Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Farbann
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 5. janúar 2016. |
|
Nr. 4/2016.
|
Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi) gegn X (Kristrún Elsa Harðardóttir hdl.) |
Kærumál. Kæra. Farbann. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kæra X uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. janúar 2016. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. desember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni allt til þriðjudagsins 1. mars 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega í greinargerð til Hæstaréttar að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hann haldi frelsi gegn því að setja tryggingu, en að því frágengnu að farbanninu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar á dómþingi 29. desember 2015 var bókað eftir varnaraðila, að viðstöddum verjanda hans, að hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Ekki var bókað í þingbók í hvaða skyni kært væri eins og áskilið er í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Úr þessum annmarka var ekki bætt með skriflegri kæru til héraðsdóms innan kærufrests svo sem unnt hefði verið eftir sömu lagagrein. Samkvæmt þessu verður að vísa málinu frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. desember 2015.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur krafist þess að X, fd. [...], sem er [...] ríkisborgari en búsettur í [...], verði með úrskurði bönnuð för frá Íslandi á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu og eftir atvikum fyrir dómstólum ef til útgáfu ákæru kemur fram til þess að héraðsdómur er kveðinn upp í málinu, þó eigi lengur en til mánudagsins 21. mars nk. kl. 16:00.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað, en til vara að kærða verði heimilað að setja tryggingu, en til þrautavara að farbanni verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra með kröfunni segir að samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum hafi kærði verið ökumaður bifreiðarinnar [...], laugardaginn 26. desember síðastliðinn, sem hafi verið ekið austur Suðurlandsveg, þegar bifreiðin sem hann hafi ekið hafi skollið framan á bifreiðinni [...], sem hafi komið úr gagnstæðri átt, um einbreiða brú yfir Hólá við Suðurlandsveg. Í bifreiðinni [...] hafi verið fjórir einstaklingar innanborðs, þ.á m. A, fd. [...], sem hafi verið ökumaður bifreiðarinnar og hafi hann hlotið slíka áverka við áreksturinn að hann hafi verið úrskurðaður látinn á staðnum. Þá hafi aðrir farþegar í bifreiðinni, eiginkona og tvö börn hins látna, verið flutt á sjúkrahús í kjölfar atburðar og séu ennþá þar til rannsóknar og aðhlynningar.
Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að hafa verið ökumaður bifreiðarinnar í umrætt sinn. Framburði kærða og vitna í þessu máli beri í meginatriðum saman um aðdraganda atburðar og atburðinn sjálfan.
Með vísan til framangreinds kveður lögreglustjóri að kærði sé undir sterkum grun um að hafa valdið mannsbana af gáleysi, sbr. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti fangelsi allt að sex árum. Þá liggi ekki ennþá fyrir læknisvottorð vegna slasaðra farþega í bifreiðunum, en það kunni að vera að jafnframt sé um að ræða líkamsmeiðingu af gáleysi, sbr. 219. gr. sömu laga. Þá sé kærði ennfremur undir sterkum grun um umferðarlagabrot, sbr. a.m.k. 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 36. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem varðað geti fangelsi allt að tveimur árum.
Kærði sé [...] ríkisborgari, búsettur í [...], og hafi komið hingað til lands sem ferðamaður þann 22. desember sl., ásamt vinkonu sinni, sem hafi verið farþegi í bifreiðinni sem kærði hafi ekið þegar slysið varð. Hafi þau bæði gert ráð fyrir að yfirgefa landið á morgun, þann 30. desember. Kærði eigi engin tengsl við Ísland.
Kærði njóti réttarstöðu sakbornings við rannsókn lögreglu í málinu.
Atburður sá sem er til rannsóknar sé nýliðinn og rannsókn lögreglu sé eðlilega á frumstigi ennþá en unnið sé fullum fetum að því að hraða rannsókn málsins eins og nokkur kostur sé. Vegna eðlis atburðarins, þ.e. um sé að ræða umferðarslys og mannslát, og eftir atvikum líkamsmeiðingar, liggi fyrir að um gríðarlega umfangsmikla og ítarlega rannsókn sé að ræða þar sem nokkur fjöldi sérfróðra aðila komi að rannsókninni, auk lögreglu. Allir þeir aðilar sem að rannsókninni koma séu upplýstir um mikilvægi þess að afgreiðslu einstakra verkþátta verði hraðað sem framast er kostur.
Að teknu tilliti til umfangs rannsóknar megi ljóst vera að þeim tíma sem krafist sé farbanns sé verulega í hóf stillt, og ekki sé útilokað að jafnvel þótt svo að dómari fallist á kröfu ákæruvalds þá þurfi að koma til áframhaldandi farbanns í kjölfarið.
Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlegar sakir kærði sé grunaður um, teljist að mati lögreglu uppfyllt skilyrði til að honum verði bönnuð för af landinu á meðan á rannsókn málsins standi hjá lögreglu og eftir atvikum mál hans sé til meðferðar hjá dómstólum ef til útgáfu ákæru komi, enda megi ætla að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, sbr. b-liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga. Nánar til rökstuðnings kröfu lögreglustjóra er vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 296/2015, þar sem sambærilegar aðstæður hafi verið fyrir hendi, þ.e.a.s. erlendur ríkisborgari sem ekki eigi tengsl við landið hafi orðið valdur að mannsbana af gáleysi, og í því máli hafi verið fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún hafi verið sett fram.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 100. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess farið á leit að kærða verði gert að sæta farbanni þannig að honum sé bönnuð för frá Íslandi, eins og að framan greinir.
