Hæstiréttur íslands

Mál nr. 261/2000


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Skaðabótamál


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. febrúar 2001.

 

Nr.  261/2000.

Anna Peggy Friðriksdóttir

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

Salvatore Torrini

Fabio Patrizi

Vali Tino Nardini og

Ítalskri ráðgjöf, tengslum og þjónustu ehf.

(Örn Clausen hrl.)

 

Hlutafélag. Skaðabótamál.

A og eiginmaður hennar áttu saman T hf. sem rak veitingahúsið Í. Þau seldu reksturinn til IT. Samið um að þau hjónin eignuðust 25% hlut í IT, auk þess sem þau fengu greiddar 30 milljónir króna fyrir reksturinn. Kaupendur töldu heildarkaupverðið hins vegar hafa numið 30 milljónum króna, en að gengið hafi verið þannig frá kaupunum að eigendur T hf. hafi hvort um sig verið skrifað fyrir 12,5% af heildarhlutafé IT til tryggingar á efndum kaupsamningsins þar sem einn fjársterkur aðili hafði gengið út úr kaupunum. A og eiginmaður hennar slitu hjúskap sínum og yfirtók A hlutabréfin í IT. A ákvað í kjölfarið að selja sinn hlut, en þá héldu eigendur IT því fram að hún ætti ekkert hlutafé. Hlutirnir hefðu einungis verið afhentir sem tímabundin tryggingarráðstöfun til efnda á greiðslum sem þegar væru að fullu greiddar. Stuttu seinna var rekstur veitingahússins seldur til félags í eigu S, F, V og X án vitnesku A og krafðist hún skaðabóta á þeim forsendum að háttsemi S, F og V hafi verið saknæm og ólögmæt og því bótaskyld. Í héraðsdómi kemur fram að umrætt kaupverð í samningaviðræðum um veitingastaðinn Í hafi verið 30 miljónir. Ekkert hafi komið fram sem styðji að kaupverðið hafi einungis verið fyrir 75% hlut. Því sé sannað að eign A og eiginmanns hennar á 25% hlut í IT hafi einungis verið tryggingarráðstöfun. Var bótakröfu A synjað. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með þeim athugasemdum að ósannað væri að A og fyrrum eiginmaður hennar hefðu lagt fram nokkra fjármuni til IT. S, F og V hefðu hins vegar unnið við veitingastaðinn allt frá því er félagið keypti hann. Kaupverðið hafi verið greitt af afrakstri veitingastaðarins, en aðilar væru sammála um að það hafi verið að fullu greitt.

 

Dómur Hæstaréttar.

      Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

      Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. júlí 2000. Hann krefst aðallega að stefndu, að félaginu undanskildu, verði gert að greiða in solidum skaðabætur að fjárhæð 9.346.307 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. maí 1999 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að viðurkennt verði með dómi að kaupsamningur 23. nóvember 1995 milli Ítalskrar ráðgjafar, tengsla og þjónustu ehf. sem seljanda og Ítalgest ehf. sem kaupanda um sölu veitingastaðarins Ítalíu að Laugavegi 11 í Reykjavík sé óskuldbindandi fyrir fyrrnefnda félagið. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda félags.

          Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

          Með kaupsamningi 31. mars 1991 seldi Trópís hf. rekstur veitingastaðarins Ítalía að Laugavegi 11 í Reykjavík ásamt viðskiptavild, tækjum og áhöldum til stefnda Ítölsk ráðgjöf, tengsl og þjónusta hf. Samkvæmt samningnum var kaupverðið 30.000.000 króna, sem greiðast skyldi á fernan hátt. Áttu 500.000 krónur að greiðast 25. apríl 1991, 8.000.000 krónur með 16. mánaðarlegum 500.000 króna greiðslum fimmta hvers mánaðar, fyrst 5. maí 1991 og í síðasta sinn 5. ágúst 1992, og 2.500.000 krónur 30. ágúst 1992. Loks átti að greiða með útgáfu veðskuldabréfa að fjárhæð samtals 8.000.000 króna tryggðum með fasteignaveði og 11.000.000 króna tryggðum með veði í innréttingum og tækjum veitingarstaðarins. Gjalddagar veðskuldabréfanna skyldu vera mánaðarlega, fyrst 15. september 1992 og síðast 15. ágúst 1996. Afhending hins selda skyldi fara fram 31. mars 1991.

           Hlutafélagið Trópís hf. var í eigu áfrýjanda og eiginmanns hennar Einars Óskarssonar. Stefndu Salvatore Torrini, Fabio Patrizi og Valur Tino Nardini munu upphaflega hafa ætlað að standa að hinu stefnda fyrirtæki ásamt Luciano Tosti, en þeir unnu allir á veitingastaðnum. Luciano féll hins vegar frá því að vera með í kaupunum á síðustu stundu. Við það urðu tryggingar seljenda fyrir efndum kaupanna lélegri en Luciano mun á þessum tíma hafa átt nýlegt einbýlishús meðan hinir bjuggu í litlum íbúðum sem voru mikið veðsettar. Varð því úr að áfrýjandi og eiginmaður hennar voru skrifuð fyrir einum fjórða hlutafjár í hinu stefnda félagi til helminga. Eru aðilar sammála um að það hafi verið gert í tryggingarskyni. Með skilnaðarsamningi 8. desember 1993 varð áfrýjandi eigandi alls hlutfjár þeirra hjóna í Trópís hf. og stefnda félaginu. Með kaupsamningi 23. nóvember 1995 seldi það félag veitingahúsið til Ítalgest hf. fyrir 16.000.000 króna. Félögin voru þá bæði undir stjórn stefndu Salvatore, Fabio og Vals Tino.

II.

         Áfrýjandi byggir skaðabótakröfu sína á því að stefndu Salvatore Torrini, Fabio Patrizi og Valur Tino Nardini hafi selt veitingastaðinn öðru hlutafélagi í eigu þeirra sjálfra og hafi þeir sjálfir verið í stjórn beggja félaganna. Háttsemi þeirra sé skýlaust brot á 48. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hafi hún verið bæði saknæm og ólögmæt, en samkvæmt 1. mgr. 51. gr. sömu laga hafi stjórninni ekki verið heimilt  að gera nokkrar þær ráðstafanir sem bersýnilega væru til þess fallnar að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Háttsemi þeirra sé því bótaskyld samkvæmt 108. gr. laganna og almennu skaðabótareglunni.

