Hæstiréttur íslands

Mál nr. 393/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Matsmenn
  • Þóknun


                                     

Föstudaginn 15. júní 2012.

Nr. 393/2012.

Þröstur Sigurðsson og

Kjartan Arnfinnsson

(Guðmundur Ágústsson hrl.)

gegn

þrotabúi Baugs Group hf.

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

Kærumál. Matsmenn. Þóknun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem þóknun til handa Þ og K, vegna vinnu þeirra við matsgerð sem lögð var fram í tveimur einkamálum, var ákveðin 56.000.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2012, þar sem þóknun til handa sóknaraðilum vegna vinnu þeirra við matsgerð, sem lögð var fram í máli þessu og  öðru einkamáli, var ákveðin 56.000.000 krónur. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að fallist verði á kröfu þeirra um „fulla greiðslu samkvæmt fyrirliggjandi reikningum vegna matsvinnu.“ Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2012.

I.

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að kröfu stefnanda 26. apríl sl. um hæfilega þóknun matsmanna, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Baugs Group hf., Efstaleiti 5 í Reykjavík, gegn Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., Engjateigi 5 í Reykjavík, Eignarhaldsfélaginu ISP ehf., Sóleyjargötu 11 í Reykjavík, Gaumi Holding S.A., 35a Avenue J.F. Kennedy í Lúxemborg og Bague S.A., með aðsetur á sama stað, með stefnu sem árituð var af lögmanni framangreindra stefndu 16. febrúar 2010, og gegn Banque Havilland S.A., 35a Avenue J.F. Kennedy í Lúxemborg, og Pillar Securitisation S.à r.l., með aðsetur á sama stað, með stefnum birtum í Lúxemborg 18. febrúar 2010.

         Í málinu krefst stefnandi riftunar á nánar tilgreindum greiðslum Baugs Group hf. til stefndu Fjárfestingafélagsins Gaums ehf., Eignarhaldsfélagsins ISP ehf., Gaums Holding  S.A. og Bague S.A. 11. og 14. júlí 2008 auk riftunar á greiðslu stefnda Bague S.A. til Kaupthings Bank Luxembourg S.A. sem fór fram 15. júlí 2008. Stefnandi krefst enn fremur endurgreiðslu þeirra fjárhæða, sem Baugur Group hf. innti ef hendi í umrætt sinn, frá öllum stefndu auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Nema fjárkröfurnar samtals 15.058.128.814 krónum.

         Í þinghaldi í málinu 6. desember 2010 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Laut matsbeiðnin að verði hluta í Baugi Group hf. að nafnvirði 314.000.000 króna, sem félagið keypti 30. júní 2008, og nánar tilgreindum atriðum er tengjast fjárhagslegri stöðu Baugs Group hf. á sama tíma. Eins og fram kemur bæði í stefnu og í matsbeiðninni telur stefnandi að verð á umræddum hlutum í félaginu hafi ekki samrýmst raunverulegu verðmæti þeirra, en riftunarkrafan í málinu beinist að þeim greiðslum sem Baugur Group hf. innti af hendi fyrir þessa hluti. Því sem meta átti var lýst með eftirfarandi hætti í matsbeiðninni:

A. Matsliður 1-6. Eigna- og skuldastaða Baugs Groups hf. 30. júní 2008

      Fyrir liggur óendurskoðaður árshlutareikningur Baugs Group hf. fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2008 ásamt sundurliðunum („árshlutareikningurinn“).

      1.   Hvert var verðmæti heildarskulda Baugs Group hf. samkvæmt árshlutareikningnum?

      2.   Hvert var vænt söluvirði eftirtalinna eigna Baugs Group hf. þann 30. júní 2008: a) Iceland Foods Group Ltd. b) Mosaic Fashions hf. og c) Highland Group Holdings Ltd (House of Fraser)?

      3.   Hver er mismunur á væntu söluvirði þeirra eigna Baugs Group hf. þann 30. júní 2008 sem taldar eru upp í matslið 2 annars vegar og bókfærðu verði þeirra hins vegar?

      4.   Hvert var verðmæti heildareigna Baugs Group hf. þann 30. júní 2008 þegar verðmæti eigna samkvæmt árshlutareikningum hefur verið leiðrétt í samræmi við matslið 3 hér að ofan og að frádregnu verðmæti eigin hlutabréfa Baugs Group hf. sem eignfærð voru í árshlutareikningnum?