Af hálfu kærða er vísað til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að saknæmisskilyrðum sé fullnægt enda liggi ekkert fyrir um að hann hafi hagað akstri sínum á gálausan hátt. Vísar hann til þess að hann hafi ekki áður ekið í snjó og hálku og jafnframt til þess að einbreiðar brýr séu honum framandi og hafi hann ekki séð slíkt fyrr en hérlendis. Þá kveður hann að þá er hann hafi tekið á leigu bifreið þá sem hann hafi ekið umrætt sinn hafi honum ekki verið kynnt sérstaða íslenskra akstursaðstæðna. Hann sé jafnframt miður sín eftir slysið og hafi sjálfur hlotið áverka í því. Þá vísar hann til þess að hann þekki ekki nokkurn mann hérlendis og hafi í engin hús að venda. Kærði vísar til þess að hann hafi hreint sakavottorð.
Kærði vísar jafnframt til þess að beiting farbanns í tilviki hans stríði gegn meðalhófsreglu. Kærði kveðst reka í [...] í [...] eigið hönnunarfyrirtæki þar sem hann sé framkvæmdastjóri og sjái um daglegan rekstur. Sé fyrirsjáanlegt að reksturinn fari illa ef hann geti ekki verið til staðar til að sinna fyrirtækinu, en m.a. sé fyrirtæki hans með verkefni sem beri að skila eða ljúka um miðjan janúarmánuð nk. Þá sé hann að kaupa og fá afhenta íbúð í [...] núna um miðjan janúar. Kærði vísar til þess enn fremur að hann hafi svokallað frumkvöðladvalarleyfi í [...] sem sé skilyrt við það að hann dvelji í [...] í a.m.k. 180 daga á hverjum 360 dögum, en ella falli leyfið úr gildi. Kveðst kærði þegar hafa verið utan [...] í u.þ.b. 90 daga á téðu tímabili þannig að ef fallist yrði á kröfu lögreglustjóra þá myndi hann ekki uppfylla umrædd skilyrði sem séu óundanþæg og dvalarleyfi hans félli því úr gildi. Hefur kærði lagt fram gögn máli sínu til stuðnings.
Kærði kveðst hafa tök á og vera reiðubúinn til að setja eina milljón króna í tryggingu.
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dóminn hafa verið lögð rannsóknargögn málsins. Verður að fallast á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um þau brot sem hann er grunaður um í málinu og sem geta varðað fangelsisrefsingu skv. m.a. 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður hér að nefna framburð vitna sem hafa borið að bifreið þeirri sem kærði ók hafi verið ekið á mikilli eða ansi mikilli ferð inn á einbreiða brú þar sem fyrir var önnur bifreið sem ók í gagnstæða átt og sem átti sér ekki undankomu auðið. Styðst þetta við ljósmyndir sem fylgja rannsóknargögnum, en jafnframt benda gögn málsins til þess að bifreið kærða hafi verið ekið yfir hámarkshraða áður en slysið varð og á mun meiri hraða en hinni bifreiðinni. Getur engu breytt um þetta að kærði hafi ekki verið vanur akstri við íslenskar vetraraðstæður eða að honum hafi ekki verið kynntar þær sérstaklega af hálfu þess sem lét honum bifreiðina í té.
Í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að séu uppfyllt skilyrði gæsluvarðhalds skv. 1. eða 2. mgr. 95. gr. laganna þá geti dómari, í stað þess að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, bannað sakborningi brottför af landinu. Í 1. mgr. 95. gr. laganna segir heimilt sé að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, enda hafi hann náð 15 ára aldri. Auk þess verði að vera fyrir hendi eitthvert af nokkrum skilyrðum, þ. á m. skv. b-lið ákvæðisins að ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.
Samkvæmt framansögðu er kærði, sem er eldri en 15 ára, undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Kærði er erlendur ríkisborgari sem hefur engin tengsl við Ísland og hefur, samkvæmt eigin frásögn, mikla hagsmuni af því að fara burt af landinu. Eru skilyrði laga til þess að kærði sæti farbanni þannig uppfyllt.
Kærði hefur krafist þess til vara að honum verði heimilað að reiða fram tryggingu í stað farbanns og kveðst vera reiðubúinn að setja eina milljón króna í tryggingu. Það er mat dómsins að þrátt fyrir að kærði hafi fært að því rök að farbann sé honum bagalegt, þá gangi það ekki gegn meðalhófsreglu að honum verði gert að sæta farbanni í stað þess að setja tryggingu, en hér verður þess að geta að kærði er undir rökstuddum grun um alvarlegar sakar. Þykir sú trygging, sem kærði krefst að honum verði heimilað að setja, ekki vera til þess fallin að tryggja þá hagsmuni sem farbanni er ætlað að tryggja við áframhaldandi meðferð málsins.
Kærði hefur krafist þess til þrautavara að farbanni verði markaður skemmri tími en krafist er. Þrátt fyrir að einungis séu liðnir örfáir dagar frá þeim atburði sem er tilefni kröfu lögreglustjóra þykir þó rétt að marka farbanni skemmri tíma en krafist er og verður kærða gert að sæta farbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði, til þriðjudagsins 1. mars 2016 kl. 16:00, enda nægir sá tími til að ljúka rannsókn málsins og taka ákvörðun um saksókn, en ekkert liggur fyrir á þessu stigi um hvort gefin verði út ákæra í málinu.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærða, X, fd. [...], er bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 1. mars 2016 kl. 16:00.