         Í héraði var fjárhæð skaðabótakröfunnar byggð á því að áfrýjandi og eiginmaður hennar hefðu aðeins selt 75% veitingahússins fyrir 30.000.000 króna, en verðgildi veitingahússins hafi við söluna numið 40.000.000 krónum. Var krafa hennar miðuð við 25% af þeirri fjárhæð framreiknaðri til þingfestingardags. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá þessum grundvelli kröfu sinnar og miðar hana við kaupverðið samkvæmt samningnum 31. mars 1991. Telur hún sig hafa orðið fyrir tjóni við sölu veitingastaðarins 23. nóvember 1995, sem nemi 25% af 30.000.000 krónum framreiknuðum til þingfestingardags.

          Af hálfu stefndu er því haldið fram, að þar sem áfrýjandi og eiginmaður hennar hafi verið skrifuð fyrir hlutafénu til tryggingar efndum kaupsamningsins, hafi þau aðeins átt að vera hluthafar þar til skuldbréf hefðu verið útgefin og allar aðrar greiðslur greiddar eða til 30. ágúst 1992. Kaupsamningurinn hafi verið efndur að fullu. Af því leiði að áfrýjandi hafi ekki orðið fyrir nokkru tjóni.

III.

          Í héraðsdómi er það rakið að stefndu Salvatore Torrini, Fabio Patrizi og Valur Tino Nardini styðja málstað sinn framburði Luciano Tosti fyrir dómi, en hann kvaðst hafa hlustað á viðræður aðila um kaupin á veitingastaðnum, og dómsframburð Einars Óskarssonar fyrrum eiginmanns áfrýjanda, sem tók þátt í sölu hans ásamt áfrýjanda. Þá styðjast þeir einnig við framburð Gunnars Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, sem sá um gerð skilnaðarsamningsins 8. desember 1993 fyrir áfrýjanda, en hann bar fyrir dómi að hlutabréf í stefnda félaginu hafi þá verið verðlaus í augum áfrýjanda og eiginmanns hennar. Þessir framburður verður ekki hrakinn af framburði vitnanna Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, sem sá um gerð kaupsamningsins og stofnsamnings hlutafélagsins, og Guðmundar Friðriks Sigurðssonar endurskoðanda, þar sem hvorugur þeirra var viðstaddur viðræður aðila kaupsamningsins á veitingastaðnum, þar sem þær munu hafa farið fram. Ósannað er að áfrýjandi og fyrrum eiginmaður hennar hafi lagt fram nokkra fjármuni til hins stefnda félags. Stefndu hafa hins vegar unnið við veitingastaðinn allt frá því er félagið keypti hann. Kaupverðið var greitt af afrakstri veitingastaðarins en aðilar eru sammála um að það hafi að fullu verið greitt. Með þessum athugasemdum en annars með vísan til raka héraðsdóms ber að staðfesta hann í aðalsök og gagnsök.

           Samkvæmt þessari niðurstöðu ber áfrýjanda að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Anna Peggy Friðriksdóttir, greiði stefndu, Salvatore Torrini, Fabio Patrizi, Vali Tino Nardini og Ítalskri ráðgjöf, tengslum og þjónustu ehf., sameiginlega 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. apríl 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. mars sl., er höfðað með stefnu þingfestri 29. maí 1999 af Önnu Peggy Friðriksdóttur, veitingahúseiganda, 10285 Young Road, Chilliwack, Kanada gegn Salvatore Torrini, Selásbraut 42, Reykjavík, Fabio Patrizi, Melgerði 23, Reykjavík og Vali Tino Nardini, Bollagörðum 105, Seltjarnarnesi, öllum persónulega og f.h. Ítalskrar ráðgjafar, tengsla og þjónustu ehf., Laugavegi 11, Reykjavík.

Með gagnstefnu, þingfestri 29. júní 1999 höfðuðu aðalstefndu, Salvatore Torrini, Fabio Patrizi og Valur Tino Nardini gagnsök í málinu á hendur stefnanda, Önnu Peggý Friðriksdóttur.

Dómkröfur

Aðalsök

Aðalkrafa stefnanda er að stefndu, að undanskildu félaginu, verði persónulega dæmdir in solidum til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 12.461.743 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 27. maí 1999 til greiðsludags og málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Verði aðalkrafa stefnanda ekki tekin til greinar er varakrafa hans sú, að því er varðar félagið Ítalska ráðgjöf tengsl og þjónustu ehf. sérstaklega, að staðfest verði með dómi ógildi kaupsamnings, dags. 23. nóvember 1995, milli félagsins sem seljanda og Ítalgest ehf. sem kaupanda, um sölu á veitingastaðnum Ítalíu, Laugavegi 11, Reykjavík, ásamt því sem fylgir og fylgja ber, allt samkvæmt því sem nánar greinir í kaupsamningnum.  Þá gerir stefnandi kröfu um að þessi stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefndu eru aðallega þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda í málinu en til vara gera stefndu, Salvatore Torrini, Fabio Patrizi og Valur Tino Nardini, þá kröfu að aðalkrafan í málinu verði verulega lækkuð.

Þá krefjast stefndu þess að þeim verði dæmdur málskostnaður samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Gagnsök

Dómkröfur gagnstefnenda, Salvatore Torrini, Fabio Patrizi og Vals Tino Nardini, eru þær að viðurkennt verði með dómi óskorað eignarhald hvers þeirra til þriðjungs af öllu hlutafé gagnstefndu, Önnu Peggýar Friðriksdóttur, í einkahlutafélaginu Ítalskri ráðgjöf, tengslum og þjónustu.  Þá krefjast þeir málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Gagnstefnda krefst þess að kröfum gagnstefnenda verði hafnað.  Þá krefst hún málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málsatvik í aðalsök og gagnsök

Aðalstefnandi og fyrrverandi eiginmaður hennar, Einar Óskarsson, áttu saman hlutafélagið Trópís.  Félagið rak veitingahúsið Ítalíu að Laugavegi 11 í Reykjavík.  Með kaupsamningi, dags. 31. mars 1991, seldi Tropís hf. hlutafélaginu Ítölsk ráðgjöf, tengsl og þjónusta, skammstafað Ítalcom ehf.  Samkvæmt tilkynningu til Hlutafélagaskrár voru aðalstefndu, aðalstefnandi og Einar Óskarsson stofnendur félagsins.  Hlutafé var 400.000 krónur.  Tilgangur félagsins, samkvæmt tilkynningunni, skyldi vera veitingarekstur, ráðgjöf og annar skyldur rekstur. 

