Hæstiréttur íslands
Mál nr. 602/2010
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. júní 2011. |
|
Nr. 602/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Mohamed J. Turay(Brynjar Níelsson hrl.) (Oddgeir Einarsson hdl.) (Guðmundur Ágústsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við A gegn vilja hennar, en X notfærði sér það að A gat ekki spornað við kynferðismökunum sökum svefndrunga og ölvunar og með því að hafa, er A vaknaði og reyndi að sporna við þeim, haldið henni niðri þar til hún náði að komast undan honum. Talið var að það rýrði verulega sönnunargildi framburðar X að hann hefði ekki borið á sama hátt um málsatvik frá upphafi. Var því byggt á staðfastri frásögn A, sem studd var öðrum gögnum, en hafnað á sama hátt þeirri skýringu X að kynmökin hefðu verið með vilja A. Voru brot X talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing X ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Þá var honum gert að greiða A 800.000 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu að fengnu áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar 7. október 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst aðallega sýknu og frávísunar á einkaréttarkröfu, en til vara að refsing verði milduð og fjárhæð kröfunnar lækkuð.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Mohamed J. Turay, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 548.173 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Guðmundar Ágústssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2010.
I
Málið, sem dómtekið var 10. mars síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 25. janúar 2010 á hendur „X, kennitala [...], [...], Reykjavík fyrir nauðgun með því að hafa þann 21. mars 2009 að [...], haft samræði og önnur kynferðismök við A, kennitala [...], gegn vilja hennar, en ákærði notfærði sér það að stúlkan gat ekki spornað við samræði og endaþarmsmökum sökum svefndrunga og ölvunar og með því að hafa, er stúlkan vaknaði og reyndi að sporna við endaþarmsmökunum, haldið henni niðri þar til hún náði að komast undan honum.
Telst brot ákærða varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 21. mars 2009 til 28. október 2009 en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu þóknunar við réttargæslu að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.
II
Miðvikudaginn 25. mars 2009 kærði brotaþoli ákærða til lögreglu fyrir nauðgun aðfaranótt laugardagsins 21. sama mánaðar. Brotaþoli skýrði frá því að hún hefði farið á tónleika að kvöldi föstudagsins en þar eð hún gat ekki geymt yfirhöfn sín á tónleikastaðnum hafi hún farið með hana á nálægan skemmtistað. Eftir tónleikana hafi hún svo farið að sækja yfirhöfnina og næst muni hún eftir sér í bifreið með ákærða. Um morguninn hafi hún svo vaknað, allsnakin í rúmi á heimili ákærða, við það að hann var að reyna að setja lim sinn inn í endaþarminn á henni. Hún kvaðst hafa brugðist illa við, en komist í föt og náð að hringja í vin sinn sem hafi komið og sótt hana. Hún kvaðst hafa spurt ákærða hvar hún væri og af hverju hún væri þarna en hann sagt henni að hætta að grínast. Þá hafi hann og slegið hana og hún slegið hann á móti. Eftir að hún komst frá ákærða hafi hún farið á Neyðarmóttökuna og þar hafi meðal annars komið í ljós að „túrtappinn“, en hún hafi verið með blæðingar, hafi verið í henni og þá hafi henni verið ljóst hvað gerst hefði.
Brotaþoli kvaðst hafa kynnst ákærða haustið áður á skemmtistað þar sem hann var dyravörður. Hann hafi hnippt í hana og hafi hún haldið að hann ætlaði að vísa henni út en í staðinn hafi hann beðið um símnúmer hennar. Eftir það hafi hann farið að hringja í hana og senda henni skilaboð og biðja hana um að hitta sig. Það hafi hún hins vegar aldrei gert og aldrei áður komið heim til ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa drukkið fimm bjóra, ávaxtablandað vodka og eitt staup af Tequila þetta kvöld. Þá kvaðst hún hafa fengið verkjatöflu hjá kunningja sínum.
