Hæstiréttur íslands
Mál nr. 193/2004
Lykilorð
- Fasteign
- Eignarréttur
- Hefð
- Dánarbússkipti
|
|
Fimmtudaginn 14. október 2004. |
|
Nr. 193/2004. |
Dánarbú Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Minningarsjóði hjónanna Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar (Karl Axelsson hrl. Óskar Sigurðsson hdl.) |
Fasteign. Eignarréttur. Hefð. Dánarbússkipti.
Deilt var um spildu úr jörðinni Bjargshóli sem J, sonur hjónanna Á og D sem setið höfðu jörðina, hafði afsalað til M í desember 1988. Af hálfu dánarbús hjónanna var því haldið fram að afsal J til M hafi verið heimildarlaust, þar sem J hafi ekki verið eigandi jarðarinnar, heldur dánarbúið. Ekki var fallist á með M að sjóðurinn væri grandlaus framsalshafi samkvæmt þinglýstu afsali, en J var stofnandi M og sjóðnum hafði ekki verið skipuð stjórn þegar J afsalaði spildunni til hans. Þá var ekki fallist á að Á hafi afhent J jörðina til eignar árið 1943, líkt og haldið var fram af hálfu M, þar sem hún hafi ekki haft heimild til að ráðstafa jörðinni til J, en engin gögn voru um leyfi Á til setu í óskiptu búi eftir mann sinn. Hins vegar var talið, að J hafi verið orðinn löglegur eigandi spildunnar fyrir hefð, er hann afsalaði henni til M í desember 1988. Þá hafi hann haft óslitið umráð hennar í fullan hefðartíma og var dánarbúið ekki talið hafa sýnt fram á að þau atvik væru uppi, að ákvæði hefðarlaga útilokuðu að hann mætti vinna hefð. Var minningarsjóðurinn því sýknaður af kröfu búsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. maí 2004. Hann gerir þær dómkröfur, að viðurkennt verði að áfrýjandi sé eigandi landspildu úr landi Bjargshóls, Vestur-Húnavatnssýslu, sem talin er vera 1/10 hluti Bjargshólslands og afmarkast þannig: Af þjóðvegi að austan, Sláttulág að sunnan, merkjum milli Bjargshóls og Brekkulækjar að vestan og Landamerkjalækjar að norðan. Hann krefst þess einnig, að viðurkennt verði, að veiðihlunnindi í Miðfjarðará, sem fylgja þessari spildu, teljist eign áfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi bjuggu hjónin Ágústa Jónatansdóttir og Daníel Jónatansson á eignarjörð sinni Bjargshóli, Fremri Torfustaðahreppi í Húnavatnssýslu. Daníel andaðist 4. maí 1941 og Ágústa 1. ágúst 1947. Hjónin eignuðust 11 börn og sat sonur þeirra, Jónatan, jörðina ásamt móður sinni eftir andlát föðurins, og einn eftir hennar dag. Eftir lát Daníels voru eignir búsins skrifaðar upp en enginn frekari reki gerður að skiptum á dánarbúinu og ekki var heldur hlutast til um skipti eftir fráfall Ágústu. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. apríl 2000 var ákveðið, að opinber skipti skyldu fara fram á dánarbúi hjónanna.
Samkvæmt gögnum málsins bjó Jónatan Daníelsson á jörðinni frá 1943 og fór með hana sem sína eign. Frá því ári var hún skráð hans eign á skattframtali hans. Hann veðsetti jörðina sem sína eignarjörð 1954, og árið 1957 var yfirlýsing Benedikts H. Líndal hreppstjóra þinglýst athugasemdalaust sem eignarheimild hans að jörðinni. Eftir það veðsetti Jónatan jörðina í að minnsta kosti sex skipti á árunum 1958 til 1969 og var þeim skjölum þinglýst athugasemdalaust. Hinn 1. október 1974 afsalaði Jónatan 9/10 hlutum jarðarinnar til Jarðasjóðs Vestur-Húnavatnssýslu og 21. desember 1988 afsalaði hann stefnda 1/10 hluta jarðarinnar, það er þeim hluta hennar, sem um er deilt í máli þessu. Þessum afsölum var einnig þinglýst án athugasemda. Jónatan andaðist árið 1993.
