Hæstiréttur íslands

Mál nr. 123/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Verjandi


Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. mars 2006.

Nr. 123/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gögn. Verjandi.

Hafnað var kröfu L um að verjanda X yrði í fimm vikur synjað um aðgang að rannsóknargögnum opinbers máls, sem beindist gegn honum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2006, að því er varðar það ákvæði í úrskurðinum að sóknaraðila sé heimilt að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum málsins í allt að fimm vikur. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að verjanda hans verði veittur aðgangur að öllum gögnum sem til hafi orðið, eða borist lögreglu fyrir þremur vikum eða lengri tíma, en til vara að verjanda verði veittur aðgangur að þeim gögnum sem orðin hafi verið þriggja vikna eða eldri þegar lögð hafi verið fram í héraðsdómi beiðni um skýrslutöku fyrir dómi og krafa um framlengingu frests í fimm vikur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði liggur varnaraðili undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi fíkniefna og varðar hið ætlaða brot við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur varnaraðili setið í gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar 2006 vegna rannsóknarhagsmuna og hefur Hæstiréttur fjórum sinnum staðfest úrskurði héraðsdóms þar að lútandi, nú síðast með dómi 6. mars 2006 í máli nr. 124/2006.

Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu sóknaraðila um að neyta heimildar b. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999 og 4. gr. laga nr. 86/2004 um að tekin yrði skýrsla af varnaraðila fyrir dómi og er sá þáttur úrskurðarins ekki til endurskoðunar hér. Þá var fallist á að framlengja í allt að fimm vikur frest sem sóknaraðili hefur samkvæmt 1. mgr. 43. gr. sömu laga, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999 og 1. gr. laga nr. 86/2004 til að veita verjanda varnaraðila aðgang að gögnum málsins svo unnt yrði að ljúka skýrslutökum af honum fyrir dómi. Í hinum kærða úrskurði er ekki kveðið á um hvenær skýrslutaka skuli fara fram en sóknaraðili kveður hana fyrirhugaða 10. mars næstkomandi og einnig 17. sama mánaðar ef þörf krefji.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum skal verjandi fá jafnskjótt og unnt er endurrit af öllum skjölum er mál varða. Frá þessari meginreglu er sú undantekning í 2. málslið ákvæðisins að lögregla getur neitað að veita verjanda aðgang að skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Ennfremur er dómara heimilt samkvæmt b. lið 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum að framlengja frest samkvæmt 1. mgr. 43. gr. sömu laga í allt að fimm vikur svo unnt verði að ljúka því að taka skýrslur innan frestsins af sakborningi eða vitnum fyrir dómi telji lögregla slíka skýrslutöku nauðsynlega til að upplýsa mál áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða gögnum þess.

Með hinum kærða úrskurði var fallist á beiðni sóknaraðila um að framlengja framangreindan frest til að neita verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum málsins. Varnaraðili var viðstaddur uppkvaðningu úrskurðarins en skýrsla var ekki tekin af honum fyrir dómi í kjölfarið. Var látið við það sitja að varnaraðili staðfesti skýrslur sem hann hafði gefið fyrir lögreglu. Hefur sóknaraðili byggt á því að skýrslutaka fyrir dómi sé ekki tímabær en kveður hana eins og áður segir fyrirhugaða 10. mars og á ný viku síðar gerist þess þörf. Þegar litið er til dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum verður að telja að þau rök sem sóknaraðili hefur fært fram til stuðnings kröfu sinni nægi ekki til að vikið verði frá framangreindri meginreglu um afhendingu gagna sem eldri eru en þriggja vikna, sbr. t.d. dóma réttarins á bls. 1289 og bls. 2638 í dómasafni 2004. Verður ekki séð að vandkvæði hefðu verið á því að taka þá skýrslu af varnaraðila og veita verjanda að því búnu aðgang að þeim gögnum málsins sem þá voru þriggja vikna gömul í skilningi ákvæðisins. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um að framlengja frest í fimm vikur til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að áðurnefndum rannsóknargögnum málsins.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, um að verjanda varnaraðila, X, verði í fimm vikur synjað um aðgang að rannsóknargögnum opinbers máls, sem beinist að honum.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2006.

Lögreglan hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur taki skýrslu af X, [kt. og heimilisfang], og framlengi jafnframt frest í allt að fimm vikur sem lögregla hefur til að synja skipuðum verjanda um aðgang að rannsóknargögnum lögreglumáls nr. 035-2006-[...] svo unnt sé að ljúka skýrslutöku innan frestsins. 

Lögregla kveðst rannsaka meint fíkniefnabrot kærða.  Meðkærði, A, litháískur ríkisborgari, hafi flutt til landsins sterkt amfetamín í vökvaformi.  Lögregla telur meðkærða hafa tekið að sér að flytja fíkniefnin til landsins, en grunar kærða um að hafa staðið fyrir innflutningnum.  A hafi greint frá annarri sams konar ferð í desember sl. og hafi hann þá hitt kærða og afhent honum flöskurnar.  Benti A á kærða og eiginkonu hans við myndsakbendingu.  Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. f.m.

Lögregla telur nauðsynlegt að á næstunni fari fram skýrslutaka fyrir dómi af kærða áður en hann fær að kynna sér öll gögn málsins samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991.  Lögregla telur að það gæti skaðað rannsókn málsins ef kærði fengi að kynna sér gögn málsins áður en skýrslutaka fer fram þar sem hann gæti þá lagt mat á sönnunarstöðu málsins og hagað framburði sínum með hliðsjón af framburðum annarra í málinu og hagrætt honum eftir þörfum.  Sé því jafnframt nauðsynlegt að héraðsdómur framlengi þann frest sem lögregla hefur til að kynna verjanda gögn málsins svo unnt sé að ljúka skýrslutöku innan frestsins. 

Til rannsóknar er meint brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga.  Kærði var handtekinn 13. febrúar sl. og hefur verjanda ekki verið veittur aðgangur að öllum gögnum málsins.  Má fallast á með lögreglu að enn séu ríkir rannsóknarhagsmunir af því að gögnum sé haldið leyndum fyrir verjanda og kærða.  Verður fallist á kröfur lögreglu um skýrslutöku og framlengingu frests samkvæmt 43. gr. laga nr. 19/1991.  Framlengist fresturinn svo að hann standi samanlagt í allt að fimm vikur, sbr. 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð :

Skýrsla skal tekin af kærða, X, fyrir dómi. 

Lögreglu er heimilt að halda gögnum málsins leyndum fyrir verjanda kærða í allt að fimm vikur.