Hæstiréttur íslands
Mál nr. 534/2005
Lykilorð
- Samningur
- Ógilding
- Málsástæða
|
|
Miðvikudaginn 24. maí 2006. |
|
Nr. 534/2005. |
Tefra Film ehf. (Örn Höskuldsson hrl.) gegn Ríkisútvarpinu (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Samningur. Ógilding. Málsástæður.
T krafði R um greiðslu tveggja reikninga fyrir sýningarrétt á íslenskuþáttum sem T hafði framleitt og sýndir höfðu verið í sjónvarpi á árunum 2003 og 2004. Lagt var til grundvallar að aðilar hefðu samið um að R sýndi þættina í sjónvarpi án endurgjalds. Þótti ekki í ljós leitt að samningurinn væri ósanngjarn eða andstæður góðum viðskiptavenjum. Voru því ekki uppfyllt skilyrði til að víkja samningnum til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936. Var R því sýknað af kröfu T.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 2005. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 38.221.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 25.200.000 krónum frá 7. febrúar 2003 til 1. nóvember 2004 en af 30.700.000 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist vaxta samkvæmt 5. gr. sömu laga af 25.200.000 krónum frá 7. janúar 2003 til 1. október 2004 en af 30.700.000 krónum frá þeim degi til 22. mars 2005 og dráttarvaxta af 30.700.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Á árunum 2003 og 2004 sýndi stefndi í sjónvarpi 21 þáttar röð er áfrýjandi framleiddi og nefndist: „Viltu læra íslensku.“ Þá sýndi stefndi fimm þætti úr röðinni í janúar 2005, en hætti sýningum að kröfu áfrýjanda. Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að stefnda beri að greiða sér þóknun vegna sýninga á þáttunum á árunum 2003 og 2004, meðal annars vegna þess að stefndi hafi komið í veg fyrir að hann hefði getað aflað kostunar samkvæmt 5. mgr. 21. gr. útvarpslaga nr. 53/2000. Hefur áfrýjandi gert stefnda reikninga vegna sýninga á þáttunum á árunum 2003 og 2004 og nema þeir höfuðstól stefnufjárhæðar. Stefndi reisir sýknukröfu meðal annars á því að áfrýjandi hafi veitt sér ótakmarkaðan sýningarrétt á þáttaröðinni til ársloka 2004. Samkvæmt þessu falla álitaefni varðandi sýningu á síðastgreindum fimm sjónvarpsþáttum í janúar 2005 utan sakarefnis þessa máls. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. september sl., var höfðað 3. mars 2005 af Tefra-Film ehf., Sóltúni 24, Reykjavík, á hendur Ríkisútvarpinu, Efstaleiti 1, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum 38.221.500 krónur og aðallega dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 25.200.000 krónum frá 7. febrúar 2003 til l. nóvember 2004 og af 30.700.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist almennra vaxta samkvæmt 5. gr. sömu laga frá 7. janúar 2003 af 25.200.000 krónum til l. október 2004 og af 30.700.000 krónum frá þeim degi til 22. mars 2005 og dráttarvaxta af 30.700.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
Af stefnda hálfu er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður að skaðlausu. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar, vextir ekki dæmdir fyrr en frá þingfestingardegi og málskostnaður látinn falla niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi framleiddi á árinu 2002 samtals 21 íslenskuþátt til sýninga í sjónvarpi undir heitinu: Viltu læra íslensku? Stefnandi fékk samþykki stefnda fyrir því að þættirnir yrðu sýndir í sjónvarpi stefnda og gaf dagskrárstjóri hjá stefnda yfirlýsingu um það 29. nóvember 2001 sem fyrirsvarsmaður stefnanda notaði til að afla styrkja til framleiðslu þáttanna.
Fram hefur komið að skömmu áður en sýningar þáttanna hófust í sjónvarpinu í janúar 2003 óskaði fyrirsvarsmaður stefnanda eftir því að hann fengi að afla kostunar til framleiðslu þáttanna en hann fékk ekki heimild stefnda til þess. Af stefnanda hálfu er því haldið fram að slíkt samþykki hafi ekki fengist fyrr en í maí en þá hafi langt verið liðið á sýningu þáttanna. Af hálfu stefnda er því haldið fram að óheimilt sé að leyfa framleiðendum að afla kostunar, en samkvæmt 1. mgr. 21. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 sé útvarpsstöð einni heimilt að gera það.
Í júlí 2003 undirritaði fyrirsvarsmaður stefnanda yfirlýsingu þar sem staðfest er að stefndi hafi ótakmarkaðan sýningarrétt á kennslumyndaröðinni „Viltu læra íslensku?” til ársloka 2004. Þetta eigi við um frumsýningu, sem þegar hafi farið fram, og hugsanlegar endursýningar. Í yfirlýsingunni kemur fram að stefnandi ábyrgist að ekki komi kröfur frá þriðja aðila vegna sýninga þáttanna í sjónvarpi á tímabilinu. Þættirnir voru endursýndir frá síðari hluta ársins 2004 og út janúar 2005 en þá fór stefnandi fram á að sýningum yrði hætt og var farið að því.
Stefnandi krefst greiðslu úr hendi stefnda samkvæmt tveimur reikningum frá 22. febrúar 2005, samtals að fjárhæð 30.700.000 krónur fyrir sýningarétt í sjónvarpi auk 7.521.500 króna virðisaukaskatts. Stefnandi telur samning málsaðila um að ekki skylda greiða nokkurt gjald fyrir sýningu þáttanna óskuldbindandi, en samningurinn sé ósanngjarn og andstæður góðri viðskiptavenju og er vísað í því sambandi til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986. Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnanda jafnframt vísað til þess að óheimilt sé að sýna efnið án greiðslu samkvæmt 3. mgr. 41. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 6. gr. laga nr. 60/2000.
Stefndi mótmælir því að skilyrði séu fyrir því að samningnum um endurgjaldslausa sýningu þáttanna verði vikið til hliðar eins og stefnandi krefjist. Stefndi mótmælir einnig sem of seint fram komnu að samkvæmt höfundalögum megi ekki sýna þættina án greiðslu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af stefnanda hálfu er málsatvikum lýst þannig að á árinu 2001 hafi verið tekin ákvörðun um að framleiða kennsluþætti í íslensku til sýninga í sjónvarpi og til almenningsnota. Aðaleigandi stefnanda, Jón Hermannsson, hafi stundað kvikmyndagerð allan sinn starfsaldur, en hann sé nú 65 ára að aldri. Hann hafi framleitt 8 kvikmyndir í fullri lengd og yfir 70 heimilda-, fræðslu- og stuttmyndir. Jón hafi verið um 10 ára skeið starfsmaður stefnda. Gert hafi verið myndband (pilot) af uppsetningu fyrirhugaðra þátta og það sent menntamálaráðuneytinu til skoðunar og umsagnar. Í bréfi ráðuneytisins 22. janúar 2002 komi fram að undirtektir hafi verið mjög góðar og hvetjandi og hafi stefnandi lagt bréf þetta fyrir viðskiptabanka sinn, Íslandsbanka hf. Bankinn hafi strax verið jákvæður varðandi fjármögnun bæði í ljósi fyrri verka Jóns og bréfs ráðuneytisins. Kostnaðaráætlun hafi verið lögð fram og samþykkt af bankanum.
Stefnandi hafi síðan hafist handa og í árslok 2002 lokið framleiðslu 21 þáttar. Hver þeirra hafi verið 20 mínútur að lengd. Þættirnir séu uppbyggðir þannig að í fyrri hluta hvers þáttar séu leikin atriði af atvinnuleikurum úr daglegu lífi, um það bil tíu mínútur, en seinni hlutinn fari fram í kennslustofu með útlendum nemendum og leiðbeinanda sem spyrji út úr efni fyrri hluta þáttarins. Allt frá því að framleiðsla þáttanna hófst í ársbyrjun 2002 hafi stefnandi leitað til ýmissa aðila eftir styrkjum til verkefnisins. Að minnsta kosti sjö ráðuneyti og nokkrar stofnanir hafi lagt stefnanda lið með mismunandi háum fjárframlögum.
Fjármögnun þáttanna hafi verið með hefðbundnum hætti, þ.e. ákvörðun stefnanda um að ráðast í þetta þjóðþrifaverkefni hafi í engu verið frábrugðin því ferli, sem tíðkist í kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum hérlendis. Í upphafí sé kannaður áhugi á handriti eða verkefni hjá aðilum, sem reiknað sé með að komi til með að endurgreiða framleiðslukostnað síðar með styrkjum, sýningu eða kaupum á fullbúnu verkefninu. Þetta kunni að þykja óábyrgar starfsaðferðir af hálfu framleiðandans en þannig gerist kaupin á eyrinni. Íslenskir kvikmyndaframleiðendur hafi oftar en ekki rennt blint í sjóinn með endanlega fjárhagslega útkomu í upphafi verka sinna. Vissir þættir hafi þó ávallt verið til reiðu þegar hugað hafi verið að öruggum tekjum sem framleiðendur kvikmynda- og sjónvarpsefnis geti treyst að þeim hlotnist við verklok. Hér sé átt við greiðslur fyrir sýningu efnisins, annað hvort í kvikmyndahúsum eða sjónvarpi nema hvort tveggja sé og styrki úr Kvikmyndasjóði, nú Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Stefnandi telji sig svo hart leikinn af stefnda að hann eigi engan annan kost en að leita til dómstóla til að fá leiðréttingu sinna mála. Stefndi hafi ekki greitt stefnanda eina krónu fyrir að sýna alla þættina 21 að tölu, samtals 74 sinnum eða í 25 klukkustundir á tímabilinu 7. janúar 2003 til ársloka 2004. Stefndi byggi þessar sýningar á einhliða yfirlýsingu dagskrárstjóra stefnda 29. nóvember 2001 og á yfirlýsingu stefnanda 18. júlí 2003. Þrír samningar milli málsaðila, dagsettir sama dag, séu um önnur verkefni stefnanda og færi honum brúttótekjur frá stefnda að fjárhæð 3.100.000 krónur. Þetta fé hafi allt runnið upp í skuld stefnanda við Íslandsbanka hf., eins og fram komi í tilkynningu stefnanda 6. ágúst 2003.
