Hæstiréttur íslands
Mál nr. 666/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 26. nóvember 2009. |
|
Nr. 666/2009. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (enginn) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.
X var ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið lögreglumann í andlitið, sem var að sinna skyldustarfi sínu. Héraðsdómur vísaði ákærunni frá dómi þar sem talið var að embætti lögreglustjórans á Eskifirði hafi verið vanhæft til rannsóknar málsins og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 13. nóvember 2009, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 13. nóvember 2009.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. nóvember 2009, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 5. október 2009, á hendur X, kt. [...],[...], „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laugardaginn 25. júlí 2009, að M, slegið A, lögreglumann, sem þar var að sinna skyldustörfum, í andlitið með flötum lófa.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Við þingfestingu málsins 3. nóvember sl. gerði dómari kunnugt að hugsanlega væru efnisannmarkar á rannsókn málsins sem leiða kynnu til frávísunar þess af sjálfsdáðum. Var málið tekið til úrskurðar 10. nóvember sl., eftir að fulltrúi ákæruvaldsins hafði tjáð sig um formhlið málsins.
Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglustjórans á Eskifirði var lögregla kölluð að M að kvöldi laugardagsins 25. júlí sl., að beiðni sambýliskonu ákærða. Á vettvang fóru tveir lögreglumenn og er ákærða gefið að sök að hafa slegið annan þeirra með flötum lófa í andlit. Hinn lögreglumaðurinn ritaði frumskýrslu um málið. Ákærði var handtekinn og vistaður í fangageymslu til morguns, en þá var tekin skýrsla af honum af varðstjóra á lögreglustöðinni á [...]. Í úrdrætti úr hljóðritaðri skýrslu ákærða hjá lögreglu er haft eftir honum að hann kalli þetta ekki „löðrung“ sem hann hafi veitt lögreglumanninum A, heldur megi fremur lýsa þessu sem klappi á kinn, en ákærði hafi einungis verið að sýna lögreglumanninum hvað hann hafi gert við konuna sína. Frekari rannsókn fór ekki fram og var málið að svo búnu sent ríkissaksóknara, sem tók ákvörðun um saksókn, gaf út ákæru og fól lögreglustjóranum á Seyðisfirði að fara með málið af ákæruvaldsins hálfu fyrir dómi.
Samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, skal dómari, eftir að ákæra hefur verið gefin út, vísa máli frá dómi, annað hvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu aðila, ef hann telur að ákærandi hafi verið vanhæfur til að höfða málið eða lögreglustjóri vanhæfur til að rannsaka það. Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 mega lögreglustjórar og aðrir þeir sem fara með lögregluvald ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum, en starfsmenn þess lögreglustjóra, sem vanhæfur er, geta þó rannsakað mál undir stjórn annars lögreglustjóra nema þeir séu sjálfir vanhæfir til að fara með málið samkvæmt stjórnsýslulögum. Þá er í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 kveðið á um skyldu þeirra sem fara með rannsókn sakamáls til að gæta hlutlægni.
Í dómi Hæstaréttar frá 11. janúar 2002 í máli nr. 2/2002 féllst rétturinn ekki á að þau atvik ein að háttsemi ákærða, sem ákærður var fyrir brot á lögreglusamþykkt, hafi beinst að undirmönnum lögreglustjórans í Reykjavík eða þeirri bifreið, sem þeir óku í umrætt sinn, gætu valdið því að lögreglustjórinn yrði með réttu talinn vanhæfur til meðferðar málsins. Í dóminum var tekið fram að ákærða væri ekki gefið að sök að hafa brotið gegn ákvæðum laga, sem veiti lögreglumönnum sérstaka réttarvernd sem opinberum starfsmönnum. Niðurstaða réttarins var þó að úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins var staðfestur, en á öðrum grundvelli.
Í dómi Hæstaréttar frá 26. mars 2009 í máli nr. 581/2008, var um að ræða ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og var rannsókn málsins í höndum sama lögreglustjóraembættis og lögreglumaður sá sem ætlað brot beindist að starfaði hjá. Rétturinn taldi, eðli málsins samkvæmt og í ljósi þeirrar meginreglu að hlutlægni skuli gætt við rannsókn sakamála, sbr. nú 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, aðfinnsluvert að lögreglurannsókn málsins hefði ekki verið falin öðru embætti. Þar sem málsatvik þóttu einföld og bæði lögreglumenn og vitni höfðu gefið skýrslu fyrir dómi þóttu þessir ágallar á rannsókn málsins þó ekki eiga að varða frávísun frá héraðsdómi.
