Hæstiréttur íslands

Mál nr. 231/2008


Lykilorð

  • Aðild
  • Kjarasamningur
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Fimmtudaginn 16. október 2008.

Nr. 231/2008.

Brim hf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

gegn

Félagi skipstjórnarmanna

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Aðild. Kjarasamningur. Frávísun frá héraðsdómi.

F krafði B um greiðslu vegna svonefndra vinnuréttargjalda sem haldið var fram að draga hefði átt af launum tiltekinna ófélagsbundinna skipstjórnarmanna sem störfuðu hjá B. Var þessum gjöldum ætlað að standa straum af kostnaði við gerð kjarasamninga um lágmarkskjör með vísan til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. B byggði á því að umræddir skipstjórnarmenn hefðu verið ófélagsbundnir og ekki viljað greiða framlög til F og hefði B því verið óheimilt að draga gjöldin af þeim þar sem það hefði farið í bága við ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt málatilbúnaði B varð að miða við að afstaða umræddra skipstjórnarmanna væri byggð á því að þeir töldu sér ekki skylt að greiða vinnuréttindagjaldið þar sem álagning þess bryti í bága við stjórnarskrá. Talið var að skylda B, til að draga umkrafin gjöld af umræddum skipstjórnarmönnum, væri háð því að greiðsluskylda ófélagsbundinna skipstjórnarmanna sé að lögum stjórnskipulega gild. Þar sem skipstjórnarmönnunum sjálfum hefði ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna var niðurstaða Hæstaréttar sú að ekki yrði lagður dómur á málið  og því vísað frá dómi.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2008. Hann krefst aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að því frágengnu krefst hann þess að krafa stefnda verði lækkuð og að hvor aðili verði látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi, en áfrýjanda dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Hinn 16. september 2004 sagði skipstjóri á Sólbaki EA 7 sig skriflega úr stéttarfélagi sínu, Félagi skipstjórnarmanna. Óumdeilt er að tveir aðrir skipstjórnarmenn skipsins sögðu sig munnlega úr félaginu beint í kjölfarið. Daginn eftir mun áfrýjandi hafa stofnað Útgerðarfélagið Sólbak ehf., sem var ekki aðili að Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Hinn 20. september sama ár leigði áfrýjandi hinu nýstofnaða félagi skip sitt Sólbak EA 7. Útgerðarfélagið Sólabakur ehf. mun í framhaldi af því hafa gert ráðningarsamninga við skipverja. Hinn 25. ágúst 2006 sendi lögmaður stefnda áfrýjanda innheimtubréf vegna ógreiddra vinnuréttindagjalda af ófélagsbundnum skipstjórnar­mönnum í þjónustu áfrýjanda. Eftir nánari bréfaskipti á milli aðila sendi lögmaður stefnda áfrýjanda annað innheimtubréf vegna gjaldanna 18. desember 2006. Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. mun hafa verið sameinað áfrýjanda 8. júní 2006.

Krafa stefnda, sem tekin var til greina í hinum áfrýjaða dómi, varðar vangreidd vinnuréttindagjöld vegna fyrrgreindra skipstjórnarmanna á skipunum Sólbaki EA 7 og Harðbaki EA 3 á tímabilinu 20. september 2004 til 28. febrúar 2007. Kröfu sína reisir stefndi á grein 1.34 í kjarasamningi Farmanna og fiskimannasambands Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna 30. október 2004 og sambærilegu ákvæði eldri kjarasamnings. Þá byggir hann á 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en þar segir að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fari í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá. Hann vísar einnig til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, en þar segir að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, skuli vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því, er samningur tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli vera ógildir. Stefndi byggir á því að fyrrnefnd lagaákvæði hafi verið sett af löggjafanum til verndar launþegum í því skyni að tryggja þeim lágmarkskjör, en í tilvitnuðum lögum sé aðilum vinnumarkaðarins hér á landi falið að semja um slík kjör í frjálsum samningum sín á milli. Stefndi heldur því fram að útgerðarmönnum sé skylt að halda eftir vinnuréttindagjaldi samkvæmt grein 1.34 í kjarasamningi Farmanna og fiskimanna­sambands Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna, en gjaldinu sé ætlað að standa straum af kostnaði við gerð kjarasamninga um lágmarkskjör. Á grundvelli þessara sjónarmiða sé svo mælt fyrir í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 að atvinnurekendum sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina.

