Hæstiréttur íslands
Mál nr. 272/2005
Lykilorð
- Skaðabætur
- Verðbréfaviðskipti
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 19. janúar 2006. |
|
Nr. 272/2005. |
Sparisjóður Hafnarfjarðar(Valgarður Sigurðsson hrl.) gegn Aðalbirni Jóakimssyni (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Skaðabætur. Verðbréfaviðskipti. Málsástæður.
A höfðaði mál til heimtu skaðabóta úr hendi S. Taldi hann sig hafa orðið fyrir fjárhagstjóni vegna vanrækslu starfsmanna S við innheimtu víxils, sem verið hafi í eigu hans, og fjárvörslusamningur sem aðilar gerðu sín í milli hafi meðal annars tekið til. Að öllum atvikum virtum var fallist á það með A að víxillinn hafi tilheyrt því eignasafni hans sem fjárvörslusamningur aðila tók til. Var það rakið til mistaka af hálfu starfsmanna S að fullnusturéttur á hendur útgefanda víxilsins féll niður og S því talinn skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem af þessu leiddi fyrir A. Málsástæða S er laut að óréttmætri auðgun A á kostnað S, yrði krafa hans tekin til greina, og S byggði á fyrir Hæstarétti, var of seint fram komin. Krafa A var tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi heldur áfrýjandi því fram, að víxill með gjalddaga 3. apríl 2001 að fjárhæð 32.696.058 krónur, sem aðilar deila um, hafi ekki verið meðal þeirra verðbréfa, sem samningur aðila nr. F121049-3849 um ávöxtun og vörslu eigna 2. maí 2000 hafi tekið til. Meðal gagna málsins er tilkynning áfrýjanda til stefnda 19. september 2002, þar sem beinlínis er tekið fram að víxill þessi hafi verið settur áfrýjanda „að handveði fyrir greiðslu láns í erlendri mynt samkvæmt lánssamningi með handveði, útgefnum af yður til sparisjóðsins 2.05.2000.“ Með þessum síðarnefnda samningi voru „allar eignir á fjárvörslureikningi nr. F121049-3849 ... hjá lánveitanda settar að handveði“ til tryggingar skuldinni samkvæmt samningnum. Ekki var um aðrar veðsetningar að ræða í samningnum. Tilkynning þessi fól því í sér sérstaka staðfestingu áfrýjanda á því að víxillinn tilheyrði fjárvörslusamningnum.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi viljað byggja kröfu sína auk annars á því, að nái kröfur stefnda fram að ganga, myndi það leiða til óréttmætrar auðgunar hans á kostnað áfrýjanda. Þessari málsástæðu var ekki hreyft í héraði auk þess sem engra gagna nýtur í málinu til að unnt sé að taka afstöðu til hennar. Málsástæðan er of seint fram komin og kemur því ekki til frekari umfjöllunar fyrir Hæstarétti.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, greiði stefnda, Aðalbirni Jóakimssyni, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. apríl 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. f.m., er höfðað 24. júní 2004 af Aðalbirni Jóakimssyni, Laugarásvegi 31 í Reykjavík á hendur Sparisjóði Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 32.696.058 krónur með dráttarvöxtum frá 3. október 2001 til greiðsludags. Að auki er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.
I.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til heimtu skaðabóta úr hendi stefnda. Telur hann sig hafa orðið fyrir fjárhagstjóni vegna vanrækslu starfsmanna stefnda við innheimtu víxils sem verið hafi í eigu hans og fjárvörslusamningur sem aðilar gerðu sín í milli 2. maí 2000 hafi meðal annars tekið til, en með samningnum tók stefndi að sér ávöxtun og vörslu þeirra eigna stefnanda sem undir samninginn féllu. Sá víxill sem um ræðir var að fjárhæð 32.696.058 krónur, útgefinn 3. október 2000 af Aðalsteini Ómari Ásgeirssyni og framseldur eyðuframsali af honum, en samþykktur til greiðslu 3. apríl 2001 af stefnanda fyrir hönd Útgerðarfélagsins Marínu ehf. Þá var stefnandi ábekingur á víxlinum. Bú útgerðarfélagsins, sem mun hafa verið í eigu stefnanda og Aðalsteins Ómars, var tekið til gjaldþrotaskipta 16. janúar 2002. Af ástæðum sem síðar verða raktar fyrntist víxlréttur á hendur öðrum víxilskuldurum en samþykkjanda. Höfðaði stefndi mál á hendur Aðalsteini Ómari til heimtu víxilkröfunnar 10. október 2002 á grundvelli bótareglu 74. gr. víxillaga nr. 93/1933. Með dómi héraðsdóms 8. maí 2003 var Aðalsteinn Ómar sýknaður af kröfum stefnda. Stefndi áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar, sem með dómi sínum 18. desember 2003 vísaði málinu frá héraðsdómi. Telur stefnandi að hann hafi orðið fyrir tjóni sem nemur fjárhæð víxilkröfunnar þar sem starfsmenn stefndu hafi glatað víxilrétti á hendur útgefanda hans, en með því og á grundvelli þeirra skuldbindinga sem stefndi hafi undirgengist gagnvart stefnanda samkvæmt fjárvörslusamningnum hafi stefndi bakað sér skaðabótaskyldu.
