Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-1

Þyri Magnúsdóttir (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)
gegn
Fífumóa 5, húsfélagi (Pétur Már Jónsson)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjöleignarhús
  • Húsfélag
  • Sameign
  • Sönnun
  • Lögveð
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 3. janúar 2023 leitar Þyri Magnúsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. desember 2022 í máli nr. 721/2021: Þyri Magnúsdóttir gegn Fífumóa 5, húsfélagi. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Gagnaðili höfðaði mál þetta á hendur leyfisbeiðanda til greiðslu kröfu vegna framkvæmda sem gagnaðili stóð fyrir á fjöleignarhúsinu Fífumóa 5 í Reykjanesbæ og krafðist að auki staðfestingar lögveðs í fasteign leyfisbeiðanda til tryggingar kröfunni. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort ákvörðun gagnaðila 5. maí 2020 um að ráðast í fyrrgreindar framkvæmdir hafi átt að lúta málsmeðferð samkvæmt B-lið 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eða D-lið sömu málsgreinar. Leyfisbeiðandi byggir á því að ákvörðunin hafi átt að lúta málsmeðferð samkvæmt B-lið en ekki D-lið og hafi hún því ekki verið í samræmi við lög. Þá hafi ekki verið réttilega boðað til húsfundarins þar sem ákvörðunin hafi verið tekin.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu gagnaðila um greiðslu kröfunnar úr hendi leyfisbeiðanda og staðfestur lögveðréttur fyrir henni. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi yrði látin bera hallann af sönnunarskorti um að endurbæturnar sem ráðist var í hefðu gengið verulega lengra og verið verulega dýrari og umfangsmeiri en nauðsyn bar til. Af því leiddi að staðfesta bæri héraðsdóm um að ákvörðun gagnaðila 5. maí 2020 hefði fallið undir D-lið 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 en ekki B-lið sömu málsgreinar. Þá var tekið undir niðurstöðu héraðsdóms um að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að boðun húsfundarins, þar sem ákvörðunin var tekin, hefði verið í samræmi við ákvæði laga nr. 26/1994. Af því leiddi að unnt var að taka hana án tillits til fundarsóknar, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það geti skipt eigendur í fjöleignarhúsum miklu máli með hvaða hætti framkvæmdir á vegum húsfélags eru samþykktar með tilliti til umfangs þeirra og nauðsynjar. Jafnframt vísar hún til þess að fáir dómar Hæstaréttar liggja fyrir um samþykktir framkvæmda í húsfélögum. Þá reisir hún beiðnina á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks telur hún dóm Landsréttar bersýnilega rangan, meðal annars niðurstöðu um nauðsyn framkvæmdarinnar og sönnunarbyrði.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.