Hæstiréttur íslands

Mál nr. 369/2013


Lykilorð

  • Framsal sakamanns
  • Kærumál


                                              

Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 369/2013.

 

Ákæruvaldið

(Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 

Kærumál. Framsal sakamanns.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Kýpur var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 30. apríl 2013 um að framselja varnaraðila til Kýpur. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013.

I

Málið barst dóminum 6. maí síðastliðinn og var þingfest 14. sama mánaðar.  Það var tekið til úrskurðar 24. maí síðastliðinn.

Sóknaraðili er ríkissaksóknari.

Varnaraðili er X, rúmenskur ríkisborgari, fæddur [...]

 Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 30. apríl  síðastliðnum um að framselja varnaraðila til Kýpur.

Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað og þóknun réttargæslumanns síns greidd úr ríkissjóði.

II

Í greinargerð ríkissaksóknara segir að upphaf málsins megi „rekja til handtöku varnaraðila þann 26. mars sl., í kjölfar komu hans til landsins, en þá kom í ljós að hann var eftirlýstur af kýpverskum yfirvöldum í kerfi Interpol.

Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 30. apríl 2013 varðar beiðni  dómsmálayfirvalda á Kýpur um framsal varnaraðila, sem er rúmenskur ríkisborgari, til Kýpur til meðferðar sakamáls vegna gruns um refsiverða háttsemi. Samkvæmt framsalsbeiðninni, dags. 3. apríl 2013, og meðfylgjandi gögnum er um að ræða tvö mál, sem eru til rannsóknar hjá löreglunni í Nicosia.  Fyrra málið varði innbrot og þjófnað í skartgripaverslunina Elena Kleovoulou í Latsia á tímabili frá kl. 13.30 þann 2. maí til kl. 8.30 þann 3. maí 2012. Þjófavarnarkerfi verslunarinnar hafi verið gert óvirkt og skartgripum og gullmunum að verðmæti 200.000 evra (yfir 30 milljónir króna) hafi verið stolið. Seinna málið varði rán og líkamsárás að kvöldi 4. maí 2012, en þá hafi tveir menn með hulin andlit ráðist á framkvæmdastjóra verslunarinnar Elomas í Latsia og slegið hann í höfuð og líkama með höndum og tekið af honum tösku, sem innihélt 17.205 evrur (yfir 2,6 milljónir króna), og Nokia-farsíma. Hafi brotaþoli verið fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús og afleiðingarnar hafi verið áverkar á andliti (e. craniofacial injuries), flekkblæðingar og maráverkar víða á líkama. Rannsókn málsins er lýst og fram kemur að á grundvelli sönnunargagna hafi grunur beinst að varnaraðila. Þá gaf dómari við héraðsdóm Nicosia  út handtökuskipun á hendur varnaraðila þann 9. júní 2012 vegna gruns um aðild hans að sakamálunum tveimur og greint er frá því að evrópsk handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur honum þann 11. febrúar 2013.

Með framsalsbeiðninni fylgja ákvæði kýpverskra hegningarlaga sem háttsemin er talin varða við, framangreind handtökuskipun og ljósrit af skilríkjum varnaraðila.

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin þann 18. apríl sl. hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Kannaðist hann við að beiðnin um framsal ætti við um hann en mótmælti framsali. Einnig var tekin skýrsla af varnaraðila vegna eftirlýsingar kýpverskra yfirvalda þann 27. mars sl.

Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 29. apríl 2012. Voru skilyrði laga nr. 13/1984 talin uppfyllt, sbr. einkum ákvæði 1. og 2. mgr. 3. gr. og 9. gr. laganna, varðandi tvöfalt refsinæmi, lágmarks refsiramma, handtökuskipun og fyrningu. Innanríkisráðuneytið ákvað að verða við framsalsbeiðninni þann 30. apríl 2013. Fram kemur í forsendum ráðuneytisins að heildstætt mat hafi verið lagt á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. framsalslaga nr. 13/1984 og er þar umfjöllun um þær. Að mati ráðuneytisins þóttu ekki nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli umrædds ákvæðis. Leit ráðuneytið m.a. til þess að varnaraðili var handtekinn stuttu eftir komu hans til landsins vegna eftirlýsingar og hafi hann engin tengsl við landið. Hann sé við góða heilsu, ókvæntur og barnlaus. Kýpversk yfirvöld hafi metið það svo að þau hafi hagsmuni af því að fá varnaraðila framseldan. Þá hafi varnaraðili ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings af hverju hann myndi ekki njóta sanngjarnrar málsmeðferðar á Kýpur. Ekkert sé fram komið í málinu sem leiði til þess að rökstudd ástæða sé til að ætla að framsalsbeiðnin og fylgigögn hennar þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar.

Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 30. apríl 2013 hjá lögreglu-stjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Sama dag barst ríkissaksóknara krafa varnaraðila  um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndar álitsgerðar ríkissaksóknara frá 29. apríl 2013 og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 30. apríl 2013.“ 

Af hálfu varnaraðila var ekki skilað greinargerð en í málflutningi réttargæslumanns hans kom fram að varnaraðili hefði komið til landsins sem ferðamaður ásamt fleirum. Ekki hefðu verið höfð afskipti af þeim. Þá hefði hann ekki haft hugmynd um að hann væri eftirlýstur. Hér á landi hefði varnaraðili ekki brotið af sér og hann væri með hreint sakavottorð á Kýpur. Hann hefði ekki brotið af sér eins og hann væri sakaður um og hann óttaðist að njóta ekki réttlátrar málsmeðferðar yrði hann framseldur til Kýpur.

III

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu. 

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot þau sem varnaraðili er grunaður um að hafa framið eru talin varða við 244. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing fyrir brot gegn fyrrnefnda ákvæðinu getur varðað allt að 6 ára fangelsi, gegn því síðara allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt. Þá liggur fyrir handtökuskipun frá dómstól á Kýpur um að varnaraðili skuli handtekinn og er því einnig uppfyllt skilyrði 2. mgr. 3. gr. laganna. Þá er ekkert það komið fram sem gefur ástæðu til að ætla að einhver þeirra atriða sem um getur í 5. mgr. 3. gr. laganna eigi við og er þeirri málsástæðu varnaraðila hafnað. Loks er þess að geta að sök er ófyrnd og því uppfyllt skilyrði 9. gr. laganna.

Varnaraðili byggir á því að ákvæði 7. gr. laganna eigi að koma í veg fyrir framsal hans. Í framangreindri ákvörðun innanríkisráðuneytisins er tekin rökstudd afstaða til þess hvort mannúðarástæður eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað. Í ákvörðuninni er fjallað um þær ástæður, sem varnaraðili telur að við eigi og hvernig þær horfa við samkvæmt skýringu á 7. gr. Þetta mat ráðuneytisins verður ekki endurskoðað, enda hafa ekki verið leiddar líkur að því að aðstæður varnaraðila hafi ekki verið metnar með réttum og málefnalegum hætti.

Samkvæmt framansögðu er kröfum varnaraðila hafnað og staðfest ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 30. apríl 2013 um að framselja hann til Kýpur. 

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 30. apríl 2013 um að framselja varnaraðila, X, til Kýpur, er staðfest.

Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greidd úr ríkissjóði.