Aðalstefnandi heldur því fram að í byrjun hafi til staðið að selja allan reksturinn en þar sem kaupandinn hafi ekki getað lagt fram nægilegar tryggingar, að mati seljanda, hafi niðurstaðan orðið sú að þau hafi selt 75% rekstursins en hafi haldið eftir 25%.  Hafi málið verið leyst þannig að þau stofnuðu og gerðust hluthafar að 25% hlut í Ítalcom ehf. á móti 75% hlut hinna nýju kaupenda, sem saman hafi því myndað meirihluta. Hafi kaupverðið verið 30 milljónir fyrir 75% hlut í veitingahúsinu.  Hafi aðalstefndu eftir það séð um daglegan rekstur veitingastaðarins.

Af hálfu aðalstefndu er því haldið fram að heildarkaupverðið hafi numið 30 milljónum króna. 

Aðalstefndu Salvatore, Fabio og Valur Tino, voru starfsmenn Trópís hf. og störfuðu við veitingahúsið.  Nokkur aðdragandi var að umræddum kaupum en þessir stefndu ásamt Luciano Tosti höfðu áhuga á því að kaupa veitingahúsið af Trópís hf.  Átti kaupverðið að vera 30 milljónir króna. 

Aðalstefndu halda því fram að ákveðið hefði verið í samráði við stefnanda og mann hennar, Einar Óskarsson, að vegna kaupanna yrði stofnað hlutafélag, með lágmarkshlutafé, sem yrði kaupandi að veitingahúsinu, en fjárhagsleg ábyrgð vegna kaupanna yrði á herðum þeirra fjórmenninga. Þeir yrðu starfsmenn við reksturinn og gerðu fjármögnun kaupanna mögulega með því að vinna kauplítið fyrst í stað.  Jafnframt myndu þeir ábyrgjast kaupverðið með veðsetningum persónulegra eigna sinna og með persónuábyrgðum.

Langt var komið með að ljúka kaupunum þegar Luciano og kona hans hættu við kaupin.   aðalstefndu halda því fram að áfram hafi verið talað um sama verð eða  30 milljónir, en vegna þess að nú hafi  þeir þrír staðið eftir, Salvatore, Fabio og Valur Tino, og tryggingar til efnda kaupsamningnum eitthvað minni, vegna þess að Luciano og kona hans voru ekki með lengur, hafi verið gengið frá kaupunum með þeirri breytingu að eigendur Trópís hf., aðalstefnandi og Einar Óskarsson, hafi nú hvort um sig verið skrifuð fyrir 12.5% af heildarhlutafé kaupandans, Ítalcom ehf.  Hafi samningur þeirra þremenninga, félagsins, aðalstefnanda og Einars Óskarssonar, verið þess efnis að þau hjónin skyldu einvörðungu vera skráð fyrir þessum hlutum til tryggingar efndum kaupsamningsins.  Þegar búið væri að inna kaupverðið af höndum samkvæmt 1. - 3. lið samningsins skyldu þau afsala þeim þremenningum, Salvatore, Fabio og Vali Tino, sínum eignarhlutum að jöfnu. Þá skyldu þau tvö og vera "silent partners", eins og það var orðað, þar til samningurinn yrði uppfylltur samkvæmt framansögðu. Þessi samningur hafi verið munnlegur.

Stefnandi og Einar Óskarsson slitu hjúskap sínum á árinu 1993.  Samkvæmt 2. tl. 5. gr. samnings um skilnaðarkjör milli þeirra, dags. 8. desember 1993, yfirtók stefnandi “hlutabréf mannsins í Trópís hf. og Ítalcom ehf. á nafnverði" eins og það er orðað í samningnum.

Aðslstefnandi heldur því fram að þeir hluthafar, sem hafi farið með meirihluta í félaginu og annast daglegan rekstur, hafi fljótlega reynt að einangra hana frá rekstrinum og gert henni erfitt að fylgjast með félaginu.  M.a. hafi verið trassað að halda fundi í því árum saman. Hún hafi því viljað selja hlut sinn í félaginu en aðrir hluthafar hafi engan áhuga sýnt á því að kaupa af henni. 

Með bréfi, dags. 18. júlí 1996, tilkynnti aðalstefnandi stjórn félagsins að hún hefði ákveðið að selja hlut sinn í félaginu að nafnverði 100.000.00 krónur fyrir 7 milljónir.  Með bréfinu fylgdi kauptilboð dags. 15. júlí 1996.  Óskaði stefnandi þess að stjórnin tæki afstöðu til þess hvort hún myndi nýta sér forkaupsrétt eða kynna það þeim hluthöfum sem nytu forkaupsréttar.

Svar barst við bréfi aðalstefnanda með bréfi lögmanns Ítalcom ehf., dags. 25. september 1996.  Í bréfinu er því haldið fram að aðalstefnandi eigi ekki þau hlutabréf sem hún hugðist selja.  Var í því sambandi m.a. vísað til yfirlýsingar fyrrum eiginmanns aðalstefnanda, Einars Óskarssonar, dags. 21. september 1994, og vísað til þess að hann hefði með þeirri yfirlýsingu afsalað hlut sínum í félaginu samkvæmt því sem þar greini nánar.  Í nefndri yfirlýsingu er því haldið fram að þrátt fyrir að það hafi ekki verið tekið fram í kaupsamningi, hafi Einar, ásamt aðalstefnanda, fengið afhent án endurgjalds og sem tryggingarráðstöfun til efnda á kaupsamningi aðila, dags. 31. mars 1991, eignarhald á 2 x 50.000 króna hlutafé í Ítalcom ehf., hlutafélagi kaupanda, eða sem samsvari samtals 25% af heildarhlutafé ásamt aðild að stjórn félagsins.  Síðan segir: "Tryggingarráðstöfun þessi var tímabundin og ætlað að hafa gildi þar til greiðslur skv. tl. l. - 3. væru að fullu greidddar í samræmi við ákvæði kaupsamningsins.  Þegar kaupandi hefði greitt ofantaldar greiðslur, bar okkur því báðum að afsala okkur "eignarhlutum" þessum til þeirra Davíðs Eiríkssonar kt. 090646-8429, Vals Tino Nardini kt. 170853-7689 og Fabio Patrizi kt. 091254-8089 eða aðila sem þeir vísuðu til, og láta af öllum trúnaðarstörfum sem við gengdum fyrir félagið.  Í samræmi við ofangreint og þar sem kaupendur hafa að fullu staðið skil á greiðslum skv. 1. - 3. tl. kaupsamnings dags. 31.03. 1991, þá hef ég nú afsalað eignarhluta mínum að nafnverði kr. 50.000.00 til kaupanda. "

Hinn 20. maí 1997 áttu lögmenn aðila fund og upplýsti þá lögmaður Ítalcom ehf. að veitingarekstur veitingahússins Ítalíu hefði verið seldur út úr félaginu fyrir ca. 16 milljónir í nóvember 1995.  Upplýst var að kaupandi hefði verið Ítalgest ehf.  Eigendur þess eru stefndu ásamt Valtý Sker. 