II.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndi sé fjármálafyrirtæki sem starfi samkvæmt heimild í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og IV. kafli þeirra laga, en fram að því hafi gilt um starfsemina ákvæði laga nr. 43/1993 um viðskiptabanka og sparisjóði.
Stefnandi hafi gert samning við stefnda 2. maí 2000 þar sem stefndi hafi tekið að sér ávöxtun og vörslu eigna fyrir stefnanda. Í 1. gr. samningsins komi fram að samningurinn sé fjárvörslusamningur í skilningi laga um verðbréfaviðskipti, en með fjárvörslu sé átt við þjónustu sem veitt sé samkvæmt sérstökum samningi gegn endurgjaldi og feli í sér að taka við fjármunum til fjárfestingar í verðbréfum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning viðskiptamanns. Geri fjárvarsla ekki ráð fyrir daglegum afskiptum fjárvörsluþegans af verðbréfakaupum, heldur séu ákvarðanir um einstök kaup og sölu verðbréfa í höndum starfsmanna fjárvörslu sparisjóðsins. Þá sé í 2. gr. samningsins kveðið á um það að sparisjóðurinn kaupi verðbréf fyrir fjárvörsluþega samkvæmt fjárfestingarstefnu, sem sé hluti fjárvörslusamningsins, annist innlausn þeirra og innheimtuaðgerðir, þar á meðal lögfræðilegar innheimtu-aðgerðir, telji sparisjóðurinn þörf á þeim. Þá skuldbindi sparisjóðurinn sig til þess samkvæmt 3. gr. samningsins að varðveita verðbréf og önnur verðmæti fjárvörsluþega á öruggan og tryggan hátt. Segi þar einnig að sparisjóðurinn sé undanþeginn ábyrgð á tjóni sem stafi af óviðráðanlegum atvikum (force majeure) svo sem náttúruhamförum, styrjöldum, sprengingum eða geislavirkni.
Samhliða gerð fjárvörslusamningsins hafi stefnandi gert samning við stefnda um lántöku stefnanda hjá stefnda í erlendri mynt. Samkvæmt þeim samningi hafi stefnda verið sett að handveði öll þau verðmæti sem stefndi hafi haft í vörslum sínum samkvæmt fjárvörslusamningnum til tryggingar skuldbindingum stefnanda samkvæmt lánssamningnum. Með nýjum handveðssamningi 8. september 2000 hafi stefnandi síðan sett stefnda að handveði öll verðmæti sem fjárvörslusamningurinn hafi tekið til og þá til tryggingar öllum skuldbindingum sínum við stefnda.