II.
Áfrýjandi reisir kröfu sína á því, að framangreind ráðstöfun Jónatans Daníelssonar til stefnda hafi verið heimildarlaus, þar sem Jónatan hafi ekki verið eigandi jarðarinnar. Jörðin sé eign áfrýjanda og skipti yfirlýsing hreppstjórans, sem þinglýst var sem eignarheimild Jónatans, hér ekki máli. Ekki hafi verið lagaskilyrði til þeirrar þinglýsingar, þeir sem hagsmuna áttu að gæta hafi ekki veitt umboð sitt til þess og skort hafi skilyrði til að ráðstafa jörðinni, þar sem dánarbúi foreldra Jónatans hafði ekki verið skipt.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að hann sé grandlaus framsalshafi spildunnar samkvæmt þinglýstu afsali frá 21. desember 1988. Fallist er á það með vísan til forsendna héraðsdóms, að stefndi geti ekki talist grandlaus framsalshafi.
Í öðru lagi telur stefndi, að Jónatan Daníelsson hafi fyrir framsal og samkomulag fengið jörðin afhenta til eignar þegar á árinu 1943. Eins og fram er komið var búi Daníels ekki skipt eftir andlát hans 1941 og engin gögn eru um það, að Ágústa ekkja hans hafi fengið leyfi til setu í óskiptu búi. Hún hafði því ekki heimild til að ráðstafa jörðinni til Jónatans. Þegar af þeirri ástæðu kemur þessi málsástæða ekki til greina.
Í þriðja lagi telur stefndi, að Jónatan hafi verið orðinn löglegur eigandi spildunnar fyrir hefð, er hann afsalaði henni í desember 1988. Ekki er annað fram komið en að Jónatan hafi haft full umráð jarðarinnar að minnsta kosti frá árinu 1947. Hann hafði því haft óslitið umráð hennar í fullan hefðartíma, er hann afsalaði spildunni til stefnda í desember 1988, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Er ósannað, að þeir, sem kallað gátu til arfs frá áfrýjanda, hafi gert athugasemdir við umráð hans yfir jörðinni. Þeir hófust ekki handa um að krefjast skipta á dánarbúinu fyrr en í febrúar 2000, þótt þeir hefðu vitað um stofnun minningarsjóðsins og afsalið til stefnda ekki síðar en í október 1990. Ekkert er fram komið, sem styður það, að Jónatan hafi fengið jörðina til ábúðar eða til láns eða á leigu. Verður ekki talið, að áfrýjandi hafi sýnt fram á, að hann hafi náð eða haldið umráðum jarðarinnar með þeim hætti, að ákvæði 2. mgr. eða 3. mgr. 2. gr. laganna útiloki það, að hann mætti vinna hefð.
Samkvæmt framansögðu er niðurstaða héraðsdóms staðfest og stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda.
Eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 2. apríl 2004.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 17. febrúar sl., var höfðað af dánarbúi hjónanna Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar á hendur Minningarsjóði hjónanna Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar, Hnjúkabyggð 33, Blönduósi.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að dánarbú hjónanna Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar sé eigandi landspildu úr landi Bjargshóls, sem talin er vera 1/10 hluti Bjargshólslands og afmarkast þannig: af þjóðvegi að austan, Sláttulág að sunnan, merkjum milli Bjargshóls og Brekkulækjar að vestan og Landamerkjalæk að norðan. Þá er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að veiðihlunnindi í Miðfjarðará, sem fylgja spildu þessari, teljist eign sama dánarbús. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi hefur ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti sem hann þarf að greiða af lögmannsþóknun.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda að teknu tilliti til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
II
Málavextir
Með úrskurði dómsins uppkveðnum 27. apríl 2000 var dánarbú hjónanna Ágústu Jónatansdóttur, sem fædd var 1. ágúst 1886 en dáin 1. ágúst 1947 og Daníels Jónatanssonar, sem fæddist 22. október 1880 en lést 4. maí 1941 tekið til opinberra skipta, en þau bjuggu að Bjargshóli, Fremri Torfustaðahreppi, Vestur-Húnavatnssýslu. Stefnandi heldur því fram að Daníel hafi keypt jörðina á árinu 1919 og rekið þar búskap allt til dauðadags en ekki hafi farið fram skipti á dánarbúi hans. Þá hafi heldur ekki farið fram skipti á dánarbúi Ágústu og af þeim sökum hafi bú þeirra verið tekið til opinberra skipta eins og áður er getið. Hjónin eignuðust 11 börn. Tvö þeirra eru enn á lífi en 6 þeirra sem eru látin eignuðust afkomendur.
Eftir andlát Daníels var bú hans skrifað upp þann 13. september 1941. Í uppskriftinni kemur m.a. fram að jörðin Bjargshóll með húsum sé metin á 5.000 krónur. Eignir eru taldar heldur minni en skuldir. Helsti kröfuhafi búsins er sagður vera sonur hjónanna Jónatan Daníelsson, en skuld dánarbúsins við hann er sögð nema tæpum 3.000 krónum. Áhvílandi veðskuldir námu rúmum 1.700 krónum. Á skattframtali Ágústu Jónatansdóttur fyrir árið 1942 er Bjargshóll skráður að andvirði 5.300 krónur en enginn bústofn er skráður hjá henni. Þá er getið skuldar við Jónatan Daníelsson að fjárhæð 3.000 krónur. Þessarar kröfu getur Jónatan í sínu skattframtali fyrir sama ár. Jafnframt skráir hann í sitt framtal allnokkurn bústofn. Á næsta skattframtali verða þær breytingar að Daníel telur Bjargshól fram sem sína eign að fjárhæð 5.300 krónur. Þá skráir hann skuld við móður sína að fjárhæð 3.000 krónur sem hann hafði á árinu áður átt kröfu á að sömu fjárhæð. Eftir þetta telur Jónatan jörðina jafnan fram sem sína eign. Fáum árum síðar eru veðskuldum aflétt af jörðinni og heldur stefndi því fram að Jónatan hafi greitt skuldirnar. Stefndi telur að framlögð skattframtöl sýni fram á að Jónatan hafi verið skráður til heimilis og sem bóndi á Bjargshóli a.m.k. frá árinu 1942.
Í lok árs 1953 veitti Jónatan Daníelsson Skúla Guðmundssyni alþingismanni umboð til að taka lán og veðsetja Bjargshól, sem í umboðinu er skráð sem eignarjörð Jónatans. Á árinu undirritaði nefndur Skúli lán og setti jörðina að veði í samræmi við umboðið. Skjölum þessum var þinglýst athugasemdalaust. Í nóvember 1957 ritaði Benedikt H. Líndal hreppstjóri Fremri-Torfastaðahrepps svohljóðandi yfirlýsingu: ,,Samkvæmt beiðni hlutaðeiganda, lýsi ég undirritaður því hér með yfir að mér er persónulega kunnugt um að Jónatan Daníelsson bóndi á Bjargshóli er réttur eigandi allrar jarðarinnar Bjargshóls í Fremri-Torfastaðahreppi, V-Hún." Skjali þessu var þinglýst þann 20. nóvember 1957 sem eignarheimild. Stefnandi telur að frá þessum tíma hafi Jónatan farið með jörðina sem sína en systkini hans hafi ekki frétt af þinglýsingu þessari fyrr en löngu síðar. Á árunum 1958 til 1969 veðsetti Jónatan jörðina nokkrum sinnum án athugasemda. Jörðin var skráð sem eign Jónatans í fasteignamati. Á árinu 1974 afsalaði Jónatan Fremri-Torfustaðarhreppi jörðinni og var afsali þinglýst án athugasemda. Við söluna undanskildi Jónatan spildu þá sem um er deilt í máli þessu en því landi afsalaði hann til stefnanda 21. desember 1988 og var því afsali þinglýst athugasemdalaust 30. desember það ár. Á þeim tíma var jarðarhlutinn kvaða- og veðbandalaus.
