Hæstiréttur íslands
Mál nr. 230/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun barns
- Barnavernd
Reifun
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2017 en kærumálsgögn bárust réttinum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. apríl 2017 þar sem varnaraðila var heimilað að vista dætur sóknaraðila, B og C, utan heimilis hennar í 6 mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að vistun stúlknanna utan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. apríl 2017.
Mál þetta, sem barst héraðsdómi 16. mars 2017, var tekið til úrskurðar 31. mars 2017. Sóknaraðili er barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar. Varnaraðili er A, kt. [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að úrskurðað verði að systurnar B, kt. [...], og B, kt. [...], báðar með lögheimili að [...], verði vistaðar utan heimilis, á vegum sóknaraðila, í allt að sex mánuði, skv. 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði hafnað en til vara að vistun utan heimilis verði markaður skemmri tími. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila án tillits til gjafsóknar sem henni hafi verið veitt.
I.
Málsatvik eru þau að sóknaraðili hafði í september 2010 afskipti af varnaraðila og dætrum hennar, en þá barst tilkynning frá lögreglu um að foreldrar stúlknanna, varnaraðili í máli þessu og D, hefðu verið handtekin vegna fíkniefnalagabrots og skattsvika. Áður hafði sóknaraðila borist tilkynning frá skóla elstu dóttur varnaraðila, E, vegna slakrar mætingar. Foreldrar systranna munu hafa slitið samvistum í desember 2012 og þær frá þeim tíma búið hjá varnaraðila, en hún fer ein með forsjá þeirra. Samskipti foreldranna munu hafa verið erfið síðan þau skildu og þau hafa staðið í deilu um forsjá stúlknanna.
Fram kemur í gögnum málsins að í október 2012 hafi barnverndaryfirvöldum borist tilkynning frá sjúkraflutningamönnum og hjúkrunarfólki um að varnaraðili og elsta dóttir hennar, E, hefðu verið drukknar saman í miðbæ Reykjavíkur. Þá kemur fram í gögnunum að við könnun máls hafi komið í ljós að varnaraðili virtist eiga erfitt með að setja stúlkunni mörk. Unnið hafi verið að áætlun skv. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en það ekki gengið og málinu verið lokað þegar stúlkan varð 18 ára gömul. Einnig hafi verið gerð áætlun í málefnum B og C og sálfræðimat verið gert á þeim haustið 2012, þar sem þær hafi verið greindar með almenna námserfiðleika og þroskafrávik. Stofnað hafi verið teymi í kringum stúlkurnar í skólanum.
Fyrir liggur í gögnum málsins að sóknaraðila bárust nokkrar tilkynningar á árinu 2013 og 2014, sem allar tengdust ætluðum drykkjuvanda varnaraðila og vanrækslu hennar í uppeldishlutverki sínu. Flestar voru tilkynningarnar frá föður, en einnig frá lögreglu og ein var undir nafnleynd.
Í febrúar 2015 samþykkti varnaraðili óboðað eftirlit á heimili og tilsjón einu sinni í viku, ásamt því að sækja sálfræðiviðtöl og að barnaverndarstarfsmaður sæti samráðsfundi í skóla til að fylgjast þar með framvindu mála. Markmið tilsjónar var að styðja móður í foreldrahlutverkinu og aðstoða hana við að koma dætrum sínum í skólann og við heimanám þeirra.
Í skýrslu tilsjónarkonu, dags. 31. október 2016, kemur fram að mæting B og C í skólann hafi verið ágæt framan af skólavetrinum 2015-2016, þótt töluvert hefði verið um forföll og læknatíma sem hafi leitt til þess að þær misstu úr skóla. Vorið 2016 hafi mæting þeirra versnað og í maí hafi þær verið fluttar í hverfisskólann sinn, [...]. Eftir það hafi eldri stúlkan lítið sem ekkert mætt í skólann, en yngri stúlkan örlítið betur. Þá segir í skýrslunni að það sem af sé vetri, þ.e. í lok október 2016, hafi mæting systranna í skólann verið mjög slæm, sérstaklega hjá þeirri eldri. Þá hafi systurnar verið nánast hættar að mæta í skólann. Hafi varnaraðili tjáð tilsjónarkonu að hún kæmi þeim ekki í skólann. Einnig kemur fram í skýrslunni að um haustið hafi borið mikið á veikindum hjá varnaraðila og hún hafi ítrekað frestað eða gleymt þeim tímum sem ákveðið hafi verið að tilsjónarkonan ætti með henni á heimilinu. Þá segir í skýrslunni að systurnar virðist geta stjórnað varnaraðila og fengið sínu framgengt, t.d. varðandi mætingar í skólann. Í lok skýrslunnar segir að svo virðist sem varnaraðili geri sér ekki fulla grein fyrir stöðu dætra sinna í skólanum, sem báðar þurfi á sérkennslu að halda, og að því sé enn mikilvægara en ella að þær mæti í skólann til að geta þegið þá aðstoð.
