar ehf. (áður Markið-Heiðrún ehf.) við sóknaraðila er bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 11. janúar 2012. Umræddum samningum, sem gerðir voru á árunum 2004 og 2007 og voru að höfuðstól samtals að fjárhæð 120.200.000 krónur, er lýst í málavaxtakafla. Óumdeilt er að samningarnir fólu í sér skuldbindingu í íslenskum krónum sem á ólögmætan hátt var bundin við gengi erlendra gjaldmiðla. Sóknaraðili hefur endurútreiknað lánin miðað við að þau beri lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Er það í samræmi við dóm Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 þar sem talið var að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæðis samnings um gengistryggingu skuldar sem talin var ólögmæt og fyrirmæla þar um vexti, en af þeim sökum væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði fram hjá ákvæðinu um vexti og miða þess í stað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Þegar af þessar ástæðu er ekki unnt að líta til útreikninga varnaraðila en þeir byggja á því að þrátt fyrir að gengisviðmiðun í lánssamningnum teljist ólögmæt skuli vextir af ógengistryggðum höfuðstól lánsins reiknaðir eins og um var samið.

Í útreikningum sóknaraðila er við það miðað að Markið-Heiðrún ehf. hafi verið með fullnaðarkvittanir vegna vaxtagreiðslna til 2. desember 2009 vegna lánasamnings nr. 1235, 5. desember 2009 vegna lánasamnings nr. 7497 og 1. desember 2009 vegna lánasamnings nr. 7864. Hann krefst þannig ekki greiðslu vangreiddra vaxta, þ.e. vegna mismunar á umsömdum vöxtum sem félagið hafði greitt af láni í íslenskum krónum með ólögmætu ákvæði um gengistryggingu og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður, til framangreindra dagsetninga. Því kemur til skoðunar hvort sóknaraðili geti krafist greiðslu vaxta skv. nefndu ákvæði eftir framangreindar dagsetningar en endurútreikningurinn felur í reynd í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð að hluta til.

  Eins og fram hefur komið í dómaframkvæmd Hæstaréttar á undanförnum misserum, t.d. dómum í málum nr. 600/2011, 464/2012 og 661/2013, er það meginregla kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni eru þó undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu, en tilkalli hans til viðbótargreiðslu verði af þeim sökum þó einungis hafnað við sérstakar aðstæður. Að baki undantekningunum búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum og um að það geti haft í för með sér röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum fjárhæðum fyrir liðna tíð þvert á væntingar sínar. Þau atriði, sem samkvæmt dómafordæmum verður að líta til við mat á því hvort svo standi á, eru í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans var ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að hann réttlæti að viðbótarkröfu sé hafnað. Í þriðja lagi hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til þess að vangreitt var. Í því sambandi skiptir einkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími leið frá því að mistök komu fram þar til krafa var höfð uppi, hvort öðrum samningsaðilanum megi fremur kenna um en hinum að mistök urðu, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu.

Sóknaraðila byggir á því að þar sem engin festa hafi verið á greiðslum Marksins-Heiðrúnar ehf. skv. lánasamningunum eftir greiðslur af þeim í desember 2009 hafi félagið ekki haft réttmætar væntingar um að því yrði ekki gert að standa síðar skil á greiðslum fyrir liðna tíð upp frá þeim tíma. Fyrir þann tíma fellst sóknaraðili á að festa hafi verið á greiðslunum og taka útreikningar hans mið af því. Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða að hann mæli því ekki í mót að félagið hafi verið í góðri trú um að greiðslur þess væru fullnægjandi, á þeim tíma sem þær voru inntar af hendi, og að sóknaraðili hafi verið í yfirburðastöðu gagnvart félaginu en það rak verslun með reiðhjól o.fl. Hvað varðar umfang viðbótarkröfu sóknaraðila þá er til þess að líta að ekki verður af gögnum ráðið með vissu hvert það væri ef miðað væri við að félagið hefði verið með fullnaðarkvittanir þar til lánasamningarnir voru endurútreiknaðir í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010 hinn 24. október (lán nr. 7497) 3. nóvember 2011 (lán nr. 7864 og 1235) eða til ársloka sama árs, eins og varnaraðili byggir kröfugerð sína á. Sóknaraðili lagði hins vegar að ósk dómara fram útreikninga sem miðuðu við að Markið-Heiðrún ehf. væri með fullnaðarkvittanir fyrir allar greiðslur sem félagið hefði innt af hendi en ekki einungis til fyrrgreindra dagsetninga í desember 2009. Samkvæmt þeim útreikningum er viðbótarkrafan 1.072.322 krónur. Hún er ekki veruleg borin saman við upphaflegan höfuðstól lánanna eða þá vexti sem félagið greiddi af þeim en þeir námu samtals 19.627.273 krónum skv. útreikningum sóknaraðila.

