Hæstiréttur íslands

Mál nr. 223/1999


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Niðurlagning stöðu
  • Bætur
  • Sératkvæði


           

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999.

Nr. 223/1999.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Magnhildi Ólafsdóttur

(Gestur Jónsson hrl.)

                                              

Opinberir starfsmenn. Niðurlagning stöðu. Bætur. Sératkvæði.

M var ráðin ótímabundið til starfa hjá Ríkisútvarpinu árið 1990. Staða hennar var lögð niður 1. október 1997, en þá höfðu tekið gildi lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. M krafðist bóta sem næmu launum hennar í sex mánuði frá og með 1. október 1997 á grundvelli 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í  lögum nr. 70/1996. Í mótmælti kröfu M og vísaði til fordæma Hæstaréttar um skýringu 14. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins því til stuðnings, að draga ætti frá bótunum laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti M. Talið var, að lýsing 5. mgr. ákvæðisins til bráðabirgða á inntaki réttar starfsmanns vegna niðurlagningar starfs væri ekki óbreytt frá eldri starfsmannalögum, þar sem nú væri tekið fram berum orðum, að um væri að ræða bætur og bótarétt. Takmarkaðist rétturinn af því einu, að starfsmaður nyti ekki launa í öðru starfi á tímabilinu. Með hliðsjón af dómaframkvæmd um takmörkun biðlaunaréttar samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 var talið, að löggjafinn hefði þurft að tiltaka það með tvímælalausum hætti, ef bótarétturinn ætti að sæta frekari skerðingum eftir gildistöku laga nr. 70/1996 en leiddi af launum í öðru starfi. Samkvæmt þessu þóttu eldri dómsúrlausnir Hæstaréttar um skerðingu biðlauna vegna launa í uppsagnarfresti ekki hafa fordæmisgildi við úrlausn málsins og var fallist á þá niðurstöðu héraðsdómara, að M bæru bætur sem næmu launum í sex mánuði frá og með 1. október 1997.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 8. júní 1999. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess, að fjárhæð greiðslu til stefndu verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í málinu er deilt um greiðslu bóta til stefndu af því tilefni, að henni var gert að láta af starfi við Ríkisútvarpið á árinu 1997, eftir sjö ára þjónustu hjá stofnuninni. Málavöxtum er lýst í héraðsdómi og þar er einnig rakin 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem við á, þegar lögð er niður staða manns, sem skipaður hafði verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins í gildistíð eldri laga. Eru kröfur stefndu í málinu reistar á þessu ákvæði og 34. gr. sömu laga, sem þar er vísað til.

Ágreiningslaust er, að staða stefndu var lögð niður 1. október 1997 og lét hún þá af störfum. Telur hún sig eiga rétt til bóta fyrir stöðumissinn, er svari til launa næstu sex mánuði eða tímabilið október 1997 – mars 1998, en hún tók ekki á þeim tíma við starfi hjá öðrum. Áfrýjandi telur hins vegar, að Ríkisútvarpinu hafi ekki borið að greiða henni laun nema í þrjá mánuði til viðbótar eða til desemberloka 1997, svo sem gert var. Stefndu hafi verið tilkynnt um það með fyrirvara, er svaraði til þriggja mánaða uppsagnarfrests hennar samkvæmt ráðningarsamningi, hvenær hún ætti að láta af störfum. Þá mánuði sé skylt að telja til þess tíma, sem rétti hennar til bóta hafi verið markaður með áðurnefndu ákvæði til bráðabirgða, sbr. 34. gr. laga nr. 70/1996. Að því er ágreining málsaðila varði séu þessi lagaákvæði ekki breytt frá því, sem kveðið hafi verið á um í 14. gr. laga  nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eins og hún hafi verið skýrð í dómaframkvæmd.

II.