Krafa áfrýjanda um að vísa beri málinu frá dómi er reist á því að aðild þeirra skipstjórnarmanna, sem haldið er fram að draga hafa borið vinnuréttindagjald af, sé nauðsynleg svo dómur verði á málið lagður en þeir hafi sagt sig úr stefnda og andmælt því að umkrafin gjöld væru af þeim dregin og hafi verið orðið við því þar sem ekki hafi verið talin lagaskilyrði til þess, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Krafa áfrýjanda um sýknu er byggð á því að umræddir skipstjórnarmenn hafi ekki verið félagsmenn hjá stefnda á því tímabili sem um ræðir. Geti stefndi þegar af þeirri ástæðu ekki krafist umræddra gjalda. Að því er varðar tilvitnaðan kjarasamning og ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 telur áfrýjandi að skýra beri þessi ákvæði svo að ekki sé hægt að krefjast vinnuréttindagjalda af umræddum skipstjórnarmönnum í félag sem þeir eigi ekki aðild að vegna ákvæða 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Loks er því mótmælt að vinnuréttindagjald teljist iðgjald í skilningi 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980.

II

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 er mælt fyrir um skyldu atvinnurekanda til að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum sem kjarasamningar greina. Stefndi heldur því fram að hér sé mælt fyrir um sjálfstæða skilaskyldu áfrýjanda á umræddu iðgjaldi og þurfi því ekki að stefna skipstjórnarmönnum þeim, sem krafist er að vinnuréttindagjöldin séu dregin af. Vísar hann til dóms Hæstaréttar í máli nr. 12/2005, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 285, máli sínu til stuðnings.

Ekki verður fallist á með stefnda að tilvitnaður dómur teljist hafa fordæmisgildi fyrir úrlausn þessa máls þar sem launþeginn í því máli var félagsmaður í stéttarfélagi og hafði ekki andmælt greiðsluskyldu sinni. Þá hafði launagreiðandinn dregið umkrafin gjöld af honum. Deilan sem þar var til úrlausnar laut að því til hvaða stéttarfélags skila ætti afdregnum gjöldum. Í máli því, sem hér er til úrlausnar, er óumdeilt að umræddir skipstjórnarmenn voru ekki félagsmenn í stefnda. Skilja verður málflutning áfrýjanda svo að þeir hafi andmælt því að umkrafin gjöld væru af þeim dregin og hafi verið fallist á andmælin þar sem ekki hafi verið talin lagaskilyrði til þess að draga gjöldin af þeim. Í þessu máli er þess ekki krafist að félagsgjöld verði dregin af umræddum skipstjórnarmönnum heldur svonefnd vinnuréttindagjöld, sem stefndi heldur fram að heimilt sé að leggja á ófélagsbundna menn, en þeim sé ætlað að standa straum af kostnaði við gerð kjarasamninga um lágmarkskjör sem þeir njóti góðs af vegna ákvæða 1. gr. laga nr. 55/1980.

