Hæstiréttur íslands
Mál nr. 391/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 21. nóvember 2013. |
|
Nr. 391/2013. |
Drómi hf. (Hlynur Jónsson hrl. Bjarki Már Baxter hdl.) gegn Jófríði Valgarðsdóttur (Skarphéðinn Pétursson hrl. Gunnar Ingi Jóhannsson hdl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging.
D hf. krafði J um greiðslu samkvæmt láni sem hún hafði tekið hjá S hf. og D hf. tók síðar yfir. Greindi aðilana á um hvort lánið teldist lán veitt í íslenskum krónum tryggt með gengi erlendra gjaldmiðla svo í bága færi við ákvæði 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hæstiréttur vísaði til þess að lánssamningur hefði komist á milli aðila með því að S hf. hefði tekið tilboði J sem fólst í beiðni hennar um fjölmyntareikningslán að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum með því að staðfesta lánveitinguna og greiða J samdægurs úr lánið. Taldi Hæstiréttur að líta bæri framhjá texta staðfestingar S hf. á láninu þar sem ekki hefðu verið færðar sönnur á að J hefði fengið staðfestinguna í hendur og samþykkt þá skilmála sem í henni fólust. Yrði J því einungis bundin af þeim skilmálum lánsins sem komu fram í beiðni hennar til S hf. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að í dómaframkvæmd hefði texti lánssamnings þar sem lýst væri skuldbindingum aðila fyrst og fremst verið lagður til grundvallar við úrlausn þess hvort um væri að ræða lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta. Í beiðni J hefði eina tilgreiningin á fjárhæð lánsins verið í íslenskum krónum, en hvergi hefði verið getið um hana í erlendum gjaldmiðlum, heldur einungis hlutfall þeirra. Þá hefði verið miðað við að skyldur beggja aðila yrðu efndar með greiðslu í íslenskum krónum og hefði svo verið í raun. Loks hefði í viðauka við lánssamninginn þar sem lánið var framlengt verið tekið fram að lánið hefði í upphafi verið að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum sem hefði verið sú hin sama og í beiðni J. Var því talið að lán S hf. til J hefði farið í bága við 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu J.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2013. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 7.728.155 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. júlí 2009 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 1. mars 2010 að fjárhæð 4.250.281 króna. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins beindi stefnda 20. júlí 2007 beiðni til SPRON Verðbréfa hf. um reikningslán „í erlendum myntum“. Í beiðninni kom fram að stefnda óskaði eftir að félagið veitti sér „fjölmyntareiknislán að upphæð jafnvirði ISK 4.045.455 í erlendum myntum sbr. eftirfarandi“. Síðan voru þeir lánsskilmálar sem stefnda fór fram á tilgreindir í fjórum töluliðum. Samkvæmt þeim fyrsta skyldi „fjárhæðin“ vera til reiðu á tilgreindum reikningi stefndu sama dag og skyldi skuldfærast af honum í einu lagi ásamt vöxtum og kostnaði á gjalddaga 20. júlí 2008. Óumdeilt er að umræddur reikningur stefndu var í íslenskum krónum. Í annan stað skyldi „fjárhæðin ... samsett af eftirfarandi gjaldmiðlum: USD 33%, CHF 33% og JPY 34%“. Í þriðja lagi skyldu vextir verða „12 mán. LIBOR að viðbættu 3% álagi“ og loks skyldi lántökugjald verða 1%.
Meðal gagna málsins er „Staðfesting á fjölmyntareikningsláni“ sem einnig var dagsett 20. júlí 2007. Þar var í upphafi vísað til beiðni stefndu „um reikningslán bundið erlendum gjaldmiðlum“. Síðan var tekið fram að SPRON Verðbréf hf. hafi samþykkt þessa beiðni og yrði „lánsfjárhæðin“ lögð inn á þann reikning stefndu sem tilgreindur var í beiðninni. Um skilmála og kjör lánsins sagði að lánað væri „í formi fjölmyntareikningsláns á útgáfudegi skjals þessa í eftirfarandi myntum: USD, CHF og JPY sbr. neðar, m.v. kaupgengi Sparisjóðabanka Íslands hf. 2 dögum fyrr.“ Þar fyrir neðan var í skjalinu tafla þar sem tilgreindar voru framangreindar þrjár myntir, lánsfjárhæð í hverri þeirra, kaupgengi hverrar þeirra 18. júlí 2007 sem fjárhæðin var miðuð við, hverjir væru LIBOR vextir af hverri myntanna þriggja á sama degi og loks 3% álag á þá vexti. Skilmálar skjalsins voru að öðru leyti í samræmi við beiðni stefndu, en af þeim er ljóst að vextirnir sem tilgreindir voru í töflunni voru fastir á lánstímanum. Þá var kveðið á um að stefnda væri skuldbundin til að hafa til ráðstöfunar á fyrrnefndum reikningi sínum á gjalddaga lánsins fjárhæð sem svaraði til uppgreiðslu þess. Loks var í skjalinu kveðið á um skyldu stefndu til að greiða 2% þóknun óskaði hún eftir að greiða lánið fyrir gjalddaga. Skjal þetta var undirritað af starfsmanni SPRON Verðbréfa hf. en ekki af stefndu. Áfrýjandi heldur því fram að samkvæmt verklagi lánveitanda hafi slíkar staðfestingar verið afhentar lánþega, en stefnda mótmælir því að hafa fengið skjal þetta afhent. Lánið var greitt út samdægurs í íslenskum krónum.