Með lögum nr. 70/1996 hafa verið sett ný heildarlög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem fela í sér ýmsar breytingar á réttarstöðu manna í opinberri þjónustu. Meðal þeirra er sú ákvörðun löggjafans, að horfið skuli frá fyrri meginreglu um fasta og ótímabundna skipun eða ráðningu ríkisstarfsmanna, sem um var mælt í 4. gr. laga nr. 38/1954. Samkvæmt hinum nýju reglum verður skipun að jafnaði tímabundin, sbr. 23. gr. laganna, en ráðning ótímabundin með gagnkvæmum uppsagnarfresti, sbr. 41. gr. Samfara þessari nýbreytni voru lögfest ný ákvæði um rétt starfsmanna í því tilviki, að staða þeirra verði lögð niður, sbr. áður 14. gr. laga nr. 38/1954. Réttur til biðlauna í slíkum tilvikum nær aðeins til skipaðra embættismanna samkvæmt V. kafla laga nr. 70/1996. Um þessi biðlaun er fjallað í 34. gr. laganna, sbr. og 35. gr. Er rétturinn til þeirra takmarkaðri en eftir fyrri lögum að því leyti, að biðlaunin sæta ekki einungis frádrætti eða niðurfellingu vegna annarra launatekna á sama tíma, ef launþeginn tekur við öðru starfi í þjónustu ríkisins, heldur á það einnig við, þótt hið nýja starf sé á annarra vegum, sbr. 2. mgr. 34. gr.

                                                    III.

Í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, sem hér reynir á, er mælt fyrir um bótarétt starfsmanna, sem skipaðir voru eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og ekki teljast til embættismanna, er starf þeirra er lagt niður. Þeir skulu eiga rétt til bóta, er nemi föstum launum í sex eða tólf mánuði frá starfslokum. Er þetta upphaf bótatímabilsins orðað í 1. mgr. 34. gr. laganna, sem ákvæðið vísar til um bótarétt og bótafjárhæð að öðru leyti en því, sem fram er tekið í ákvæðinu sjálfu. Er það með sama hætti og áður var í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954. Samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins er lengd tímabilsins einnig óbreytt, sex eða tólf mánuðir eftir því, hvort þjónustualdur starfsmanns er innan við 15 ár eða ekki. Lýsing 5. mgr. á inntaki réttarins er hins vegar ekki óbreytt frá eldri starfsmannalögum, þar sem nú er tekið fram berum orðum, að um sé að ræða bætur og bótarétt. Sá réttur takmarkast af því einu, að starfsmaðurinn njóti ekki launa í öðru starfi á tímabilinu. Með hliðsjón af dómaframkvæmd um takmörkun biðlaunaréttar samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 hefði löggjafinn þurft að tiltaka það með tvímælalausum hætti, ef bótarétturinn átti að sæta frekari skerðingum eftir gildistöku yngri starfsmannalaga en leiðir af launum í öðru starfi. Þar sem inntak bótaréttarins er ekki að öllu leyti hið sama og biðlaunaréttarins áður hafa fyrri dómsúrlausnir Hæstaréttar um skerðingu vegna launa í uppsagnarfresti ekki fordæmisgildi við úrlausn þessa máls.

Að þessu athuguðu verður héraðsdómur staðfestur með skírskotun til forsendna hans að öðru leyti.

Áfrýjandi skal greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Magnhildi Ólafsdóttur, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

hæstaréttardómara

í hæstaréttarmálinu nr. 223/1999:

Íslenska ríkið

gegn

Magnhildi Ólafsdóttur

Ágreiningslaust er í máli þessu, að staða stefndu við Ríkisútvarpið hafi verið lögð niður. Hafi það átt sér stað hinn 1. október 1997 og hún jafnframt látið af starfi hjá stofnuninni við þetta tímamark. Lýtur deila málsaðila einvörðungu að greiðslum til stefndu af þessu tilefni, en við ákvörðun þeirra telur áfrýjandi skylt að líta til þess, að hún hafi á sínum tíma verið ráðin til starfa samkvæmt samningi með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Í samræmi við það hafi upphafleg tilkynning til hennar um stöðumissinn verið í formi uppsagnar með vísan til þessa samnings. Þegar nær dró starfslokunum hafi svo verið staðfest, að stefnda ætti rétt til biðlauna, þar sem staðan teldist lögð niður, en þó með þeirri takmörkun, að telja bæri uppsagnarfrest hennar til biðlaunatímans.

Stefnda var ráðin til starfa í gildistíð laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en atvik málsins gerðust eftir gildistöku laga nr. 70/1996 um sama efni. Með þeim hafa verið lögfest ný ákvæði um rétt ríkisstarfsmanna í því tilviki, að staða þeirra verði lögð niður, en um hann var áður fjallað í 14. gr. laga nr. 38/1954. Taka ákvæðin eingöngu til skipaðra embættismanna samkvæmt V. kafla laga nr. 70/1996 og áskilja þeim rétt til biðlauna, sem um er mælt í 34. gr. laganna, sbr. og 35. gr. Um aðra starfsmenn er sýnilega við það miðað, að ráðningartíma þeirra megi framvegis ljúka með uppsögn á tilteknum fresti, sbr. 41. gr. og IX. kafla laganna, án tillits til þess, hvort afnám stöðu megi teljast í því fólgið. Til mótvægis við þessa nýskipan er svo fyrir mælt í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, að eldri starfsmenn í síðarnefnda hópnum skuli eiga rétt til bóta, sé starf þeirra lagt niður, og verði þær í formi biðlauna í sex eða tólf mánuði frá starfslokum. Um bótarétt og bótafjárhæð er að öðru leyti vísað til 34. gr. laganna, sem fyrr var nefnd. Af hálfu stefndu eru þessi fyrirmæli ekki talin ófullnægjandi, heldur eru kröfur hennar reistar á þeim að öllu leyti. Hefur áfrýjandi ekki andmælt því, að þau eigi við eftir efni sínu.

Í 5. mgr. ákvæðisins til bráðabirgða er sýnilega horft til þeirra réttinda, sem hinum eldri starfsmönnum voru ætluð eftir 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954. Fyrirmæli málsgreinarinnar eru þó ekki á þá leið, að réttur þeirra til biðlauna skuli haldast óbreyttur, heldur eru þau orðuð sjálfstætt. Þegar á þau er litið verður það fyrst fyrir, að tekið er fram berum orðum, gagnstætt því sem áður var, að um sé að ræða bætur og bótarétt starfsmönnunum til handa. Þennan orðalagsmun þarf ekki að skýra til hlítar í málinu, en hann mælir mjög gegn málstað áfrýjanda að því leyti, að örðugt er að telja laun í uppsagnarfresti til bóta, þegar fullt vinnuframlag kemur á móti, svo sem hér var.

Í annan stað er á það að líta, að 5. mgr. vísar ekki til hinna eldri laga um upphaf bótatímabilsins, heldur eingöngu til 34. gr. laganna sjálfra. Sú lagagrein fjallar um greiðslur til skipaðra embættismanna, þar sem uppsögn á grundvelli ráðningar-samnings kemur ekki til álita að neinu leyti.

Þessi einkenni á orðan málsgreinarinnar falla vel hvort að öðru og benda eindregið til þess, að skýra verði efni hennar á þá leið, að starfsmönnum þeim, sem við er átt, sé ætlaður afdráttarlaus réttur til bóta í formi fastra launa frá því að þeir láta af starfi og til loka þess tímabils, sem til er tekið, án annarrar skerðingar en vegna launa í öðru starfi, svo sem um ræðir í 2. mgr. 34. gr. laganna. Geti fyrirvari á starfslokunum ekki breytt því einn saman. Það efnisatriði laganna, að skerðing biðlauna verði ekki lengur einskorðuð við laun í sambærilegu starfi hjá ríkinu, gefur einnig til kynna, að þessi skýring eigi við. Hún er og eðlileg að því leyti, að hún stuðlar að festu á framkvæmd hinna nýju ákvæða.

Það leiðir beint af því, sem hér var rakið, að þeir dómar Hæstaréttar frá árinu 1995 og síðar, sem áfrýjandi vísar til, geta ekki orðið að fordæmi í þessu máli, enda lutu þeir að skýringu eldri laga og öðrum aðstæðum en þeim, sem hér er við að fást.

Að þessu athuguðu er ég samþykkur atkvæði annarra dómenda að öllu leyti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 1999.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 28. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 29. júní 1998. Málið var þingfest 30. júní 1998.

Stefnandi er Magnhildur Ólafsdóttir, kt. 040742-3799, Grýtubakka 2, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið, kt. 550169-3449.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 235.025 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987, af 75.073 krónum frá 1. janúar 1998 til 1. febrúar 1998, en af 150.146 krónum frá þeim degi til 1. mars 1998, en af 235.025 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað að skaðlausu, að mati dómsins, þ.m.t. að henni verði bættur kostnaður af greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþjónustu.

Dómkröfur stefnda eru þær aðalega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

II.

Óumdeild málsatvik.

Stefnandi var ráðin ótímabundið í starf á skrifstofu Ríkisútvarps-Sjónvarps með ráðningarsamningi 12. október 1990 en sá samningur kvað á um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hún var félagsmaður í Starfsmannafélagi sjónvarps, sem er aðildarfélag að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Í ráðningarsamningi stefnanda var sérstaklega tekið fram að um réttindi og skyldur hennar færi eftir lögum og reglum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Með bréfi dags. 18. júní 1997 var stefnanda tilkynnt að vegna skipulagsbreytinga yrði henni sagt upp störfum. Efni bréfsins var á þessa leið:

„Ráðningarsamningi þínum og Ríkisútvarpsins er hér með sagt upp með samningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Skv. því fellur ráðningarsambandið úr gildi þann 1. október nk.

Ástæða uppsagnarinnar er hagræðing í rekstri, sem mun fela í sér fækkun starfsmanna, sbr. bréf útvarpsstjóra dags. 9. júní 1997. Uppsögn þessi er liður í þeirri endurskipulagningu og felur ekki í sér neikvætt mat á störfum þínum fyrir Ríkisútvarpið.“

Eftir þetta hélt stefnandi áfram störfum sínum og starfsskyldum með sama hætti og hún hafði gert fram að því. Stefnandi fékk annað bréf frá Ríkisútvarpinu 29. september 1997 en í því sagði m.a.:

„Um þessi mánaðamót fer fram starfslokauppgjör vegna ráðningarslita þinna hjá Ríkisútvarpinu. Af þeim skipulalgsbreytingum sem voru ástæða uppsagnar þinnar leiðir að starf það sem þú gegndir telst hafa verið lagt niður og ekki hefur samist um annað starf hjá Ríkisútvarpinu. Skv. hæstaréttardómi ber að telja uppsagnarfrestinn hluta biðlaunatímabils, þegar biðlaun greiðast í kjölfar niðurlagningar á stöðum. Skv. því verða biðlaun greidd í þrjá mánuði frá 1. okt. nk., þó með þeim fyrirvara, að biðlaunagreiðslum til frádráttar eiga að koma tekjur sem til þín kunna að falla á biðlaunatímabilinu.

Við þessi tímamót eru farsæl störf þín í þágu Ríkisútvarpsins þökkuð og þér óskað velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi.“

Stefnandi hætti störfum sínum hjá Ríkisútvapinu, í byrjun október 1997. Í samræmi við framangreint bréf frá 29. september 1997 voru stefnanda greidd biðlaun næstu þrjá mánuði, þ.e. út desembermánuð 1997.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Af hálfu stefndanda er því haldið fram að hún hafi verið ríkisstarfsmaður í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hún hafi ráðist til starfa í tíð laga nr. 38/1954, en lög nr. 70/1996 hafi leyst þau af hólmi.

Í tíð laga nr. 38/1954 hafi stefnandi notið biðlaunaréttar vegna stöðu sinnar, samkvæmt ákvæðum 14. gr. laganna, en þar segi að þegar staða sé lögð niður skuli starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann láti af starfi, ef hann hafi verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár. Stefnandi vísar til þess að í hæstaréttardómi frá 1995, bls. 2342 komi fram að tilgangur þessa ákvæðis hafi verið sá að tryggja starfsmanni laun, sem svari ríflegum uppsagnarfresti, þegar staða hans sé lögð niður. Samkvæmt því skyldi við uppgjör biðlauna draga frá laun í uppsagnarfresti.

Með lögum nr. 70/1996 hafi þetta ákvæði fellt niður og ekki sett sambærilegt biðlaunaákvæði í þess stað. Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laganna sé aftur á móti mælt svo fyrir að starfsmaður, sem skipaður hafi verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og fallið hafi undir lög nr. 38/1954, en teljist ekki embættismaður skv. 22. gr. laganna, eigi rétt til bóta, við niðurlagningu stöðu, er nemi launum í sex mánuði, ef hann hafi verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Um bótarétt og bótafjárhæð sé vísað til 34. gr. laganna. Þetta ákvæði kveði á um lögmæltar bætur og sé allt annars eðlis en áðurnefnt biðlaunaákvæði eldri laga. Stefnandi telur að löggjafinn hafi í 34. gr. laganna tekið af tvímæli um hvaða liðir skuli koma til frádráttar bótum samkvæmt nefndu ákvæði, þ.e. launagreiðslur sem viðkomandi starfsmaður njóti hjá ríkinu eða öðrum aðila eftir að hann láti af starfi.

Stefnandi kveður kröfu um skaðabætur byggjast á nefndri 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Ekki fari á milli mála að hún hafi látið af starfi sínu 1. október 1997 vegna niðurlagningar starfins. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins eigi hún rétt á bótum sem svari til launa á næstu 6 mánuðum eftir að hún lét af starfi en hún hafi ekki notið neinna launa á tímabilinu, sem koma eigi til frádráttar samkvæmt 2. mgr. 34. gr. laganna.

Stefnandi telur þá kenningu ranga að vegna fyrrnefnds hæstaréttardóms beri að greiða „biðlaun“ í aðeins þrjá mánuði. Hæstaréttardómurinn varði skýringu á ákvæði sem hafi verið fellt úr gildi. Það ákvæði, sem krafa stefnanda byggist á, sé allt annars eðlis og miklu nákvæmara en umrætt eldra ákvæði. Dómurinn feli ekki í sér að Ríkisútvarpið hafi getað sagt stefnanda upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti, þremur mánuðum áður en starf hennar hafi verið lagt niður og hún látið af störfum.

Stefnandi byggir rétt til biðlauna í sex mánuði einnig á því að samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttarins hafi ekki verið fyrir hendi neinar lögmætar uppsagnarástæður, aðrar en niðurlagning stöðu hennar, en sú niðurlagning hafi ekki átt sér stað fyrr en 1. október 1998. Þetta sjáist skýrast á því að stefnanda hafi verið gert að halda áfram að sinna starfi sínu til þess dags og Ríkisútvarpið tekið sérstaklega fram að störf hennar hafi verið farsæl að öllu leyti. Uppsögn vegna hagræðingar í rekstri án bóta geti ekki átt við hér þar sem stefnandi njóti bótaréttar samkvæmt fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði. Uppsögnin hafi því verið lítt dulbúin niðurlagning stöðu beinlínis til þess að nýta starfskrafta stefnanda þremur mánuðum lengur en uppsögn í þeim tilgangi að spara biðlaunagreiðslur vegna niðurlagningar stöðu geti ekki talist lögmæt

Eins og áður hafi verið lýst hafi stefndi greitt stefnanda „biðlaun“ í þrjá mánuði, þ. e. vegna október-, nóvember- og desembermánaða. Tekið sé tillit til þessara greiðslna í kröfugerð hennar og gerð krafa um skaðabætur sem svari þeim föstu launum, sem henni hafi borið samkvæmt kjarasamningi og ráðningarsamningi á síðari þremur mánuðum tímabilsins, þ.e. janúar, febrúar og mars 1998.

Dráttarvaxtakrafan sé sett fram með stoð í III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og samkvæmt dómvenju Hæstaréttar en upphaftími dráttarvaxta miðist við þær dagsetningar sem stefnandi hefði fengið umrædd laun greidd ef hún hefði verðið áfram við störf. Þá sé gerð krafa um að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun, þar sem hún njóti því ekki frádráttar vegna skattsins.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi ekki verið skipuð í starf sitt heldur ráðin með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Réttur hennar til biðlauna byggist því á bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 70/1996.

Stefndi telur að samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, samanber 2. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 hafi, verið réttmætt að telja til þess tíma, er stefnandi hefði annars átt rétt til launagreiðslna vegna niðurlagningar stöðu, uppsagnarfrest sem sérstaklega hafi verið kynntur henni, þ.e. mánuðina júlí, ágúst og september 1997. Hafi því verið rétt að greiða stefnanda einungis bætur er samsvöruðu launum fyrir mánuðina október, nóvember og desember 1997. Því er haldið fram af hálfu stefnda að ekkert sé óeðlilegt við að starfsmanni sé sagt upp störfum þótt biðlaunaréttur fylgi starfinu. Það megi telja til góðra stjórnsýsluhátta að nýta uppsagnarfrest með þeim hætti sem gert hafi verið. Í hugtakinu biðlaun felist að greidd séu laun meðan menn séu að bíða og sú bið hefjist í þessu tilviki við uppsögn.