Daginn eftir fundinn óskaði lögmaður aðalstefnanda með bréfi til lögmanns aðalstefndu eftir því að nánari upplýsingar yrðu veittar um söluna, þ.e. verð, greiðslukjör, yfirtekin lán, ef um þau væri að ræða, og hvernig stofnað hefði verið til þeirra, ástæður sölunnar, hvernig söluverðið hafi verið fundið, hvaða rekstur félagið hefði með höndum eftir söluna og hvernig söluverðinu hefði verið ráðstafað.  Var jafnframt skorað á lögmanninn að senda ljósrit af kaupsamningnum.  Svar barst ekki við erindinu.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 4. júlí 1997,  voru ítrekuð tilmæli í bréfinu frá 21. maí 1997 um nánari upplýsingar um söluna.  Þá var vakin athygli á þar nánar tilgreindum ákvæðum hlutafélagalaga sem aðalstefnandi taldi að hefðu verið brotin með sölunni og að stjórnarmenn kynnu að verða taldir skaðabótaskyldir vegna háttsemi sinnar.  Jafnframt var vakin á því athygli að fundir hefðu ekki verið haldnir í félaginu um langt skeið, hvorki fyrir söluna né eftir hana.  Stefnandi teldi því augljóst að verið væri vísvítandi að reyna að leyna gerningnum.  Var skorað á stjórnina að halda hluthafafund í félaginu til þess að upplýsa hluthafa um söluna en að öðrum kosti yrði leitað atbeina hlutafélagaskrár (ráðherra) til að boða til fundar í félaginu.

Með bréfi lögmanns aðalstefndu, dags. 21. júlí 1997, var beðist afsökunar á því að ekki hefðu borist svör við fyrrnefndum bréfum, en svarbréf boðað að loknu sumarleyfi í byrjun ágúst sama ár.  Er svör bárust ekki við fyrirspurnum lögmanns stefnanda, óskaði aðalstefnandi, með bréfi dags. 18. nóvember 1997, atbeina ráðherra til þess að boða til fundar í félaginu.  Með bréfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 2. desember 1997 til formanns stjórnar Ítalcom ehf. var þess óskað að svör, m.a. um fyrirhugaðan hluthafafund, bærust ráðuneytinu í síðasta lagi 12. desember 1997.

Atbeini ráðuneytisins varð til þess að aðalfundur var boðaður í félaginu með bréfi, dags. 28. nóvember 1997.  Hinn 19. desember 1997 var aðalfundur haldinn í félaginu. Voru þar mættir fulltrúar allra hluthafa félagsins.  Samkvæmt fundargerð var á fundinum m.a. annars lagt fram afrit kaupsamnings, dags. 23. nóvember 1995, um sölu eigna Ítalcom ehf. til Ítalgest ehf.  Gerðu fulltrúar stefnanda athugasemdir við að hún hefði ekki verið látin vita um söluna fyrr en á fundi lögmanna aðila sumarið áður.  Kom m.a. fram að aðrir hluthafar hafi ekki talið þörf á að halda hluthafafund um söluna.  Þá kom fram að Ítalgest ehf. væri í eigu sömu eigenda og Ítalcom ehf., að undanskyldum stefnanda.  Rætt var um skráða hluthafa félagsins.  Fram kom að skráðir eigendur félagsins, aðrir en stefnandi, hafi fullyrt að hlutaeign hennar og Einars Óskarssonar hafi aðeins verið tryggingarráðstöfun vegna kaupa félagsins á Veitingahúsinu Ítalíu ehf. af Trópís ehf.  Hafi stefnandi og Einar átt að afsala öðrum hluthöfum að jöfnu hlutafé sínu þegar búið væri að greiða kaupverðið upp, en kaupverðið væri löngu uppgreitt.  Skorað var á lögmann stefnanda, fyrir hennar hönd, að lýsa því yfir að hún afsali öllu hlutafé sínu til annnarra eigenda að jöfnu.  Fulltrúar stefnanda tóku fram að ástæða þess að hún hafi gerst hluthafi í Ítalcom ehf. ásamt Einari hafi verið sú að ekki hafi verið lagðar fram þær tryggingar, sem lofað hafi verið í upphafi.  Áhætta hennar hafi því orðið meiri.  Þess vegna hafi orðið að samkomulagi að hún og Einar yrðu 25% eigendur í félaginu.  Fram kom að stjórn félagsins hefði talið söluverðið vel ásættanlegt og talið að ekki hefði fengist hærra verð á almennum markaði.  Upplýst var að ekki hefði verið auglýst eftir kaupendum eða leitað til annarra hugsanlegra kaupenda.  Fulltrúar stefnanda spurðu viðstadda hluthafa, sem allir voru í stjórn félagsins, hvort þeir vildu upplýsa hverjar hefðu verið nánari ástæður sölunnar, en þeir hafi kosið að gera það ekki.  Hafi fulltrúar stefnanda skorað á stjórnina að draga söluna til baka en þeir ekki orðið við því.

Eftir framangreindan fund hafi lögmenn aðila reynt sættir í málinu en þær hafi reynst árangurslausar.

Málsástæður aðalstefnanda og gagnstefndu

Aðalstefnandi byggir á því að yfirlýsing fyrrum eiginmanns hennar frá 21. september 1994 sé ekki trúverðug og raunar hafi hún komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.  Eins og skýrt komi fram í skilnaðarsamningi á milli þeirra hafi hún átt að fá hlutabréfin í sinn hlut án þess að neinar takmarkanir væru á því.  Augljóst sé að hann geti ekki afsalað sér hlut sínum tvisvar.  Vottorð úr hlutabréfaskrá ásamt stofnskjölum félagsins beri einnig með sér að hún hafi verið einn af stofnendum félagsins, án þess að réttindi hennar væru með nokkrum hætti takmörkuð eða með öðrum hætti en annarra hluthafa.  Þá beri skattframtöl hennar, frá því að þau Einar skildu, það með sér, að hún hafi átt hlutabréfin ein.  Allt styðji þetta málatilbúnað hennar. Eina skýringin sem hún geti látið sér detta í hug á afstöðu fyrrum eiginmanns síns sé sú að hann sé að hefna sín á henni, þar sem skilnaður þeirra hafi verið mjög erfiður og þau bæði í sárum á eftir.