Sama dag og framangreind tvö skjöl voru dagsett og lánið var greitt út undirritaði stefnda yfirlýsingu sem bar fyrirsögnina: „Fylgiskjal með láni í erlendri mynt“. Var hún sögð gefin vegna láns í erlendri mynt sem stefnda hefði tekið „að jafnvirði IKR 4.045.455,- samkvæmt neðangreindri mynt“. Síðan voru áðurnefndar þrjár myntir tilgreindar og hlutfall hverrar þeirrar af heildarlánsfjárhæðinni. Í skjalinu lýsti stefnda því yfir að hún gerði sér grein fyrir „að lántaka með þessum hætti“ væri áhættusamari en „lántaka í íslenskum krónum“ sem fælist meðal annars í því að „höfuðstóll láns sem tekið er í framangreindri mynt“ gæti „hækkað umtalsvert á lánstímanum.“
Gjalddaga lánsins mun hafa borið upp á sunnudag en daginn eftir undirritaði stefnda „beiðni um framlengingu reiknisláns í erlendum myntum“ sem samþykkt var af SPRON Verðbréfum hf. Þar óskaði stefnda eftir að lánið yrði framlengt til 21. júlí 2009, sem yrði nýr gjalddagi höfuðstóls þess, en vextir skyldu þó greiddir bæði á útgáfudegi þessa skjals og nýja gjalddaganum. Tekið var fram að lánið hafi í upphafi verið að „jafnvirði ISK 4.045.455,-“. Þá var tiltekið að lánið væri „í dag með eftirfarandi stöðu erlendra mynta“ og síðan voru tilgreindar fjárhæðir í japönskum jenum, svissneskum frönkum og bandaríkjadölum. Þessar fjárhæðir samsvara hvorki upphaflegum fjárhæðum í þessum myntum sem tilgreindar voru í framangreindri staðfestingu 20. júlí 2007 né þar greindum fjárhæðum að viðbættum þeim föstu vöxtum sem kveðið var á um í nefndri staðfestingu. Liggur ekki fyrir skýring á því hvort eða þá hvernig þessar tilgreindu fjárhæðir hinna erlendu mynta tengjast skilmálum sem fram komu í framangreindum skjölum 20. júlí 2007. Í skilmálum framlengingarinnar var kveðið á um að lánið bæri LIBOR vexti með 6,5% álagi.
Stefnda greiddi 2.719.734 krónur inn á lánið 19. nóvember 2008 og 4.250.281 krónu 1. mars 2010.
Áðurnefnd beiðni stefndu um reikningslán frá 20. júlí 2007, staðfesting SPRON Verðbréfa hf. frá sama degi og beiðni hennar um framlengingu lánsins 21. júlí 2008 voru árituð af hálfu félagsins 11. febrúar 2009 um að „lánasamningur þessi“ væri „framseldur til SPRON ... með öllum þeim réttindum sem í honum greinir.“ Á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 var stofnað hlutafélagið Drómi, áfrýjandi máls þessa, og tók það við öllum eignum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. og tryggingarréttindum tengdum kröfum hans.
II
Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að lánið sem SPRON Verðbréf hf. veitti stefndu 20. júlí 2007 hafi verið í erlendum myntum en stefnda telur að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum sem bundið hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla þannig að í bága hafi farið við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001. Ekki er í málinu tölulegur ágreiningur. Er einnig óumdeilt að áfrýjandi eigi ekki frekari kröfu á stefndu verði niðurstaðan sú að um hafi verið að ræða lán með ólögmætu ákvæði um gengistryggingu.
Eins og að framan er rakið beindi stefnda beiðni um reikningslán til SPRON Verðbréfa hf. 20. júlí 2007. Því tilboði sem í beiðninni fólst tók félagið með því að staðfesta lánveitinguna og greiða stefndu samdægurs út lánið. Þar með komst á lánssamningur milli þeirra. Eins og að framan er rakið telur áfrýjandi að í verklagi lánveitanda hafi falist að lánþegar fengju jafnan afrit af þeim skjölum sem hann útbjó um staðfestingu lánveitinga. Stefnda kannast á hinn bóginn ekki við að hafa fengið í hendur þá staðfestingu sem lánveitandinn gerði 20. júlí 2007 og að framan er lýst. Verður áfrýjandi að bera hallann af því að lánveitandi, sem var fjármálastofnun, tryggði sér ekki sönnur fyrir því að stefnda hafi fengið í hendur og samþykkt þá skilmála sem í staðfestingunni fólust. Stefnda er því einungis bundin af þeim skilmálum lánsins sem komu fram í beiðni hennar og verður því litið framhjá texta staðfestingar lánveitandans 20. júlí 2007 við úrlausn málsins.