Verðbréfasafn stefnanda var á sínum tíma vistað hjá Fjárvangi hf. Í tengslum við gerð framangreinds fjárvörslusamnings var það flutt yfir til stefnda. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að því hafi þá tilheyrt víxill að fjárhæð 27.984.000 krónur, útgefinn 8. mars 2000 af Aðalsteini Ómari Ásgeirssyni, en samþykktur til greiðslu af stefnanda fyrir hönd Útgerðarfélagsins Marínu ehf. 8. júlí 2000. Hafi fjárvörslusamningurinn meðal annars tekið til þessa víxils. Eftir gerð samningsins hafi þessi víxill verið endurnýjaður með þeim víxli sem gerð er grein fyrir í kafla I hér að framan, en við útgáfu fyrri víxilsins hafi verið búið að endurnýja eða framlengja víxilskuldina nokkrum sinnum. Þegar víxillinn frá 3. október 2000 var kominn á gjalddaga hafi verið óskað eftir því að hann yrði greiddur með nýjum víxli með gjalddaga í október 2001. Eftir því sem stefnandi komist næst hafi stefndi samþykkt þessa málaleitan. Þegar sá víxill hafi farið í vanskil hafi innheimuaðgerðir verið hafnar. Undir rekstri dómsmáls sem höfðað hafi verið til heimtu víxilfjárhæðarinnar hafi hins vegar komið í ljós að formgalli væri á víxlinum, en handritaða nafnritun útgefanda hans, Aðalsteins Ómars Ásgeirssonar, vantaði. Hafi stefndi þá ákveðið að hefja innheimtuaðgerðir á grundvelli eldri víxilsins, það er víxilsins sem fallið hafði í gjalddaga 3. apríl 2001. Með bréfi 19. september 2002 hafi stefndi síðan tilkynnt stefnanda að hann hefði ákveðið að leysa þann víxil til sín. Hafi í bréfinu verið vísað til þess að stefndi hefði handveðsrétt í víxlinum og myndi innheimta hann hjá útgefanda hans samkvæmt heimild í 74. gr. víxillaga þar sem bú samþykkjandans, Útgerðarfélagsins Marínu ehf., hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta 16. janúar 2002. Með dómi Hæstaréttar 18. desember 2003 hafi kröfum stefnda á hendur útgefanda víxilsins síðan verið vísað frá héraðsdómi.
Stefnandi telur ljóst að þegar framangreint bréf var ritað hafi réttur til að innheimta víxilkröfuna hjá útgefanda víxilsins verið fallinn niður þar sem meira en eitt ár hafi þá verið liðið frá gjalddaga víxilsins. Stefndi hafi höfðað mál á hendur útgefandanum, en sú málssókn hafi ekki borið árangur. Telur stefnandi sig svo sem fram er komið hafa orðið fyrir fjárhagstjóni vegna vanrækslu starfsmanna stefnda við innheimtu víxilsins. Stefndi hafi neitað að bæta honum það tjón og því sé óhjákvæmilegt fyrir hann að leita dóms um bótaábyrgð stefnda vegna þess.
Bótakröfu sína reisir stefnandi á því að stefndi hafi samkvæmt fjárvörslusamningi við hann ábyrgst innheimtu á þeim verðmætum sem falli undir hann. Jafnframt hafi stefndi haft þessi verðmæti að handveði til tryggingar skuldbindingum stefnanda gagnvart honum. Hafi stefnandi mátt treysta því að víxillinn sem að framan er getið og fjárvörslusamningurinn hafi tekið til yrði innheimtur hjá þeim sem ábyrgð hafi borið á greiðslu hans, það er útgefandanum. Stefndi hafi hins vegar vanrækt innheimtuaðgerðir gegn honum með þeim afleiðingum að greiðsluskylda útgefandans féll niður sökum fyrningar, sbr. 2. mgr. 71. gr. víxillaga. Við þetta hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem nemi fjárhæð víxilsins og dráttarvöxtum frá gjalddaga hans, en stefnandi telur að útgefandinn hafi fyllilega verið borgunarmaður fyrir honum.
Stefnandi vísar um ábyrgð stefnda á þeirri vanrækslu, sem hann hafi samkvæmt framansögðu gerst sekur um, til ákvæða fjárvörslusamningsins, einkum 2., 3. og 4. gr. hans. Telur stefnandi ljóst að í samningssambandi hans við stefnda hafi stefndi stöðu sérfræðingsins sem taki að sér að veita fjármálaþjónustu gegn endurgjaldi samkvæmt gjaldskrá. Í 3. gr. samningsins sé ákvæði sem leysi stefnda undan bótaábyrgð á tjóni við tilteknar aðstæður (force majeure), en ekkert slíkt eigi við í því tilviki sem hér um ræðir.
Stefndi telur stefnda bera ábyrgð gagnvart honum þar sem starfsmenn stefnda hafi valdið honum tjóni sem sé bótaskylt samkvæmt sakarreglunni og vísar til reglu skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð í því sambandi.