Á fundi sóknaraðila 8. nóvember 2016 var mál systranna tekið fyrir. Lagt var til að þær yrðu vistaðar utan heimilis í sex mánuði og að sóknaraðili færi í áfengis- og vímuefnameðferð á meðan. Varnaraðili mætti á fundinn ásamt lögmanni sínum. Niðurstaðan varð sú að sóknaraðili samþykkti að gerð yrði meðferðaráætlun með varnaraðila til tveggja mánaða þar sem kveðið yrði á um verulega bætta skólasókn systranna, sálfræðiviðtöl fyrir þær, óboðað eftirlit og tilsjón með heimilinu, ásamt því að varnaraðili gengist undir vímuefnapróf þegar starfsmenn nefndarinnar óskuðu eftir því.
Um er að ræða áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, dags. 18. nóvember 2016. Var markmið meðferðaráætlunar að styðja varnaraðila í uppeldishlutverkinu með þeim hætti að tilsjónarkona kæmi inn á heimilið tvisvar í viku og aðstoðaði varnaraðila við að koma dætrum sínum í skólann og við að halda utan um fjármál sín, m.a. að greiða húsaleigu. Í meðferðaráætluninni sem varnaraðili undirritaði segir að ástæður íhlutunar séu m.a. slök skólasókn dætranna og heimanám, sem og vegna tilkynninga húsfélags vegna áfengisdrykkju varnaraðila og gleðskapar í íbúð hennar í ágúst 2016 og háreysti í stigagangi. Þá kemur fram í áætluninni að varnaraðili hafi skuldað Hafnarfjarðarbæ yfir tvær milljónir í húsaleigu.
Fyrir lá skýrsla talsmanns systranna, A, dags. 4. nóvember 2016, um afstöðu þeirra til þess að vera vistaðar í sex mánuði hjá föður.
Fram kemur í gögnum málsins að lögregla fór í tvígang á heimili varnaraðila daginn eftir að meðferðaráætlunin var gerð, 19. nóvember 2016. Fyrst vegna tilkynningar nágranna um mikil öskur í varnaraðila og eldri dóttur hennar, en þá hafi B læst sig í mikilli geðshræringu inni á baðherbergi. Í dagbók lögreglu kemur fram að varnaraðili hafi í það skipti virkað edrú og þokkalega róleg. Síðar um nóttina hafi lögreglu borist tilkynning frá sambýliskonu föður stúlknanna, sem sótt hafi B á heimilið að hennar ósk, en hún hafi hringt grátandi í föður sinn og sambýliskonu hans og tjáð þeim að hún væri hrædd við varnaraðila, sem hefði sparkað og lamið í hurðina hjá henni frá því að lögregla fór af vettvangi. Í tilkynningunni kom fram að varnaraðili væri mjög ölvuð heima með C og tvö önnur gestkomandi börn. Er lögregla kom á heimilið hafi varnaraðili viðurkennt að hafa drukkið þrjá til fjóra bjóra, en neitað að blása í áfengismæli. Einnig kemur fram í dagbók lögreglu að varnaraðili hafi sveiflast mjög í skapi, þ.e. ýmist verið róleg eða mjög æst.
Eftir að framangreind meðferðaráætlun var gerð í nóvember 2016 var skólasókn systranna mjög slök, en þær voru oft tilkynntar veikar eða voru fjarverandi án skýringa. Mun mætingareinkunn þeirra hafa verið orðin mjög lág þegar þarna var komið sögu.