Þegar leyst hefur verið úr því hvort samningur hafi verið gerður um lán í erlendri mynt, svo sem heimilt er, eða um sé að ræða lán í íslenskum krónum bundið gengi erlendra mynta hefur Hæstiréttur í dómum sínum fyrst og fremst lagt til grundvallar texta lánssamnings þar sem lýst er þeim skuldbindingum sem aðilarnir takast á hendur. Í beiðni stefndu 20. júlí 2007 um reikningslán i erlendum myntum óskaði hún eftir fjölmyntareikningsláni „að jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Eina tilgreiningin á fjárhæð lánsins var þannig í íslenskum krónum, en hvergi var getið um hana í erlendum gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutfall þeirra. Þegar svo hefur háttað til hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið lagt til grundvallar að orðalag skuldbindingarinnar ráði ekki eitt úrslitum heldur verði að líta til annarra atriða og þá einkum til þess hvernig gert var ráð fyrir í samningi að skyldur aðilanna yrðu efndar og hvernig efndir þeirra voru í raun, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012 og 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012. Í samningi þeim sem liggur til grundvallar láninu sem hér um ræðir var gert ráð fyrir að það yrði greitt inn á bankareikning stefndu, sem er í íslenskum krónum, og skuldfært af sama reikningi á gjalddaga. Þannig var miðað við að skyldur beggja samningsaðila yrðu efndar með greiðslu í íslenskum krónum. Framkvæmdin var í samræmi við það, enda greiddi lánveitandinn fjárhæð lánsins í íslenskum krónum inn á umræddan bankareikning og þær tvær greiðslur sem stefnda innti af hendi voru einnig í íslenskum krónum. Eins og að framan var rakið var lánið framlengt með samningi 21. júlí 2008. Slíkur viðauki við lánssamning breytir því ekki hvernig upphaflega var samið um þá mynt sem lánið var veitt í, en getur gefið vísbendingu um viðhorf samningsaðila til þess. Eins og að framan var rakið var í framlengingunni tekið fram að lánið hafi í upphafi verið að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum og er það sama fjárhæð og stefnda tilgreindi í beiðni sinni 20. júlí 2007. Önnur atriði í texta framlengingarinnar eru ekki, eins og að framan er lýst, fallin til að skýra efni samningsins. Samkvæmt öllu framansögðu telst lánið samkvæmt samningi SPRON Verðbréfa hf. og stefndu hafa farið í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 og verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Drómi hf., greiði stefndu, Jófríði Valgarðsdóttur, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 14. febrúar 2013, að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað af Dróma hf., kt. [...], Lágmúla 6, Reykjavík, á hendur Jófríði Valgarðsdóttur, kt. [...], Njálsgötu 108, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 7.728.155 kr. ásamt dráttarvöxtum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 21. júlí 2009 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 4.250.281 kr. sem var greidd 1. mars 2010.
Stefnandi krefst þess einnig að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Stefnda krefst þess aðallega að vera alfarið sýknuð af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar.
Í öllum tilvikum krefst stefnda þess að stefnandi greiði stefndu málskostnað að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.
II
Málsatvik þessa máls eru að mestu óumdeild. Með lánsumsókn dagsettri 20. júlí 2007, með fyrirsögninni „Beiðni um reiknislán í erlendum myntum“, óskaði stefnda eftir því að SPRON Verðbréf hf. veitti henni fjölmyntareiknislán að upphæð jafnvirði 4.045.455 íslenskra króna, í erlendum myntum. Samkvæmt beiðninni óskaði stefnda eftir því að fjárhæðin yrði til reiðu þann sama dag á reikningi hennar nr. 1150-15-553218, sem er tékkareikningur í íslenskum krónum. Stefnda óskaði þess jafnframt að lánið yrði skuldfært af sama reikningi í einu lagi, ásamt vöxtum og kostnaði, á gjalddaga lánsins, 20. júlí 2008. Í beiðninni kemur fram að fjárhæð lánsins skyldi vera samsett af erlendum gjaldmiðlum, 33% í Bandaríkjadölum, 33% í svissneskum frönkum og 34% í japönskum jenum. Vextir skyldu vera 12 mánaða LIBOR vextir að viðbættu 3% álagi og lántökugjald vera 1%.
Sama dag, 20. júlí 2007, undirritaði stefnda yfirlýsingu sem var fylgiskjal með láni samkvæmt framangreindri beiðni. Í yfirlýsingunni kemur fram að vegna framangreinds láns í erlendri mynt að jafnvirði 4.045.455 íslenskra króna, 33% í Bandaríkjadölum, 33% í svissneskum frönkum og 34% í japönskum jenum, lýsi stefnda því yfir að hún geri sér grein fyrir því að lántaka með þessum hætti sé áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum vegna gengisáhættu sem lýsi sér meðal annars í því að samkvæmt tölfræðilegu mati, sem byggist á sögulegum sveiflum á áhættu svona lána, geti höfuðstóll lánsins, sem sé tekið í tilgreindri mynt, hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt felist vaxtaáhætta í því að lánið sé með breytilegum vaxtagrunni, LIBOR/EURIBOR vöxtum. Vextir séu aðeins ákveðnir fyrir hvert vaxtatímabil í senn og geti því breyst með vaxtaákvörðunum í heimaríki viðkomandi myntar auk þess sem sveiflur á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum geti haft áhrif til hækkunar.