Af hálfu stefnanda er sérstaklega tekið fram í stefnu að hann telur það ekki skipta máli fyrir niðurstöðu um kröfu hans á hendur stefnda hvort stefndi kunni að hafa tekið við formgölluðum víxli sem greiðslu á víxlinum sem féll í gjalddaga 3. apríl 2001. Hvernig svo sem slíku kunni að vera farið sé ljóst að fyrir vanrækslu starfsmanna stefnda hafi kröfuréttur á hendur útgefanda víxilsins fallið niður og stefndi meðhöndlað það sem tapaða eign á fjárvörslureikningi stefnanda.
III.
Í greinargerð var því haldið fram af hálfu stefnda að víxillinn, sem bótakrafa stefnanda styðst við, hafi á sínum tíma sérstaklega verið settur stefnda að handveði og gæti þar af leiðandi ekki talist hluti af fjárvörslusamningi aðila. Í bókun sem lögð var fram 23. nóvember 2004 er tekið fram að það sé misskilningur að víxillinn hafi verið settur stefnda sérstaklega að handveði. Hið rétta sé að hann hafi verið afhentur stefnda inn í verðbréfasafn stefnanda sem aukin trygging vegna lánveitinga til stefnanda. Víxillinn hafi þar með orðið hluti af verðbréfasafninu sem stefndi hafi átt handveðrétt í til tryggingar skuldbindingum stefnanda. Við flutning málsins hélt lögmaður stefnda því síðan fram að víxill að fjárhæð 27.984.000 krónur, útgefinn 8. mars 2000 af Aðalsteini Ómari Ásgeirssyni, en samþykktur til greiðslu af stefnanda fyrir hönd Útgerðarfélagsins Marínu ehf. 8. júlí 2000, hafi tilheyrt því eignasafni sem stefnandi hafi á sínum tíma flutt frá Fjárvangi hf. til stefnda. Sá víxill hafi hins vegar eingöngu verið afhentur stefnda til innheimtu og því ekki fallið undir fjárvörslusamninginn sem aðilar gerðu sín á milli 2. maí 2000. Í stað þess víxils hafi síðan komið sá víxill sem sé grundvöllur bótakröfu stefnanda. Hann hafi með sama hætti og fyrri víxillinn verið afhentur stefnda til innheimtu, en að auki sem aukin trygging vegna lánveitinga til stefnanda svo sem að framan er rakið. Þannig heldur stefndi því nú fram að framangreindir tveir víxlar hafi verið afhentir honum til innheimtu, og sá seinni að auki sem frekari trygging vegna fjárskuldbindinga stefnanda, og að aldrei hafi verið litið svo á að þeir féllu undir fjárvörslusamning málsaðila. Um báða þessa víxla hafi það gilt að það hafi alfarið verið undir stefnanda komið hvort þeir yrðu innheimtir. Um samningsatriði á milli stefnanda annars vegar og samþykkjanda og útgefanda víxlanna hins vegar hafi alfarið verið að ræða. Þannig hafi stefnanda ekki óskað eftir því að víxillinn með gjalddaga 3. apríl 2001 yrði innheimtur, heldur hafi hann afhent stefnda nýjan víxil með gjalddaga 3. október 2001. Sá víxill hafi farið í vanskil og hafi að höfðu samráði við stefnanda verið ákveðið að innheimta hann. Hafi innheimtu verið beint að útgefanda víxilsins eingöngu, enda hafi þegar hér var komið sögu verið búið að taka bú samþykkjandans til gjaldþrotaskipta. Hafi lögmenn stefnda vakið athygli stefnanda á því að ekki væri um formlega gildan víxil að ræða þar sem hann væri óútgefinn. Stefnandi hafi engu að síður óskað eftir því að innheimta yrði reynd þar sem hann hefði ekki ástæðu til að ætla að útgefandinn myndi bera formgallann fyrir sig. Reyndin hafi orðið önnur og hafi innheimtu þessa víxils þá verið hætt. Í kjölfarið og að höfðu samráði við stefnanda hafi síðan verið höfðað mál á hendur útgefanda framangreinds víxils með gjalddaga 3. apríl 2001 og á grundvelli bótareglu 74. gr. víxillaga. Hún hafi, svo sem áður er lýst, ekki borið árangur.
