Hæstiréttur íslands
Mál nr. 236/2017
Lykilorð
- Einkahlutafélag
- Skuldamál
- Greiðsla
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Jóhannes Sigurðsson landsréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2017. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 169.568 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. september 2009 „eða síðari tíma að mati réttarins“ til greiðsludags. Að því frágengnu krefst áfrýjandi lægri fjárhæðar með sömu vöxtum, en að öðrum kosti bóta að álitum. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur ekki bent á neina þá annmarka á meðferð málsins í héraði að ómerkingu varði. Verður þeirri kröfu því hafnað.
Hvorki í stofngögnum áfrýjanda né í öðrum gögnum sem stafa frá félaginu kemur fram að það hafi tekið yfir réttindi og skyldur sem tengjast þeim reikningum sem Jónas Snorrason gaf út á hendur stefnda, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Áfrýjandi gaf út reikninga að fjárhæð 51.687,63 evrur á hendur stefnda á tímabilinu frá 7. til 20. ágúst 2009 en hefur jafnframt viðurkennt að hafa fengið greidda frá stefnda hærri fjárhæð en sem því nemur. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem, að virtu umfangi málsins og meðferð þess að öðru leyti, verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, C Trade ehf., greiði stefnda, BVBA De Klipper, samtals 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 12. janúar 2017
Mál þetta var þingfest 14. mars 2012 og tekið til dóms 15. desember 2016.
Stefnandi er C Trade ehf., Blásölum 22, Kópavogi, en stefndi er BVBA De Klipper, Belgíu.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 169.568 evrur ásamt hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt 5., 6. og 12. gr. laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæð frá 16. september 2009 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk álags á málskostnað samkvæmt 2. og 3. tl. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Undir rekstri málsins hafa verið kveðnir upp fjórir úrskurðir. Þann 3. október 2012 vegna kröfu um frávísun, þann 27. júní 2013 vegna ágreinings um dómkvaðningu matsmanns, þann 27. febrúar 2015 vegna frestbeiðni og loks 23. desember 2015 vegna dómkvaðningar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 7/2016. Tvær ákvarðanir samkvæmt 112. gr. laga nr. 91/1991 hafa verið teknar í málinu, sú fyrri 8. nóvember 2012 vegna frestbeiðni stefnanda og hin síðari 26. febrúar 2016 vegna ágreinings um framlagningu skjala.
Lögmannaskipti hafa orðið í málinu. Núverandi lögmaður stefnda, Helgi Pétur Magnússon hdl., tók við málinu 5. desember 2012 og þann 22. september 2016 sagði Einar Sigurjónsson hdl., sem hafði farið með málið fram að þeim tíma, sig frá málinu og tók þá J. Ingimar Hansson, framkvæmdastjóri stefnanda, við rekstri þess.
I
Helstu málavextir eru þeir að Jónas Snorrason hafði um þriggja ára skeið flutt út fisk og selt stefnda. Árið 2009 fóru Jónas og J. Ingimar Hansson í samstarf um þennan fiskútflutning og stofnuðu í því skyni félagið C Trade ehf., stefnanda í málinu, 3. júlí 2009. Samkvæmt gögnum málsins virðist samstarf þeirra hafa hafist í maí 2009 en vegna þess að ekki var búið að ganga frá stofnun félagsins gaf Jónas áfram út reikninga í sínu nafni eins og hann hafði gert undanfarin þrjú ár. Upp úr samstarfi Jónasar og Ingimars slitnaði. Ingimar gaf ekki aðilaskýrslu í málinu en í málflutningi hans kom fram að hann taldi Jónas hafa svikið sig í viðskiptunum og að stefndi hefði ekki staðið skil á öllum greiðslum vegna viðskiptanna. Gaf stefnandi út nýja reikninga vegna viðskipanna og nú í nafni stefnanda. Stefndi lagði þá fram í málinu ljósrit af öllum reikningum sem vörðuðu viðskiptin og voru þeir allir áritaðir um greiðslu, ýmist af Jónasi, Ingimar eða þeim báðum. Stefnandi taldi að nafn hans á hinum árituðu reikningum væri falsað og aflaði hann undir- og yfirmats því til sönnunar. Á það var ekki fallist af matsmönnum. Í þessum búningi var málið lagt í dóm.
II
Málavextir eru nánar þeir að stefnandi, C Trade ehf., var stofnað 3. júlí 2009 og tilkynnt til hlutafélagaskrár 7. sama mánaðar. Stofnendur voru Jónas Snorrason og J. Ingimar Hansson. Jónas var framkvæmdastjóri félagsins en Ingimar stjórnarformaður. Báðir sátu í stjórn stefnanda og höfðu prókúru fyrir félagið. Samkvæmt stofnsamningi áttu þeir sinn helminginn hvor í félaginu.
