Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/2007
Lykilorð
- Líkamsárás
- Ávana- og fíkniefni
- Umferðarlagabrot
- Þjófnaður
|
|
Fimmtudaginn 28. febrúar 2008. |
|
Nr. 413/2007. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari) gegn Sadun Lankathilaka (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Líkamsárás. Ávana- og fíkniefni. Umferðarlagabrot. Þjófnaður.
S var sakfelldur fyrir þjófnað, fíkniefna- og umferðarlagabrot. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa slegið A hnefahögg í andlitið. Féll A við það aftur fyrir sig og skall með hnakka í jörðina og fékk við það glóðarauga og dreift heilamar. Í framhaldinu stappaði S með fæti ofan á líkama A. Með hliðsjón af því hversu alvarlegur verknaður ákærða var, vísan til 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og því að ákærða var einnig ákveðin refsing vegna skilorðsrofs var refsing hans ákveðin fangelsi í 14 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 26. júlí 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og þyngingar refsingar.
Ákærði krefst aðallega að hann verði sýknaður af ákæru 20. mars 2007 og honum gerð vægari refsing en samkvæmt héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð.
Í niðurstöðu héraðsdóms um sakargiftir á hendur ákærða samkvæmt ákæru 20. mars 2007 er meðal annars á því byggt að nafngreindur lögreglumaður hafi borið að ákærði hafi í sjálfstæðri frásögn tjáð sér undir rannsókn málsins að hann hafi barið A í andlitið. Þegar samtal þetta hafi átt sér stað hafi ákærða verið ljós réttarstaða sín. Er þessi framburður lögreglumannsins í samræmi við upplýsingaskýrslu hans 11. júní 2006. Sakfelling ákærða verður ekki reist á því sem skráð er eftir honum í skýrslu um samtal við hann og breytir engu þótt lögreglumaðurinn hafi staðfest efni þess fyrir dómi. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 359.127 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 20. mars 2007 á hendur Sadun Lankathilaka, kennitala 091085-3059, Snorrabraut 22, Reykjavík, fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 10. júní 2006, á veitingahúsinu Rauða ljóninu við Eiðistorg, Seltjarnarnesi, í átökum við A, kennitala [...], slegið hann hnefahögg í höfuð svo að hann féll í gólfið, og sparkað í og stigið á höfuð hans og líkama, með þeim afleiðingum að hann hlaut dreift heilamar, auk þess sem hann bólgnaði aftan á höfði hægra megin og marðist um hægra auga og á vinstri öxl.
Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981 og lög nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 2.883.176 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 eða af 2.000.000 króna frá 11. júní 2006 til 30. júní 2006, en þá af 2.146.386 krónum frá 31. júlí 2006, en þá af 2.492.430 krónum frá 31. júlí 2006 til 31. ágúst 2006, en þá 2.708.726 krónum frá 31. ágúst 2006 til 12. nóvember 2006, en þá af 2.883.176 krónum til greiðsludags, auk þess sem krafist er vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.
Hinn 24. apríl sl. var sakamálið nr. 504/2007 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 28. mars 2007, eftirtalin brot framin á árinu 2006:
1.
Þjófnað, með því að hafa mánudaginn 6. nóvember í versluninni BT í Kringlunni 4-12, Reykjavík, tekið ófrjálsri hendi 2 myndbandsupptökuvélar og myndavél, samtals að verðmæti 214.475 krónur og haft á brott með sér.
Þetta er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2.
Fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 8. nóvember, í bifreiðinni YX-353 sem var staðsett við Engihjalla 8 í Kópavogi haft í vörslum sínum 9,34 g af maríhúana sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.
Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, sbr. lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að gerð verði upptæk 9,34 g af maríhúana, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Hinn 6. júní sl. var sakamálið nr. 741/2007 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 21. maí 2007 umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni LZ-556, mánudaginn 4. desember 2006, sviptur ökurétti um götur í Reykjavík uns lögregla stöðvaði aksturinn við Kirkjusand.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Verjandi ákærða krefst sýknu af ákærum 20. mars og 21. maí 2007, en að öðru leyti vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Loks krefst verjandinn þess að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði felldur á ríkissjóð.
Ákæra 20. mars 2007.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá laugardeginum 10. júní 2006 fékk lögregla þann dag kl. 00.55 boð um að fara að veitingahúsinu Rauða ljóninu við Eiðistorg en tilkynnt hafði verið um mann sem lægi niðri eftir slagsmál, væri hann meðvitundarlaus og hættur að anda. Samkvæmt frumskýrslu var lögregla kominn á staðinn kl. 01.00. Var sjúkralið þá komið á vettvang og farið að hlúa að A þar sem hann lá inni í húsinu á stétt fyrir framan vængjahurð inn á veitingahúsið Rauða ljónið. Hafi A verið fluttur með sjúkrabifreið á slys- og bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss. Fram kemur að mikið af ungu fólki hafi verið inni á Rauða ljóninu og fyrir utan í húsinu og hafi verið ,,mikill æsingur í mannskapnum” og fólk í uppnámi. Lögreglumenn hafi á staðnum rætt við B, C, D, E og F, sem öll hafi verið að skemmta sér. Auk þess hafi verið rætt við G, barþjón á staðnum. Erfitt hafi verið að taka niður upplýsingar hjá vitnum á vettvangi.
Ákærði var handtekinn þessa nótt kl. 01.34 við veitingahúsið Rauða ljónið. H lögreglumaður hefur ritað skýrslu eftir samtal hans við ákærða sem fram fór í fangageymslu. Í skýrslu Kristins kemur fram að ákærði hafi í sjálfstæðri frásögn greint frá því að íslenskur karlmaður hafi komið til ákærða þar sem ákærði hafi setið ásamt vinum sínum inni á Rauða ljóninu. Drengurinn hafi í framhaldi ráðist á ákærða og m.a. sparkað í hann. Hafi ákærði varist yfirgangi þessa drengs með því að berja hann einu hnefahöggi í andlitið.