      5.   Hvert var eigið fé Baugs Group hf. þann 30. júní 2008 að teknu tilliti til niðurstaðna matsliða 1-4 hér að ofan?

      6.   Hvert var innra virði Baugs Group hf. þann 30. júní 2008 að teknu tilliti til niðurstaðna matsliða 1-5 hér að ofan?

      B. Matsliður 7. Verð hlutabréfa í Baugi Group hf. 30. júní 2008.

      7. Hvert var eðlilegt kaupverð fyrir hlutafé Baugs Group hf. að nafnvirði 314.000.000,- kr. sem Baugur Group hf. keypti þann 30. júní 2008, að teknu tilliti til niðurstaðna matsliða 1-6 hér að ofan?“

         Í endanlegri matsbeiðni, sem lögð var fram í þinghaldi 12. janúar 2011, voru matsþolar tilgreindir allir stefndu auk Kaupþings banka hf. Bankinn mótmælti því að umbeðið mat færi fram gagnvart honum. Með úrskurði 8. febrúar 2011 var komist að þeirri niðurstöðu að dómkveðja skyldi tvo matsmenn til að framkvæma matið samkvæmt matsbeiðninni. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 30. mars 2011. Í þinghaldi 14. apríl 2011 voru matsmennirnir Kjartan Arnfinnsson, löggiltur endurskoðandi, og Þröstur Sigurðsson, viðskiptafræðingur, dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat. Matsgerð þeirra var lögð fram 20. febrúar sl. Sama matsgerð var einnig lögð fram í máli E-627/2011: Þrotabú Baugs Group hf. gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, en matsmenn höfðu einnig verið dómkvaddir til að meta sömu atriði í því máli.

         Hinn 30. mars 2012 barst dómara í þessu máli krafa stefnanda um úrskurð um hæfilega þóknun til handa matsmönnunum vegna vinnu þeirra við matsgerð í héraðsdómsmálunum E-2356/2010 og E-627/2011, sbr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til að fjalla um þessa kröfu voru matsmenn boðaðir til þinghalds 20. apríl sl. þar sem þeir lögðu fram skriflegar athugasemdir við kröfu stefnanda auk fylgigagna. Gera þeir kröfu um að dómurinn samþykki framlagðan kostnað matsmanna í ofangreindum dómsmálum. Málið var munnlega flutt um ágreiningsefni þetta 26. apríl sl. og það síðan tekið til úrskurðar. Við munnlegan málflutning var stefndu gefið færi á að lýsa afstöðu sinni til þessa ágreinings milli matsbeiðanda og matsmanna. Tóku þeir undir meginsjónarmið matsbeiðanda.

II.

1. Helstu sjónarmið matsbeiðanda

         Matsbeiðandi, stefnandi í málinu, rökstyður kröfu sína á þá leið að framlagðir reikningar matsmanna fyrir vinnu við matsgerðina teljist ekki hæfileg þóknun í skilningi 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991. Reikningarnir nemi samtals 77.238.590 krónum án virðisaukaskatts, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 1.125.000 krónur. Matsbeiðandi telur að fjárhæðin sé of há og ósanngjörn og teljist því ekki hæfileg. Tekur hann fram að reikningar vegna vinnu matsmannsins Kjartans Arnfinnssonar og hans aðstoðarfólks, sem gefnir hafi verið út af KA Endurskoðun sf., hafi alls numið 32.846.040 krónum eftir að felldir höfðu verið niður 83,5 tímar af upphaflegri tímaskráningu. Hefði þá verið tekið tillit til 10% afsláttar. Reikningar vegna vinnu matsmannsins Þrastar Sigurðssonar og hans aðstoðarfólks hafi verið gefnir út af Capacent ehf. og numið alls 44.392.550 krónum auk útlagðs kostnaðar, 1.125.000 krónur.