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að mögulegt tjón stefnanda verði ekki rakið til sakar starfsmanna stefnda og önnur skilyrði bótaskyldu séu ekki fyrir hendi. Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni hafi hann stuðlað að því sjálfur með því að afhenda stefnda formlega ógildan víxil í stað fullgilds víxils sem annars hefði verið innheimtur. Hafi innheimtutilraunir á hendur útgefanda hins ógilda víxils reynst árangurslausar þar sem hann hafi borið fyrir sig formgallann og víxilréttur á hendur honum samkvæmt eldri víxli fyrnst. Stefnandi hafi átt í viðskiptum við stefnda eins og að framan sé lýst og ábyrgst þær skuldbindingar með fjárvörslusafni sínu og að auki með nefndum víxli. Þessi víxill hafi ekki verið hluti af fjárvörslusafninu og ábyrgð stefnda á meðferð hans verði því ekki byggð á ákvæðum fjárvörslusamningsins. Stefnandi hafi afhent stefnda víxilinn sem tryggingu fyrir efndum fjárskuldbindinga sinna og hafi það verið á hans ábyrgð að hann væri formlega gildur. Stefndi hafi gert allt sem honum var unnt til þess að innheimta hinn ógilda víxil hjá útgefanda hans og honum einum, þar sem samþykkjandi víxilsins hafi verið orðinn gjaldþrota á gjalddaga hans, en án árangurs eins og að framan er lýst. Hafi stefndi þá reynt innheimtu á eldri víxli á grundvelli 74. gr. víxillaganna, en með dómi Hæstaréttar hafi kröfum stefnda á hendur útgefanda víxilsins verið vísað frá héraðsdómi.
Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að meint tjón stefnanda sé ósannað með öllu. Engar sönnur hafi verið færðar fyrir því að útgefandi víxilsins sé eða hafi verið borgunarmaður fyrir víxilskuldinni, aðeins talið að svo sé. Þá hafi stefnandi ekki fullreynt að fá víxilskuldina greidda hjá útgefanda víxilsins, en honum hafi verið rétt og skylt að reyna innheimtu eldri víxilsins að nýju gagnvart honum á grundvelli 74. gr. víxillaganna og reyna með því að takmarka tjón sitt.
Loks byggir stefndi sýknukröfu sína samkvæmt greinargerð á því að ekki sé orsakasamband á milli meints tjóns stefnanda og athafna eða athafnaleysis starfsmanna stefnda. Þannig hafi það alfarið verið á valdi stefnanda sjálfs hvort umrædd víxilskuld yrði innheimt hjá víxilútgefanda. Í þeim efnum hafi starfsmenn stefnda alfarið fylgt fyrirsögn stefnanda sjálfs. Það sé aftur á móti fullt orsakasamband á milli afhendingar stefnanda á formgölluðum víxli til tryggingar fjárskuldbindingum hans hjá stefnda og meints tjóns hans.
Við munnlegan flutning málsins byggði lögmaður stefnda málsvörn sína sérstaklega á því að tjón stefnanda, sem til álita kæmi að gera stefnda ábyrgan fyrir, geti aldrei numið hærri fjárhæð en helmingi víxilfjárhæðarinnar. Vísaði lögmaðurinn í því sambandi til þess að samþykkjandi víxilsins og þar með endanlegur greiðandi hans hafi verið einkahlutafélag í eigu stefnanda og Aðalsteins Ómars Ásgeirssonar. Við uppgjör á milli þeirra hefði stefnandi borið ábyrgð á greiðslu víxilskuldarinnar til jafns við Aðalstein Ómar. Lögmaður stefnanda kvaðst líta svo á að hér væri um nýja málsástæðu að ræða og mótmælti henni sem of seint fram kominni.
IV.
Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að hann og Aðalsteinn Ómar Ásgeirsson hefðu á sínum tíma stofnað Útgerðarfélagið Marínu ehf. Félagið hafi gert út eitt skip. Hafi stefnandi lagt til fjármagn til reksturs félagsins með því að kaupa víxil að fjárhæð 27.500.000 krónur, sem Aðalsteinn Ómar hafi gefið út 7. maí 1999 en stefnandi samþykkt til greiðslu fyrir hönd útgerðarfélagsins 7. júní sama ár. Hafi fjármagn til kaupa á víxlinum komið frá Fjárvangi hf. og úr eignasafni stefnanda sem á þessum tíma hafi verið vistað þar. Það hafi síðar verið fært yfir til stefnda. Hefðu menn haft væntingar um það á þessum tíma að rekstur útgerðarfélagsins myndi ganga vel og að félaginu tækist að greiða víxilskuldina. Ekki hafi komið til álita að veðsetja skip félagsins fyrir víxilskuldinni þar sem það hefði þar með verið orðið yfirveðsett. Víxillinn hafi síðan nokkrum sinnum eftir þetta verið framlengdur eða endurnýjaður og þá yfirleitt með vitneskju stefnanda. Hann hafi á árunum 1999, 2000 og 2001 dvalið talsvert í Kína, en þar hafi félag í eigu hans, Dynjandi ehf., verið með skip í smíðum. Til þess að unnt yrði að framlengja eða endurnýja víxilskuldina þrátt fyrir fjarveru hans hafi hann í upphafi áritað víxileyðublað til greiðslu fyrir hönd Útgerðarfélagsins Marínu ehf. og skilið það eftir óútfyllt að öðru leyti í skjalaskáp á skrifstofu sinni í Reykjavík. Starfsstúlka á skrifstofu hans hafi síðan farið með víxileyðublaðið í þessum búning á skrifstofu Fjárvangs, þar sem það hafi verið gert að fullgildum víxli. Eftir þetta hafi þessi sami háttur verið hafður á við endurnýjun eða framlengingu víxilsins. Hið eina sem hafi breyst hafi falist í því að stefndi hafi komið í stað Fjárvangs hf. Að sögn stefnanda óskaði hann sérstaklega eftir því við stefnda þegar bú Útgerðarfélagsins Marínu ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta að víxilskuldin yrði innheimt hjá víxilútgefanda. Honum hafi aldrei verið boðið að taka sjálfur við innheimtu á víxlinum. Þá kvaðst hann fyrst hafa fengið um það vitneskju að síðasti endurnýjunarvíxillinn væri haldinn formgalla þegar innheimta á honum hafi verið dregin til baka. Loks fullyrti stefnandi að ábyrgð á greiðslu þessarar víxilskuldar hafi alfarið verið í höndum Aðalsteins Ómars Ásgeirssonar. Stefnandi hafi sjálfur einn verið ábyrgur fyrir öðrum sambærilegum fjárskuldbindingum sem stofnað hafi verið til vegna reksturs útgerðarfélags þeirra.
Á meðal gagna málsins er skjal, þar sem meðal annars er lýst tilurð þeirrar víxilskuldar sem málið snýr að. Stafar sú lýsing frá Jökli Úlfssyni, sem var starfsmaður Fjárvangs hf. á sínum tíma og hafði með verðbréfasafn stefnanda að gera þar og síðar hjá stefnda eftir að hann hóf þar störf vorið 2000. Í skjalinu segir svo meðal annars: „Forsaga málsins er sú að Aðalbjörn Jóakimsson var í viðskiptum hjá Fjárvangi frá því um vorið 1998. Ef ég man rétt þá spurði hann mig fyrst um sumarið það ár um 3ja mánaða víxilkjör óskráðra fyrirtækja. Ég upplýsti hann um algeng kjör á víxlum sem seldir voru á þessum tíma fyrir milligöngu Fjárvangs. Skömmu síðar tilkynnti hann mér að hann hyggðist kaupa víxil af Útgerðarfélaginu Marína ehf. sem hann átti í félagi við Aðalstein Ómar. Stuttu síðar [kom] hann með Aðalstein Ómar til mín í Fjárvang þar sem farið var yfir vaxtakjör, víxillinn útfylltur og undirritaður af þeim með Aðalstein Ómar sem útgefanda og Aðalbjörn sem ábyrgðarmann. Fjárvangur sá um að kaupa víxilinn f.h. Aðalbjörns og greiða andvirðið af fjárvörslureikningi Aðalbjörns. Útgerðarfélagið Marína ehf. greiddi aldrei inn á höfuðstól víxilsins og ef ég man rétt heldur ekki vexti. Víxillinn var alltaf framlengdur á 3ja til 6 mánaða fresti m.v. kjör óskráðra fyrirtækja á svokölluðum gráa markaði. Starfsfólk Fjárvangs og síðar SPH sá um að reikna út vexti og fylla út víxileyðublöð. Við hverja framlengingu var ávallt gefinn út nýr víxill, samþykktur af Útg. Marínu ehf., útgefinn af Aðalsteini Ómari með Aðalbirni sem ábyrgðarmanni.“ Fyrir dómi staðfesti Jökull að hér sé réttilega frá greint. Þá kom fram hjá honum að stefnanda hafi verið gert að bæta tryggingastöðu sína hjá stefnda vegna verðfalls á verðbréfum sem tilheyrt hafi eignasafni hans og að það hafi hann gert með því að leggja fram víxil að fjárhæð 35.000.000 króna sem hann hafi sjálfur gefið út og samþykkt til greiðslu fyrir hönd Dynjanda ehf.