Í tengslum við framangreint lán var þennan dag, 20. júlí 2007, enn fremur gert skjal sem ber heitið „Staðfesting á fjölmyntareikningsláni“ og er það undirritað af starfsmanni SPRON Verðbréfa hf. Í því skjali kemur fram að SPRON Verðbréf hf. hafi samþykkt framangreinda beiðni stefndu um reikningslán bundið erlendum gjaldmiðlum. Lánsfjárhæðin verði lögð inn á reikning nr. 1150-15-553218 og endurgreiðist með þeim kjörum og skilmálum sem greindir séu í skjalinu. Í staðfestingunni kemur fram að SPRON Verðbréf hf. hafi lánað í formi fjölmyntareikningsláns á útgáfudegi skjalsins 22.516,44 Bandaríkjadali, 27.013,35 svissneska franka og 2.827.827 japönsk jen, allt miðað við kaupgengi 18. júlí 2007. Jafnframt kemur fram að á gjalddaga, 20. júlí 2008, yrði SPRON Verðbréfum hf. heimilt að skuldfæra framangreindan reikning stefndu fyrir andvirði lánsins í íslenskum krónum, að viðbættum vöxtum. Útreikningur í íslenskar krónur muni miðast við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. tveimur virkum dögum fyrir gjalddaga. Þá segir í skjalinu að stefnda sé skuldbundin til að hafa til ráðstöfunar á reikningi sínum á gjalddaga fjárhæð sem svari til uppgreiðslu lánsins.
SPRON Verðbréf hf. greiddi lánið út í samræmi við ákvæði framangreindrar beiðni stefndu og komst þá á lánssamningur milli aðila.
Stefnda undirritaði beiðni um framlengingu reiknislánsins 21. júlí 2008. Með samþykki SPRON Verðbréfa hf. var lánið framlengt og skyldi nýr gjalddagi höfuðstóls lánsins vera 21. júlí 2009 en vextir skyldu greiðast af láninu bæði á upphaflegum og nýjum gjalddaga. Einnig var vaxtakjörum lánsins breytt þannig að vextir skyldu vera 12 mánaða LIBOR vextir að viðbættu 6,5% álagi. Í beiðninni um framlengingu, undirritaðri af stefndu og starfsmanni SPRON Verðbréfa hf., kemur fram að lánið hafi í upphafi verið jafnvirði 4.045.455 íslenskra króna en að á degi undirritunar hafi staða erlendra mynta verið 3.000.477 japönsk jen, 29.239,00 svissneskir frankar og 24.903,92 Bandaríkjadalir. Framlengingin miðist við sömu myntir. Þá segir í beiðninni að stefnda staðfesti að hún hafi verið upplýst um og hafi fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstandi af hverju sinni geti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Samkvæmt beiðninni skyldi sami reikningur og áður vera skuldfærður fyrir láninu, ásamt vöxtum og kostnaði.
Fyrir gjalddaga lánsins, 19. nóvember 2008, greiddi stefnda SPRON Verðbréfum hf. 2.719.734 kr. vegna lánsins. Eftir gjalddaga lánsins, 1. mars 2010, greiddi stefnda 4.250.281 kr. vegna lánsins.
Lánssamningur stefndu við SPRON Verðbréf hf. var framseldur til SPRON, kt. [...], 11. febrúar 2009, með öllum réttindum sem í honum greinir.
III
Samkvæmt stefnu málsins er krafa stefnanda byggð á ákvæðum framangreinds samnings milli aðila um fjölmyntareiknislán og á viðaukum við þann samning. Krafan sé reist á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi loforða og greiðslu skulda. Stefnda hafi lofað að greiða skuldina á gjalddaga samkvæmt samningnum og viðaukum við hann og skuldbundið sig til þess að hafa fjárhæð til ráðstöfunar á reikningi nr. 1150-15-553218 sem svaraði til uppgreiðslu lánanna á gjalddaga þeirra, það er, til greiðslu höfuðstóls og vaxta auk afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá í íslenskum krónum. Skuld samkvæmt lánssamningi nr. 10339 hafi verið í vanskilum frá 21. júlí 2009. Innheimtuaðgerðir hafi engan árangur borið og hafi málshöfðun því verið nauðsynleg.
Krafa stefnanda sundurliðist með eftirfarandi hætti:
Eftirstöðvar höfuðstóls í japönskum jenum 2.054.001
Samningsvextir í japönskum jenum 106.639
Skuld í japönskum jenum samtals: 2.160.640
Eftirstöðvar höfuðstóls í svissneskum frönkum 19.754,97
Samningsvextir í svissneskum frönkum 1.304,14
Skuld í svissneskum frönkum samtals: 21.059,11
Eftirstöðvar höfuðstóls í Bandaríkjadölum 16.464,85
Samningsvextir í Bandaríkjadölum 1.083,80
Skuld í Bandaríkjadölum samtals: 17.548,65
Lánssamningurinn beri með sér að miða hafi átt við sölugengi Sparisjóðabanka Íslands hf. tveimur virkum dögum fyrir gjalddaga. Tveimur virkum dögum fyrir gjalddaga lánsins, 17. júlí 2009, hafi skráð sölugengi svissnesks franka verið 119,185 kr., japansks jens verið 1,3717 kr. og Bandaríkjadals 128,47 kr. Krafa vegna lánsins hafi því verið 7.728.155 kr. á gjalddaga þess. Stefnda hafi hins vegar greitt 4.250.281 kr. eftir gjalddaga lánsins, 1. mars 2010. Stefnukrafa málsins sé því að fjárhæð 7.728.155 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga 21. júlí 2009 til greiðsludags, að frádreginni innborgun að fjárhæð 4.250.281 kr. sem hafi verið innt af hendi 1. mars 2010.
Í stefnu málsins segir um aðild stefnanda að samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 hafi verið stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., sem sé stefnandi þessa máls. Það sé í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., kt. [...]. Drómi hf. hafi tekið við öllum eignum félagsins og jafnframt öllum tryggingarréttindum, þar með öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengist kröfum SPRON um aðilaskipti að kröfuréttindum í eigu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. til Dróma hf. Drómi hf. sé því réttur aðili til sóknar í þessu máli.
