Hæstiréttur íslands
Mál nr. 280/2000
Lykilorð
- Hönnunarvernd
|
|
Fimmtudaginn 1. mars 2001. |
|
Nr. 280/2000. |
Grétar Franksson (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Sturlu Má Jónssyni (Brynjólfur Kjartansson hrl.) |
Hönnunarvernd.
G sótti um hönnunarvernd til Einkaleyfastofunnar fyrir borðfót og lyftuborð. Var G í kjölfarið skráður hönnuður hvors tveggja. S krafðist þess að skráningin yrði færð á hans nafn, enda væri hann höfundur bæði fótarins og borðsins. Talið var að S bæri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hefði verið búinn að öðlast rétt til hönnunarverndarinnar áður en G skilaði umsóknum sínum til Einkaleyfastofunnar. Þegar litið var til upplýsinga um útfærslu G á gerð og formi fótarins og lyftuborðsins áður en fundum G og S bar saman, svo og til takmarkaðra gagna um hönnunarverk S á því tímabili sem máli skipti var talið að S hefði ekki tekist að leiða í ljós að hann hefði öðlast rétt til þeirrar hönnunarverndar sem skráning G bryti gegn. Var G því sýknaður af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2000. Hann krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnda og honum dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi skilaði umsókn um hönnunarvernd fyrir borðfót til Einkaleyfastofunnar 5. ágúst 1999 og umsókn um hönnunarvernd fyrir lyftuborð 6. ágúst sama árs. Umsóknir þessar voru skráðar 14. september sama árs. Stefndi hefur höfðað mál þetta til að skráningar þessar verði færðar á hans nafn, sbr. 11. gr. laga nr. 48/1993 um hönnunarvernd. Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi lagt fram nokkur ný skjöl, þar á meðal yfirlýsingu Helga K. Pálssonar 8. september 2000. Hefur framlagningu þessara skjala ekki verið mótmælt af stefnda.
II.
Áfrýjandi, sem er vélfræðingur að mennt, hefur rekið fyrirtækið ISO-TÆKNI ehf. frá árinu 1997. Fyrirtækið hefur unnið að þróun og framleiðslu rafmagnslyftibúnaðar. Í ársbyrjun 1999 seldi það Iðntæknistofnun 11 svokölluð lyftuborð. Borð þessi stóðu á einum ferstrendum fæti, sem boltaður var við gólf, en hæð borðplötunnar var stillanleg með rafmagni. Fyrirtækið Á. Guðmundsson ehf. framleiðir og selur húsgögn og hefur sérhæft sig í framleiðslu og sölu skrifstofuhúsgagna. Starfsmenn fyrirækisins sneru sér til ISO-TÆKNI ehf. eftir að hafa fengið upplýsingar um það og framleiðslu þess frá Iðntæknistofnun.
Fundur áfrýjanda með fyrirsvarsmönnum Á. Guðmundssonar ehf. var haldinn í febrúarmánuði 1999 með það að markmiði að koma á samstarfi þeirra um framleiðslu skrifborða með hæðarstillanlegri borðplötu. Stefndi er húsgagna- og innanhússhönnuður og rekur sjálfstæða starfsemi sem slíkur. Hafði hann um árabil unnið mikið að hönnun fyrir Á. Guðmundsson ehf. Guðmundur Ásgeirsson, fyrirsvarsmaður Á. Guðmundssonar ehf., kvaddi stefnda á fund með sér 21. maí 1999, sem haldinn var í húsakynnum ISO-TÆKNI ehf. Með áfrýjanda á fundinum var Haukur Alfreðsson rekstrarráðgjafi en hann hafði unnið að ýmsum verkum fyrir áfrýjanda frá árinu 1998. Óumdeilt er að á þessum fundi lagði áfrýjandi fram teikningu af burðargrind borðs, sem hann hafði fengið Helga K. Pálsson innanhússarkitekt til að teikna eftir rissi sínu. Borð þetta stóð á tveim fótum og var hinn lóðrétti burðarhluti fótanna ferstrendur en utan um hann sporöskjulöguð hlíf.
Á þessum fundi voru fyrirsvarsmenn fyrirtækjanna sammála um að halda áfram samvinnu um að hanna og undirbúa framleiðslu á skrifborði með rafmagnsstýrðri, hæðarstillanlegri borðplötu og var stefnda falið af fyrirsvarsmönnum Á. Guðmundssonar ehf. að taka þátt í þessari vinnu. Aðila greinir á um hver verkaskipting var milli þeirra og hvaða þátt þeir áttu hvor um sig í þeim hugmyndum, sem þróuðust varðandi þetta verkefni næstu tvo mánuðina, og útfærslu þeirra. Áfrýjandi heldur því fram að hönnun borðfótanna og alls, sem þeim tengdist, hafi verið í hans verkahring en hlutverk stefnda hafi verið að hanna tréverk skrifborðanna og skrautrendur á borðfætur. Stefndi telur á hinn bóginn að sitt hlutverk hafi verið hönnun skrifborðsins í heild, þar á meðal borðfóta, og verkefni áfrýjanda hafi verið bundið við hinn tæknilega þátt lyftibúnaðarins.
