Hæstiréttur íslands

Mál nr. 272/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


Föstudaginn 27. maí 2011.

Nr. 272/2011.

A

(Bjarki Sigursveinsson hdl.)

gegn

NBI hf.

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði m.a. að þótt ekki lægi fyrir hve háa fjárhæð A greiddi af framangreindu láni væri ómögulegt að horfa framhjá því að samhliða því að hann gerði tillögu um algjöra eftirgjöf samningskrafna kvæðist hann greiða reglulega af láni sem hann væri ekki sjálfur skuldari að svo séð yrði. Þrátt fyrir að reiknuð greiðslugeta hans væri fullnýtt til að greiða fasteignaveðkröfuhöfum og fasteignagjöld hefði honum borið að nýta þá greiðslugetu sem raunverulega væri umfram hina reiknuðu í þágu eigin kröfuhafa en ekki annarra. Yrði að fallast á með N hf. að ekki væri nægilega sýnt að A væri með öllu ófær um standa að einhverju leyti skil á samningskröfum og yrði um fyrirsjáanlega framtíð. Bæri því að synja um staðfestingu nauðasamningsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. apríl 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans um staðfestingu nauðasamnings til greiðsluaðlögunar verði tekin til greina og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kæru­máls­kostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. apríl 2011.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 21. desember sl., en endurupptekið og tekið til úrskurðar á ný í gær.  Það var höfðað 10. desember sl.

Sóknaraðili er A, kt. [...], [...], [...].

Varnaraðili er NBI hf.

Sóknaraðili krefst þess að staðfestur verði nauðasamningur hans til greiðslu­aðlögunar.  Samkvæmt frumvarpi að honum eiga allar samningskröfur að verða gefnar eftir.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að staðfestingu samningsins verði hafnað.

Sóknaraðili fékk heimild til að leita nauðasamnings með úrskurði 15. september 2010. Umsjónarmaður mælti með því 19. nóvember sl., að tillaga hans að nauðasamningi næði fram að ganga.  Í greinargerð umsjónarmanns er rakið að lýst hafi verið kröfum að fjárhæð 38.441.969 krónur.  Þar af hafi einni kröfunni verið lýst aðallega sem veðkröfu við greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og eina þekkta kröfu hafi umsjónarmaður tekið á skrá.  Eru samningskröfur samkvæmt skrá í frumvarpi að lokum samtals 35.031.356 krónur.  Þar af fer varnaraðili með sex kröfur, samtals að fjárhæð 11.339.275 krónur.

Í greinargerð umsjónarmanns kemur fram að sóknaraðili eigi þrjú börn með eiginkonu sinni, á aldrinum 1-8 ára.  Hann hafi ekki lokið neinni formlegri menntun, en stundað nám í [...]skóla um tíma og lokið ýmsum námskeiðum.  Eiginkona hans sé [...].  Þau hafi keypt fasteign að [...], [...] árið 2005 og séu þar búsett.  Sama ár hafi hann stofnað [...] og rekið verslun með [...] undir því nafni til 2009, þegar félagið hafi orðið gjaldþrota.  Þau eiginkona hans hafi tekið ábyrgðir á skuldum félagsins og einnig sett fasteignina að veði fyrir þeim.  Eftir gjaldþrotið hafi hann fengið vinnu í fyrstu, en síðan verið atvinnulaus frá nóvember 2009 til september 2010.  Þau eiginkona hans hafi ekki getað greitt af miklum skuldum sínum og því leitað nauðasamninga til greiðsluaðlögunar, en einnig tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna.

Umsjónarmaður kveðst telja að ekkert hafi komið fram sem hefði í öndverðu átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar samkvæmt 63. gr. d. og 1. mgr. 38. gr. laga nr. 21/1991.  Sé upphafleg beiðni sóknaraðila ítarleg og ekki annað að sjá en að hann hafi gefið tekjur sínar og skuldir réttilega upp.  Þá sé framfærslukostnaður í samræmi við þau neysluviðmið sem Ráðgjafarstofa heimilanna hafi gefið upp og önnur framlögð gögn.

Samkvæmt útreikningi umsjónarmanns er greiðslugeta sóknaraðila og eiginkonu hans 139.864 krónur á mánuði.  Þar af er varið 120.000 krónum mánaðarlega til greiðslu fasteignaveðkrafna, samkvæmt ákvörðun um greiðsluaðlögun þeirra, sem komst á í nóvember sl.  Þá sé ljóst að greiða þurfi um 19.000 krónur á mánuði í fasteignagjöld og iðgjald brunatryggingar.  Þegar til þessa sé litið sé það mat um­sjónarmannsins að sóknaraðila sé ekki unnt að standa skil á skuldbindingum sínum um fyrirsjáanlega framtíð og tillaga um eftirgjöf skulda sé eðlileg í ljósi framtíðarhorfa og aflahæfis hans.

