Hæstiréttur íslands
Mál nr. 301/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Fimmtudaginn 30. apríl 2015. |
|
Nr. 301/2015.
|
A (Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl.) gegn Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar (Ólafur Helgi Árnason hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins 16. sama mánaðar um nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum talsmanni sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins, frá 16. apríl 2015 um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi. Ákvörðun héraðsdóms um málskostnað skal vera óröskuð.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. apríl 2015.
Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 20. apríl 2015, hefur sóknaraðili, A, kt. [...], [...], krafist þess að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins dagsett 16. apríl 2015, um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi í 21 dag, með vísan til 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga
Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl. var skipaður talsmaður sóknaraðila samkvæmt 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
I
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð B geðlæknis dagsett 15. apríl 2015 sem fylgdi beiðni um nauðungarvistun. Í því kemur fram að sóknaraðili hafi komið í lögreglufylgd vegna undarlegrar hegðunar en hann hafði gengið um götur nakinn. Hafi sóknaraðili verið fluttur á geðgjörgæslu þann 14. apríl sl., verið æstur og slegið til starfsfólks. Mun hafa neytt fíkniefna. Einkenni samræmist geðrofi með miklum hugsanatruflunum og ranghugmyndum. Vegna ástands sóknaraðila sé óhjákvæmilegt að vista hann nauðugan svo tryggja megi öryggi hans og umhverfi hans og veita honum viðeigandi meðferð.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð C geðlæknis dags. 20. apríl 2015. Í því kemur fram að sóknaraðili sé með miklar ranghugmyndir um að hann sé Guð og gefi skrýtnar og óljósar sögur og hafi sýnt af sér ofbeldishegðun á deild. Hafi ekki áður verið greindur með geðsjúkdóm. Í áliti læknisins kemur fram að telja verði að aukin notkun á kannabis hafi ýtt undir veikindi. Þrátt fyrir öfluga meðferð í viku og viðbótar endurteknar nauðungarsprautur hafi einkenni hans fyrst á síðasta sólarhring farið að þokast í rétta átt. Enn ríkuleg einkenni örlyndis með geðrofseinkennum og innsæi mjög takmarkað. Óumflýjanlegt að halda áfram nauðungarvistun um sinn þar sem án hennar væru yfirgnæfandi líkur á því að sjúklingur krefðist útskriftar og héldi áfram á sama spori með ófyrirsjáanlegum, mögulega hættulegum afleiðingum.
II
C geðlæknir sendi dóminum tilkynningu með tölvupósti dags. 21. apríl sl., þar sem fram kom að það væri mat læknisins að ekki væri óhætt að hleypa sjúklingi í dómsal vegna veikinda hans. Með vísan til 4. mgr. 11. gr. lögræðislaga fór dómari málsins á þann stað sem sóknaraðili dvelur þann 21. apríl sl. og kynnti sér ástand hans ásamt skipuðum talsmanni hans. Var það mat dómara að sóknaraðili hafi verið nokkuð yfirvegaður.
B geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti vottorð sitt dags. 15. apríl sl. Vitnið bar að hafa ekki komið að meðferð sóknaraðila síðan. Hafi hann þá metið ástand sóknaraðila alvarlegt, sóknaraðili hafi verið í geðrofsástandi, með hugsanatruflanir, ógnandi og hættulegur. Óumflýjanlegt hafi verið að nauðungarvista sóknaraðila.
C geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti vottorð sitt dags. 20. apríl sl. Læknirinn bar að hafa hitt sóknaraðila í dag. Sóknaraðili væri enn í örlyndisástandi. Mat sóknaraðila á eigin getu sé óraunhæft og sé hann enn með ranghugmyndir. Sóknaraðili sé ekki eins óútreiknanlegur í ofbeldi og fyrst þegar hann hafi komið á geðdeild þegar hann hafi látið skap sitt bitna á húsgögnum og hurðum. Eftir sitji hins vegar að þrátt fyrir meðferð í viku þá sé sóknaraðili enn ör og ekki með innsæi í ástand sitt. Ekki sé hægt að útiloka það að sóknaraðili sé enn hættulegur sjálfur sér og öðrum. Sóknaraðili geti verið yfirvegaður í viðtali, hann beri það ekki utan á sér að vera ör, en ekki þurfi að ræða við hann lengi til að komast að ranghugmyndum hans sem eru öll í „stíl“ við örlyndi. Borin undir vitnið ákvæði 19. gr. lögræðislaga, bar læknirinn að ástand sóknaraðila væri þannig að verulegar líkur séu taldar á því að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Óhjákvæmilegt sé annað en að vista sóknaraðila áfram á sjúkrahúsi og hafi þurft síðast í gærkveldi að beita þvingaðri lyfjagjöf, enda innsæi sóknaraðila lítið sem ekkert.
Lögmaður sóknaraðila krafðist þess að ósk sóknaraðila sjálfs, að felld yrði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytis, dags. 16. apríl 2015, um að sóknaraðili skuli vistast á sjúkrahúsi í 21 dag. Ekki séu skilyrði til þess að vista hann áfram, enda sé hann á batavegi. Hafi mátt rekja ástand hans og gerðir til sambandsslita, sóknaraðili hafi fengið smá bakslag en þau einkenni væru nú liðin hjá. Hafi sóknaraðili verið rólegur í því viðtali sem lögmaðurinn og dómari hafi átt með honum. Sóknaraðili hafi verið í vinnu og vilji komast út svo sem til að stunda líkamsrækt.
Lögmaður varnaraðili krafðist þess að kröfu sóknaraðila yrði hafnað og vísaði hann í því sambandi til framkominna læknisvottorða og framburða lækna fyrir dóminum. Uppfyllt séu skilyrði 19. gr. lögræðislaga um að verulegar líkur séu á að sóknaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdóm eða ástand hans þannig að jafna megi til slíks.
III
Með vísan til fyrirliggjandi læknisfræðilega raka sem fram koma í læknisvottorðum og framburðum geðlæknanna B og C fyrir dóminum, álítur dómarinn að leitt sé í ljós að ástand sóknaraðila sé með þeim hætti að verulegur líkur séu á því að hann sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi og að brýn nauðsyn sé til þess að sóknaraðili dvelji áfram á sjúkrahúsi þar sem tryggja megi sóknaraðila áframhaldandi viðeigandi meðferð. Ber því með vísan til 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, að ákveða að ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 16. apríl 2015 haldist.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Ingu Lillý Brynjólfsdóttur hdl., eins og segir í úrskurðarorði.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu A, um að fellt verði niður samþykki innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun hans, sem dagsett er 16. apríl 2015.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila að fjárhæð 132.000 krónur greiðist úr ríkissjóði. Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts.