Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð
  • Málflutningsumboð
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta


                                     

Þriðjudaginn 8. maí 2012.

Nr. 296/2012.

Kári Kort Jónsson og

(sjálfur)

Kristín Alfreðsdóttir

(enginn)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

Kærumál. Útburðargerð. Málflutningsumboð. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta.

Úrskurður héraðsdóms, þar sem A hf. var heimilað að fá KJ og KA borin með beinni aðfarargerð út úr fasteign, var staðfestur að því er KJ varðar. Var málinu hins vegar vísað frá Hæstarétti að því er varðar KA, þar sem KJ hafði ekki umboð til að fara með málið fyrir dómi fyrir hennar hönd, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Málinu var skotið til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2012, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2012, þar sem varnaraðila var heimilað að fá sóknaraðila borin með beinni aðfarargerð út úr fasteigninni Hesthömrum 8 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Að kæru í máli þessu stóð sóknaraðilinn Kári Kort Jónsson, sem kvaðst þar flytja „málið sjálfur fyrir mig og eiginkonu mína Kristínu Alfreðsdóttur“, og undirritaði hann kæruna einn. Án tillits til þess að ekkert liggur fyrir um hvort sóknaraðilanum Kára hafi verið veitt umboð til þessarar ráðstöfunar verður að gæta að því að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn gat Kristín ekki falið honum að fara með málið fyrir dómi fyrir sína hönd. Verður því að líta svo á að sóknaraðilinn Kári standi einn að málskoti þessu og vísa málinu frá Hæstarétti að því er Kristínu Alfreðsdóttur varðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann látinn standa óraskaður.

Sóknaraðilanum Kára verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti að því er sóknaraðila Kristínu Alfreðsdóttur varðar.

Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður.

Sóknaraðili Kári Kort Jónsson greiði varnaraðila, Arion banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2012.

                Með aðfararbeiðni, sem barst héraðsdómi 21. mars 2011, hefur sóknaraðili, Arion banki hf., kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík, krafist þess að varn­ar­aðilar, Kristín Alfreðsdóttir, kt. 060359-4239, og Kári Kort Jónsson, kt. 060849-3589, bæði til heimilis að Hesthömrum 8, Reykjavík, verði ásamt öllu því sem þeim til­heyrir, bornir með beinni aðfarar­gerð út úr fast­eign­inni að Hesthömrum 8, Reykjavík, með fastanúmerið 203-9035.

                Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðilar krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

                Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virð­is­aukaskatts á málskostnað.

Málavextir, málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að með afsali, 18. janúar 2011, hafi hann eignast fasteignina að Hesthömrum 8, Reykjavík, með fastanúmerið 203-9035, ásamt öllu því sem eigninni fylgi og fylgja beri. Sýslumaður hafi fært afsalið í fasteignabók 27. janúar 2011. Varnaraðilar hafi dvalist í fasteigninni frá því afsalið var gefið út, án þess að greiða fyrir afnotin. Sóknaraðili hafi boðið varnaraðilum að gera leigu­samn­ing, en því boði hafi ekki verið sinnt. Varnaraðilar hafi jafnframt neitað að fara úr eign­inni þrátt fyrir beiðni sóknaraðila þar um. Sóknaraðila sé því nauð­syn­legt að fá dómsúrskurð um útburð varnaraðila úr fasteigninni.

                Til stuðnings kröfu sinni vísar sóknaraðili til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Eignarréttur sóknaraðila að fasteigninni sé skýr. Málsaðilar hafi hvorki gert með sér skrif­legan né munnlegan leigusamning. Þar af leiðandi hafi varnaraðilar ekki heimild til að dvelja í fasteigninni. Sóknaraðili hafi óskað eftir því að varnaraðilar rými húsið en því hafi þau ekki sinnt. Þar með séu uppfyllt öll skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga um aðför.

Málavextir, málsástæður og lagarök varnaraðila

                Varnaraðilar kveðast hafa verið í viðskiptum við bankann og fyrirrennara hans í 46 ár og hafi ætíð staðið í skilum með allar skuldbindingar sínar við bankann.