I heila- og taugaskurðlæknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi hefur 10. október 2006 ritað vottorð vegna innlagnar A 10. júní 2006. Í vottorðinu kemur fram að A hafi verið fluttur á bráðamóttöku í sjúkrabifreið en kastað upp á leiðinni. Við komu á bráðamóttöku hafi hann verið djúpt meðvitundarlaus. Hann hafi þó hreyft útlimi við sársaukavörn og umlað. Sneiðmynd af höfði hafi sýnt a.m.k. fimm afmarkaða skaða í heila. Hafi hann verið með kúlu aftan á höfði hægra megin hátt uppi. Ljóst hafi verið að skaðar í heila hafi fyrst og fremst verið mar þannig að ekki hafi um eiginlega blæðingu verið að ræða. A hafi útskrifast 13. júní 2006 og verið fluttur niður á Barnadeild. Í samantekt I kemur fram að án þess að hafa fleiri gögn en sjúkraskrá undir höndum sé eðlilegast að álykta sem svo að áverki á hnakka hægra megin hafi valdið mestu um áverkana en hvort þetta sé vegna falls aftur á bak á hart gólf eða vegna beins áverka geti I ekki tjáð sig um.
J taugalæknir hefur 20. október 2006 ritað áverkavottorð vegna A. Í vottorðinu kemur fram að A hafi 13. júní 2006 verið fluttur á Barnaspítala Hringsins til áframhaldandi meðferðar eftir alvarlega líkamsárás við veitingahúsið Rauða ljónið, sem átt hafi sér stað þrem dögum áður. Hafi hann upphaflega verið fluttur á slysadeild í Fossvogi og þá reynst meðvitundarlaus. Framkvæmd hafi verið tölvusneiðmynd sem sýnt hafi mar og blæðingar í heilavef. Drengurinn hafi verið hafður innliggjandi á heilaskurðdeild en ekki hafi þótt ástæða til aðgerðar. Þegar sýnt hafi verið að ekki kæmi til aðgerðar hafi hann verið fluttur til frekari meðferðar og eftirlits á Barnaspítalann. Við skoðun við innlögn á Barnaspítalann 13. júní 2006 hafi drengurinn verið með glóðarauga við hægra auga, mar neðarlega á vinstri kinn en önnur ytri áverkamerki ekki verið áberandi. Við taugaskoðun hafi A verið áberandi syfjaður. Hann hafi þó vaknað þegar talað hafi verið til hans. Hann hafi verið áttaður á nafni en ekki stað og stund. Hafi hann haft mjög skert skammtímaminni en gott minni á eldri atburði. Hafi A haft mikinn orðarugling og uppsetning orða verið óeðlileg. Hafi A verið innliggjandi til eftirlits í 13 daga og útskrifast heim 26. júní 2006. Þar sem einkenni A hafi enn verið veruleg þegar liðið hafi verið á þriðju viku frá áverka hafi verið ákveðið að leggja A inn í endurhæfingu á Grensás enda ljóst að til langtíma endurhæfingar þyrfti að koma. Hafi hann verið lagður inn á Grensás 10. júlí 2006.
Á fyrstu tölvusneiðmynd sem framkvæmd hafi verið þegar drengurinn hafi komið inn hafi sést yfirborðsmarblæðingar aftan til í framheila vinstra megin og lítil blæðing miðlægt framan til vinstra megin og í vinstri temporal lappa. Þá hafi verið marblæðingar hliðlægt í hægri framheila lappa aftanverðum og smá blæðingar framan til í hægri temporal lappa. Þá hafi verið litlar marblæðingar aftan til í parietal lappa hægra megin. Það hafi sést stór bólga í höfuðleðri ofan við þá blæðingu. Tölvusneiðmynd hafi verið endurtekin um 12 klukkustundum síðar og þá sést að blæðingar hafi vaxið talsvert frá síðustu rannsókn og hafi marblæðing í vinstri temporal lappa verið sýnu stærst með 3.5 cm í stærsta þvermáli. Í heild hafi sést fimm svæði sem dreift hafi sér um vinstri og hægri heilahvel og samtals fimm heila lappa. Ekki hafi sést merki um heilabjúg við myndatökur. Síðasta tölvusneiðmynd hafi verið tekin 21. júlí 2006 og þá sést vefjaeyður þar sem áður hafi verið blæðingar en annars engin frávik frá eðlilegri gerð. Ljóst sé að A hafi orðið fyrir talsverðum skaða af líkamsárásinni og muni þurfa á langtíma endurhæfingu að halda. Á þeim tíma sem vottorðið sé ritað sé erfitt að segja til um hvort A nái fullum bata þó líklegt sé að hann muni eiga við einhverja minniserfiðleika að stríða.
K sálfræðingur, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði og fötlun, hefur framkvæmt taugasálfræðilegt mat á A, en skýrslan er dagsett 31. júlí 2006. Í niðurstöðu og áliti kemur fram að A hafi verið nemi í Verslunarskóla Íslands. Hafi hann hlotið heilaskaða vegna líkamsárásar. Greindarprófun sýni greindarvísitölu í meðallagi. Markverð hækkun hafi orðið á munnlegri greindarvísitölu frá fyrri mælingu. Miðað við námsárangur A á samræmdum lokaprófum í grunnskóla megi þó ætla að greindarvísitölur séu lægri en þær hefðu mælst fyrir áverka og almenn hugræn skerðing sé því enn til staðar. Þrátt fyrir framfarir á flestum prófum megi enn sjá merki um áunna taugasálfræðilega veikleika, m.a. hvað snerti hraða í máltjáningu, sjónræna úrvinnslu- og formskynjun, heyrnrænt orðminni og hraða og úthald í hugarstarfi. Viðbragðshraði sé innan eðlilegra marka, en hægari en búast megi við miðað við forsögu. Merki um þrálæti og skipulagserfiðleika séu að mestu horfin í niðurstöðum prófa. Ljóst sé að ofangreindir taugasálfræðilegir veikleikar og einkenni, afleiðingar heilaskaða sem A hafi orðið fyrir 10. júní 2006 geti haft umtalsverð áhrif á líf A, nám, störf og áhugamál og aðlögun, atferli og líðan. A þarfnist því áfram sérhæfðrar eftirfylgdar og íhlutunar eftir þörfum, ekki síst nú þegar skólinn hefjist og hann takist á við flókið bóklegt nám að nýju.