Í tengslum við gerð fjárvörslusamningsins, sem málsaðilar gerðu sín í milli 2. maí 2000, voru verðbréf sem stefnandi þá átti og verið höfðu í vörslu Fjárvangs hf. flutt yfir til stefnda. Óumdeilt er að þar á meðal hafi verið víxill að fjárhæð 27.984.000 krónur, útgefinn 8. mars 2000 af Aðalsteini Ómari Ásgeirssyni, en samþykktur til greiðslu 8. júlí sama ár af stefnanda fyrir hönd Útgerðarfélagsins Marínu ehf. Er ekki annað komið fram í málinu en að til þessarar víxilskuldar hafi upphaflega verið stofnað með þeim víxli sem Aðalsteinn Ómar gaf út 7. maí 1999 og getið er um hér að framan. Af vitnisburði Jökuls Úlfssonar við aðalmeðferð málsins verður ekki annað ráðið en að hann hafi litið svo á að framangreindur víxill með gjalddaga 8. júlí 2000 hafi tilheyrt því eignasafni sem fjárvörslusamningur aðila hafi tekið til. Þá er í sjálfu sér ekki um það deilt að sá víxill hafi verið endurnýjaður með víxli útgefnum 3. október 2000 að fjárhæð 32.696.058 krónur með gjalddaga 3. apríl 2001, sem aftur var endurnýjaður með víxli sömu fjárhæðar með tilgreindan útgáfudag 5. apríl 2001 en gjalddaga 3. október sama ár. Þá renna yfirlit sem eru á meðal gagna málsins og stafa frá stefnda ennfremur stoðum undir þá niðurstöðu að fjárvörslusamningurinn hafi tekið til þessara víxla, en þar er víxill að fjárhæð 32.696.058 krónur tilgreindur sem hluti af eignasafni „fjárvörsluaðila“. Er fyrra yfirlitið dagsett 8. febrúar 2001 og þar getið víxils með gjalddaga 3. apríl 2001, en hið seinna er frá 2. júlí 2001 og víxill með gjalddaga 3. október 2001 tilgreindur á því.
Að framangreindu virtu er fallist á það með stefnanda að víxillinn, sem bótakrafa hans í málinu styðst við, hafi tilheyrt því eignasafni hans sem fjárvörslusamningur aðila 2. maí 2000 tók til. Er með þessu meðal annars hafnað þeirri málsvörn stefnda að víxillinn hafi verið afhentur stefnda sem frekari trygging fyrir fjárskuldbindingum stefnanda gagnvart stefnda, en þessi málsvörn fer alfarið í bága við þann vitnisburði Jökuls Úlfssonar, sem var eins og fram er komið starfsmaður stefnda, að hin aukna trygging hafi falist í framangreindum tryggingarvíxli sem stefnandi samþykkti til greiðslu fyrir hönd Dynjanda ehf. Fær vitnisburður Þórs Gunnarssonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra hjá stefnda, engu breytt varðandi þetta.
Í 2. gr. fjárvörslusamnings var kveðið á um það, svo sem áður greinir, að stefndi skyldi annast innheimtu afborgana, vaxta og verðbóta af verðbréfum sem samningurinn tók til, þar á meðal lögfræðilegar innheimtuaðgerðir ef stefndi teldi þörf á þeim. Af þessu ákvæði og stöðu aðila að öðru leyti verður ekki dregin önnur ályktun en sú að á stefnda hafi hvílt samningsbundin og víðtæk skylda til að gæta þess að kröfuréttindi samkvæmt verðbréfum sem féllu undir samninginn töpuðust ekki og að gripið yrði eftir atvikum til viðeigandi aðgerða að lögum til að koma í veg fyrir það. Væri um víxil að ræða hvíldi þannig skylda á stefnda samkvæmt þessu samningsákvæði til að sjá til þess að víxilréttur glataðist ekki.