III
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ráðstöfun á umræddum hluta úr landi Bjargshóls hafi verið heimildarlaus þar sem Jónatan Daníelsson hafi ekki verið eigandi þess hluta jarðarinnar. Stefndi heldur því fram að yfirlýsing Benedikts H. Líndal hreppstjóra sem kölluð hefur verið eignarheimild skipti ekki máli þó svo að við þinglýsingu hennar hafi Jónatan orðið þinglýstur eigandi jarðarinnar.
Stefnandi bendir á að eignarrétturinn sé friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarkrárinnar nr. 33/1944, en á þeim tíma sem Jónatan Daníelsson gaf stefnda spilduna hafi verið í gildi samsvarandi ákvæði í 67. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi heldur því fram að jörðin sé eign dánarbúsins þrátt fyrir nefnda þinglýsta yfirlýsingu. Sökum þess að stefndi sé nú þinglýstur eigandi landspildunnar sé stefnanda brýn þörf á að afla viðurkenningardóms um eignarréttinn.
Stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína ennfremur á því að lagaskilyrði hafi ekki verið uppfyllt til að þinglýsa nefndri yfirlýsingu sem eignarheimild Jónatans Daníelssonar enda hafi enginn þeirra sem hagsmuna áttu að gæta veitt honum umboð af neinu tagi til þess. Þá hafi skort skilyrði til þess að ráðstafa jörðinni þar sem dánarbúi foreldra Jónatans hafi aldrei verið skipt.
Kröfu um málskostnað úr hendi stefnda reisir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann sé grandlaus og þinglýstur framsalshafi umræddrar fasteignar samkvæmt afsali frá 21. desember 1988. Ekki séu skilyrði til þess að fallast á viðurkenningarkröfu stefnanda. Stefnandi hefði getað gert slíka kröfu á hendur Jónatani Daníelssyni eða dánarbúi hans. Reglur eignarréttar og þinglýsingarreglur komi hins vegar í veg fyrir að slíka kröfu sé unnt að gera á hendur grandlausum þriðja manni. Jónatan hafi á árinu 1988 afsalað spildunni til stefnda. Á þeim tíma hafi hann allt frá árinu 1957 haft þinglýsta og athugasemdalausa eignarheimild fyrir jörðinni og farið með hana sem sína eign. Því hafi ekki verið ástæða fyrir stefnda að draga í efa lögmæti eignarheimildar Jónatans og hann því mátt treysta því að hann væri löglegur eigandi hins afsalaða jarðarhluta. Vísar stefndi í þessu sambandi til meginreglna eignarréttarins þ.m.t. reglna um traustfang svo og sérstaklega til 1. mgr. 25. gr., 29. gr. og 1. mgr. 33. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978.