Ný tilsjónarkona var skipuð með heimilinu og liggur skýrsla hennar fyrir í málinu vegna eftirlits á tímabilinu 21. nóvember til 5. desember 2016. Þar kemur fram að varnaraðili hafi ekki alltaf verið heima þegar tilsjónarkonan kom á heimilið á áður ákveðnum tíma og varnaraðili hafi ekki látið tilsjónarkonuna vita. Þrívegis á þessum tíma hafi annaðhvort báðar stúlkurnar eða önnur þeirra ekki mætt í skólann. Þá hafi varnaraðili afboðað sig á fund í skólanum 29. nóvember vegna veikinda.
Fyrir liggur í gögnum málsins að varnaraðili var látin blása í áfengismæli í tíu skipti frá miðjum nóvember 2016. Aðeins í eitt skipti mældist áfengismagn hjá henni, en það var að morgni þriðjudagsins 6. desember 2016. Sóknaraðili segir að eftir gerð meðferðaráætlunarinnar hafi fjórum sinnum verið óskað eftir því við varnaraðila að hún færi í fíkniefnapróf en hún hafi aðeins einu sinni orðið við því og þá hafi mælst hjá henni benzódíasepin. Varnaraðili mótmælir þessu og segir að aðeins einu sinni hafi verið óskað eftir því að hún færi í fíkniefnapróf og hún hafi gert það.
Mál varnaraðila og dætra hennar var lagt fyrir fund sóknaraðila 13. desember 2016, sem varnaraðili mætti á ásamt lögmanni sínum. Sóknaraðili gerði eftirfarandi bókun: „Með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja í málinu um aðstæður systranna [...] samþykkir barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar að systurnar verði vistaðar utan heimilis í sex mánuði. Fáist ekki samþykki móður verður málið tekið til úrskurðar.“
Fyrir lá tölvupóstur F sálfræðings, dags. 4. desember 2016, þar sem kemur fram að hún hafi rætt nokkrum sinnum við systurnar. B hafi verið mjög ánægð með að búa tímabundið hjá föður sínum. C hafi ekki verið á því í fyrstu en svo hafi hún breytt um skoðun í viðtali við sálfræðinginn og verið til í að vera tímabundið hjá föður sínum.
Í desember 2016 var varnaraðili ásamt dætrum sínum borin út úr félagslegri leiguíbúð hjá Hafnarfjarðarbæ vegna vanskila á húsaleigu. Mun varnaraðili hafa flutt með dæturnar á gistiheimili og skráð lögheimili þeirra hjá ættingjum sínum í [...]. Með bréfi barnaverndarnefndar [...] 12. janúar 2017 samþykkti nefndin að málið yrði unnið áfram hjá sóknaraðila. Grunur lék á að varnaraðili og dætur hennar væru fluttar aftur í Hafnarfjörð, en staðfesting ekki fengist á því þar sem varnaraðili neitaði að hafa samskipti við barnaverndarnefnd. Systurnar voru skráðar í [...], en munu ekki hafa mætt í skólann eftir áramót.
Með úrskurði sóknaraðila 17. janúar 2017 var ákveðið að systurnar skyldu teknar af heimili varnaraðila og vistaðar á vegum sóknaraðila í tvo mánuði. Þá var með vísan til 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 samþykkt að gerð yrði krafa um það fyrir héraðsdómi að ráðstöfun þessi stæði í sex mánuði.
Fyrir liggur kæra varnaraðila til lögreglu samkvæmt 2. mgr. 97. gr. barnaverndarlaga, dags. 31. janúar 2017. Þar kemur fram að starfsmenn varnaraðila hafi farið að dvalarstað mæðgnanna að [...] Hafnarfirði hinn 27. janúar 2017, til að framfylgja úrskurði nefndarinnar frá 17. sama mánaðar, en varnaraðili hafi neitað að hleypa starfsmönnum sóknaraðila inn. Óskað hafi verið eftir atbeina lögreglu, sbr. 2. mgr. 50. gr. barnaverndarlaga, og hafi starfsmenn farið að heimilinu í fylgd lögreglu hinn 30. janúar 2017, en þá hafi komið í ljós að systurnar voru ekki í húsinu og hafi varnaraðili neitað að upplýsa um dvalarstað þeirra. Í kærunni var óskað eftir að hafin yrði eftirgrennslan eftir systrunum. Upplýst hefur verið að systurnar voru teknar úr umsjá varnaraðila í kjölfar kærunnar og eru nú vistaðar hjá föður sínum.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness [...]. mars 2017 var staðfestur úrskurður sóknaraðila um töku systranna af heimili varnaraðila og vistun þeirra á vegum sóknaraðila í tvo mánuði.