A mætti á lögreglustöð miðvikudaginn 28. júní 2006 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás. Í kæru kemur fram að A hafi hlotið töluverða áverka á höfði vegna líkamsárásar og hafi hann verið í rannsókn á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Hafi hann ekki verið hæfur til skýrslutöku fyrr en þennan dag að mati lækna og forráðamanna. Í skýrslunni kemur fram að A muni ekki neitt frá umræddum atburði. Myndi hann það eitt að hafa verið að fara í afmælisveislu til kunningja síns í Vesturbænum. Hafi hann síðan rankað við sér á Landspítala háskólasjúkrahúsi og þá verið búinn að vera þar í einhverja daga. Hafi hann fengið upplýsingar um það sem gerst hafi hjá kunningja sínum sem hafi verið með A á staðnum.
Ákærði var yfirheyrður um atvik hjá lögreglu laugardaginn 10. júní 2006. Kvaðst ákærði hafa setið við áfengisdrykkju á veitingahúsinu Rauða ljóninu aðfaranótt laugardagsins 10. júní 2006. Með honum hafi verið L, M og N. Hafi ákærði komið á staðinn um miðnættið. Er hann hafi verið búinn að vera á staðnum í um 20 mínútur hafi tæplega tvítugur drengur ráðist að honum með höggum og spörkum þannig að ákærði hafi fallið í gólfið. Eftir að ákærði hafi fallið í gólfið hafi einhverjir fleiri sparkað í hann. Ákærði hafi hrakist undan höggum og spörkum og dottið út um hurð á veitingastaðnum inn á yfirbyggða torgið. Ungi maðurinn sem ráðist hafi á ákærða hafi einnig fallið. Hafi ákærði sparkað einu sinni í unga manninn þar sem drengurinn hafi legið og hafi sparkið komið í efri hluta líkama hans. Kvaðst ákærði öruggur um að hafa ekki sparkað í höfuð drengsins. Eftir þetta hafi ákærði forðað sér þar sem hann hafi óttast að vera laminn meira og hafi veitingamaður á Rauða ljóninu hleypt honum út úr veitingastaðnum bakdyramegin inn í einhverskonar anddyri. Þar hafi hann beðið milli vonar og ótta og gripið rörskera sem þar hafi verið til að verja sig ef einhverjir skyldu koma og ráðast á hann. Lögregla hafi komið skömmu síðar og handtekið ákærða. Ákærði kvaðst kenna til eymsla í hægra handarbaki, mjóbaki og nefi eftir barsmíðar þær sem hann hafi orðið fyrir. Ákærði kvaðst hafa verið undir smávægilegum áhrifum áfengis um nóttina. Kvaðst hann vilja ítreka að hann hafi ekki átt upptök átakanna og hafi það ekki verið ætlun hans að skaða nokkurn mann heldur hafi hann einungis verið að verjast árás.
Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 16. nóvember 2006. Kvaðst ákærði ekki hafa byrjað umrædd slagsmál. Hafi hann verið ásamt tveim eða þrem öðrum sitjandi við borð á Rauða ljóninu og það næsta sem ákærði hafi vitað hafi verið að umræddur drengur hafi komið til ákærða og án þess að segja nokkuð hafi hann sparkað með skó í andlit ákærða. Hafi ákærði setið við borð við útidyrahurð út af veitingastaðnum. Er drengurinn hafi sparkað í ákærða hafi ákærði fallið aftur fyrir sig og út fyrir dyrnar. Síðan hafi hann séð fullt af fólki vera að slást. Hafi ákærði staðið upp og sparkað í drenginn til að vernda sjálfan sig og síðan látið sig hverfa. Hafi barþjónn hleypt ákærða inn í eldhús. Hafi ákærði farið þar inn um hurð og beðið þar uns lögregla hafi komið og handtekið ákærða. Að því er atlöguna varðaði kvað ákærði drenginn hafa sparkað í ákærða og hafi ákærði við það fallið í gólfið og drengurinn einhvernvegin fallið yfir ákærða. Hafi ákærði staðið strax á fætur og sparkað í drenginn. Kvaðst ákærði telja að drengurinn hafi legið á bakinu er hann hafi sparkað í hann.
Fyrir dómi greindi ákærði frá atvikum þannig að hann hafi verið á Rauða ljóninu með vinum sínum. Hafi þau setið við borð. Þar hafi þau drukkið og spjallað saman. Skyndilega hafi drengur komið og sett fótinn í andlit ákærða. Hafi drengurinn sparkað og ákærði dottið aftur fyrir sig. Hafi hann fallið út um hurð á staðnum og drengurinn dottið yfir ákærða. Hafi ákærði staðið upp og sparkað í drenginn. Því næst hafi hann farið á brott. Spark ákærða hafi lent ofarlega á brjóstkassa drengsins að öxl. Hafi ákærði verið hræddur og sparkið eiginlega ósjálfráð viðbrögð. Allt hafi gerst mjög hratt. Ekki kvaðst ákærði vita hvort drengurinn hafi verið meðvitundarlaus er hann hafi sparkað í hann. Maður á bar staðarins hafi hleypt ákærða á bak við barinn. Ákærði kvaðst ekki hafa þekkt drenginn er þetta hafi gerst. Ákærði kvaðst sjálfur hafa fengið einhverja áverka þessa nótt. Hafi þeir ekki verið sýnilegir en hann hafi verkjað í andlit og bak. Hafi hann sennilega ekki farið til læknis vegna þeirra þar sem þeir hafi ekki verið það alvarlegir. Þetta kvöld kvaðst ákærði hafa drukkið einn bjór og tvö ,,skot”. Hafi hann fundið til áfengisáhrifa en þó myndi hann atvik vel. Ákærði kvaðst ekki hafa slegið drenginn hnefahögg. Ákærði kvað sér og fjölskyldu sinni hafa verið hótað eftir þessa atburði.
Fyrir dóminn kom A Greindi hann frá því að hann myndi ekkert eftir atburðum þessa nótt. Gæti hann því að engu leyti borið um atvik.
