Hæstiréttur íslands

Mál nr. 60/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn


         

Mánudaginn 25. febrúar 2008.

Nr. 60/2008.

Ákæruvaldið

(Stefán Eiríksson, lögreglustjóri)

gegn

X

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA–dómstóllinn.

Hafnað var kröfu X um að í refsimáli, sem Á hafði höfðað gegn honum vegna ætlaðra brota hans gegn banni við áfengisauglýsingum, yrði leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. janúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að ofangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hin kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Í hinum kærða úrskurði eru greindar þær spurningar sem þar var fallist á að leggja fyrir EFTA-dómstólinn.

Í refsimáli því, sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðila og til meðferðar er í héraðsdómi, eru varnaraðila gefin að sök nánar tilgreind brot á 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, með því að hafa sem framkvæmdastjóri nafngreinds fyrirtækis látið birta tvær auglýsingar á áfengum bjór í tilgreindu tímariti.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 274/2006, sem kveðinn var upp 24. maí 2006, hafnaði rétturinn beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits í máli er varðaði brot á nefndri 20. gr. áfengislaga. Var í dóminum meðal annars vísað til þess að úrlausnarefni málsins snerist um gildi og skýringu á nefndri lagagrein og hvort hún stæðist ákvæði stjórnarskrár, en EFTA-dómstóllinn myndi ekki fjalla um slíka lagaskýringu.

Þá liggur fyrir ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í máli nr. E-4/04 frá 25. febrúar 2005 varðandi sambærilegt ákvæði norskra laga um bann við áfengisauglýsingum. Verður ekki annað séð en að í álitinu sé fjallað um og komist að niðurstöðu um þau álitamál, sem varnaraðili hefur í beiðni sinni óskað svara við, að því marki sem EFTA-dómstóllinn taldi innan valdheimilda sinna.

Með vísan til framangreinds verða ekki talin efni til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli því sem til úrlausnar er fyrir héraðsdómi og verður kröfum varnaraðila því hafnað.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, X, um að leitað verði álits EFTA-dómstólsins um þau atriði er nánar greinir í beiðni hans.

 

        

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2008.

Með ákæru, útgefinni 25. september 2007, höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu opinbert mál á hendur ákærða, „X, [kt. og heimilisfang], fyrir áfengislagabrot, með því að hafa sem framkvæmdastjóri A ehf., [kt. og heimilisfang], látið birta eftirgreindar auglýsingar í tímaritinu E á áfengum bjór á árinu 2006.

1.                 Auglýsing er birtist í blaði nr. 3 á bls. 26 útgefnu 20. janúar, bjór af gerðinni B.

2.                 Auglýsing er birtist í blaði nr. 12 á bls. 57 útgefnu 24. mars, bjór af gerðinni C og „D“.

Telst þetta varða við 20. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75, 1998, sbr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57, 1956.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Við þingfestingu málsins, 22. október sl., kvað ákærði háttsemi sinni rétt lýst í ákæruskjalinu en neitaði að hún væri refsiverð.  Í þinghaldi 28. nóvember sl. krafðist verjandi ákærða þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA dómstólsins um álitaefni í málinu.  Þessu var mótmælt af hálfu ákæruvaldsins í þinghaldi 6. desember sl. og var málið flutt um þennan þátt þess 16. janúar sl. og hann tekinn til úrskurðar.

Ákærði krefst þess að dómurinn leiti ráðgefandi álits EFTA dómstólsins við eftirfarandi spurningu:

„1.  Samrýmist það túlkun á 11., 18., sbr. bókun 47. og 36. gr. EES samningsins að í landslögum ríkis sem á aðild að samningnum sé kveðið á um bann við öllum áfengisauglýsingum?

Með banni við öllum áfengisauglýsingum er átt við bann við hvers konar tilkynningum til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru tegundir af áfengi, þ.e. hvers konar neysluhæfum vökvum sem eru að rúmmáli meira en 2,25% af hreinum vínanda eða efnum sem leysa má í vökva og hafa nefndan áfengisstyrkleika, eða atriði tengd áfengisneyslu.

2.          Ef svar við spurningu nr. 1 er neikvætt, er spurt hvort hægt sé að réttlæta

algjört bann við áfengisauglýsingum með vísan til 13. gr. og/eða 33. gr. EES samningsins, þ.á m. með vísan til heilbrigðissjónarmiða?

3.        Ef svar við spurningu nr. 2 er jákvætt, er spurt hvort það samrýmist meðalhófsreglu EES samningsins að banna allar áfengisauglýsingar með vísan til heilbrigðissjónarmiða án þess að leggja mat á það hvort hægt sé að ná markmiðum slíks banns með vægara móti, s.s. með því að greina á milli þess hversu sterkt áfengi um er að ræða?“

Þá krafðist ákærði málskostnaðar í þessum þætti málsins.          

Ákærði byggir kröfu sína varðandi liði 1 og 2 á því að í ráðgefandi álitum EFTA dómstólsins og dómum Evrópudómstólsins komi fram að bann aðildarríkja við áfengisauglýsingum brjóti í bága við ákvæði EES samningsins, einkum 11. og 36. gr.  Í álitunum hafi þó komið fram að réttlæta megi bann við áfengisauglýsingum með vísan til sjónarmiða um líf og heilsu almennings, sbr. 13. og 33. gr. EES samningsins.  Báðir dómstólarnir hafi þó undirstrikað að slíkar undantekningar verði að vera í samræmi við meðalhófsreglu samningsins.  Í áfengislögunum er lagt strangt bann við auglýsingum á áfengi og þær skilgreindar víðtækt.  Hvorugur dómstóllinn hafi hins vegar svarað þeirri spurningu hvort hægt sé að réttlæta svo víðtækt bann við áfengisauglýsingum á málefnalegum forsendum svo sem með vísan til heilbrigðissjónarmiða.

Kröfu sína samkvæmt 3. lið byggir ákærði á því að nauðsynlegt sé að fá ráðgefandi álit á því hvort hægt sé að ná markmiðum þeim, sem stefnt er að með banni við auglýsingum á áfengi, með vægara móti.  Bendir ákærði á að máli geti skipt hversu sterkt áfengi sé auglýst.

Af hálfu lögreglustjóra var því mótmælt að leitað skyldi ráðgefandi álits EFTA dómstólsins.  Byggja mótmælin á því að álit dómstólsins hafi ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins sem snúist um bann við áfengisauglýsingum samkvæmt áfengislögunum.  Túlkun þeirra laga eigi undir íslenska dómstóla.  Vísar lögreglustjóri til fordæma Hæstaréttar máli sínu til stuðnings.

Með framangreindum spurningum freistar ákærði þess að fá álit EFTA dómstólsins á því hvort bann áfengislaganna við áfengisauglýsingum samrýmist tilteknum ákvæðum EES samningsins.  Einnig hvort bannið samrýmist meðalhófsreglu samningsins.  Bendir hann á að þeirri spurningu hafi ekki verið svarað hvort markmiðum með banninu megi ekki ná með vægara móti.  Hefur ákærði hér einkum í huga hvort leggja eigi að jöfnu auglýsingar á sterku áfengi og bjór.  Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið getur dómari leitað ráðgefandi álits dómstólsins þegar taka þarf afstöðu til skýringar á samningnum.  Þannig stendur á í þessu máli og verður því orðið við kröfu ákærða.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Leita skal ráðgefandi álits EFTA dómstólsins varðandi framangreind álitaefni.