Föst venja sé hjá stefnda að gera samning við alla eigendur aðfengins sjónvarpsefnis áður en frumsýning þess fer fram. Stefnandi hafi fengið yfirlýsinguna frá 29. nóvember 2001 í hendur og hafi hann átt bágt með að trúa innihaldi hennar. Jóni Hermannssyni hafi bæði sem fyrrverandi starfsmanni stefnda og atvinnukvikmyndaframleiðanda verið fullkunnugt um að stefndi sendi aldrei út aðfengið sjónvarpsefni, hvorki innlent né erlent, endurgjaldslaust. Stefndi greiði ávallt fyrir slíkt útsent efni áður en það sé sent út. Stefnandi hafi skorað á stefnda að leggja fram gögn sem afsanni þessa staðreynd en það hafi hann ekki gert. Stefnandi hafi litlar áhyggjur haft af þessari yfirlýsingu dagskrárstjórans, sérstaklega eftir að hann fékk undirtektir menntamálaráðuneytisins 22. janúar 2002 við verkefninu. Auk þessa hafi stefnandi talið að ef svo færi að greiðslur fyrir sýningar þáttanna yrðu óeðlilega lágar myndi honum heimilað að útvega sér kostunaraðila til að jafna hugsanlegan mismun upp. Stefnandi hafi reyndar strax áður en honum barst bréf ráðuneytisins fengið góðar undirtektir um kostun við sýningu þáttanna frá nokkrum aðilum. Stefnandi hafi því haldið ótrauður áfram við framleiðslu þáttanna enda búinn að tryggja fjármögnun verkefnisins hjá Íslandsbanka hf.
Fyrsti þátturinn hafi verið sendur út 7. janúar 2003, en áður hafi Jón Hermannsson farið fram á við dagskrárstjóra stefnda að stefnanda yrði heimilað að afla sér kostunaraðila við sýningu þáttanna. Dagskrárstjórinn hafi einfaldlega vísað í yfirlýsingu sína og talið stefnda heimilt samkvæmt henni að sýna þættina án þess að greiða stefnanda fyrir sýningu þeirra. Málaleitan stefnanda um að fá kostunaraðila hafi einfaldlega verið hafnað og stefnanda tjáð að stefndi myndi að sjálfsögðu láta auglýsingadeild stefnda annast kostun þáttanna ef um slíkt yrði að ræða. Stefnanda hafi þá fyrst verið ljóst að stefndi hafi ætlað að brjóta á honum þá grundvallarreglu að greitt væri fyrir allt aðfengið útsent sjónvarpsefni í einu eða öðru formi. Stefnandi hafi þá strax leitað til útvarpsstjóra og innt hann eftir því hvort stefndi ætlaði virkilega að sitja við þennan keip en hann hafi vísað stefnanda á undirmenn sína. Stefnandi hafi gengið bónleiður til búðar. Öllum óskum hans um greiðslur fyrir sýningar þáttanna og/eða kostun þeirra hafi verið hafnað og enn og aftur vísað í einhliða yfirlýsingu dagskrárstjórans 29. nóvember 2001 þar sem stefnanda hafi verið tilkynnt að ekki yrði greitt fyrir sýningu þáttanna.