Eins og að framan er lýst hafði Jónas starfað við fiskútflutning um skeið og verið í viðskiptum við stefnda í um þrjú ár. Þau viðskipti höfðu verið hnökralaus að sögn Jónasar. Jónas var því í viðskiptasambandi við stefnda þegar hann og Ingimar ákváðu að hefja samstarf um útflutning á fiski til stefnda. Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði Reginalt Lambersy, framkvæmdastjóri stefnda, svo frá að honum hafi ekki verið kunnugt um stofnun stefnanda fyrr en honum barst reikningur frá stefnanda, dagsettur 7. ágúst 2009. Til þess tíma hafi hann talið að hann væri að eiga viðskipti við Jónas, enda allir reikningar til þess tíma gefnir út af Jónasi en ekki stefnanda.
Samkvæmt gögnum málsins virðast Jónas og Ingimar hafa hafið samstarf í maí 2009. Að sögn stefnanda voru reikningar ekki gefnir út af stefnanda fyrr en í ágúst 2009 vegna þess að það dróst að stofna félagið C Trade ehf.
Viðskipti aðila fóru fram með milligöngu Reiknistofu fiskmarkaða. Stefndi lagði fram bankatryggingu til reiknistofunnar og Jónas tók út fisk, síðar stefnandi, og kom honum til fiskverkanda. Að því búnu var varan flutt út til stefnda. Uppgjör milli aðila fór þannig fram að Jónas gerði upp við fiskverkendur og samkvæmt framlögðu yfirliti frá reiknistofunni var það sem út af stóð greitt Jónasi og í þremur tilvikum greitt inn á reikning stefnanda.
Í stefnu segir að allir reikningar, sem Jónas gaf út, hafi verið endurútgefnir af stefnanda 5. október 2009. Engar breytingar hafi verið gerðar á reikningunum að öðru leyti en því að þeir hafi nú verið gefnir út af stefnanda í stað Jónasar Snorrasonar og tekið sé fram á þeim í texta neðanmáls að farið sé eftir íslenskum reglum um virðisaukaskatt og tekjuskráningu.
Þeir reikningar sem stefndi hefur lagt fram sem frumrit, 45 að tölu, dagsettir frá 3. maí 2009 til 20. ágúst 2009, eru allir áritaðir um greiðslu, ýmist af Jónasi einum, 24 talsins, Jónasi og Ingimar saman, 20 talsins, og einn af Ingimar einum. Sex síðustu reikningar, dagsettir frá 7. ágúst til 20. ágúst, eru gefnir út af stefnanda en aðrir reikningar af Jónasi Snorrasyni. Reikningar útgefnir frá 15. júlí 2009 til 20. ágúst 2009, 17 talsins, eru undirritaðir af Jónasi og Ingimar báðum.
Fyrir liggur að Jónas og Ingimar fóru til Belgíu til fundar við fyrirsvarsmenn stefnda um miðjan júlí 2009. Af hálfu stefnda sátu fundinn Carl Levecke sölumaður og Reginlt Lambersy, framkvæmdastjóri stefnda og eigandi að hálfum hlut í stefnda. Þeir sögðu í skýrslum sínum fyrir dómi að tilefni fundarins hafi verið að fara yfir reikninga og semja um kreditreikninga á móti en fyrir hafi legið að stefndi hafi átt rétt á afslætti vegna nokkurra sendinga þar sem gæði höfðu ekki verið nóg. Þá hafi ferðin einnig verið farin til þess að kynna Ingimar fyrir þeim en hann kæmi til með að taka við af Jónasi í framtíðinni. Ekki hafi náðst niðurstaða varðandi alla reikninga og því hafi Jónas komið aftur í byrjun september og þeir þá komist að lokasamkomulagi og allir gengið sáttir frá borði. Undir þennan framburð fyrirsvarsmanna stefnda tók Jónas í skýrslu sinni fyrir dómi. Jónas sagði ennfremur að of oft hafi það komið fyrir að varan reyndist gölluð en Ingimar hafi alfarið séð um samskipti við fiskverkendur. Reginalt sagði að er Jónas og Ingimar komu á fundinn í júlí hafi ekki verið tilkynnt um að breyting yrði á viðskiptunum og útgáfu reikninga en þeir hafi sagt að til stæði að stofna félag í október um útflutninginn.