Í annan stað byggir stefndi sýknukröfu sína á því að Jónatan Daníelsson hafi fyrir framsal og samkomulag fengið jörðina afhenta til eignar þegar á árinu 1943. Jónatan hafi á árinu 1943 yfirtekið áhvílandi veðskuldir jarðarinnar og leyst hana til sín. Í þessu sambandi bendir stefndi á að við uppskrift á dánarbúi Daníels Jónatanssonar á árinu 1941 kom fram að jörðin var metin á 5.000 krónur og þar er einnig getið skuldar við Jónatan að fjárhæð 3.000 krónur og áhvílandi veðskulda að fjárhæð 1.700 krónur. Á skattframtali ekkju Daníels, Ágústu Jónatansdóttur fyrir árið 1942, sé jörðin Bjargshóll skráð að andvirði 5.300 króna. Jafnframt er getið skuldar við Jónatan að fjárhæð 3.000 krónur en á þessum tíma er Ágústa ekki skráð fyrir neinum bústofni. Hins vegar sé Jónatan skráður fyrir verulegum bústofni í hans skattframtali fyrir sama ár, jafnframt telur hann fram sem eign 3.000 króna kröfu á móður sína. Ári síðar hafi orðið veruleg breyting á eignum og skuldum í framtali Jónatans. Hann telji Bjargshól fram sem sína eign krafa, á hendur móður hans er fallin út en hann telji nú fram sem skuld 3.000 króna kröfu sem móðir hans eigi á hann. Telur stefndi að þetta sýni svo ekki verði um villst að Jónatan keypti jörðina með því að gefa eftir 3.000 króna kröfu sína og stofna til jafnhárrar skuldar við móður sína auk þess sem hann hafi yfirtekið áhvílandi veðskuldir. Á þessu tíma hafi jörðin með byggingum verð metin á 5.300 krónur enda hafi verð jarða verið lágt í kjölfar kreppuáranna. Frá þessum tíma hafi Jónatan farið með jörðina sem sína eign en enginn ágreiningur sé um að hann sat jörðina og byggði hana upp, taldi hana ævinlega fram á skattframtölum sínum, var skráður eigandi jarðarinnar samkvæmt fasteignamati, yfirtók áhvílandi veðskuldir, setti jörðina að veði fyrir lánum sem hann tók, greiddi lögbundin gjöld af jörðinni og fór þannig alfarið með hana sem sína eign án þess að nokkur maður gerði við það athugasemdir.
Stefndi heldur því fram að á þessum árum hafi verið algengt að skort hafi á formlegan frágang og uppgjör dánarbúa og svo hafi mögulega verið við þinglýsingu afsals/yfirfærslugernings til handa Jónatan fyrir jörðinni. Frá þessu hafi hins vegar verið gengið með þinglýsingu yfirlýsingar Benedikts H. Líndal hreppstjóra á árinu 1957. Stefndi heldur því fram að engin rök hafi verið færð fyrir því að hreppstjórinn, sem átti engra hagsmuna að gæta, hafi verið að staðfesta annað en hann vissi að var rétt. Byggir stefndi á því að yfirlýsingin hafi að formi og efni verið gild og fullnægjandi eignarheimild. Bendir stefndi á að horfa verði til þess hvert hlutverk hreppstjóra var á þessum tíma við umsýslu sem þessa og hið sama megi segja um þátttöku og að komu Skúla Guðmundssonar alþingismanns að veðsetningu og lántöku Jónatans á árunum 1953-1954. Það er því mat stefnda að Jónatan hafi haft fulla heimild til að ráðstafa jarðarpartinum til stefnda eins og hann gerði í lok árs 1988.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því, teljist framangreind ráðstöfun jarðarinnar til Jónatans Daníelssonar ekki sönnuð, að Jónatan hafi löngu verið búinn að eignast jörðina fyrir hefð þegar jarðarpartinum var afsalað á árinu 1988. Slík niðurstaða samrýmist afar vel tilgangi og markmiði hefðarlaga að aðili sem skortir eignarskilríki eða sönnun fyrir þeim geti stutt eignarrétt sinn við reglur hefðarlaga. Stefndi vísar einkum til 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 og telur að skilyrði greinarinnar séu öll til staðar. Jónatan Daníelsson sem bjó á jörðinni