Eftir þessa höfnun starfsmanna stefnda hafi stefnandi talið eina úrræði sitt að senda erindi til Útvarpsráðs þar sem hann hafi rakið samskipti sín við forstöðumenn stefnda. Ráðið hafi tekið málið fyrir og samþykkt einróma að það væri ósk Útvarpsráðs að komið yrði til móts við stefnanda vegna sýninga á þáttunum, en á þeim tíma hafi sýningar þeirra enn staðið yfir. Úrlausn forráðamanna stefnda hafi verið fólgin í því að ganga til þriggja samninga við stefnanda 18. júlí 2003 um kaup stefnda á öðru efni af stefnanda. Sama dag hafi stefnanda verið gert að undirrita yfirlýsinguna um sýningu þáttanna „Viltu læra íslensku?” Undirritun þess skjals hafi verið skilyrði af hálfu stefnda fyrir því að stefndi keypti umrætt efni enda hefði stefndi ekki gert það ef stefnandi hefði ekki undirritað yfirlýsinguna.
Þarna hafi átt sér stað skýlaust brot á 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og sé þetta brot stefnda tilefni þessarar málshöfðunar. Samningsstaða stefnanda gagnvart stefnda hafi verið eins slæm og hún gat orðið. Stefnandi hafi engra kosta átt völ annars en að undirrita skjalið 18. júlí 2003 og skjalið gagnvart viðskiptabanka sínum 6. ágúst sama ár sem hafi að sjálfsögðu þurft endurgreiðslu frá stefnanda.
Stefndi hafi nýtt sér neyð stefnanda til að láta hann samþykkja sýningar sem þegar hefðu farið fram og auk þess „ótakmarkaðan sýningarrétt” til ársloka 2004. Þrátt fyrir endurgreiðslu að fjárhæð 3.064.606 krónur samkvæmt lögum nr. 43/1999, sem stefnandi hafi fengið 5. ágúst 2004, hefði Jón Hermannsson, aðaleigandi stefnanda, þegar selt húseign sína að Völvufelli 20 í Reykjavík. Nettósöluverð hússins hafi þó ekki nægt til að ljúka endurgreiðslu lána sem Íslandsbanki hf. hefði veitt stefnanda til framleiðslu kennsluþáttanna. Lokatilraun stefnanda til að ná endum saman vegna framleiðslukostnaðar þáttanna hafi falist í því að bjóða Menntamálaráðuneytinu alla þættina til kaups með bréfi 10. ágúst 2004 en ráðuneytið hafi hafnað því 21. október sama ár.
Stefnukrafan í málinu sé uppbyggð þannig að þrátt fyrir að enginn opinber taxti liggi fyrir um kaup stefnda á sjónvarpsefni hafi þó ætíð gilt sú regla hjá stefnda að greiða meira fyrir leikið efni. Þættir stefnanda séu að hálfu leyti leiknir af atvinnuleikurum og því sé leikið efni í öllum þáttunum 21, samtals 210 mínútur eða 31/2 klukkustund. Verðlagningu sýningarréttarins í máli þessu sé því mjög í hóf stillt og stefndi njóti góðs af mikilli reynslu starfsmanna stefnanda af framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis. Stefnandi krefji stefnda um 30.700.000 krónur fyrir sýningarrétt í sjónvarpi auk 7.521.500 króna virðisaukaskatts. Á árinu 2004 hafi verið birtar upplýsingar opinberlega um hversu mikið stefndi greiddi fyrir sýningarrétt á frumsýningu leikinnar myndar (Opinberun Hannesar eftir Hrafn Gunnlaugsson). Sú mynd sé 80 mínútna löng og hafi stefndi greitt 10 milljónir króna fyrir frumsýningarréttinn.
Krafa stefnanda um eina milljón króna fyrir frumsýningu hvers þáttar sé í ljósi þessa í hóf stillt þegar litið sé til þess að hver þáttur innihaldi 10 mínútur af leiknu efni. Þá sé endursýning þáttanna verðlögð sem 20% af frumsýningargreiðslu í samræmi við venjulega greiðslu sem stefndi greiði að jafnaði fyrir endursýningar svona efnis. Verðlagning endursýninga haustið 2004, sem hafi verið 11 talsins, sé byggð á gamalli 50% reglu sem hafi tíðkast hjá stefnda á árum áður.
Stefnandi hafi leitað til virðisaukaskattsdeildar Skattstjórans í Reykjavík um útgáfu reikninga og hafi honum verið ráðlagt að dagsetja reikninga á stefnda þegar kæmi í ljós hvort stefndi sinnti greiðsluáskorun 3. febrúar 2005. Því séu reikningar fyrir sýningar þáttanna dagsettir 22. sama mánaðar. Ástæða þessa sé sú að stefnandi hafi ekkert fjárhagslegt bolmagn haft til að skila ríkissjóði virðisaukaskatti án þess að fá greitt frá stefnda fyrir sýningu þáttanna. Þetta sjónarmið hafi skattstjórinn samþykkt og hafi hann ekkert talið því til fyrirstöðu að útskrift reikninga færi fram áðurnefndan dag, þótt krafa hefði myndast samkvæmt 13. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 á stefnda þegar við upphaf sýninga þáttanna 7. janúar 2003.