Þann 19. febrúar 2010 tilkynnti Ingimar breytingar á stjórn stefnanda til fyrirtækjaskrár og breytt heimilisfang. J. Ingimar Hansson var nú sagður formaður stjórnar en Jónas Snorrason var ekki lengur í stjórn. Þá voru sama dag sendar inn til fyrirtækjaskrár nýjar samþykktir fyrir félagið sem undirritaðar voru af J. Ingimar Hanssyni. Hvergi er í þessum gögnum, sem send voru fyrirtækjaskrá 19. febrúar 2010, er getið um helmings eiganda að félaginu, Jónas Snorrason. Stefndi hefur lagt fram yfirlýsingu Jónasar, dags. 15. maí 2013, þar sem fram kemur að núverandi stjórn stefnanda starfi ekki í umboði hans. Þá segi jafnframt í yfirlýsingunni, sem Jónas staðfesti fyrir dómi, að hann hafi ekki gefið stefnanda umboð til þess að gefa út reikninga, sem höfðu áður verið gefnir út, enda fæli slíkt í sér tvígreiðslu af hálfu stefnda. Þá staðfesti hann að stefndi hafi ávallt staðið í skilum með útgefna reikninga.
Þegar stefndi hafði lagt fram frumrit reikninganna, sem allir voru áritaðir um greiðslu, aflaði stefnandi mats á því hvort undirritun hans undir reikningana væri fölsuð. Í þinghaldi 27. júní 2013 var í úrskurði komist að þeirri niðurstöðu að eftirtaldar spurningar yrðu lagðar fyrir matsmenn:
1. Hvort um frumrit sé að ræða og hvort undirritanir séu réttar og stafi frá þeim sem undirrita skjölin.
2. Hvort skjölunum hafi verið breytt, t.d. með ljósritun eða annarri fjölföldun.
3. Hvort misræmi sé milli skjala sem lögð voru fram í dómnum í maí 2012 sem staðfest ljósrit af frumritum og sem kvittanir fyrir greiðslum.
4. Hvort hægt sé að breyta þessum skjölum þannig að afmá megi undirritun á sumum reikningum og færa undirritun og aðra og síðari reikninga.
5. Hvert álit rannsakanda sé á almennu gildi þessara skjala sem frumskjala.
Stephen Cosslet, Englandi, var dómkvaddur í þinghaldi 27. september 2013. Matsgerð hans var lögð fram 13. júní 2014. Niðurstaða hans var að fullnægjandi sannanir væru fyrir því að Ingimar hafi undirritað upprunalega reikninga sem væru í vörslu réttarins að undanteknum einum reikningi. Ekki væri unnt að fullyrða um hann þar sem á þeim reikningi væri nafn Ingimars yfirstrikað. Ekkert benti til þess að undirritanir Ingimars væru falsaðar.
Í þinghaldi 21. nóvember 2014 voru Dr. Manfred Hecker og Dipl.-Psych Manfred Philipp, báðir búsettir í Þýskalandi, dómkvaddir sem yfirmatsmenn. Niðurstaða þeirra var á sömu lund og niðurstaða undirmatsmanns. Reikningar þeir, sem stefndi lagði fram í málinu sem frumrit og áritaðir eru um greiðslu, séu ljósrit eða útprentanir með upprunalegum undirskriftum. Þeir gefa skjölunum einkunnina „með miklum líkum (ósvikið)“ sem er skilgreind í matsgerð svo að 95% líkur séu á því að reikningarnir séu ófalsaðir. Einkunnin „miklar líkur“ er jafnframt skýrð svo að niðurstaðan sé talin hafa mikið vægi og sé í samræmi að mjög miklu leyti við þá tilgátu að skjölin séu ófölsuð. Í þessari einkunnagjöf felist jafnframt að fundist hafi minni háttar ágallar á því efni sem til rannsóknar var en þó ekki efnislega mikilvægir og útskýra megi þá út frá aðferðafræðilegu sjónarmiði.
Stefndi gerir ýmsar athugasemdir við útreikning stefnanda á kröfunni. Hefur stefndi sundurliðað reikninga, greiðslur og athugasemdir sínar í framlögðu yfirlitsskjali. Bendir hann á að einn reikning vanti í stefnu að fjárhæð 2.373 evrur, einn reikningur sé tvítekinn í stefnu að fjárhæð 9.574 evrur, ekki sé getið um tvær ofgreiðslur stefnda til stefnanda að fjárhæð 1.800 evrur og 813 evrur og að ekki sé í kröfugerð stefnanda tekið tillit til afsláttar sem veittur hafi verið af Jónasi í átta tilfellum vegna lélegra gæða fisksins en útreikningar á afslætti komi fram á þeim frumritum reikninga sem stefndi hafi lagt fram. Telur stefndi að þegar tekið sé tillit til ofangreinds séu allir reikningar stefnanda uppgerðir.