Stefnandi kveðst byggja kröfu um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, kröfu um dráttarvexti á reglum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þóknun sinni. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili, sbr. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Samkvæmt greinargerð stefndu hóf hún viðskipti við SPRON Verðbréf hf. árið 2007 og hafði verið með lítilræði af hlutabréfum í stýringu hjá félaginu á vörslusafni nr. 404579. Að ábendingu félagsins hafi stefnda ákveðið að auka við það safn í júlí 2007. SPRON Verðbréf hf. hafi boðið stefndu að lána henni fyrir þeim bréfum sem hún hafi átt að kaupa, gegn því að hún undirritaði tryggingarbréf og veðsetti með þeim vörslusafn nr. 403579 í verðbréfaþjónustu SPRON Verðbréfa hf. Félagið hafi átt frumkvæði að því að lánið yrði bundið við erlendar myntir en stefnda hafi ekki sérstaklega leitað eftir því að lánið yrði með þeim hætti.
Í greinargerð stefndu er það áréttað að lánssamningur, sem stefnandi segi að hafi komist á og vísað sé til, sé óundirritaður af hálfu stefndu. Skjalið, sem beri yfirskriftina „Staðfesting á fjölmyntareikningsláni“, sé eingöngu undirritað af starfsmanni SPRON Verðbréfa hf. Stefnda hafi ekki átt aðkomu að þessu skjali. Stefnda hafi undirritað tvö skjöl vegna lánveitingarinnar, annars vegar beiðni um reiknislán í erlendum myntum og hins vegar yfirlýsingu sem fylgiskjal vegna lánsins. Bæði skjölin hafi verið dagsett 20. júlí 2007. Í þessum skjölum sé tíundað að lánið hafi verið jafnvirði 4.045.455 kr., 33% í Bandaríkjadölum, 33% í svissneskum frönkum og 34% í japönskum jenum. Stefnda hafi greitt 2.719.734 kr. af láninu 19. nóvember 2008 og 4.250.281 kr. 1. mars 2010. Samtals hafi stefnda því greitt 6.970.015 kr. vegna lánsins. Höfuðstólsfjárhæð lánsins hafi verið 4.045.455 kr. Í ljósi þessa og þess að stefnda hafi verið orðin eignalaus hafi hún óskað eftir því við stefnanda að eftirstöðvar lánsins yrðu felldar niður en þeirri beiðni hafi verið hafnað.
Stefnda byggir kröfu sína um sýknu á þeirri málsástæðu að skuldin, sem dómkrafan varði, byggist á láni sem sé í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu og brjóti þar af leiðandi í bága við VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Dómafordæmi Hæstaréttar Íslands varðandi mun á lánum sem teljist vera í erlendum myntum eða í íslenskum krónum með ólöglegu gengisviðmiði eigi ekki við. Það skjal sem stefnandi byggi rétt sinn á sé ekki samningur milli aðila. Skjalið sé ekki undirritað af hálfu stefndu og henni hafi ekki verið kynnt efni þess. Ekki verði annað séð en að skjalið hafi verið eins konar úrvinnslublað starfsmanns SPRON Verðbréfa hf. sem hafi verið upphaflegur lánveitandi. Skilmálar sem þar komi fram séu óskuldbindandi fyrir stefndu. Skilmálar í skjali séu ekki undirritaðir og þar af leiðandi ekki skrifað undir þær myntir og fjölda þeirra sem þar komi fram. Stefnda verði ekki bundin af öðru en komi fram í lánsumsókn og yfirlýsingu, dagsettum 20. júlí 2007. Í þeim skjölum komi fram að lánið hafi verið jafnvirði 4.045.445 íslenskra króna, í erlendum myntum í þeim hlutföllum sem að framan greini. Dómafordæmi séu skýr um að þetta teljist íslenskt lán með ólöglegri gengistryggingu.
Verði stefnda talin skuldbundin af þeim skilmálum sem komi fram í skjali sem ekki hafi verið kynnt henni eða hún látin skrifa undir, verði lánið samt ekki talið lán í erlendum myntum.
Myntir séu vissulega tilgreindar í meintu skuldaskjali og fjöldi þeirra. Í skjalinu sé jafnframt tilgreint kaupgengi viðkomandi mynta 18. júlí 2007. Það sé óumdeilt að lánið hafi verið greitt út 20. júlí 2007, þann sama dag og stefnda hafi óskað eftir láninu og nákvæmlega að þeirri fjárhæð sem óskað hafi verið eftir í íslenskum krónum, að frádregnu 1% lántökugjaldi og 5.000 kr. í skjalagerð. Það sé í samræmi við yfirlýsinguna, dagsetta 20. júlí 2007, þar sem fram komi að lánið hafi verið jafnvirði 4.045.455 kr., 33% í Bandaríkjadölum, 33% í svissneskum frönkum og 34% í japönskum jenum. Það sé jafnframt í samræmi við lánsumsóknina, dagsetta 20. júlí 2007. Samkvæmt henni sé sótt um lán að fjárhæð 4.045.455 kr. í framangreindum myntum og hlutföllum. Framangreint standist ekki hafi lánið verið í erlendum myntum. Þá hefði átt að greiða lánið út í íslenskum krónum miðað við gengisskráningu á útgreiðsludegi. Andvirði lánsins hafi því verið greitt út í íslenskum krónum, nákvæmlega að þeirri fjárhæð sem sótt hafi verið um, en ekki í samræmi við þær myntir sem hafi verið tilgreindar á meintu skuldaskjali og í samræmi við gengisskráningu á útgreiðsludegi lánsins. Stefnda hafi ekki undirritað staðfestinguna, hið meinta skuldaskjal, og henni hafi ekki verið kynnt efni þess, meðal annars um að miðað skyldi við gengisskráningu Sparisjóðabanka Íslands hf. tveimur dögum fyrir útborgun lánsins. Skjalið sé einhliða tilbúningur lánveitanda til þess að unnt hafi verið að greiða nákvæmlega þann fjölda íslenskra króna sem óskað hafi verið eftir.