Stefnandi byggi málsóknina aðallega á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísað sé í meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga. Við munnlegan málflutning var jafnframt vísað til 3. mgr. 41. gr. höfundarlaga nr. 73/1972. Varðandi kröfur um vexti á tildæmda fjárhæð sé vísað í lög nr. 38/2001, II. og III. kafla. Varðandi kröfu um virðisaukaskatt, sem bætist við tildæmda fjárhæð fyrir sýningarrétt vísist í lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þá sé vísað í lög um Ríkisútvarp nr. 122/2000, einkum 1. mgr. 3. gr. laganna varðandi afdráttarlausa skyldu stefnda gagnvart íslenskri tungu. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að fyrirsvarsmaður stefnanda, Jón Hermannsson, hafi í nóvembermánuði 2001 haft samband við dagskrárstjóra innlendrar dagskrárdeildar Sjónvarpsins og farið þess á leit að Sjónvarpið tæki til sýninga 60 kennsluþætti í íslensku fyrir útlendinga sem hann hafi haft í hyggju að framleiða. Dagskrárstjórinn hafi tjáði honum að sértækt kennsluefni væri ekki tekið til sýninga á hefðbundnum dagskrártíma, en til greina kæmi að sýna slíkt efni utan þess tíma. Skýrt hafi verið tekið fram að ekki kæmi þó til greina að borga fyrir slíkar sýningar. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi þá beðið um að fá í hendur sérstaka skriflega viljayfirlýsingu, þess efnis að Sjónvarpið væri reiðubúið að senda þættina út, í þeim tilgangi að hann gæti aflað styrktaraðila til framleiðslunnar og leitað eftir stuðningi opinberra aðila, en hann hafi lýst því að slík framlög væru háð því að Sjónvarpið vildi sýna þættina. Umbeðin yfirlýsing, útgefin 29. nóvember 2001, sé svohljóðandi:
Ríkisútvarpið Sjónvarp fyrirhugar að taka til sýninga kennsluþætti er nefnast „Viltu læra íslensku?” sem Tefra Films, Jón Hermannsson framleiðir. Fyrirhugað er að sýna þættina árið 2003. Þættirnir verða 60 talsins, hver þáttur u.þ.b. 25 mínútna langur. Sýningartími er áætlaður síðdegis á virkum dögum, fyrir upphaf hefðbundinnar sjónvarpsdagskrár. Tefra Films mun ekki fara fram á greiðslu frá Sjónvarpinu og ábyrgist að ekki komi kröfur frá þriðja aðila vegna sýninga þáttanna í Sjónvarpinu.
Yfirlýsing þessi hafi verið gefin út til stefnanda og að beiðni hans af ofanröktum ástæðum. Staðhæfingum í stefnu um að efni yfirlýsingarinnar hafi komið fyrirsvarsmanni stefnanda á óvart sé því eindregið mótmælt. Frá öndverðu hafi legið fyrir milli aðila að ekki kæmi til sérstakrar greiðslu af hálfu stefnda fyrir birtingu þáttanna í Sjónvarpinu og það því umsamið. Sá samningur sé staðfestur í sóknargögnum, sbr. t.d. í bréfi stefnanda til menntamálaráðherra, þar sem fram komi að stefndi hafi fengið þættina til endurgjaldslausrar birtingar. Samningur þessi sé raunar einnig staðfestur með málatilbúnaði stefnanda, þar sem hann með vísan til 36. gr. samningalaga krefjist þess að samningi aðila verði breytt.
Þættirnir í röðinni hafi ekki orðið fleiri en 21 talsins og sé lengd hvers þeirra um 20 mínútur. Áætlanir stefnanda um fjármögnun framleiðslu þeirra hafi ekki gengið upp, en illa hafi gengið að afla styrktaraðila. Í þeim efnum sé ekki við stefnda að sakast sem frá öndverðu hafi gert stefnanda og fyrirsvarsmanni hans ljóst það skilyrði fyrir sýningu þáttaraðarinnar að ekki kæmi til greiðslu af hálfu stefnda og hafi málsaðilar samið um það. Á grundvelli þess samnings hafi þættirnir fyrst verið birtir í Sjónvarpinu á árinu 2003. Ekki sé heldur við stefnda að sakast þótt fyrirsvarsmaður stefnanda hafi ekki verið rétt upplýstur um reglurnar um kostun á sjónvarpsefni.