Kemur þá til skoðunar hvort nægileg festa hafi verið á greiðslum Marksins-Heiðrúnar ehf. af lánunum eftir gjalddaga þeirra 1., 2. og 5. desember 2009. Óumdeilt er að greiðslur af lánunum voru stopular eftir þessa gjalddaga. Greiða átti af lánunum mánaðarlega en félagið greiddi ekkert af þeim fyrstu átta mánuði ársins 2010. Þá greiddi það enga greiðslu af láni nr. 1235 árið 2011 og einungis eina greiðslu af lánum nr. 7864 og 7497. Er félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í janúar 2012 náðu því, skv. útreikningum sóknaraðila, vanskil afborgana af lánunum aftur til mars og maí 2010. Varnaraðili telur að samt sem áður verði ekki með réttu litið svo á að vanefndir hafi orðið á greiðslum af lánunum. Vísar hann til þess að sóknaraðili hafi ákveðið einhliða að greiðslum inn á skuldir félagsins hjá sóknaraðila yrði að mestu varið til að greiða niður yfirdrátt á tékkareikningi þess og þannig samþykkt frestun á afborgunum skv. lánasamningunum. Félagið hafi því mátt treysta því að lánin væru ekki í vanskilum. Sóknaraðili mótmælir því að nokkrir samningar hafi verið gerðir sem hafi gefið félaginu tilefni til að líta svo á að lánin væru ekki í vanskilum enda hafi engar skilmálabreytingar verið gerðar á lánunum til viðbótar þeim þremur skilmálabreytingum sem gerðar voru á árunum 2008 og 2009. Unnið var að því að endurskipuleggja rekstur félagsins, með það fyrir augum að forða því frá gjaldþroti, en það hafi ekki gengið eftir.  Þótt fyrir liggi að sóknaraðili hafi gefið félaginu svigrúm til að greiða inn á lánin eftir getu leiðir það mati dómsins ekki til þess að félagið hafi mátt líta svo á að lánin væru í skilum.

 Gögn málsins gefa til kynna að lausafjárstaða Marksins-Heiðrúnar ehf. hafi verið slæm eftir efnahagshrunið hér á landi í október 2008. Þurfti það á yfirdrætti á tékkareikningi sínum hjá sóknaraðila að halda til að fjármagna rekstur sinn og þá lögðu varnaraðili og aðilar honum tengdir félaginu til umtalsverðar fjárhæðir. Enn fremur tók sóknaraðili viðbótarveð í vörubirgðum og kröfum félagsins til tryggingar skuldum þess. Í yfirliti, sem varnaraðili lagði fram, yfir greiðslur félagsins til sóknaraðila, inn á hin umþrættu lán og yfirdrátt, frá 2004-2012, kemur fram að engar greiðslur hafi borist frá félaginu til greiðslu skuldbindinga þess hjá sóknaraðila, hvorki til greiðslu yfirdráttar né hinna umdeildu lánasamninga, um töluverðan tíma, t.d. fyrstu þrjá mánuði ársins 2010 og fyrstu fjóra mánuði ársins 2011. Virðist fjárhagsleg staða félagsins því á tímabili hafa verið það slæm að það hafi hvorki haft nægt fé til að greiða niður yfirdrátt né til að fullnægja skuldbindingum skv. lánasamningunum. Þá er til þess að líta að um há lán var að ræða og voru afborganir af þeim í samræmi við það háar, jafnvel þótt búið hefði verið að endurreikna lánin. Samkvæmt tilkynningum sóknaraðila um næsta gjalddaga lánanna eftir endurútreikninga hans 24. október og 3. nóvember 2011, námu heildargreiðslur af lánunum tæpum 1.900.000 krónum. Varnaraðili ber sönnunarbyrðina fyrir því að hve miklu leyti félaginu hefði verið unnt að greiða af lánunum, ef yfirdráttur þess hefði ekki verið greiddur niður og/eða lánin endurútreiknuð fyrr en gert var, en hann hefur ekki lagt fram nein gögn þar að lútandi. Því er ekki unnt að líta svo á að félagið hafi haft í höndum fullnaðarkvittanir vegna afborgana téðra lána til sóknaraðila né að stöðu félagsins verði jafnað til þess að það hafi fengið í hendur slíkar kvittanir umfram afborganir af lánunum eftir desember 2009. Verður því fallist á það með sóknaraðila að honum hafi verið heimilt að endurkrefja félagið um vangreidda vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 18. gr. laganna eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010, svo sem kröfugerð hans miðast við en að mati dómsins hefur varnaraðila ekki tekist að hnekkja endurútreikningum sóknaraðila með þeim gögnum sem hann hefur lagt fram. Þótt unnt sé að fallast á það með varnaraðila að ekki sé fullt samræmi milli greiðslukvittana sem Markið-Heiðrún ehf. fékk afhentar um hvað verið var að greiða, þ.e. höfuðstól eða vexti, og yfirlita sóknaraðila hefur sóknaraðili gefið fullnægjandi skýringar á þessu misræmi undir rekstri málsins.