Aðalkröfu sína um greiðslu skaðabóta úr hendi aðalstefndu byggir aðalstefnandi á því að í stjórn Ítalcom ehf. séu aðrir hluthafar í félaginu en hún og þeir hafi vísvitandi reynt að leyna hana sölu á veitingastaðnum Ítalíu, þar sem þeir starfi allir.  Aðalstefndu hafi allir verið í stjórn félagsins þegar veitingastaðurinn hafi verið seldur.  Ekki hafi verið haldnir fundir í félaginu til að fjalla um söluna og heldur ekki aðalfundir til að fjalla um ársreikninga félagsins þar sem óhjákvæmilega hefði komið fram að veitingahúsið hefði verið selt.

Þá hafi stjórnin selt veitingastaðinn öðru hlutafélagi sem sé í eigu sömu aðila, þ.e. þeirra sjálfra.  Þeir hafi engin svör getað gefið um ástæður sölunnar þegar gengið hafi verið á þá um það á aðalfundi í félaginu hinn 19. desember 1997.  Stjórnin hafi því verið vanhæf til þess að taka ákvörðun um sölu veitingastaðarins.  Telur aðalstefnandi að augljóst sé að stjórnin hafi með þessum gerningi viljað rýra hlut hennar í félaginu og að sama skapi auka hlut sinn.

Aðalstefnandi byggir á því að ofangreind háttsemi stjórnarinnar brjóti þannig augljóslega í bága við 48. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög þar sem m.a. komi fram að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri megi ekki taka þátt í meðferð máls um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns, ef hann hafi þar verulegra hagsmuna að gæta sem kunni að fara í bága við hagsmuni félagsins.  Samkvæmt greininni beri stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa um slík tilvik, sem stjórnin hafi samkvæmt framangreindu ekki gert, heldur hafi hún þvert á móti reynt að leyna þeim. Stjórninni hafi því borið að leggja málið fyrir hluthafafund sem samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laganna fari með æðsta vald í málefnum einkahlutafélags, en slíkir fundir geti samkvæmt 70. gr. laganna ekki tekið ákvörðun sem bersýnilega er til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins.

Þá byggir aðalstefnandi á því að samkvæmt 51. gr. laga nr. 138/1994 sé félagsstjórn, og öðrum þeim sem hafi heimild til að koma fram fyrir félagið, óheimilt að gera nokkrar þær ráðstafanir sem bersýnilega séu fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins, en fyrrgreindur gerningur stjórnarinnar standi einmitt til þess.

Aðalstefnandi byggir og á því að kaupverð veitingastaðarins hafi verið mjög lágt eða 16 milljónir króna, og skipst þannig að 500.000 krónur hafi verið vegna nafnsins og viðskiptavildar, en 15,5 milljónir króna vegna keypts lausafjár og tækja. Verðið sé mjög lágt þar sem um sé að ræða eitt allra vinsælasta veitingahús landsins. Verðið fyrir viðskiptavild og nafn félagsins sé beinlínis ótrúlegt og í engu samræmi við mögulegt markaðsverð veitingastaðarins.  Augljóst sé að viðskiptavild sé það sem máli skipti þegar verðmat fari fram á veitingahúsum.  Veitingahús sé ekki það sama og veitingahús.  Í raun sé ekkert verið að greiða fyrir viðskiptavildina.  Verðið sé í raun sambærilegt við það að verið sé að stofna nýtt veitingahús frá grunni þar sem nánast eingöngu sé greitt fyrir lausafé og tæki.  Þannig sé hlutur stefnanda í Ítalcom ehf. algerlega fyrir borð borinn og félagið nú einskis virði þar sem veitingastaðurinn hafi verið seldur.  Þá sé söluverðið í engu samræmi við það verð sem greitt hafi verið fyrir veitingahúsið á sínum tíma.  Samkvæmt kaupsamningi, dags. 28. febrúar 1989, hafi hlutafélag hennar og fyrrum eiginmanns hennar keypt veitingahúsið fyrir 14.730.000 króna.  Samkvæmt kauptilboði, dags. 16. janúar 1990 hafi þau fengið tilboð í veitingastaðinn upp á 24 milljónir króna, sem þau hafi ekki viljað taka.  Þau hafi síðan rifið veitingahúsið upp og m.a. innréttað veitingasal á 2. hæð hússins sumarið 1990. Samkvæmt kaupsamningi, dags. 31. mars 1991, hafi félag aðalstefnanda og þáverandi eiginmanns hennar selt Ítalcom ehf. veitingahúsið. Kaupverðið hafi verið 30 milljónir króna fyrir 75% hlut í veitingahúsinu og ef eitthvað sé hafi verðgildi þess aukist og það fest sig í sessi á markaðnum síðan.  Sú staðreynd leiði ennþá frekari líkur að því að hagsmunir aðalstefnanda hafi verið fyrir borð bornir.

Aðalstefnandi telur með vísan til framangreinds að stjórn félagsins hafi valdið henni tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti.  Hún eigi því samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög bótakröfu á hendur stjórn félagsins, en í henni sitji allir aðalstefndu sem jafnframt séu einu hluthafarnir í félaginu ásamt henni.

Telur aðalstefnandi að aðalstefndu hafi í raun dregið sér hlut hennar í skilningi hegningarlaga með því að "selja veitingastaðinn sjálfum sér" á allt of lágu verði.  Brot þeirra sé því í raun refsivert.

Aðalstefnandi kveður bótakröfuna þannig fundna að miðað sé við framreiknað kaupverð sem fékkst fyrir staðinn þegar fyrirtæki stefnanda seldi hann hinn 31. mars 1991, þ.e. 30 milljónir króna fyrir 75% staðarins eða 40 milljónir króna fyrir hann allan.  25% hlutur stefnanda sé því 10 milljónir króna framreiknað frá 3l.mars 1991 til þingfestingardags, hinn 27. maí 1999, miðað við vísitölu neysluverðs, þ.e. 10 milljónir króna x 187,3 (maí 1999) / 150,3 (mars 1991) = kr. 12.461.743 krónur.   Dráttarvaxta sé krafist frá þingfestingardegi til greiðsludags.

