Hæstiréttur íslands

Mál nr. 493/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 1

 

Þriðjudaginn 1. september 2009.

 

Nr. 493/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og án takmarkana á rétti hans samkvæmt e. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 13. ágúst 2009.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, ár 2009, föstudaginn 28. ágúst.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði, X kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september nk. kl. 16:00. Þá er þess einnig krafist að tilhögun gæsluvarðhalsins verði samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar gríðarlega umfangsmikið þjófnaðarmál, sem varði fjölmörg innbrot á síðustu dögum og vikum inn á heimili fólks og í bifreiðar á höfuðborgarsvæðinu.

Kærði, ásamt þremur samlöndum sínum, sæti nú gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins, sjá nánar dóma Hæstaréttar Íslands nr. 474/2009, 476/2009 og 477/2009.  Kærði sé sterklega grunaðir um að tengjast hópi manna, sem hafi verið afar virkur í brotastarfsemi að undanförnu, einkum innbrotum.  Við rannsókn málsins hefur komið í ljósa að kærði, ásamt meðkærðu, A, B, C og D, tengjast neðangreindum þjófnaðarmálum með einum eða öðrum hætti, s.s. að þýfi úr málunum finnast í fórum þeirra eða framburður bendlar þá við brotin:

i)              innbrot í íbúðarhúsnæði við Y í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-27346, sem framið var 1. janúar sl.

ii)             innbrot í íbúðarhúsnæði við Z í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-15507, sem framið var 14. mars sl.

iii)            innbrot í íbúðarhúsnæði við Þ í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-39476, sem framið var 26. júní sl.

iv)            innbrot í Gistiheimilið Æ við [...] í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-39529, sem framið var 26. júní sl.

v)             innbrot í í bifreið sem stóð hjá Eiríksgötu við Hallgrímskirkju, sjá mál nr. 007-2009-41688, sem framið var um 6. júlí sl.

vi             )innbrot í í bifreið sem stóð við Ö í Kópavogi, sjá mál nr. 007-2009-50033, sem framið var um 15. júlí sl.

vii)           innbrot í bifreið sem stóð við R í Kópavogi, sjá mál nr. 007-2009-50155, sem framið var um 15. júlí sl.

viii)i         nnbrot í bifreið sem stóð við S í Kópavogi, sjá mál nr. 007-2009-44660, sem framið var 21. júlí sl.

ix              )innbrot í íbúðarhúsnæði við T í Mosfellsbæ, sjá mál nr. 007-2009-45507, sem framið var 26. júlí sl.

x)             innbrot í íbúðarhúsnæði við U í Hafnarfirði, sjá mál nr. 007-2009-46033, sem framið var 28. júlí sl.

xi)            innbrot í íbúðarhúsnæði við Ú í Garðabæ, sjá mál nr. 007-2009-46547, sem framið var 31. júlí sl.

xii             innbrot í íbúðarhúsnæði við V í Hafnarfirði, sjá mál nr. 007-2009-47083, sem framið var 2. ágúst sl.

xiii)          innbrot í íbúðarhúsnæði við YY í Kópavogi, sjá mál nr. 007-2009-46994, sem framið var 3. ágúst sl.

xiv)          innbrot í íbúðarhúsnæði við ZZ í Hafnarfirði, sjá mál nr. 007-2009-47784, sem framið var 6. ágúst sl.

xv)           innbrot í verslunina ÞÞ við P í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-47917, sem framið var 7. ágúst sl.

xvi)          innbrot í verslunina ÆÆ við [...] í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-50344, sem framið var 7. ágúst sl.

xvii)innbrot í íbúðarhúsnæði við ÖÖ í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-48170, sem framið var 8. ágúst sl.

xviii)        innbrot í bústað prestsins við [...]kirkju við VV í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-48566, sem framið var 10 ágúst sl.

xix)           innbrot í íbúðarhúsnæði við RR í Kópavogi, sjá mál nr. 007-2009-48511, sem framið var 10. ágúst sl.

xx             )innbrot í íbúðarhúsnæði að SS í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-48726, sem framið var 11. ágúst sl.

xxi)           innbrot í íbúðarhúsnæði að TT í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-48738, sem framið var 11. ágúst sl.

xxii)          innbrot í íbúðarhúsnæði við UU í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-49002, sem framið var 12. ágúst sl.

xxiii          innbrot í íbúðarhúsnæði við ÚÚ í Reykjavík, sjá mál nr. 007-2009-48965, sem framið var 12. ágúst sl.

