Hæstiréttur íslands

Mál nr. 105/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð


                                     

Miðvikudaginn 29. febrúar 2012.

Nr. 105/2012.

Klifandi ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K ehf. þess efnis að krafa félagsins samkvæmt rafrænu skuldabréfi, sem lýst var við slit K hf., yrði viðurkennd við slitin  sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Vísað var til þess að K hf. hefði tilkynnt K ehf. um þá afstöðu sína að hafna áðurgreindri kröfu. K ehf. hefði ekki haft uppi andmæli við þeirri afstöðu og því teldist hún endanleg við slitin, sbr. 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 6. febrúar 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila þess efnis að kröfu hans samkvæmt skuldabréfi, auðkennt KAUP FLOAT 05/10-Isin XS0219823266, að fjárhæð 246.000 evrur auk vaxta að fjárhæð 7.870,84 evrur, yrði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Klifandi ehf., greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2012.

I

Mál þetta, sem þingfest var 23. júní 2011, var tekið til úrskurðar 4. þessa mánaðar.

Sóknaraðili, Klifandi ehf., Kjarna, Þverholti 2, Mosfellsbæ, krefst þess að krafa hans á hendur varnaraðila samkvæmt skuldabréfi, auðkennt KAUP FLOAT 05/10-Isin XS0219823266, að fjárhæð 246.000 EUR auk vaxta að fjárhæð 7.870,84 EUR, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila og að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins að meðtöldum virðisaukaskatti.

Varnaraðili, Kaupþing hf. (áður Kaupþing banki hf.), krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi sóknaraðila.

II

Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar hjá varnaraðila, vék félagsstjórn í heild þegar í stað frá störfum og skipaði varnaraðila skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002 eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 128/2008. Varnaraðili fékk heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og hinn 25. maí 2009 var skipuð slitastjórn í samræmi við 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið bráðabirgðaákvæðis II við þau lög.

Varnaraðili gaf út innköllun til kröfuhafa sem birtist í Lögbirtingablaði og skyldu kröfulýsingar hafa borist slitastjórn í síðasta lagi 30. desember 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu á hendur varnaraðila hinn 21. júlí 2009, kröfunni var lýst á grundvelli 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Reisti sóknaraðili kröfu sína á rafrænu skuldabréfi útgefnu af varnaraðila með því auðkenni og fjárhæð sem getið er í dómkröfum sóknaraðila. Í kröfulýsingunni er tekið fram að skuldabréfið hafi átt að greiða með einni greiðslu í maí 2010 en vextir hafi verið greiddir á þriggja mánaða fresti til vörsluaðila bréfsins sem var Landsbankinn í Lúxemborg. Sóknaraðili taldi að ógreiddir vextir við upphafsdag skiptanna hafi verið 7.870,84 EUR. Sóknaraðili gat þess einnig í kröfulýsingu sinni hver væri núverandi vörsluaðili bréfsins og nefndi hvaða starfsmenn þar mætti hafa samband við ef þörf væri á frekari upplýsingum.

Eftir að kröfulýsingarfresti lauk fékk sóknaraðili tilkynningu frá varnaraðila um að krafa hans hafi verið móttekin en engar óskir komu þar fram um frekari upplýsingar. Varnaraðili tók ekki afstöðu til kröfu sóknaraðila fyrr en fyrir skiptafund sem haldinn var 3. desember 2010 en áður höfðu varnaraðila í tvígang borist tilkynningar um að ákvörðun um afstöðu til kröfu hans hafi verið frestað. Sóknaraðili lýsir því í greinargerð sinni að hann hafi fylgst reglulega með framgangi mála og hvort afstaða hafi verið tekin til kröfu hans og hann hafi af þeim sökum beint fyrirspurnum til starfsmanna varnaraðila. Hann hafi fengið þau svör, 2. maí og 8. september 2010, að afstaða hafi ekki verið tekin til kröfu hans en ekki hafi verið óskað eftir frekari upplýsingum um efni kröfunnar.

Hinn 26. október 2010 barst sóknaraðila, en forsvarsmaður hans var þá staddur erlendis, bréf frá varnaraðila á ensku þar sem fram kom að kröfu hans hafi verið hafnað, inter alia, vegna þess að sóknaraðili hafi ekki látið svokallað „blocking number“ fylgja kröfu sinni. Í bréfinu er jafnframt tekið fram að skiptafundur verði haldinn kl. 10:00 á Hilton Hótelinu í Reykjavík og í síðasta lagi á þeim fundi skuli andmæli hafa borist gegn afstöðu varnaraðila til kröfunnar ella megi, með vísan til 3. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., búast við að afstaðan teljist endanleg. Mótmæli bárust ekki við afstöðu varnaraðila á eða fyrir boðaðan kröfuhafafund.

Sóknaraðili sendi varnaraðila bréf hinn 15. desember, tölvubréf þar sem hann óskaði eftir leyfi til að útvega „blocking number“ fyrir kröfu sína og lét þess getið að í kröfulýsingu hafi hann upplýst um vörsluaðila bréfsins en sá aðili einn geti útvegað slíkt númer. Hinn 28. desember 2010 sendi sóknaraðili varnaraðila upplýsingar um títtnefnt „blocking number“. Varnaraðili svaraði sóknaraðila með bréfi dagsettu 4. janúar 2011 þannig að þar sem mótmæli bárust ekki fyrir lok skiptafundar 3. desember 2010 teldist afstaðan endanleg. Í framhaldi af þessu áttu sér stað bréfasamskipti milli aðila án þess að þeim tækist að jafna ágreining sinn. Hinn 30. mars 2011 var haldinn árangurslaus fundur vegna ágreinings aðila og í framhaldi af því var málinu vísað til héraðsdóms.

III

Sóknaraðili heldur því fram að öll rök standi til þess að viðurkenna beri kröfu hans sem almenna kröfu, sbr. 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili telur að höfnun varnaraðila á kröfunni sé hvorki studd efnis- né lagarökum. Vöntun á svokölluðu „blocking number“ geti alls ekki réttlætt að krafa hans var ekki tekin til greina. Í því efni bendir sóknaraðili á að í innköllun þeirri er slitastjórn birti hinn 6. júlí 2009 sé þess ekki krafist að eigendur skuldabréfa, sem Kaupþing banki hf. gaf út og seldi á skipulögðum verðbréfamörkuðum, skyldu tilgreina númer þetta í kröfulýsingum sínum. Sóknaraðili telur einsýnt að varnaraðila var í lófa lagið að taka fram í innkölluninni að eigendur skuldabréfa ættu að tilgreina númerið við lýsingu kröfu sinnar. Það að sóknaraðili tilgreindi ekki númerið geti ekki leitt til þess að kröfu hans sé alfarið hafnað enda getur skortur á númerinu ekki talist slíkur annmarki á kröfulýsingu sóknaraðila að höfnun kröfunnar verði byggð á því. Í lögum sé ekki gerður áskilnaður um að umrætt númer sé forsenda þess að krafa verði viðurkennd sem almenn krafa í þrotabú. Sóknaraðili heldur því fram að kröfulýsing hans hafi uppfyllt öll skilyrði og kröfur sem lög gera ráð fyrir, þ.m.t. kröfur sem gerðar eru í 1. mgr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og áskilnað 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Sóknaraðili bendir á að upplýsingar um „blocking number“ geti vörsluaðili bréfs einn útvegað. Af því tilefni áréttar sóknaraðili að skýrt var tekið fram í kröfulýsingu hans hver væri vörsluaðili bréfsins og í þeim efnum tilgreindir tveir aðilar sem unnt var að hafa samband við ef ástæða þótti til, svo sem ef frekari upplýsinga var þörf.

Sóknaraðili heldur því fram að hann hafi gert allt sem í hans valdi var til að útvega númerið eftir að höfnun á kröfunni barst honum. Starfsmenn varnaraðila hafi virt þær tilraunir að vettugi og haldið sig við einstrengingslega afstöðu sína um höfnun kröfunnar. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að á heimasíðu varnaraðila sé að finna svar við því hvaða afleiðingar það hafi að títtnefnt númer vanti. Á síðunni komi fram að ef kröfu var lýst fyrir 30. desember 2009, sem sóknaraðili gerði, hafi hann tækifæri á að útvega númerið hjá vörsluaðila. Í þessu tilfelli hafi varnaraðili hafnað kröfunni áður en sóknaraðila gafst færi á að útvega númerið.

Sóknaraðili telur að varnaraðili hafi ekki á nokkurn hátt gert grein fyrir því hvaða önnur gögn hafi vantað með kröfulýsingu sóknaraðila. Sóknaraðili kveðst ekki geta séð hvaða gögn vanti vegna skuldabréfs sem hann á úr þeim skuldabréfaflokki sem varnaraðili seldi á mörkuðum á grundvelli sérstakrar skráningar og beri auðkennið KAUP FLOAT 05/10-Isin XS0219823166. Skráningin og öll önnur gögn um skuldabréfaflokkinn ættu að vera í fórum varnaraðila og skuldin samkvæmt skuldabréfinu auk þess hluti af skuldahlið efnahagsreiknings bankans sem var fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002. Sóknaraðili bendir á að samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga 161/2002 gildi reglur um skiptastjórn í þrotabúum í öllum megin­atriðum um slitastjórn fjármálafyrirtækis. Reglur um skiptastjórn séu síðan helstar í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Þannig sé skiptastjóri opinber sýslunarmaður meðan hann gegnir því starfi. Skiptastjóri sé í senn vörslumaður búsins og dómskipaður umboðsmaður allra kröfuhafa en hlutverk hans sé lögbundið og skiptastjóra sé skylt að gæta hagsmuna búsins í hvívetna. Skiptastjóri geti ekki ráðið því sjálfur hvernig hann hagar störfum sínum eða hvernig hann fer með málefni búsins. Í þessu tilfelli hafi höfnun skiptastjóra á kröfu sóknaraðila verið hrein markleysa og gengið þvert gegn þeim tilmælum sem varnaraðili hefur gefið út á heimasíðu sinni www.kaupthing.com og hvorki studd efnis- né lagarökum, sbr. það sem áður er getið. Þess vegna standi öll rök til þess að krafa sóknaraðila verði tekin til greina og viðurkennd sem almenn krafa í búið líkt og krafist er, enda hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að höfnun hans á kröfunni sé reist á lögmætum sjónarmiðum.

Varðandi kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila vísar sóknaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Varnaraðili heldur því fram að hafna beri kröfum sóknaraðila vegna þess að sóknaraðili hafi ekki sett fram andmæli sín innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 1. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Afstaða til kröfu sóknaraðila teljist þannig endanleg í skilningi 3. mgr. 120. gr. sömu laga. Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að ágreiningslaust er að hann hafi tilkynnt sóknaraðila um afstöðu sína í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991 og þar af leiðandi með fullnægjandi hætti. Sóknaraðila hafi verið sent bréf hinn 26. október 2010 þar sem afstaða varnaraðila til kröfu hans kom fram, auk þess sem skýrlega hafi verið tekið fram hverjar afleiðingar það hefði ef afstöðunni yrði ekki mótmælt, í síðasta lagi á fundi kröfuhafa hinn 3. desember 2010. Kröfuhafafundur, þar sem m.a. var fjallað um afstöðu til kröfu sóknaraðila, hafi verið haldinn á boðuðum tíma og því hafi sóknaraðili haft rúman mánuð til þess að bregðast við og andmæla afstöðunni í samræmi við það sem tekið er fram í 1. mgr. 120. gr. nefndra laga. Afstaða varnaraðila til kröfunnar hafi ekki orðið endanleg fyrr en fundi kröfuhafa lauk 3. desember 2010 og því hafði sóknaraðili rúman tíma til að bregðast við.