Ákærði var fyrst yfirheyrður af lögreglu 27. mars. Hann kvaðst hafa þekkt brotaþola lengi og þau talað mikið saman og eins hist nokkrum sinnum. Á föstudagskvöldinu kvaðst hann hafa hitt hana við skemmtistað í miðbænum og hafi hún togað í hann og beðið hann að fara með sig eitthvert þar sem vinir hennar sæju ekki til. Í framhaldinu hefði hún farið með honum að bifreið hans. Þau hafi fyrst ekið vini hans heim en eftir það farið heim til hans þar sem þau hafi sofið um nóttina. Þau hafi ekki haft samfarir, enda hafi hún sagt honum að hún gæti það ekki þar eð hún væri með blæðingar. Þegar hún vaknaði morguninn eftir hafi einhver komið og sótt hana. Ákærði kvað brotaþola hafa verið ölvaða, en ekki ofurölvi.
Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu 28. september og þá bar hann fyrst eins og í fyrri yfirheyrslu að hann hefði ekki haft samfarir við brotaþola. Ákærða var þá kynnt að fundist hefðu sáðfrumur á brotaþola og kvað hann þá að þau hefðu haft samfarir en hann hefði ekki nauðgað henni. Hann kvaðst ekki hafa skýrt frá samförunum í fyrri yfirheyrslu vegna þess að hann hefði verið hræddur, hann ætti kærustu og vildi ekki að hún frétti af þessu. Nánar spurður um kynmökin kvað ákærði brotaþola hafa hitað hann upp og meðal annars dregið niður um hann buxurnar og tekið getnaðarlim hans í munn sér. Hún hafi síðan dregið niður um sig sokkabuxurnar hálfa leið og þau haft samfarir. Ákærði kvað samfarirnar hafa verið um leggöng brotaþola, en hann hefði ekki haft við hana samfarir í endaþarm. Hann kvaðst hafa dregið lim sinn út áður en honum varð sáðfall, en brotaþoli hafi sagt honum að honum mætti ekki verða sáðfall inn í sig. Ákærði kvaðst hafa fellt sæðið á líkama brotaþola.
Brotaþoli kom á Neyðarmóttökuna klukkan 12.30 á laugardeginum og þar er skráð eftir henni frásögn af því sem gerst hafði og er hún í meginatriðum í samræmi við það sem rakið var hér að framan úr skýrslu hennar hjá lögreglu. Ástandi brotaþola er lýst þannig að hún munið lítið eða ekkert, en hún gráti og henni líði illa og hún sé þreytt. Þá segir að í henni sé hrollur og hún sé með vöðvaspennu. Þá kemur fram að í leggöngum hafi fundist „túrtappi“, en hún sé að ljúka blæðingum. Loks kemur fram að mikil eymsli hafi verið í endaþarmi, bæði þegar tekið var strok og eins við þreifingu.
Læknir sem skoðaði brotaþola hefur eftir henni sömu frásögn og að framan var greind og tekur fram að hún hafi verið grátandi þegar hún sagði frá. Einnig kemur fram að tekin hafi verið sýni til DNA rannsóknar frá kynfærum og endaþarmi brotaþola og eins hafi henni verið tekið blóð. Blóðsýnið var rannsakað og kom í ljós að í því var 0,75°/°° alkóhóls. DNA sýnin voru tekin á fimm stöðum frá brotaþola: Innri skapabörmum (Labia Minor), leggangaopi, leghálsi (Cervix), kynfærum (Vagina) og endaþarmi+opi (Anus). Segir í skýrslu lögreglu að mikið af sáðfrumum hafi verið sjáanlegt í sýnunum ásamt þekjufrumum.