Upplýst hefur verið að stúlkurnar ganga nú í [...]. Fyrir liggur skýrsla starfsmanns sóknaraðila vegna fundar sem starfsmaðurinn mætti á í skólanum 15. mars 2017, til að fara yfir stöðu stúlknanna og námsframvindu þeirra síðan þær hófu nám við skólann. Þar kemur fram að stúlkunum gangi vel að aðlagast og þyki vinsælar meðal jafningja. Þær hafi ekki farið inn í bekk heldur verið alveg í námsveri. Stúlkurnar séu mikið eftir á í námi. Samkvæmt lesskilningsprófum hafi C lesskilning líkt og barn í 2. eða 3. bekk og B líkt og barn í 7. bekk. Mikil þörf sé á greiningu en C sýni sterk einkenni ADHD. Almenn þekking stúlknanna sé einnig afar slök miðað við jafnaldra þeirra. Að sögn starfsfólks skólans séu stúlkurnar glaðar, hlakki til að mæta í skólann og hafi alltaf mætt.
II.
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi haft málefni stúlknanna til meðferðar frá árinu 2010. Foreldrar þeirra hafi skilið á árinu 2012 og hafi verið miklir erfiðleikar í samskiptum þeirra frá þeim tíma. Stúlkurnar glími báðar við þroskafrávik og almenna námserfiðleika og af þeim sökum hafi þær þurft talsverðan stuðning við nám og sérúrræði í skóla. Skólasókn stúlknanna hafi verið verulega ábótavant til fleiri ára á þeim tíma sem þær hafi verið í umsjá sóknaraðila.
Varnaraðila hafi allt frá árinu 2015 verið veittur margvíslegur stuðningur af hendi sóknaraðila, til þess að aðstoða hana á heimili sínu við að skipuleggja heimanám stúlknanna og tryggja að þær mættu í skóla. Þá hafi varnaraðila verið veittur persónulegur stuðningur í formi sálfræðiviðtala, þegar starfsendurhæfing hafi verið fullreynd. Varnaraðila hafi enn fremur verið veittur margvíslegur fjárhagslegur stuðningur í því skyni að tryggja að stúlkurnar hefðu húsaskjól og nauðsynlega heilsugæslu.
Fyrir liggi að stuðningsúrræði í þágu stúlknanna hafi reynst árangurslaus og staða stúlknanna farið versnandi bæði í námslegu og félagslegu tilliti. Lítil sem engin framvinda hafi orðið í námi þeirra allt síðastliðið ár vegna fjarveru þeirra frá skóla. Í viðtölum við sálfræðing lýsi stúlkurnar yfir vanlíðan og kvíða í tengslum við skólann. Sé ljóst af skýrslu tilsjónaraðila að stúlkunum sé blandað í deilur foreldra sinna og það valdi þeim áhyggjum og vanlíðan.
Sóknaraðila hafi borist í nokkur skipti tilkynningar þess efnis að grunur leiki á því að varnaraðili sé undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna, með stúlkurnar í sinni umsjá. Nágrannar varnaraðila hafi kvartað til sóknaraðila undan hávaða og óreglu á heimili varnaraðila og að aðstæður á heimili stúlknanna séu óæskilegar.
Síðasta áætlun um meðferð máls, samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga, hafi verið gerð 18. nóvember 2016 með það að markmiði að bæta skólasókn stúlknanna. Varnaraðili hafi samþykkt tilsjón á heimili og að undirgangast fíkniefnapróf. Áætlunin hafi ekki borið tilætlaðan árangur þar sem engin breyting hafi orðið á aðstæðum stúlknanna og þær verið áfram fjarverandi úr skóla. Varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu við að taka á móti tilsjón, samþykkt að taka áfengispróf en neitað að undirgangast fíkniefnapróf. Lögregla hafi haft afskipti af heimilinu þar sem grunur hafi leikið á að varnaraðili væri undir ölvunaráhrifum.