Svo sem rakið hefur verið var ætlunin sú að víxill að fjárhæð 32.696.058 krónur, sem stefnandi samþykkti fyrir hönd Útgerðarfélagsins Marínu ehf. til greiðslu 3. október 2001, kæmi í stað víxilsins sem bótakrafa stefnanda styðst við. Við frágang þess víxileyðublaðs voru hins vegar gerð þau mistök að undirskrift þess aðila, sem gefa átti víxilinn út, vantaði, sbr. 8. töluliður 1. gr. víxillaga nr. 93/1933. Um fullgildan víxil var því ekki að ræða. Þetta víxileyðublað fékk stefndi í hendur og verður að líta svo á að það hafi í þessari mynd og eigi síðar en í apríl 2001 tilheyrt því eignasafni sem fjárvörslusamningurinn tók til. Þótt ganga verði út frá því að stefnandi hafi fyrir sitt leyti samþykkt þessa fyrirhugaða endurnýjun á víxilskuldinni verður engu slegið föstu um það að stefndi hafi móttekið víxileyðublaðið frá stefnanda í þessum endanlega búningi. Þá liggur ekki fyrir að stefnanda hafi verið um það kunnugt í tíma að ekki væri um fullgildan víxil að ræða. Hvað sem þessu annars líður var öll umsýsla vegna þessarar víxilskuldar í höndum stefnda og á grundvelli fjárvörslusamnings aðila. Bar honum samkvæmt þessu og í samræmi við það sem að framan er rakið að gæta þess að víxilréttur á hendur víxilskuldurum glataðist ekki og tryggja sér eftir atvikum óræka sönnun fyrir því ef stefnandi sem víxilhafi hefði uppi óskir þess efnis að ekki yrði í innheimtuaðgerðir ráðist. Engin slík sönnun liggur fyrir í málinu.
Að öllu framansögðu virtu verður stefndi að bera hallann af því að fullnusturéttur á hendur Aðalsteini Ómari Ásgeirssyni, útgefanda framangreinds víxils með gjalddaga 3. apríl 2001, féll niður. Verður að rekja þetta til mistaka af hálfu starfsmanna stefnda og að stefndi hafi með þeim bakað sér skyldu til skaðabóta vegna þess tjóns sem af þessu leiddi fyrir stefnanda. Ekki er um það ágreiningur að kröfugerð á hendur samþykkjanda víxlanna hefði ekki borið árangur. Þá hefur stefndi engar sönnur fært fyrir þeirri staðhæfingu sinni að Aðalsteinn Ómar hafi á þeim tíma sem hér skiptir máli ekki verið borgunarmaður fyrir víxilkröfunni í heild sinni.
Stefndi teflir fram þeirri málsástæðu til stuðnings sýknukröfu sinni að stefnandi hafi ekki fullreynt að fá víxilskuldina greidda hjá víxilútgefanda á grundvelli 74. gr. víxillaga og reyna með því að takmarka tjón sitt. Á stefnda hvíldi samkvæmt fjárvörslusamningi aðila skylda til að grípa til viðeigandi aðgerða þannig að tryggt yrði að leita mætti fullnustu hjá víxilskuldurum á grundvelli víxilréttar. Þessari skyldu sinni brást stefndi, svo sem að framan er rakið. Í málinu er ekkert fram komið sem virt verður á þann veg að útgefandi umrædds víxils hafi verið skuldbundinn stefnanda nema samkvæmt honum, en þar með verður ekki séð að stefnandi hafi haft frekari úrræði en á grundvelli víxilréttar að innheimta kröfuna. Samkvæmt þessu kemur framangreind málsástæða ekki í veg fyrir að lagt verði til grundvallar dómi að tjón stefnanda nemi nafnvirði víxilsins, 32.696.058 krónum. Má til hliðsjónar um þetta vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 61/1993, sem birtur er í dómasafni réttarins 1995 á bls. 286.
Þær varnir stefnda, sem fá komist að í málinu, taka ekki til annarra atriða en þeirra sem hér hefur verið tekin afstaða til.
Samkvæmt framansögðu verður bótakrafa stefnanda að fullu tekin til greina. Krafa stefnanda um dráttarvexti hefur ekki sætt sérstökum andmælum. Um vexti fer því svo sem í dómsorði greinir.
Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, greiði stefnanda, Aðalbirni Jóakimssyni, 32.696.058 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. október 2001 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.