Varnaraðili bendir á að sóknaraðili gerði ekki reka að því að koma andmælum sínum á framfæri, hvorki fyrir fundinn né á honum líkt og áskilið er af þeim kröfuhöfum sem ekki vilja una afstöðu skiptastjóra, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sem leiðir til þess að afstaða varnaraðila telst endanleg. Í því felst að afstaðan til kröfunnar er ekki eingöngu bindandi fyrir sóknaraðila heldur varnaraðila einnig. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. komi regla þessi skýrt fram. Þar sé vísað í hliðstætt ákvæði 60. gr. frumvarps til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. en þar segi: „Í 60. gr. frumvarpsins er síðan að finna reglur um hvernig því verði ráðið til lykta hvort eða hvernig einstakar kröfur verði viðurkenndar við skiptin, en þær eru hliðstæðar ákvæðum 110. gr. laga nr. 6/1978. Í 60. gr. kemur nánar fram að sú afstaða skiptastjóra til viðurkenningar hverrar kröfu um sig, sem honum er ætlað að setja fram í kröfuskrá, hafi öðru fremur þýðingu í þessum efnum því að sé afstöðu hans ekki mótmælt bréflega eða munnlega á skiptafundinum sem boðað er til eftir 2. mgr. 59. gr. telst hún endanleg niðurstaða um viðurkenningu kröfunnar við búskiptin, sbr. 3. mgr. 60. gr. Gildir einu í þessu sambandi hvort afstaða skiptastjóra sé sú að viðurkenna eigi tiltekna kröfu að fullu, að vissum hluta eða að engu leyti og bindandi áhrif afstöðunnar eru þau sömu fyrir alla hlutaðeigendur vort sem er erfingja, kröfuhafa og skiptastjóra sjálfan.“ Varnaraðili heldur því fram að samkvæmt framanrituðu sé ljóst að skýr fyrirmæli 3. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. leiði til þess að afstaða varnaraðila til kröfu sóknaraðila hafi verið endanleg í skilningi ákvæðisins og enga heimild að finna í lögum fyrir varnaraðila að breyta afstöðu sinni. Varnaraðili heldur því fram að þessi skilningur hans hafi verið staðfestur í dómaframkvæmd.

Varnaraðili heldur því enn fremur fram að ákvæði 3. mgr. 120. gr. títtnefndra laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sé ófrávíkjanleg og sóknaraðili verði að bera hallann af eigin aðgerðarleysi. Önnur niðurstaða er að mati varnaraðila ótæk. Þetta leiði til þess að hafna beri þeirri staðhæfingu sóknaraðila að öll rök standi til þess að krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa við slitameðferð varnaraðila.

Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðila að afstaða hans til kröfunnar hafi ekki verið reist á efnis- eða lagarökum m.a. sökum þess að í innköllun varnaraðila hafi ekki verið tekið fram að kröfuhöfum skuldabréfakrafna væri nauðsynlegt að tilgreina „blocking number“ í kröfulýsingum sínum. Varnaraðila hafi verið skipuð slitastjórn 25. maí 2009 en reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gildi um hana. Ein af skyldum slitastjórnar hafi verið að gefa út innköllun til kröfuhafa og fá hana birta í Lögbirtingablaði og það hafi verið gert og innköllun birst í blaðinu 30. júní og 6. júlí 2009. Innköllunin hafi verið í samræmi við ákvæði 85. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og innihaldið allar þær upplýsingar sem ákvæðið gerir ráð fyrir. Kröfulýsingar­frestur hafi verið til 30. desember 2009. Varnaraðili heldur því fram að lög um gjaldþrotaskipti o.fl. geri ekki ráð fyrir að í innköllun sé gerð grein fyrir öllum þeim upplýsingum og gögnum sem fylgja þurfi kröfulýsingum. Kröfuhafar verði sjálfir að fylgja fyrirmælum 117. gr. laganna og fullnægja þeim skilyrðum sem þar koma fram. Varnaraðili hafi hins vergar leitast við að birta á heimasíðu sinni upplýsingar sem nýst gætu kröfuhöfum. Varnaraðili telur að sjónarmið sóknaraðila þess efnis að allar upplýsingar um fylgigögn með kröfum skuli tilgreindar í innköllun séu óraunhæfar, enda séu kröfur af margvíslegum toga.