Varakröfu sína styður aðalstefnandi við sömu sjónarmið og fram koma í umfjöllun um aðalkröfu.  Háttsemi stjórnar félagsins hafi verið ólögmæt.  Hún hafi farið út fyrir þær takmarkanir sem henni séu settar í lögum, sbr. t.d. 48. og 51. gr. laga nr. 138/1994.  Viðsemjandinn, Ítalgest ehf., sem hafi verið í eigu þessara sömu stjórnarmanna, hafi vitað um heimildarskortinn.  Samningurinn sé því óskuldbindandi fyrir Ítalcom ehf., sbr. 2. tl. l. mgr. 52. gr. sömu laga.  Fulltrúar stefnanda hafi um leið og samningurinn barst þeim í hendur, á aðalfundi þess hinn 19. desember 1997, skorað á stjórn félagsins að draga hann til baka, eins og skýrt komi fram í fundargerð af fundinum.  Við því hafi stjórnin ekki orðið og haldið sínu striki eins og ekkert hefði í skorist.  Aðalstefnanda sé því nauðugur sá einn kostur að láta staðfesta ógildi samningsins með dómi.

Varðandi heimild til skiptingar á kröfugerð aðalstefnanda er vísað til 2. mgr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður aðalstefnda og gagnstefnanda

Af hálfu aðalstefndu er á því byggt að kaupsamningur Trópís hf. og Ítalcom ehf. hafi verið efndur samkvæmt efni sínu.  Hinn 30. ágúst 1991 hafi liðir l - 3 í kaupsamningnum verið efndir og 4. og síðasti liður hans hinn 15. ágúst 1996.  Aldrei hefði komið til álita af hálfu aðalstefndu að ganga í kaupin ef eigendur seljanda hefðu átt að verða meðeigendur í nýja félaginu.  Seljandinn hafi fengið fullt verð fyrir hið selda og hafi auk þess, samkvæmt kaupsamningnum, haft fantatök á hinu selda, yrði ekki staðið í skilum með kaupverðið. Öll ábyrgð vegna kaupanna hafi hvílt á þremenningunum.  Veitingahúsið myndi og aldrei ganga nema þeir ynnu þar ár og eindaga.

Með yfirlýsingu sinni, dags. 21. september 1994, hafi Einar Óskarsson staðfest efni munnlega samningsins við þremenningana og félagið og hafi afsalað þeim þremur 12,5% eignarhlutanum í félaginu, sem hann hafi verið skrifaður fyrir, en áður hafi stefnandi fyrst látið að því liggja að hún hygðist ekki standa við samninginn.  Félagið hafi nú breytt hlutaskrá sinni vegna yfirlýsingar Einars.  Eftir þetta hafi atbeini stefnanda í félaginu ekki lengur snúist um það að vernda hagsmuni Trópís hf., sem seljanda, heldur að reyna að neita tilvist samningsins um eignarhald bréfanna og leita leiða til að ná meiru út úr sölunni með því að krefjast líka fjármuna fyrir bréfin, þrátt fyrir það að allir aðiljar sölunnar, þ.m.t. Einar Óskarsson, hefðu staðfest efni hins munnlega samnings.

Það sé alls ekki rétt sem fram komi í stefnu að kaupverð veitingahússins hafi verið 30 milljónir króna fyrir 75 % hlut í veitingahúsinu.  Kaupverðið fyrir allan reksturinn hafi verið 30 milljónir, eins og skýrt sé kveðið á um í samningnum, bæði í þeim viðskiptum sem Trópís hf. vildi eiga við félag í eigu þremenningana og Luciano og konu hans og síðar Ítalcom ehf., með stefnanda og fyrrverandi eiginmann hennar og þremenningana innanborðs.

Hinn 23. nóv. 1995 hafi stjórn Ítalcom ehf. ákveðið að ganga til samninga við Ítalgest ehf. um sölu á veitingahúsi sínu, en Ítalgest ehf. var m.a. í eigu þremenninganna.  Umsamið kaupverð veitingahússins hafi verið samtals 16.621.000 króna. Bókfært eigið fé félagsins hafði numið við áramót 1994/1995 1.102.169 krónum.  Heildareignir hafi numið 29.907.885 krónum og heildarskuldir 29.492.148 krónum.  Við söluna hafi því verið seldar eignir úr félaginu á 16.000.000 króna sem bókfærðar harfi verið alls á 18.485.032 krónur um áramótin áður.  Eðlileg afskrift ársins 1995 á þeim búnaði hefði átt að nema 15% af endurmetnu stofnverði hans.  Afskriftir ársins 1994 hafi numið alls 3.346.428 krónum.  Ástæður sölunnar hafi m.a. verið þær að þremenningarnir, stjórnendur og eigendur félagsins, hafi verið orðnir þreyttir á rekstrinum, félagið hafi verið mjög skuldsett, hafi skuldað um þrjátíu milljónir og hafi staðið og fallið með því að þeir félagar ynnu myrkra á milli og tækju langt frá því full laun.  Þá hafi það og haft áhrif að aðalstefnandi hafu lýst því yfir að hún ætlaði að selja þeim eða öðrum hlutabréf á háu verði, sem hún hafi ekki átt, en sem voru á hennar nafni.  Stjórn Ítalcom ehf. hafi talið söluverðið hagstætt.  Varðandi verðlagninguna megi benda á það að rekstrarumhverfi veitingahúsa hafi sífellt orðið erfiðara. Veitingahúsum í Reykjavík hafi fjölgað mjög mikið frá í mars 1991 og muni þau nú vera um 200.  Þannig hafi stjórn Ítalcom ehf. talið að verðið, sem selt var á, væri vel viðunandi og ekki hefði fengist hærra verð fyrir staðinn til annarra.  Þannig hafi hvorki félagið né hluthafar orði fyrir neinu tjóni af sölunni.  Öll stjórnin hafi verið sammála um söluna og hafi ekki talið að það þyrfti hluthafafund til að afgreiða málið.  Þannig hafi þeir þremenningar alls ekki bakað sér skaðabótaábyrgð vegna sölunnar, þrátt fyrir að kaupandinn var í þeirra eigu, vegna þess að selt hafi verið á fullu verði.  Hafi stefnandi alls ekki sannað eða leitt að því líkur að kaupverðið hafi verið of lágt.  Þá hafi alls ekki verið víst að þótt selt hefði verið á hærra verði að það hefði breytt verðlagninu á því hlutafé sem stefnandi var skráð fyrir.

Á fundi lögmanna aðalstefnanda og Ítalcom ehf. hinn 20. maí 1997 hafi aðalstefnanda verið kynnt sala veitingahússins, sem fram fór 23. nóvember 1995.  Samningurinn hafi verið efndur samkvæmt efni sínu.