D kvaðst hafa verið á veitingahúsinu Rauða ljóninu umrætt kvöld og hafi D komið þangað ásamt vini sínum C. Á staðinn hafi D komið um kl. 00.30 og verið allsgáður. D kvaðst kannast við A úr Verslunarskóla Íslands en þeir hafi þó ekki verið eiginlegir vinir. D kvaðst hafa veitt A athygli inni á veitingahúsinu. Hafi hann ekki verið sérstaklega að fylgjast með honum fyrr en hann hafi veitt því eftirtekt að A hafi verið kominn í slagsmál við ákærða og einhvern með honum. Hafi D staðið í um 5 metra fjarlægð frá þeim. Hafi hann snúið baki í ákærða og A en heyrt slagsmálin fara af stað og þá snúið sér við. Kvaðst D ekki vita hver hafi átt upptökin en átökin hafi blossað snögglega upp enda hafi ákærði, tveir ungir menn og stúlka er setið hafi með honum setið róleg er D hafi tekið eftir þeim síðast. Ákærði og samferðafólk hans hafi setið mjög nálægt útidyrahurð veitingahússins og í þeim átökum er hafi blossað upp hafi ákærði, A og félagi ákærða allir dottið á útidyrnar sem hafi opnast og þeir þar með farið út á yfirbyggða torgið fyrir utan staðinn. Hafi D virst sem ákærði og félagi hans næðu að standa í fæturna en A hafi fallið aftur fyrir sig. Hafi D misst sjónar af þeim er þeir hafi fallið út um dyrnar en það næsta sem hann hafi séð hafi verið að A hafi legið hreyfingalaus á bakinu á jörðinni og verið meðvitundarlaus. C og annar drengur hafi reynt að ganga á milli, auk þess sem þriðju drengurinn hafi blandað sér í málið og reynt það sama. Á meðan á þessu stóð hafi ákærði snúið sér að A þar sem A hafi legið hreyfingalaus og stappað einu sinni með vinstri fæti ofarlega ofan á brjóstkassa A, en A hafi engin viðbrögð sýnt við því. Hafi hann verið meðvitundarlaus á þeim tíma. Eftir þetta hafi ákærði látið sig hverfa. Kvaðst D hafa verið í innan við tveggja metra fjarlægð frá ákærða er hann hafi stappað á brjóstkassa A.
C kvaðst hafa séð A ganga að þrem drengjum og einni stúlku er setið hafi við borð inni á veitingahúsinu Rauða ljóninu. Hafi A einungis verið kunningi C á þeim tíma, en þeir hafi átt sameiginlega kunningja og því stundum talað saman. Hafi C staðið rétt hjá þeim. Einhverjar orðalengingar hafi orðið á milli A og ákærða. Stuttu síðar hafi ákærði og annar drengur staðið upp frá borðinu þeir og byrjað að lemja A í andlit og hnakka. A hafi ekki annað gert en að verja sig gegn barsmíðunum. Hafi C séð að A hafi verið kominn í óefni og viljað reyna að hjálpa A að komast frá drengjunum. Hafi C hlaupið að þeim og ýtt við þeim, en við það hafi A og drengirnir tveir farið að vængjahurð rétt við aðalinnganginn. Slagsmálin hafi haldið áfram og hafi C séð ákærða slá A með hnefa í andlitið þannig að A hafi dottið aftur fyrir sig í gangstéttina með þeim afleiðingum að hann hafi legið hreyfingalaus á eftir. Hinn drengurinn hafi þá veist að C og slegið hann í hnakkann. Hafi C litið strax við og séð ákærða ganga í átt frá A. Hafi hann fljótlega snúið við og stappað á andliti hans þar sem A hafi legið. Hafi hann sennilega stappað með hægri fæti ofan á andlit A og fóturinn numið við nef A. Í lögregluskýrslu bar C að hann hafi séð ákærða stappa á andliti A einu sinni, en þetta hafi ákærði gert með áberandi miklum þunga eða afli. Fyrir dómi taldi hann það hafa verið tvisvar til þrisvar sinnum. Mikinn fjölda fólks hafi borið að og ákærði og hinn drengurinn horfið á brott. Ákærði hafi hlaupið inn á veitingastaðinn. Eftir þetta hafi lögregla komið á staðinn. C kvaðst hafa drukkið áfengi þetta kvöld en ekki fundið til mikilla áhrifa. Kvaðst hann ekki hafa séð A stofna til ófriðar þetta kvöld.
E kvaðst hafa verið á veitingahúsinu Rauða ljóninu þetta kvöld. Hafi hann verið að koma af salerni staðarins er hann hafi orðið var við einhver læti við barinn. Hafi hann talið slagsmál vera í gangi. Hafi hann séð ákærða vera hoppandi líkt og hann væri að hoppa ofan á einhverjum og/eða sparka í einhvern. Hafi þetta gerst tvisvar til þrisvar sinnum. Átökin hafi verið rétt við vængjahurð. Með ákærða hafi verið annar drengur lægri og dökkur á hörund. Eftir stutta stund hafi einhverjir komið að og reynt að skilja að ákærða og dreng sem legið hafi á gólfinu. Síðan hafi það gerst að ákærði og drengurinn með honum hafi komið hlaupandi út úr hópnum og hafi ákærði hlaupið að barnum þar sem barþjónninn hafi tekið á móti honum og vísað honum inn í bakherbergi. Sá drengur sem fallið hafi í gólfið hafi ekki staðið upp aftur. Ekki kvaðst E hafa séð ákærða slá drenginn sem féll.
O kvaðst hafa verið á veitingahúsinu Rauða ljóninu þetta kvöld. Hafi hann ásamt öðrum verið í hliðarsal veitingahússins í afmælisveislu. Talsvert af fólki hafi verið á staðnum. Skömmu eftir miðnættið hafi hann ásamt öðru fólki verið á yfirbyggða torginu fyrir framan veitingahúsið. Allt í einu hafi hurð á Rauða ljóninu opnast harkalega og nokkrir menn ruðst fram líkt og þeir væru í átökum eða ryskingum. Einn þeirra hafi fallið strax í jörðina við ryskingarnar. Hafi hann legið alveg hreyfingalaus eftir á jörðinni. Mikið af fólki hafi fylgt eftir fram á torgið og mikil reiði verið á meðal fólksins. Nokkrum andartökum eftir að A hafi fallið hafi O séð mann stíga harkalega niður á höfuð A þar sem A hafi legið hreyfingalaus. Fóturinn hafi komið á neðri hluta andlitsins, þ.e. við höku og kjálka. Þetta hafi gerst einu sinni og sá sem það hafi gert forðað sér aftur inn á veitingahúsið. Á staðnum hafi O verið sagt að árásarmaðurinn héti Sadun. Ekki kvaðst O hafa séð upphaf átakanna.
M kvaðst hafa verið á Rauða ljóninu aðfaranótt laugardagsins 10. júní 2006. Hafi hann verið með ákærða, N og L. Þau hafi verið að drekka og setið saman við borð inni á staðnum. Skyndilega hafi drengur komið aðvífandi og sparkað í andlit ákærða þar sem ákærði hafi setið við borðið. Hafi ákærði dottið við það í gólfið. Árásin hafi verið fyrirvaralaus og mjög skyndileg en M kvaðst ekki telja að neitt samband hafi verið haft við drenginn áður. Drengurinn hafi ráðist á ákærða þar sem ákærði hafi legið í gólfinu og barið á honum með hnefum. Hafi M reynt að draga drenginn af ákærða en það gengið illa. Hópur drengja hafi síðan ráðist á M með höggum og spörkum. Allur hópurinn hafi borist fram á pall fyrir utan veitingastaðinn. Hafi hópurinn hent upp hurð í látunum og mannskapurinn því borist út af staðnum. Í látunum hafi M verið tekinn hálstaki en sleppt nokkru síðar. Hann hafi séð dreng liggjandi í gólfinu og talið það vera drenginn sem ráðist hafi á ákærða skömmu áður. Hafi M séð ákærða sparka í öxl eða bringu drengsins. Síðan hafi ákærði horfið á brott. Lögregla og sjúkralið hafi komið að skömmu síðar.
L kvaðst hafa verið inni á Rauða ljóninu ásamt ákærða, M og N. Þau hafi verið að spjalla saman. Skammt frá þeim hafi verið hópur drengja og stúlkna við biljardborð. Einhverjir í hópnum hafi verið að ,,pískra” og gjóa augum yfir á borð til þeirra. Allt í einu hafi drengur komið gangandi yfirvegað til þeirra. Hafi hann sparkað í hægri hlið ákærða. Við höggið hafi ákærði fallið í gólfið og strákurinn fylgt á eftir með höggum og spörkum. Einhver hnefahögg hafi orðið. Skyndilega hafi fjöldi manns verið kominn í átök við borðið og hópurinn fallið á hurð sem henst hafi upp. Hópurinn hafi þá allur meira eða minna fallið í gólfið frammi á torginu fyrir framan veitingahúsið. Hafi hún séð dreng liggja í gólfinu en ekki séð hvernig það hafi borið að. Hafi L komið sér undan. Hafi hún heyrt síðar að drengur hafi slasast í átökunum en hún hafi ekki orðið vitni að því.
N kvaðst hafa verið á Rauða ljóninu ásamt ákærða, M og L. Skyndilega hafi drengur, sem verið hafi við biljardborð á staðnum, gengið yfir til þeirra og sparkað fyrirvaralaust í ákærða, sem við það hafi dottið í gólfið. Sparkið hafi komið ofarlega í skrokk ákærða og hugsanlega höfuð hans. Árásin hafi verið skyndileg og tilefnislaus. Þeir hafi tekist á, stimpast og dottið niður. Skyndilega hafi verið kominn hópur af fólki í mikil átök sem borist hafi í gegnum hurð inn á staðnum. Átökin hafi borist fram á gang fyrir utan veitingahúsið. Hafi N náð að koma sér undan og ekki tekið þátt í átökunum. Hafi hann eftir átökin sennilega séð þann dreng sem ráðist hafi á ákærða liggja meðvitundarlausan eftir átökin. Ekki kvaðst N hafa séð ákærða slá drenginn í höfuðið.
G kvaðst hafa verið að vinna á barnum á Rauða ljóninu þetta kvöld. Hafi hann orðið var við átök inni á staðnum en ekki getað farið frá barnum. Hafi hann því ekki séð hverjir hafi verið í átökum né hvernig þau hafi borið að. Ákærði hafi komið til G skömmu síðar og hafi G hleypt honum á bak við barinn því einhverjir drengir hafi elt ákærða. Ekki kvaðst G hafa séð þann sem hafi slasast.
B gaf skýrslu hjá lögreglu 11. júní 2006. Við aðalmeðferð málsins kom B ekki fyrir dóminn þar sem hún var stödd í útlöndum. Þótti ekki ástæða til að fresta aðalmeðferð málsins af þeim sökum. Í lögregluskýrslu greindi hún frá því að hún hafi verið nýkomin inn á yfirbyggða torgið við Eiðistorg og verið á leið í átt að veitingahúsinu Rauða ljóninu. Hurð á neyðarútgangi hafi opnast og út hafi komið A sem fallið hafi aftur fyrir sig. Tveir ungir menn af erlendum uppruna og tveir íslendingar hafi fylgt á eftir í átökum. A hafi skollið með hnakka í gangstéttina og legið hreyfingalaus á eftir. Átök hafi staðið yfir í skamma stund og íslensku drengirnir reynt að halda einum hinna frá A þar sem A hafi legið. Skyndilega hafi drengurinn sparkað í A þar sem A hafi legið hreyfingalaus. Sparkið hafi lent í brjóstkassa eða höfði A. Eftir þetta hafi árásarmaðurinn látið sig hverfa. Hafi B farið að hlúa að A og aðstoðað við að snúa honum yfir á hliðina til að tryggja öndun.
Rannsóknarlögreglumennirnir H, Ó og P staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. H kvaðst hafa rætt við ákærða í fangaklefa eftir handtöku. Þar sem skýrslur hafi ekki legið fyrir hafi hann reynt að átta sig á málavöxtum. Ákærði hafi skýrt frá sinni hlið í sjálfstæðri frásögn. Komið hafi fram hjá ákærða að drengur hafi veist að honum og að ákærði hafi slegið drenginn. Fram hafi komið að um hafi verið að ræða hnefahögg í andlitið. Ákærði og H hafi rætt saman á íslensku. Ó kvaðst hafa tekið skýrslu af ákærða laugardaginn 10. júní 2006. Ekki hafi hann séð neina áverka á ákærða. Hafi Ó því ekki haft frumkvæði að því að ákærði færi í læknishendur. Þá staðfesti Q sérfræðingur tæknideildar lögreglu sérfræðilega aðkomu sína að rannsókn málsins.
J taugalæknir staðfesti að hafa annast A á Barnaspítala Hringsins. Staðfesti hún að hafa ritað vottorð vegna hans og gerði grein fyrir einstökum atriðum í vottorðinu. Kvað hún A hafa verið í lífshættu er hann hafi komið á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Útprentun úr heilaskanna hafi leitt í ljós fimm dreifðar blæðingar í báðum heilahvelum. Ein stór heilablæðing hafi verið aftanvert á höfðinu þar sem A hafi verið með kúlu er hann hafi komið á slysadeild. Önnur hafi verið skáhallt á móti. Það sé þekkt að þegar höfuð verði fyrir miklu höggi þá kastist heilinn í gagnstæða átt við höggið og verði við það blæðing í gagnstæðum hluta heilans. J kvað ekki hægt að fullyrða um hvort A hafi verið með meðvitund er hann hafi fallið í gólfið en líklegt væri þó að hann hafi verið meðvitundarlaus í ljósi þess að hann hafi ekki borið hendur fyrir sig.
I heila- og taugaskurðlæknir staðfesti vottorð sitt í rannsóknargögnum málsins. Kvaðst I hafa haft afskipti af A um leið og A hafi komið á deildina 10. júní 2006. Hafi A verið í umsjá hans í þrjá daga, áður en hann hafi verið fluttur um deild. A hafi verið með verulega skerta meðvitund við komu vegna dreifðra höfuðáverka. Hafi hann strax verið sendur í sneiðmyndatöku sem sýnt hafi áverkana. Hafi verið um að ræða heilamar, dreifðar smáblæðingar sem hafi verið undir höggstað og vegna slátta á heila. Kvaðst I hafa fengið upplýst að A hafi verið sleginn, hann dottið á hnakka og ef til vill verið sleginn aftur eftir það. Kvaðst hann telja eðlilegast að álykta að A hafi fengið áverkana við að falla í gólfið.
K staðfesti taugasálfræðilegt mat á A. Ýmsir veikleikar hafi háð A eftir áverkann. Hafi þeir háð honum mikið í sambandi við nám. A hafi haldið áfram námi í Verslunarskóla Íslands haustið eftir atburðinn. Hann hafi ekki náð tilskyldum árangri og orðið að hverfa frá skólavist þar. Hafi hann í framhaldi orðið að fara í léttara nám þar sem hann hafi skort einbeitingu, úthald og minni til að geta náð árangri í skóla.
Niðurstaða:
Um upphaf þess atburðar er A slasaðist aðfaranótt laugardagsins 10. júní 2006 á veitingahúsinu Rauða ljóninu eru atvik ekki að fullu ljós. Skiptast framburðir nokkuð eftir því hvort vitni hafi verið í för með ákærða eða A þetta kvöld. Ákærði kveður A fyrirvaralaust hafa veist að sér þar sem ákærði hafi setið við borð á veitingahúsinu. Hafi A lamið og sparkað í ákærða, sem við það hafi fallið í gólfið á veitingahúsinu. Hafi þetta verið upphaf átakanna. Þennan framburð ákærða hafa M, N og L stutt, en þau voru öll með ákærða í för þetta kvöld. Hafa þau öll staðhæft að A hafi fyrirvaralaust og án nokkurs aðdraganda gengið að ákærða og sparkað í hann og slegið. A hefur sjálfur ekkert getað borið um þetta þar sem hann man ekkert af atburðum næturinnar. Í vinahópi með A þetta kvöld var C. C hefur staðhæft að A hafi gengið að borði ákærða og félaga hans og átt einhver orðaskipti við ákærða. Í framhaldi hafi ákærði og drengur með honum veist að A með hnefahöggum og hafi A þurft að verjast. Hafi C séð að í óefni var komið og ætlað að hjálpa A. Fullyrti C að A hafi ekki stofnað til ófriðar þetta kvöld. Önnur vitni hafa ekki getað borið um upphaf átaka.
Um átökin sjálf milli ákærða og A áður en A féll í gólfið ríkir einnig nokkur óvissa. Ákærði hefur sjálfur staðhæft að hann hafi ekki slegið A hnefahögg í andlitið. A hafi hins vegar látið höggin dynja á ákærða eftir að ákærði féll í gólfið. Ákærði hafi einfaldlega varið sig. Hafi orðið mikill æsingur og hópur drengja sótt að ákærða og vinum hans. M og N hafa einnig staðhæft að A hafi látið höggin dynja á ákærða, en hafa í raun ekki getað borið um atganginn eftir það þar sem M kvaðst hafa verið tekinn hálstaki og sjálfur lent í átökum. N kvaðst hins vegar hafa látið sig hverfa. C hefur í þessum þætti fullyrt að ákærði hafi lamið A hnefahögg í andlitið og hafi A við það fallið aftur fyrir sig í gólfið. Önnur vitni í málinu hafa einungis getað borið um að A hafi fallið aftur fyrir sig út um dyr veitingahússins og legið eftir það hreyfingalaus. Bera flest vitnin að hann hafi virst meðvitundarlaus eftir að hann hafnaði í gólfinu.
Um framferði ákærða eftir að A hafnaði í gólfinu liggja aftur á móti fyrir nokkuð greinargóðir framburðir. Ber ákærða og vitnum saman um að ákærði hafi hlaupið að A, þar sem A hafi legið á bakinu og að ákærði hafi sett fót sinn í A. Ákærði staðhæfir að hann hafi stappað ofan á brjóst A. Þann framburð hafa vitnin D og C stutt, þó svo C miði við að fótur ákærða hafi lent ofan á nefi eða kjálka A. O kveður ákærða hafa stigið ofan á höfuð A. B bar hjá lögreglu að ákærði hafi sparkað í höfuð A. Vitni þessu eru nánast samhljóða um að A hafi ekki hreyft sig eftir að hann féll í jörðina og því legið hreyfingalaus er ákærði hafi stappað ofan á A.
Svo sem hér var rakið er atburðarásin umrædda nótt ekki fyllilega skýr, enda virðist talsvert stór hópur ungs fólks hafa verið á staðnum, margir nokkuð undir áhrifum áfengis og vel flestir æstir. Við mat á niðurstöðu situr það þó eftir að myndir og læknisvottorð sýna, svo ekki verður um villst, að A var með slæmt glóðarauga á hægra auga við komu á slysadeild. Alvarlegastur áverka A var dreift heilamar er hann hlaut þessa nótt, en áverkar á heila urðu honum næstum að bana. Sneiðmyndataka sýndi fram á að A var með stórt heilamar aftanvert ofarlega á höfði. Var A með stóra kúlu utanvert á höfði við komu á slysadeild sem samrýmist því að hann hafi hlotið heilamarið við fall aftur á bak á hnakkann. Þá var hann með annað stórt heilamar á gagnstæðum hluta heilans. Læknisfræðileg gögn og framburðir lækna benda ótvírætt til að sá áverki hafi orsakast við það að heilinn hafi kastast fram við höggið sem kom aftanvert á höfuðið. Þá voru þrjár aðrar blæðingar í höfði. Þykir dóminum sennilegast að A hafi fengið þungt högg á vinstra auga sem hafi leitt til þess að hann féll aftur fyrir sig og á hnakkann. Í ljósi þess að framburðir í málinu veita ekki afdráttarlausa vísbendingu um að ákærði hafi sparkað í höfuð A eftir fallið verður ekki við annað miðað en að þeir áverkar sem A hlaut á höfði hafi alfarið komið við fallið.
Þó svo erfitt sé að slá föstu hvað teljist sannað um upphaf átaka þessa nótt eða einstök atriði í framvindu þeirra stendur það þó uppúr og skiptir sköpum að A var ekki í átökum við aðra en ákærða þessa nótt. Þá verður ekki fram hjá því litið að H rannsóknarlögreglumaður ber að ákærði hafi í sjálfstæðri frásögn tjáð sér að hann hafi lamið A í andlitið þessa nótt. Samtal þeirra hafi farið fram á íslensku og hafi ákærða verið ljós réttarstaða sín. Að þessu gættu og í ljósi þess að A var með slæmt glóðarauga á hægra auga og með vísan til framburðar C þykir dóminum hafi yfir skynsamlegan vafa að atvik hafi verið með þeim hætti að ákærði hafi slegið A hnefahögg í andlitið og hafi höggið komið á hægra auga A. A hafi við það fallið aftur fyrir sig og skollið með hnakka í gólfið. Við það hafi A fengið dreift heilamar. Í framhaldinu hafi ákærði stappað með fæti ofan á líkama A.
Ákærði ber við neyðarvörn verði talið sannað að hann hafi slegið A. Á hana verður ekki fallist enda voru viðbrögð ákærða langt umfram þá hættu er hann gat talið að sér steðja. Árás ákærða á A var sérlega hættuleg en A hlaut lífsógnandi áverka, sem hefðu getað leitt hann til dauða. Með hliðsjón af þessu, sbr. og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 365/2006, verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákæra 28. mars 2007.
Ákærði játar sök samkvæmt ákæru. Með vísan til þeirrar skýlausu játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, er sannað að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæra 21. maí 2007.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá mánudeginum 4. desember 2006 kl. 13.25 stöðvuðu lögreglumenn þann dag akstur bifreiðar með skráningarnúmerið LZ-556. Í vettvangsskýrslu fyrir umferðarlagabrot er fært að ökumaður hafi verið stöðvaður vegna boðunar í skoðun. Þá kemur fram að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar og að hann hafi verið sviptur ökurétti. Fram kemur í skýrslunni nafn ákærða, kennitala, heimili og vinnustaður. Ritað er undir skýrsluna í reit ætlaðan ökumanni.
Ákærði kvaðst fyrir dómi ekki hafa verið á bifreiðinni LZ-556 umrætt sinn. Þá kvaðst hann ekki hafa ritað undir vettvangsskýrslu fyrir umferðarlagabrot í gögnum málsins. Er undir ákærða var borið að lögreglumenn er afskipti hefðu haft af ökumanni bifreiðarinnar LZ-556 hafi fengið að sjá vegabréf ökumanns kvaðst ákærði aldrei ganga með vegabréf sitt á sér. Bifreiðin LZ-556 væri innan fjölskyldu ákærða og hefði ákærði t.a.m. ekið henni þetta sama kvöld. Hafi hann fengið viðurlög vegna þeirrar háttsemi sinnar. Fyrir utan ákærða væru bræður ákærða stundum ökumenn bifreiðarinnar og hefði ákærði tekið eftir því að lögreglumenn rugluðust stundum á ákærða og bróður hans en þeir væru mjög líkir í útliti. Ákærði kvað allar upplýsingar í vettvangsskýrslu fyrir umferðarlagabrot eiga við sig fyrir utan að gsm farsími væri rangur.
R lögreglumaður kvaðst hafa stöðvað akstur ákærða umrætt sinn. Kvaðst R þekkja ákærða í útliti þar sem hann hafi haft afskipti af honum mörgum sinnum áður. Ákærði hafi framvísað vegabréfi er akstur hans hafi verið stöðvaður. Akstur bifreiðarinnar LZ-556 hafi verið stöðvaður þar sem skoðunarmiði hafi sýnt að frestur til endurskoðunar hafi verið liðinn. Þá hafi komið í ljós hver ökumaður bifreiðarinnar var. Ákærði hafi ítrekað farið fram á við lögreglumenn að þeir myndu sleppa honum þar sem skammt væri í að ákærði fengi ökuréttindi á nýjan leik. R kvaðst þekkja bróður ákærða og væru þeir vissulega nokkuð líkir. Hann kvaðst hins vegar þekkja mun á þeim.
S lögreglumaður kvaðst hafa stöðvað akstur ákærða greint sinn. Lögreglumenn hafi stöðvað umrædda bifreið þar sem bifreiðin hafi verið óskoðuð. Ökumaður hafi verið beðinn um að koma yfir í lögreglubifreiðina. R lögreglumaður hafi þar kannast við ökumann sem ákærða og ávarpað hann með nafni í lögreglubifreiðinni. Fjarskiptamiðstöð lögreglu hafi gefið upp að ökumaður væri sviptur ökuréttindum. Af þeim ástæðum hafi verið farið með bifreiðina á lögreglustöð. Þar hafi ökumaður munað eftir að hann væri með vegabréf meðferðis og hafi hann framvísað því.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa ekið bifreiðinni LZ-556 mánudaginn 4. desember 2006 við Kirkjusand í Reykjavík. Í málinu liggur fyrir vettvangsskýrsla vegna umferðarlagabrots. Í skýrsluna er skráð að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar greint sinn. Allar upplýsingar í skýrslunni eiga við um ákærða, fyrir utan að ákærði kveður símanúmer vera rangt. Fyrir dóminn komu tveir lögreglumenn er afskipti höfðu af akstri ökumanns bifreiðarinnar LZ-556. Staðfesti R lögreglumaður að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar og að hann hafi borið kennsl á hann. S lögreglumaður staðfesti að hafa unnið að málinu með R og að R hafi þekkt ökumann og ávarpað hann með nafni. Þegar litið er til vettvangsskýrslu um umferðarlagabrot og samhljóða framburðar lögreglumannanna R og S er komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar LZ-556 greint sinn. Verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru og er brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í október 1985. Hann gekkst undir sátt hjá lögreglustjóra 12. maí 2005 fyrir fíkniefnalagabrot. Hann gekkst undir sátt 9. desember 2005 fyrir ölvunar- og réttindaleysisakstur. Hann var dæmdur í sekt 26. apríl 2006 fyrir hraðakstur og réttindaleysisakstur. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun 6. september 2006 fyrir brot gegn umferðarlögum, þ.á m. vegna réttindaleysisaksturs og vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hann gekkst undir tvær sáttir í september 2006 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni annars vegar og umferðarlögum hins vegar. Ákvörðun refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár í dómi 5. desember 2006 vegna þjófnaðar og tilraunar til þjófnaðar. Á árinu 2007 hefur ákærði gengist undir fjórar sáttir. Tvær fyrstu eru frá í janúar fyrir þjófnað og réttindaleysisakstur. Sú þriðja er frá í apríl og er fyrir hraðakstur. Sú síðasta er frá í maí 2007 og er fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Brot ákærða í þessu máli samkvæmt ákæru 20. mars 2007 er framið fyrir viðurlagaákvörðunina 6. september 2006 og allar refsiákvarðanir eftir það. Þá eru brot ákærða samkvæmt ákæru 28. mars 2007 og 21. maí 2007 framin fyrir refsidóminn 5. desember 2006 og refsiákvarðanir þar á eftir. Ber því að tiltaka refsingu eftir 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Fella verður hina skilorðsbundnu refsiákvörðun frá 5. desember 2006 inn í þá refsingu er ákærði nú hlýtur. Brot ákærða samkvæmt ákæru 20. mars 2007 eru sérlega alvarleg. Með hliðsjón af því, sbr. og 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 14 mánuði. Í ljósi alvarleika háttsemi ákærða og sakaferils hans er ekki unnt að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Í ákæru hefur verið tekin upp skaðabótakrafa A að fjárhæð 2.883.176 krónur, auk vaxta. Við aðalmeðferð málsins lagði réttargæslumaður A fram breytta kröfugerð og krafðist þá skaðabóta að fjárhæð 5.012.260 krónur. Hefur verjandi ákærða sérstaklega mótmælt hækkun á bótakröfunni frá því sem um getur í ákæru. Krafan sundurliðast með þessum hætti:
- Miskabætur 2.000.000 krónur
- Tímabundið atvinnutjón 708.724 krónur
- Atvinnutjón í eitt ár, sbr. 3. mgr. 7. gr. skbl. 1.956.500 krónur
- Málskostnaður 317.036 krónur
Fyrir liggur að A varð fyrir alvarlegu líkamstjóni sem ákærði ber skaðabótaábyrgð á. Læknisfræðileg gögn og taugasálfræðilegt mat sýna fram á alvarlegar afleiðingar árásarinnar. Við viðlíka tjón og A hefur orðið fyrir hefur jafnan verið lagt mat á tjón tjónþola í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt lögunum skal sá sem ber ábyrgð á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, þjáningabætur, miska og örorku. Miðað við gögn málsins væri helst unnt að dæma A miskabætur eftir 26. gr. laganna. Hér er hins vegar til þess að líta að afleiðingar árásarinnar fyrir A eru óvenjulega miklar til framtíðar litið og meiri en almennt gengur og gerist í líkamsárásarmálum. Í því ljósi eru gögn til stuðnings skaðabótakröfunni of rýr til að miskabætur verði dæmdar. Er skaðabótakrafan vanreifuð að mati dómsins og verður henni þar með vísað frá dómi, sbr. 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991. Með því móti á A færi á að leggja betri grundvöll að útreikningi á tjóni sínu eftir reglum laga nr. 50/1993.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru skulu upptæk gerð til ríkissjóðs 9,34 g af maríhúana, sem hald var lagt á við rannsókn málsins.
Í gögnum málsins liggur fyrir yfirlit um sakarkostnað að fjárhæð 44.821 króna. Um er að ræða reikninga vegna starfa túlks fyrir ákærða hjá lögreglu. Kostnaður vegna starfa túlks greiðist úr ríkissjóði og verður ekki sakarkostnaður í máli. Ákærði greiði þóknun til Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns vegna verjandastarfa á rannsóknarstigi málsins, 64.740 krónur. Þá greiði ákærði tildæmd málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Jón H B Snorrason saksóknari.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Sadun Lankathilaka, sæti fangelsi í 14 mánuði.
Skaðabótakröfu A er vísað frá dómi.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 9,34 g af maríhúana, sem hald var lagt á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði 906.360 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gríms Sigurðarsonar héraðsdómslögmanns, 582.660 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Sveins Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 258.960 krónur.