Hæstiréttur íslands

Mál nr. 74/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. mars 2004.

Nr. 74/2004.

Múrlína ehf.

(Jón Gunnar Zoëga hrl.)

gegn

ÁHÁ-byggingum ehf.

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Endurupptaka.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um endurupptöku útivistarmáls samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2004, þar sem fallist var á endurupptöku máls, sem sóknaraðili höfðaði gegn varnaraðila og lauk 27. október 2003 með áritun dómara á stefnu samkvæmt 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og hafnað verði kröfu varnaraðila um endurupptöku málsins. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Múrlína ehf. greiði varnaraðila, ÁHÁ-byggingum ehf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2004.

            Mál þetta var tekið til úrskurðar í gær eftir að málsaðilar höfðu tjáð sig munnlega um ágreining þann sem til úrskurðar er.  Tilefni úrskurðarins er það að sóknaraðili krafðist endurupptöku á málinu nr. E-2910/2003, sem var áritað um að aðfararhæfi þann 27. október 2003, eftir að útivist hafði orðið við þingfestingu málsins af hálfu sóknaraðila.  Af hálfu varnaraðila var endurupptökunni mótmælt og voru þær röksemdir færðar fram af hans hálfu að stefnanda hafi verið kunnugt um málalyktir þegar í byrjun desember 2003.  Af hálfu sóknaraðila var því haldið fram að málalyktar hefðu ekki verið honum kunnar fyrr en í lok desember 2003.

                Óumdeilt er í málinu að beiðni sóknaraðila um endurupptöku málsins barst dómstólnum eigi síðar en 15. janúar 2004.  Ekkert hefur verið lagt fram í málinu sem sannar á ótvíræðan hátt að sóknaraðila hafi verið kunnugt um málalyktir 15. desember 2003 eða fyrir þann tíma.  Eina gagnið sem lagt hefur verið fram sem sönnunargagn sem snýr beinlínis að því að upplýsa hverjar lyktir málsins urðu á sínum tíma, er bréf sýslumannsins í Kópavogi, dagsett 16. janúar 2004, þar sem stefndi í héraðsdómsmálinu, sóknaraðili í þessu máli er boðaður til fjárnáms á grundvelli aðfararbeiðnar sem byggir á árituninni frá 27. október 2003, í héraðsdómsmálinu nr. E-2910/2003.

                Af þessum sökum þykir dómara rétt að miða við það að beiðnin hafi borist héraðsdómnum innan mánaðar frá því að sóknaraðila urðu málsúrslitin kunn, enda hefur ekki verið sýnt fram á það með birtingarvottorði vegna áritunar stefnunnar né birtri greiðsluáskorun að svo hafi ekki verið.

                Fyrir liggur staðfesting á því að sóknaraðili hefur reitt fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 375.000 krónur.

                Að mati dómsins uppfyllir endurupptökubeiðnin að því er varðar kröfugerð ákvæði 138. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Telur dómari að 5. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 verði ekki skilin á annan veg en að varnaraðili geti haft uppi mótmæli gegn endurupptöku eins og hann hefur gert og verði hann af því tilefni að leggja fram þau gögn sem hann vill sanna mál sitt með án þess að fari fram frekari málsmeðferð fyrir dómi.

                Í ljósi þessa þykir sóknaraðili hafa sýnt fram á rétt sinn til þess að fá málið endurupptekið og því úrskurðast

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

                Héraðsdómsmálið nr. E-2910/2003:  Múrlína ehf. gegn ÁHÁ byggingum ehf., er endurupptekið.