Auk þeirra muna sem lögregla hafi lagt hald á í ofangreindum málum á heimili kærða og meðkærðu hefur hún í vörslum sínum mikið magn muna sem hún ætlar að séu þýfi.  Lögreglan vinni nú hörðum höndum að því að rekja hina haldlögðu muni til innbrota og sé lögreglu enn að berast upplýsingar og ábendingar um hvaðan munirnir eru tilkomnir.  

Að kvöldi miðvikudagsins 12 ágúst sl. hafi verið kærði handtekinn, ásamt meðkærðu B og C, þar sem þeir voru staðnir að verki við innbrot að UU í Reykjavík (sjá lið nr. xxii hér að ofan) Kærði hafi viðurkennt aðild sína að málinu. 

Frá upphafi hafi kærði villt um fyrir lögreglu um raunverulegan dvalarstað sinn og var það ekki fyrr en við skýrslutöku yfir einum meðkærða þann 20. ágúst sl. að réttur dvalarstaður kom fram, þ.e. Q í Kópavogi. Hafi þá komið í ljós að meðkærði C búi þar einnig. Í kjölfarið hafi verið farið í húsleit á dvalarstað þeirra að Q og fannst  mikið magn af þýfi.

Lögreglan hafi þegar rakið hluta þess þýfis til innbrotsins að ÖÖ (sjá lið nr. xvii hér að ofan), innbrotsins í Ú (sjá lið nr. xi hér að ofan) og innbrotsins í P (sjá lið nr. xv hér að ofan). Munir úr þessum þrem innbrotum fundust einnig á dvalarstað meðkærða D og er því ljóst að tengsl eru á milli kærða og meðkærða Cog meðkærða D

Auk þess liggi fyrir framburður meðkærðu um að kærði hafi tekið þátt í innbroti og þjófnaði að VV í Reykjavík (sjá lið nr. xviii hér að ofan), innbroti og þjófnaði í gistiheimilið Æ við [...]götu (sjá lið nr. iv hér að ofan), innbroti og þjófnað í verslun að P (sjá lið nr. xv hér að ofan) og innbrot og þjófnað að T (sjá lið nr. ix hér að ofan), en í síðastnefnda málinu liggur einnig fyrir vitnisburður um að tveir menn hafi ekið á brott á bifreiðinni N sem einn meðkærðu segir kærða eiga.  Ekki hefur reynst unnt að yfirheyra kærða vegna þessara mála.

Af þessu megi sjá að kærði liggi undir sterkum grun um að eiga aðild a.m.k. 6 innbrotsmálum, sem framin voru á tímabilinu 31. júlí til 12. ágúst  Þá séu uppi augljós tengsl milli kærða og meðkærða D, sem tengist a.m.k. 10 innbrotsmálum á sama tímabili.  Þar sem hér er um svo umfangsmikið mál að ræða hefur lögregla ekki enn náð að yfirheyra kærðu um alla þætti málsins.

Rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi og því afar brýnt að kærði fái ekki tækifæri til að torvelda henni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni.  En það sé grunur lögreglu að kærði tengist hér hópi erlendra manna, sem hafa verið mjög virkir í innbrotum síðustu vikurnar á höfuðborgarsvæðinu.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a liðar 1. mgr. 95. gr.. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísun til þess sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra er það mat dómsins að kærði sé undir rökstuddum grun um að eiga aðild að fjölmörgum auðgunarbrotum sem þar er gerð grein fyrir.  Fallist er á það með lögreglustjóra að kærði geti torveldað rannsókn málsins, hafi hann óskert frelsi, en umfangmikil rannsókn lögreglu á brotunum er á viðkvæmu stigi. Þegar litið er til alls þessa telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95.  gr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald og er hún tekin til greina eins og hún er sett fram. Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b lið 1. mgr. 99. gr. laganna, en ekki eru efni til að verða við kröfu kærða um að ekki verði takmarkaður aðgangur hans að fjölmiðlum o.fl. sbr. e lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. september nk. kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.