Sóknaraðili hafi líkt og aðrir kröfuhafar þurft að sanna eignarhald sitt á kröfunni sem hann lýsti, sbr. 117. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili hafi ákveðið að setja upp kerfi sem auðveldaði eigendum rafrænt skráðra skuldabréfa að sanna eignarhald sitt á bréfunum og sett upplýsingar þar um á heimasíðu sína líkt og aðrar upplýsingar sem ætlaðar voru kröfuhöfum. Varnaraðili segist hafa farið fram á að þeir sem lýstu kröfum vegna rafrænt skráðra skuldabréfa útveguðu sér „blocking number“ og gerðu grein fyrir því í kröfulýsingu sinni. Varnaraðili segir að númer þessi auðveldi honum að sannreyna eignarhald og fjárhæðir rafrænt skráðra skuldabréfa þó svo að þau verði ekki skoðuð sem einhlít sönnun á eignarhaldinu en þessi leið hafi verið farin til einföldunar. Varnaraðili segir að með útgáfu „blocking number“ auð­kenni viðkomandi vörsluaðili tilteknar skuldabréfastöður, þ.e. að tiltekin skuldabréf að ákveðinni fjárhæð og tegund séu í rafrænni vörslu hjá honum. Númerin séu tengd við ákveðnar upplýsingar hjá vörsluaðila skuldabréfanna, m.a. svokölluð „ISIN númer“ skuldabréfanna, höfuðstól þeirra og gjaldmiðil. Varnaraðili beri síðan saman upp­lýsingar sem fram koma í kröfulýsingu við þær upplýsingar sem aflað er hjá vörsluaðila og metur hvort fullnægjandi sönnun á eignarhaldi hafi tekist. Hin svokölluðu „blocking number“ eru því verkfæri sem nýtt eru til að auðvelda yfirferð og til að sannreyna skuldabréfakröfur. Í þessu tilfelli hafi sóknaraðili líkt og aðrir kröfuhafar þurft að sækja um og fá slíkt númer fyrir sinni kröfu til þess að varnaraðili gæti sannreynt eignarhald sóknaraðila á kröfu þeirri sem hann lýsti ella þurfti sóknaraðili að leggja fram annars konar sönnun á eignarhaldi sínu á skuldabréfinu. Varnaraðili bendir á að hann hafi sett leiðbeiningar á heimasíðu sína varðandi tilgang númeranna og hvernig unnt væri að útvega þau en kröfuhöfum hafi verið veitt svigrúm til að útvega númerin eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Þá hafi verið tekið fram að ef „blocking number“ yrði ekki aflað gæti það haft áhrif á möguleika varnaraðila til að sannreyna kröfur og taka afstöðu til réttmætis þeirra. Sóknaraðila hafi því mátt vera ljóst að hann hafi þurft að útvega númerið eða önnur gögn til að sanna eignarhald sitt á kröfu þeirri sem hann lýsti.

Þar sem sóknaraðili hafði ekki gert varnaraðila grein fyrir margnefndu númeri vegna kröfu sinnar áður en varnaraðili tók afstöðu til hennar var kröfunni hafnað. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi haft möguleika á að halda kröfu sinni við allt fram til 3. desember 2010 með því að andmæla afstöðu varnaraðila og í framhaldi af því gera grein fyrir númerinu líkt og aðrir kröfuhafar sem eins var ástatt um. Það hafi sóknaraðili hins vegar ekki gert, þrátt fyrir skýr fyrirmæli 1. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Tómlæti sóknaraðila sé einkennilegt, einkum þegar höfð eru í huga þau ummæli hans að hann hafi reglulega fylgst með gangi mála. Varnaraðili hafnar því fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að honum hafi ekki verið gefið tækifæri til að útvega „blocking number“. Þá sé augljóst að sóknaraðili hafði öll tök á að andmæla afstöðu varnaraðila og leggja númerið fram eða sanna með öðrum hætti eignarhald sitt á kröfu þeirri sem hann lýsti, enda var til þess nægur tími og svigrúm.