         Matsbeiðandi byggir á því að sá heildarkostnaður sem matsmenn geri kröfu um sé ekki í nokkrum takti við sambærilega matsvinnu og verulega hærri en tíðkist í sambærilegu mati. Samkvæmt tímaskýrslum matsmanna hafi vinna við matið hafist 2. apríl 2011 og lokið 20. febrúar 2012. Reikningsfærðir tímar séu alls 2.719 klst. hjá Þresti og hans aðstoðarfólki (sex starfsmenn, þar af tveir í einungis um dags vinnu) og 1.775,5 klst. hjá Kjartani og hans aðstoðarfólki (3 starfsmenn, þar af einn í eins dags vinnu). Síðan hafi 83,5 tímar verið bakfærðir af tímum Kjartans. Samtals séu því reikningsfærðir 4.411 klst. vegna matsgerðarinnar, sem jafngildi um 27 mánuðum eða tveimur árum og þremur mánuðum miðað við einn starfsmann.

         Á það er bent af hálfu matsbeiðanda að Capacent hafi unnið nokkur verðmöt á félögum fyrir Baug Group hf. áður en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Matsbeiðandi hafi áður en matsmenn voru dómkvaddir leitað upplýsinga um kostnað við að verðmeta þau þrjú félög sem tilgreind séu í matslið 2. Hinn 9. desember 2010 hafi matsbeiðandi fengið í hendur ráðningabréf / verklýsingu frá Capacent Fjárfestingaráðgjöf hf. um verðmat á umræddum félögum. Þar hafi verið talið að þóknun fyrir matið næmi 6,5 milljónum króna auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar. Matsbeiðandi tekur fram að hann hafi gert sér grein fyrir að matsbeiðnin væri viðameiri en einungis verðmat á umræddum þremur félögum og að matsgerðin kynni þar af leiðandi að kosta meira. Hann hafi hins vegar ekki gert ráð fyrir að matsgerðin yrði um tólf sinnum dýrari.

         Matsbeiðandi tekur fram að í lok október 2012 hafi skráðir tímar hjá Þresti og hans aðstoðarfólki verið 1.473,5 klst. og 909,25 klst. hjá Kjartani og hans aðstoðarfólki. Á þeim tíma hafi matsmenn talað um að matið væri alveg að líta dagsins ljós. Því sé erfitt að skilja hvernig standi á því að 2.196,35 klst. bætist við eftir það, eða 13,5 mánaða vinna miðað við einn starfsmann.

         Matsbeiðandi tekur fram að vissulega hafi hann gert ráð fyrir að kostnaður við matsgerðina yrði talsverður, enda kalli verðmöt jafnan á vel ígrundaða vinnu þar sem forsendur séu margar og óvissa um framtíð oft mikil. Hins vegar hafi hann ekki reiknað með að kostnaðurinn yrði óheyrilegur og algerlega úr takti við það sem áður hafi sést. Matsbeiðandi tekur fram að stór hluti matsgerðarinnar fari í umfjöllun um svokölluð samanburðarfélög, en niðurstaða um þau sé síðan einungis höfð til hliðsjónar en hafi ekki verið ráðandi þáttur.

         Af hálfu matsbeiðanda er enn fremur vísað til þess að tímaskýrslur matsmanna séu að mjög takmörkuðu leyti sundurliðaðar og því erfitt að gera sér grein fyrir nákvæmlega með hvaða hætti kostnaður hafi fallið til. Verði það eitt og sér að teljast verulegur annmarki á vinnu matsmanna. Þá bendir matsbeiðandi á að samkvæmt e-lið 1. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála teljist þóknun matsmanns til málskostnaðar og geti því eftir atvikum einnig kunnað að skipta gagnaðila matsbeiðanda verulegu máli.

2. Helstu sjónarmið matsmanna

         Í athugasemdum matsmanna er framgangur matsins rakinn. Tekið er fram að við upphaf verkefnisins hafi annar matsmanna verið í samskiptum við lögmann matsbeiðanda um kostnað. Hafi lögmaðurinn verið upplýstur um framgang matsins allan verktímann með símtölum. Samkomulag hafi náðst um að matsmenn gæfu 10% afslátt af 25.900 króna tímagjaldi sínu vegna umfangs verkefnisins. Þar sem verkefnið hafi verið umfangsmikið og fyrirsjáanlegt hafi verið að það tæki nokkurn tíma sem og að matsmenn þyrftu að leggja út fyrir kostnaði við gagnaöflun, hafi verið samþykkt að greiddar yrðu 4.000.000 króna inn á verkefnið til hvors matsmanns auk virðisaukaskatts.