Framangreind sýni ásamt samanburðarsýnum frá ákærða og brotaþola voru send til rannsóknar í Ósló. Í niðurstöðum rannsóknarinnar segir að öll sýnin hafi gefið jákvæða svörun við sæðisprófum. „Sýni merkt 292821 (cervix), 292822 (vagina) og 292823 (endaþarmur+op) voru tekin til rannsóknar og komu bæði sáð- og þekjufrumur í ljós. Sýni merkt 292823 og 292823 voru þá tekin til frekari rannsóknar og frumugerðir aðskildar og greindar. Niðurstöður greiningar á sáðfrumuhluta sýnis 292822 leiddu í ljós að DNA snið sýnisins var hið sama og DNA snið grunaðs“. Þá segir að greining á þekjufrumuhluta sýnis 292822 hafi leitt í ljós „að um var að ræða blöndu DNA sniða frá a.m.k. tveim aðilum og sýndi kyngreinir að um væri að ræða kvenmann og karlmann. Meginhluta sýnisins mátti rekja til kvenmanns og var það DNA snið eins og DNA snið þolanda. Aukasamsæturnar má rekja til karlmanns, en þar sem þær komu aðeins fram í tveim lyklum er ekki hægt að nota þær upplýsingar til samkenningar. Rannsókn á sáðfrumuhluta sýnis 292823 leiddi í ljós að um var að ræða blöndu DNA sniða frá a.m.k. tveim einstaklingum og sýndi kyngreinir að um var að ræða sýni frá kvenmanni og karlmanni. Það DNA snið sem var í meirihluta var eins og DNA snið þolanda, en það DNA snið sem var í minnihluta var eins og DNA snið grunaðs“.
Brotaþoli for tvisvar til sálfræðings í lok maí og í vottorði hans segir að allt viðmót hennar bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ótta og hjálparleysi þegar meint kynferðisafbrot átti sér stað. Niðurstöður greiningarmats sýni að brotaþoli hafi þjáðst af áfallastreituröskun í kjölfarið. Sálræn einkenni brotaþola í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. „Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögn stúlkunnar í viðtölunum. Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.“
III
Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði þekkt brotaþola í 4 til 5 mánuði og þau hefðu gert ýmislegt af kynferðislegum toga, en þó ekki haft samfarir. Þau hafi hins vegar rætt mikið saman og hún oft hringt í sig. Þessa umræddu nótt kvaðst hann hafa hitt brotaþola á skemmtistað í miðbænum og heilsað henni en síðan farið á salernið. Brotaþoli hafi verið undir áhrifum áfengis en ekki svo að hún væri ekki sjálfbjarga. Þegar hann kom þaðan hafi hún gripið í sig og leitt sig út af staðnum og sagt að þau skyldu fara þar eð hún vildi ekki að vinir hennar sæju þau saman. Þau fóru út og gengu að bifreið ákærða sem stóð á Skólavörðustíg. Ákærði kvaðst hafa ekið vini sínum heim til hans í [...] og þaðan ekið heim til sín þar sem hann og brotaþoli höfðu samfarir. Þau hafi farið saman í rúmið þar sem brotaþoli hafi stokkið á sig, dregið buxur hans niður, snert kynfæri hans og síðan haft munnmök við hann. Fyrst hafi hún setið ofan á honum og síðan hafi hún lagst á bakið eftir að hafa dregið niður um sig sokkabuxurnar og hann svo haft við hana samfarir. Þegar hann fann að hann var að fá sáðlát kvaðst hann hafa dregið sig út úr henni og fengið sáðlát í klof hennar. Á eftir hefðu þau sofnað og vaknað um tíuleytið næsta morgun en þá hefðu þau ekki haft kynmök. Brotaþoli hafi verið eilítið ör þegar hún vaknaði og spurt hvar hún væri og hann svarað að hún vissi það. Að skilnaði þegar hún fór hafi hann faðmað hana. Hún hafi svo hringt í einhvern sem hafi komið og sótt hana. Ákærði kvaðst ekki hafa haft endaþarmsmök við brotaþola, en verið gæti að limur hans hefði snert endaþarmsopið við kynmökin. Ákærði kvað brotaþola hafa sagt sér áður en þau fóru heim til hans, þegar þau voru á göngu að bifreiðinni, að hún væri með blæðingar, en samt var hún reiðubúin til að hafa samfarir við hana. Hann kvað brotaþola hafa viljað sig en hún hafi ekki viljað að vinir hennar sæju þau saman.