Eins og að framan er rakið stóð borðið á teikningunni, sem fram var lögð á fundinum 21. maí, á ferstrendum fótum. Var hugmyndin sú að þeir yrðu úr misstórum ferstrendum álprófílum þar sem sá grennri gengi inn í þann víðari og bæru þeir borðplötuna uppi jafnframt sem lyftibúnaður borðsins væri í þeim á sama hátt og var um borðin sem Iðntæknistofnun hafði keypt. Álprófílar þessir eru stöðluð framleiðsla. Utan um þá yrði sett sporöskjulöguð hlíf úr áli, sem einungis hefði þýðingu fyrir útlit borðfótarins. Væri hún föst og hreyfðist ekki þótt borðplatan lyftist þannig að í efstu stöðu hennar kæmi ferstrenda súlan upp úr hlífinni. Eftir fundinn í maí þróuðust mál þannig að ákveðið var að hverfa frá þessari lausn og láta í þess stað sérsmíða sporöskjulaga álprófíla fyrir borðfæturna. Álprófílar þessir áttu að mynda fætur borðsins og í senn gefa því aðlaðandi útlit og vera burðarvirki þess og lyftibúnaður fyrir borðplötuna. Líkt og ferstrendu álprófílarnir skyldu þeir sporöskjulöguðu vera misvíðir og gengi neðri prófíllinn í hvorum borðfót upp í þann efri, sem væri víðari. Þegar borðplötunni væri lyft kæmi því í ljós meiri hluti neðri og grennri álprófílsins en borðfóturinn héldi sporöskjulöguðu útliti sínu að fullu í hvaða stöðu sem borðplatan væri.
Af gögnum málsins er ljóst að aðilar höfðu samband varðandi samvinnuverkefni fyrirtækjanna í júní og júlímánuði 1999 og hittust meðal annars á fundum. Þann 4. ágúst var haldinn fundur í starfsstöð Á. Guðmundssonar ehf. þar sem áfrýjandi sýndi fullteiknað þversnið af stækkanlegum sporöskjulöguðum borðfæti. Á þessum fundi lagði hann einnig fram drög að svonefndum trúnaðar- og leyndarsamningi, sem hann vildi að undirritaður yrði auk sín af stefnda og fyrirsvarsmönnum Á. Guðmundssonar ehf. Í samningsdrögum þessum er áfrýjandi nefndur uppfinningamaður en stefndi og Á. Guðmundsson ehf. eru nefndir móttökuaðilar. Eru í drögunum lagðar skyldur á móttökuaðila meðal annars til að vernda trúnað og leynd varðandi „vöruna“ en hún var í upphafi 1. gr. samningsdraganna skilgreind sem „Lyftuborð, svokölluð „sitjandi standandi skrifborð““. Höfnuðu stefndi og fyrirsvarsmenn Á. Guðmundssonar ehf. að skrifa undir samninginn í óbreyttri mynd og virðist ágreiningur aðila um hver væri hlutur hvors í hönnun skrifborðsins hafa risið á fundinum.
Eins og að framan greinir sótti áfrýjandi um hönnunarvernd fyrir borðfót daginn eftir og fyrir lyftuborð 6. ágúst. Málamiðlun náðist varðandi orðalag fyrrnefnds samnings þannig að framan við skilgreiningu á „vörunni“ í 1. gr. var bætt svohljóðandi málsgrein: „Samningurinn tekur aðeins til virkni lyftuborða.“ Þannig breyttur var samningurinn undirritaður af Guðmundi Ásgeirssyni fyrir hönd Á. Guðmundssonar ehf. 9. ágúst og af stefnda 10 ágúst. Eftir það sendi áfrýjandi stefnda í tölvupósti teikningar þær, sem hann hafði sýnt á fundinum 4. ágúst. Vann stefndi áfram með þessar teikningar og liggja fyrir í málinu drög hans að útlitsteikningu af álprófílum þar sem gert er ráð fyrir lóðréttum röndum á miðjum hliðum þeirra. Áfrýjandi hóf á þessum tíma undirbúning að því að fá álprófílana framleidda erlendis. Í septembermánuði slitnaði upp úr samstarfi Á. Guðmundssonar ehf. og ISO-TÆKNI ehf. um framleiðslu skrifborðsins fyrst og fremst vegna ágreinings um höfundarrétt að hönnun borðfótanna.
III.
Í málinu krefst stefndi þess að skráning, sem áfrýjandi fékk 14. september 1999 á hönnun á borðfæti, skráningarnúmer (11) 167 og lyftuborði, skráningarnúmer (11) 168, verði færð á hans nafn, sbr. 11. gr. laga nr. 48/1993. Í athugasemdum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi að lögunum er það var lagt fram á Alþingi er tekið fram að umsækjandi teljist réttur eigandi hönnunar uns annað er sannað og eðlilegt þyki að sönnunarbyrði hvíli á þeim, sem rengir eignaraðild umsækjanda. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi verið búinn að öðlast rétt til hönnunarverndar á borðfæti og lyftuborði, áður en áfrýjandi skilaði umsóknum sínum til Einkaleyfastofunnar í ágústbyrjun 1999. Borðfótur sá, er áfrýjandi fékk skráðan, er sporöskjulagaður og er myndaður af tveim hólkum þar sem sá grennri gengur inn í þann víðari. Á hólkunum eru engar rendur eða mynstur. Lyftuborðið stendur á tveim fótum, sem hafa sama útlit og fyrrnefndur fótur og er grennri hólkurinn neðar. Fallast má á það með héraðsdómara að teikning sú, sem áfrýjandi lagði fram á fundi 21. maí 1999 af ferstrendum borðfæti með sporöskjulagaðri hlíf og að framan er lýst, skipti ekki máli í þessu sambandi. Er hinu sporöskjulaga formi á þessari teikningu beitt með allt öðrum hætti en gert er í hinni skráðu hönnun þannig að gerð borðfótarins er önnur og hefur þessi munur áhrif á útlit hans þegar borðið er í efstu stöðu.