Varnaraðili hafnar þeim fullyrðingum sóknaraðila að afstaða hans til hinnar umþrættu kröfu hafi verið markleysa þar sem hún hafi hvorki grundvallast á efnis- eða lagarökum og að varnaraðila hafi verið óheimilt að byggja afstöðu sína á því að „blocking number“ vantaði. Í þessu sambandi vísar varnaraðili til 1. mgr. 119. gr. laga um gjaldþrotaskipti en þar komi efnislega fram að skiptastjóri þrotabús skuli taka sjálfstæða afstöðu til þeirra krafna sem lýst er. Í athugasemdum með frumvarpinu sem síðar varð að lögum sé vísað til athugasemda með 59. gr. frumvarps til laga nr. 21/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., en þar komi fram að beinlínis sé mæt fyrir um að skiptastjóri skuli taka sjálfstæða afstöðu til viðurkenningar krafna, en með því orðalagi sé átt við að hann eigi til dæmis ekki að leita eftir afstöðu erfingja eða annarra til einstakra krafna áður en hann geri kröfuskrá, heldur eigi hann að meta hvort sýnt sé nægilega fram á réttmæti kröfu í kröfulýsingu og þeim gögnum sem henni fylgi, eftir atvikum í ljósi gagna sem hann kann að hafa undir höndum. Varnaraðili telur því ljóst að samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi honum borið skylda til að taka sjálfstæða afstöðu til kröfu sóknaraðila líkt og til annarra krafna sem lýst var óháð því hvað sóknaraðila eða öðrum kröfuhöfum kynni að þykja um þá afstöðu sem hann tók hverju sinni. Í samræmi við 1. mgr. 119. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi hann tekið sjálfstæða afstöðu til kröfu sóknaraðila og metið það svo að réttmæti kröfunnar væri ekki sannað á þeirri forsendu að sönnun á eignarhaldi kröfunnar lægi ekki fyrir.

Þegar framangreint sé haft í huga sé það mat varnaraðila að ágreiningur máls þessa lúti ekki að því hvort afstaða varnaraðila sé studd efnis- eða lagarökum líkt og sóknaraðili heldur fram í greinargerð sinni. Þvert á móti afmarkist ágreiningurinn við það eitt, hvort viðurkenna beri kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu við slitameðferð varnaraðila, enda þótt afstaða til kröfu sóknaraðila teljist endanleg í skilningi 3. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem sóknaraðili sniðgekk með aðgerðarleysi sínu ákvæði 1. mgr. 120. gr. sömu laga. Varnaraðili bendir einnig á í þessu sambandi að þegar kröfuhafar una ekki afstöðu skiptastjóra til krafna sinna ber þeim að andmæla þeirri afstöðu í samræmi við það sem fram kemur í nefndri 1. mgr. 120. gr. Ef aðilar geta síðan ekki jafnað ágreining sinn á sérstökum fundi, sbr. ákvæði 2. mgr. 120. gr., beri skiptastjóra að vísa ágreiningnum til héraðsdóms, sbr. 171. gr. laganna, sem síðan leysir úr honum. Þessi lagaákvæði lýsi því ferli sem löggjafinn hefur ætlast til að farið verði eftir við úrlausn ágreiningsmála við gjaldþrotaskipti. Sóknaraðila hafi því borið að fara eftir þessum fyrirmælum ef hann ekki undi afstöðu varnaraðila til kröfu sinnar í stað þess að leggja sjálfstætt mat á það hvort afstaða varnaraðila var reist á efnis- og lagarökum. Það sé í verkahring varnaraðila og eftir atvikum dómstóla að skera úr um réttmæti einstakra krafna.

Varnaraðili heldur því fram að í ákvæði 3. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. felist hlutlæg og ófrávíkjanleg lagaregla. Undantekning frá henni kunni þó að vera til staðar berist kröfuhafa, sem ekki andmælir afstöðu skiptastjóra, sannanlega ekki tilkynning skiptastjóra um afstöðu til kröfunnar, sbr. 2. mgr. 119. gr. nefndra laga. Í máli þessu sé hins vegar ágreiningslaust að sóknaraðila barst tilkynning varnaraðila þar sem kröfu hans var hafnað 26. október 2010. Varnaraðili telur einnig að við skýringu á 3. mgr. 120. gr. verði að hafa í huga þá meginreglu gjaldþrota­skiptaréttar að jafnræði skuli ríkja með kröfuhöfum um fullnustu krafna þeirra og að samkvæmt almennum lögskýringarreglum beri að túlka undantekningar frá grunnreglu þröngt. Þetta leiði til þess, ef fallist verði á kröfu sóknaraðila, að farið sé gegn þessari meginreglu. Í raun gildi einu á hvaða grundvelli og með hvaða rökum varnaraðili hafnaði kröfu sóknaraðila svo legi sem sóknaraðila barst tilkynning um höfnunina í samræmi við 2. mgr. 119. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili heldur því fram að framangreind rök hans leiði til þess að hafna verði kröfum sóknaraðila.