Ákærði var spurður af hverju hann hefði ekki strax borið hjá lögreglu að hann hefði haft samfarir við brotaþola og svaraði hann því til að hann hefði verið hræddur. Hann hafi verið í sambandi við aðra konu og vildi ekki eyðileggja það. Þá hafi hann orðið mjög undrandi þegar lögreglan kom á heimili hans um viku eftir þennan atburð. Þá var ákærða kynnt að við skoðun á Neyðarmóttökunni hefði fundist „túrtappi“ í brotaþola og kvaðst hann ekki hafa orðið var við hann og reyndar ekki orðið var við blóð hjá henni. Við lok samfaranna kvaðst hann þó hafa séð þráð frá tappanum. Ákærði kvað ástæðu kærunnar vera þá að brotaþoli ætti kærasta sem hann hefði ekki vitað um. Kvöldið eftir hefði hann verið á veitingastað og þá hefði maður slegið sig og sagt um leið „þú nauðgaðir kærustu minni“.
Brotaþoli bar að hafa farið á tónleika með vinum sínum og einnig hafi þeir farið á veitingastað. Hún kvaðst hafa verið ölvuð og tekið verkjatöflu vegna þess að henni var illt í hálsinum. Brotaþoli kvað það hafa gerst áður að hún eins og „dytti úr sambandi“ við það að neyta áfengis og þyrfti hún ekki að drekka mikið til þess. Síðan kvaðst hún lítið muna þar til hún var komin inn í bifreið ákærða sem hafi setið í ökumannssæti og einhver annar hafi setið í farþegasætinu hjá honum. Hún kvaðst ekki vita hvert hafi verið ekið þar eð hún myndi bara eftir sér í bifreiðinni þar sem hún var að öskra á ákærða. Næst kvaðst hún muna eftir sér allsnakinni uppi í rúmi heima hjá ákærða og hefði hann legið ofan á sér, en hún hafi legið á maganum. Ákærði hafi verið að reyna að koma lim sínum inn í endaþarminn á henni, verið að nudda honum upp við hann og hafi hún fundið fyrir sársauka. Ákærði hafi haldið henni niðri með höndunum, en hún kvaðst hafa brotist um og getað losað sig við hann. Því næst hafi hún spurt hvar hún væri og hafi hann svarað henni því til að hún ætti að hætta að grínast. Þá hafi hann sagt að þau væru nú par. Brotaþoli kvaðst hafa farið í föt og farið fram á baðherbergi og hringt þaðan í vin sinn og beðið hann um að sækja sig. Þegar hún heyrði ákærða fara úr herberginu hafi hún farið þangað aftur og litið út um glugga til að lýsa umhverfinu fyrir vini sínum til að hann gæti áttað sig á því hvar hún væri. Ákærði hafi nú komið aftur inn í herbergið og hún þá farið að spyrja hann aftur um hvað hefði gerst en hann svarað sem fyrr að hún ætti að hætta að grínast og svo hafi hann slegið hana þrisvar og hafi hún þá slegið hann til baka. Ákærði hafi svo vísað henni á útgönguleið og fyrir utan hafi hún beðið eftir vini sínum. Brotaþoli kvaðst ekki hafa almennilega gert sér grein fyrir hvað hefði gerst fyrr en hún var komin á Neyðarmóttökuna og „túrtappinn“ fannst inni í henni.
Brotaþoli kvaðst fyrst hafa hitt ákærða á skemmtistað þar sem hann var dyravörður. Hann hafi hnippt í hana og beðið hana að hitta sig. Hún hafi gert það og látið hann hafa símanúmerið sitt, en það hafi verið fyrir mistök. Hún hafi ekki ætlað að láta hann hafa rétt númer. Eftir þetta hafi þau verið í sambandi með símaskilaboðum og einu sinni hafi hann hitt hana og þá hafi hann kysst sig „mömmukossi“ og hafi það verið einu líkamlegu samskipti þeirra. Hún kvaðst aldrei hafa komið heim til hans áður og engan áhuga haft á honum.