         Á það er bent af hálfu matsmanna að óskað hafi verið eftir verðmati á félögum á einhverjum mestu óvissutímum í efnahagsumhverfi fyrirtækja síðustu áratugi. Því hafi verið mikilvægt að greina hver framtíðarsýn manna hafi verið um efnahagsástand í júní 2008. Töluverð vinna hafi farið í þá greiningu. Niðurstöður hennar hafi verið mikilvægt innlegg í verðmat samkvæmt þeirri meginaðferð sem beitt hafi verið við framkvæmd verðmatsins, þ.e. núvirðingu frjáls fjárflæðis. Tekið er fram að við mat samkvæmt þessari aðferð þurfi að gefa sér forsendur um þætti eins og þróun rekstrar í nánustu framtíð og einnig til lengri framtíðar, hvaða breytingar yrðu í tekjum, kostnaðarsamsetningu og fjárfestingum félagsins.

         Af hálfu matsmanna er tekið fram að ítrekað hafi verið óskað eftir upplýsingum frá matsbeiðanda og –þolum um framtíðaráætlanir stjórnenda umræddra félaga. Þær hafi ekki borist og því hafi þurft að leita upplýsinga annars staðar. Hafi orðið úr að leita forsendna annars vegar í félögum, sem hafi verið í sama eða sambærilegum rekstri og þau félög sem átti að meta, og hins vegar í almennri þróun efnahags. Matsmenn taka þó fram að slík samanburðargreining hefði einnig verið nauðsynleg þó að gögn um framtíðaráætlanir félaganna hefðu borist. Með þessu leggja matsmenn áherslu á nauðsyn ítarlegrar samanburðargreiningar, en taka jafnframt fram að byggt hafi verið upp líkan til að framkvæma greininguna. Þegar beiðni hafi borist matsmönnum um að miða matið einnig við október 2008 vegna annars dómsmáls (E-1613/2010) hafi þurft að uppfæra líkanið. Það hafi tekið nokkurn tíma. Dómsátt hafi síðan náðst í því máli.

         Þegar fyrir hafi legið að dómsátt hefði náðst í fyrrgreindu máli segja matsmenn að óskað hafi verið eftir því að þeir legðu fram reikninga fyrir þeirri vinnu sem unnin hefði verið vegna þess máls. Þar sem það hafi þótt ljóst að vinna vegna dómsmálanna þriggja skaraðist verulega hafi það orðið niðurstaðan að reiknuð skyldi hlutdeild málsins í samanlögðum áföllnum kostnaði við málin þrjú. Hafi verið talið að um fjórðungur af áföllnum kostnaði hjá Capacent skyldi heimfærður á þetta verkefni eða samtals 4.051.823 krónur að teknu tilliti til 450.203 króna afsláttar. Áfallinn kostnaður á þessum tíma hafi numið 22.757.607 krónur að teknu tilliti til 2.538.623 krónu aflsáttar. Á sama tíma hafi KA Endurskoðun gert reikning að fjárhæð 3.631.657 krónur vegna 215,75 klst. vinnu sem þá hafi verið um 24% af heildartímafjölda til þess dags sem matsmenn hafi verið beðnir um að hætta vinnu við mál nr. E-1613/2010. Á þessum tíma hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir við ráðstöfun tíma eða tímagjald matsmanna.