Í málinu liggja einungis fyrir tvær teikningar stefnda af skrifborðsfæti og lyftuborði, sem hann segist hafa gert áður en áfrýjandi lagði inn umsóknir sínar um hönnunarvernd. Er önnur fremur gróf teikning af þversniði sporöskjulagaðs borðfótar, sem myndaður er af tveimur hólkum. Hin er þrívíddarmynd af skrifborði sem stendur á sporöskjulöguðum fótum þar sem grennri hólkurinn, sem gengur inn í hinn víðari, er ofar. Stefndi segist hafa lagt þessar teikningar fram á fundi aðila 15. júlí 1999. Yfirlýsingar áfrýjanda um það hvenær þessar teikningar bar fyrir augu hans eru misvísandi. Verður lagt til grundvallar það sem fram kemur í greinargerð hans fyrir héraðsdómi, að aðilar hafi sest yfir teikningarnar eftir að stefndi hafði teiknað þær, og að hann hafi þannig séð þær áður en hann lagði inn umsóknir sínar.
Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi nokkru fyrr verið búinn að fá hugmyndina um sporöskjulagað burðarvirki borðfótanna og útfæra hana með teikningu þversniðs. Í gögnum málsins er fremur gróf teikning áfrýjanda af þversniði sporöskjulaga borðfótar þar sem grennri hólkur er inni í öðrum víðari. Er dagsetningin 7. febrúar 1999 rituð neðst á teikningu þessa. Fyrir héraðsdómi bar Björgvin Njáll Ingólfsson starfsmaður Iðntæknistofnunar að hann hefði í heimsókn á starfsstöð áfrýjanda 1. mars 1999 séð teikningu af vinkilborði með tölvuskjá í horninu og á sporöskjulaga fótum og þá einnig séð teikningu hliðstæða þversniðsteikningu þeirri, sem að framan er getið. Haukur Alfreðsson bar fyrir héraðsdómi að hann hefði séð teikningu þessa hjá áfrýjanda í maímánuði 1999. Þá kemur fram í framangreindri yfirlýsingu Helga K. Pálssonar innanhússarkitekts að þegar áfrýjandi kom á hans fund til að biðja um að gerð yrði teikning eftir rissi sínu, sem lögð var fram á fundinum 21. maí, hafi hann skýrt sér frá að hlífin kæmi tímabundið í staðinn fyrir sérsmíðaðan sporöskjulagaðan lyftifót með hreyfanlegum innri kjarna, hvoru tveggja úr áli.
Þegar litið er til framangreindra upplýsinga um útfærslu áfrýjanda á gerð og formi borðfótar og lyftuborðs áður en fundum málsaðila bar saman svo og til takmarkaðra gagna um hönnunarverk stefnda á því tímabili, sem máli skiptir, verður að telja að honum hafi ekki tekist að leiða í ljós að hann hafi öðlast rétt til hönnunarverndar sem skráning áfrýjanda brýtur gegn. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda í máli þessu.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Grétar Franksson, skal vera sýkn af kröfu stefnda, Sturlu Más Jónssonar.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. apríl 2000.
Mál þetta var þingfest 27. október 1999 og tekið til dóms 22. mars sl.
Stefnandi er Sturla Már Jónsson, kt. 280247-7319, Valhúsabraut 33, Seltjarnarnesi en stefndi Grétar Franksson, kt. 060460-5589, Lyngbergi 31, Hafnarfirði.
Dómkröfur stefnanda eru þær að skráningar þær á hönnunum sem stefndi fékk hinn 14. september 1999 og ber skráningarnúmerið (11) 167 „borðfótur” og önnur sama dag sem ber skráningarnúmerið (11) 168 „lyftuborð” hjá Einkaleyfastofu verði færð á hans nafn. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að mati réttarins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að að greiða stefnda málskostnað.
I.
Stefnandi er húsgagna- og innanhússhönnuður og rekur sjálfstæða starfsemi sem slíkur. Hann hefur starfað síðustu 14 ár fyrir Á. Guðmundsson ehf. í Kópavogi sem framleiðir og selur aðallega skrifstofuhúsgögn. Kveðst stefnandi hafa annast nær alla hönnunarvinnu fyrir Á. Guðmundsson ehf. Til hefði staðið að framleiða nýja húsgagnalínu og jafnframt að framleiða skrifborð með rafdrifinni hæðarstillingu. Forsvarsmenn Á. Guðmundssonar ehf. hefðu haft spurnir af stefnda og fyrirtæki hans ÍsoTækni ehf., sem hafi sérhæft sig í þróun og framleiðslu rafmagnslyftubúnaðar.