a.m.k. frá árinu 1943 og fór með hana sem sína eign að öllu leyti án nokkurra sannanlegra athugasemda af hálfu systkina sinna eða niðja þeirra. Hann taldi jörðina fram til skatts frá og með árinu 1943, jörðin var skráð hans eign í veðmálabókum frá árinu 1957, hún var skráð hans eign í fasteignaskrám og fasteignamati, hann veðsetti jörðina og loks ráðstafaði hann jörðinni með löggerningum. Þannig sé óumdeilt að skilyrði 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga um hefðartíma og umráð séu uppfyllt. Telji stefnandi að ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga standi í vegi fyrir fullkominni hefði Jónatans þá beri hann sönnunarbyrgði fyrir því að þau atvik sem þar eru tilgreind hafi verið fyrir hendi. Stefndi heldur því fram að ekki sé mark takandi á einhliða og ósönnuðum staðhæfingum í gögnum málsins þess efnis að systkini Jónatans hafi á þessum tíma haft uppi athugasemdir vegna eignarhalds hans á jörðinni. Telur stefndi að yfirlýsingar og framburð eftirlifandi bræðra Jónatans verði að meta í ljósi þess að þeir hafi hreina aðilastöðu í málinu enda rétthafar að dánarbúi Daníels og Ágústu. Yfirlýsingu Hreggviðs Jónatanssonar er mótmælt sem óstaðfestri. Þá er því sérstaklega mótmælt að nefndur Hreggviður hafi á árinu 1941 verið búinn að greiða upp 3.000 króna skuld við Búnaðarbankann sem hvílt hafi á jörðinni. Ljósrit úr veðmálabók sýni að engin slík skuld hafi hvílt á Bjargshóli. Þá er því einnig mótmælt er fram kemur í yfirlýsingu Hreggviðs og síðan í framburði bróður hans Þóris fyrir dómi að Hreggviður og Sigurður bróðir þeirra hafi á árinu 1950 gert um það munnlegt samkomulag við Jónatan að hann fengi að sitja jörðina meðan hann vildi en eftir það yrði Bjargshóli skipt milli systkina hans. Stefndi heldur því fram að gögn málsins sýni þvert á móti ekkert annað en að Jónatan Daníelsson hafi athugasemdalaust farið með jörðina sem sína eign eins og áður er rakið. Engar athugasemdir eða mótbárur hafi komið fram þegar eignarheimild var þinglýst á árinu 1957, eða þegar hann afsalaði jörðinni til hreppsins árið 1974 og ekki heldur þegar umþrættu landi var ráðstafað á árinu 1988. Fyrstu mótbárur varðandi eignarhald Jónatans á jörðinni hafi komið fram skömmu fyrir dauða Jónatans sem lést 1993. Ekki verði annað ráðið en athugasemdirnar hafi fyrst og fremst komið fram í kjölfar óánægju tiltekinna niðja Ágústu og Daníels með starfrækslu stefnda. Stefndi heldur því fram að lögboðinn tilgangur þinglýsingar leiði til þess að yfirlýsingar þess efnis að systkini stefnanda hafi ekki ,,frétt" af þinglýsingu eignarheimildarinnar á árinu 1957 fyrr en löngu síðar, sé að engu hafandi. Þá bendir hann á að á árinu 1974 afsalaði Jónatan 9/10 hlutum jarðarinnar til sveitarfélagsins og því afsali var þinglýst án athugasemda af hálfu systkina hans eða niðja þeirra. Þá bendir stefndi á að Jónatan veðsetti jörðina í þeim tilgangi að byggja hana frekar upp en slíkt sé ekki merki um vonda trú hans um eignarhald á jörðinni. Hvað skilyrði áunninnar hefðar varðar vísar stefndi einnig til annarra sjónarmiða hans sem áður er getið að breyttum breytanda. Allt þetta leiði til þess að óhætt sé að fullyrða að Jónatan Daníelsson hafi verið réttur og löglegur eigandi þeirrar landspildu sem nú er deilt um þegar stefndi fékk partinn afsalaðan í desember 1988. Ennfremur byggir stefndi sérstaklega á áframhaldandi eignarhaldi sínu á hinni umþrættu landspildu, sbr. 3. gr. hefðarlaga. Einnig vísar stefndi til dóms Hæstaréttar frá 11. október 2001 máli sínu til stuðnings.
IV
Niðurstaða.