Það að uppsagnarfrestur teljist til biðlaunatíma megi ekki skilja svo að verið sé að lækka bætur heldur sé verið að skilgreina biðlaunatímann upp á nýtt. Upphaf biðlaunatímans sé fært til og hefist við upphaf uppsagnarfrests, þannig að uppsagnarfresturinn teljist hluti af biðlaunatímanum.

Stefndi bendir á að 14. gr. laga nr. 38/1954 hafi verið skýrð á framangreindan veg í hæstaréttardómum 1995, bls. 2342 og 1996, bls. 4043, en af dómunum verði ráðið að engu skipti í þessu efni hvort starfsmaður hafi verið leystur undan vinnuskyldu í uppsagnarfresti eða ekki. Um biðlaunarétt embættismanna sé nú fjallað í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, en um biðlaunarétt þeirra sem skipaðir voru eða ráðnir í starf fyrir gildistöku þeirra laga fari eftir ákvæði 5. mgr. til bráðabirgða í lögunum.

Af hálfu stefnda er bent á að í athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 70/1996 segi að 34. gr. svari til 14. gr. laga nr. 38/1954. Þar segi ennfremur að nefnd 14. gr. hafi á sínum tíma verið rökstudd með því að rétt væri að tryggja starfsmanni laun sem svöruðu ríflegum uppsagnarfresti ef starf hans yrði lagt niður. Sama sjónarmið búi að baki hinu nýja ákvæði, en skýrt sé kveðið á um það í 2. mgr. 34. gr. frumvarpsins að þau laun sem embættismaður fái greidd meðan á biðlaunagreiðslum stæði, skuli koma til frádráttar biðlaunum, hvort sem launin séu innt af hendi af ríkinu eða öðrum aðilum.

Því er haldið fram að af framangreindu megi sjá að megintilgangur 34. gr. laga nr. 70/1996 sé hinn sami og legið hafi að baki 14. gr. laga nr. 38/1954, þ.e. að tryggja starfsmanni laun sem svari ríflegum uppsagnarfresti, þegar staða hans sé lögð niður, enda þótt löggjafinn hafi fært ákvæðið til nútímahorfs að því leyti að launagreiðslur vegna niðurlagningar komi ekki til ef starfsmaður nyti jafnhárra eða hærri launa hjá öðrum aðila á þeim tíma er greiðslur hefðu ella komið til. Ljóst sé að tilgangur eldri biðlaunareglu hafi verið sá að tryggja mönnum framfærslu við niðurlagningu stöðu, þ.e. þegar starf hafi ekki lengur verið fyrir hendi. Ef löggjafinn hefði talið ástæðu til að hverfa frá því fordæmi sem fram komi í hrd. 1995, bls. 2342 hefði það komið fram í ákvæðinu. Þvert á móti hafi löggjafinn áréttað sjónarmið, sem lá til grundvallar túlkun Hæstaréttar í nefndum dómum, um tilgang biðlauna eða bóta vegna niðurlagningar stöðu. Af hálfu stefnda er því haldið fram að enginn eðlismunur sé á bótarétti samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðisins og biðlaunarétti. Um sé að ræða lögákveðnar bætur og stefnandi geti aðeins átt rétt til bóta sem nemi launum á biðlaunatímanum. Stefnanda hafi þegar verið greiddar fullar bætur og beri að sýkna stefnda af öllum kröfum hennar.

Stefndi mótmælir því að ekki hafi verið skilyrði til að segja stefnanda upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Uppsagnarástæður hafi verið þær sem greindi í bréfum stofnunarinnar og fyrir hendi skýlaus réttur til að nýta uppsagnarákvæði ráðningarsamnings, samanber 43. gr. laga nr. 70/1996. Því sé sérstaklega mótmælt sem ósönnuðu að til hafi staðið að nýta vinnukrafta stefnanda með ólögmætum hætti

Til stuðnings lækkunarkröfu stefnda er bent á að krafan sé of há sem nemi hluta persónuuppbótar. Samkvæmt grein 1.7.1 í kjarasamningi sé það skilyrði fyrir persónuuppbót hjá starfsmanni sem lætur af störfum að hann hafi starfað samfellt í a.m.k. sex mánuði á árinu. Þar sem krafa stefnanda til launagreiðslna miðist við tímabilið 1. janúar til 30. mars 1998 sé réttur til persónuuppbótar sé ekki fyrir hendi. Beri því a.m.k. að lækka kröfufjárhæðina sem þessu nemi eða um 7.606 krónur

Mótmælt er upphafstíma dráttarvaxta og vísað til 9. og 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Beri að miða við dómsuppkvaðningu eða í fyrsta lagi við þingfestingardag.