Varnaraðili hafi misst húsnæði sitt í desember og skráð lögheimili sitt og stúlknanna hjá skyldmennum. Stúlkurnar hafi ekkert komið í skóla eftir áramót og óvissa verið um dvalarstað þeirra eða aðstæður að öðru leyti. Sóknaraðili hafi leitað atbeina lögreglu til þess að finna stúlkurnar og koma þeim fyrir í umsjá föður þeirra þar sem þær séu vistaðar nú.
Sóknaraðili telur að stuðningsúrræði séu fullreynd. Það liggi fyrir að síðasta áætlun um meðferð máls hafi verið úrslitatilraun til þess að láta reyna á getu varnaraðila til að bæta úr aðstæðum sínum og stúlknanna. Vangeta varnaraðila til þess að sinna þörfum stúlknanna og tryggja þeim lágmarksréttindi, eins og skólagöngu, valdi því að mati sóknaraðila að hún sé við núverandi aðstæður óhæf til að hafa stúlkurnar í sinni umsjá. Varnaraðili hafi neitað að undirgangast fíkniefnapróf sem styðji tilkynningar um að hún eigi við neyslutengdan vanda að stríða.
Að mati sóknaraðila er hafið yfir skynsamlegan vafa að aðstæður stúlknanna í umsjá sóknaraðila hafi til langs tíma verið óviðunandi og það séu brýnir hagsmunir þeirra að þær verði vistaðar á vegum sóknaraðila í allt að sex mánuði til þess að tryggja skólagöngu þeirra og öryggi þeirra að öðru leyti í samræmi við ákvæði 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Um lagarök er vísað til IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, meginreglna barnalaga nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
III.
Varnaraðili byggir á því að bæði form- og efnisannmarkar séu á úrskurði sóknaraðila sem leiða beri til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila um vistun dætra varnaraðila utan heimilis í allt að sex mánuði.
Varnaraðili heldur því fram að brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglum barnaverndarlaga nr. 80/2002 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.
Hvað varðar formreglur byggir varnaraðili í fyrsta lagi á því að andmælaréttur hafi verið brotinn á varnaraðila við meðferð málsins. Áður en mál varnaraðila var tekið fyrir á fundi sóknaraðila 8. nóvember 2016 og 13. desember s.á. hafi lögmaður varnaraðila óskað eftir því í tölvuskeytum að fá afhent öll gögn málsins þar sem starfsmenn sóknaraðila hefðu boðsent aðeins lítinn hluta gagnanna. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafi gögnin ekki fengist afhent, þ.m.t. tilkynningar sem óskað hafi verið eftir sérstaklega og skipt hafi verulegu máli við úrlausn málsins. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að þetta sé í brýnni andstöðu við 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og því beri að fallast á kröfu varnaraðila í málinu.
Í öðru lagi er á því byggt að rannsóknarreglan hafi verið brotin við meðferð málsins þar sem ekki hafi verið aflað upplýsinga um hagi dætra varnaraðila, tengsl þeirra við varnaraðila, hagi varnaraðila, aðbúnað barnanna á heimilinu o.s.frv. Þannig liggi ekki fyrir í málinu sérfræðigögn, svo sem forsjárhæfnismat, þar sem óháðir aðilar leggi mat á framangreind atriði. Þetta sé verulegur annmarki á málsmeðferðinni sem leiði til þess að fallast beri á kröfur varnaraðila í málinu.
Í þriðja lagi er á því byggt að ákvörðun sóknaraðila um vistun dætra varnaraðila utan heimilis í allt að sex mánuði brjóti gegn reglum um meðalhóf. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að ekki hafi verið hægt að beita vægari úrræðum sem barnaverndarlög bjóða, sbr. 24.-26. gr. laganna. Á því er byggt af hálfu varnaraðila að því fari fjarri að vægari úrræði séu fullreynd og því sé ekki nauðsynlegt á þessu stigi málsins að grípa til þess harkalega úrræðis að vista dætur varnaraðila utan heimilis hennar.