                Að sögn varnaraðila má rekja þetta mál til ábyrgðar sem varnaraðili, Kristín, hafi tekið á sig vegna atvinnurekstrar sem eiginmaður hennar, Kári, hafi tengst og önnur hjón að auki. Varnaraðili, Kristín, og Kristín Kristjánsdóttir hafi tekið erlent mynt­körfulán að fjárhæð 45.000.000 kr. með breytilegum vöxtum. Lánið hafi verið í þágu einkahlutafélagsins Ness, sem hafi verið í eigu tveggja fjölskyldna, annars vegar varn­ar­aðila og hins vegar Kristins R. Kjartanssonar og Kristínar Kristjánsdóttur. Lánið hafi verið tryggt með veði í fasteign að Sólvallagötu 84, Reykjavík og tveimur trygg­ingar­bréfum í fasteigninni að Hesthömrum 8, Reykja­vík, sem hvíldu á 3. og 4. veð­rétti. Þessum tryggingarbréfum hafi verið þing­lýst bæði á fasteignina að Hesthömrum 8 og á íbúð Kristínar og Kristins.

                Varnaraðilar hafi staðið í viðræðum við sóknaraðila um skuldir sem hvíldu á umræddri fasteign þeirra, en þær viðræður hafi ekki leitt til niðurstöðu. Sóknaraðili hafi farið fram á sex milljóna króna eingreiðslu, en síðan yrði samið um eftirstöðvar skuld­ar­innar. Varnaraðilar hafi ekki getað útvegað þessa fjárupphæð og sóknaraðili hafi ekki verið til tals um að skipta fjárhæðinni í smærri greiðslur. Meðan á viðræðum hafi staðið hafi sóknaraðili sett skuld samkvæmt VISA-korti Ness ehf. í lög­fræði­inn­heimtu. Á grundvelli þessa skuldamáls hafi sóknaraðili sett bæði hjónin í gjaldþrot.

                Sóknaraðili hafi tekið fasteign varnaraðila að Hesthömrum 8 með samningi við skipta­stjóra þrotabúsins á þeim grundvelli að veðskuldir Kristínar við sóknaraðila væru hærri en næmi markaðsverði eignarinnar. Varnaraðilar hafi átt samskipti við sókn­ar­aðila um tíma um kaup á fasteigninni, en sóknaraðili hafi einungis viljað gera leigu­samn­ing í eitt ár þar sem kaup á húsinu kæmu ekki til greina.

                Það sé einlægur vilji varnaraðila að sóknaraðili leysi þeirra mál og leyfi þeim að kaupa fasteignina að Hesthömrum 8 aftur. Höfðað sé til sanngirni í málinu og að sam­bæri­leg mál fái sambærilega afgreiðslu.

                Hinn 6. maí 2011 hafi varnaraðilar lagt til við sóknaraðila að ljúka málinu með þeirri leið sem í upphafi hafi verið reynd. Samið yrði um greiðslu með einhverjum hætti og skiptingu 6.000.000 kr., hugsanlega hærri fjárhæð vegna seinkunar á að klára málið. Síðan yrði stóra fasteignaveðláninu sem tekið hafi verið hjá sóknaraðila, og hvílt hafi á fast­eign­inni Hest­hömrum 8, þinglýst að nýju á eignina og eftir atvikum skuld­breytt. Sóknaraðili hafi ekki tekið þessu tilboði.

                Með heimild í XIII. grein til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu hafi varnaraðilar krafist þess að gjaldþrotaskiptin yrðu endurupptekin. Til grundvallar gjaldþrotinu hafi legið stór og afger­andi skuld með ólögmæta gengis­trygg­ingu sem hafi ekki verið leiðrétt. Þar með liggi gjaldþrotaskiptamálið undir í heild, sem og ákvörðun skiptastjóra um að afsala fasteigninni að Hesthömrum 8, Reykja­vík, til sókn­ar­aðila. Ekki sé unnt að fallast á kröfu sóknaraðila um útburð varn­ar­aðila við þessar aðstæður og beri því að fresta þessu máli uns ljóst sé hver verði niður­staða endur­upp­töku­beiðn­innar. Ætla megi að allar kröfur sóknaraðila séu veð­tryggðar með full­nægj­andi hætti og ekki rök fyrir gjaldþrotaskiptum.

