Hæstiréttur íslands
Mál nr. 250/2006
Lykilorð
- Umboð
- Fjöleignarhús
- Banki
|
|
Fimmtudaginn 14. desember 2006. |
|
Nr. 250/2006. |
Garðar Jóhannsson(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Reinhold Kristjánsson hrl.) |
Umboð. Fjöleignarhús. Bankar.
Bankinn L hf. krafði G um greiðslu yfirdráttarskuldar á reikningi hjá bankanum. Reikningur sá hafði verið stofnaður 1. nóvember 1999 á nafni húsfélags í fjöleignarhúsi sem G bjó í en á kennitölu G, þar sem húsfélagið hafði ekki kennitölu á þeim tíma. Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að húsfélagið hefði falið G að annast fjárreiður þess á árinu 1999 og G haft til þess umboð allt til þess tíma er hann lét af þeim störfum á húsfundi 12. desember 2002. Þá var talið að G hefði haft umboð til að afla fjár og annast greiðslu reikninga vegna viðgerða á húsinu sem ráðist hafði verið í á árunum 2001 og 2002. Tekið var fram að ágreiningur G við aðra íbúðareigendur í húsinu um tiltekin atriði er vörðuðu bankareikninginn hefði ekki þýðingu fyrir mál þetta. Málið snerist eingöngu um hvort G hefði haft umboð húsfélagsins til að færa áðurnefndan bankareikning á kennitölu þess og skuldsetja það gegnum reikninginn, samkvæmt 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða hvort hann hefði með því farið út fyrir umboð sitt samkvæmt 25. gr. laganna. Talið var að G hefði sem gjaldkeri húsfélagsins haft umboð til að opna umræddan bankareikning hjá L hf. í nafni þess og annast lántöku í tengslum við viðgerðir á húsinu. Var G því sýknaður af kröfu L hf. í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. maí 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Hinn 1. nóvember 1999 undirritaði stefndi þjónustusamning við áfrýjanda vegna húsfélagsins að Bólstaðarhlíð 7, Reykjavík, þar sem stefndi tók að sér að innheimta mánaðarlega húsfélagsgjöld. Jafnframt var stofnaður þjónustureikningur á nafni húseignarinnar en á kennitölu áfrýjanda. Húsfélagið fékk kennitölu á árinu 2001 og 14. júní það ár var reikningurinn færður yfir á kennitölu þess. Mun áfrýjandi þá hafa verið gjaldkeri húsfélagsins. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en áfrýjandi hafi með samþykki þáverandi eigenda hússins átt að sjá um að ráðist yrði í viðgerðir á húsinu á árunum 2001 og 2002. Hinn 21. maí 2001 var gerður samningur við verktakafyrirtæki er annast skyldi verkið og rituðu áfrýjandi og annar íbúðareigandi í húsinu undir samninginn fyrir hönd húsfélagsins. Samkvæmt fundargerð húsfélagsins 12. desember 2002 kom fram óánægja hjá öðrum í húsfélaginu með störf áfrýjanda. Var lesin upp fundargerð frá síðasta húsfélagsfundi sem haldinn hafði verið 17. maí 2001, fjallað um viðgerðir á húsinu og „rætt um af hverju tekinn var yfirdráttur en ekki lán og af hverju ekki var haldinn fundur um málið.“ Þá var skráð að áfrýjandi, sem gjaldkeri og prókúruhafi nefnds reiknings, játaði að hafa „misnotað aðstöðu sína og notað reikninginn í eigin þágu“, og bókað að áfrýjandi segðist hafa endurgreitt húsfélaginu þá fjárhæð. Jafnframt var bókað: „Skipan gjaldkera, yfirlýsing til banka um gjaldkeraskipti og prókúruhafaskipti lesin og samþykkt.“ Í kjölfarið sendu eigendur hússins, aðrir en áfrýjandi og eiginkona hans, bréf til stefnda þar sem því var haldið fram að áfrýjandi hafi ekki haft „heimild til að koma fram fyrir hönd húsfélagsins né heldur til að skuldsetja það á nokkurn hátt.“ Var óskað eftir því að reikningnum yrði lokað. Þá sagði meðal annars í bréfinu: „Húsfélagið kannast ekki við að hafa veitt Garðari umboð til að stofna til ofangreindrar yfirdráttarheimildar í nafni og á kennitölu húsfélagsins að upphæð kr. 1.900.000,-. Húsfélagið viðurkennir hins vegar að hafa falið Garðari að sjá um greiðslu reikninga vegna viðgerða á þakkanti Bólstaðarhlíðar 7 samtals að fjárhæð kr. 900.000,-.“ Með bréfi stefnda til áfrýjanda 30. janúar 2003 var honum tilkynnt að stefndi hefði gert þau „mistök“ að breyta um kennitölu á reikningum án formlegs samþykkis húsfélagsins og því væri skuld samkvæmt reikningnum á ábyrgð áfrýjanda. Breytti stefndi kennitölu á reikningnum í fyrra horf.