Guðmundur Ásgeirsson framkvæmdastjóri Á. Guðmundssonar ehf. hefði beðið stefnanda að koma á fund með stefnda til þess að skoða borðstell sem smíðað hafi verið úr málmprófílum. Fundurinn hafi líklegast verið í lok febrúar 1999. Á þessum fundi hafi stefndi sýnt þeim frumgerð af borði. Borðplötuna hafi verið unnt að hækka og lækka með rafmagnslyftubúnaði. Fætur hafi verið úr álprófílum að ytra máli u.þ.b. 80 x 80 mm., en innri prófíll nokkru minni. Með prófíl sé átt við lóðrétta burðarbita borðsins. Neðri hlutur fóta hafi verið festur á lárétt „skíði” úr flatjárni, en að ofan hafi fæturnir verið tengdir saman með álskúffu sem stefndi hafi sagt að geymdi hluta af vélrænum búnaði. Stefndi hafi sýnt þeim hvernig unnt væri að hækka og lækka borðplötuna og hafi vélbúnaðurinn virkað vel. Í lok fundarins hafi stefndi lagt fram teikningu af borðinu sem hafi sýnt stellið eins og lýst er að framan og auk þess tillögu höfundar til þess að gefa borðinu viðunandi útlit. Hugmynd stefnda hafi verið að smíða málmhlífar utan um álprófílinn. Á fundinum hafi verið rætt um að nota þennan álprófíl en byggja utan um hann stálhlíf sem væri stönsuð. Stefnandi kveðst hafa gert nokkrar athugasemdir við útliti álprófílsins. Hann hefði séð að fætur borðsins hafi verið alltof fyrirferðarmiklir og að hlíf utan um fæturna væri neyðarlausn til þess að hylja tiltölulega ljótan álprófílinn. Þá hefði hann séð að fæturnir þyrftu að vera á ytri borðbrún til þess að koma fyrir skúffum. Í lok fundarins hefði stefnanda verið falið að skoða hvað unnt væri að gera til þess að forma þessar hlífar sem áttu að koma utan um fótinn þannig að úr yrði nothæft húsgagn sem unnt væri að selja á skrifstofur. Jafnframt hafi stefnda verið falið að kanna hvað mót fyrir þessar hlífar myndu kosta.
Stefnandi kveðst hafa velt því töluvert fyrir sér hvernig forma mætti hlíf þannig að borðið fengi fallegra útlit. Þá hafi þurft að huga að fleiru. Hlífin hafi t.d. eingöngu verið neðst þannig að þegar borðið var hækkað upp sat hlífin eftir. Þá var allt of mikil fyrirferð í hlífinni þannig að borðið leit illa út. Hann hafi rætt við stefnda hvort ekki mætti breyta lögun hlífarinnar og hvort að hún gæti ekki orðið minni. Stefndi hafi talið að þess væri ekki kostur því hann þyrfti 12-14 cm. til að koma fyrir tæknibúnaði í borðfætinum. Þá hafi einnig verið rætt það vandamál að prófíllinn gæti verið misjafn að stærð ef hann væri keyptur á lager. Innra mál gæti verið mismunandi og því ekki ljóst hvort stefndi kæmi búnaði sínum fyrir í öllum tilfellum nema með tilfæringum. Það væri afar óheppilegt þar sem fyrirhugað var að fjöldaframleiða borðið.
Á fundinum í febrúar hafi stefnda verið falið að kanna hvað það myndi kosta að framleiða hlífar utan um hinn ferkantaða álprófíl. Fljótlega hafi komið í ljós að það vr of dýrt.
Þegar hér hafi verið komið hafi verið ljóst að þessi lausn væri ótæk. Nauðsynlegt hafi verið að hugsa málið upp á nýtt og út frá nýjum forsendum. Stefnandi kveðst þá hafa farið að athuga hvort ekki væri unnt að finna ódýrari en jafnframt viðunandi lausn. Hafi honum dottið í hug hvort ekki væri unnt að láta framleiða sérstaklega álprófíl fyrir þessa framleiðslu. Með því móti yrðu þeir ekki bundnir af álprófílum á markaðnum sem væru eingöngu ferkantaðir. Slíkan álprófíl mætti framleiða í mótum og hanna að vild. Þannig væri unnt að losna við hlífina. Þar að auki hafi þessi hugmynd fallið mjög vel að því verki sem stefndandi var að vinna á þessum tíma, þ.e. nýrri húsgagnalínu fyrir Á. Guðmundsson ehf. Hann hafi t.d. verið að hanna skrifborð sem hægt væri að hækka og lækka um 10-15 cm. með handafli. Hann hafi séð að lyftuborðin gætu vel fallið að því verki. Stefnandi kveðst því hafa ákveðið að hugsa uppbyggingu borðanna á ný og út frá þessari hugmynd. Hafi hann verið með ýmsar vangaveltur um tæknilegar og fagurfræðilegar útfærslur og að lokum hafi hann komist að þeirri niðurstöðu að sporöskjulagaður prófíll myndi henta þessu verkefni best. Slík lögun gæti einnig hentað fyrir þá húsgagnalínu sem hann var byrjaður að hanna. Hann hafi því gert tölvumynd af borðinu (dskj. nr. 5) og jafnframt teiknað upp þverskurð af borðfæti úr álprófíl (dskj. nr. 6) og mætt með hann á fund sem haldinn var með aðilum um miðjan júlí.
Stefnandi segir að þessi teikning (dskj. nr. 6) hafi verið fyrsta tillaga og hugmynd að sporöskjulöguðum borðfæti. Hún sýni hugmyndina í grófum dráttum. Frumformið sé í raun fræið og sé sett fram til þess að sjá hvort það geti skotið rótum. Af ásettu ráði hafi hann oft teiknað frumformið mjög gróft. Betra sé að vinna þannig að málinu heldur en að koma með fullmótaða tillögu. Sé komið með fullmótaða tillögu á fund fari fundarmenn ósjálfrátt að ræða ýmis smáatriði svo sem millimetramál á skrúfum. Það komi hins vegar forminu ekkert við og leiði menn af leið. Með því að koma með grófa tillögu á fund fáist meiri umræða um formið og hann eigi einnig auðveldara með að færa breytingartillögur inn á teikningu.
Stefnandi segir að þessi hugmynd sé alls ekki sambærileg við þá hugmynd sem áður hafi verið rædd varðandi hlífina. Stefndi hafi vissulega verið búinn að teikna sporöskjulaga hlíf. Munurinn liggi aðallega í því að prófíllinn, sem burðarvirkið er byggt á, sé orðið útlitsatriði, en ekki hlíf utan um prófíl. Hugmynd hans og tillaga um sporöskjulaga álprófíl hafi verið fyrsta tillagan í þá átt. Á þessum fundi um miðjan júlí hafi stefndi og Guðmundur Ásgeirsson verið viðstaddir. Það hafi verið ákveðið að stefnandi ynni áfram að tillögu sinni, en stefnda var falið að vera honum innan handar með tæknilega útfærslu.