Þeir dómar Hæstaréttar Íslands sem hafi fallið um að tiltekin lán hafi verið í erlendum myntum verði ekki lagðir til grundvallar niðurstöðu í þessu máli. Lánaskjöl í þeim málum hafi eingöngu tiltekið þær erlendu myntir sem lánaðar hafi verið og ekki hafi verið kveðið á um gengisskráningu þeirra mynta á einhverjum tilteknum degi. Hafi lánin verið greidd út í íslenskum krónum þá hafi verið miðað við gengi þeirra mynta á útgreiðsludegi. Útborgað lán í íslenskum krónum hafi þá ýmist getað verið hærra eða lægra en sú fjárhæð sem sótt hafi verið um. Það eitt að skrásetja gengi viðkomandi mynta í lánaskjal feli augljóslega í sér gengistryggingu sem brjóti í bága við VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi hafi ekki sýnt fram á nein gjaldeyrisviðskipti á bak við þessa lánveitingu. Það sé þekkt staðreynd að SPRON og dótturfélög þess, þar á meðal SPRON Verðbréf hf., hafi ekki greitt út lán í erlendum myntum inn á gjaldeyrisreikninga. Viðskiptavinum sparisjóðsins hafi enn fremur beinlínis verið hafnað um að fá „gjaldeyrislán“ greidd út með þeim hætti. Það staðfesti, svo ekki verði um villst, að lánveitingar SPRON og dótturfélaga í erlendum myntum hafi verið lán í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Stefnda fullyrði að það hafi verið hreinum tilviljunum háð hvort notast hafi verið við það lánaform hjá SPRON og dótturfélögum sem hafi tilgreint lánsfjárhæð að jafnvirði í íslenskum krónum eða sem hafi tilgreint myntir ásamt kaupgengi, óháð því hvenær lánið hafi verið greitt og hvert hafi verið gengi gjaldmiðlanna á útborgunardegi. Enginn efnislegur munur hafi verið á þessum formum. Íslenskar krónur hafi verið greiddar út nákvæmlega í samræmi við þá fjárhæð sem lánsumsóknin hafi hljóðað upp á.
Engin gagnályktun verði dregin af dómum Hæstaréttar Íslands um að lánsfjárhæðin verði að vera tilgreind að jafnvirði íslenskra króna til þess að lán teljist vera í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu. Atvik verði að meta heildstætt. Hafi ætlunin verið að lána erlendar myntir hefði einfaldlega átt að tilgreina þær myntir og fjölda þeirra. Stefndu þyki augljóst að henni hafi verið lánaðar íslenskar krónur með ólögmætu gengisviðmiði þar sem tilgreint hafi verið kaupgengi viðkomandi mynta í lánaskjali. Það hefði verið óþarfi væri verið að lána erlendar myntir. Lánið hefði þá verið greitt inn á gjaldeyrisreikning nema að fram kæmi ósk um að það yrði greitt út í íslenskum krónum. Þá væri lánið greitt út í íslenskum krónum í samræmi við gengisskráningu tiltekinna gjaldmiðla á útborgunardegi lánsins.
Stefnda leggur fram endurreikning á láni nr. 10339 sem var gerður 18. október 2012. Um forsendur og aðferðafræði endurreikningsins vísar stefnda til skjalsins sjálfs. Endurreikningurinn sé í samræmi við dóm Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Samkvæmt endurreikningi lánsins hafi stefnda ofgreitt verulega vegna lánsins og nemi inneign stefndu 2.693.993 kr., miðað við 18. október 2012. Stefnda áskilji sér rétt til þess að höfða sjálfstætt dómsmál til heimtu skuldarinnar.
Stefnda byggir varakröfu sína um lækkun dómkröfu á því að henni sé ekki skylt að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Í stefnu sé því haldið fram að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu. Þetta sé rangt. Stefnandi sé virðisaukaskattskyldur og falli ekki undir undanþágur frá skattskyldu samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé með opið virðisaukaskattsnúmer og þar að auki sé lögmaður stefnanda launamaður hjá stefnanda og vandséð að stefnanda verði gerður reikningur vegna málsins úr hendi hans.
Kröfu stefnanda um dráttarvexti frá 21. júlí 2009 er einnig mótmælt. Stefnandi hafi í raun viðurkennt með tómlæti og aðgerðarleysi þá miklu óvissu sem hafi verið um lögmæti lána sem séu bundin gengisviðmiði erlendra mynta. Stefnandi hafi ekki gert neinar tilraunir til þess að fá kröfu sína viðurkennda fyrr en með innheimtubréfi, dagsettu 9. júlí 2012 eða nærri þremur árum frá meintum gjalddaga lánsins. Komi það til að krafa stefnanda verði viðurkennd þá eigi eingöngu að dæma dráttarvexti frá útgáfu innheimtubréfs.