Nánar varðandi útreikning stefnanda á meintu tjóni sínu vilja aðalstefndu, þremenningarnir, taka fram eftirfarandi.  Veitingahúsið Ítalía hafi hinn 31. mars 1991 verið selt Ítalcom ehf. á 30 milljónir en ekki á 40 milljónir, eins og talað sé um í stefnu.  Þá telji þeir útilokað að miða nú við þá sölu, bæði hafi kaupverðið verið langt umfram markaðsverð þá og svo hafi verð á veitingahúsum lækkað mikið frá þeim tíma til nóvember 1995 þegar hið stefnda félag hafi selt veitingahúsið til Ítalgest ehf.  Sé það m.a. vegna þess að samkeppnin á þessum markaði hafi margfaldast á þessum tíma.  Þá sé aðalstefnandi ekki skráð fyrir 25% hlut í félaginu heldur 12,5%.  Einar Óskarsson sé búinn að skila réttum eigendum þeim 12,5% sem hann hafi verið skrifaður fyrir og búinn að tilkynna félaginu um það.  Tilkynning aðalstefnanda um skilnaðarsamning sinn og Einars hafi borist félaginu löngu seinna.  Þá sé fráleitt að bera saman sölu á 100% eignarhluta í félagi eða meirihluta og 12,5% eignarhluta eða jafnvel 25% eignarhluta. Slíkur eignarhluti geti verið algjörlega verðlaus jafnvel þótt félag sé mögulega mikils virði.  Þá séu félög í veitingarekstri hér heima almennt ekki áhugaverðir kostir fyrir aðra en þá sem unnið geti við reksturinn.  Sé þetta vegna þess hve þessi rekstur sé áhættusamur.  Tilboð það sem stefnanda hafi borist 15. júlí 1996 í meint bréf sín telji aðalstefndu að hafi verið tilbúningur, enda hafi sá aðili aldrei gengið til kaupanna svo séð verði.

Aðalstefnandi telji sig hafa eignast hlutafé Einars, manns síns fyrrverandi, með skilnaðarsamningi þeirra, dags. 8. des. 1993.  Ekki hafi hún tilkynnt félaginu um þá ráðstöfun.  Með yfirlýsingu sinni til hins stefnda félags og þremenningana frá 21. sept. 1996 hafi Einar afsalað 12,5% hlut sínum í félaginu til þremenninganna.  Einnig hafi Einar staðfest efni hins munnlega samnings að öllu leyti. Þá hafi félagið breytt hlutaskrá sinni til samræmis við þá ráðstöfun.  Það hafi ekki verið fyrr en löngu seinna að stefnandi hafi framvísað seinni skilnaðarsamningi sínum til félagsins til staðfestu á meintu eignarhaldi sínu á bréfum Einars.

Stefnandi og Einar Óskarsson hafi gert annan skilnaðarsamning hinn 10. júní 1993 og hafi bréfanna í Ítalcom ehf. þar að engu verið getið.  Ekki heldur í tillögu að skilnaðarsamningi, sem stefnandi hafi lagt fram hjá sýslumanni í Reykjavík hinn 23. september 1993 og hafi verið undirritaður af henni og vottaður af lögmanni hennar.  Sé ekki að sjá að bréfin í Ítalcom ehf. hafi fyrr eða síðar í samskiptum þeirra, vegna hjónaskilnaðarins, verið talin hafa nokkurt fjárgildi.  Telja stefndu að það styðji og fullyrðingar þeirra um hinn munnlega samning um eignarhald bréfanna.

Til stuðnings kröfu sinni um sýknu vísa stefndu til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir loforða og samninga.  Einnig til IX. og XV. kafla laga nr. 138/1994.  Varðandi lækkun aðalkröfu vísa þeir m.a. til 3. mgr. 108. s.l.  Stefndu vísa til 129. og 130. gr. eml. nr. 91/1991 varðandi málskostnað.

Niðurstaða

Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár voru stofnendur hlutafélagsins Ítölsk ráðgjöf, tengsl og þjónusta, aðalstefnandi og fyrrverandi eiginmaður hennar, Einar Óskarsson, aðalstefndu Fabio Patrizi, Valur Tino Nardini, og Salvatore Torrini, en í tilkynningunni á dskj. nr. 11 er hann tilgreindur með íslensku nafni sínu, Davíð Eiríksson.

Samkvæmt kaupsamningi, dags. 31. mars 1991, keypti félagið Ítölsk ráðgjöf, tengsl og þjónusta hf., skammstafað Ítalcom ehf., veitingastaðinn Ítalíu af hlutafélaginu Trópís, sem var á þeim tíma í eigu aðalstefnanda og þáverandi eiginmanns hennar, Einars Óskarssonar.  Samkvæmt kaupsamningnum var umsamið kaupverð 30 milljónir. 

Eins og rakið er hér að framan stóð til að stefndu, Fabio, Salvatore og Valur Tino keyptu veitingastaðinn ásamt Luciano Tosti og eiginkonu hans, en þau tvö síðastnefndu hættu við kaupin á síðustu stundu svo ekkert varð úr þeim kaupum.  Upplýst er að umrætt kaupverð fyrir staðinn í þeim samningaumleitunum var 30 milljónir.

Af kaupsamningi verður ekki annað ráðið en að Ítalcom ehf. hafi með samningi þessum, fyrir 30 milljónir, verið að kaupa allan rekstur veitingastaðarins ásamt tækjum og viðskiptavild.  Ekkert hefur komið fram í málinu er styður fullyrðingar stefnanda um að kaupverðið, 30 milljónir, hafi einungis verið fyrir 75% hlut í veitingahúsinu og telst það því ósannað.

Eins og fram er komið halda aðalstefndu því fram að samhliða hinum skriflega kaupsamningi hafi verið gerður annar samningur, munnlegur.  Halda aðalstefndu því fram að hinn munnlegi samningur hafi verið þess efnis að aðalstefnandi og eiginmaður hennar skyldu vera skráð fyrir 25% af hlutafé í Ítalcom hf., einungis til tryggingar á efndum samningsins.  Þegar búið væri að greiða kaupverðið samkvæmt liðum 1 til 3 í kaupsamningi skyldu þau afsala þeim Salvatore, Fabio og Vali Tino sínum eignarhlutum í félaginu að jöfnu.  Þá skyldu þau vera “silent partners” eins og það er orðað af stefndu, en fyrir liggur að aðalstefnandi og eigninmaður hennar komu ekki nálægt rekstri veitingastaðarins eftir gerð kaupsamningsins.

Einar Óskarsson kom fyrir dóm til skýrslugjafar.  Bar hann, varðandi samningaviðræður við Luciano Tosti og aðalstefndu um kaup á veitingastaðnum, að þegar búið var að semja um kaupverðið og leggja fram tryggingar hafi Luciano hætt við.  Með því hafi þá fallið út mikilvægar tryggingar og hafi því orðið að ráði að hann og aðalstefnandi kæmu að ¼  í félaginu sem “silent partners”, eða meðeigendur sem hefðu ekkert með reksturinn að gera.  Þessi eignarhlutdeild hefði bara verið að forminu til  vegna tryggingar, þannig að þegar aðalstefndu hefðu greitt gengi 25% hlutinn til þeirra án endurgreiðslu.