Ekki hafa fundist gögn um að dánarbúi Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar hafi í raun verið skipt og varð það til þess að bú þeirra var tekið til opinberra skipta 27. apríl 2000.
Af hálfu stefnda er byggt á því að hann sé grandlaus framsalshafi að spildu þeirri úr landi Bjargshóls sem um er deilt í máli þessu og þeim réttindum sem henni fylgja. Samkvæmt staðfestri skipulagsskrá fyrir stefnda frá árinu 1988 átti Jónatan Daníelsson að sitja í stjórn sjóðsins. Sama dag og skipulagsskráin var samþykkt undirritaði Jónatan Daníelsson undir afsal til minningarsjóðsins en á þessum tíma hafði sjóðnum ekki verið skipuð stjórn. Með afsali landspildunnar var Jónatan að framselja réttindi til stefnda. Þetta leiðir til þess að ekki verður fallist á með stefnda að hann geti með vísan til 1. mgr. 25. gr., 29. gr. og 1. mgr. 33. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 talist grandlaus framsalshafi.
Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að Jónatan Daníelsson hafi fengið Bjargshól framseldan til sín til eignar á árinu 1943. Fyrir dóminn hafa verið lögð gögn sem styðja þessa fullyrðingu stefnda. Af skattframtölum Jónatans fyrir árin 1942 og 1943 má ráða að þau ár verða verulegar breytingar á eignum hans og skuldum. Skattframtal fyrir árið 1942 ber með sér að hann á kröfu á Ágústu móður sína að fjárhæð 3.000 krónur. Þessarar kröfu er einnig getið í skattframtali Ágústu fyrir sama ár. Ári síðar telur Jónatan Bjargshól fram til skatt sem sína eign og þá á hann ekki lengur kröfu á móður sína heldur telur fram sem skuld við hana 3.000 krónur. Við uppskrift á dánarbúi Jónatans Daníelssonar í september 1941 var jörðin Bjargshóll ásamt húsum metin á 5.000 krónur. Þetta ásamt yfirlýsingu Benedikts H. Líndal hreppstjóra frá árinu 1957 sem þinglýst var sem eignarheimild á jörðina bendir sterklega til þess að Daníel hafi í raun keypt jörðina. Í október 2000 kom Þórir Daníelssonar, bróðir Jónatans, fyrir Héraðsdómi Reykjaness og gaf þar vitnaskýrslu. Hann bar að samkomulag hafi verið um að Jónatan byggi að Bjargshóli leigulaust meðan hann vildi en eftir það bæri honum að skila jörðinni til systkina sinna. Þegar horft er til þessa og þess að engir samningar eru til um framsal jarðarinnar til Jónatans svo og þess að engin gögn eru til um skipti á dánarbúi foreldra Jónatans annars eða beggja, er óvarlegt að telja sannað að Jónatan hafi keypt jörðina 1943.
Kemur þá til álita hvort Jónatan hafi eignast jörðina fyrir hefð. Ekki er um það deilt að Jónatan stóð fyrir búi að Bjargshóli eftir lát móður sinnar á árinu 1947. Skattframtöl Jónatans 1943 og síðar benda eindregið til þess að hann hafi tekið við búi að Bjargshóli árið 1942 og fyrir liggur að hann taldi jörðina fram til skatts sem sína eign allt frá árinu 1943. Þá var jörðin skráð í fasteignamati sem eign Jónatans í áratugi. Ekkert liggur fyrir um tilurð yfirlýsingar Benedikts H. Líndal hreppstjóra frá árinu 1957 en þessari yfirlýsingu var þinglýst sem eignarheimild Jónatans fyrir jörðinni. Ætla má að hreppstjórinn, sem skrifaði upp dánarbú Daníels Jónatanssonar á árinu 1941, hafi verið kunnugur málum að Bjargshóli og ólíklegt að hann hefði gefið slíka yfirlýsingu gegn betri vitund. Jónatan greiddi skatta og skyldur af jörðinni, veðsetti hana og fór í raun með hana sem sína eign allt frá árinu 1943. Skilyrðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefðartíma og umráð er því fullnægt.