Útvarpsráð hafi beint því til starfsmanna stefnda 26. maí 2003 að leita leiða til að koma til móts við stefnanda vegna þeirra vandræða sem hann hefði ratað í. Við þeim tilmælum hafi verið brugðist með því að kaupa sýningarrétt að öðrum þáttum sem stefnandi hafi verið með í vinnslu. Í samræmi við það hafi verið samið um sýningar þáttanna: Fimm kirkjur, Í Vesturvíking, KK og Billy og Hafið gaf og hafið tók. Greiðslur fyrir sýningarrétt að þessum þáttum nemi rúmum 4 milljónum króna.
Með sérstakri yfirlýsingu, sem stefnandi hafi gefið út 18. júlí 2003, hafi hann staðfest að Sjónvarpið ætti ótakmarkaðan sýningarrétt að þáttaröðinni út árið 2004. Með vísan til þess sem segi í yfirlýsingu stefnda frá 29. nóvember 2001 um að til greiðslna af þess hálfu komi ekki, hafi greiðslur ekki verið orðaðar í yngri yfirlýsingunni, enda aðilar þá sammála þar um. Þeim sjónarmiðum stefnanda að yfirlýsing þessi hafi orðið til fyrir misneytingu af hálfu stefnda í garð stefnanda sé eindregið mótmælt. Hún hafi að sönnu tengst ofangreindum samningum um kaup á öðru efni, en hún sé til áréttingar á efni þess samnings sem hafi verið með aðilum um íslenskuþættina.
Stefnandi hafi farið þess á leit á árinu 2004 að undir lok þess yrðu íslenskukennsluþættirnir endursýndir á sömu forsendum og áður hvað Sjónvarpið árærði, en þá með skilti sérstaks styrktaraðila við byrjun og lok hvers þáttar. Á þetta hafi verið fallist af hálfu stofnunarinnar og á þeim forsendum að leggja stefnanda lið í fjárhagsþrengingum. Sýningar á þáttaröðinni hafi hafist 2. október 2004 og hafi einn þáttur verið sýndur á viku á laugardögum. Fyrir áramót hafi verið sýndir 12 þættir. Þrettándi þátturinn hafi verið sýndur 8. janúar 2005 og svo koll af kolli, uns sá sautjándi hafi verið sýndur 29. janúar það ár. Sýningu þáttanna hafi verið hætt um leið og fyrirsvarsmaður stefnanda hafi lagt svo fyrir.
Stefnandi hafi sent stefnda greiðsluáskorun 3. febrúar 2005 og í framhaldinu hafi stefnda borist bréf stefnanda 10. sama mánaðar. Í því staðfesti hann heimildir stefnda til endurgjaldslausra útsendinga á kennsluefninu, en segist hafa verið þvingaður til að undirrita samning um heimild stefnda til að endursýna þættina endurgjaldslaust út árið 2004. Af hálfu stefnda sé því mótmælt að nokkrum þvingunum hafi verið beitt í þessu sambandi, enda hafi frumkvæði að endurgjaldslausri útsendingu þáttanna komið frá stefnanda. Í sama bréfi stefnanda komi fram að hann hafi í símtali í febrúarbyrjun 2005 lagt blátt bann við frekari útsendingum þáttanna, en eftir það símtal hafi stefndi engan þátt sent út. Í bréfi stefnanda 10. febrúar 2005 segi að það sé jafnframt ritað til áréttingar því banni, en stefnandi haldi því ranglega fram að munnlegu banni sínu hafi ekki verið sinnt.
Stefnandi hafi svo sent stefnda tvo reikninga 22. febrúar 2005. Lúti þeir annars vegar að sýningu þáttanna á árinu 2003 og hins vegar 2004. Reikningsgerð þessi sé ekki í neinu samræmi við það sem samið hafi verið um með aðilum og stefnandi hafi staðfest með yfirlýsingu sinni 18. júlí 2003. Fram hafi einnig komið af hálfu stefnanda á opinberum vettvangi að stefndi hafi fengið þættina til sýninga endurgjaldslaust. Þótt stefndi greiði almennt fyrir efni sem birt sé í sjónvarpinu séu einnig dæmi um að það sé ekki gert, einkum þegar viðkomandi óski eftir birtingu, en stundum sé ásókn í það mjög mikil.
Af hálfu stefnda hafi greiðsluáskorun stefnanda frá 3. febrúar, bréfi hans frá 10. febrúar og reikningsgerð hans frá 22. febrúar verið svarað með bréfi 1. mars 2005. Í því sé gerð grein fyrir framanröktum sjónarmiðum stefnda og staðhæfingum stefnanda um misneytingu af hálfu starfsmanna stefnda, sem hafðar hefðu verið eftir honum í fjölmiðlum þá nýverið og vikið sé að í bréfi hans frá 10. febrúar, verið alfarið vísað á bug. Þá hafi stefndi endursent reikningana með bréfinu, enda telji stefndi enga heimild til útgáfu þeirra og greiðsluskyldu samkvæmt þeim alfarið hafnað.