V.

Niðurstaða.

 Stefnanda var sem fyrr segir sagt upp störfum 18. júní 1997, með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við starfslok 1. október 1997. Hún vann uppsagnarfrestinn en með bréfi dagsettu 29. september var henni tilkynnt að starf hennar yrði lagt niður 1. október 1997. Óumdeilt er að stefnandi átti við niðurlagningu stöðunnar rétt til bóta á grundvelli 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996, sbr. 34. gr. laganna. Aðilar deila hins vegar um hvort Ríkisútvarpinu hafi verið rétt að miða upphaf bótatímabilsins við upphaf uppsagnarfrestsins, sem var 1. júlí 1997.

Fyrrnefnd 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 er svohljóðandi:

Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hefur undir lög nr. 38/1954, en telst ekki embættismaður skv. 22. gr. laga þessara, rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði. Að öðru leyti gilda um bótarétt og bótafjárhæð ákvæði 34. gr.

Ákvæði 1. mgr. 34. gr. er svohljóðandi:

Nú er embætti lagt niður og skal þá embættismaður jafnan halda óbreyttum launakjörum er embættinu fylgdu í sex mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en ella í tólf mánuði, enda hafi hann þá ekki hafnað öðru sambærilegu starfi, óháð því hvort það er á vegum ríkisins eða annars aðila.

Í 14. gr. eldri starfsmannalaga nr. 38/1954 var upphaf biðlaunatíma einnig afmarkað með orðunum „frá því hann lét af starfi." Með dómum Hæstaréttar 1995, bls. 2342 og 1996, bls. 4304 var ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 skýrt svo, m.a. með tilliti til tilgangs biðlaunareglna samkvæmt greinargerð með frumvarpi að lögunum, að uppsagnarfrestur teldist til biðlaunatíma hvort sem starfsmaður ynni uppsagnarfrestinn eða ekki.

Í athugasemdum við 34. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 70/1996 segir:

„Ákvæði 14. gr. um biðlaun var á sínum tíma rökstutt með því að rétt væri að tryggja starfsmanni laun sem svöruðu ríflegum uppsagnarfresti ef starf hans yrði lagt niður. Sama sjónarmið býr að baki þessu ákvæði, en skýrt er kveðið á um það í 2. mgr. að þau laun, sem embættismaður fær greidd meðan á biðlaunagreiðslum stendur, skuli koma til frádráttar biðlaunum, hvort sem launin eru innt af hendi af ríkinu eða öðrum aðilum.“

Við mat á fordæmisgildi framangreindra hæstaréttardóma verður að hafa í huga að þeir voru kveðnir upp í gildistíð eldri starfmannalaga nr. 38/1954. Enda þótt upphaf biðlaunatíma væri skilgreint með sama hætti í þeim lögum og í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996 var biðlaunaréttur, samkvæmt eldi lögum, að nokkru leyti frábrugðinn þeim rétti sem hin nýju lög kveða á. Sú fordæmisregla, sem Hæstiréttur mótaði með þeirri niðurstöðu í dómi 1995, bls. 2342, að uppsagnarfrestur væri hluti af biðlaunatíma, samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954, þótt starfsmaður ynni uppsagnarfrestinn, var ekki tekin upp í lög nr. 70/1996.

Biðlauna- og bótaákvæði vegna niðurlagningar á stöðu og starfsloka í lögum nr. 70/1996 eru mun nákvæmari en í eldri lögum. Þannig segir er 2. mgr. 34. gr. mælt fyrir um að ef maður, er nýtur launagreiðslna skv. 1. mgr., tekur við nýju starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en sex eða 12 mánaða tíminn er liðinn, komi allar launagreiðslur á biðlaunatíma til frádráttar biðlaunum. Þá er í 3. mgr. 35. gr. laganna kveðið á um takmarkaðar starfsskyldur embættismanns sem skipaður er tímabundið á þeim tíma sem hann nýtur launa eftir að skipun hans hefur ekki verið framlengd. Með hliðsjón af þessu nákvæmui lagafyrirmælum má ætla að kveðið hefði verið á um með afdráttarlausum hætti, að laun í uppsagnarfresti skyldu dragast frá bótagreiðslum, ef vilji löggjafans stóð til þess.