         Boðað hafi verið til matsfundar vegna máls nr. E-627/2011 19. október 2011 og hafi fundurinn verið fyrirhugaður 8. nóvember sama ár. Hafi þá verið miðað við að matinu myndi ljúka 30. nóvember 2011. Í fundarboðun hafi verið ítrekað við aðila að þeir legðu fram þau gögn sem þeir teldu mikilvæg ekki síðar en 7. nóvember það ár. Þar hafi einnig komið fram að nú færi að líða að því að matsgerð kæmist í lokavinnslu. Á fundinum hafi matsmenn síðan upplýst að þeir teldu að skýrslunni yrði skilað um miðjan desember 2011. Hafi það verið í fyrsta skipti sem upp hafi verið gefnar tímasetningar um áætluð skil verkefnisins af hálfu matsmanna. Forsendur þeirrar áætlunar hefðu hins vegar breyst nokkuð þegar fulltrúar matsþola hafi lagt áherslu á að matsmenn ættu fundi með fyrrverandi stjórnendum Baugs Group hf. Matsmenn hafi af þessu tilefni átt fundi 14. nóvember 2011 með Stefáni Hilmarssyni, fyrrverandi fjármálastjóra félagsins, og 2. desember sama ár með Gunnari Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra félagsins. Á síðari fundinum hafi komið fram að Gunnar teldi rétt að kanna hvort hann ætti gögn sem nýst gætu við matið og að leitað yrði heimildar stjórnenda hinna erlendu félaga sem matið laut að um að afhenda slík gögn. Þetta hafi ekki gengið eftir. Þessi niðurstaða hafi ekki legið fyrir fyrr en í febrúar sl.

         Matsmenn taka fram að þar sem matsbeiðandi hafi lagt ríka áherslu á það að ekki yrðu frekari tafir á verkefninu hafi matsmenn lagt allt kapp á að láta þá upplýsingaöflun sem matsþoli hafði óskað eftir ekki tefja verkskil um of. Um þetta hafi aðilar verið upplýstir og fulltrúi matsbeiðanda sérstaklega upplýstur um að kostnaður myndi verða allnokkur í lokavinnslunni þar sem gera mætti ráð fyrir að vinnan yrði umfangsmeiri þann tíma. Hafi matsskýrslan verið lögð fram 20. febrúar 2012 á skrifstofu matsbeiðanda.

         Varðandi athugasemdir matsbeiðanda taka matsmenn fram að það sé rangt að útgefnir reikningar Capacent vegna þessara tveggja mála hafi numið 44.392.550 krónum. Hið rétta sé að reikningar vegna allra þriggja dómsmálanna hafi numið þessari fjárhæð. Kostnaður vegna vinnu Þrastar og aðstoðarmanna hans í þágu þeirra tveggja mála sem hér um ræði sé 40.340.727 krónur auk 1.125.000 króna í útlagðan kostnað.

         Matsmenn benda einnig á að sú athugasemd matsbeiðanda að heildarkostnaður sé hærri en sést hafi í sambærilegu mati sé með öllu órökstudd. Um sé að ræða verðmat á þremur erlendum félögum þar sem matsmenn hafi haft takmarkaðan aðgang að gögnum. Umrædd félög hafi haft umfangsmeiri starfsemi heldur en flest ef ekki öll íslensk rekstrarfélög á sama tíma. Öll gagnaöflun hafi verið erfiðari og umfangsmeiri þar sem um erlend félög hafi verið að ræða. Samanburður við íslensk verðmöt sé því erfiður. Takmarkaður aðgangur að gögnum hafi einnig orðið til þess að afla hafi þurft forsendna til að framkvæma beiðnina með talsvert umfangsmeiri vinnu en að jafnaði þurfi við framkvæmd verðmata. Matsmenn benda einnig á að kostnaður við verðmat á Landsíma Íslands árið 2001 hafi numið 25.000.000 króna á núverandi verðlagi. Þá hafi verðmat á 98,8% hlut íslenska ríkisins í sama félagi árið 2004/2005 numið 22,7 milljónum króna sem á verðlagi dagsins í dag sé um 38 milljónir króna. Þar hafi aðeins verið um eitt félag að ræða.

         Af hálfu matsmanna er tekið frem að ekkert hagræði hafi hlotist af því fyrir þá að Capacent Fjárfestingaráðgjöf ehf. hafi áður unnið verðmöt fyrir Baug Group hf., enda hefði þetta félag verið selt frá Capacent áður en Þröstur var dómkvaddur sem matsmaður og hann ekki unnið að þessum verðmötum. Umbeðin vinna matsmanna sé verulega umfangsmeiri heldur en sú vinna sem matsbeiðandi kann að hafa beðið Capacent Fjárfestingaráðgjöf ehf. að vinna. Þá hafi matsmenn þurft að setja sig inn í rekstur félaganna frá grunni.