Áfrýjandi hefur áréttað að kjarni málsins sé sá að þar sem umræddir skipstjórnarmenn séu ófélagsbundnir og vilji ekki greiða framlög til stefnda hafi honum verið óheimilt að draga gjöldin af þeim þar sem það hafi farið í bága við ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Óumdeilt er að skipstjórnarmenn þeir, sem áfrýjandi krefur stefnda um greiðslu vinnuréttindagjalda fyrir, eru ófélagsbundnir. Greiðsluskylda þeirra byggist því ekki á samningi. Stefndi ber fyrir sig að greiðsluskylda þeirra byggist á lögum nr. 55/1980. Samkvæmt því sem fram er komið í málinu verður að miða við að afstaða umræddra skipstjórnarmanna sé á því reist að þeir telji sér ekki skylt að greiða vinnuréttindagjaldið þar sem álagning þess brjóti í bága við stjórnarskrá. Eins og mál þetta er vaxið verður að telja að skylda áfrýjanda, til að draga umkrafin gjöld af umræddum skipstjórnarmönnum, sé háð því að greiðsluskylda ófélagsbundinna skipstjórnarmanna sé að lögum stjórnskipulega gild. Því verður ekki felldur dómur á mál þetta án þess að fyrrnefndum skipstjórnarmönnum sé sjálfum gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna. Þar sem stefndi hefur ekki beint málssókn sinni að þeim verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá héraðsdómi.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Félag skipstjórnarmanna, greiði áfrýjanda, Brimi hf., samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. janúar 2008, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Félagi skipstjórnarmanna, kt. 680104-2550, Borgartúni 18, Reykjavík, á hendur Brimi hf., kt. 410998-2629, Fiskitanga 4, Akureyri, er sótt var þing af hálfu aðila er málið var þingfest 20. mars 2007.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 674.400 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2006 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.  Til vara að krafa stefnanda verði lækkuð og hvor aðili málsins látinn bera sinn kostnað af málinu.

Upplýst er að Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. var sameinað stefnda Brimi hf., hinn 8. júní 2006, og við sameininguna tók Brim hf. við öllum réttindum og skyldum Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf., sbr. XIV. kafla laga nr. 138/1994.

Af hálfu stefnanda er greint frá málsatvikum og málsástæðum á þann veg að stefndi eigi og geri út fiskiskipið b.v. Sólbak EA – 7 (2262) frá 9. júní 2006, en frá 20. september 2004 hafi skipið verið leigt Útgerðarfélaginu Sólbak ehf., sem var dótturfélag stefnda.  Hinn 8. júní 2006 hafi Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. verið sameinað stefnda.  Þá er greint frá því að stefndi geri einnig út b.v. Harðbak EA – 3 (1412).

Byggt er á því að krafa stefnanda sé vangreitt vinnuréttindagjald af nafngreindum skipstjórnarmönnum þessara tveggja skipa í eigu stefnda tímabilið 20. september 2004 til 28. febrúar 2007.  Ekki skipti máli þó umræddir skipstjórnarmenn séu ekki félagsmenn í stéttarfélagi stefnanda.  Bent er á kjarasamninga milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands [FFSÍ] og Landssambands íslenskra útvegsmanna [LÍÚ].  Í því sambandi er vísað til 1. mgr. greinar 1.34 í kjarasamningi FFSÍ og LÍÚ en þar segir: „Útgerðarmönnum er skylt að halda eftir af kaupi yfirmanna er hjá þeim starfa fjárhæð, sem nemur ógreiddu félags- eða vinnuréttindagjaldi til viðkomandi stéttarfélags innan FFSÍ.“  Þá segi í 2. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980: „Atvinnurekanda er skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.“  Með orðunum viðkomandi stéttarfélag sé í þessu tilviki átt við stefnanda, Félag skipstjórnarmanna, enda væri starfað eftir kjarasamningi félagsins og ekki um annan kjarasamning að ræða.

Af hálfu stefnda er bent á að Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. hafi verið sameinað stefnda, Brimi hf., hinn 8. júní 2006, en við þá sameiningu hafi Brim hf. tekið við öllum réttindum skyldum Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf.  Þá er vísað til þess að í málavaxtalýsingu stefnanda sé ekki vikið að því að Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. var ekki aðili að LÍÚ né Samtökum atvinnulífsins enda hafi félaginu ekki verið skylt að vera aðili að þessum samtökum.

Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að félagið eigi ekki aðild að málinu.  Ágreiningslaust sé að þeir skipstjórnar- og stýrimenn er hér um ræðir hafi ekki verið félagsmenn í stéttarfélagi stefnanda á tímabilinu 20. september 2004 til 28. febrúar 2007.  Af texta 2. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 verði ekki ráðið að stefnda beri að halda eftir iðgjaldi til stéttarfélags nema viðkomandi starfsmaður sé félagsmaður í stéttarfélaginu.  Vísað er til þess að skýra eigi ákv. 2. mgr. 6. gr. laganna í ljósi 1. ml. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 12. gr. laga nr. 97/1995.  Með öðrum orðum eigi launamaður stjórnarskrárvarinn rétt til þess að ákveða hvort hann er félagsmaður í stéttarfélagi eða ekki.  Kjarasamningur geti ekki breytt því.  Marklaust sé að ákvarða skyldu til að greiða félagsgjalds án aðildar viðkomandi launamanns að samningnum og án lagaheimildar, hvort sem það gjald kallast atvinnuréttargjald eða vinnuréttindagjald.  Réttur stéttarfélags til þess að krefja ófélagsbundna atvinnurekendur um greiðslu sé sérstaklega tilgreindur í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 og varði greiðslur í sjúkrasjóði og orlofssjóði stéttarfélaga.  Engar slíkar undanþágur taki til ófélagsbundinna launamanna.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að gögn málsins staðfesti hvorki né bendi ótvírætt til þess að fullyrðing stefnanda í þá veru að kjarasamningsaðilar hafi samið fyrir einhverjum áratugum síðan að útgerðarmönnum væri ekki bara skylt að halda eftir og skila greiðslu félagsgjalda í Félag skipstjórnarmanna, heldur samið svo um, að útgerðarmönnum væri á sama hátt skylt að halda eftir og skila vinnuréttindagjaldi af ófélagsbundnum skipstjórnarmönnum að sömu fjárhæð og félagsgjaldið.

Verði ekki fallist á kröfu stefnda krefst stefndi til vara að dómkrafa stefnanda verði lækkuð í 201.400 kr.  Vísar stefndi í því sambandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 114/2004 frá 21. október 2004.  Samkvæmt þessum dómi eigi stéttarfélög kröfu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 á hendur öllum atvinnurekendum að þeir greiði iðgjöld, tæmandi talið, í sjúkrasjóði og orlofsjóði viðkomandi stéttarfélaga sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um hverju sinni í kjarasamningum.  Þann hluta kröfu stefnanda vegna tilgreindra starfsmanna Útgerðarfélagsins Sólbaks ehf., sbr. dskj. nr. 7, beri stefnda því ekki að greiða.

Guðjón Ármann Einarsson, framkvæmdastjóri stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Lögð voru fyrir Guðjón dskj. nr. 7 og nr. 10, en það eru skjöl sem lögð voru fram af hálfu stefnanda undir nafninu yfirlit stefnanda yfir vangreidd vinnuréttindagjöld.  Guðjón kvaðst hafa samið þessi skjöl.  Hann kvaðst einnig hafa sett saman aðra útreikninga, sbr. dskj. nr. 4 og nr. 9, en það hafi verið eldri útreikningar fyrir breytingu á skrásetningu á skipinu.  Fyrst hefði það bara verið Sólbakur, fyrirtækið, síðan hafi það verið fært undir Brim.  Þess vegna hefði þurft að gera reikninga upp á nýtt.

Lagt var fyrir Guðjón dskj. nr. 18, sem er form af ráðningarsamningi.  Hann kvaðst ekki kannast við þetta skjal.  Þá var lagt fyrir Guðjón dskj. nr. 26, sem er myndrit af inntökubeiðnum.  Guðjón kvaðst kannast við þá menn sem þar eftir óska að gerast félagar í Skipstjórafélagi Norðlendinga.  Þá var lagt fyrir Guðjón dskj. nr. 27, sem er úrsögn Jóhanns Gunnarssonar úr „Félagi Skipstjórnarmanna“.  Guðjón sagði að fleiri skriflegar úrsagnir hefðu ekki borist, aðrar úrsaganir hefðu borist munnlega.  Samband hefði verið haft við „okkur“, en það hefðu verið þeir þrír menn sem sögðu sig úr félaginu [dskj. nr. 26].  Hafi þeir sagt að þeim hefði verið gert af útgerðinni að segja sig úr félaginu ef þeir vildu starfa áfram á skipinu.

Lagt var fyrir Guðjón dskj. nr. 31, sem er myndrit af ráðningarsamningi Jóhanns Gunnarssonar við útgerðarfélagið Sólbak ehf., dags. 26. október 2004.  Guðjón kvaðst hafa séð þennan samning.  Hann kvaðst hafa skoðað hann og borið hann saman við kjarasamninginn.  Ráðningarsamningurinn væri í langflestum atriðum eins og kjara-samningurinn.  Guðjón tilgreindi nokkur atriði um frávik í því sambandi.

Vísað var aftur til dskj. nr. 7 og nr. 10. og spurt var hvernig fjárhæðir, er þar eru greindar, voru reiknaðar, en þar sé getið um „Viðmiðunarlaun pr. dag“.  Guðjón sagði að nákvæmlega hafi verið reiknað samkvæmt kjarasamningi.  Viðmiðunarlaunin væru byggð á meðalafla sambærilegra skipa, ekki hafi verið við annað að miða.  Upplýsingar væru um tekjur á sambærilegum skipum.  Upplýst væri á netinu hvað mikið var fiskað á Sólbaki EA 7 og Harðbaki EA 3 á þessum tíma.  Þá hefði legið fyrir hvað greitt var fyrir aflann.  Lágmarksverð væri lögbundið 1% af launum.  Síðan hefðu laun verið reiknuð með hefðbundnum hætti.

Lagt var fyrir Guðjón dskj. nr. 31, sem er myndrit af ráðningarsamningi Gunnars Þórarinssonar við útgerðarfélagið Sólbak ehf., dags. 12. október 2005.  Vísað var til þess að þar kæmi fram að Gunnar Þórarinsson væri í stéttarfélaginu Vélstjórafélag Íslands en hann [Guðjón] hefði haldið fram að mönnum hefði verið gert að fara úr Félagi Skipstjórnarmanna til þess að fá að starfa á skipinu.  Guðjón sagði að áður en þessi samningur var gerður hafi fyrsti samningur sem reynt var að gera við skipsverja fram hjá aðalkjarasamningi stéttarfélaganna verið á einu blaði, einblöðungi A 4.  Þegar þetta hefði ekki gengið þá hafi þetta meira og minna verið dregið til baka.  Sjómannasambandið hefði farið í málarekstur og í framhaldi af því hafi verið dregið til baka að mennirnir mættu ekki vera í stéttarfélögum.  Guðjón sagði að hann gerði ráð fyrir því að þessi samningur hefði verið gerður eftir það.

Ályktunarorð: Í 2. mgr. 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 greinir frá því að atvinnurekanda sé skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.  Þá segir í 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 að samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur séu ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.  Enn fremur er tiltekið í kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, grein 1.34, að útgerðarmönnum sé skylt að halda eftir af kaupi yfirmanna, er hjá þeim starfa, fjárhæð, sem nemi ógreiddu félags- eða vinnuréttindagjaldi til viðkomandi stéttarfélags innan FFSÍ [Farmanna- og fiskimannasambands Íslands].  Og í grein 1.40 í kjarasamningnum segir til áréttingar að sérsamningar útgerðarmanns við einstaka skipverja eða skipshafnir, sem fara í bága við samninginn, séu ógildir, enda hafi viðkomandi félag ekki samþykkt þá.

Af framangreindum ákvæðum í lögum og kjarasamningi verður að ætla að stefndi eigi aðild að málinu og jafnframt að ófélagsbundnum skipstjórnarmönnum beri að greiða umkrafið gjald til stefnanda sem ekki er tölulegur ágreiningur um.  Þá skiptir ekki máli þótt skipstjórnarmenn, sem hér um ræðir, hafi ekki verið í Félagi skipstjórnarmanna á tímabilinu 20. september 2004 til 28. febrúar 2007.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum og málskostnaði, allt eins og í dómsorði greinir.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, Félagi skipstjórnarmanna, 674.400 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2006 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.