Í máli því sem hér er til umfjöllunar er, líkt og í máli því sem til umfjöllunar var í dómi Hæstaréttar nr. 581/2008, ákært fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga, ákvæði sem veitir opinberum starfsmönnum, þ.á m. lögreglumönnum, sérstaka réttarvernd. Líkt og í fyrrgreindu máli fór rannsókn þessa máls fram undir stjórn sama lögreglustjóra og ætlaður brotaþoli starfaði fyrir og var rannsóknin í höndum samstarfsmanna hans. Málin eiga það einnig sameiginlegt að við rannsókn þeirra var ekki tekin skýrsla af ætluðum brotaþola, viðkomandi lögreglumanni. Verður þó að telja að framburður ákærða hjá lögreglu í því máli sem hér er til umfjöllunar hafi gefið fullt tilefni til þess að það yrði gert.
Ekkert liggur fyrir um að lögreglumenn þeir sem komu að rannsókn málsins hafi í reynd litið vilhallt á málið. Dómurinn telur engu síður að þegar til rannsóknar er brot af því tagi sem hér um ræðir, kunni óhlutdrægni þeirra lögreglumanna sem að rannsókn koma að vera dregin í efa, sérstaklega þegar horft er til þess að í hlut á fámennt lögreglustjóraembætti. Er það mat dómsins að fyrir hendi hafi verið aðstæður sem til þess hafi verið fallnar að óhlutdrægni starfsmanna embættis lögreglustjórans á Eskifirði yrði með réttu dregin í efa, sbr. 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga. Hafi starfsmenn þess embættis því ekki mátt rannsaka málið heldur hafi borið að koma stjórn rannsóknar þess í hendur öðrum lögreglustjóra, sbr. 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga. Skal hér einnig vísað til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 581/2008, en sá dómur verður ekki skilinn öðru vísi en svo að rétturinn hafi talið embætti viðkomandi lögreglustjóra vanhæft til rannsóknar málsins af þeirri ástæðu einni að ætlaður brotaþoli var starfsmaður þess.
Málsatvik í því máli sem hér er til umfjöllunar eru í sjálfu sér einföld, líkt og í máli því sem til umfjöllunar var í dómi Hæstaréttar í máli nr. 581/2008. Dómurinn telur hins vegar ekki verða hjá því litið að átalið var í dómi Hæstaréttar að lögreglurannsókn málsins skyldi ekki falin öðru embætti. Þótt ekki hafi verið talin ástæða til að vísa málinu frá héraðsdómi verður að líta til þess að aðstaða Hæstaréttar til að taka afstöðu til þess hvort ómerkja skuli niðurstöðu málsmeðferðar sem þegar hefur farið fram fyrir dómi er önnur en héraðsdómara þar sem málsmeðferð fyrir dómi hefur enn ekki farið fram.
Þá telur dómurinn að líta verði til þess að þegar atvik þess máls sem til umfjöllunar var í dómi Hæstaréttar í máli nr. 581/2008 áttu sér stað, og rannsókn þess og málsmeðferð fyrir héraðsdómi fór fram, höfðu ekki tekið gildi áður rakin ákvæði 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga, þar sem sérstaklega er kveðið á um vanhæfi lögreglustjóra og afleiðingar þess. Ennfremur höfðu ný lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, ekki tekið gildi, en í 5. mgr. 26. gr. þeirra laga er nú sérstaklega kveðið á um að vísa skuli máli frá dómi ef dómari telur að lögreglustjóri hafi verið vanhæfur til að rannsaka mál og var með því breyting gerð frá orðalagi samsvarandi ákvæðis 3. mgr. 30. gr. eldri laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, þar sem einungis var kveðið á um að vísa skyldi máli frá dómi ef dómari teldi hlutaðeigandi ákæranda vanhæfan til að fara með það.
Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að embætti lögreglustjórans á Eskifirði hafi verið vanhæft til rannsóknar máls þessa og því beri að vísa ákæru málsins frá dómi, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008.
Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.