III
Stefnandi heldur því fram að honum hafi verið heimilt að gefa út reikninga að nýju vegna viðskiptanna og nú í nafni stefnanda.
Segir í stefnu að í ljós hafi komið „að Jónas Snorrason var í nánu samstarfi við stefnda og hafi hann haft aðgang að reikningi stefnda við fiskmarkaðinn og var í raun starfsmaður stefnda hér á landi og urðu af því umtalsverðir hagsmunaárekstrar“.
Í málflutningi var því haldið fram af fyrirsvarsmanni stefnanda að Jónas hafi leikið tveimur skjöldum í málinu og að Jónas hafi svikið hann í viðskiptum.
Eftir að áritaðir reikningar um greiðslu höfðu verið lagðir fram í málinu af hálfu stefnda byggði stefnandi jafnframt á því að undirskrift Ingimars undir reikningana væri fölsuð.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að útgefnir reikningar af stefnanda séu samtals að fjárhæð 350.245,60 evrur, frá dragist kreditreikningar og innborganir að fjárhæð 180.677,60 evrur og sé stefnufjárhæð því 169.568 evrur.
Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttar og ákvæða samningalaga um skuldbindingargildi samninga. Vísað er til VII. kafla laga nr. 50/2000 um úrræði og rétt seljanda í lausafjárkaupum. Varðandi dráttarvexti er vísað til 5., 6., 10., 11. og 12. gr. laga nr. 38/2001. Varðandi stefnubirtingu er vísað til 83. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi leggur áherslu á að hann hafi aldrei verið í viðskiptasambandi við stefnanda um kaup á fiski heldur Jónas Snorrason líkt og skjöl málsins beri með sér. Þess fyrir utan hafi allir reikningar vegna viðskiptanna verið greiddir að fullu líkt og fram komi í tölvupósti. Einhliða útgáfa stefnanda á reikningum hafi enga þýðingu, enda um að ræða ólögmæta reikningsgerð sem brjóti að öllum líkindum í bága við ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þar sem reikningarnir hafi að fullu verið greiddir sé ljóst að enginn hafi hagsmuni af úrlausn um sakarefnið. Þess fyrir utan sé ljóst að stefnandi hafi ekki átt lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins þar sem hann hafi aldrei verið í viðskiptasambandi við stefnda og því ekki átt kröfur á hendur stefnda.
Telur stefndi að sýkna beri hann vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Verði ekki fallist á aðildarskort stefnanda er á því byggt að stefndi sé ekki réttur aðili að málinu, enda hafi allir reikningar verið greiddir af hálfu stefnda. Vilji svo ólíklega til að stefnandi eigi einhverja kröfu vegna framangreindra viðskipta sé ljóst að stefnandi verði að beina kröfum sínum á hendur þeim aðila sem móttók greiðslu frá stefnda, þ.e. Jónasi Snorrasyni.
Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu vegna aðildarskorts stefnanda er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, enda hafi stefndi greitt alla þá reikninga sem um er krafið í málinu, sbr. framangreinda umfjöllun.
Stefndi vísar máli sínu til stuðnings til ólögfestra meginreglna samninga- og kröfuréttar. Stefndi vísar að auki til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 68/1995 um Lugano-samninginn. Varðandi málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla nr. 91/1991.
IV
Í málinu gerir stefnandi kröfu á hendur stefnda á grundvelli reikninga sem stefnandi gaf út. Forsaga málsins er rakin hér að framan. Jónas Snorrason stundaði fiskútflutning og hafði um þriggja ára skeið átt viðskipti við stefnda. Í þeim viðskiptum gaf Jónas út reikninga í eigin nafni. Jónas og J. Ingimar Hansson hófu samstarf um fiskútflutninginn til stefnda í maí 2009. Ákváðu þeir að stofna félag um starfsemina en vegna þess að það dróst voru reikningar áfram gefnir út af Jónasi frá 3. maí 2009 til 6. ágúst 2009, alls 39 reikningar. Ingimar og Jónas fóru á fund fyrirsvarsmanna stefnda í Belgíu um miðjan júlí 2009 og fóru yfir reikninga og veittu afslátt vegna lélegra gæða á fiskinum í einhverjum tilvikum. Jónas fór einnig út í septemberbyrjun 2009 og fór þá yfir reikninga sem eftir stóð að taka ákvörðun um. Framangreindri málavaxtalýsingu hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda. Fyrirsvarsmaður stefnanda, Ingimar, gaf ekki aðilaskýrslu en í málflutningi hans við aðalmeðferð kom fram að Jónas hafi fyrir þeirra hönd átt öll samskipti við fyrirsvarsmenn stefnda og jafnframt séð um flutning fisksins til Belgíu.