Héraðsdómur reisti niðurstöðu sína á því að í gögnum málsins komi hvergi fram að aðrir eigendur íbúða að Bólstaðarhlíð 7 hafi falið áfrýjanda að stofna tékka- eða þjónustureikning í nafni húsfélagsins eða að áfrýjandi hafi á annan hátt haft heimild þeirra til að stofna til yfirdráttar á slíkum reikningi. Vísaði dómurinn til 11. gr. tékkalaga nr. 94/1933 í því sambandi. Þá hafi áfrýjandi á því tímabili sem um ræði einn haft prókúru fyrir reikningnum og hafi hann viðurkennt að hafa notað reikninginn í eigin þágu ásamt því að hafa notað hann til að greiða skuldir húsfélagsins. Auk þess hafi áfrýjandi sýnt af sér tómlæti við að gera athugasemdir við framangreint bréf stefnda 30. janúar 2003.
II.
Samningur sá sem áfrýjandi gerði upphaflega við stefnda vegna húsfélagsins fólst í að stofna svokallaðan þjónustureikning og mun bankinn hafa frá stofnun reikningsins annast mánaðarlega innheimtu húsfélagsgjalda og voru þau lögð inn á reikninginn. Þá tók áfrýjandi af reikningnum þær fjárhæðir sem greiða þurfti vegna umræddra viðgerða. Auk þess gekkst áfrýjandi 28. júní 2001 skriflega undir sjálfskuldarábyrgð fyrir vanskilum á reikningnum allt að 250.000 krónum. Samkvæmt yfirlitum frá stefnda var heimilaður yfirdráttur á reikningnum tímabilið 5. júlí 2001 til 11. september sama ár 350.000 krónur, en heimildin var hækkuð í áföngum frá þeim tíma og var hún 1.800.000 krónur 20. desember 2002 er hún var felld niður.
Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eru húsfélög til í öllum fjöleignarhúsum í krafti ákvæða laganna án þess að hafa verið stofnuð formlega. Af því sem að framan er rakið um málavexti er ljóst að húsfélagið hafði falið áfrýjanda að annast fjárreiður þess á árinu 1999 og var umræddur reikningur stofnaður á því ári í nafni félagsins en með kennitölu áfrýjanda enda hafði það þá ekki sérstaka kennitölu. Þar kemur einnig fram að áfrýjandi hafði umboð til að afla fjár og annast greiðslu reikninga vegna þeirra viðgerða á húsinu sem ráðist hafði verið í. Hafði áfrýjandi því umboð til að fara með fjárreiður húsfélagsins allt til þess tíma er hann lét af þeim störfum með sérstakri bókun húsfélagsins á fundinum 12. desember 2002.
Samkvæmt framansögðu lutu deilur áfrýjanda við aðra íbúðaeigendur í húsinu ekki að því hvort reikningurinn hafi verið eign húsfélagsins, heldur annars vegar að því að áfrýjandi hafi tekið sér fé af reikningi þess, sem áfrýjandi telur sig hafa að fullu endurgreitt, og hins vegar að því að lánafyrirkomulag vegna viðgerða á húsinu hafi verið með öðrum hætti en aðrir eigendur töldu hagkvæmast. Hefur sá ágreiningur ekki þýðingu fyrir mál þetta, sem snýst eingöngu um hvort áfrýjandi hafi haft umboð húsfélagsins til að færa umræddan reikning á kennitölu þess og skuldsetja það gegnum reikninginn, samkvæmt 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða hvort hann hafi með því farið út fyrir umboð sitt samkvæmt 25. gr. laganna. Af því sem að framan er rakið leiðir að áfrýjandi hafði, sem gjaldkeri húsfélagsins, umboð til að opna umræddan bankareikning hjá stefnda í nafni þess og annast lántöku í tengslum við viðgerðir á húsinu. Ekki verður séð að stefndi hafi í stefnu í héraði haft uppi málsástæðu um ætlað tómlæti áfrýjanda, þrátt fyrir að mótbárur áfrýjanda við kröfu stefnda hafi þegar verið komnar fram áður en málið var höfðað. Gegn andmælum áfrýjanda er þessi málsástæða því of seint fram komin. Samkvæmt framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.