Hvað lagarök varðar vísar varnaraðili til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 19/1991 og þá er krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Niðurstaða

Atvik máls þessa eru að mestu óumdeild. Fyrir liggur að bú varnaraðila var tekið til slitameðferðar og að frestur til að lýsa kröfum í bú hans rann út 30. desember 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni innan tilskilins frests. Afstaða var ekki tekin til kröfu sóknaraðila fyrr en fyrir kröfuhafafund sem haldinn var 3. desember 2010 en áður hafði sóknaraðila í tvígang borist bréf frá varnaraðila þar sem honum var tilkynnt að frestað yrði að taka afstöðu til kröfu hans. Sóknaraðila var síðan tilkynnt með ábyrgðarbréfi hinn 26. október 2010 að kröfu hans hefði verið hafnað og honum gefinn kostur á að mótmæla afstöðu varnaraðila en mótmælin yrðu að koma fram í síðasta lagi á kröfuhafafundinum 3. desember 2010. Sóknaraðili mótmælti afstöðunni fyrst 15. desember 2010 en varnaraðili féllst ekki á að taka kröfu sóknaraðila til greina og eftir fund þar sem reynt var að jafna ágreininginn var málinu skotið til héraðsdóms.

Fallast má á með sóknaraðila að kröfulýsing hans hafi uppfyllt formskilyrði þau sem fram komu í innköllun varnaraðila, en þar kemur fram hver eigi kröfuna, hver krafan sé, á hvaða grundvelli kröfunni er lýst, að krafan sé reist á rafrænu skuldabréfi úr ákveðnum flokki skuldabréfa og hvar hún sé vistuð, auk þess sem nefndir eru tveir starfsmenn hjá vistunaraðila sem geti gefið frekari upplýsingar um kröfuna.

Á þeim tíma sem sóknaraðili lýsti kröfu sinni hafði varnaraðili ekki tekið upp kerfi til að sannreyna eignarhald á rafrænum skuldabréfakröfum sem byggist á margnefndu „blocking number“. Þegar til þess kom að varnaraðili tók afstöðu til kröfu sóknaraðila taldi hann að sönnun fyrir eignarhaldi kröfunnar lægi ekki fyrir og hafnaði kröfunni. Í bréfi varnaraðila til sóknaraðila, sem móttekið var hinn 26. október 2010, er tekið fram að kröfunni sé, inter alia, þ.e. meðal annars, hafnað vegna þess að „blocking number“ vantar og síðan er þess getið hverju það varði verði andmælum við afstöðuna ekki komið á framfæri í síðasta lagi á kröfuhafafundi 3. desember 2010. Bréfið er á ensku en sóknaraðili hefur ekki borið það fyrir sig og þá hefur hann heldur ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki skilið innihald þess.

Að mati dómsins standa engin lagarök til þess að varnaraðila hafi verið skylt að samþykkja kröfu sóknaraðila líkt og sóknaraðili heldur fram og af þeim sökum beri að taka kröfuna til greina. Varnaraðili heldur því fram að honum hafi þótt skorta upp á að eignarhald kröfunnar væri ljóst og því hafi hann hafnað kröfunni. Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 119. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. tilkynnti varnaraðili sóknaraðila um afstöðu sína. Sóknaraðili hafði tækifæri allt þar til skiptafundi lauk 3. desember 2010 til að andmæla afstöðu varnaraðila og í framhaldi af því afhenda varnaraðila gögn sem sannreyna eignarhald hans á kröfunni. Sóknaraðili hafði ekki uppi mótmæli við afstöðu slitastjórnar innan þess frests sem gefinn er í 1. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Afstaða slitastjórnar telst því endanleg við skiptin, sbr. 3. mgr. 120. gr. nefndra laga. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila.

Með hliðsjón af málsatvikum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu varnaraðila Feldís L. Óskarsdóttir héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari, sem fékk mál þetta til meðferðar 17. október sl., kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Klifanda ehf., þess efnis að krafa hans á hendur varnaraðila, Kaupþingi hf., samkvæmt skuldabréfi, auðkennt KAUP FLOAT 05/10-Isin XS0219823266, að fjárhæð 246.000 EUR auk vaxta að fjárhæð 7.870,84 EUR verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila.

Málskostnaður fellur niður.