         Matsmennirnir mótmæla staðhæfingu matsbeiðanda um að í lok október hafi matsmenn upplýst að matið væri alveg að líta dagsins ljós. Hið rétta sé að 8. nóvember 2011 hafi verið  bókað að útlit væri fyrir að skýrslan yrði lögð fram í desember. Þegar þetta sé tekið inn í myndina telja matsmenn að matsbeiðandi hafi mátt gera ráð fyrir að um 1.000 klst. vinna væri framundan. Varðandi frestun á skilum taka matsmenn fram að þeir hafi talið mikilvægt að færa greinargóð rök fyrir niðurstöðunni og leita af sér allan vafa um tilvist og aðgengi að gögnum. Hafa beri í huga að á þessum tíma hafi komið upp umræða um það hvort matsmenn væru undir takmörkunum hvað umfang vinnu varðaði. Vísa matsmenn þar sérstaklega til þess að í tölvuskeyti mótmæli matsþoli því að matsmönnum séu reistar skorður í umfangi vinnu sinnar og að fulltrúi matsbeiðanda árétti að hann hafi ekki reist matsmönnum slíkar skorður.

         Hvað varðar athugasemd matsbeiðanda, um að stór hluti matsskýrslu fari í umfjöllun um samanburðarfélög sem síðan hafi einungis verið höfð til hliðsjónar, vísa matsmenn til fyrri umfjöllunar um mikilvægi samanburðargreiningar við matið. Þeir telja að röksemdafærsla fyrir einstökum forsendum hefði orðið veik ef ekki hefði verið gerð ítarleg greining á samanburðarfélögunum. Matsmenn benda á að við mat á verðmæti eigin fjár félaganna hafi verið lögð megináhersla á núvirðingu frjáls fjárflæðis. Hafi það verið gert þar sem ekki hafi legið fyrir áætlanir eða önnur gögn sem hægt hafi verið að nota til að leggja grunn að fjárflæðisútreikningum. Í þessu sambandi hafi skoðun á samanburðarfélögum og efnahagsumhverfinu verið mjög mikilvægur þáttur í matinu. Auk þess hafi verið gert verðmat á grundvelli kennitölugreiningar þar sem margfaldara hafi verið aflað úr rekstri og frá markaðsvirði samanburðarfélaganna og þær notaðar til að meta virði eigin fjár dótturfélaga Baugs Group hf. Þar hafi því verið mjög mikilvægt að gera góða grein fyrir þeim félögum sem hafi verið notuð í ríkum mæli við matsgerðina. Það sé því ekki rétt að samanburðargreiningin sé einungis höfð til hliðsjónar í matinu, hún hafi bæði verið mikilvæg í forsenduöflun og einnig sem verðmatsaðferð.

          Matsmenn taka fram að þeir átti sig ekki á aðfinnslu matsbeiðanda við sundurgreiningu í tímaskýrslum þeirra. Vísa þeir til fyrirliggjandi tímaskýrslna sem frá þeim stafi um þann tíma sem farið hafi í verkið.

III.

         Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. laga nr. 91/1991 eiga matsmennirnir Þröstur Sigurðsson og Kjartan Arnfinnsson rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín samkvæmt reikningi og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi matsbeiðanda, stefnanda í máli þessu. Í 1. mgr. 66. gr. sömu laga kemur fram að dómari leysi úr ágreiningi meðal annars um greiðslur til matsmanna með úrskurði. Á hann því úrskurðarvald um hæfilega þóknun til matsmannanna.

         Krafa matsmanna fyrir vinnu sína við matið er vissulega óvenju há eða samtals 73.186.767 krónur án virðisaukaskatts, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 1.125.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til athugasemda matsmanna varðandi reikningsgerð vegna vinnu Þrastar og aðstoðarmanna hans, sem og bakfærslu á 83,5 tímum sem matsbeiðandi kveður Kjartan hafa samþykkt. Matskostnaður í þessu tilviki, eins og í öðrum matsmálum, hlýtur þó fyrst og fremst að ráðast af fjölda vinnustunda sem hafa farið í verkið og því tímagjaldi sem lagt er til grundvallar. Ljóst var í upphafi, eins og matsbeiðandi tekur fram, að vinna við matsgerð, er svaraði þeim matsspurningum sem fram komu í matsbeiðni með viðhlítandi hætti, yrði umfangsmikil. Lutu matsspurningar meðal annars að söluverðmæti eigna Baugs Group hf. í þremur erlendum félögum, Iceland Foods Group Ltd., Mosaic Fashions hf. og Highland Group Holdings Ltd. Útilokað er að draga einhverja ályktun um hæfilega þóknun fyrir þessa vinnu út frá matskostnaði í öðrum, ósambærilegum málum.