Eftir þessum úrslitum skal stefndi greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Garðar Jóhannsson, er sýkn af kröfu stefnda Landsbanka Íslands hf.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. febrúar 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. janúar sl., var höfðað 26. apríl 2005 af Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, á hendur Garðari Jóhannssyni, kt. 170843-2909, Bólstaðarhlíð 7, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.051.077 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 10. maí 2004 til greiðsludags og vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Einnig er krafist málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Fyrsta varakrafa stefnda er sú að hann verði aðeins dæmdur til að greiða stefnanda 250 krónur auk dráttarvaxta frá 1. febrúar 2005 til greiðsludags. Önnur varakrafa er að stefndi verði aðeins dæmdur til að greiða stefnanda 250.000 krónur auk dráttarvaxta frá dómsuppsögu til greiðsludags og þriðja varakrafa að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórlega og beri einungis dráttarvexti frá dómsuppsögu. Þess er og krafist að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda og að tildæmd málflutningsþóknun beri virðisaukaskatt.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefndi var gjaldkeri húsfélagsins að Bólstaðarhlíð 7 frá árinu 1999 til 12. desember 2002 er nýr gjaldkeri var kosinn á húsfundi. Stefndi stofnaði viðskiptareikning nr. 317045 í útibúi stefnanda 1. nóvember 1999 sem er í gögnum málsins ýmist nefndur tékkareikningur eða þjónustureikningur. Stefndi undirritaði yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna reikningsins 28. júní 2001 þar sem hann er tilgreindur ábyrgðarmaður en viðskiptamaður sagður Húsfélagið Bólstaðarhlíð 7, sem þá hafði fengið kennitölu. Stefnandi heldur því fram að nafni reikningseiganda hafi þá verið breytt fyrir mistök og reikningurinn settur á kennitölu húsfélagsins. Stefndi hafi allan tímann verið eigandi reikningsins enda hafi hann ekki haft heimild húsfélagsins til að stofna til skuldbindinga með þessum hætti fyrir þess hönd. Mistökin hafi verið leiðrétt í janúar 2003 þegar þau hafi komið í ljós og var stefnda tilkynnt um það. Stefndi hafði þá fengið yfirdráttarheimild á reikninginn sem hann segir að hafi verið notuð vegna framkvæmda við þak og þakkant hússins. Reikningnum var lokað 10. maí 2004 og var skuld vegna hans þá 1.051.077 krónur. Stefnandi telur stefnda bera ábyrgð á skuldinni og krefst þess í málinu að hann verði dæmdur til að greiða hana.
Stefndi mótmælir því að hann hafi ekki haft heimild húsfélagsins til að stofna til skuldbindinga eins og hann hafi gert með umræddum viðskiptareikningi og yfirdrætti. Hann mótmælir því einnig að hann beri ábyrgð á skuld við stefnanda vegna reikningsins. Stefndi vísar til þess að honum hafi verið falið af öðrum eigendum hússins á árinu 2000 að óska eftir fyrirgreiðslu hjá stefnanda vegna framkvæmda við húsið sem þá stóð til að fara í. Stefndi telur engan vafa leika á því að þarna sé um skuld húsfélagsins að ræða og krefst sýknu af kröfum stefnanda í málinu á þeim grundvelli. Til vara krefst stefndi þess að honum verði aðeins gert að greiða þá fjárhæð sem hann hafi gengið í sjálfskuldarábyrgð fyrir.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að stefndi hafi undirritað þjónustusamning 1. nóvember 1999 við útibú stefnda vegna óstofnaðs húsfélags að Bólstaðarhlíð 7 en bankinn hafi tekið að sér að innheimta mánaðarlega húsfélagsgjöld vegna húseignarinnar. Jafnframt hafi verið stofnaður þjónustureikningur nr. 317045 í sama útibúi á nafni húseignarinnar á kennitölu stefnda sem umsjónarmanns en hann hafi farið með ráðstöfun reikningsins. Húsfélag fyrir húseignina Bólstaðarhlíð 7 hafi verið formlega stofnað árið 2001 og fengið þá kennitölu. Vegna mistaka starfsmanns stefnanda 15. júní 2001, þegar breytt hafi verið um bókhaldstölu félagsins, hafi kennitala húsfélagsins verið skráð á ofangreindan reikning stefnda. Ekkert skriflegt samþykki eða umboð frá sameigendum hafi legið fyrir en mistökin hafi ekki uppgötvast fyrr en síðar. Með bréfi 30. janúar 2003 hafi stefnda verið tilkynnt um mistökin og að þau yrðu leiðrétt þar sem formlegt samþykki húsfélagsins hefði ekki legið fyrir til að framkvæma slíka kennitölubreytingu. Jafnframt hafi stefnda verið tilkynnt um þá afstöðu stefnanda að skuld á reikningi 0137-26-317405 væri á hans ábyrgð. Stefndi hafi stofnað til yfirdráttar á reikningnum án samþykkis húsfélagsins eða umboðs frá því. Vanskil stefnda við stefnanda hefðu ekki fengist greidd 10. maí 2004 þrátt fyrir innheimtutilraunir og hafi reikningnum verið lokað. Skuld stefnda við stefnanda hafi þá numið 1.051.077 krónum.