Eftir þennan fund leið nokkur tími uns Guðmundur Ásgeirsson hafi farið að ýta á eftir stefnanda. Stefnandi kveðst þá hafa haft samband við stefnda og innt hann eftir því hvort hann hefði hugað að tæknilegum atriðum sem leysa þurfti og hvort þeir gætu ekki hist til þess að stefnandi gæti lokið teikningum af fætinum. Eitt sinn er stefnandi hafði samband við stefnda hafi stefndi sagt að hann væri að vinna að málinu og myndi ljúka því um helgina.
Þann 4. ágúst hafi þeir haldið fund, stefnandi, Guðmundur Ásgeirsson, stefndi og með honum Haukur Alfreðsson sem aðstoðaði stefnda. Á þessum fundi hafi stefndi lagt fram teikningu af prófílnum sem hann sagðist hafa gert. Hann hafi einnig lagt fram á fundinum trúnaðar- og leyndarsamning sem hann hafi viljað fá undirritaðan. Haukur hafi bent á að teikningarnar sem stefndi hafi lagt fram á fundinum féllu undir þann leyndarsamning. Stefnandi segir að þetta hafi komið mjög flatt upp á sig. Hann hafi mótmælt því að svo gæti verið þar sem teikningar þær, sem stefndi lagði fram, væru byggðar á hugmyndum stefnanda, sem valdið hefðu gjörbyltingu á gerð borðanna, bæði útlitslega og tæknilega. Um þetta hafi spunnist umræður á fundinum. Stefnandi kveðst hafa haldið því fram að hugmyndin væri hans, enda hafi alltaf verið talað um að hann ætti að teikna prófílinn. Niðurstaða hafi ekki fengist, en stefnandi og Guðmundur hafi neitað að skrifa undir trúnaðar- og leyndarsamning nema honum yrði breytt. Þeir Guðmundur hefðu síðan skrifað undir samninginn 10. ágúst eftir að honum hafi verið breytt og bætt inn í hann í 1. gr.: „Samningurinn tekur aðeins til virkni lyftuborða.”
Stefnandi segir að það hafi tekið hann nokkra daga að komast að endanlegri niðurstöðu hvernig útlit prófílsins skyldi vera. Þegar stefnandi og Guðmundur Ásgeirsson hafi verið orðnir ásáttir um útlit hans hafi teikningin verið send stefnda með símbréfi 19. ágúst 1999. Þá hafi verið eftir að gera lokateikningar til þess að stefndi gæti aflað tilboða í framleiðslu prófílsins. Föstudaginn 20. ágúst hafi stefndi hringt í stefnanda með þau skilaboð frá Guðmundi Ásgeirssyni að nauðsynlegt væri að útboðsgögn kæmust utan fyrir helgi, en til þess hafi stefnda vantað teikningar með þeim stærðum sem þyrfti. Stefnandi kveðst þá hafa farið strax að vinna í þessu og sent stefnda frumdrög í símbréfi sem þeir hefðu síðan rætt um í síma. Seinna sama dag hafi stefnandi sent stefnda fullunnar teikningar í símbréfi. Símtöl aðila hafi eingöngu snúist um radíus á hornum og önnur atriði sem komi hönnun ekkert við og sé frekar viðfangsefni tækniteiknara.
Stefnandi kveður stefnda ekki hafa minnst einu orði á við stefnanda þegar hann var að vinna útboðsteikningarnar vegna álprófílanna að hann hefði þá þegar lagt teikningar inn til Einkaleyfastofunnar til þess að tryggja sér hönnunarvernd.
Stefnandi telur að stefndi hafi ætlað sér með ólögmætum hætti að eigna sér hönnun stefnanda með því að fá hana skráða. Alltaf hafi verið ljóst að það væri stefnandi sem ætti að vinna að útlitshönnun en stefndi að tæknilegum útfærslum. Þann 22. september 1999 hafi verið haldinn fundur með aðilum og forsvarsmönnum Á. Guðmundssonar ehf. Hafi þess verið krafist að stefndi drægi til baka þessa skráningu þar sem hann ætti ekki rétt til hennar. Stefndi hafi neitað nema gegn skilyrðum sem hafi verið hafnað. Með þessu hafi slitnað upp úr væntanlegu samstarfi aðila.
Stefnandi byggir á því að hann sé höfundur hannana þeirra er stefndi fékk skráðar með skráningarnúmerum 167 og 168 í Einkaleyfatíðindum í september 1999. Þetta sjáist greinilega með því að bera saman upphaflega tillögu stefnda (dskj. nr. 4) og teikningar og tillögur stefnanda (dskj. nr. 5 og 6). Þar komi greinilega fram að stefnandi sé höfundur lögunar borðsins sem stefndi hafi fengið skráða sem hönnun nr. 168 svo og að stefnandi sé höfundur hönnunar sem sýni sporöskjulagaðan borðfót sem stefndi hafi fengið skráða sem nr. 167. Samkvæmt lögum um hönnunarvernd nr. 48/1993, 9. gr. tilheyrir réttur til hönnunarverndar hönnuði eða þeim sem öðlast hefur rétt hans. Stefnandi telur að með því sem áður hefur verið rakið að hann sé höfundur hönnunar nr. 167 og 168. Samkvæmt 11. gr. laganna geti sá sem telur sig eiga tilkall til hönnunarverndar, sbr. 9. gr., er skráð hefur verið á nafn annars aðila, krafist þess fyrir dómi að skráningin verði færð á hans nafn.