Hún kvað þennan vin sinn hafa verið besta vin sinn á þessum tíma og þau verið að „dúlla sér saman“, en nú byggju þau saman. Á þessum tíma hefðu þau ekki verið komin á fast.
Vinur brotaþola, sem nú er sambýlismaður hennar, bar að hún hefði hringt í sig um klukkan ellefu um morguninn og kvaðst hann hafa heyrt að eitthvað væri að. Hún hafi verið grátandi í símanum og beðið um að hann kæmi að sækja hana. Hann kvaðst hafa fengið sér bifreið og ekið frá vinnustað sínum suður með sjó og sótt hana þar sem hún var fyrir utan heimili ákærða, en hann hafi áttað sig á því hvar hún var eftir lýsingu hennar á umhverfinu. Brotaþoli hafi skýrt sér frá því að hún hafi vaknað við það að ákærði var að reyna að troða sér inn í endaþarminn á henni og hafi hún þá farið að berjast á móti honum. Ákærði hefði þá slegið hana og sagt henni að hætta að væla. Þegar hann kom að brotaþola kvað hann hana hafa hágrátið og lítið getað sagt. Hann kvaðst hafa ekið henni heim til sín og þangað hafi vinkona brotaþola komið. Hann hefði síðan ekið þeim á Neyðarmóttökuna. Vinurinn kvaðst hafa verið með brotaþola kvöldið áður og hefði hún verið verulega drukkin. Þau hafi verið á tónleikum og farið þaðan á veitingastað. Þar hefði hann farið á snyrtingu og þegar hann hafi komið til baka hafi brotaþoli verið horfin og hann hefði ekki vitað hvað varð af henni og ekki tekist að ná símasambandi við hana. Vinurinn kvaðst hafa séð ákærða og félaga hans og taldi brotaþola hafa átt einhver samskipti við þá. Einn þeirra hefði eins og tekið í hönd hennar og kvaðst vinurinn hafa skynjað það sem svo að þeir vildu ekkert með hann hafa að gera. Á þessum tíma kvað vinurinn sig og brotaþola eiginlega hafa verið byrjuð saman en nú byggju þau saman. Hann kvaðst ekki hafa þekkt ákærða en vitað að brotaþoli og hann þekktust og höfðu haft símasamskipti.
Vinkona brotaþola bar að hafa farið með henni á tónleika þetta kvöld og eftir þá farið á veitingahús. Brotaþoli hafi verið allölvuð. Þar hafi brotaþoli hitt ákærða og þegar vinkonan var að ganga inn á veitingahúsið hafi brotaþoli verið að ganga út með ákærða og sagst ætla að tala við hann. Vinkonan sagðist svo hafa verið í símasambandi við brotaþola meðan hún var úti og beðið hana að koma inn og eins hafi brotaþoli beðið hana að koma. Síðan hafi hún ekki heyrt frá henni fyrr en klukkan ellefu morguninn eftir og hafi brotaþoli þá verið hágrátandi og sagt að ákærði vildi ekki hleypa sér út. Vinkonan kvaðst hafa spurt brotaþola hvort hún og ákærði hefðu gert eitthvað saman og hún svarað því játandi og það hafi verið gegn hennar vilja. Brotaþoli hefði lýst því fyrir sér að hún hefði vaknað liggjandi á maganum og ákærði hefði legið ofan á henni og verið að reyna að komast inn í endaþarminn á henni. Vinkonan kvaðst svo hafa farið með brotaþola á Neyðarmóttökuna.