Stefnda vísar um lagarök til almennra reglna kröfu- og samningaréttar, til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Vegna kröfu um málskostnað vísar stefnda til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna. Stefnda vísar sérstaklega til þess að stefnandi hafi ekki viljað ljá máls á samningum eða sátt í málinu og ekki viljað endurreikna lánið til hagsbóta fyrir stefndu. Stefnandi hafi stefnt málinu fyrir dómstól að ófyrirsynju enda augljóst að krafa stefnanda byggist á láni í íslenskum krónum með ólögmætu gengisviðmiði sem beri að endurreikna í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar Íslands.
V
Stefnda þessa máls skrifaði undir beiðni um reiknislán í erlendum myntum til SPRON Verðbréfa hf., dagsetta 20. júlí 2007. Óumdeilt er að lánssamningur komst á milli stefndu og SPRON Verðbréfa hf. þegar félagið greiddi stefndu lán í samræmi við framangreinda beiðni. Stefnda hefur ekki mótmælt aðild stefnanda, Dróma hf., að þessu máli. Nokkur skjöl voru gefin út í tengslum við lánið og lýtur ágreiningur aðila þessa máls að því hvaða skilmálar gildi um lánveitinguna og hvort þeir skilmálar feli í sér að lánið sé í erlendum myntum eða í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.
Eins og að framan greinir undirritaði stefnda málsins beiðni um reiknislán í erlendum myntum til SPRON Verðbréfa hf., 20. júlí 2007, og fékk lán í samræmi við skilmála þeirrar beiðni. Sama dag undirritaði stefnda fylgiskjal við lánssamninginn og lýsti því yfir að hún gerði sér grein fyrir áhættu lántökunnar vegna gengisáhættu, sem lýsti sér meðal annars í því að höfuðstóll lánsins gæti hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt fælist vaxtaáhætta í breytilegum vaxtagrunni lánsins. Stefnandi hefur ekki mótmælt þessu skjali sem hluta af lánssamningi aðila. Enn fremur undirritaði starfsmaður SPRON Verðbréfa hf., þennan sama dag, staðfestingu á fjölmyntareiknisláni stefndu. Stefnda byggir sýknukröfu sína meðal annars á því að skilmálar þessarar staðfestingar, að því leyti sem þeir eru ekki í samræmi við skilmála beiðninnar um lánið, séu óskuldbindandi fyrir stefndu þar sem hún hafi ekki skrifað undir skjalið og henni hafi ekki verið kynnt efni þess. Í ljósi þess að staðfestingin er ekki undirrituð af stefndu verður stefnandi ekki, gegn andmælum stefndu, talinn hafa sýnt fram á að það sem fram komi í skjalinu sé hluti af skilmálum framangreinds lánssamnings. Dómurinn fellst þar af leiðandi á það með stefndu að hún verði ekki talin skuldbundin af þeim skilmálum sem koma fram í staðfestingu SPRON Verðbréfa hf. á láni stefndu. Enn fremur þykir staðfestingin ekki veita vísbendingu um samningsvilja stefndu.
Í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð málsins vísaði stefnandi, kröfu sinni til stuðnings, til þess sem kemur fram í málavaxtalýsingu í stefnu málsins, um að með beiðni stefndu um framlengingu lánsins, dagsettri 21. júlí 2008, hafi stefnda fallist á ákveðnar skilmálabreytingar á upphaflegum lánssamningi. Beiðnin er undirrituð af stefndu og starfsmanni SPRON Verðbréfa hf. og verða aðilar því báðir talir bundnir af þeim skilmálum sem í beiðninni er kveðið á um.
Kemur þá til skoðunar hvort lán samkvæmt lánssamningi aðila frá 20. júlí 2007, ásamt skilmálabreytingum 21. júlí 2008, sé í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Beiðni stefndu frá 20. júlí 2007 ber yfirskriftina „Beiðni um reiknislán í erlendum myntum“. Eins og að framan greinir skyldi lánið nema jafnvirði 4.045.455 íslenskra króna, 33% í Bandaríkjadölum, 33% í svissneskum frönkum og 34% í japönskum jenum. Lánið skyldi greiðast þann sama dag inn á tékkareikning nr. 1150-15-553218, sem er reikningur í íslenskum krónum. Stefnda óskaði þess jafnframt að lánið yrði skuldfært af sama reikningi í einu lagi, ásamt vöxtum og kostnaði, á gjalddaga lánsins, 20. júlí 2008. Í samningsskilmálum, samkvæmt beiðni stefndu, er lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum. Hlutföll erlendu myntanna eru tekin fram án þess að upphæð lánsins í þeim myntum komi fram. Lán, samkvæmt beiðninni, skyldi og var í reynd greitt út í íslenskum krónum, að nákvæmlega þeirri fjárhæð sem í beiðninni er tilgreind, að frádregnu 1% lántökugjaldi og 5.000 kr. í skjalagerð. Samkvæmt framlagðri kaupnótu bankans virðist lánið hafa verið reiknað út frá gengi erlendu myntanna, miðað við 18. júlí 2007, tveimur dögum áður en stefnda lagði fram beiðni um lánið. Kaupnótan ber með sér að stefnda hafi hins vegar ekki fengið erlendu myntirnar greiddar út. Þannig skipti fé í íslenskum krónum í reynd um hendur þegar SPRON Verðbréf hf. efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum. Er fallist á það með stefndu að hefði lánið verið í erlendum myntum en engu að síður greitt út í íslenskum krónum hefði verið miðað við gengi erlendu myntanna á útgreiðsludegi lánsins en ekki tveimur dögum áður en beiðni um lánið var lögð fram.