II.
Stefndi á og rekur ÍsoTækni ehf. sem hefur sérhæft sig í þróun og framleiðslu rafmagnslyftubúnaðar frá árinu 1997. Stefndi er vélfræðingur að mennt og starfar auk þess að hönnun og þróun. Stefndi kveður starfsmenn Á. Guðmundssonar ehf. hafa komið að máli við sig í febrúar 1999 eftir að þeir höfðu skoðað lyftuborð hjá Iðntæknistofnun. Þessi lyftuborð hefði stefndi hannað og Iðntæknistofnun keypt ellefu slík í janúar 1999. Framkvæmdastjóri Á. Guðmundssonar ehf. hafi viljað taka upp samstarf við stefnda þannig að stefndi og fyrirtæki hans hannaði og framleiddi undirstöður og lyftubúnað undir borðin, en Á. Guðmundsson ehf. setti borðplötur á þau og hefði einnig með höndum markaðssetningu. Í heimsókn starfsmanna Á. Guðmundssonar ehf. á starfsstöð stefnda í maí 1999 hafi þeim verið sýnd frumgerð af borði og hvernig það virkaði. Í framhaldi af þessu hafi verið byrjað að tala um útlit þeirra hluta sem fyrirtæki stefnda átti að framleiða. Stefndi hafi þá sýnt stefnanda og framkvæmdastjóra Á. Guðmundssonar ehf. teikningu sína (dskj. nr. 4) þar sem fætur borðanna séu sporöskjulaga en nokkuð grófir. Ljóst hafi verið að ekki væri unnt að fá mjög fínlega fætur nema láta steypa álprófílinn sérstaklega. Síðan hafi verið ákveðið af forsvarsmönnum Á. Guðmundssonar ehf. að sérhanna prófíl og láta steypa hann. Forsvarsmenn Á. Guðmundssonar ehf. hafi hvatt stefnda til að klára teikningar af prófílnum þar sem styttist í að sýna þyrfti framleiðsluna. Á þessum tíma kveðst stefndi hafa þrýst nokkuð á forsvarsmenn Á. Guðmundssonar ehf. um að ganga til samninga við sig, en þeir hafi færst undan. Hann hefði viljað ganga til samninga strax þar sem hann hefði sýnt stefnanda og forsvarsmönnum Á. Guðmundssonar ehf. mjög mikið af þróunarvinnu sinni og hafi ekki viljað að þær upplýsingar yrðu allra án þess að hann hefði samning.
Næsta skref hönnunarinnar hafi verið að stefndi og Kristján B. Ómarsson, uppfinningamaður, hefðu lagst yfir teikningarnar fyrstu helgina í ágúst og lokið hönnun prófílsins. Fundur hefði verið með aðilum 4. ágúst og hafi hann þá lagt fram fullunnar teikningar. Þær teikningar hafi verið í samræmi við teikningu sem hann hafi gert í febrúar 1999 af sporöskjulöguðum borðfæti. Hann hefði hins vegar ekki farið að vinna með þessa teikningu fyrr vegna þess kostnaðar sem fylgdi því að steypa sérstakan álprófíl.
Á þessum fundi kveðst stefndi hafa lagt fram trúnaðarsamning sem hann hafi óskað eftir að aðilar og forsvarsmenn Á. Guðmundssonar ehf. undirrituðu. Öllum hafi verið ljóst á þessum fundi að stefndi ætti hönnunina. Hefði Guðmundur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Á. Guðmundssonar ehf., lýst því yfir á þessum fundi að stefndi ætti hönnunina. Strax eftir þennan fund hafi hann lagt inn umsókn í sínu nafni um skráningu á hönnun sinni.
Stefndi byggir á því að hann eigi hönnun beggja þeirra verka sem skráð voru nr. 167 og 168. Ljóst sé skv. dómskjali nr. 4 og 18 að stefndi hafi teiknað uppkast af álprófílum löngu áður en stefnandi hafi nokkurn tíma komið að máli við stefnda. Teikning á dómskjali nr. 18 hafi verið gerð í febrúar 1999 og sýni hún vel hver hugmynd stefnda var varðandi útlit framleiðslunnar, en framkvæmd hennar hafi verið erfið þar sem stefnda hafi skort fjármagn til þess að láta steypa prófílinn í ál. Riss stefnanda á dómskjali nr. 6 hafi verið ónothæf hugmynd sem ekki hafi verið farið eftir við raunverulega teikningu hönnunarinnar. Stefndi hafi lagt fram fullunnar teikningar af álprófílum á fundi með stefnanda og forsvarsmönnum Á. Guðmundssonar ehf. í upphafi ágústmánaðar án þess að stefnandi ætti þar nokkurn hlut að máli. Stefndi hafi því átt frumhugmyndina af útlitinu og endanlega niðurstöðu útlitsins. Stefnanda hafi mátt vera ljóst allan tímann að stefndi átti hönnunina og að sú hafi verið hugmyndin, enda megi sjá það af drögum að samstarfssamningi þar sem segi í 4. mgr. að allur eignarréttur sé hjá ÍsoTækni ehf., fyrirtæki stefnda. Þá er ennfremur byggt á því að framkvæmdastjóri Á. Guðmundssonar ehf., Guðmundur Ásgeirsson, hafi lýst því yfir á fundi aðila í ágúst að hönnunin væri eign stefnda.
III.
