Hæstiréttur íslands
Mál nr. 667/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 21. desember 2007. |
|
Nr. 667/2007. |
Ríkissaksóknari (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 29. febrúar 2008, kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og í hinum kærða úrskurði greinir var ákæra gefin út á hendur varnaraðila 19. desember 2007. Rík skylda er til að hraða málsmeðferð þegar grunaður maður sætir gæsluvarðhaldi. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 31. janúar 2008 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], litháískur ríkisborgari, til heimilis að [...], Reykjavík, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans þó eigi lengur en til föstudagsins 29. febrúar 2008, kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 19. þ.m., sem send hafi verið Héraðsdómi Reykjavíkur til meðferðar í dag, hafi X verið ákærður fyrir nauðgun í félagi við annan mann. Brot hans geti varðað allt að 16 ára fangelsi.
Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn 12. nóvember s.l., nú síðast á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 (Mál Hérd. nr. R-616/2007). Með dómi Hæstaréttar frá 22. nóvember s.l. í máli nr. 616/2007 hafi verið staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að kærði skuli sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til 21. desember 2007. Almannahagsmunir standi enn til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. og enn frekar að mati ríkissaksóknara eftir að hann hafi verið ákærður fyrir það gróft nauðgunarbrot sem hafi verið grundvöllur fyrra gæsluvarðhalds. Að öðru leyti sé vísað til röksemda sem fram komi í greinargerð með gæsluvarðhaldskröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 19. nóvember s.l. í máli Hérd. nr. R-616/2007.
Samkvæmt rannsóknargögnum er ákærði undir sterkum grun um að hafa framið gróft brot, í félagi við annan mann, í húsasundi í miðbæ Reykjavíkur. Brotið gæti varðað allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn 12. nóvember s.l., nú síðast á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með dómi Hæstaréttar frá 22. nóvember s.l. í máli nr. 616/2007 var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur um að ákærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til 21. desember 2007. Liggur nú og fyrir að ríkissaksóknari hefur í dag gefið út ákæru á hendur ákærða fyrir nauðgun í félagi við annan mann. Eins og hér stendur á verður fallist á að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi og verður ákærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákærði, X, kt. [...], litháískur ríkisborgari, til heimilis að X, Reykjavík, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 29. febrúar 2008, kl. 16.00.