Framburður Þóris Daníelssonar varðandi samkomulag um endurgjaldslausa búsetu Jónatans að Bjargshóli fær ekki aðra stoð í gögnum málsins en fram kemur í yfirlýsingu Hreggviðs bróður hans. Ekkert bendir til þess að nokkru sinni hafi hvílt 3.000 króna lán frá Búnaðarbankanum á Bjargshóli líkt Hreggviður kveðst í yfirlýsingu sinni hafa greitt skömmu eftir andlát föður þeirra. Á árinu 1974 afsalaði Jónatan, án athugasemda eða samþykkis samerfingja sinna 9/10 hlutum jarðarinnar til Jarðeignasjóðs V-Húnavatnssýslu. Þann 25. október 1990 rita Þórir og Hreggviður ásamt systkinum sínum þeim Helgu og Ragnari undir yfirlýsingu er varðar málefni minningarsjóðs foreldra þeirra. Í yfirlýsingunni kemur þrisvar sinnum fram að þau telji rétt að frá málum sjóðsins verði gengið hið allra fyrsta í samræmi við vilja Jónatans bróður þeirra. Hins vegar er ekki á það minnst að óvissa sé um eignarrétt að landinu hvað þá að þau telji sig eiga tilkall til þess þar sem erfingja að óskiptu dánarbúi foreldra sinna. Það er því álit dómsins að ákvæði 3. mgr. 2. gr. nefndra laga um hefð standi ekki í vegi fyrir því að Jónatan hafi getað eignast jörðina fyrir hefð.
Ítrekað hefur verið rakið að Jónatan taldi Bjargshól sína eign í skattframtölum, jörðin var skráð hans eign í fasteignamati, hann greiddi af henni skatta og skyldur og vann að jarðabótum og tók til þess lán með veði í jörðinni, allt í marga áratugi án nokkurra afskipta samerfingja sinna. Áðurraktar breytingar á kröfum og skuldum Jónatans og móður hans sem fram koma á skattframtölum fyrir árin 1942 og 1943 benda eindregið til þess að hann hafi keypt jörðina af móður sinni. Þetta og það hvernig Jónatan ráðskast með jörðina eftir þetta bendi eindregið til þess að hann hafi verið í góðri trú um kaup sín á jörðinni. Ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 mæla svo fyrir að maður sem náð hefur umráðum með glæp eða óráðvandlegu atferli megi ekki hefð vinna og sama eigi við ef maður fær vitneskju, áður en hefðin er fullnuð, að eignarhaldið sé þannig til komið. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það mat dómsins að nefnt ákvæði 2. mgr. 2. gr. hefðalaga standi ekki í vegi fyrir því að Jónatan hafi eignast jörðina fyrir hefð. Hér verður einnig að horfa til þess að samkvæmt áðurnefndi yfirlýsingu samerfingja Jónatans frá 25. október 1990 vissu þau á þeim tíma um stofnun minningarsjóðsins og þar með af afsali Jónatans á umþrættri landspildu. Þau aðhöfðust ekkert í rúm 9 ár en þá fyrst var óskað eftir opinberum skiptum á dánarbúi foreldara þeirra. Með þessu sýndu þau af sér verulegt tómlæti sem áhrif hefur á sönnunarbyrgði í mál þessu. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins, þar sem ákvæðum 2. gr. nefndra laga um hefð um hefðartíma er fullnægt, að Jónatan Daníelsson telst hafa eignast jörðina Bjargshól fyrir hefð sbr. 1. mgr. 6. gr. laga 46/1905.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ragnar H. Hall hrl. en af hálfu stefnda Karl Axelsson hrl.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans. Dómari og aðilar telja endurflutning óþarfan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Minningarsjóður hjónanna Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar, er sýknaður af kröfum stefnanda, dánarbús hjónanna Ágústu Jónatansdóttur og Daníels Jónatanssonar.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.