Í yfirlýsingu stefndu, undirritaðri sama dag, eru ekki eiginlegir samningsskilmálar heldur er vísað til framangreinds láns í erlendri mynt að jafnvirði 4.045.455 íslenskra króna, 33% í Bandaríkjadölum, 33% í svissneskum frönkum og 34% í japönskum jenum. Með yfirlýsingunni gekkst stefnda við því að gera sér grein fyrir því að lántakan væri áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum vegna gengisáhættu sem lýsi sér meðal annars í því að höfuðstóll lánsins, sem sé tekið í tilgreindri mynt, geti hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt felist vaxtaáhætta í því að lánið sé með breytilegum vaxtagrunni. Þrátt fyrir að orðalagið, um að lántakan sé áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, bendi til þess að tilvísað lán sé í erlendum myntum, verður yfirlýsingin að öðru leyti ekki skilin öðruvísi en svo að lánið sé í íslenskum krónum. Höfuðstóll lánsins hefði enda ekki átt að geta hækkað nema af því að hann var í íslenskum krónum, bundinn við gengi erlendra gjaldmiðla.
Þegar upphaflegur lánssamningur samningsaðila er virtur í heild sinni, sem og efndir SPRON Verðbréfa hf. á aðalskyldu sinni samkvæmt samningnum, verður ekki annað séð en að stefnda hafi tekið lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, þrátt fyrir að í framangreindum skjölum sé vísað til láns í erlendum myntum og að lánið hafi átt að bera LIBOR vexti, sem hvort tveggja bendir til þess að lánið sé í erlendum myntum.
Með staðfestri beiðni um framlengingu lánsins, dagsettri 21. júlí 2008, var gjalddagi lánsins færður fram um eitt ár, frá 20. júlí 2008 til 21. júlí 2009. Vextir skyldu greiðast af láninu bæði á upphaflegum og nýjum gjalddaga og vaxtakjörum lánsins var breytt þannig að vextir skyldu vera 12 mánaða LIBOR vextir að viðbættu 6,5% álagi. Í beiðninni kemur fram að lánið hafi í upphafi verið jafnvirði 4.045.455 íslenskra króna en að á degi undirritunar hafi staða erlendra mynta verið 3.000.477 japönsk jen, 29.239,00 svissneskir frankar og 24.903,92 Bandaríkjadalir. Framlengingin miðist við sömu myntir. Þá segir í beiðninni að stefnda staðfesti að hún hafi verið upplýst um og hafi fyllilega skilið að áhrif hugsanlegra gengissveiflna gætu orðið þau að heildarskuld í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstandi af hverju sinni geti orðið hærri en upphafleg lánsfjárhæð. Samkvæmt beiðninni skyldi sami reikningur og áður vera skuldfærður fyrir láninu, ásamt vöxtum og kostnaði. Af beiðninni er ljóst að skilmálabreytingar urðu varðandi gjalddaga og vexti af láninu. Ekki verður talið að framlenging lánsins feli í sér skilmálabreytingu varðandi gjaldmiðil lánsins enda hefði þá þurft að kveða skýrt á um það í beiðninni. Upphaflegur höfuðstóll lánsins í íslenskum krónum er tilgreindur og staða erlendra mynta á degi undirritunar beiðninnar. Hefði lánið verið í þessum tilteknu erlendu myntum hefði höfuðstóll lánsins í þeim myntum ekki breyst eins og beiðnin um framlengingu lánsins ber með sér. Enn fremur er kveðið á um það í beiðninni að sami reikningur skuli vera skuldfærður og áður og er þá vísað í tékkareikning stefndu í íslenskum krónum. Þá liggur fyrir að stefnda greiddi í raun af láninu í íslenskum krónum, 2.719.734 kr. 19. nóvember 2008 og 4.250.281 kr. 1. mars 2010.
Að virtum skilmálabreytingum lánsins 21. júlí 2008 og í ljósi þess að fé í íslenskum krónum skipti í reynd um hendur þegar stefnda efndi aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningnum verður lagt til grundvallar að vilji samningsaðila hafi áfram staðið til þess að lánið yrði og hafi í raun verið í íslenskum krónum.
Í ljósi alls framanritaðs verður litið svo á að skuldbindingar aðila samkvæmt umdeildum lánssamningi hafi verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Samkvæmt 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og dómafordæmum Hæstaréttar Íslands er lánabinding eða annars konar skuldbinding í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla óheimil. Slík verðtrygging er ólögmæt og ógild. Stefnandi verður því ekki talinn eiga frekari kröfur á hendur stefndu á grundvelli framangreinds lánssamnings og er stefnda sýknuð af kröfum stefnanda.
Með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til þess að greiða stefndu málskostnað og þykir hann hæfilega ákveðinn 600.000 kr. Við ákvörðun málskostnaðar var tekið tillit til þeirrar skyldu stefndu að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Dóminn kveður upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefnda, Jófríður Valgarðsdóttir, er sýkn af kröfum stefnanda, Dróma hf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu 600.000 kr. í málskostnað.