Þar sem reikningurinn hafi verið stofnaður af stefnda og á hans kennitölu beri hann sem forráðamaður reikningsins ábyrgð á ráðstöfun fjármuna út af honum óháð því hver lögskipti milli stefnda og húsfélagsins séu. Ekki hafi verið hlutast til um það, hvorki af hálfu stefnda sjálfs né fyrir hönd húsfélagsins, að ofangreindur þjónustureikningur yrði skráður á hina nýju kennitölu húsfélagsins þegar húsfélagið var formlega stofnað. Auk þess hafi ekkert komið fram í málinu um að stefndi hafi haft skriflegt umboð húsfélagsins til skuldsetningar á reikningnum eða að stefnda hafi verið veitt prókúra húsfélagsins á hann og því verði að telja þá skuldsetningu á ábyrgð stefnda. Nafnbreytingin hafi enga þýðingu varðandi ábyrgð stefnda. Stefndi hafi þrívegis óskað eftir yfirdrætti á reikninginn í eigin nafni. Einnig liggi fyrir að stefndi hafi notað reikninginn í eigin þágu. Hins vegar liggi ekki fyrir hve háar fjárhæðir þar sé um að ræða og verði stefndi að bera hallann af því. Mistök starfsmanns stefnanda hafi ekki uppgötvast fyrr en í ársbyrjun 2003. Stefnda hafi þá strax verið gerð grein fyrir stöðu mála og að reikningurinn, sem ranglega hafi verið færður á kennitölu húsfélagsins, yrði færður aftur á kennitölu stefnda sem stofnanda reikningsins eins og fram komi í bréfi útibússtjóra stefnanda til stefnda. Stefndi hafi aldrei hreyft athugasemdum af þessu tilefni.
Byggt sé á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og 12. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi á sínum tíma verið formaður og gjaldkeri húsfélagsins að Bólstaðarhlíð 7. Fyrst í stað hafi félagið verið rekið á hans kennitölu og stofnaður reikningur á þeirri kennitölu 1. nóvember 1999 í nafni „Húseignarinnar Bólstaðarhlíðar 7“. Árið 2001 hafi verið formlega stofnað húsfélag fyrir umrædda fasteign og hafi það fengið kennitöluna 480601-2890. Reikningnum hafi verið breytt 15. júní sama ár á þá leið að eigandi hans hafi orðið hið nýja húsfélag. Stefndi hafi haft til þess fullt umboð frá öðrum eigendum í húsfélaginu.
Þegar breytt hafi verið um nafn skráðs eiganda reikningsins hafi hann staðið í lítils háttar yfirdrætti. Eftir að húsfélagið var formlega stofnað hafi stefnda verið falið það verkefni á húsfundi að afla fyrirgreiðslu hjá stefnanda vegna framkvæmda. Þá hafi verið fenginn sá yfirdráttur sem um sé fjallað í stefnu sem þó hafi aðeins verið til bráðabirgða þar sem til hafi staðið að fá hagstæðari fyrirgreiðslu. Vegna vanhugsaðra mótmæla annarra aðila húsfélagsins hafi stefnandi aftur breytt reikningnum yfir á nafn stefnda og gert hann ábyrgan fyrir skuldbindingu þessari.
Niðurstaða kærunefndar fjöleignarhúsa í ágreiningi stefnda og annarra aðila húsfélagsins og önnur gögn málsins staðfesti ekki aðeins að stefndi hafi haft fullt umboð húsfélagsins til að ráðast í þær framkvæmdir, sem fyrirgreiðslu stefnanda hafi verið ætlað að kosta, heldur einnig til að stofna til skuldbindinga hjá stefnanda. Tilfærsla stefnanda á fjárskuldbindingum húsfélagsins yfir á stefnda standist engan veginn.