Umsjónarmaðurinn rekur að sóknaraðili hafi augljóslega stofnað til verulegra skulda, sem séu til komnar vegna kaupa hans og eiginkonunnar á fasteigninni [...] og vegna reksturs [...].  Árið 2007 hafi hann stofnað til verulegra skulda við eignarleigufyrirtæki vegna samnings um leigu ökutækja, í fyrsta lagi með samningi við Lýsingu hf. um leigu á bifhjóli til sex ára, að fjárhæð 437.917 krónur, í öðru lagi við sama fyrirtæki um leigu á jeppabifreið til sjö ára að fjárhæð 7.137.116 krónur og í þriðja lagi við SP fjármögnun hf. um leigu á bifhjóli til sjö ára að fjárhæð 1.246.154 krónur, allar fjárhæðirnar bundnar við gengi erlendra mynta.  Tekjur hans árið 2007 hafi verið 2.612.871 króna og tekjur eiginkonu hans 1.335.338 krónur.  Umsjónarmaður kveðst þó telja að líta verði til þess að gjaldþrot [...] og atvinnumissir sóknaraðila hafi ekki verið fyrirséð þegar til skuldbindinganna hafi verið stofnað.  Þá hafi hækkanir gengistryggðra lána ekki verið fyrirséðar þá.  Telur umsjónarmaður ekki unnt að fallast á að háttsemi sóknaraðila hafi verið verulega ámælisverð eða að um fjárhagslega áhættu hafi verið að ræða í skilningi 2. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991.  Kveðst hann mæla með því að greiðsluaðlögun komist á með því að samningskröfur verði gefnar eftir.

Varnaraðili telur að sóknaraðili gangi of langt með því að gera tillögu um algera niðurfellingu krafna, þar sem greiðslugeta hans sé jákvæð.  Verði samningskröfur eingöngu felldar niður að fullu ef það sé algerlega ljóst að fyrirsjáanleg geta skuldara til að greiða af skuldum sínum á komandi árum sé engin.  Ekkert í framkomnum gögnum styðji það að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð með öllu ófær um að standa skil á skuldbindingum sínum.

Þá telur varnaraðili að 2. og 3. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, standi staðfestingu nauðasamnings í vegi.  Hafi sóknaraðili, með framan­greindum skuldbindingum árið 2007, hagað fjármálum sínum á verulega ámælis­verðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhags­stöðu hans á þeim tíma sem til þeirra var stofnað.

Sóknaraðili vísar til þess að eins og fram komi í greinargerð umsjónarmanns sé greiðslugeta hans umfram brýnustu framfærslu fullnýtt með mánaðarlegri afborgun til fasteignarveðhafa og til að standa skil á fasteignagjöldum.  Hann hafi nú atvinnu og séu ekki líkur til að sér takist að auka tekjur sínar.  Verði ekki rökstutt að greiðslugeta hans batni í framtíðinni.  Þá vísar hann til þess að það hafi ekki verið metið svo, er heimild til að leita nauðasamnings var veitt í öndverðu, að hann hafi hagað fjármálum sínum með óábyrgum hætti árið 2007.  Sé meint ábyrgðarleysi í fjármálum ekki meðal ástæðna sem taldar séu í 58. gr. laga nr. 21/1991.  Þá hafi sóknaraðili ekki séð það fyrir árið 2007 að grundvöllur fyrir rekstri [...] myndi bresta og að aðstæður í efnahagslífinu myndu leiða til verulegrar hækkunar á skuldbindingum í erlendum myntum.

Samkvæmt útreikningi umsjónarmanns á greiðslugetu er greiðslugeta sóknaraðila umfram hlutdeild í framfærslu 133.350 krónur, en samsvarandi greiðslugeta eiginkonu hans aðeins 6.514 krónur, hvort tveggja miðað við einn mánuð.  Er þannig ljóst að ekki er gert ráð fyrir að þau greiði að jöfnu til fasteignarveðhafa samkvæmt greiðsluaðlögun krafna þeirra, enda er eiginkonan augljóslega ekki fær um það miðað við þetta.  Ekki þykir þó eiga að meta það svo að þegar af þessum sökum verði samningstillaga skuldarans of íþyngjandi í garð samningskröfuhafa.

Eins og rakið er hér að framan stofnaði sóknaraðili til verulegra skuldbindinga vegna leigusamninga um ökutæki árið 2007.  Þótt heimilað hafi verið í öndverðu að greiðsluaðlögunar yrði leitað ber að meta það hér hvort fallast eigi á það með varnaraðila að um sé að ræða ráðstafanir sem hefðu átt að girða fyrir það að svo yrði gert vegna 2. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, sbr. 2. gr. laga nr. 24/2009, sbr. nú c-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010, en þar er kveðið á um að synja megi um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, eigi það við að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til skuldbindingar var stofnað.