Vinur ákærða bar að hafa verið með honum þetta kvöld og hefði hann ekið honum heim úr miðbænum. Hann kvaðst hafa verið að fara af veitingastað með ákærða þegar brotaþoli og félagar hennar voru að koma þangað. Ákærði og brotaþoli hafi ræðst við í dyrunum í tvær til þrjár mínútur en svo hafi þau þrjú farið að bifreið ákærða. Ákærði hafi ekið sér heim og hafi hann setið í farþegasæti fram í en brotaþoli aftur í. Eftir að hann fór úr bifreiðinni hafi brotaþoli flutt sig í framsætið. Á leiðinni hafi þau tvö ræðst við en brotaþoli hafi talað mikið í símann. Hann kvaðst lítið geta borið um hvað var rætt á leiðinni að bifreiðinni, enda hafi hann gengið á undan. Í bifreiðinni hafi brotaþoli verið að tala við einhvern í síma og sagði þá að hún væri á öðrum veitingastað, annað kvaðst hann ekki muna af því sem sagt var í bifreiðinni. Hann kvaðst ekki geta borið um hvort brotaþoli var ölvuð og ekki tók hann eftir því að hún væri ör eða æst. Þá gat hann ekki borið um hvort eitthvað kynferðislegt átti sér stað milli ákærða og brotaþola.
Hjúkrunarfræðingur á Neyðarmóttöku staðfesti vottorð sitt sem að framan var rakið. Brotaþola hafi liðið mjög illa við komuna og grátið mikið. Hún hafi skýrt frá því að hún hafi verið mjög ölvuð á skemmtistað og hitt þar ákærða sem áður hefði áreitt sig. Hún hafi ætlað að ræða við ákærða og farið með honum og myndi svo ekki meira fyrr en hún vaknaði í rúmi ákærða sem var að reyna að hafa samfarir við hana í endaþarm. Þá hafi brotaþoli lýst átökum við ákærða þegar hún var að reyna að losna frá honum. Þegar brotaþoli var skoðuð hafi hún verið grátandi og skolfið allan tímann og átt erfitt með að slaka á. Við skoðun á leggöngum hafi fundist „túrtappi“ efst uppi í þeim og hafi brotaþoli upplifað mikinn viðbjóð við það. Brotaþoli hefði ekki tekið eftir tappanum þar eð verkur í endaþarmi hefði yfirgnæft verkinn af tappanum. Hjúkrunarfræðingurinn kvað sýni almennt tekin úr endaþarmi með því að stinga pinna inn fyrir hringvöðvann. Brotaþoli hafi verið mjög aum í endaþarmsopinu.
Sálfræðingur sem hefur haft brotaþola til meðferðar staðfesti framangreinda álitsgerð sína. Sálfræðingurinn bar að hafa hitt hana tvisvar sinnum en auk þess rætt við hana í síma. Sálfræðingurinn staðfesti að brotaþoli hafi þjáðst af áfallastreituröskun.
Læknir sem skoðaði brotaþola á Neyðarmóttökunni staðfesti vottorð sitt og bar að brotaþoli hafi verið þreytt. Læknirinn kvaðst hafa fundið „túrtappa“ uppi í leggöngum hennar, en brotaþoli hafi ekki vitað af honum þar. Þetta hafi verið innan við sólarhringsgamall tappi. Læknirinn kvað það geta verið að tappi þrýstist upp í leggöng við samfarir. Hann gæti líka færst þangað væri hann settur of ofarlega og konan gleymdi honum. Hins vegar hafi ekki verið upplýst hvort ákærði hafi haft samfarir við brotaþola í endaþarm. Sýni úr endaþarmi séu tekin með bómullarpinna sem settur sé fyrir hringvöðvann og inn í endaþarmsrúmið og eins séu tekin sýni úr endaþarmsopinu. Læknirinn kvað það geta verið að sæði sem losað væri í klof brotaþola hefði getað borist inn í endaþarminn, það er sæði sem væri á svæðinu sem pinninn færi um þegar sýni er tekið. Engir áverkar hefðu verið á endaþarmsopi brotaþola en hún hefði haft þreifieymsli þar þegar verið var að taka sýnið.