Stefnandi véfengi ekki að samningur hafi komist á með aðilum um endurgjaldslausa birtingu íslenskukennsluþáttanna sem hann framleiddi, en málatilbúnað hans verði að skilja svo að hann krefjist þess að þeim samningi verði vikið til hliðar og stefnda gert að greiða samkvæmt framlögðum reikningum stefnanda hvað sem upphaflegum samningi aðila líði. Stefndi mótmæli því eindregið að efni séu til að beita ógildingu eða hliðrunarreglu 36. gr. samningalaga, svo sem þær hafi verið formaðar með lögum nr. 11/1986. Heimildir lagagreinarinnar feli í sér frávik frá meginreglum samningaréttar um að gerða samninga skuli halda og slík frávik leiði til þess að beita beri þrengjandi lögskýringu. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 11/1986 sé áréttað að til þess sé ætlast að dómstólar gæti fyllstu varúðar við beitingu reglnanna.
Allt frumkvæði að birtingu þáttanna í sjónvarpinu hafi komið frá stefnanda. Stefndi hafi þegar í öndverðu gert stefnanda grein fyrir því að ekki kæmi til þess að greitt yrði fyrir birtingu þeirra. Allt að einu hafi stefnandi gengið eftir yfirlýsingu um að stefndi myndi birta þættina án endurgjalds, því birting í sjónvarpinu, þó án endurgjalds væri, væri lykill að því að honum tækist að afla fjár á öðrum vettvangi til framleiðslu þáttanna. Það hefði þannig verið í þágu stefnanda að stefndi birti þættina þótt það væri án endurgjalds. Stefnda verði ekki kennt um að fyrirætlanir stefnanda um að afla fjár til framleiðslunnar, eða selja hana á öðrum vettvangi, hafi ekki tekist á þann hátt sem stefnandi vænti. Stefnandi hafi tekið sínar ákvarðanir um framleiðslu þáttanna vitandi vits um afstöðu stefnda sem hafi legið skýrt fyrir áður en framleiðslan hafi farið af stað. Stefnandi hafi sjálfur kosið að láta þá afstöðu sig engu varða. Stefnandi hafi á þeim tíma ekki átt í neinni fjárhagsneyð sem hann segi seinna til komna. Hún sé þá tilkomin fyrir hans eigin ákvarðanir og áhættutöku svo sem hann raunar sjálfur lýsi í stefnu. Ábyrgð af þeim gjörðum geti stefnandi ekki varpað á stefnda.
Sjónvarpsdeild stefnda sé ekki eina sjónvarpsstöðin sem stefnandi hafi afhent þættina til endurgjaldslausrar birtingar. Í bréfi stefnanda til menntamálaráðherra komi fram að þættirnir hafi verið sendir út af sjónvarpsstöðinni SCOLA árin 2003, 2004 og 2005, en dreifing á SCOLA fari fram í Bandaríkjunum, Kanada og Suður Ameríku. Segi að þetta sé langstærsta dreifing sem nokkur íslensk dagskrá hafi fengið, en um 10 milljónir manna hafi aðgang að sendingum SCOLA. Stöðin sendi út tungumálakennslu á mörgum tungumálum og fyrirsvarsmenn stöðvarinnar hafi haft áhuga á íslensku sem frummáli. Litið sé á tungumálakennslu sem menningarkynningu. Þau viðhorf sem þarna sé lýst til birtingar efnisins sem um ræði erlendis séu því til staðfestu að viðhorf fyrirsvarsmanna stefnda séu ekki einsdæmi meðal sjónvarpsstöðva. Stefndi telji þau vera frekari rök fyrir því að hafna beri beitingu 36. gr. samningalaga gagnvart samningi málsaðila, enda af framansögðu ljóst að stefnandi hafi gert hliðstæðan samning um langtum víðtækari birtingu.
Komi til þess að aðalkröfu stefnda um sýknu verði hafnað, samningi aðila vikið til hliðar og stefnanda tildæmd þóknun fyrir birtingu þáttanna í sjónvarpinu, sé þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar, enda liggi fyrir að erlend sjónvarpsstöð greiði ekkert fyrir margfalt umfangsmeiri birtingu efnisins, þar sem litið sé á það sem menningarkynningu. Þá skilmála hafi stefnandi undirgengist samkvæmt því sem hann sjálfur lýsi í bréfi til menntamálaráðherra. Hið sama hafi hann gert gagnvart stefnda og fyrir staðhæfingum hans um misneytingu hafi engin haldbær rök verið færð. Engin efni séu þar af leiðandi til að leggja birtingu þáttanna í íslenska sjónvarpinu að jöfnu við birtingu kvikmynda eða sjónvarpskvikmynda. Þess utan hafi efnið verið birt utan dagskrártíma, sakir takmarkaðs áhuga áhorfenda og fámenns áhorfendahóps.