Eins og að framan er rakið keypti sóknaraðili fasteign árið 2005 ásamt eiginkonu sinni.  Samkvæmt skattframtali 2007 greiddu þau árið 2006 samtals 1.024.118 krónur vegna tveggja veðskulda, sem stofnað var til árið 2005 vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.  Eftirstöðvar þessara skulda námu í árslok 2006 samtals 18.655.075 krónum.  Vaxtagjöld af öðrum skuldbindingum námu 667.048 krónum og eftirstöðvar þeirra 9.489.096 krónum.  Sóknaraðili hafði 3.600.000 krónur í laun árið 2006 og árið eftir 2.809.241 krónu.  Samkvæmt skattframtali hans og eiginkonu hans 2008 voru árið 2007 seld og keypt nokkur ökutæki, sum bæði keypt og seld, þannig að selt var í heild fyrir 2.900.000 krónum meira en keypt var.  Ljóst er að hin seldu ökutæki voru í einhverjum tilvikum verulega veðsett.  Þrátt fyrir þetta námu skuldir, aðrar en fasteignaveðskuldirnar tvær, samtals 11.681.450 krónum í lok árs 2007 og höfðu samkvæmt því hækkað um rúmar tvær milljónir króna milli ára.  Jafnvel við þær aðstæður sem í samfélaginu voru árið 2007 verður að telja að það hafi verið ógætilegt af sóknaraðila að stofna, að teknu tilliti til tekna og skulda, samhliða aukningu skuldanna en lækkun teknanna, til þeirra leigusamninga um þrjú ökutæki sem lýst er hér að framan.  Var sérstakt tilefni að rökstyðja það, að gættri málsástæðu varnaraðila, að ekki væri tilefni til að endurmeta það hvort réttara hefði verið af þessum sökum að synja um heimild til að leita nauðasamnings í öndverðu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991, en ekki þykir mega skýra það ákvæði svo þröngt að það hafi ekki tekið til atriða sem talin voru í 63. gr. d. laga nr. 21/11991, sbr. lög nr. 24/2009. Verður ekki talið nægilega rökstutt að með framangreindum leigusamningum um ökutæki hafi sóknaraðili ekki tekið fjárhagslega áhættu í ósamræmi við fjárhagsstöðu sína þegar til þeirra var stofnað.  Heimilt er, en ekki skylt, að synja um heimild til nauðasamningsumleitana af þessum sökum.  Verður að fallast á það með varnaraðila að sterklega hefði átt að koma til álita að gera svo.

Það sem hins vegar þykir eiga að ráða úrslitum hér og ekki lá fyrir í öndverðu, er að í greinargerð umsjónarmanns kemur fram að sóknaraðili hafi tjáð honum og bent á að taka yrði tillit til þess, að hann greiði reglulega af láni sem upphaflega hafi verið tekið af [...] og faðir hans hafi tekið yfir.  Verður ekki annað ályktað en að þetta hafi verið meðal atriða sem sóknaraðili hafði í huga þegar hann ákvað að breyta ekki samningstillögu sinni kröfuhöfum til hagsbóta við meðferð málsins hjá umsjónarmanni.  Segir umsjónarmaður að hann hafi upplýsingar frá [...] um þetta lán, en með þeim sé ekki sýnt að fram á að sóknaraðili greiði af því.  Ekki liggur fyrir hve hér er um háar greiðslur að ræða.  Er á það bent í greinargerð varnaraðila að þrátt fyrir áskorun umsjónarmanns hafi sóknaraðili ekki lagt fram gögn því til stuðnings að hann væri greiðandi af þessu láni.

Samkvæmt 5. tl. 1. mgr. þágildandi 63. gr. d. laga nr. 21/1991, sbr. 2. gr. laga nr. 24/2009, getur héraðsdómari hafnað beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, hafi skuldari svo máli skipti látið hjá líða að standa í skilum við lánardrottna sína þótt honum hefði verið það kleift að einhverju leyti eða öllu og samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 21/1991 getur héraðsdómari hafnað kröfu skuldara um staðfestingu nauðasamnings ef sú eftirgjöf sem honum yrði veitt er að mun meiri en sanngjarnt verður talið í ljósi efnahags hans.  Þótt ekki liggi fyrir hve háa fjárhæð skuldarinn greiðir af framangreindu láni er ómögulegt að horfa framhjá því að samhliða því að hann gerir tillögu um algera eftirgjöf samningskrafna kveðst hann greiða reglulega af láni sem hann er ekki sjálfur skuldari að svo séð verði.  Þrátt fyrir að reiknuð greiðslu­geta hans sé samkvæmt ofansögðu fullnýtt til að greiða fasteignaveðkröfuhöfum og fasteignagjöld, bar honum að nýta þá greiðslugetu sem raunverulega er umfram hina reiknuðu samkvæmt þessu í þágu eigin kröfuhafa en ekki annarra.  Verður eftir þessu að fallast á það með varnaraðila að ekki sé nægilega sýnt að sóknaraðili sé með öllu ófær um að standa að einhverju leyti skil á samningskröfum og verði það um fyrirsjáanlega framtíð.  Ber því að synja um staðfestingu nauðasamningsins.

Málskostnaðar er ekki krafist.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila, A, um staðfestingu nauðasamnings er hafnað.