Í fyrsta lagi hafi stefndi haft fulla heimild til þess að láta færa reikninginn yfir á hina nýju kennitölu, enda hafi reikningurinn borið það með sér að hann hafi verið vegna húsfélagsins en ekki hans sjálfs. Um leið og húsfélag hafði verið formlega stofnað með nýrri kennitölu hafi verið komin fram heimild til þess að færa reikninginn yfir á húsfélagið, enda hafi verið hætt að reka húsfélagið á kennitölu stefnda.
Í öðru lagi hafi stefndi haft fullt umboð frá húsfélaginu til að stofna til þeirra skuldbindinga við stefnanda sem felist í yfirdrættinum.
Í þriðja lagi hefði verið samþykkt af öllum eigendum íbúða í húsinu að ráðast í þær framkvæmdir sem fyrirgreiðslu stefnda hafi verið ætlað að mæta. Þeir aðilar sem haldi öðru fram hafi flutt í húsið eftir að þetta hafði verið samþykkt.
Í fjórða lagi hafi stefnandi enga heimild haft til að færa kröfu á hendur húsfélaginu yfir á stefnda án undangengins samþykkis hans eða dóms.
Sýknukrafa stefnda byggi þannig á aðildarskorti.
Varakrafa um lækkun byggi á því að stærstur hluti kröfu stefnanda hafi orðið til eftir að húsfélagið var orðið skráður eigandi reikningsins. Þá hafi verið til staðar prókúra stefnda á reikningnum fyrir hönd húsfélagsins. Sjálfskuldarábyrgð hafi aðeins verið fyrir 250 krónum en til vara 250.000 krónum.
Varðandi lagarök sé vísað til fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sem og meginreglna samninga- og kröfuréttar. Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Niðurstaða
Í gögnum málsins kemur hvergi fram að stefnda hafi verið falið af öðrum eigendum íbúða að Bólstaðarhlíð 7 að stofna tékka- eða þjónustureikning í nafni húsfélagsins eða að stefndi hafi á annan hátt haft heimild þeirra til þess eða að stofna til yfirdráttar á slíkum reikningi. Verður með vísan til þessa að telja staðhæfingar stefnda um þetta ósannaðar. Þegar umboð liggur ekki fyrir verður að líta svo á að sá sem gengist hefur undir skuldbindingu fyrir annars hönd geti sjálfur þurft að bera ábyrgð á henni, en samkvæmt 11. gr. tékkalaga nr. 94/1933 verður sá sem ritar nafn sitt á tékka fyrir hönd annars aðila sjálfur skuldbundinn eftir tékkanum ef hann hefur eigi haft umboð til þess eða hann hefur farið út fyrir umboð sitt. Á því tímabili sem krafa stefnanda sem hér um ræðir varð til hafði stefndi einn prókúru fyrir reikningnum og hann hefur viðkennt að hafa notað reikninginn að einhverju leyti í eigin þágu ásamt því að hafa notað hann til að greiða skuldir húsfélagsins. Þá liggur ekki fyrir að stefndi hafi hreyft athugasemdum í tilefni af því að honum var tilkynnt að reikningurinn sem um ræðir væri á hans eigin ábyrgð af ástæðum sem skýrðar eru í bréfi útibússtjóra til stefnda 30. janúar 2003, en athugasemdir stefnda komu fyrst fram í bréfi lögmanns hans 16. febrúar 2005 í tilefni af innheimtubréfi stefnanda 1. febrúar sama ár.
Með vísan til alls þessa verður að telja að stefndi beri ábyrgð á skuldbindingu þeirri sem hér um ræðir gagnvart stefnanda og ber því að dæma hann til greiðslu kröfu stefnanda. Engar athugasemdir komu fram af hálfu stefnanda varðandi varakröfur stefnda um upphafstíma dráttarvaxta sem fram komu af stefnda hálfu við munnlegan málflutning. Þykir rétt að dráttarvextir verði reiknaðir samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2005 þegar liðinn var mánuður frá því að stefnandi sendi stefnda innheimtubréf 1. febrúar það ár.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Garðar Jóhannsson, greiði stefnanda, Landsbanka Íslands hf., 1.051.077 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. mars 2005 til greiðsludags en vextir leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Málskostnaður fellur niður.