Þá byggir varnaraðili á því að ákvörðun sóknaraðila sé efnislega röng. Ef barnaverndarnefnd telur nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. standi lengur en þar er kveðið á um skuli nefndin gera um það kröfu fyrir héraðsdómi. Skilyrði framlengingar vistunar séu þau að úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. hafi ekki skilað árangri og að „brýnir hagsmunir barns“ mæli með töku barns af heimili, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hvorugu þessara skilyrða sé fullnægt í málinu.
Um fyrrnefnda skilyrðið byggir sóknaraðili á því að ekki hafi verið sýnt fram á að vægari úrræði hafi verið reynd og þau ekki skilað árangri. Sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á sóknaraðila sem ekki hafi axlað þá byrði í þessu máli og því beri að fallast á dómkröfu varnaraðila í málinu.
Varðandi síðara skilyrðið um að brýnir hagsmunir dætra varnaraðila mæli með töku þeirra af heimili hennar vísast til eftirfarandi atriða:
Varnaraðili telur ekkert í málinu benda til þess að hún sé í dag óhæf til að bera ábyrgð á og sinna uppeldisskyldum gagnvart dætrum sínum. Varnaraðili hafi aldrei glímt við drykkju- eða fíknivanda af nokkru tagi og reyki ekki. Þessi staðreynd endurspeglist í því að varnaraðili hafi ekki mælst jákvæð fyrir áfengi eða vímuefnum í þeim fjölmörgu prófum sem lögð hafi verið fyrir hana í gegnum tíðina. Óboðað eftirlit hafi verið á heimili varnaraðila frá árinu 2015 og ekki hafi mælst áfengi hjá henni fyrir utan eitt skipti en þá hafi stúlkurnar verið hjá föður sínum.
Í þessu sambandi vísar varnaraðili til skýrslu tilsjónarkonu, dags. 31. október 2016. Í skýrslunni komi fram að tilsjónarkonan hafi komið inn á heimili varnaraðila frá því í mars 2015. Hvergi í skýrslunni sé minnst á áfengis- eða vímuefnavanda varnaraðila þrátt fyrir að tilsjónarkonan hafi komið reglulega á heimili varnaraðila í tæplega eitt og hálft ár. Sömu sögu sé að segja um skýrslu tilsjónarkonu vegna tímabilsins 21. nóvember til 5. desember 2016, en þar sé hvergi minnst á neyslu varnaraðila.
Varnaraðili vísar einnig til skýrslu tilsjónarkonu sem hafi framkvæmt óboðað eftirlit á heimili varnaraðila frá 13. nóvember 2016, en farið hafi verið í tólf skipti á heimili varnaraðila þar sem framkvæmd hafi verið öndunarpróf. Í öll skiptin nema eitt hafi ekki mælst áfengi í prófunum en í þetta eina skipti hafi mælst 0,243 prómill sem séu varla greinanleg ölvunaráhrif. Þá liggi ekki fyrir í málinu dagbókarfærslur frá lögreglu þar sem afskipti hafi verið höfð af varnaraðila vegna áfengisneyslu hennar.
Samkvæmt framansögðu séu einu „sönnunargögnin“ í málinu um áfengis- og vímuefnaneyslu tilkynningar sem vísað sé til í úrskurði sóknaraðila. Það eina sem liggi fyrir séu dagálar frá starfsmanni sóknaraðila sem hafi ekkert sönnunargildi í málinu. Þá segir varnaraðili að það sé alrangt sem fram komi í kröfu sóknaraðila að varnaraðili hafi neitað að undirgangast vímuefnapróf. Það sé því fullkomlega ósannað í málinu að varnaraðili glími við áfengis- og/eða vímuefnavanda og því verði ekki á þessu atriði byggt við úrlausn málsins.