Upp úr samstarfi Jónasar og Ingimars slitnaði og í málflutningi Ingimars við aðalmeðferð kom fram að hann taldi Jónas hafa hlunnfarið sig í viðskiptunum og að hann hafi tapað stórfé á samstarfi þeirra. Í stefnu og í málflutningi fyrirsvarmanns stefnanda var því haldið fram að Jónas hafi í raun verið starfsmaður stefnda hér á landi.
Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi af þessum sökum, þ.e.a.s. vegna þess að tap hafði orðið á fisksölunni til stefnda, gripið til þess ráðs að endurútgefa alla reikninga og nú í nafni stefnanda. Er tekið fram neðanmáls á hinum nýju reikningum að þeir komi í stað þeirra reikninga sem Jónas Snorrason hafði áður gefið út og að þeir séu með sömu númerum. Fyrir liggur í málinu, og því ekki mótmælt af hálfu stefnanda, að Jónas framseldi stefnanda ekki kröfuna samkvæmt framlögðum reikningum. Stefndi taldi á hinn bóginn að allir reikningar væru greiddir og lagði fram frumrit reikninganna sem allir eru áritaðir um greiðslu, ýmist af Jónasi einum eða Jónasi og Ingimar saman. Einn reikningur er áritaður af Ingimar einum.
Undir- og yfirmatsmenn hafa á engan hátt tekið undir þau sjónarmið stefnanda að undirskrift Ingimars undir reikningana sé fölsuð, heldur þvert á móti að yfirgnæfandi líkur séu á því að Ingimar hafi sjálfur ritað undir reikningana. Af þessu leiðir að stefndi verður ekki krafinn um greiðslu á þeim reikningum sem Ingimar hefur með undirritun samþykkt að séu greiddir. Mátti stefndi ætla að um fullnaðarkvittun væri að ræða hvað þá reikninga áhrærir og að krafa samkvæmt þeim væri fallin niður.
Aðra reikningar, en þeir sem Ingimar samþykkti sem greidda, hefur Jónas samþykkt sem greidda með undirskrift sinni. Á þeim tíma er viðskiptin fóru fram, reikningar voru undirritaðir um greiðslu og fyrirsvarsmenn aðila hittust á fundi í Belgíu í júlí 2009, var Jónas með samþykki Ingimars í fyrirsvari fyrir þá gagnvart stefnda. Eftir að félagið C Trade ehf. var stofnað 3. júlí 2009 var Jónas framkvæmdastjóri félagsins, sat í stjórn þess og átti hálfan hlut í félaginu. Líta verður því svo á að Jónas hafi haft fullt umboð til þess að koma fram í viðskiptunum við stefnda fyrir hönd Ingimars og síðar stefnanda og m.a. samþykkja afslátt af hinu selda. Stefnandi var því gagnvart stefnda bundinn af ákvörðunum Jónasar í þessum efnum, enda mátti stefndi ekki ætla annað en að Jónas, sem einn hafði komið fram gagnvart stefnda og hafði annast viðskipin fyrir þá Ingimar og síðar stefnanda, hefði slíkt umboð og væri réttur móttakandi greiðslu fyrir fiskinn.
Samkvæmt framansögðu verður að telja að stefnanda hafi ekki tekist sú sönnun að sýna fram á að stefndi standi enn í skuld við stefnanda, né að sýna fram á að Jónas Snorrason hafi í samstarfi við stefnda átt þátt í því tjóni sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir en það er málsástæða af hálfu stefnanda. Þegar af framangreindum ástæðum verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað. Fyrir utan aðalmeðferð, sem stóð í tvo daga, voru 49 þinghöld í málinu. Í ljósi þess og umfangi málsins að öðru leyti þykir málskostnaður til handa stefnda hæfilega ákveðinn 5.000.000 króna. Ekki eru efni til þess að dæma álag á málskostnað samkvæmt 2. og 3. tl. 131. gr. laga nr. 91/1991 eins og krafist er í stefnu.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, BVBA De Klipper, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, C Trade ehf., í málinu.
Stefnandi greiði stefnda 5.000.000 króna í málskostnað.