Eftirstöðvar lánasamninganna er félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, miðað við útreikninga sóknaraðila, voru 21.311.952 krónur skv. lánasamningi nr. 1235, 31.388.665 krónur skv. lánasamningi nr. 7864 og 53.286.185 krónur skv. lánasamningi nr. 7497. Inn á síðastgreinda kröfu voru greiddar 14.984.745 krónur hinn 17. desember 2012 vegna sölu á vörulager Marksins-Heiðrúnar ehf. til nafngreinds lögaðila, skömmu áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, en lagerinn var veðsettur sóknaraðila. Er tekið tillit til þessa í kröfugerð sóknaraðila. Til viðbótar framangreindu krefst sóknaraðili dráttarvaxta af framangreindum fjárhæðum frá þeim degi sem bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta þar til sóknaraðili lýsti leiðréttri kröfu í búið 31. október 2013, að teknu tilliti til innborgunarinnar. Er þannig ekki gerð krafa um dráttarvexti frá þeim tíma. Tillit er tekið til fjárhæðar dráttarvaxtanna í dómkröfum sóknaraðila. Sundurliðun þeirra liggur fyrir í gögnum málsins en hún fylgdi hinni leiðréttu kröfulýsingu sóknaraðila til skiptastjóra. Af hálfu varnaraðila hafa ekki verið gerðar tölulegar athugasemdir við þann útreikning. Við töku bús Marksins-Heiðrúnar-ehf. til gjaldþrotaskipta 11. janúar 2012 féllu kröfur sóknaraðila skv. lánasamningum í gjalddaga, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Átti sóknaraðili því frá þeim tíma rétt á að krefjast dráttarvaxta af kröfunum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti- og verðtryggingu. Engu máli skiptir þótt endurútreikningur sóknaraðila vegna fullnaðarkvittana hafi dregist enda verður ekki séð að félagið hafi haft getu til að greiða kröfurnar, þótt hann hefði farið fram fyrr fram. Er því ekki uppfyllt skilyrði 7. gr. laga nr. 38/2001 til að miða við síðara tímamark.

Óumdeilt er að hinir umþrættu lánasamningar féllu undir tryggingarbréf sem félagið gaf út til Landsbanka Íslands hf., til tryggingar á öllum skuldum þess hjá bankanum, en tryggingarbréfið var með veði í fasteign félagsins við Ármúla 40, Reykjavík. Þá voru gerðir viðaukar við tryggingarbréfið þannig að vörubirgðir og kröfur félagsins voru jafnframt veðsettar sóknaraðila. Því eru kröfur sóknaraðila viðurkenndar sem veðkröfur, sbr. 111. gr. laga nr. 91/1991, en veðið tekur líka til dráttarvaxtakrafna, sbr. 1. tl. 114. gr. sömu laga.

Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á dómkröfur sóknaraðila að fullu.

Með hliðsjón af þessu málsúrslitum verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir, með tilliti til málsatvika, hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

                Kolbrún Sævardóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Við skipti á þrotabúi Heiðrúnar ehf., eru kröfur sóknaraðila, Landsbankans hf., samkvæmt lánssamningi nr. 0130-36-1235 að fjárhæð 26.456.854 krónur, samkvæmt lánssamningi nr. 0130-36-7864 að fjárhæð 38.966.180 krónur og samkvæmt lánssamningi nr. 0130-36-7497 að fjárhæð 49.454.295 krónur, viðurkenndar með stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., í þrotabú Heiðrúnar ehf.

Varnaraðili, Bragi Jónsson, greiði sóknaraðila 350.000 krónur í málskostnað.