Luciano Tosti kom fyrir dóm til skýrslugjafar.  Hann lýsti því að samningaviðræður vegna sölu veitingastaðarins hefðu farið fram á veitingastaðnum.  Eftir að útséð var að hann yrði ekki aðili að kaupsamningi um veitingastaðinn kvaðst hann hafa dvalið áfram á staðnum og hafi fylgst með því sem fram fór milli málsaðila.  Kvaðst hann hafa verið staddur í eldhúsinu inn af veitingasalnum og kvaðst hafa heyrt það sem fram fór á milli aðila.  Er framburður hans samhljóða framburði Einars Óskarssonar varðandi það að aðalstefnandi og eiginmaður hennar hafi ákveðið að halda eftir 25% eignarhlut sem þau myndu síðan afhenda þegar þeir, aðalstefndu, væru búnir að borga.

Í skilnaðarsamningi aðalstefnanda og Einars Óskarssonar er tekið fram að konan yfirtaki hlutabréf mannsins í Trópís hf. og Ítlacom ehf. á nafnverði.  Fyrir dómi bar Einar, aðspurður um þessi hlutabréf í Ítalcom ehf., að þau hafi bara verið pro forma eða til málamynda.  Þau hafi ekki skipt hann máli þar sem þau hafi verið verðlaus.

Gunnar Guðmundsson héraðsdómslögmaður annaðist gerð samnings um skilnaðarkjör þegar aðalstefnandi og eiginmaður hennar slitu samvistum.  Gunnar kom fyrir dóminn til skýrslugjafar.  Bar hann að aldrei hefði komið til ágreinings vegna þessara bréfa þar sem þau hefðu verið verðlaus í augum aðalstefnanda og eiginmanns hennar.  Hvergi væri lagt verðmætamat á þessi hlutabréf, sem tilgreind eru í endanlegum skilnaðarsamningi.  Hann kvað hafa verið rætt mjög ítarlega um allar eigur búsins og hefði það komið skýrlega fram hefðu einhver verðmæti verið í bréfunum.

Þegar framanritað er virt verður að telja sannað að það fyrirkomulag að aðalstefnandi og fyrrverandi eiginmaður hennar skyldu eiga 25% hlut í Ítalcom ehf. hafi verið til málamynda að því leyti að þessi hlutafjáreign var ekki raunveruleg heldur einungis tryggingarráðstöfun.  Telst því sannað að munnlegur samningur hafi komist á, þess efnis sem aðalstefndu halda fram í máli þessu og sem jafnframt kemur fram í yfirlýsingu Einars Óskarssonar, að aðalstefnandi og Einar Óskarsson hafi fengið afhent sem tryggingarráðstöfun 25% hlutafé í Ítalcom ehf. og að tryggingarráðstöfun þessi væri tímabundin eða skyldi vera í gildi þar til greiðslur samkvæmt lið 1 til 3 í kaupsamningi væru að fullu greiddar.

Fyrir liggur, samkvæmt framlögðum samningi um skilnaðarkjör, sem dags. er 8. desember 1993, að aðalstefnandi yfirtók hlutabréf Einars Óskarssonar í Ítalcom ehf.  Formlega hafði Einar þannig afsalað til aðalstefnanda sínum hlut, sem hann átti samkvæmt hinu munnlega samkomulagi, í félaginu.  Formlega gat hann því ekki eftir það afsalað sínum hlut í félaginu til aðalstefndu.  Telst yfirlýsing hans frá 21. september 1994 því þýðingarlaus að þessu leyti.

Af hálfu aðalstefndu er því haldið fram að þeir hafi að fullu efnt kaupsamning frá 31. mars 1991 og er því ómótmælt.

Samkvæmt framansögðu var aðalstefnandi aldrei raunverulegur hluthafi í hlutafélaginu Ítalcom heldur einungis skráð sem hluthafi til málamynda, sem tryggingarráðstöfun.  Hún tók hvorki þátt í rekstri veitingastaðarins né stjórn félagsins.  Telja verður því að stjórn félagsins og raunverulegir hluthafar hafi ekki verið vanhæfir til þess að taka ákvörðun um sölu veitingastaðarins til Ítalgest ehf. án samráðs við hana.  Er ekki fallist á að lög um einkahlutafélög hafi verið brotin að því er stefnanda varðar.

Þegar framanritað er virt þykir aðalstefnandi ekki hafa sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir tjóni sem aðalstefndu beri skaðabótaábyrgð á.  Ber því að sýkna aðalstefndu af aðalkröfu aðalstefnanda.  Með framangreindum rökum er einnig hafnað varakröfu aðalstefnanda um staðfestingu á ógildi kaupsamnings milli Ítalcom ehf. og Ítalgest ehf. frá 23. nóvember 1995.

Samkvæmt hinu munnlega samkomulagi milli aðila máls þessa skyldi hlutur aðalstefnanda í Ítalcom ehf. renna til aðalstefndu þegar ákvæði 1. til 3. liðar kaupsamnings hefðu verið efnd.  Fyrir liggur að svo er.  Ber því að taka til greina kröfur gagnstefnenda í gagnsök um viðurkenningu á því að þeir eigi óskorað eignarhald á hlutafé gagnstefndu í Ítalcom ehf, hver að einum þriðja.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber aðalstefnanda og gagnstefndu að greiða aðalstefndu og gagnstefnendum 500.000 krónur í málskostnað í aðalsök og gagnsök.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu í aðalsök, Salvatore Torrini, Fabio Patrizi og Valur Tino Nardini, persónulega og fyrir hönd Ítalskrar ráðgjafar, tengsla og þjónustu ehf., skulu vera sýknir af aðalkröfu og varakröfu aðalstefnanda, Önnu Peggýar Friðriksdóttur.

Viðurkennd er sú krafa gagnstefnenda, Salvatore Torrini, Fabio Patrizi og Vals Tino Nardini, að þeir eigi óskorað eignarhald, hver að einum þriðja, af öllu hlutafé gagnstefndu, Önnu Peggýar Friðriksdóttur, í einkahlutafélaginu Ítalskri ráðgjöf, tengslum og þjónustu.

Aðalstefnandi og gagnstefnda greiði aðalstefndu og gagnstefnendum 500.000 krónur í málskostnað í aðalsök og gagnsök.