Guðmundur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Á. Guðmundssonar ehf., kom fyrir dóm. Hann sagði aðila hafa haldið nokkra fundi. Fyrsti fundurinn hafi verið í lok febrúar 1999, en auk þess hafi verið fundur í maí, 3. júní, í lok júní, 8. júlí, 15. júlí og svo fundur 4. ágúst sama ár. Á fyrsta fundi hans og stefnanda með stefnda hafi þeim verið sýnd frumgerð af borði. Alla hönnun hefði augljóslega vantað. Hann hafi síðar átt fund með stefnda og látið í ljós áhuga á samstarfi við hann. Hann hafi sagt honum að fóturinn væri alltof grófur og viljað að stefnandi kæmi að málinu og hannaði nýjan fót. Á þessum tíma hafi þeir stefnandi verið farnir að ræða um nýja húsgagnalínu sem Á. Guðmundsson ehf. hefði ætlaði að framleiða. Fyrst hafi verið rætt um hvort unnt væri að setja hlíf á prófílinn og hafi stefnda verið falið að kanna hvað slíkar hlífar kostuðu í framleiðslu. Í ljós hefði komið síðar að sú lausn væri of dýr. Stefnandi hafi þá stungið upp á að hann hannaði álprófíl til þess að nota sem borðfætur.
Guðmundur sagði að hann hefði fengið stefnanda til verksins því alltaf hefði legið ljóst fyrir að Á. Guðmundsson ehf. myndi sjá um ytra útlit, en stefndi um tæknilegu hlið mála, það er lyftubúnaðinn. Á öllum þeim fundum sem haldnir hefðu verið hefði stefndi aldrei sýnt teikningu sem hann nú segðist hafa teiknað í febrúar 1999 og sýndi sporöskjulaga borðfót. Á fundinum í ágúst hafi stefndi óskað eftir því að þeir skrifuðu undir trúnaðar- og leyndarsamning. Greinilegt hafi verið að þær teikningar sem stefndi lagði fram á þeim fundi hafi verið upprunaleg hugmynd stefnanda. Þeir hafi því neitað að skrifa undir samninginn. Samningnum hafi því verið breytt og þeir skrifað undir 10. ágúst 1999, enda talið sig vera að skrifa undir einkarétt stefnda á lyftubúnaðinum. Guðmundur kvað það ekki rétt að hann hafi lýst því yfir á þessum fundi að stefndi væri höfundur af þessari hugmynd.
Haukur Alfreðsson kom fyrir dóm. Hann sagðist hafa unnið með stefnda að ýmsum verkefnum frá 1998. Hafi hann mætt með stefnda á fundinn í maí og tvo aðra fundi. Hann hafi aðstoðað stefnda við að gera drög að samningi aðila. Hann kvaðst ekki hafa vitað til þess að stefnandi væri einnig að hanna sporöskjulaga álprófíl, ekki fyrr en á fundinum í ágúst. Hann kvaðst hafa séð hjá stefnda teikningu af sporöskjulaga borðfæti í maí 1999 (dskj. nr. 18).
Björgvin Njáll Ingólfsson, starfsmaður Iðntæknistofunnar, kom fyrir dóm. Hann kvaðst hafa átt fund með stefnda 1. mars á starfsstöð stefnda. Þar hefði hann séð teikningu af sporöskjulaga fæti.
Kristján Björn Ómarsson, uppfinningamaður, staðfesti að hann hefði aðstoðað stefnda við að fullvinna teikningar á einni helgi í ágústbyrjun. Hefði hann séð um teikningar, en stefndi komið með hugmyndina. Krisján kvaðst ekki áður hafa séð teikningar hjá stefnda af umræddum álprófíl.
Kjartan Ragnarsson kvað þá stefnda hafa aðstoðað hvorn annan í tæknimálum undanfarið. Hann vinni við þróunarvinnu og hafi ætlað að fá borð með lyftubúnaði hjá stefnda. Ekki kvaðst hann muna eftir að hafa séð teikningar af umþrættum álprófíl hjá stefnda, en hins vegar hefði hann séð teikningu þar sem gert hafi verið ráð fyrir stálhlíf utan um álprófíl.
Í málinu hefur verið lagður fram samningur sem ber heitið „Trúnaðar - og leyndarsamningur” og er hann undirritaður af stefnda og Guðmundi Ásgeirssyni 9. ágúst 1999. Samhljóða samningur sem stefnandi undirritaði ásamt stefnda hefur einnig verið lagður fram í málinu og er hann undirritaður 10. ágúst 1999. Þá hefur einnig verið lögð fram í málinu fyrsta blaðsíða af sama samningi.Hann er frábrugðinn fyrrnefndum tveim samningum að því leyti að á hina undirrituðu samninga er tekið fram að þeir taki aðeins til „virkni lyftuborða.” Í samningi þessum er leitast við að tryggja rétt uppfinningamannsins gagnvart viðsemjanda. Eru ákvæði um að gagnaðili skuli virða og vernda trúnað og leynd varðandi vöru þá sem uppfinningamaðurinn vinnur að og megi ekki nýta sér eða birta upplýsingar um uppfinningatæknileyndarmál eða önnur hugverk eða einkaleyfi uppfinningamannsins.
Eins og framan er rakið var samningi þessum breytt að ósk stefnanda og forsvarsmanns Á. Guðmundssonar ehf. í þá veru að samningurinn var aðeins látinn taka til lyftubúnaðarins.
IV.
Aðilar deila um hönnun á sporöskjulaga formi borðfóts, sem er sérstaklega hannaður fyrir borð með borðplötu, sem unnt er að hækka og lækka. Nánar tiltekið er deilt um lóðrétta hluta burðarvirkisins, svokallaðan álprófíl, sem er sporöskjulaga borðfótur, holur að innan til þess að koma megi fyrir lyftubúnaði.
Eins og framan er rakið hafði Á. Guðmundsson ehf. áhuga á samstarfi við stefnda. Höfðu forsvarsmenn Á. Guðmundssonar ehf. séð lyftuborð hjá Iðntæknistofnun sem stefndi hannaði. Skrifborð þessi voru með sverum ferköntuðum borðfótum úr áli og boltuð í gólf. Guðmundur Ásgeirsson framkvæmdastjóri Á. Guðmundssonar ehf., sagði fyrir dómi að hann hefði skoðað þessi borð hjá Iðntæknistofnun og hefði honum verið ljóst að alla hönnun vantaði til þess að gera vöruna söluhæfa á almennum skrifstofumarkaði. Þess vegna hafi hann kallað til stefnanda sem hanni fyrir sig öll skrifstofuhúsgögn. Hann hafi því óskað eftir fundi með stefnda með samstarf í huga. Alltaf hefði legið ljóst fyrir í sínum huga að hvor sérfræðingur myndi vinna á sínu sviði, stefnandi hanna útlit skrifborðsins, þ.m.t. borðfætur og stefndi sjá um hinn tæknilega þátt lyftubúnaðarins.
Aðilar greinir mjög á um framhaldið. Þá greinir á um hvaða teikningar hafi verið lagðar fram á fundum þeirra. Stefndi heldur því fram að teikning á dómskjali nr. 18, sem sýni sporöskjulaga álprófíl og dagsett er 7. febrúar 1999, hafi legið frammi snemma á ferlinum. Hann hafi því átt hugmyndina að sporöskjulaga álprófíl. Þessu mótmælir stefnandi og vitnið Guðmundur Ásgeirsson, sem sat alla fundi aðila. Segir vitnið Guðmundur að þessi teikning hafi aldrei komið fram á fundum þeirra. Stefndi hefur haldið því fram að vitnið Guðmundur Ásgeirsson hafi falið sér að hanna álprófíl á fundi aðila snemma á ferlinum. Þetta segir Guðmundur að sé alrangt. Hann hafi einmitt kallað stefnanda til sem hönnuð og sérfræðing á þessu sviði til þess að gera vöruna söluhæfa. Þá heldur stefndi því fram í greinargerð og á því er byggt að Guðmundur hafi lýst því yfir á síðasta fundi aðila 4. ágúst, að það væri stefndi sem ætti hönnun á borðfætinum. Þessari staðhæfingu mótmælir vitnið Guðmundur og stefnandi. Þeir hefðu einmitt ekki viljað skrifa undir trúnaðar - og leyndarsamning 4. ágúst 1999 nema það væri alveg ljóst að stefnandi væri höfundur að álprófílnum. Þess vegna hafi samningnum verið breytt og hann aðeins látinn taka til lyftubúnaðarins.
Fram kom í málinu að Á. Guðmundsson ehf. hefur hafið framleiðslu á skrifborðum með lyftubúnaði. Er tæknibúnaður keyptur erlendis frá, en stefnandi hannaði borðin. Álprófílarnir eru sporöskjulaga, framleiddir og sérdregnir erlendis eftir teikningum stefnanda, þeim sömu og lagðar hafa verið fram í þessu máli. Við aðalmeðferð var dóminum sýndur einn slíkur álprófíll.
Við aðalmeðferð komu fyrir vitnin Haukur Alfreðsson og Björgvin Njáll Ingólfsson. Þeir töldu sig hafa séð hjá stefnda teikningu af sporöskjulaga álprófíl, Björgvin Njáll í mars 1999 og Haukur í maí 1999.
Stefnandi og vitnið Guðmundur Ásgeirsson, sátu hins vegar alla fundi aðila. Verður framburður þeirra lagður til grundvallar um að það hafi verið skýrt í upphafi samstarfsins að stefnandi hannaði útlit borðsins þar á meðal borðfætur, en stefndi hannaði lyftubúnaðinn. Ennfremur verður lagður til grundvallar sá framburður stefnanda og vitnisins Guðmundar að teikning stefnanda (dskj. nr. 6) hafi verið fyrsta tillaga að sporöskjulaga borðfæti úr áli. Þykir sá framburður trúverðugur og í samræmi við önnur gögn málsins og þá atburðarrás að aðilar hafi verið búnir að snúa baki við þeirri hugmynd að setja hlíf utan um ferkantaðan álprófíl. Var þessi teikning fyrsta hugmyndin, svo sannað sé, sem kom fram í samstarfi aðila um sporöskjulaga álprófíl, sem yrði framleiddur og sérdreginn. Teikning stefnda af borði með sporöskjulag hlíf utan um ferkantaðan álprófíl(dskj.nr. 4) þykir ekki skipta máli í þessu sambandi. Hún er ekki af burðarvirki sem útlitslega er fullmótað. Þá þykir sú breyting sem gerð var á trúnaðarsamningi aðila einnig renna stoðum undir ofangreinda niðurstöðu.
Niðurstaða málsins er því sú að kröfur stefnanda eru teknar til greina með vísan til 11. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 48/1993 um hönnunarvernd þess efnis að skráning stefnda á hönnun hjá Einkaleyfastofu skuli færð á nafn stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Tekin er til greina krafa stefnanda, Sturlu Más Jónssonar, um að sú hönnun er stefndi, Grétar Franksson, fékk skráða hjá Einkaleyfastofu hinn 14. september 1999 og bera skráningarnúmerið (11) 167 ,,borðfótur” og (11) 168 ,,lyftuborð” verði færðar á nafn stefnanda.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.