Í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 70/1996 er ekki vikið að dómi Hæstaréttar 1995, bls. 2342. Framangreind tilvísun í greinargerðinni, til sömu athugasemda í greinargerð með eldri lögum og Hæstiréttur vísaði til í framangreindum dómi, þykir svo almenn, með tilliti til afdráttarlauss orðalags 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, að ekki verður séð að vilji löggjafans hafi verið sá að festa fyrrnefnda fordæmisreglu um túlkun eldri laga í sessi. Með hliðsjón af þeim breytingum sem gerðar voru á biðlaunaákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögskýringargögnum þykja hæstaréttardómar um túlkun eldri laga ekki hafa fordæmisgildi við úrlausn þessa máls.

Orðalag 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða og 1. mgr. 34. gr. laga nr. 70/1996, sem mælir fyrir um að embættismaður haldi óbreyttum launakjörum í sex eða tólf mánuði frá því að hann lét af starfi, er skýrt og ótvírætt, hvað varðar upphaf og lengd þess tíma sem bætur skulu miðast við. Óljós skírskotun til eldri sjónarmiða að baki biðlaunaákvæðum í greinargerð með frumvarpi til laganna, hæstaréttardómar um skýringu eldri lagaákvæða um biðlaunarétt, eða önnur þau sjónarmið sem stefndi hefur haldið fram geta því ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að uppsagnarfrest beri að telja til viðmiðunartíma bóta í þeim tilvikum sem starfsmaður vinnur út uppsagnarfrestinn.

Óumdeilt er að stefnandi lét af störfum í lok september 1997 og á hún því samkvæmt framansögðu rétt á bótum sem nema sex mánaða launum frá 1. október 1997. Af hálfu stefnda hafa ekki verið bornar brigður á að stefnandi hafi ekki þegið laun á því tímabili sem bótakrafa hennar miðast við og kemur því lækkunarákvæði 2. mgr. 34. gr. starfsmannalaga ekki til skoðunar í máli þessu. Stefnandi hefur þegar fengið greiddar bætur sem nema launum mánuðina október, nóvember og desember 1997 og ber stefnda því að greiða henni bætur sem nemur launum vegna mánaðanna janúar, febrúar og mars 1998.

Með grein 7.1 í samkomulagi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsmannafélgs sjónvarps, undirrituðu 30. maí 1997, um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila, var grein 1.7.1 í kjarasamningi þeirra m.a færð til þess horfs að réttur starfsmanns, sem lætur af starfi, til greiðslu hlutfalls af persónuuppbót í desember var bundinn því skilyrði að hann hefði starfað samfellt í a.m.k. 6 mánuði á árinu. Ótvírætt er að stefnandi uppfyllti ekki þetta skilyrði á árinu 1998. Ber því að lækka kröfur hennar um fjárhæð sem nemur 3/12 hluta desemberuppbótar eða 7.606 krónur.

Ekki er að öðru leyti tölulegur ágreiningur í málinu og ber stefnda því samkvæmt framansögðu að greiða stefnanda bætur að fjárhæð 227.419 krónur. Fallast ber á þau rök stefnanda að bótakrafan hafi í raun gjaldfallið á þeim dögum sem laun hefðu verið greidd ef ekki hefði komið til niðurlagning á starfi hennar. Ber því að fallast á kröfu hennar um upphafstíma dráttarvaxta og reiknast þeir eins og í dómsorði greinir.

Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 125.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til skaðleysissjónarmiða vegna virðisaukaskatts af lögmannsþóknun.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Hörður Felix Harðarson hdl. en Einar Karl Hallvarðsson hrl. af hálfu stefnda.

Sigurður T. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Magnhildi Ólafsdóttur, 227.419 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 75.073 krónum frá 1. janúar 1998 til 1. febrúar 1998, en af 150.146 krónum frá þeim degi til 1. mars 1998, en af 227.419 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 125.000 krónur í málskostnað.