Varnaraðili telur að sú staðreynd að sóknaraðili hafi ekki talið ástæðu til að kveða upp úrskurð í málinu fyrr en tæpum mánuði eftir að ákvörðun um vistun utan heimilis lá fyrir sýni að „brýnir hagsmunir“ fyrir vistun utan heimilis séu ekki fyrir hendi. Ef ástandið á heimilinu og aðbúnaður dætra varnaraðila væri eins slæmt og sóknaraðili vilji vera láta þá hefði sóknaraðili að sjálfsögðu kveðið upp úrskurð strax og tekið börnin af heimilinu. Þetta hafi hins vegar ekki verið gert, sem sýni að sóknaraðili sjálfur hafi ekki talið brýnt að stúlkurnar færu strax af heimilinu.
Af skýrslum talsmanns stúlknanna megi ráða að það sé eindreginn vilji þeirra beggja að búa áfram hjá varnaraðila og þær séu mótfallnar þeirri tillögu að þær verði vistaðar utan heimilis hennar. Þá komi skýrt fram hjá báðum stúlkunum að þeim líði vel hjá varnaraðila og þær séu öruggar hjá henni. Í skýrslu vegna B komi skýrt fram að varnaraðili sé ekki að drekka og að faðir hennar og sambýliskona hans væru að reyna að eyðileggja hlutina með því að segja hluti um varnaraðila sem ekki væru réttir. Afstaða stúlknanna hafi verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins, ekki síst með hliðsjón af aldri þeirra og þroska, sbr. 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Varnaraðili ítrekar að engin sérfræðigögn liggi fyrir í málinu sem sýni fram á að varnaraðili hafi ekki nægjanlega hæfni til að fara með forsjá dætra sinna. Eina óháða sérfræðiskýrslan sem liggi fyrir í málinu sé sálfræðileg matsgerð G sálfræðings, dags. 19. október 2015, sem sé afdráttarlaus um að varnaraðili búi yfir ásættanlegri forsjárhæfni. Það segi sig sjálft að sálfræðingurinn hefði ekki komist að þeirri niðurstöðu ef það væri rétt að varnaraðili glímdi við áfengis- og/eða vímuefnafíkn.
Sönnunarbyrði um að brýnir hagsmunir mæli með vistun dætra varnaraðila í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002 hvíli á sóknaraðila. Ófullnægjandi skólasókn dætra varnaraðila ein og sér sé ekki nægjanleg til þess að skilyrðið um brýna hagsmuni teljist uppfyllt. Þvert á móti blasi við að mun nærtækara sé að sóknaraðili styðji varðandi þetta atriði með fulltingi skólayfirvalda. Með vísan til framangreinds, niðurstöðu skýrslu G og þeirrar staðreyndar að engin sönnunargögn liggi fyrir um áfengis- og/eða vímuefnaneyslu varnaraðila sé ljóst að ósannað sé í málinu að skilyrðinu um brýna hagsmuni sé fullnægt.
Varnaraðili telur að vistun dætra sinna utan heimilis síns væri það versta sem hægt væri að gera fyrir þær á þessum tímapunkti en hún hafi alla tíð staðið ein og óstudd að uppeldi dætra sinna. Það sem varnaraðili þarfnist sé þéttur og markviss stuðningur við uppeldið frá sóknaraðila og að vandamál vegna slælegrar skólasóknar verði unnin í samráði við starfsmenn sóknaraðila og skólayfirvöld. Þá sé mikilvægt að stúlkurnar fái alla þá aðstoð sem í boði er, svo sem sálfræðiþjónustu.
Varnaraðili vísar til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 þar sem m.a. komi fram að barnavernd skuli beita vægustu ráðstöfunum sem mögulegt er til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að og grípa aðeins til íþyngjandi ráðstafana verði lögmæltum markmiðum ekki náð með öðru og vægara móti. Varnaraðili lýsi sig reiðubúna til að vera til fullrar samvinnu við sóknaraðila við framhald málsins. Að mati varnaraðila væri það í brýnni andstöðu við meðalhófsregluna ef fallist yrði á kröfu um vistun utan heimilis í allt að sex mánuði á þessum tímapunkti.
Með vísan til alls framangreinds fer varnaraðili fram á það að kröfum sóknaraðila í málinu verði hafnað og dætur varnaraðila verði þegar í stað afhentar henni.
Um varakröfu varnaraðila, um að vistun dætra varnaraðila verði markaður skemmri tími, er vísað til þeirra málsástæðna sem raktar eru hér að framan að breyttu breytanda.