Niðurstaða

                Hinn 13. september 2010 var bú varnaraðila, Kristínar, tekið til gjald­þrota­skipta, að kröfu sóknaraðila og 18. janúar 2011 afsalaði skiptastjóri búsins sóknaraðila fasteign hennar að Hesthömrum 8, Reykjavík, með fastanúmerið 203-9035.

                Varnaraðili, Kristín, hefur óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að úrskurður í máli nr. G-392/2010 um töku bús hennar til gjald­þrota­skipta verði endur­upp­tekinn. Sú krafa mun enn vera til meðferðar fyrir dóminum. Vegna þessarar beiðni féllst héraðsdómur á, með úrskurði 7. desember sl., að fresta aðalmeðferð þessa máls þar til krafa Kristínar, í máli nr. G-392/2010, hefði end­an­lega verið leidd til lykta. Sókn­ar­aðili kærði úrskurð dómsins til Hæstaréttar og með dómi 11. janúar sl., í máli nr. 698/2011, var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

                Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars: „Sóknaraðili fékk afsal fyrir fast­eign­inni að Hesthömrum 8 í Reykjavík úr hendi þrotabús varnaraðila Kristínar Alfreðs­dóttur 18. janúar 2011, svo sem getið er í hinum kærða úrskurði. Bú þessa varnaraðila mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 13. september 2010. Hugsanleg endur­upp­taka á þeim úrskurði samkvæmt heimild í ákvæði XIII til bráðabirgða í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010 um breytingu á þeim lögum o. fl., getur ekki raskað ráðstöfunum eigna úr þrotabúinu sem þegar hafa átt sér stað. Beiðni varnaraðila Kristínar um endurupptöku á úrskurðinum er því ekki til þess fallin að hafa áhrif á úrslit þess máls sem frestað var með hinum kærða úrskurði, svo sem tilskilið er í lokaákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991.“

                Sóknaraðili á fasteignina að Hesthömrum 8, Reykjavík, og varnaraðilar, sem hafa neitað að gera við hann húsaleigusamning, dvelja þar án hans heimildar. Skorið hefur verið úr því að hugsanleg endurupptaka á úrskurði um töku bús varnar­aðila, Kristínar, til gjald­þrota­skipta getur ekki haft áhrif á eignarrétt sóknaraðila á fast­eign­inni.

                Þrátt fyrir að varnaraðilar séu afar ósáttir við framgöngu sóknaraðila við að inn­heimta þá kröfu sem hann telur sig eiga á hendur varnaraðilum er ekki hægt að byggja á slíkum málsástæðum í máli sem þessu. Varnaraðilar hafa ekki teflt fram öðrum málsástæðum til varnar þeirri kröfu sóknar­aðila að þau rými húsið en þeirri sem Hæstiréttur hefur þegar svarað. Af þeim sökum verður að fallast á kröfu sóknar­aðila.

                Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, verða varnaraðilar dæmdir til að greiða sókn­ar­aðila óskipt 120.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar var tekið tillit til þess að þrjár síðustu fyrirtökur málsins voru fyllilega óþarfar.

                Vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eru ekki efni til þess að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir málskostnaði og kostnaði af væntanlegri gerð.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Sóknaraðila, Arion banka hf., er heimilt að fá varnaraðila, Kristínu Alfreðs­dóttur og Kára Kort Jónsson, borin með beinni aðfarargerð út úr húsnæði sóknaraðila að Hesthömrum 8, Reykjavík, með fastanúmerið 203-9035, ásamt öllu sem tilheyrir varnaraðilum.

                Varnaraðilar greiði sóknaraðila óskipt 120.000 krónur í málskostnað.