         Í athugasemdum matsmanna við kröfu matsbeiðanda kemur fram að komist hafi verið að samkomulagi við matsbeiðanda um tiltekið tímagjald. Veittur skyldi 10% afsláttur af 25.900 króna tímagjaldi matsmanna. Reikningar og tímaskýrslur bera með sér að þessi afsláttur hafi einnig verið veittur af tímagjaldi aðstoðarmanna, en útseld tímavinna þeirra var frá 10.000 til 15.900 krónur án afsláttar fyrir utan 7,5 klukkustunda vinnu sem seld var á 19.900 krónur tímann. Af hálfu matsbeiðanda hefur ekki verið gerð athugasemd við þessa lýsingu á samkomulagi um tímagjald matsmanna og aðstoðarmanna þeirra. Verður að leggja þetta gjald til grundvallar við úrlausn um hæfilega þóknun vegna þeirrar matsvinnu sem eðlilegt var að færi í það verk sem um var beðið.

         Tímaskýrslur matsmanna liggja fyrir, en þær eru annars vegar sundurliðaðar niður á einstaka daga eða mánuði. Ekki verður dregið í efa að þær endurspegli þá vinnu sem fór í verkið. Rétt er þó að taka fram að í tímaskýrslu vegna vinnu Þrastar eru tilgreindir tímar sem búið er að gera upp vegna máls nr. E-1613/2010.

         Í boðun til matsfundar, sem send var aðilum 19. október 2011, kemur fram að þá hafi verið farið að líða að því að matsgerð kæmist í lokavinnslu. Samkvæmt tímaskýrslum matsmanna fóru samtals 2.122,35 vinnustundir í verkið frá nóvemberbyrjun og þangað til matsskýrslan var lögð fram í febrúar sl. Það er meira en vænta mátti í ljósi þess tímafjölda sem farið hafði í verkið fram að því. Í athugasemdum matsmanna kemur fram að reikna hafi mátt með því að um 1.000 klukkustunda vinna væri eftir í nóvemberbyrjun, en þá hafi verið stefnt að skilum í desember. Dómurinn telur að við úrlausn um hæfilega þóknun matsmanna sé rétt að taka mið af þessum upplýsingum og leggja til grundvallar að lokavinnsla matsgerðarinnar hafi ekki átt að taka lengri tíma en 1.000 klukkustundir. Ekki verður séð að fundir með fyrrverandi stjórnendum Baugs Group hf., sem komu til út af áskorun matsþola 8. nóvember 2011, skýri að rúmlega 1.100 vinnustundir fóru í verkið umfram það sem vænta mátti.

         Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið, sem og fyrirliggjandi reikninga og tímaskýrslna matsmanna, þykir hæfileg þóknun til þeirra vera samtals 56.000.000 króna án virðisaukaskatts vegna matsgerðar sem lögð hefur verið fram í þessu máli, E-2356/2010, og í héraðsdómsmálinu E-627/2011. Er þá jafnframt haft í huga að þeir fjárhagslegu hagsmunir sem um er fjallað í máli nr. E-2356/2010 nema meira en 15 milljörðum króna. Samtals hafa 8.000.000 króna verið greiddar af þessari fjárhæð. Ekki er ágreiningur um útlagðan kostnað vegna vinnu við matsgerðina, 1.125.000 krónur, og því er einungis skorið úr um matsþóknun matsmanna.

         Af hálfu matsbeiðanda flutti málið Halldór Brynjar Halldórsson hdl. fyrir Heiðar Ásberg Atlason hrl.

         Af hálfu matsmanna flutti málið Sigurður Guðjónsson hdl.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Þóknun til matsmannanna, Þrastar Sigurðssonar og Kjartans Arnfinnssonar, fyrir vinnu við matsgerð, sem lögð hefur verið fram í máli þessu og í máli nr. E-627/2011, skal vera samtals 56.000.000 króna.