Sérfræðingur lögreglu sem sendi sýnishorn til rannsóknar staðfesti framangreind gögn og rannsókn sem hann vann í málinu. Hann staðfesti að niðurstaða rannsóknar væri að sæði úr ákærða hefði fundist í leggöngum brotaþola en sáðfrumur, sem fundust í endaþarmi hennar, hefðu ekki verið í nægjanlegu magni til að hægt hefði verið að greina þær. DNA úr ákærða hefði hins vegar fundist í þekjufrumuhluta sýnisins úr endaþarmi.
IV
Eins og að framan var rakið neitaði ákærði við fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa haft samfarir við brotaþola. Í síðari yfirheyrslu viðurkenndi hann að hafa haft samfarir og önnur kynmök við hana og hefði það verið með hennar vilja. Hann bar á sama hátt við aðalmeðferð, en neitaði þó sem fyrr að hafa haft endaþarmsmök við brotaþola. Brotaþoli hefur frá upphafi borið á sama veg um minnisleysi sitt þessa nótt og hvernig hún vaknaði þar sem hún lá nakin í rúmi ákærða sem hélt henni niðri og var að reyna að hafa við hana endaþarmsmök. Framburður hennar hjá lögreglu og fyrir dómi kemur og heim og saman við það sem hún skýrði vinum sínum, hjúkrunarfræðingi og lækni frá strax um morguninn. Þá skýrði hún sálfræðingi frá á sama hátt í lok maí þegar hún átti viðtöl við hann. Það er mat dómsins að brotaþoli hafi gefið skýrslu sína fyrir dómi óþvingað og eðlilega þar sem hvorki var að greina hik né misbresti í frásögn hennar þannig að í ósamræmi væri við fyrri skýrslur og framburð vitna. Þá styður það framburð brotaþola um að ákærði hafi haft við hana samfarir þegar hún var sofandi, að „túrtappi“ skyldi finnast í efst uppi í leggöngum hennar við læknisrannsókn. Enn fremur styður það framburð brotaþola um algert minnisleysi varðandi atburði næturinnar að ákærði kvað brotaþola hafa spurt, þegar hún vaknaði, hvar hún væri stödd. Að lokum er ákæra um að ákærði hafi haft endaþarmsmök við brotaþola studd skýrslu Neyðarmóttöku þess efnis að mikil eymsli hafi verið í endaþarmi brotaþola, bæði þegar tekið var strok og við þreifingu á endaþarminum. Við mat á framburði ákærða verður ekki litið fram hjá því að hann neitaði í fyrstu að hafa haft samfarir við brotaþola og það var fyrst eftir að honum hafði verið kynnt að sæði úr honum hefði fundist í henni að hann viðurkenndi samfarir og önnur kynmök, en bar að þær hefðu verið með samþykki hennar. Það er mat dómsins að það rýri verulega sönnunargildi framburðar ákærða að hann hefur ekki borið á sama hátt um málsatvik frá upphafi. Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins að við úrlausn málsins verði að byggja á staðfastri frásögn brotaþola, sem studd er öðrum gögnum eins og rakið var, en hafna á sama hátt þeirri skýringu ákærða að kynmökin hafi verið með vilja brotaþola. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að sakfella ákærða fyrir nauðgunarbrot það sem honum er gefið að sök í ákærunni og þar er rétt fært til refsiákvæða.
Á árunum 2006 og 2007 var ákærði þrisvar sinnum sektaður fyrir brot gegn fíkniefna- og umferðarlögum. Er refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.
Krafa brotaþola um skaðabætur byggir á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísun til framangreindrar niðurstöðu dómsins verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola eins og nánar greinir í dómsorði.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg dómsformaður, Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði.
Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. mars 2009 til 28. október 2009 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 342.107 krónur í sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 313.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur hdl., 313.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.