Niðurstaða
Í gögnum málsins kemur fram að afstaða stefnda var allan tímann frá upphafi sú að stefndi myndi ekki greiða stefnanda fyrir sýningu þáttanna sem stefnandi framleiddi til birtingar í sjónvarpinu hjá stefnda og hér um ræðir. Þetta vissi fyrirsvarsmaður stefnanda þótt hann hafi síðar komist að því að ekki fengist samþykki stefnda fyrir því að stefnandi fengi sjálfur að afla kostunar til framleiðslu þáttanna, en samkvæmt 1. mgr. 21. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 er útvarpsstöð heimilt að afla kostunar við gerð einstakra dagskrárliða með skilyrðum sem þar eru tilgreind. Við úrlausn málsins verður því að leggja til grundvallar að málsaðilar hafi í lok nóvember 2001 samið um að stefndi sýndi þættina í sjónvarpinu án endurgjalds þegar gerð þeirra væri lokið af hálfu stefnanda.
Þegar í ljóst kom að fyrirætlanir fyrirsvarsmanns stefnanda gengu ekki eftir varðandi fjáröflun fyrir verkefnið má líta svo á að forsendur hafi brostið fyrir því að hann léti stefnda þættina í té til sýninga í sjónvarpinu endurgjaldslaust. Samkvæmt því sem fram hefur komið virðist þessi breyting, sem fyrirsvarsmaður stefnanda kveðst ekki hafa séð fyrir, aðallega hafa stafað af misskilningi fyrirsvarmanns stefnanda á því með hvaða hætti unnt væri að afla kostunar vegna gerðar sjónvarpsdagskrár. Af gögnum málsins og öðru sem hefur komið fram í málinu verður engan veginn ráðið að þessi misskilningur hafi komið til vegna framkomu stefnda í garð stefnanda eða að hann sé að rekja til mistaka eða annarrar háttsemi starfsmanna stefnda. Staðhæfingum stefnanda um að stefndi hafi ætlað að brjóta á honum þá grundvallarreglu að greitt væri fyrir allt aðfengið útsent sjónvarpsefni er mótmælt af hálfu stefnda. Telja verður ósannað gegn andmælum stefnda að greitt sé fyrir allt útsent sjónvarpsefni, en við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar að ekki sé unnt að krefja um slíkar greiðslur nema um þær hafi verið samið.
Stefnandi óskaði sjálfur eftir því að stefndi sýndi þættina í sjónvarpinu og hafði af því hag að fá þá þannig birta, en eins og fram hefur komið tókst honum með því að afla styrkja til verkefnisins. Af hálfu stefnanda hefur því verið lýst að starfsmenn stefnanda hafi mikla reynslu af framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis. Verður ekki fallist á að samningsstaða stefnanda hafi verið slæm er hann fól stefnda þættina til sýninga eða að hann hafi sætt afarkostum af hálfu stefnda þegar samið var um sýningu þeirra án endurgjalds. Mótmælt er af hálfu stefnda að sú málsástæða stefnanda þess efnis að óheimilt sé að falla frá rétti til þóknunar fyrir sýningu á kvikmyndaverki samkvæmt 3. mgr. 41. gr. höfundalaga nr. 73/1972 komist að í málinu þar sem hún sé of seint fram komin. Af hálfu stefnanda var ekki byggt á þessari málsástæðu í stefnu. Með vísan til þessa og 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 kemur framangreind málsástæða stefnanda ekki til álita við úrlausn málsins.
Almennt verður að gera ráð fyrir því að sanngjarnt verði að telja að greitt sé fyrir birtingu á sjónvarpsefni. Þegar málsatvikin og aðstæður eru hins vegar virtar, eins og þeim er hér að framan lýst, þykir ekki í ljós leitt að viðhlítandi ástæður séu fyrir því að samningurinn um birtingu þátta stefnanda í sjónvarpi stefnda án endurgjalds verði talinn ósanngjarn eða andstæður góðum viðskiptavenjum eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Af því leiðir að ekki eru skilyrði til að samningnum verði vikið til hliðar samkvæmt 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, eins og stefnandi krefst. Ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefnda, Ríkisútvarpið, er sýknað af kröfum stefnanda, Tefra-Film ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.