Um lagarök er vísað til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4., 27., 28., 38., 41., 46. og 47. gr. þeirra laga. Þá er vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Um málskostnað er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Eins og rakið hefur verið var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness [...]. mars sl. staðfest ákvörðun sóknaraðila um að taka dætur varnaraðila, B og C, af heimili varnaraðila og vista þær á vegum sóknaraðila í tvo mánuði. Í téðum úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að stúlkurnar hafi búið við alvarlega vanrækslu í umsjón varnaraðila og að öryggi þeirra og velferð hafi verið hætta búin við óbreyttar aðstæður. Ekki var fallist á að andmæla- og rannsóknarregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin. Í úrskurði dómsins var sérstaklega vísað til þess að fyrir liggur sálfræðimat frá árinu 2012 þar sem fram kemur að báðar stúlkurnar séu með almenna námserfiðleika og þroskafrávik og þurfi því á sérstökum úrræðum að halda í skóla. Það væri því sérstaklega brýnt að þær sæki skóla. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að stuðningsúrræði hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Þau stuðningsúrræði sem hafa verið reynd eru m.a. tilsjón á heimili, óboðað eftirlit á heimili, sálfræðiviðtöl, áætlun um starfsendurhæfingu varnaraðila, sem felld var niður vegna lélegrar mætingar hennar og skorts á samvinnu, og fjárhagsaðstoð. Markmiðið með þessum úrræðum var að styðja varnaraðila í uppeldishlutverkinu og veita henni aðstoð við að koma stúlkunum í skóla og halda utan um fjármál sín, m.a. að greiða húsaleigu og semja um húsaleiguskuld, sem og að halda húsreglur í fjölbýlishúsinu og bæta líðan stúlknanna.
Í máli þessu verður að líta til þess að þrátt fyrir margvísleg stuðningsúrræði hefur varnaraðila ekki tekist að tryggja stúlkunum stöðugleika og skólasókn stúlknanna hefur verið með öllu óviðunandi og er ekki afsakanleg. Varnaraðili kom fyrir dóm og sagði að ástæðan fyrir vandanum við að koma stúlkunum í skólann lægi hjá stúlkunum en ekki hjá varnaraðila sjálfum. Hvort sem varnaraðili á við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða eða ekki þá er ljóst að hún hefur ekki getað sett stúlkunum nauðsynleg mörk. Stuðningsúrræði á vegum sóknaraðila hafa ekki borið árangur og í bréfi [...] 22. nóvember 2016 vegna mætinga stúlknanna kemur m.a. fram að varnaraðili hafi ekki staðið við neitt sem samið er um. Eftir að stúlkurnar voru teknar af heimili varnaraðila hafa þær hins vegar alltaf mætt í skólann. Vegna námserfiðleika og þroskafrávika stúlknanna er sérstaklega mikilvægt að þær mæti í skóla og fái þar aðstoð. Varnaraðili virðist ekki hafa innsæi í vandann og tekur ekki ábyrgð á honum. Þótt það kunni að vera vilji stúlknanna að vera áfram hjá varnaraðila þá er það ekki hagsmunum þeirra fyrir bestu að svo stöddu. Engir annmarkar eru á meðferð málsins sem geta leitt til þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá er með hliðsjón af gögnum málsins og því sem er komið fram í málinu ekki fallist á að forsjárhæfnismat sé nauðsynlegt til að fallast megi á kröfu sóknaraðila.
Með vísan til alls framangreinds standa brýnir hagsmunir stúlknanna til þess að þær verði vistaðar utan heimilis á vegum sóknaraðila í allt að sex mánuði, skv. 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002. Er því fallist á kröfu sóknaraðila.
Sóknaraðili gerir ekki kröfu um málskostnað en varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Rétt þykir að fella málskostnað niður. Varnaraðila var veitt gjafsókn í málinu og því greiðist allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Einars Huga Bjarnasonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin með hliðsjón af málskostnaðaryfirliti, 584.970 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Sóknaraðila, barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, er heimilt að vista stúlkurnar B og C utan heimilis varnaraðila, A, í sex mánuði, skv. 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 584.970 króna þóknun lögmanns hennar, Einars Huga Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns.