Hæstiréttur íslands

Mál nr. 137/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 26. febrúar 2014.

Nr. 137/2014.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt A. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. febrúar 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að sér verði ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.           

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 31. janúar 2014 og einangrun á sama tíma eða í tæpar fjórar vikur. Þegar sakborningur sætir einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist stendur, sem er sérstaklega íþyngjandi ef einangrunin varir langan tíma, er afar brýnt að rannsókn máls sé hraðað. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. febrúar 2014.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði X, kennitala [...], til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars nk. kl. 16. Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Kærði hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan 31. janúar sl. á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess að kröfunni verði hafnað, til vara að henni verði markaður skemmri tími og til þrautavara að kærða verði ekki gert að sæta einangrun.

                Í greinargerð með kröfunni kemur fram að við rannsókn lögreglu á tölvugögnum sem haldlögð hafi verið í máli 007-2013-2711 hafi fjöldinn allur af .xml skjölum fundist.  Skjöl þessi séu talin hafa að geyma samskiptasögu X, kærða í þessu máli, við fimm drengi sem hafi verið á aldrinum 14 til 19 ára er samskiptin hafi átt sér stað, líklega á árinu 2011. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að samskipti kærða við drengina hafi gefið til kynna að kærði hafi brotið kynferðislega gegn þeim. Drengirnir hafi allir gefið skýrslu hjá lögreglu og lýst þar ýmist brotum kærða gegn sér eða tilraunum hans til að brjóta gegn þeim. Í kjölfarið hafi kærði verið handtekinn og úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald þann 31. janúar sl. með úrskurði héraðsdóms Reykjaness nr. R-43/2014. Úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar á máli nr. 77/2014.

                Í kjölfar handtöku kærða hafi borist upplýsingar um að kærði hefði hugsanlega brotið gegn fleiri drengjum með svipuðum hætti og hafi nú þrír drengir til viðbótar lagt fram kæru á hendur kærða fyrir kynferðisbrot. Meintir brotaþolar séu því samtals átta.

                Við skýrslutökur hjá lögreglu hafi kærði kannast við hina ætluðu brotaþola og að hafa umgengist þá. Hann kannist við að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við einn þeirra en með vilja hans og að hafa sóst eftir slíku við aðra án þess að af því hafi orðið.

                Lögregla hafi undanfarið lagt mikla vinnu í að upplýsa málið og hafi í þeim tilgangi meðal annars yfirheyrt á þriðja tug vitna, auk meintra brotaþola og kærða. Jafnframt hafi verið lögð áhersla á að sannreyna frásagnir meintra brotaþola og hafi sú vinna meðal annars farið fram á landsbyggðinni. Við rannsókn málsins hafi fjöldi tilvika þar sem kærði sé grunaður um brot einnig fjölgað umtalsvert. 

                Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknaði sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins sé vel á veg komin en margt bendi til að um mjög grófa og langvarandi brotastarfsemi sé að ræða.

                Í málinu liggi fyrir að rannsaka þurfi nánar vettvang hinna meintu brota og ræða við hugsanleg vitni, auk þess sem lögreglu hafi borist upplýsingar og ábendingar um þrjá til fjóra drengi sem gefi tilefni til að taka til rannsóknar fleiri mál. Jafnframt þurfi að rannsaka ítarlega tölvu- og símagögn sem lögregla hafi undir höndum, en kærði hafi verið mjög ósamvinnuþýður við þá rannsókn sem hafi dregið hana mjög á langinn.

                Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Um sé að ræða mjög viðkvæmt mál þar sem meintir brotaþolar séu ungir og á viðkvæmum aldri og kærði hafi hótað með mjög ófyrirleitnum hætti og þannig náð tökum á meintum brotaþolum. Að mati lögreglu sé ljóst að mikil hætta sé að á því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna, svo sem með því að setja sig í samband við meinta brotaþola eða önnur vitni svo og að eyða eða koma undan öðrum sönnunargögnum.

                Ætluð brot teljist varða við 1. mgr. 194. gr., 1. og 3. mgr. 202. gr., 209. gr., 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Samkvæmt framangreindu og rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um háttsemi sem geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Rannsókn málsins er ólokið og þykir hafa verið sýnt fram á að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn á máli hans er ekki lokið enda gæti kærði torveldað rannsókn málsins með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á hugsanlega samverkamenn sína og vitni, haldi hann óskertu frelsi sínu. Er skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 98. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt og er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. mars nk. kl. 16.00.

Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.